Bjánapopp, hamfarapopp

  Fyrir nokkrum dögum skrifaði Jón Gnarr hnyttinn pistil um bjánapopp.  Þetta er nýyrði hans og samheiti yfir það sem hingað til hefur verið kallað hamfarapopp.  Orðið hamfarapopp varð til þegar Gunnar Jökull Hákonarson sendi frá sér sólóplötuna Hamfarir.  

  Pistill Jóns Gnarrs hefur vakið hörð viðbrögð.  Þó aðeins vegna þess að hann blandaði Gunnari Jökli í dæmið.  Fólk hefur - að mér vitanlega - ekki gert athugasemd við annað í hans pistli.

  Það sem fer fyrir brjóst á sumum er að Gunnar Jökull var í andlegu ójafnvægi þegar hann gerði plötuna Hamfarapopp.  Platan vitnar glöggt um það.  Mjög svo.  

  Vegna þess að Gunnar Jökull var áður besti trommuleikari heims þá vilja sumir fela plötuna eins og óhreinu börn Evu.  Með því að minnast á þessa plötu er verið að ráðast á veikan mann.  Það er ljótt.  Þessu á að sópa undir teppið.  Það má enginn vita af þessu.  Hann var nefnilega frábær trommuleikari.  Fólk má aðeins muna og vita það.

  Það er allt í lagi með hina bjánapopparana.  Þeir hafa hvort sem er alltaf verið bjánapopparar.  

  Vissulega er hugtakið bjánapopp óþægilega gildishlaðið.  Líka orðið hamfarapopp.  Í enskumælandi löndum er það kallað utangarðspopp.  Kannski má fara milliveg og kalla það utanvegarpopp.  Samt.  Plata Gunnars Jökuls heitir Hamfarir.  Hún er fullkomlega dæmigerð fyrir nævískt Casio-skemmtarapopp sem í almennu tali hefur síðan verið kallað hamfarapopp.

  Í stað þess að stinga höfðinu í sandinn,  fela óhreinu börn Evu og fara í afneitun er ráð að vekja athygli á og gera sem mest úr glímunni sem Gunnar Jökull tapaði við eiturlyfjadjöfulinn.  Þessi frábæri tónlistarmaður átti möguleika á heimsfrægð og var skær rokkstjarna í hæstu hæðum á Íslandi.  Klár náungi,  stórhuga,  kappsamur og allt það.  En varð skaðlegustu eiturlyfjum að bráð.  Hann fárveiktist og lést langt fyrir aldur fram.

  Sögu hans á að nota til fræðslu í forvörnum í grunnskólum um skaðsemi eiturlyfja.  Ekki beita þöggun. Þöggun og afneitun eru af hinu vonda.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ég á þessa plötu. Það er í takt við annað varðandi útgáfu Hamfara að Gunnar Jökull, sem var óumdeilanlega frábær trommari, spilar ekki á trommur á plötunni, heldur prógrammerar hann allan trommuleik á trommuheila.

Ég las líka grein Jóns Gnarr. Gleymir hann ekki að minnast á Árna Johnsen? Eða er hann kannski í kategoríu útaf fyrir sig? Við gætum kallað hana álfa-popp.

Wilhelm Emilsson, 5.5.2015 kl. 01:36

2 identicon

Jú, ég las þessi bjánaskrif Jóns Gnarr og las út úr þeim bullandi fordóma gagnvart geðsjúkum og samkynhnegðum. Ég minnist þess líka um leið hvernig Eiríkur Jónsson var réttilega gagnrýndur fyrir að draga fárveikan Gunnar Jökul í sjónvarpsþátt hjá sér, svona rétt eins og hann væri að hæðast að honum og veikindum hans. Gunnar Jökull var frábær trommuleikari og frumkvöðull í trommuleik á heimsvísu. Hægt er að finna frábæran trommuleik hans á plötu með ensku hljómsveitinni The Syn, sem varð svo að hinni heimsfrægu hljómsveit Yes, á plötum og diskum með Flowers, Trúbrot, Einari Vilberg og Geirmundi. Jökullinn starfaði við tónlist í alltof stuttan tíma, aðeins örfá ár, en hann er klárlega ógleymanlegur öllum sem voru svo heppnir að sjá hann spila.     

Stefán (IP-tala skráð) 5.5.2015 kl. 08:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég minnist með mikilli ánægju og þökk afreka tveggja trommara frá síðari hluta sjöunda áratugsins, Gunnars Jökuls og Péturs Östlunds. Minnist þess hvernig það var sem þátttakandi í stuðinu á sviðinu á þessum tíma að fylgjast með því þegar trommukjuðarnir átust upp svo að flísarnar úr þeim þyrluðust þegar þeir fóru "hamförum". 

