Jón Þorleifsson VII - Hrellir nýjan ráðherra

eðvarð sigurðssonJón ÞorleifsMagnús Kjartansson, ráðherra

  Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  tók upp á því á gamals aldri að setja saman vísur.  Iðulega voru það kveðjur til samferðamanna.   Oftar kaldar en hlýjar kveðjur.  Jón gætti þess vandlega að kveðjurnar kæmust til skila.  Það gerði hann með því að ganga heim til viðkomandi og afhenda honum nýútkomna bók eftir sig með vísunni.  Jón gekk flestra sinna ferða innan Reykjavíkur.  Jafnvel mjög langar leiðir.

  Verkalýðsforingjar voru lágt skrifaðir hjá Jóni - svo vægt sé til orða tekið.  Hann hafði í raun megnustu óbeit á þeim.  Taldi þá vera upp til hópa glæpamenn,  mútuþega,  lygara,  svikara og að auki hina verstu menn.

  Þannig orti Jón um Eðvarð Sigurðsson,  verkalýðsforingja og alþingismann:

  Eðvarð,  þú ert óþverri,

iðinn lygaslefberi,

  mannorðsspjallameistari,

magnað eiturkvikindi.

 

  Jón talaði ekki rósamál.  Hann sagði hlutina eins og þeir komu honum fyrir sjónir.  En hann átti til milda og sérkennilega takta í þeirri uppreisn sem hann var stöðugt í gegn mönnum og málefnum. 

  Meðal þeirra sem Jón fyrirleit var Magnús Kjartansson,  ritstjóri Þjóðviljans.   Þegar Magnús var settur í embætti iðnaðarmálaráðherra var Jón snöggur að panta viðtal hjá ráðherranum.  Honum var úthlutað viðtali fljótlega upp úr hádegi.  Jón mætti stundvíslega og var vísað til skrifstofu ráðherrans.  Magnús tók vel á móti Jóni,  bauð honum sæti og spurði hvað hægt væri að gera fyrir hann.

  Jón fékk sér sæti og sagði:  "Það er fullreynt að þú hvorki vilt né getur neitt fyrir mig gert."

  Er Jón sagði frá þessu síðar sagðist hann hafa lagt sig í líma við að vera afar kurteis í þetta skiptið.  Hann dauðlangaði að lesa Magnúsi pistilinn en hélt aftur af sér.

  Magnús spurði hvert erindið væri.  Jón sagði það ekki vera neitt.  Hann ætli bara að sitja þarna.  Hann hafi fullan rétt á því eins og hver annar Íslendingur.  Magnús spurði hvort hann eigi að kalla eftir kaffi handa honum.  Nei,  Jón sagðist ekki vera kominn til að sníkja kaffi eða annað.  Þvert á móti sagði hann Magnúsi að láta veru sína ekki trufla hann frá störfum.  "Sinntu þínum störfum.  Láttu mig ekki trufla þig.  Ég ætla bara að sitja hérna á meðan."

  Magnús fór að blaða í möppum og reyndi að leiða Jón hjá sér.  Jón sat beint fyrir framan hann og horfði stíft á hann.  Tvisvar eða þrisvar reyndi Magnús að hefja spjall við Jón.  Jón endurtók þá fyrri setningar.  "Sinntu þínum störfum.  Láttu mig ekki trufla þig."

  Jón sagði Magnús hafa orðið lítið úr verki.  Hann hafi gjóað til sín augum af og til og orðið taugaveiklaðri og aumari með hverjum klukkutíma sem leið.  Að lokum tilkynnti Magnús að vinnudegi sínum væri lokið.  Jón stóð þá upp,  opnaði dyrnar og kvaddi hátt og kurteislega til að aðrir heyrðu. 

  Rúsínan í pylsuendanum, að sögn Jóns,  var er hann gekk framhjá konunni í afgreisðlunni.  Hann kvaddi hana í leiðinni.  Hún leit á úr sitt og varð að orði:  "Þið hafið greinilega haft um margt að spjalla."

---------------------------------------

Fyrri frásagnir af Jóni Þorleifssyni: 

Afmælishóf Dagsbrúnar

Kastaði kveðju á forsætisráðherra
Illa leikinn af verkalýðsforingja
Verkalýðsforingi hrekktur 1. maí
Á kosningadag
Kveðju kastað á Guðrúnu Helgadóttur

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur þessi.

Mér finnst að það mætti taka meira upp orðið lygaslefberi - það er ansi flott

Grrr (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 22:55

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það vantar svona menn í dag

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2012 kl. 23:22

3 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  Jón Þorleifsson var sjaldgæft eintak af uppreisnarmanni sem fór óhefðbundnar leiðir og hinsvegar góður maður.  Ég skildi ekki og skil ekki ennþá hvað fyrir honum vakti með sumum af hans uppátækjum.  Hann var stundum með dýpri "pælingar" en svo að ég gæti ráðið í.  Hann varð mínum börnum einskonar "afi" sem og systurbörnum mínum.  Hans góðu hliðar sem barnagæla gengu stundum næstum því fram af manni.  Þrátt fyrir fátækt gat hann orðið ótrúlega stórtækur í jóla- og afmælisgjöfum.  Hann var ofur góður vinur vina sinna.  En jafnframt uppátækjasamur og fylginn sér gagnvart meintum óvinum.  

Jens Guð, 26.2.2012 kl. 23:28

4 Smámynd: Jens Guð

Ásthildur Cesil, svo sannarlega.

Jens Guð, 26.2.2012 kl. 23:30

5 identicon

Eitt helsta vandamál nútímans er að það er bannað að segja hlutina eins og þeir eru.. ef menn gera það þá eiga menn á hættu að borga háar sektir, sitja inni... 

DoctorE (IP-tala skráð) 27.2.2012 kl. 08:00

6 Smámynd: Jens Guð

  DoctorE,  svooo mikið rétt hjá þér.

Jens Guð, 27.2.2012 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.