Saga breska pönksins - IX

  Í næstu færslu hér fyrir neðan er sagt frá pönkveislu ársins sem fer fram á Grand Rokk annað kvöld.  Það er við hæfi að skerpa á stemmningunni með því að hita upp og halda hér áfram að rifja upp sögu bresku pönkbylgjunnar.

  Í maí 1977 sendi bandaríska hljómsveitin The Ramones frá sér fyrstu smáskífuna í Bretlandi um leið og hún hóf hljómleikaferð í Bretlandi.  A-hliðar lag smáskífunnar var  Sheena is a Punk Rocker.   Það er á myndbandinu hér fyrir ofan.  12.000 eintök voru pressuð á 12" og fyrstu 1000 eintökunum fylgdi T-bolur í kaupauka.  Sheena is a Punk Rocker náði 22.  sæti breska vinsældalistans.

  Nokkrum dögum síðar komu samdægurs út smáskífan  God Save the Queen  með The Sex Pistols og  Remote Control  með The Clash.  Pönkið var þess vegna verulega plássfrekt og áberandi síðustu vikuna í maí.

  Sá hængur var á að plöturisinn CBS gaf  Remote Control  út í óþökk The Clash.  Liðsmenn The Clash töldu lagið gefa kolranga mynd af hljómsveitinni.  Þetta væri popplag sem hafði það hlutverk að létta og brjóta upp stemmninguna á stóru plötunni.  Strákarnir urðu svo æfir yfir uppátæki CBS að þeir hvöttu aðdáendur sína til að kaupa ekki plötuna,  útvarpsmenn til að spila ekki lagið og blaðamenn til að fjalla ekki um smáskífuna.  Sjálfir fóru liðsmenn The Clash í verkfall sem stóð í marga mánuði.  Meira um það síðar.  Flestir sem The Clash ákölluðu hlýddu kallinu.  Remote Control  seldist ekki neitt.  God Save the Queen  fór aftur á móti í 2.  sæti breska vinsældalistans.  Þar með var pönkið komið á toppinn. 

    

  Lagið á B-hlið  Remote Control  var  London´s Burning.

Fyrri færslur um bresku pönkbylgjuna 

Fyrsta breska pönklagið:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/743999

Næst - II:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/744949

III: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/746033/

IV: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/747161

V:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/750862/

VI:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/753972/

VII:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/791397

VIII:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/820922


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Sömdu Clash ekki lagið 'Complete Control' um reynslu sína af plötufyrirtækinu í sambandi við 'Remote Control'? :

They said release remote control
But we didnt want it on the label
They said, fly to amsterdam
The people laughed but the press went mad

Ooh ooh ooh someones really smart
Ooh ooh ooh complete control, thats a laugh

On the last tour my mates couldnt get in
Id open up the back door but theyd get run out again
At every hotel we was met by the law
Come for the party - come to make sure!

Ooh ooh ooh have we done something wrong?
Ooh ooh ooh complete control, even over this song

 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 3.4.2009 kl. 13:14

2 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Ef þú skrifar um verð á íslenskum kjötbollum þá færðu milli 70 og 80 komment en ef þú skrifar um einhverja músík sem er löngu dauð og enginn vill kannnast við að hafa reykt við þá færðu 1 komment.

Þetta segir okkur bara um hvað þú átt að blogga Jens minn.

S. Lúther Gestsson, 3.4.2009 kl. 15:51

3 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

SLúther: Ég er gjörsamlega ósammála þessu. Mér þykir Jens skemmtilegastur þegar hann lumar á fróðleiksmolum um tónlist. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 3.4.2009 kl. 18:37

4 identicon

Sammála J.Einari Val...Jensinn er bestur þegar hann skrifar um tónlist.

Bubbi J. (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 20:32

5 Smámynd: Jens Guð

  Einar Loki,  ég vildi ekki hafa færsluna of langa eða flókna.  En ágætt að bæta því við hér í athugasemdakerfinu að samstarf The Clash og og stjórnenda CBS einkenndist allan tímann af stöðugum árekstrum og illindum.  Joe Strummer var týpa sem sætti sig ekki við yfirgang og greip til róttækra aðgerða þegar honum þótti sér misboðið. 

  Það er alvanalegt í útgáfubransanum að plötufyrirtæki hafi lítið sem ekkert samráð við tónlistarmenninna um hvaða lög eru gefin út á smáskífum.  Flestir sætta sig við það og telja það jafnvel bera vitni um hvað plötufyrirtækið hafi mikinn áhuga á sér. 

  Pönkið varð að hluta uppreisn gegn plöturisunum með þessari "Gerðu það sjálfur" (DIY) hugmyndafræði.  The Clash stóðu hinsvegar í uppreisninni gegn plöturisunum samningsbundnir hjá CBS. 

  Það þurfti sterk bein í nefinu fyrir hljómsveit sem var nýkomin til leiks að fara í stríð við útgefandann og beita verkfallsvopni.  Stimpla sjálfa sig út af markaðnum í marga mánuði einmitt á þeim tíma sem ástæða var til að hamra járnið á meðan það var heitt,  koma sér fyrir á markaðnum og taka af fullum krafti þátt í pönkbyltingunni.

  Inn í deiluna blandaðist að CBS neitaði að gefa fyrstu plötu The Clash út í Bandaríkjunum.  Enn í dag er fyrsta plata The Clash söluhæsta innflutta platan til Bandaríkjanna.  300.000 eintök voru seld af henni til Bandaríkjanna í póstkröfu til einstaklinga og lítilla plötubúða.

  Tveimur árum síðar var fyrsta plata The Clash gefin út í Bandaríkjunum sem önnur plata The Clash.  Ritstjóri rokktímarits í Seatle í Bandaríkjunum sagði mér fyrir nokkrum árum að þetta hafi gert Bandaríkjamenn nokkuð ringlaða.  Þeir fengu aðra plötu The Clash í hendur sem fyrstu plötu The Clash en fyrstu plötuna sem aðra plötu hljómsveitarinnar.  Eins og við sem þekkjum plötur The Clash vitum þróaðist hljómsveitin mjög mikið frá fyrstu til annarrar plötu.

  Þetta fyrsta stríð The Clash við CBS náði lendingu haustið 1977 þegar CBS féllst á að gefa út smáskífuna  Complete Control  þar sem The Clash deila á vinnubrögð CBS.  Eðlilega gerði CBS ekkert fyrir þá smáskífu.  Auglýsti hana lítið sem ekkert,  stóð sig viljandi slælega við að dreifa henni og svo framvegis. 

Jens Guð, 3.4.2009 kl. 22:24

6 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  mér þykir fátt skemmtilegra en lesa músíkblöð og músíkbækur.  Er bara mjög upptekinn af músík.  Ekki síst þykir mér gaman að rifja upp gömlu góðu pönkárin.  Á því tímabili var ég virkastur í músíkvafstri.  Setti upp pönkplötubúðina Stuð og gekk síðar til liðs við plötufyrirtækið Gramm.  Stóð fyrir ótal pönkhljómleikum,  gaf út plötur,  gaf út pönkblöð og skrifaði Poppbókina.

  Ég hef minni áhuga á kjötfarsbollum.  En ég hef alltaf gaman af þegar umræða er lífleg.  Um hvað sem er.  Hinsvegar tók ég þá ákvörðun um áramótin að afgreiða bloggið mitt á lágu nótunum.  Ég vil frekar leyfa síðustu færslum um pönkveisluna á Grand Rokk og sögu bresku pönkbyltingarinnar standa lengur sem síðustu bloggfærslur en láta þær hverfa á bakvið nýrri færslur um eitthvað sem "trekkir að" fleiri innlit og meiri umræðu. 

Jens Guð, 3.4.2009 kl. 22:36

7 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Ég á sex pistols lp ennþá en Ian Dury var minn maður

Einar Bragi Bragason., 4.4.2009 kl. 02:22

8 Smámynd: doddý

ælovjújens kv d

doddý, 4.4.2009 kl. 16:30

9 Smámynd: Jens Guð

  Einar Bragi,  sú Lp er áeiðanlega besta platan í plötuskápnum þínum.  Hehehe!  Blessuð sé minning Ian Dury.

Jens Guð, 4.4.2009 kl. 16:45

10 Smámynd: Jens Guð

  Doddý,  knús á þig.

Jens Guð, 4.4.2009 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.