Það er ekki ónýtt að eiga slikar minningar.  

Ómar Ragnarsson, 5.5.2015 kl. 09:18

4 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ég man líka eftir Gunnari sem kaupmanni á Laugarásvegi 1. Gott ef búðin hét bara ekki Laugaráskjör.

Sigurður I B Guðmundsson, 5.5.2015 kl. 10:40

5 identicon

Hann varar við læknadópi í þessu viðtali.  Segir fólk ekki átta sig á hættunni vegna þess að það taki inn lyf að læknisráði.  Þetta viðtal mun aldrei verða spilað í skólum.  Læknar eiga þann markað.  Maður nefnir ekki snöru í hengds manns húsi.    

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2015 kl. 11:30

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Mér finnst þetta viðtal á stöð 2 vont.  Eða sko spyrillinn.  Vont.

Hér er Gunnar að spila með Syn:  https://www.youtube.com/watch?v=jKbXFwjESXM

Varðandi lyfjanotkun, að þá heyrði ég einu sinni viðtal við Gunnar Þórðarson þar sem hann virðist staðfesta frásögn Gunnars Jökuls.

þ.e.a.s. að Gunnar Jökull var á móti hassreykingum og þegar hann hætti í Trúbrot var það látið heita ,,tónlistarlegur ágreiningur" en Gunnar Þórðar sagði, eitthvað á þá leið, að það hefði verið enginn ágreiningur nema að Gunnar Jökull vildi ekki reykja hass.

Þar spilaði inní að meðlimir Trúbrots voru hanteknir eftir að hafa keypt hass af varnaliðsmanni uppá Velli og það var stórfétt í blöðunum.  Eftir það voru þeir barasta hundsaðir um tíma af veitingastöðum og útvarpi.  Rétt eftir 1970.  Þetta þótti alveg svakalegt.  Keyptu hass af varnaliðsmanni.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.5.2015 kl. 17:48

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hérna er fréttin 1969.  Alveg makalaust.  Bara eins og í Sádíu:

,,Hljómsveitarmenn teknir fyrir eiturlyfjaneyzlu.

Varnarliðsmaður útvegabi marihúana og hassis.

Varnarliðsmaður á Keflavíkurflugvelli hefur viðurkennt að hafa í fórum sínum skammta af lyfjunum marihuana og hassis og að hafa gefið nokkrum íslendingum af þessum Iyfjum. - Í viðtali við lögreglustjórann á Keflavikurflugvelli sagðist hann halda að nokkrir þeirar Islendinga, sem viðriðnir eru málið, leiki í hljómsveitinni Trúbrot, en hljómsveitin fór í morgun áleiðis til Kaupmannahafnar ..."

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=237226&pageId=3230701&lang=is&q=Hlj%F3msveitarmenn%20teknir%20fyrir

Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.5.2015 kl. 18:54

8 Smámynd: Jens Guð

Wilhelm,  ég á líka plötuna.  Það kom á óvart að hann héldi sig bara við skemmtarann og trommuheilann þar.  

Árni Johnsen er álfavinur.  Ég veit samt ekki hvort að ástæða sé til að kalla tónlist hans álfapopp.

Jens Guð, 5.5.2015 kl. 21:45

9 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  ég las allt annað út úr pistli Jóns.  Mér skilst að Gunnar hafi sjálfur sóst eftir því að koma í viðtal hjá Eiríki til að auglýsa eftir styrkjum vegna plötuútgáfunnar.  Sem gekk upp.  Hann fékk einhvern styrk.  

Jens Guð, 5.5.2015 kl. 21:49

10 Smámynd: Jens Guð

Ómar,  takk fyrir skemmtilegt innlegg í umræðuna.

Jens Guð, 5.5.2015 kl. 21:50

11 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  mig rámar í þessa kjörbúð.  Svo hóf hann innflutning og moksölu á hulstri utan um VHS myndbandsspólur.  Hulstrin litu út uppi í hillu eins og innbundin bók.  Snobbað fólk fyllti bókahillur með þessum hulstrum.  Þá leit heimilið út í augum gesta eins og bókmenntasinnað.  

Jens Guð, 5.5.2015 kl. 21:55

12 Smámynd: Jens Guð

Elín,  þetta er áhugaverður flötur á umræðunni.  

Jens Guð, 5.5.2015 kl. 21:55

13 Smámynd: Jens Guð

Ómar Bjarki,  góðar þakkir fyrir þessar skemmtilegu áberndingar og fróðleiksmola. 

Jens Guð, 5.5.2015 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband