Hvað er skallapopp?

 desert

  Það er ekki öllum gefið að henda reiður á þeim nöfnum sem notuð eru til að skilgreina króka og kima músíkur.  Meðal annars hefur hent að fólk skilgreini skallapopp ranglega sem eitthvað er snýr að aldri eða útliti poppara.  Þess vegna er brýn ástæða til að árétta hvað skallapopp er.  Til að átta sig betur á því er ágætt að þekkja forsöguna:

  Á seinni hluta sjöunda áratugarins og fyrri hluta þess áttunda var mikil gerjun og gróska í rokkmúsík.  Ekki síður á Íslandi en í nágrannalöndunum.  Hljómsveitir eins og Trúbrot,  Náttúra,  Óðmenn og margar fleiri lögðu metnað sinn í að semja og spila framsækna og nýstárlega tónlist.  Sköpunargleðinni var gefinn laus taumur og hljómsveitirnar fundu sinn eigin hljóm.

  Er leið að miðjum áttunda áratugnum fjaraði framsækna bylgjan út á Íslandi.  Í staðinn urðu áberandi þau vinnubrögð að popparar fóru að kráka (covera) gamla bandaríska popp- og sveitaslagara og gefa út með aðkeyptum bulltextum á íslensku.  Við flutninginn var stuðst við upprunalegu útsetningu laganna. 

  Þarna var um steingelda iðnaðarframleiðslu að ræða,  án andagiftrar og gróanda.  Það er þetta fyrirbæri sem farið var að kalla skallapopp.  Holdgerfingar skallapoppsins urðu HLH og Brimkló,  samanber þjóðsönginn Rækjureggí sem Utangarðsmenn og fleiri sungu:

  Ég er löggiltur hálfviti,

hlusta á HLH og Brimkló.

  Ég er löggiltur öryrki,

læt hafa mig að fífli...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 13.9.2008 kl. 15:07

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hef alltaf talið að skallapopp væri músík sem höfðaði til miðaldrandi karla sem eru komnir með ansi há kollvik 

Óskar Þorkelsson, 13.9.2008 kl. 15:13

3 Smámynd: Jens Guð

  Ómar,  takk fyrir innlitið.

  Óskar,  skallapopp höfðar sennilega helst til kalla sem eru komnir yfir miðjan aldur.  Það er að segja þegar margir eru komnir á þann stað í lífinu að þeir eru hættir að "pæla" í nýrri músík. 

  Ég á við að unglingsstrákar sækja í harða og áleitna músík á borð við þungarokk og hipp-hopp.  Þeir eru stöðugt að uppgötva nýjar hljómsveitir og nýjan hljóðheim.  Þeir fá stöðugt ábendingar um eitthvað nýtt frá skólafélögunum. 

  Það helst oft í hendur að eftir að skólagöngu lýkur stofna menn fjölskyldu og fara í vinnu þar sem flest annað er til umræðu en nýjar hljómsveitir.  Um svipað leyti hætta menn að lesa reglulega nýjustu rokkblöðin.  Líkamsstarfsemin hægir jafnframt á sér. 

  Þeir sem áður sátu aðgerðarlausir undir nýjum rokkplötum fara að nota músík sem bakgrunn á meðan þeir ryksuga,  skúra og skipta á krökkunum.

  Áður en karlarnir vita af eru þeir dottnir ofan í skallapoppið.  Og taka ekki einu sinni eftir breytingunum sjálfir.  Þetta gerist svo hægt og bítandi.

Jens Guð, 13.9.2008 kl. 15:38

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Góð lýsing hjá þér, Jens... og líklega nokkuð sönn! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.9.2008 kl. 16:12

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skeinir krakka með skalla,
hann skúrar íbúðina alla,
það gamla grey,
gerir það aldrei,
en kellan fer upp á kalla.

Þorsteinn Briem, 13.9.2008 kl. 16:19

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrir Svaninn:

Skeinir krakka með skalla,
hann skúrar þar íbúð alla,
það gamla grey,
gerir það aldrei,
en kellan fer upp á kalla.

Þorsteinn Briem, 13.9.2008 kl. 16:27

7 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég ólst upp við þessa tónlist og söng hástöfum Mamma grét og þetta allt. Það var hálf skrýtið að uppgötva frumútgáfurnar seinna og bera saman textana, þetta voru yfirleitt beinar þýðingar.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 13.9.2008 kl. 17:04

8 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Guðinn skapaði orðið skallapoppari svo lýsingin hlýtur að vera sönn...

Siggi Lee Lewis, 13.9.2008 kl. 17:26

9 Smámynd: Gulli litli

Er ekki bara lélegt cover popp það sem kalla má skallapopp? Nú er sá sem orti þessar línur sem þú vitnar í nauðasköllóttur..

Gulli litli, 13.9.2008 kl. 17:47

10 identicon

HLH og Brimkló þetta voru snildar bönd og léttu lífið fyrir mörgum ,,,,,,og mamma grét,,,,,,,,,,

Res (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 18:10

11 identicon

Tíðkuðust þessi "cover"-vinnubrögð ekki löngu fyrir tíð HLH og Brimkló?!  Eru ekki margar af helstu perlum íslenskrar dægurtónlistar frá árunum eftir seinni heimstyrjöld fram til tíma frjáls útvarps einmitt tökulög með skemmtilega halló íslenskum textum?

En Bó Hall hlýtur að teljast tökulagakóngurinn og brautryðjandi fyrir hina steingeldu Idol-kynslóð.

...désú (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 18:11

12 Smámynd: Jens Guð

  Lára Hanna,  lýsingin er sönn.  Þér er óhætt að trúa því.

  Steini,  takk fyrir limruna.

  Margrét Anna,  ansi hefur þú fengið vont uppeldi. 

  Siggi,  hárrétt hjá þér.

  Gulli,  orðið skallapopp lýsir músíkinni en ekki útliti flytjandans.  Músík sem er ófrjó niðursuðuvara og sneydd allri sköpun.  Að uppistöðu eru þetta krákur (cover lög) en einnig stolnar eða stældar útjaskaðar klisjur. 

  Res,  þú ert nú meiri grínarinn.

  ...désú,  tónlistarmenn hafa krákað (coverað) lög frá örófi alda.  Það er ekki málið heldur hvernig menn nálgast viðfangsefnið.  Sumir reyna aðeins að herma eftir öðrum án minnstu tilraunar til að blása lífi í flutninginn með því að gefa eitthvað af sjálfum sér í flutninginn.  Flestir Idol-söngvarar eru þessu marki brenndir - fyrst þú nefnir Idolið.   

Jens Guð, 13.9.2008 kl. 22:02

13 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Sko Hr Jens þér fer bara best að fjalla bara alls ekkert um tónlist.....þetta er eins og ég færi að fjalla um bíla....ég hef ekkert vit á þeim....

Margt gott kom út úr þessu skallapoppsböndum....Skallapopp nafninu sem þú hefur montað þig milljón sinnum á.

Þú leyfir þér ansi oft að gera lítið úr þeim tónlistarmönnum sem höfðu vit og umfram allt getu til að lifa á tónlist.

Vissulega komu stundum vondir hlutir hjá Skallapoppurunum en líka alveg magnaðir....

Eins og ég benti á um daginn í bloggi hjá mér eftir Verslunarmannahelgina þá hljóta lög sem fá mörg þúsund Íslendinga til að syngja saman hátt og snjallt að vera góð....Hvort sem það eru lögin Ég er á leiðinni...Bíddu Pabbi...Stál og hnífur.....Nína eða Riddari götunnar.

Skallapopparar spila lög eftir aðra...hmmmmm eru Lay Low og siggi já eða Hjálmar ekki skallapopparar...eða KK...svona væri hægt að halda áfram lengi.....

LIfðu heill og fáðu þér brúnkukrem.

Einar Bragi Bragason., 13.9.2008 kl. 22:22

14 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Nei Sællllll auðvitað áttu að halda áfram að skrifa um tónlist....annars hef ég ekkert til að hlæja af....

Einar Bragi Bragason., 13.9.2008 kl. 22:27

15 Smámynd: Jens Guð

  Einar Bragi,  þú ert farinn að sýna framfarir:  Viðurkennir að "vissulega komu stundum vondir hlutir hjá skallapoppurum..."  Þetta er í áttina.

  Örfáar leiðréttingar til að þoka hlutunum betur í áttina:  Ég hef ekki montað mig af skallapoppnafninu milljónum sinnum.  Aðrir hafa verið duglegri að tengja mig við þetta nafn en ég.  Ég hef útskýrt tilurð þess þegar fjölmiðlar hafa gengið á mig með það.  En ég hef forðast að tengja mig við nafnið að fyrra bragði. 

  Ég er höfundur nokkurra annarra hugtaka sem oft bera á góma í músíkumfjöllun.  Jafnframt hef ég liðsinnt orðabókum um útlistun á nokkrum hugtökum til viðbótar.  En ég legg ekki í vana minn að monta mig af svoleiðis.  Af nógu öðru merkara get ég montað mig fyrir því.

  Það er ágætt út af fyrir sig að popparar hafi vit og getu til að lifa á músík.  Engu að síður er mis mikil reisn yfir því hvaða leiðir þeir velja til þess.  Það er sjálfsagt að hæla því sem menn gera með reisn af metnaði þegar útkoman er góð.  Það er sömuleiðis engin ástæða til að þegja um það þegar metnaðarleysi hrekur menn af leið.

  Músík á það sameiginleg með til að mynda bókmenntum og myndlist að verkin eru lögð fyrir almenning.  Almenningur hefur allan rétt til að tjá sig um þessi verk,  máta þau við önnur verk og benda á það sem er gott og vont - að mati hvers og eins.

  Út af fyrir sig er enginn mælikvarði á getu þess sem gagnrýnir músík,  bókmenntir eða myndlist hvort hann sjálfur er með gráður í tónlistarnámi,  myndlist eða er bókmenntafræðingur.  Það er jafnframt enginn mælikvarði á hæfileika tónlistarmanns til að semja eða flytja músík hvort hann er með gráður að baki á því sviði.

  Leoncie er með 8.  stig í píanóleik.  Bítlarnir voru ekki með neinn slíkan bakgrunn.

  Lög eru ekki endilega góð eða vond eftir því hvort fólk syngur þau í fjöldasöng.  Mörg góð lög eru ekki söngræn fyrir almenning.  Önnur eru "instrumental" og þess vegna aldrei sungin.  Nei,  annars.  Þetta er smá útúrsnúningur.

  Ég hef oft stjórnað fjöldasöng og það er lítið mál að fá fólk til að syngja "allan andskotann" þegar stemmningin er þannig.  Þar fyrir utan er lag eitt og sér (það er að segja laglínan) ekki skallapopp.  Það er flutningurinn sem ræður öllu um það. 

  Enginn verður skallapoppari fyrir það eitt að kráka (covera) lög.  Hvorki Lay Low,  Hjálmar né Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Aftur á móti hefur það verið einkennandi fyrir skallapoppara að fara þá leið.    

Jens Guð, 13.9.2008 kl. 23:59

16 Smámynd: Gulli litli

Af hverju er Einar svona sár?

Gulli litli, 14.9.2008 kl. 00:12

17 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Jens það fór megnið af orðum þínum í eitthvað annað sem er gott...

Hver er td munurinn á Mamma grét(fyrst að einhver minnist á það og á Lay Low með Gamla standarda td eftir Dolly Parton(tek það fram ,mér finnst L.Low fín en þessar útgáfur af gömlum lögum með henni heilla mig svo sem ekkert neitt).....Eivör(tek það fram að ég dýrka hana) gaf út Ég veit þú kemur í kvöld til mín(Ekki besta útgáfa sem ég hef heyrt)..

Björk var með gamlan standard á einni af sínum plötum.

Helgi BJörns er með eina nýja plötu fulla af gömlum slögurum að mér heyrist.

HLH og Brimkló gerðu fullt af fínni músik og örugglega líka einhver lög sem sumum finnst ekki góð....sama má segja um Megas...Bubba...Hjálma.....Einar Braga......Spilverkið ofl.

Annars var þetta bara tímabil sem gekk yfir önur lönd líka, ef þið skoðið Skandinavíu á þessum tíma var einnig verið að gera cover útgáfur af gömlum lögum þar,

Gulli litli...ég er ekkert sár......en er með skalla

Ps annars finnst mér persónulega að ef að menn geta ekki flutt cover lög jafn vel og orginalinn eða þá breytt útsetningum mikið eigi þeir að sleppa því.

Held Jens að þér sé bara illa við nokkra poppara af einhverjum persónulegum ástæðum og þess vegna fái þeir það óþvegið hjá þér.

Einar Bragi Bragason., 14.9.2008 kl. 00:47

18 Smámynd: Jens Guð

  Einar Bragi,  mér þykir afskaplega gaman að eiga orðastað við þig.  Þú ert fylginn þér og alveg þokkalega skemmtilega rökfastur.  Það er að segja gefur ekki eftir fyrr en í fulla hnefana og kemur með umræðuhæf dæmi.

  Þú heldur líka áfram að sýna framfarir.  Dæmi:  HLH og Brimkló gerðu einhver lög sem sumum finnst ekki góð.

  Áður en ég fer yfir málflutning þinn lið fyrir lið vil ég árétta - til að það sé á hreinu:  Mér er ekki illa við neinn poppara.  Kominn vel á sextugsaldurinn er ég kominn yfir það tímabil.  Á pönkárunum um og upp úr 1980 var ég í stellingum pönkarans sem lagði fæð á skallapoppara.  Ég var ókurteis og dónalegur á þeim árum í garð margra.  Þannig var stemmningin.   Ég vísa bara í Utangarðsmenn,  Q4U,  Purrkinn og Sjálfsfróun til að heimfæra það upp á fleiri.

  Ég var að selja pönkplötur,  stóð fyrir ótal hljómleikum og gaf út plötur.  Það var gjá þarna á milli sem einkenndist af óvild.  Það skal fúslega játað að þetta var öfgakennt tímabil.  Stór orð féllu á báða bóga. 

  Ég ætla að það sé að mestu búið að jafna sig.  Félagslegur þroski okkar allra sem áttum hlut að máli hefur vaxið í þá átt að flestir hafa gert upp á þann hátt að skilningi á tíðarandunum er kennt um og sverð hafa verið slíðruð.  Svo dæmi sé nefnt þá eru Bubbi og Bjöggi Halldórs ágætir vinir í dag.  Við Bjöggi erum sömuleiðis nokkuð sáttir í dag og sonur hans,  Krummi,  er góður vinur minn. 

  Það er líka mikilvægt að greina ádeilu á það sem popparar hafa gert og eru að gera frá persónunni.  Ég tel mig vera á þeirri hillu í dag að persónugera ekki það sem mér þykir vera vond músík.  Þá á ég við að mér er ekki illa við þá sem eru að gera vonda músík.  Engu að síður áskil ég mér rétt til að gagnrýna og opinbera skoðun á því sem viðkomandi eru að gera.  Mér þykir Veðurguðirnir vera ömurlega hljómsveit.  Líka Á móti sól.  Hugsanlega og áreiðanlega eru Ingó og Magni frábærir náungar.  Músík þeirra er jafn mikill viðbjóður fyrir því.  Það hefur ekkert með þá sem einstaklinga að gera. 

  Varðandi krákur (cover lög):  Það er ekkert neikvætt við að kráka lög.  Þú nefnir Lay Low og Eivör.  Ég er aðdáandi þeirra beggja.  En ég met betur frumsamin lög þeirra.  Það voru mér vonbrigði að Lay Low krákaði Dolly Parton og  Ég veit þú kemur  með Eivör er eiginlega þannig að færeyska álfadrottning er að taka niður fyrir sig.  Ég elska þær báðar fyrir því. 

Jens Guð, 14.9.2008 kl. 01:56

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fólk hefur að sjálfsögðu misjafnan músíksmekk en gæði og fjöldaframleiðsla eða vinsældir fara ekki endilega saman. IKEA-vörur eru ekki vinsælar vegna þess að gæði þeirra séu meiri en annarra vara.

Kryddpíurnar voru gríðarlega vinsælar hjá ákveðnum hópi en þær höfðuðu meðal annars til stórs hóps barna og unglinga sem kaupa mikið af diskum og sækja mikið tónleika.

Til að verða góður tónlistarmaður þarf bæði talent og stanslausa þjálfun í mörg ár. En allur tónlistarflutningur á diskum og hljómleikum gengur ekki endilega út á að spila sem "besta" tónlist í þessum skilningi, heldur að ná fram ákveðnum hughrifum. Og þar má nefna pönkið, sem er hvorki merkilegri eða ómerkilegri tónlistarstefna en til dæmis djass.

Þorsteinn Briem, 14.9.2008 kl. 13:14

20 identicon

  Mikið ýkt er þessi Einar Bragi Bragason svekktur.  Hann hlýtur að eiga ættingja í einhverri skallapopphljómsveitinni.

Jóhannes (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband