Áríðandi skilaboð - þetta varðar ykkur öll!

  Eftirfarandi pistill er skrifaður af Finnboga Marinóssyni,  ljósmyndara,  og birtur hér með hans leyfi.  Þessi pistill á brýnt erindi til almennings og rík ástæða er til að vekja athygli á málinu og ná að kæfa bullið í Gunnari Guðmundssyni áður en þetta fer í algjört rugl.

finnbogiM

Fréttablaðinu þann 5. október birtist „frétt“ á blaðsíðu 2 undir fyrirsögninni „Sala á tónlist dregst saman um helming“. Sem áhugamaður og neytandi tónlistar vakti þessi fyrirsögn áhuga minn. Lestur greinarinnar setti mig hljóðan og í henni er alvarlegt mál einfaldað á svo ótrúlegan hátt að það má ekki hjá leggjast að svara.

 

Greinin byrjar á því að bera saman sölutölur á milli ára sem sýna glögglega að sala á tónlist hefur dregist saman. Þetta er staðreynd sem er ekki bundin víð Ísland.  Svo er talað um að á því ágæta ári 2002 hafi 26% landsmanna verið ADSL tengdir en 2008 sé hlutfalliðkomið í 94%.  Þá er vitnað í Gunnar Guðmundsson framkvæmdasjóra flytjanda og hjómplötuframleiðanda að ólöglegt niðurhal sé gríðarlegt vandamál. Hann segir: við sjáum það bara í sölutölum  að það er erlend tónlist sem verður fyrir barðinu á ólögleglu niðurhali.  Svo talar hann um að tónlistarfólk verði að fá greitt fyrir vinnu sína og það þurfi að fá umræðu í gang um þessi mál (er það kannski markmið fréttarinnar ?). Gunnar bætir ennfremur við að: „Þetta háir öllum ungum tónlistarmönnum og allri þróun á tónlist og hann talar um að það þurfi að fá stjórnvöld að borðinu.

Þá er vitnað í Björn Sigurðsson framkvæmdastjóra Senu. Íslensk tónlist sækir í sig veðrið en ... erlend sala að falla gríðarlega mikið og ástæðan fyrir því er þjófnaður. Niðurlag fréttarinnar er svo „Það er því miður þannig að nú eru heilu kynslóðirnar sem kunna ekki að nálgast tónlist nema hún sé ólögleg.

 

Vissulega er niðurhal vandamál. En að gera niðurhal eitt ábyrgt fyrir samdrætti á sölu á erlendi tónlist er fráleitt og að draga fram tölur um hlutfall þeirra sem voru og eru ADSL-tengdir er spaugilegt.

Samdráttur í sölu á erlendri tónlist er margþættur. Fyrst má nefna að Gæði tónlistinnar eru ekki þau sömu og þau voru og má það rekja til græðgi útgefenda sem eltast við skyndagróða frekar en að gefa tónlisarmönnum tíma til að þróast og finna sinn tón líkt og finna má dæmi um í poppsögunni.  Þar má nefna Bruce Springsteen til sögunnar. Fyrstu 2 plöturnar voru ekki upp á marga fiska og það var ekki fyrr en á þriðju plötu sem hann springur út og blómstrar. Plötur hans hafa síðan haldið áfram að seljast löngu eftir að þær koma fyrst út. Þetta kallast á fagmáli að búa til back catalog en fæstir af þeim tónlistarmönnum sem hljómplötuútgefendur hafa verið að fóstra undanfarna tvo áratugi geta státað af því að hafa byggt upp back catalogsem er einhvers virði.

Í öðru lagi má nefna verð. Útgefendur hafa skotið sig í fótinn við háls að verðleggja tónlist úr öllum takti við þann kostnað sem hlýst af framleiðslu og þetta er búið að leggja þung lóð á þá vogarskál sem hefur fælt fólk frá því að kaupa tónlist. Þá hafa þeir sem flytja inn tónlist sýnt ótrúlega takta í verðlagingu.  Ég man eftir því að hafa spurst fyrir um það hjáSenu hvers vegna plata sem var seld í útgáfulandinu sem mid price væri seld á verði tvöfaldrar plötu á Íslandi og svarið sem ég fékk var á þá veru að það væri verið að hífa upp álagninguna.

Það hefur ekki hjálpað sölu á erlendri tónlist að vöruúrval hennar hefur verið mjög takmarkað. Þegar neytandinn gengur inn í plötubúð og finnur ekki það sem hann leitar að gerist eitt af tvennu: Hann finnur vöruna annarstaðar, í netverslun, eða þá hleður henni niður ólöglega.

Í þriðja lagi skal nefna netverslun. Er hún með í þessum innfluttingstölum? Líklega ekki fyrst það er ekki minnst á hana í fréttinni.  En ég þori að hengja mig upp á að hún hefur aukist a.m.k. til samræmis við fall í sölutölum hjá Senu. Það má líka í framhaldi af þessu spyrja hver sé hin raunverulegi innflytjandi á tónlist á Íslandi? Ég ætla að fullyrða að það sé ekki hljómplötuinnflytjendur eins og þeir kalla sig heldur almenningur. Fólk sem ekki reynir lengur að finna það sem það hefur áhuga á í Íslenskri plötubúð vegna þess að þar er því er ekki sinnt.

Ásamt lélegu vöruúrvali þá hefur það ekki hjálpað hljómplötusölu að boðið hefur verið upp á lélega þjónustu í Íslenskum plötubúðum og þeir sem hafa heimsótt plötubúiðir reglulega geta allir sagt sögur af illa upplýstu starfsfólki sem hefur átt það eitt sem haldreipi að finnist það ekki í tölvunni finnist það alls ekki. Svo ekki sé talað um flokkun, en í mörg ár fylgdist ég með ,,Stranglers(rokk)plötunni The ,,Gospel According to the Men in Black í Gospel rekkanum. Engin furða að sá sem leitaði að henni finndi hana ekki og ekki seldist hún þarna. Þrátt fyrir nokkar ábendingar fékk platan að sitja þarna óáreitt fyrir áhugasömu og vel upplýstu starfsfólki.

 

Það er búið að vera ákaflega niðurdrepandi að vera neytandi á erlenda tónlist á Íslandi undanfarna tvo áratugi. Þrátt fyrir að vera búinn að vera ADSL tengdur frá 2001 þá hefur undirritaður aldrei hlaðið niður tónlist. Hann hefur spilað tónlist sem var hlaðið niður ólöglega en í öllum tilfellum hefur óþvolinmæði ráðið för tónlistin var ekki komin til landsins á löglegu formi en spennan fyrir því að heyra var öllu öðru sterkara.

Þá veltir fréttin því upp að Íslensk tónlist seljist vel. Ég held reyndar að hún hafi aldrei selst eins vel enda er rekinn mikill áróður fyrir henni í fjölmiðlum með slagorðum á borð við fyrst og fremst í Íslenskri tónlist. Er hér ekki verið að stilla þeirri íslensku upp á móti þeirri erlendu, í stað þess að sjá þetta sem einn pott?

 

Það er rétt að tónlistarmenn þurfi að fá greitt fyrir sína vinnu rétt eins og allir aðrir. En mig langar til að benda á að á undaförnum árum hafa ungir tónlistarmenn í síauknum mæli komið fram á sjónarsviðið og sagt að núna sé ekkert mál að taka upp tónlist heima hjá sér og dreifa henni svo á netinu. Er þetta sami hópurinn og vill svo fá greitt fyrir sína vinnu eða eru til tveir eða fleiri hópar?

Í fjórða lagi má nefna umbúðir. Þær selja. Því eigulegri sem hljómdiskurinn er því líklegri er hann til þess að selja. Þetta hafa erlendu plötuútgáfunar áttið sig á og við erum hægt og rólega að sjá þá finna þolmörkin hjá kaupendum, en nýjasta endurútgáfan á David Bowie plötunni ,,Station to Station slær öll fyrri met. Þar er platan endurútgefin sem 3 LP plötur 4 geisladiskar og 2 DVD diskar ásamt ýmsu öðru dóti. Mér er ekki ljóst hvaða stefna ræður ríkjum hjá þeim sem flytja inn erlenda tónlist til Íslands en ég veit fyrir víst að þeir hafa ekkert gert til að benda á og kynna allar þær fjömörgu og flottu útgáfur sem hafa verið að koma út undanfarin ár og ég veit að ættu erindi til fólks sem hreinlega veit ekki af þeim.

Gunnar kallaði eftir aðkomu ríkisins í fréttinni . Í því sambandi langar mig til aðrifja upp herferð sem var í gangi um miðjan áttunda áratuginn - Home Taping Is Killing Music. Þessi herferð kallaði eftir því að fólk hætti að taka upp tónlist á kassettur (man einhver eftir þeim?) enda væri slíkt að kæfa smásölu. Þetta hafði þau áhrif hér að ríkið kom að borðinu með því að leggja skatt á kassettur, og í dag óskrifaða geisladiska, sem rennur hvert? Jú, til hljómplötuframleiðenda. Þegar við kaupum óskrifaðan geisladisk í dag sem við síðan notum til að setja ljósmyndirnar okkar á, borgum við skatt til hljómplötuframleiðenda! Hvers vegna? Er Gunnar að kalla eftir einhverju slíku?

Að lokum. Hvers vegna ætti niðurhal að koma frekar niður á tónlist en t.d. bíómyndum. Þegar myndbandið ruddi sér braut þá var því spáð að kvikmyndahús ættu skammt eftir ólifað. Hvað hefur gerst? Í dag er okkur seld sama bíómyndin 4 sinnum. Fyrst kemur hún í bíó svo á leiguna og svo til sölu á mynddisk og að lokum getum við keypt tölvuleikinn. Hljómplötuiðnaðurinn skaut sig líklega til ólífs þegar hann fór í vörn gegn sinni eigin sköpun; geisladisknum og stafrænum upplýsingum. Í stað þess að leyfa sölu á einstaka lagi og eða heilu plötunum í verslunum hefur markaðurinn gert það sem honum finnst auðveldara valið aðra leið.

 

P.s.

 

Gunnar og Birgir ættu kannski að kynna sér þetta umhverfi allt betur og til að hjálpa vil ég benda þeim á ágætan lestur á bókinni Last Shop Standing eftir Graham Jones.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Waage

Ég er sammála ýmsu sem þú segir Jens. Útgefendur verða að átta sig á því að þeir búa við nýjan veruleika og hlutverk þeirra er allt annað í dag en það var. Útgáfa og dreifing hefur bara færst yfir á netið og er sú þróun ekkert að fara að breytast neitt. Þetta endar allt á netinu og með réttu segi ég bara.

Innflutningur, tja skítt með hann og skítt með plötusölu almennt. Það sem menn sitja uppi með eru flutningslaun (STEF gjöld) og verða menn bara að láta sér þau nægja. Hitt dæmið er búið.

Torrent er ekki ólögleg tækni og er hægt að nota hana í löglegum jafnt sem ólöglegum tilgangi. Ég veit ekki eftir hverju þessi nafni minn er að slægjast frá stjórnvöldum í þessu efni. Það er ekki hægt að loka á torrent við sæstrenginn hérna nema að hægt sé að fá tæknina dæmda ólöglega og það er borin von fyrir útgefendur að fá í gegn. Þá má allt eins reyna að fá lögbann á kúbein af því að stundum eru þau notuð við innbrot. Verkfærið er ekki ólöglegt.

Jafnvel þó að það fengist í gegn þá kemur bara annað sambærilegt í staðinn. Menn verða því bara að hætta þessu væli, tekjulyndin af sölu og innflutningi er bara hverfandi, þannig er það. Þótt hingað til hafi menn látið það vera í töluverðum mæli að setja Íslenska tónlist á netið af virðingu við landa sína, þá á það nú eftir að breytast, sérstaklega ef fólk er eitthvað að hlusta á þá tónlist.

Þó verð ég að gefa soldið frat í eina fullyrðinguna hjá þér Jens;  „Gæði“ tónlistinnar eru ekki þau sömu og þau voru og má það rekja til „græðgi“ útgefenda sem eltast við skyndagróða frekar en að gefa tónlisarmönnum tíma til að þróast og finna sinn „tón“ líkt og finna má dæmi um í poppsögunni.

Þessu verð ég að vera þér alveg ósammála með og vona að allir þessir backcatalogar fari bráðum að láta undan síga. Ég veit ekki hve oft í viðbót ég þoli að heyra í Janis Joplin eða Eric Clapton án þess að hreinlega æla yfir ömmu mína enda miklu betra stöff á ferðinni í dag og miklu meira af því.

eh hemm, bara mín skoðun félagi:) 

Gunnar Waage, 14.10.2010 kl. 03:28

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hér er ein vinsæl leið í noregi..

http://wimp.no/site/web3/view.ftl?page=index

áskrift að tónlist, borgar vissa upphæð á mánuði og þú færð alla þá tónlist sem þig listir. 

Óskar Þorkelsson, 14.10.2010 kl. 04:22

3 Smámynd: Pétur Kristinsson

Er ekki skýringin á því af hverju innlenda tónlistin selst og sú erlenda síður frekar einföld. Íslenska tónlistin er metnaðarfull, handspiluð að stórum hluta, tekur síður tillit til tískubylgjanna sem MTV mótar. Erlenda mainstream tónlistin er samin af lagahöfundum sem láta síðan aðra "listamenn" flytja hana sem hafa öðlast frægð fyrir eitthvað sem jafnvel tengist tónlist lítið t.d. fallegt útlit, danshæfileika eða jafnvel fyrir að sýna nægilega mikið hold í tónlistarmyndböndum. Ég sæki ekki mikið í að kaupa LP plötu með Britney eða einhverjum þess háttar "listamönnum".

 Sem dæmi um hversu mikil vandræði markaðurinn úti er kominn í er að endurútgáfa á gamalli stones plötu fór beint á toppinn í UK og ef að snillingar eins og Dylan eða Neil Young gefa út nýja LP plötu að þá fer hún oftast mjög ofarlega á lista. Þarna er ég ekki að segja að þeir eigi það ekki skilið heldur að ásóknin í þessa markaðssettu "listamenn" er ekki svo mikil þegar kemur að plötusölu. Kannski er kapitalisminn vandamálið í plötufyrirtækjunum í dag. Of mikið kannski af Einar Bárðarsonum þar? Vantar kannski menn inn í stóru fyrirtækin í stíl við þá sem uppgötvuðu listamenn eins og Bítlana, stones og the doors. Þá voru menn minna að spá í danshæfileika, myndbönd og útlit listamanna. Sæuð þið Mick Jagger fyrir ykkur að syngja og dansa eitthvað errr og bé lag með fullt af dönsurum. Væri ekki alveg þetta nútíma sex item.

Pétur Kristinsson, 14.10.2010 kl. 08:51

4 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ein spurning, hvernig eru sölutölur reiknaðar? Hver geisladiskur inniheldur 10-15 lög, þegar ég kaupi geisladisk, hafa þá 10-15 lög verið seld? Á móti get ég keypt 1 lag á t.d. tonlist.is. Hefur þá salan til mín ekki minnkað margfallt.

 Annars nenni ég þessu ekki lengur, fer bara á grooveshark.com og hlusta á all streymandi eins og mér sýnist.  Svo er ég búinn að fyrir löngu að afrita alla geisladiskana mína í tölvuna og símann. 

 Ég vona að STEF haldi áfram að skjóta sig í fæturna... 

Jón Ragnarsson, 14.10.2010 kl. 20:40

5 Smámynd: Hannes

Ég hef ekki keypt geisladisk í mörf ár á Íslandi en hef á sama tíma keypt að minnsta kosti 20diska á netinu. 80% af þeim tölvuleikjum sem ég kaupi eru keyptir á Amazon eða Ebay.

Hannes, 14.10.2010 kl. 22:19

6 identicon

Finnst engum furðulegt hvað lögin eru dýr á tonlist.is?

Ég kíkti inn á síðuna áðan og sá það að 1stk lag kostar 249kr, á meðaldisk eru 8-12 lög ca. Þá er maður að borga sömu upphæð og maður hefði gert ef maður hefði keypt diskinn. En framleiðandinn sparar allan kostnað eins og diskinn sjálfan og hulstrið.

Anna Sjöfn (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 23:17

7 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ég næ mér helst í tónlist á netinu vegna þess að ég er með nokkuð eklektískan smekk. Þegar ég kaupi geisladiska er það yfirleitt út á tvö-þrjú lög, þar sem það eru afar fáir tónlistarmenn sem ég fíla í heild - meira að segja harðasti Bowie- eða Bítlaaðdáandi hlýtur að geta viðurkennt að sum lög viðkomandi eru leiðinlegri en önnur. Hvers vegna ætti ég að þurfa að borga fyrir þessi 10 lög sem ég nenni ekki að hlusta á?

Eins og greinarhöfundur kemur inn á hefur "ólögleg afritun" lengi verið talin drepa iðnaðinn. Það hefur sýnt sig aftur og aftur að  það er ekki rétt - kassettur komu ekki í veg fyrir plötuútgáfu, skrifanlegir diskar munu ekki gera það heldur. Svo lengi sem menn nenna að semja og spila tónlist munu einhverjir kaupa hana. Það er kannske spurning um að hljómplötuútgefendur og (sumir) tónlistarmenn fari að átta sig á möguleikum P2P sharing og nýta sér þá í stað þess að halda í úrelta (að ekki sé minnst á umhverfisáhrif plastdiskaframleiðslu og -dreifingar) tækni.

Persónulega er ég afar hrifin af möguleikunum sem P2P sharing hefur opnað; Ég get náð í gömul obskjúr, erlend lög sem er ómögulegt að nálgast a plötu eða diski (nema kannske með löngum ebay-yfirsetum), ég get náð í þetta eina lag með Inga sem ég fíla, ég get kynnt mér 'smærri' listamenn sem hafa ekki fengið samning hjá stóru fyrirtækjunum vegna þess að einhver PR-gaur hefur ákveðið að folkmetall sé "út" þetta haustið. 

Sem dæmi um tónlistarmenn sem ég hefði líklega ekki kynnst almennilega án P2P, Grooveshark og YouTube má nefna Tim Minchin, Böðvar Guðmundsson, Clash, They Might Be Giants, Billy Bragg, Blues Traveller, Bo Burnham, D.A.D., Elvis Costello, Flaming Lips, Zappa, Green Day, Tesco Value, Jonathan Coulton, Lady Gaga, The National, Pogues, RHCP, Roger McGuinn, Rolf Harris, Scaffold, Smiths, Vandals, Vandaveer... núna, þegar ég fer yfir iPodinn minn sé ég að meirihluti tónlistarinnar er með tónlistarmönnum sem ég kynntist (a.m.k. "almennilega") á netinu. Án "frírrar" tónlistar væri hljóðrænt líf mitt mun einhæfara...

 ...en þetta er víst það sem gerist þegar tónlistarmenn (ég segi ekki útgefendur, því þeir hafa alltaf verið svona) ákveða að peningar skipti meira máli en listræn tjáning eða það að koma skilaboðum til hlustenda.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 15.10.2010 kl. 00:15

8 identicon

Dáltið merkilegt að heiðarlegur Hjaltdælingur ljær rúm fyrir réttlætingu á hreinum þjófnaði!

Tobbi (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 01:09

9 Smámynd: Gunnar Waage

Ó ég tek undir með Tinnu!

Gunnar Waage, 15.10.2010 kl. 02:21

10 identicon

Svo kynnist fólk fullt af tónlist með niðurhali, sem að það síðar kaupir

Gsss (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 07:39

11 identicon

Frábær grein hjá Finnboga.

En það virðist sem svo að margir séu að misskilja hana, hún er ekki að boða réttmæti ólöglegs niðurhals, langt því frá - heldur að tónlistariðnaðurinn hefur brugðist kolrangt við. Í stað þess að nýta sér kosti netsins og vinna með tónlistaráhugamönnum, þannig að fólk geti áfram keypt sér tónlist og stuðlað þannig að eðlilegri þróun viðskipta með tónlist. Nei, þeir hafa frá upphafi verið í hreinu stríði við neytendur, reynt að finna leiðir til að klekkja á þeim og almennt gert það erfitt fyrir fólk eins og mig sem borgar fyrir tónlist á netinu og vill ekki hlaða niður ólöglega. Við vitum alveg hvað það þýðir ef þú lýsir yfir stríði, þá skapar þú þér óvini sem verjast með kjafti og klóm.

Eins og Anna Sjöfn benti á er verðlagning á tonlist.is alveg út í hött, verðið ætti að vera uþb. einn þriðji af verðinu á geisladisk, miðað við þá útreikninga sem ameríski tónlistariðnaðurinn gaf út fyrir nokkrum árum.

Auðjón (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 08:39

12 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar,  þessi pistill er reyndar ekki skrifaður af mér heldur Finnboga Marínóssyni (sjá texta fyrir ofan mynd).  En ég birti þennan pistil hans hér vegna þess að ég er sammála erindinu í megin atriðum.  Ég set þó kannski - eins og þú - spurningu við fullyrðinguna um að gæði hafi verið meiri í gamla daga en í dag.  Kannski er ástæða til að taka sér blogg undir vangaveltur um það.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 18:49

13 Smámynd: Jens Guð

  Óskar,  takk fyrir þessa ábendingu.  Ég veit um marga sem eru áskrifendur að svona dæmum út um allan heim.  Sjálfur er ég hinsvegar svo gamaldags að hlusta bara á músík af plötum.  Ég verð að hafa umbúðirnar í höndunum með tilheyrandi upplýsingum sem ég les á meðan platan rúllar.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 18:51

14 Smámynd: Jens Guð

  Pétur,  þetta er góður punktur sem þú nefnir varðandi endurútgáfur á gamlar plötur gömlu jálkanna.  Það hlýtur að segja eitthvað um músíkiðnaðinn í dag að þessar plötur fljúgi í 1. sæti og slái þannig nýliðunum ref fyrir rass.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 18:56

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Það hlýtur að segja eitthvað um músíkiðnaðinn í dag að þessar plötur fljúgi í 1. sæti og slái þannig nýliðunum ref fyrir rass.

það segir mér bara eitt Jens, okkar kynslóð nær sér ekki í tónlist á netinu nema í takmörkuðu upplagi á meðan sú kynslóð sem ætti að vera að kaupa plötur downlódar allan daginn ;)

Óskar Þorkelsson, 16.10.2010 kl. 19:08

16 Smámynd: Jens Guð

  Jón,  ég veit ekki hvernig sölutölur eru reiknaðar.  Það er næsta víst að erfitt er að komast að nákvæmri niðurstöðu.  Mér virðist sem það hafi færst í vöxt að flytjendur selji plötur sínar milliliðalaust til kaupandans.  Þessi sala fer m.a. fram á heimasíðum flytjandans og á hljómleikum.

  Það er ástæða til að efast um að Íslendingar séu að mestu hættir að kaupa útlenda músík.  Í mínum kunningjahópi versla flestir sínar útlendu plötur á ferðalögum erlendis eða í pósti frá play.com,  amazon.com eða annarra slíkra fyrirbæri.  Þá eru margir í fastri ákskrift hjá netmiðlum þar sem áskrifandinn fær að sækja sér tiltekið mörg lög á mánuði.   

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 19:13

17 Smámynd: Jens Guð

   Hannes, ég ætla að þetta eigi við um marga af þinni kynslóð.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 19:15

18 Smámynd: Jens Guð

  Anna Sjöfn,  ég verð að taka undir með þér að 249 kall er ansi hátt gjald fyrir 1 lag;  þrjú þúsund kall fyrir 12 laga plötu.  Ég er á þessu augnabliki að hlusta á  Riot Act  með Pearl Jam.  15 laga plötu.  Hún myndi kosta 3735 á tónlist.is.  Ég keypti plötuna á 5 pund í Skotlandi,  sem svarar til 890 kalls.  Með henni fylgir 36 blaðsíðna bæklingur.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 19:26

19 Smámynd: Jens Guð

  Tinna,  þetta er skemmtileg lýsing hjá þér.  Sérstaklega upptalningin á þeim tónlistarmönnum sem þú hefðir ekki kynnst án P2P.  Góður listi.  Ég veit aftur á móti ekkert hvað P2P er.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 19:46

20 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi,  ég er ekki að ljá máls á réttlætingu á hreinum þjófnaði.  Það eru talsmenn plötuiðnaðarins sem ljá máls á réttlætingu á þjófnaði með því að setja gjöld á kassettur,  geisladiska og ADSL.  Neytandanum er gert að greiða fyrir ólöglegt afrit fyrirfram.  Hvort sem hann hefur hug á að sækja sér það sem hann er rukkaður fyrir eða ekki.    

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 20:04

21 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar (#9),  ég eiginlega líka - þó ég viti ekki hvað P2P er.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 20:06

22 Smámynd: Jens Guð

  Gsss,  það var einmitt niðurstaða rannsóknar eða skoðanakönnunar í Bretlandi í fyrra.  Þeir sem hala ólöglega niður músík kaupa jafnframt hlutfallslega miklu meira af músík en aðrir. 

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 20:08

23 Smámynd: Jens Guð

  Auðjón,  þetta eru góðir punktar hjá þér.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 20:10

24 Smámynd: Jens Guð

  Óskar,  það er mikið til í þessu hjá þér.  Ég þekki margt ungt fólk,  áhugasamt um músík,  en kaupir ekki plötur.  Sækir músíkina bara á netinu.  Bæði löglega og ólöglega. 

  Jafnaldrar mínir í kunningjahópnum eru lítið sem ekkert í ólöglegu niðurhali.  Þeir kaupa sína diska og margir eru komnir í afturhvarf til vinylsins.  Sumir eru með ákskrift að netsíðum þar sem hægt er að hala niður tilteknum fjölda laga á mánuði.  Mér virðist sem sá aðgangur sé helst nýttur undir að ná í lög áður en þau eru síðar keypt á plötum.

  Sjálfur hef ég aldrei halað niður ólöglega.  Reyndar hef ég varla halað niður fleiri en 10 - 20 lögum.  Ég er afar lítið í tölvu og nenni ekki að setja mig inn í niðurhal.  Ég á 20 þúsund geisladiska og reyni að bæta við mig eins fáum til viðbótar og ég get hverju sinni.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 20:22

25 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég var með yfir 600 gb af lögum þegar ég vann hjá microsoft í svíþjóð :).. allir daga og allar nætur kom þetta inn á tölvuna mína.. eftir að ég flutti frá Piteå hef ég ekki d/l einu einasta lagi.. og 600 gb eru horfinn..

Óskar Þorkelsson, 16.10.2010 kl. 20:26

26 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

P2P er stytting á peer-to-peer.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 16.10.2010 kl. 21:07

27 Smámynd: Jens Guð

  Óskar,  og bara kominn í diskana aftur?

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 21:50

28 Smámynd: Jens Guð

  Tinna,  ég er litlu nær - nema þetta hljómar eins og eitthvað gagnvirkt tölvudæmi.  En ég veit svo sem varla hvað iPod er og þekki nánast engin nöfn sem tengjast tölvubúnaði.

Jens Guð, 16.10.2010 kl. 21:52

29 Smámynd: Gunnar Waage

samanber torrent, svona net sem notað er til að hlaða niður músik myndum ect.

Gunnar Waage, 16.10.2010 kl. 22:04

30 Smámynd: Gunnar Waage

Heyrðu Jens, þú ættir að tékka á blogsíðunni minni, er að setja inn músikina mína á spilarann og set meira á næstunni. Er viss um að þú fílar eitthvað af þessu dóti. Ég veit samt ekki hvort ég hefði hjarta í mér að láta útgefanda greiða fyrir útgáfu hjá mér þar sem að sá hinn sami myndi öruglega tapa því fé:).

Gunnar Waage, 16.10.2010 kl. 22:20

31 identicon

Ég sæki mikið af tónlist á netinu og streymi mikið af youtube osfv. en ég kaupi samt alltaf það sem að mér finnst þess virði að kaupa. Mér finnst bara synda hversu lítil prósenta af þeim pening ratar í raun til listamannana sem að eiga það algjörlega skilið.

Aron (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 15:57

32 identicon

Það er mín skoðun að það að ætla sér að reyna að láta netnotendur borga fyrirfram ákveðna summu (sekt) til STEFs af hverri nettengingu, vegna þess að það er hægt að nota hana til að hlaða niður efni, jafngildi því að það væri hægt að kæra mig fyrir kynferðisbrot, bara vegna þess að ég er með skaufa sem nota mætti til verksins.

  Það er kannski eina ráðið að fara til lögreglu og kæra forsvarsmenn STEFs og aðrar afætur fyrir þannig brot og sjá hvort þeir reki ekki upp ramakvein yfir óréttlætinu?

  Næst er kannski að loka fyrir útvarpssendingar af því að við gætum haft gaman af "höfundarréttavörðu" efni og borgum ekki fyrir að streyma því á tölvunni, af því að það er hægt?

  Djö. bull sem þessi umræða er, hefur verið og mun sennilega alltaf verða. 

Ásgeir (IP-tala skráð) 28.10.2010 kl. 23:58

33 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar,  ég hef verið að hlusta á þetta.  Sumt hljómar spennandi.

  Aron,  góður punktur.

  Ásgeir,  takk fyrir þetta innlegg.

Jens Guð, 29.10.2010 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband