Plötuumsögn

  - Titill:  Plasteyjan

 - Flytjandi:  PS & Bjóla

 - Einkunn: ****

  PS & Bjóla er dúett Pjeturs Stefánssonar og Sigurðar Bjólu.  Báðir hafa starfað í fjölda hljómsveita.  Pjetur kannski þekktastur fyrir að leiða Big Nose Band og PS & co.  Sigurður eflaust kunnastur fyrir Spilverk þjóðanna og Stuðmenn.  Samstarf þeirra nær vel aftur til síðustu aldar.

  Báðir eru afbragðsgóðir lagahöfundar, skemmtilegir textasmiðir,  ljómandi góðir söngvarar og ágætir gítarleikarar.  Báðir hafa sent frá sér ódauðlega stórsmelli.  Pjetur með "Ung og rík" (oftast kallaður "Ung gröð og rík").  Sigurður með "Í bláum skugga". 

  Laglínur Sigurðar bera iðulega sterk höfundareinkenni.  Fyrir bragðið kvikna hugrenningar í átt til Stuðmanna - og reyndar Þursaflokksins líka - af og til þegar platan er spiluð.  Ekki síður vegna þess að Ragnhildur Gísladóttir tekur lagið í þremur söngvum.  Eflaust líka vegna þess að trommuleikari þessara hljómsveita,  Ásgeir Óskarsson, er ásláttaleikari plötunnar.

  Platan er fjölbreitt en hefur samt ákveðinn heildarsvip.  Blúskeimur hér,  sýra þar,  gítar spilaður afturábak, smá Pink Floyd og allskonar.  Titillagið rammar pakkann inn; epískur 11 mínútna ópus.  Hann hefst á ljúfum söng Sigurðar við kassagítarundirleik.  Fleiri hljóðfæri bætast hægt og bítandi við.  Takturinn harðnar.  Fyrr en varir er hressilegt rokk skollið á. Síðan mýkist það og breytist í rólegan sýrðan spuna.  Svo er upphafskaflinn endurtekinn.  Lokahlutinn er mildur einleikur Ástu Kristínar Pjetursdóttur á víólu.

  Mér heyrist sem Pjetur og Sigurður semji lögin í sameiningu.  Þeir skipta söngi bróðurlega á milli sín.  Söngstíll þeirra er áþekkur ef frá er talið að Pjetur gefur stundum í og afgreiðir þróttmikinn öskursöngstíl. 

  Textarnir hljóma eins og þeir séu ortir í sameiningu.  Stíllinn er sá sami út í gegn.  Að auki kallast þeir á.  Til að mynda kemur plasteyjan fyrir í nokkrum þeirra.  Þeir leika sér lipurlega með tungumálið og tilvísanir.  Ágætt dæmi er upphaf textans "Mammonshaf" sem snýr snyrtilega út úr upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls:  "Í upphafi var plastið og plastið var hjá guði."

  Platan er frekar seintekin.  Hún vex þeim mun meira við hverja hlustun.  Vex mjög.  Hún hljómar eins og unnin í afslöppuðum rólegheitum.  Allt yfirvegað og úthugsað - án þess að kæfa geislandi spilagleði.  Aðrir hljóðfæraleikarar en nefndir eru hér fyrir ofan eru í landsliðinu:  Tryggvi Hubner, Bjöggi Gísla og Sigurgeir Sigmundsson (gítar),  Haraldur Þorsteins (bassi), Hjörleifur Valsson (fiðla),  Jens Hansson (sax), Pétur Hjaltested (hljómborð), Sigfús Örn Óttarsson (trommur) og Sigurður Sigurðsson (munnharpa).

  Uppáhaldslög:  "Fléttur" (algjör negla!) og "Nóttin".

  Pjetur er hámenntaður og virtur myndlistamaður.  Umslagið ber þess vitni.

plasteyjanPjétur StefánssonSigurður Bjóla 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég myndi umsvifalaust eignast þennan grip ef þetta væri sólóplata Sigurðar Bjólu. Gítarleikaratríóið er hrein snilld, en umslagið finnst mér með eindæmum ljótt.

Stefán (IP-tala skráð) 23.2.2019 kl. 20:32

2 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  ég er ósammála með umslagið.  Mýr þykir það vera "töff".

Jens Guð, 25.2.2019 kl. 18:12

3 identicon

Einn smágalli; sá sem heldur að "Í upphafi var plastið og plastið var hjá Guði" sé snúningur úr upphafsorðun Biflíunnar fer skítvillur vegar. Og maður sem er upp alinn andspænis Hólum og kominn af hinni biflíufróðu Fjólu á Hrafnhóli á að vita betur.

Tobbi (IP-tala skráð) 3.3.2019 kl. 11:58

4 Smámynd: Jens Guð

Tobbi,  takk fyrir ábendinguna.  Jóhannesarguðspjall fór á tímabundið flakk í hausnum á mér.

Jens Guð, 3.3.2019 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband