Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Samanburður á Kanada og Bandaríkjunum

  Áhugavert og gaman er að bera saman Kanada og Bandaríkin.  Margt er ólíkt með skyldum.  Löndin liggja saman.  Kanada deilir einungis landamærum með Bandaríkjunum.  Þau deila hinsvegar líka landamærum með Mexíkó.  Stöðugur vandræðagangur er við þau.  Kanadísku landamærin eru vandræðalaus.  

  Báðar þjóðirnar eru enskumælandi.  35 milljónir Bandaríkjamanna eru þó spænskumælandi.  Í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjum kveða lög á um að spænska og enska séu jafn rétthá.  35% Kanadamanna er frönskumælandi.  Þar af tala 21% enga ensku. 

  Kanada er næst stærsta land heims að flatarmáli (á eftir Rússlandi).  Bandaríkin eru í 3ja sæti.  Kanada er smáþjóð í samanburði við Bandaríkin þegar kemur að íbúafjölda:  37 milljónir á móti 325 milljónum.

poutine  Þjóðarréttur Bandaríkjamanna er skyndibiti af öllu tagi:  Pizza, hamborgari, kjúklingabitar og kleinuhringir.  Þjóðarréttur Kanada kallast poutine.  Uppistaða hans eru franskar kartöflur,  mjúkur skjannahvítur sósulegur ostur (ystingur) og þykk brún kjötsósa.  Með má vera smávegis grænmeti og smá kjöt.

  Svo skemmtilega vill til að kanadíski poutine-rétturinn er í bókstaflegri merkingu kenndur við Frakka, rétt eins og frönsku kartöflurnar sem hann byggir á. Sumir vilja  meina að franskar kartöflur séu upphaflega komnar frá Belgíu.  Rétt eins og belgískar vöfflur.  Þetta dettur ekki af himni ofan.

  Gjaldmiðill Bandaríkjanna og Kanada er dollar,  táknaður með $.  Bandaríski dollarinn er alþjóðleg mynt.  Ekki sá kanadíski.

  Í sunnanverðum Bandaríkjunum er veturinn hlýr og notalegur.  Veturinn í Kanada er svalur.

  Allir forsætisráðherrar Kanada eru og hafa verið bleiknefjar.  Bandaríkin hafa átt hvíta forseta, hörundsdökkan forseta og appelsínugulan forseta. 


Stam

  Í síðustu viku var ég í viðtali á Útvarpi Sögu,  hjá Pétri Gunnlaugssyni.  Nokkru síðar hringdi í mig kunningi.  Hann var þá búinn að hlusta á spjallið í tvígang og hafði gaman af.  Hinsvegar sagðist hann taka eftir því að stundum komi eins og hik á mig í miðri setningu,  líkt og ég finni ekki rétta orðið.

  Ég upplýsti hann um að ég stami.  Af og til neita talfærin að koma strax frá sér tilteknum orðum.  Á barnsaldri reyndi ég samt að koma orðinu frá mér.  Þá hjakkaði ég á upphafi orðsins,  eins og spólandi bíll.  Með aldrinum lærðist mér að heppilegri viðbrögð væru að þagna uns ég skynja að orðið sé laust.  Tekur aldrei lengri tíma en örfáar sekúndur. 

  Þetta hefur aldrei truflað mig.  Ég hugsa aldrei um þetta og tek yfirleitt ekki eftir þessu.


Þegar Birgitta snéri mig niður

  Nú standa öll spjót úti.  Þau beinast að rithöfundinum og tónlistarkonunni Birgittu Haukdal.  Hún hefur skrifað barnabækur um Láru.  Hún leggur sig fram um að breyta eða leiðrétta staðalímynd telpna.  Sem er gott mál. Ég ætla að gefa mínum barnabörnum þessar bækur. Nema hvað að í nýjustu bókinni kemur fyrir úrelt orð, hjúkrunarkona.  Um það snýst fjaðrafokið.  Hjúkrunarfræðingum þykir gróflega að sér vegið.  Þeir eru miður sín.

  Birgittu er eðlilega brugðið við hin hörðu viðbrögð.  Hún harmar mistökin og lofar að þetta verði lagað í næstu prentun. 

  Ég þekki ekki Birgittu.  Hef aldrei talað við hana né hitt hana.  Hinsvegar varð mér á að blogga um hana skömmu fyrir jólin 2007, fyrir 11 árum.  Hún kom fram í sjónvarpsþætti.  Með vanþroskuðum galgopahætti reyndi ég að vera fyndinn á hennar kostnað;  bullaði eitthvað um sjálfbrúnkukrem hennar. 

  Tveimur dögum síðar barst mér í hendur jólakort frá henni.  Þar afvopnaði hún mig til lífstíðar.  Steinrotaði mig með óvæntum viðbrögðum.  Síðan hef ég ekki og mun aldrei segja né skrifa neitt neikvætt um hana.  Það er mikið varið í manneskju sem tæklar ókurteisi í sinn garð svona glæsilega.  Í kortinu stóð: 

  "Elsku Jens Guð (teikning af hjarta). Ég óska þér gleðilegra jóla og vona að þú hafir það yndislegt. Þín Birgitta H.  P.s. Töfrakremið heitir Beautiful 4 ever (brosmerki)."

birgitta Haukdal

 

 

 


Uppfinningar sem breyta lífi þínu

  Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti.  Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn.  Hugmyndaflugið er ótakmarkað.  Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu.  Bara tímaspursmál um daga fremur en ár. 

sólarorkukveikjari

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé.  Margnota líftíðareign.  Fer vel í stóra vasa.

augndropatrekt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Augndropar eru til stöðugra vandræða.  Þeir hitta ekki á augað.  Lenda upp á enni eða niður á kinn.  Þar fer dýr dropi til spillist.  Augndropatrektin leysir málið.  Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu.  Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað. 

bananabox

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður;  orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum.  Í því ástandi fer hann illa í vasa.  Klessist og atar vasann.  Bananaboxið er lausnin.  Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins.  Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman;  man ekki stundinni lengur hvað er hvað.  Bananaboxið lítur út eins og banani.  Enginn ruglast á því.  

melónur sem staflast vel

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum.  Þær staflast illa;  kringlóttar og af öllum stærðum.  Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar.  Þær eru ræktaðar í kassa.  Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.  

vatnsmelóna 


Fóstureyðingar í Færeyjum

 

 

  Um þessar mundir eru fóstureyðingar fyrirferðamiklar í umræðunni hér - eða þungunarrof eins og fyrirbærið er einnig kallað.  Ástæða umræðunnar er sú að verið er að breyta lögum;  rýmka og lengja heimild til verknaðarins fram að 23. viku meðgöngu.

  Forvitnilegt er að bera saman á milli landa fjölda fóstureyðinga á ári.  Færeyingar skera sig rækilega frá öðrum norrænum löndum.  Í fyrra voru 19 fóstureyðingar þar.

  Berum saman hve margar fóstureyðingar eru á móti hverjum 1000 börnum sem fæðast.  Listinn er þannig:

Grænland 1030

Svíþjóð 325

Danmörk 264

Ísland 253

Noregur 224

Finnland 177

Færeyjar 29

  Þessi samanburður undirstrikar að Færeyjar eru mesta velsældarríki heims.  Annar listi sem styður það er hversu mörg börn hver kona eignast að meðaltali:

Finnland 1,5

Noregur 1,6

Ísland 1,7

Danmörk 1,75

Svíþjóð 1,8

Grænland 2,0

Færeyjar 2,5

 


Kvikmyndaumsögn

 - Titill:  Lof mér að falla

 - Leikstjóri:  Baldvin Z

 - Helstu leikendur:  Elín Sif Halldórsdóttir,  Eyrún Björk Jakobsdóttir,  Þorsteinn Bachmann,  Sólveig Arnarsdóttir... 

 - Handrit:  Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson

 - Einkunn:  *****

  15 ára Magnea kynnist 18 ára Stellu.  Magnea er góður námsmaður; á gott líf og bjarta framtíð.  Stella fiktar við eiturlyf.  Magnea laðast að henni og ævintýralegum lífsstíl hennar.  Fyrr en varir eru þær orðnar djammfélagar og Magnea farin að fikta við eiturlyf.  

  Framan af er mikið fjör,  hvort heldur sem er á skemmtistöðum eða í gleðskap í heimahúsum.  Fylgifiskurinn er skróp í skóla og farið á bakvið foreldra.  Hægt og bítandi harðnar ástandið og verður ofbeldisfyllra.  Samviskan hverfur, svikin verða grófari og ósvífnari.

  Myndin kemur þessu aðdáunar vel til skila.  Hún er afar trúverðug.  Enda byggð á sönnum atburðum.  Elín Sif og Eyrún Björk túlka Magneu og Stellu á sannfærandi hátt.  Ótrúlegt að þær séu ekki menntaðar í leiklist og að þetta sé frumraun þeirra á því sviði.  Hugsanlega skilaði reynsluleysi þeirra sér í raunverulegu sakleysislegu fasi í fyrri hluta myndarinnar.  

  Myndin flakkar til og frá í tíma.  Ég fattaði það ekki strax.  Kannski vegna þess að ég er vandræðalega ómannglöggur.  Einnig ruglaði mig pínulítið í ríminu að Magnea og Stella skiptu ítrekað um hárlit.  Þetta kom ekki að sök eftir að ég áttaði mig á þessu.  Frekar að þetta hjálpaði við að staðsetja þær á tímalínu.

  Að mestu er sneitt framhjá sýnilegu ofbeldi.  Óhugnaðurinn er meira gefinn í skyn eða nefndur í samtölum.  Þetta er mun áhrifaríkara en grafískar senur.

  Átakanlegt er að fylgjast með varnar- og ráðaleysi foreldranna.

  Músík leikur töluvert hlutverk.  Hún er í höndum Ólafs Arnalds.  Hann kann fagið.

  "Lof mér að falla" er áhrifaríkasta mynd íslensku kvikmyndasögunnar.  Frábær í alla staði.  Skilur mikið eftir sig.  Besta forvarnarmynd sem hægt er að sýna í grunnskólum. 

  "Vonarstræti" hefur verið velt úr sessi.  Það er ekki lengur besta íslenska kvikmyndin.     

  

lof mér að falla


Fékk sér sushi og missti hönd

  Suður-kóreskur gutti slapp í sushi á dögunum.  Skipti engum togum að í kjölfarið mynduðust stórar blöðrur á annarri hendi hans.  Þær voru fylltar blóði.  Læknar stungu á blöðrurnar og hleyptu blóðinu úr þeim.  Þá bættust við stór opin sár.  Þeim fjölgaði jafnt og þétt upp höndina án þess að hægt væri að stöðva sýkinguna.  Neyðarráðstöfun var að fjarlægja höndina af til að bjarga öðrum hluta líkamans.

  Hrár fiskur er varasamur.  Hrái fiskurinn í sushi inniheldur iðulega bakteríur og orma.  Það gerir heilsuhraustum ekki mein að ráði.  Í mesta lagi smávægileg magaóþægindi í einn eða tvo daga.  Verra er þegar um heilsulitla er að ræða.  Eins og í þessu tilfelli.  Maðurinn er með léleg nýru og sykursýki 2.  Þar að auki er hann á áttræðisaldri og hlustar á Bee Gees.   

bakteríusýking


Nýtt og öðruvísi súkkulaði

  Fátt er hollara og bragðbetra en súkkulaði.  Einkum svokallað suðusúkkulaði.  Fyrirferðarlítill orkubiti í fjallgöngur.  Jafnvel líka í eftirleit.  Verra er að á allra síðustu árum hafa verið blikur á lofti.  Kínverjar eru hægt og bítandi að uppgötva súkkulaði.  Þeir eru fimmti hluti jarðarbúa.  Þegar þeir uppgötva klósettpappír og eldhúsrúllur getum við kvatt regnskógana.

  Óttinn við að Kínverjar klári súkkulaðibirgðir heimsins byggist á smá misskilningi.  Ég ræddi þetta í gær við helsta súkkulaðifræðing Íslands.  Heimsendaspáin gengur út á óbreytta ræktun kakóbaunarinnar.  Hið rétta er að framboð á nýjum ræktarlöndum heldur í við vaxandi eftirspurn.  

  Ennþá skemmtilegra:  Tekist hefur að hanna frá grunni og rækta splunkunýja kakóbaun.  Súkkulaði unnið úr henni hefur ekkert með uppskrift á öðru súkkulaði að gera.  Þetta er alveg nýtt og sjálfstætt súkkulaði,  kallað Rúbin.  Bragðið er súkkulaðibragð en samt mjög "spes".  Til að skynja muninn er ráð að halda fyrir nefið á meðan súkkulaðinu er stungið upp í munn.  Síðan er beðið eftir því að súkkulaðið bráðni á tungunni.  Upplagt að ráða krossgátu eða Soduku á meðan.  Að því loknu er andað með nefinu á ný.  Heillandi og nýstárlegt bragð nýja súkkulaðisins kemur skemmtilega á óvart. 

  Tekið skal fram að ég sé ekki um auglýsingar fyrir Nóa, Síríus, Freyju,  Góu né neina aðra sælgætisframleiðslu.  Engin leynd er yfir því að ég vann í Freyju sumarið 1977.  1980-og-eitthvað hannaði ég einhverjar sælgætisumbúðir fyrir Freyju.  Kannski eru  umbúðirnar um rauðar lakkrísmöndlur enn í umferð?  Síðan hef ég ekki átt nein samskipti við Freyju.  Þar fyrir utan er ekkert sælgæti framleitt í Færeyjum.  Á dögunum hófst þar í fyrsta skipti í sögunni framleiðsla á ís.

chocolate

 

    


Ljótur, ljótari...

  Á dögunum henti það í Norður-Karólínu í Bandaríkjum Norður-Ameríku að maður nokkur lýsti öðrum sem afar ljótum.  Ummælin bárust til viðkomandi.  Hann tók þau nærri sér.  Sameiginlegir kunningjar þeirra hvöttu orðhákinn til að lægja öldur með því að biðjast afsökunar á ummælunum.  Sá svaraði:  "Ef einhver ætti að biðjast afsökunar þá er það sá ljóti fyrir að vera svona ljótur!"

ljótur


Fólk kann ekki handaþvott

  Bandaríska landbúnaðarráðuneytið stóð á dögunum fyrir vandaðri rannsókn á handaþvotti.  Fylgst var leynilega með 393 manns matreiða kalkúnaborgara og salat.  97% kokkanna fengu falleinkunn. Af helstu klúðrum var að þvo aðeins fremsta hluta fingra en ekki á milli þeirra.  Annað algengt klúður var að þvo ekki hendur eftir að hafa fiktað í nefi eða öðrum andlitshlutum né eftir að hafa hóstað eða hnerrað í lófa.  Þriðja algenga klúðrið var að skola puttana aðeins lauslega í alltof stutta stund.  Fjórða klúðrið er að sniðganga þumalinn.  Vegna sóðaskapar starfsmanna á veitingastöðum fá margir illt í magann eftir heimsókn þangað.

  Svona á að þvo hendur:

  - Fyrst skal bleyta hendurnar rækilega í vatni og nugga þær fram og til baka.  Klúður er að byrja á því að sápa þær.  Sápan dreifist aldrei nógu vel þannig.

  - Nugga sápu og vatni vel yfir báðar hendur.  Gæta sérlega vel að því að þvo á milli fingra.   

  -  Stóra málið er að gleyma ekki að sápa og þvo þumalinn. 

þvottur

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband