Týndi sonurinn kominn heim

  Ég þakka fyrir allar hlýlegu óskirnar um góða ferð vestur til Boston.  Þær rættust.  Þegar ég á æskuárum yngri var,  eins og segir í skrítnum dægurlagatexta,  þá þurfti stundum að svara sérkennilegum spurningum í umsókn um vegabréfsáritun til Bandaríkja Norður-Ameríku.  Ein var hvort umsækjandi væri geðveikur eða félagi í kommúnistaflokki. 

  Núna þurfa Íslendingar ekki lengur vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.  En þurfa samt að fylla út spurningalista á tveimur blöðum til að gleðja bandaríska embættismenn sem þykir fátt skemmtilegra en leika sér í skriffinnskubákni.  Ofangreind spurning hefur verið felld út en önnur ennþá áhugaverðari er komin í staðinn.  Þar er spurt hvort ferðalangur sé hryðjuverkamaður eða nasisti.

  Samviskusamur hryðjuverkamaður og eða nasisti hlýtur að merkja í já-reitinn.  Ég gerði það líka.  En til að lenda ekki í óþægindum útlistaði ég í skýringu að ég væri hvorki hryðjuverkamaður né nasisti en gæti vottað að þeir séu til.  Ég hafi séð í sjónvarpinu að þeir séu til í alvörunni.

  Til að skemmta mér betur í leik við skriffinnskubáknið svaraði ég öðrum spurningum álíka kjánalega.  Til viðbótar tók ég með mér til Bandaríkjanna sýl (= al,  lítinn sting sem svipar til skrúfjárns nema að oddurinn er hvass í stað þess að vera flatur). 

  Vegna þess að bannað er að taka með sér vökva tók ég með mér "roll-on" svitalyktareyði,  sem er,  jú,  bara vökvi.  Einnig tók ég með mér stóra öryggisnælu vegna þess að bannað er að ferðast með oddhvassa hluti.

  Sýlinn,  svitalyktareyðinn og næluna hafði ég í jakkavasa ásamt tveimur lyklakippum og pennum.  Eins og ég reiknaði með var ekki gerð nein athugsemd við það "ólöglega" dót sem ég hafði með mér þrátt fyrir að allt sem ég hafði meðferðis væri gegnumlýst. 

  Ég tók þetta dót allt með mér aftur til Íslands frá Bandaríkjunum.  Eiginlega bara til að fá staðfest fyrir sjálfum mér að allar þessar kjánalegu öryggisreglur og eftirlit með flugfarþegum er ekkert nema falskt öryggi. 

  En ekki vantaði samt að við komuna til Boston voru tekin af mér fingraför á báðum höndum og andlitsmynd.  Ég ruglaði að gamni á mér hárinu og gerði mig rangeygan til að vera sem bjánalegastur á myndinni.  Ég þurfti jafnframt að gera grein fyrir því hvað ég var með mikinn pening meðferðis.  Ég gerði það dálítið flókið með því að framvísa færeyskum peningum,  íslenskum,  evrum,  enskum pundum,  dönskum krónum og tafði dálítið afgreiðsluna með ósk um að þeir peningar væru reiknaðir út í dollurum.  Eftir jaml,  japl og fuður benti ég tollvörðum á að ég væri að auki með greiðslukort sem gerði dæmið dálítið flóknara vegna þess að ég gæti ekki áætlað hvað ég myndi láta strauja kortið oft.  Að lokum leysti ég tollverðina út með pennum sem ég hafði stolið frá Póstinum á Íslandi.  Ég reyndi líka að fá þá til að syngja með mér "Undir bláhimni" en vinsamlegur tollvörður tjáði mér að ég væri að tefja hann í vinnunni og hann væri ekki í skapi til að taka þátt í skrípalátum.  En bauð mig samt velkominn til Boston og vonaðist til að ég ætti góða dvöl.  Ég kyssti hann á kinnina og bauðst til að dansa við hann í valstakti á meðan ég myndi syngja "Undir bláhimni" og gaf honum smá tóndæmi.  En hann bað mig um að hlífa sér við fíflagangi og endurtók að ég væri velkominn til Boston.  Ég þakkaði fyrir það.     


Farinn

  Ég er í þann veg að fara í loftið og halda vestur til Ameríku.  Nei,  ekki til Grænlands í þetta skiptið heldur til Bandaríkja Norður-Ameríku.  Þar er margt spennandi að gerast þessa dagana sem full ástæða er til að fylgjast með í eigin persónu. Leit stóru flokkanna að frambærilegum forsetaframbjóðanda vegur þar hæst.  Einnig ætla ég að gera úttekt á sjónvarpsþættinum Boston Legal.  Ég sný aftur næsta þriðjudag.

  Ég hef ekki heyrt af því hvort tölva sé til í Bandaríkjunum.  En ef það er til tölva þar þá reikna ég með að of margir séu í biðröð að henni til að ég nenni að taka þar stöðu.  Þannig að ég hrelli tæplega neinn með bloggi næstu daga.


Það má búa til e-töflur

  Ég hélt að það væri bannað að búa til e-töflur (ecstacy,  eða alsælur eins og íslenskir sölumenn kalla þær).  En það er víst misskilningur.  Það má framleiða þessar umdeildu töflur.  Svo segir að minnsta kosti í Fréttablaðinu í dag og málinu til staðfestingar er vísað í færeyska dagblaðið Dimmalætting (dimmu léttir = árblik).  Á forsíðu Fréttablaðsins segir:

  "...samkvæmt útreikningum sem ákæruvaldið hefði látið gera  mætti  framleiða rúmlega 200 þúsund töflur úr heildarmagni e-töfluduftsins sem smyglað var með skútunni.  Þá hefði  mátt  framleiða yfir 14 þúsund e-töflur úr þeim hluta duftsins sem varð eftir í Færeyjum."

  Í annarri frétt í Fréttablaðinu fullyrðir móðir Íslendingsins - sem verið er að rétta yfir í Færeyjum - að sonur sinn sé algjörlega saklaus.  Hann hafi bara verið að gera Badda vini sínum greiða með því að geyma fyrir hann e-töfluduftið.  Erfitt verður að dæma drenginn fyrir eitthvað saknæmt fyrst að ákæruvaldið er búið að tvítaka fram að það megi framleiða e-töflur. 

   


Bestu rokk og ról hljómsveitir sögunnar

  Undanfarnar vikur hefur staðið yfir skoðanakönnun á heimasíðu enska poppblaðsins New Musical Express.  Þar er leitað að bestu rokk og ról hljómsveitum sögunnar.  Skoðanakönnunin gengur þannig fyrir sig að gefnar eru upp helstu rokk og ról hljómsveitir heims og lesendur fá það hlutverk að gefa þeim einkunn frá 1 og upp í 10.

  Röðin á sigurvegurunum hefur ekkert breyst í háa herrans tíð.  Það má því ætla að hún sé orðin endanleg.  Þannig er staðan:

1.   Oasis  8,86

2.   Bítlarnir  7,79

3.   Jimi Hendrix Experience 7,55

4.   The Rolling Stones 6,74

5.   The Clash 6,67

6.   Led Zeppelin 6,60

7.   The Who  6,57

8.   Nirvana  6,33

9.   Manic Street Preachers  6,17

10. The Smiths 6,13

11. Radiohead 5,99

12  Pink Floyd 5,99

13. Sex Pistols 5,97

14. The Stone Roses 5,84

15. Joy Division 5,72

16. The Doors 5,68

17. The Ramones 5,68

18. The Libertines 5,66

19. Blur 5,62

20. The Kinks 5,61  

  Gaman væri að heyra hversu sammála eða ósammála þið eruð útkomunni.  Sjálfur tel ég Oasis vera ofmetna hljómsveit og alls ekki nógu öfluga til að vera í 1. sætinu.


Rýnt í niðurstöðu skoðanakönnunar um bestu íslensku hljómsveitanöfnin

  Það er alltaf gaman að velta fyrir sér niðurstöðum svona skoðanakönnunar og bera hana saman við eigin viðhorf.  Sumt var fyrirséð.  Annað kemur á óvart.  Jafnvel svo að það kallar fram spurningamerki.  Að sumu leyti er þetta ófyrirséða áhugaverðara.  En förum yfir listann:

sp.thodanna

1.  Spilverk Þjóðanna

  Það lá fljótlega fyrir að Spilverk þjóðanna yrði valið besta íslenska hljómsveitanafnið.  Yfirburðir þess komu strax í ljós.  Næstum fimmta hvert atkvæði var greitt Spilverki þjóðanna.  Ég er afskaplega sáttur við þessa niðurstöðu.  Nafnið er frumlegt en þjóðlegt.  Það er reisn yfir því.  Jafnframt hæfir það vel framúrskarandi góðri þjóðlagakenndri kassagítarhljómsveit sem sótti jafnt í nýskapandi strauma sem gamla hefð.   

unun

2. Unun 

  Nöfn Ununar og Kamarorhesta skiptust á 2. og 3ja sæti nánast frá fyrstu atkvæðum.  Oft var dagamunur á því hvort nafnið hefði yfirhönd.  Ennþá algengara var að þau væru með jafn mörg atkvæði á bak við sig.  Eftir að 500 atkvæði voru í húsi seig Unun lítillega framúr og hélt naumu forskoti til lokaniðurstöðu. Kannski munaði einhverju að yngra fólk þekkir ekki Kamarorghesta á meðan Dr.  Gunni og Heiða í Unun eru í sviðsljósinu. 

  Þessi orð mín má ekki túlka sem óánægju með að Unun sé næst besta íslenska hljómsveitanafnið.  Alls ekki.  Þetta er flott og jákvætt nafn,  stutt og laggott.  Í mörgum leturgerðum má einnig lesa nafnið á hvolfi.  Ekki síst er þetta heppilegt nafn á pönkaðri rokksveit.

3. Kamarorghestar

  Að óreyndu hélt ég að nafn Kamargorghesta yrði númer 2.  Mér þykir þetta vera magnað nafn og ef ég man rétt þá gaf ég því mitt atkvæði.  Vel á minnst,  Kamarorghestar eiga líka mörg flott lög sem oftar mættu heyrast í útvarpi.

4. Hljómsveit Ingimars Eydal

  Ég átta mig ekki á sterkri stöðu þessa hljómsveitanafns.  Lengst af hélt ég að einkum væru grínarar að kjósa þetta nafn.  Og held það reyndar enn.  Samt hitti ég fullorðna konu sem sagðist hafa kosið þetta nafn.  Hún er enginn grínari og henni var full alvara.  Ég spurði hana hvort að Hljómsveit Hauks Morthens eða Sextett Ólafs Gauks væru ekki jafn góð.  Hún hélt nú ekki.  Hljómfegurð þessa nafns væri svo miklu meiri en hinna nafnanna.

  Ég óska eftir rökum þeirra vel á annað hundruð manns sem kusu þetta nafn.

5. Purrkur Pillnikk

  Sumir settu spurningarmerki við það hvort að Purrkur Pillnikk væri íslenskt nafn.  Nafnið er á gráu svæði sem slíkt.  Það er skýrt í höfuðið á stjúpföður Einars Arnar,  söngvara Purrksins.  Sá var og er aðdáandi skákmeistara sem heitir Pillnikk.  Á unglingsárum var stjúpfaðirinn svefnpurka og bróðir hans uppnefndi hann Purrk Pillnikk.  Nafnið festist við manninn og Einar Örn henti það á lofti þegar hann stofnaði þessa flottu pönksveit.

6.   Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur

  Fyndið nafn.  Alltof langt.  En það er hluti af brandaranum.

7.   Tennurnar hans afa

  Annað fyndið nafn.

8.   Brimkló

  Höfundur þessa nafns er Árni Johnsen.  Að vísu er nafnið ekki alveg í samræmi við hljómsveit sem gerði út á bandaríska kántrý-slagara.  Nafnið hefði hentað betur framsækinni "prog" hljómsveit eða Áhöfninni á Halastjörnunni.  Samt gott nafn.

9.   Sigur Rós

  Gott nafn á frumlegri rammíslenskri hljómsveit sem spilar yfirnáttúrulega fallega músík.

10. Hljómar

  Ja,  nafnið er ekki eins merkilegt og hljómsveitin.  Nafnið er tilbrigði við The Beatles og þau hljómsveitanöfn sem tóku mið af tískubylgju bítlaáranna (Tónar,  Mánar,  Geislar o.s.frv.).

11. Búdrýgindi

  Ljómandi gott nafn fyrir pönkaða hljómsveit er sigraði í Músíktilraunum.

12.  Bara-flokkurinn

  Bara-flokkurinn var upphitunarhljómsveit Þursaflokksins framan af ferli.  Í hógværð sinni og lotningu gagnvart Þursaflokknum var hljómsveitin bara kölluð Bara-flokkurinn.  Reynið að komast yfir lagið "Catcher Coming" með Bara-flokknum.  Frábært lag. 

13.  Morðingjarnir

  Töff nafn á töff pönksveit.

14.  Mínus

  Ég hefði viljað sjá þetta nafn ofar á listanum.  Gott nafn á harðri rokksveit.  Hljómar líka vel erlendis þar sem hljómsveitin nýtur vinsælda.

15.  Dátar

  Nafn Dáta fellur undir sama flokk og nafn Hljóma.  Nafnið er að sumu leyti út í hött vegna þess að hljómsveitin tengdist á engan hátt hernaði.  En þetta var svo merkileg hljómsveit að viðskiptavild nafns hennar er stór.

  Gaman væri að heyra viðhorf ykkar til niðurstöðu þessarar skoðanakönnunar.


Spennandi úrslit í skoðanakönnun um bestu íslensku hljómsveitanöfnin

 Nú liggja fyrir úrslit í skoðanakönnun um bestu íslensku hljómsveitanöfnin.  Fagmannlega var að skoðanakönnuninni staðið og forval haldið í nokkrum þrepum.  Fyrst var óskað eftir tillögum.  Síðan var óskað eftir stuðningi við þau nöfn sem þar komu fram.  Að lokum var listi settur upp með þeim nöfnum sem mestan stuðning fengu.  Ákveðið var að láta 1000 atkvæði ráða niðurstöðu - þrátt fyrir að úrslit lægju fljótlega fyrir í grófum dráttum.  Núna hafa 1027 atkvæði verið greidd og bestu íslensku hljómsveitanöfnin eru:

spilverk þjóðanna

1. Spilverk þjóðanna 17,2%

2. Unun 10,4%

3. Kamarorghestar 10,1%

4. Hljómsveit Ingimars Eydal 9,2%

5. Purrkur Pillnikk 8,1%

6.   Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur 7,8%

7.   Tennurnar hans afa 6,5%

8.   Brimkló 6,2%

9.   Sigur Rós 5,9%

10. Hljómar 5,1%

11. Búdrýgindi 4,7%

12.  Bara-flokkurinn 2,8%

13.  Morðingjarnir 2,7%

14.  Mínus 1,7%

15.  Dátar 1,6%


Mótmæli gegn háu eldsneytisverði taka á sig undarlegustu birtingamyndir

  Á dögunum varð ég vitni að eftirfarandi orðaskiptum á ónefndum vinnustað snemma morguns.  Starfsmaður vatt sér inn úr dyrunum og var mættur á vakt.  Yfirmaður hans leit reiðilega á úrið sitt og sagði síðan ávítandi við starfsmanninn:  "Þú ert seinn á ferð.  Klukkan er 17 mínútur yfir."

  Starfsmaðurinn svaraði:  "Já,  ég læt sko ekki mitt eftir liggja.  Öfugt við suma sem nöldra mest á kaffistofunni en gera síðan aldrei neitt í málunum.  Ég var að mótmæla háu eldsneytisverði með því að hjóla eins hægt og ég mögulega gat í vinnuna."


Skúbb!

 jóhanna seljanj

  Á sunnudögum,  á milli klukkan 16.00 og 18:30,  er á dagskrá Bylgjunnar þátturinn "Enn á tali með Hemma Gunn".  Þar fer hinn síkáti gleðigjafi á kostum og laðar fram allar jákvæðustu hliðar á viðmælendum sínum.  Á sunnudaginn kemur spilar Hemmi út trompi.  Gestir hans verða söngkonan unga frá Mývatni,  Jóhanna Seljan,  og hljómsveit.  Þau munu væntanlega flytja 4 eða 5 lög í þættinum.

  Hemmi kolféll fyrir laginu "Ætlarðu að hringja á morgun?" með Jóhönnu Seljan í tónspilaranum mínum.  Hann brá við skjótt og verður fyrstur til að kynna lagið og Jóhönnu í ljósvakamiðli.  Missið ekki af þessu.  Hemmi hefur nef.  Ég endurtek:  Hemmi hefur nef fyrir því sem virkar.  Áður hefur hann kynnt fyrir hlustendum Bylgjunnar unga og efnilega nýliða í poppinu á borð við Lay Low og Geir Haarde.  Þau eru stórstjörnur í dag.

  Bylgjan er á fm 98,9. 

  Takið forskot á sæluna og tékkið á "Ætlarðu að hringja á morgun?" með Jóhönnu Seljan í tónspilaranum (það þarf að "skrolla" niður hann til að finna lagið).  Lagið hljómar betur eftir því sem það er spilað á meiri hljómstyrk. 

HemmiGunn


Bestu "cover" flutningar á lögum Bítlanna

 thebeatles

  Blaðamenn bandaríska rokkblaðsins Rolling Stone og fleiri bandarískir rokkáhugamenn hafa undanfarnar vikur rifið hár sitt og skegg yfir misþyrmingum Idol-þátttakeneda á lögum eftir Bítlana.  Til að benda Idol-liðinu á frambærilegri "cover" flutning á lögum Bítlanna efndi Rolling Stone til könnunar meðal lesenda sinna á bestu "coverinum".  Þeir bundu kosninguna við lög eftir Lennon og McCartney. 

  Mig vantar íslenskt orð yfir "cover".  Ábreiða,  motta og tökulag eru ekki nógu góð orð.

  En svona varð niðurstaðan hjá lesendum Rolling Stone:

  
  1. U2 — “Helter Skelter”
  2. Oasis — “I Am the Walrus”
  3. Joe Cocker — “With a Little Help From My Friends”
  4. Fiona Apple — “Across the Universe”
  5. Aerosmith — “Come Together”
  6. Eddie Vedder — “You’ve Got To Hide Your Love Away”
  7. Earth, Wind & Fire — “Got To Get You Into My Life”
  8. The Breeders — “Happiness is a Warm Gun”
  9. Wilson Pickett — “Hey Jude”
  10. Johnny Cash — “In My Life”
  11. Sonic Youth — “Within You Without You”
  12. Elton John — “Lucy in the Sky with Diamonds”
  13. Sarah McLachlan — “Blackbird”
  14. Elliott Smith — “Because”
  15. Harry Nilsson — “You Can’t Do That”

  Gaman væri að heyra viðhorf ykkar til útkomunnar.


Aldeilis furðulegt kvæði

  Einstaka sinnum hellist skáldagyðjan yfir mig.  Þá fæ ég ekkert við neitt ráðið.  Út úr mér vellur vísa sem ég geri enga athugasemd við.  Sama hvað hún er furðuleg.  Vísan birtist mér bara fullsköpuð og ég endurskoða eða endurskrifa hana ekki.  Enda er ég ekki hagmæltur og þess ekki umkominn að ritskoða hana.

  Í dag fór ég á söluskrifstofu Flugleiða til að kaupa ferð til Boston um þarnæstu helgi.  Þá hrökk upp úr mér eftirfarandi vísa.  Ég skil reyndar ekki upp né niður í henni.  En svona er hún:

  Langdregin flugvél

ber á borð

borð og ber

og fer.

  Hún bítur ekki. 


Plötur sem þú verður að heyra

  björk

  Ég rakst á afskaplega áhugaverða bók sem heitir "1001 plata sem þú verður að heyra áður en þú deyrð".  Hver einasta plata sem þar er nefnd til sögunnar er tekin til rækilegrar umfjöllunar og kynningar.  Það er einkar gaman fyrir okkur Íslendinga að í bókinni eru 5 íslenskar plötur í upptalningunni.  Þær eru:

"Debut",  "Medúlla" og"Vespertine" með Björk;  "Life´s Too Good" með Sykurmolunum;  og "Ágætis byrjun" með Sigur Rós

  Bókin er norsk,  vel unnin í alla staði og ég sakna engrar plötu sérstaklega á listanum.  Ég fletti upp á mörgum plötum sem ég tel að eigi heima á svona lista.  Þær eru þarna allar.  Aftur á móti eru í bókinni örfáar norskar plötur sem ég þekki ekki.

  Plöturnar eru taldar upp eftir aldri.  Eftirtaldir flytjendur eiga flestar plötur á listanum,  7 hver:  Bítlarnir,  Bob DylanDavid Bowie og Neil Young.

  Næst flestar plötur eiga eftirtaldir,  6 plötur hvor: The Rolling Stones og Elvis Costello.

  5 plötur eiga:  The Byrds,  RadioheadBruce SpringsteenSonic Youth,  The Who og Tom Waits.

  Takið eftir því að í bókartitli er mælt með því að fólk hlusti á þessar plötur frekar en að það kaupi allan pakkann.  Þó að listinn spanni í aðra röndina bestu plötur rokksögunnar þá er einnig tekið með í dæmið plötur sem höfðu djúpstæð áhrif á þessa sömu rokksögu - án þess að vera endilega 5 stjörnu plötur. 


Hrikalegar lýsingar á fjölskylduillindum

  Eftirfarandi texta rakst ég áðan á fyrir tilviljun.  Hann er skrifaður af konu sem heitir Fanney.  Bróðir hennar virðist hafa verið í fréttunum að undanförnu og fram kemur að móðir þeirra lét hafa eitthvað eftir sér í DV.  Ég veit ekki hvaða fólk þetta er en þetta er ákall um hjálp.  Ég stytti textann mikið en meðal þess sem Fanney segir er eftirfarandi:


  "Þetta byrjaði þegar að þessi kona,  sem ég vil ekki lengur kalla móður mína,  henti bróður mínum út.  Við (hjónin) vorkenndum honum og gátum ekki hugsað okkur að hann væri á götunni.  Við tókum hann inn til okkar, veittum honum húsaskjól, fæði og þvoðum af honum.  Hjálpuðum honum einnig með peninga.  Ég reyndi að tala við móður okkar um að taka strákinn aftur heim, en hún sagðist aldrei vilja sjá hann aftur og hótaði öllu illu ef hann myndi gista hjá okkur.  Hún gaf í skyn að hún myndi láta skemma bílinn sem hann var á og lét fylgja að ég ætti að vita hvers hún væri megnug.

  Sama kvöld hringdi hún í móður sína (sem ég ólst upp hjá) alveg brjáluð út af því að ég skyldi taka við bróðir mínum og leyfa honum að vera hjá okkur.  Hún sagðist skyldi hefna sín og láta skemma bílinn.
 

  Næsta morgun er bróðir minn ætlaði til vinnu var búið að brjóta afturrúðuna í bílnum. Við hringdum á lögregluna sem sá strax á ummerkjunum að þetta var skemmdarverk.


  Upp frá því höfum við fengið hótanir og ljót sms sem ég geymi öll,  meðal annars morðhótun frá einu systkina minna.

  Við reyndum allt til að hjálpa bróðir mínum.  Í eitt skiptið fór hann til mömmu að ná í eitthvað dót sem hún neitaði honum um.  Hann fór til lögreglunnar sem talaði við mömmu. Svona heldur þetta áfram;  ljót sms og hótanir frá móður minni í gegnum ömmu.  Lýsingarnar eru hrikalegar.  Ömmu leið illa og var hrædd um okkur eins við sjálf. 


  Svo lendir bróðir minn upp á spítala og þá hringir eitt systkinanna og biður mig að koma (þetta var að nóttu til um helgi) og sagði að foreldrarnir neituðu að koma.  Þau voru búin að vera á djamminu . Við vorum sjálf niðrí í bæ með vinum okkur og fórum beint upp á spítala.


  Þar mætir mér góð hjúkrunarkona og segir að móðir drengsins hafi beðið um það að við myndum ekki hitta hann.  En að foreldrarnir ætluðu að koma.  Við kærastinn minn fórum fljótlega heim. Þegar bróðir minn kom af spítalanum var hann farinn að vera í einhverju sambandi við foreldra sína sem var gott mál.  Við ýttum á eftir því við hann að fara heim til þeirra en vorum ekkert að reka hann á dyr.

  Hann fór að umgangast þau meira en hætti að vera eins og hann á að sér að vera.  Það var augljóst að hann var undir áhrifum einhverra efna.  Hann fór að lána öðrum bílinn okkar.  Við höfðum talað um að selja honum bílinn.  Það var hálf milljón áhvílandi á bílnum og bróðir minn var búinn að borga 140 þúsund inn á hann.  Við vildum fá bílinn heim en bróðir minn neitaði.  Þá tilkynntum við bílinn stolinn.

  
  Þetta lagðist illa í bróðir minn.  Hann kom heim til mín eitt kvöldið - þar sem við vorum með vinafólk í mat ásamt börnum okkar.  Hann var að ná í föt og eitthvað dót. Hann var í vondu skapi og hrinti litlu dóttir minni og hún fór að gráta.  Þá vísuðum við honum út.  Hann brást við með hótunum og kjafti og neitaði að skila bílnum.

   Við sögðum að hann mætti taka bílinn til að flytja dótið sitt og koma með hann aftur.  Hann sagðist þá ætla að skemma bílinn,  velta honum og rústa. Svo fór hann út með lyklana.  Kærastinn minn og kunningi okkar fóru á eftir honum.  Þegar út er komið, keyrir bróðir minn á manninn minn með opna hurð, með þeim afleiðingum að hann dettur næstum.  Þeir báðu bróðir minn um að róa sig niður en hann réðist þá á manninn minn.  Kunningi okkar þurfti að taka hann af manninum mínum.  Síðan fóru þeir inn með bíllyklana og við öll í sjokki.  Á meðan við biðum eftir lögreglunni þá heyrum við brothljóð og læti og bróðir minn kemur stökkvandi yfir grindverkið hjá okkur (erum á jarðhæð) og ræðst að okkur þar með kjaft.  Enginn af okkur gerði honum neitt,  öfugt við það sem móðir hans segir á dv.is.


  Bróðir minn braut rúðu fyrir utan heimilið og sparkaði í bílinn fyrir framan lögregluna. Eftir það byrjuðu handrukkarar á vegum mömmu og hans að hringja og hóta okkur. Komið var niður í vinnu til kærasta míns og honum hótað.  Það var ráðist á hann og voru vitni að því.  Hann slapp ómeiddur en með í för voru þessi bróðir minn,  systir mín og vinir þeirra.


  Í eitt skipti var ég stödd fyrir utan vinnuna hjá manninum mínum að bíða með barnið í bílnum.  Við ætluðum að fara saman og fá okkur að borða.  Þá kemur hópur af strákum,  opnaði dyrnar hjá mér og ógnuðu mér.  Barnið mitt var hrætt aftur í bílnum svo ég steig út úr bílnum því ég var hrædd um barnið.  Þá kom maðurinn minn út og þeir hótuðu okkur og voru með skæting.  Ég kallaði á lögregluna og einn af þessum "handrukkurum" - eins og bróðir minn kallaði þá - var handtekinn.


 Fleiri menn voru látnir hringja og hóta og oftar en ekki þurfti ég að hringja á lögregluna. Við erum orðin þreytt á þessum árásum á okkur og að þurfa að vera með annan fótinn inni á lögreglustöð.  Við viljum fá frið.

  Kærastinn minn sagði við bróðir minn frá upphafi að 140 þúsund kallinn fengi hann aftur þegar bíllinn væri seldur. En það er búið að skemma bílinn fyrir hátt í 300 þúsund kall.  Í eitt skipti var ég að keyra ömmu heim af spítalanum og barnið var með í bílnum.  Þá kom þessi bróðir minn á skellinöðru með hótanir og gefur í þannig að bæði amma og barnið urðu svo hrædd að þau hágrétu bæði og hann rak hjólið í fótinn á mér.  Ég hringdi á lögguna.  Þá fór hann og eftir vorum við þarna miður okkar grátandi til skiptist.
 

  Það nýjasta er að bílnum var stolið af bílasölu núna síðasta föstudag.  Gaur á vegum bróðir míns og þeirra fór að reynsluaka bílnum og skilaði honum ekki aftur en hringdi í mig og sagðist vera með bílinn og hann sé að innheimta fyrir þetta fólk.  Ég fengi bílinn ekki fyrr en skuldin væri greidd og núna væri hún orðin 380 þúsund, samkvæmt þeim. Bílinn fannst en þá var búið að skemma skottið/læsinguna og gera brunagöt í innréttinguna.

  Þessi svokallaða móðir mín er búin að hringja í ömmu með svívirðingar, hótanir og stæla og láta hana bera skilaboð/hótanir í okkar garð. Öll fjölskyldan er komin í málið.  Amma og afi eru aldraðir sjúklingar og sárt að horfa upp á þetta og að fá hótanir og fleira.  Reglulega er eitthvað af þessu liði að rúnta fyrir utan heima hjá okkur. Og svo þessar ósönnu yfirlýsingar frá mömmu á dv.is.


  Það er ekki okkar sök hvernig komið er fyrir bróðir mínum og að hann var handtekinn fyrir þjófnað.
Í stað þess að taka á vandanum og vera til staðar fyrir barnið sitt þá er reynt að snúa vandamálinu yfir á okkur og verið að skemmta sér allar helgar og sífellt reynt að gera fólki illt.

  Það er ekki gaman að fá reglulegar hótanir um að einn daginn muni við hverfa eða lýsa því sem á að gera við okkur.
  Við viljum koma þessu á framfæri þar sem búið er ljúga upp á okkur hér og  þar og gera okkur illt. Við viljum engum illt og engan særa.  Bara fá fjölskyldufrið."


Deila Bubba og Bigga í Maus

bubbibiggi

  Deila Bigga í Maus og Bubba geisaði hérlendis í fjarveru minni í Fjáreyjum.  Ég náði upphafi deilunnar en veit ekki hvernig hún þróaðist.  Rétt áður en ég fór út las blaðakona frá DV inn á talhólf mitt skilaboð um að hana langaði til að hlera viðhorf mitt til deilunnar.  Þegar ég hringdi í hana alltof seint og síðar meir var umfjöllun hennar um málið komin í prentun og málið afgreitt í DV. 

  Fyrst að skoðun mín á málinu birtist ekki á síðum DV þá gerir hún það hér.  Upphaf málsins er það að Biggi skrifaði í tímaritið Monitor: 

  "Bubbi hefur alltaf fylgt eftir því sem er í gangi í samfélaginu, en hefur aldrei verið leiðandi afl. Hann er eins og svampur sem sýgur umhverfi sitt inn og mótar sig og skoðanir sínar eftir því hvað er í gangi hverju sinni. Hann er símtalið sem þú færð eftir að þú ert búinn að meika það á þínum eigin forsendum."

  Eftir að Bubbi hafnaði þessari söguskoðun þá skrifaði Biggi:

 "Það má samt alveg vera mín skoðun að aðrir hafi staðið betur fyrir það sem pönkið gerði í fæðingu sinni í London á sínum tíma. Nefni bönd á borð við Sjálfsfróun, Vonbrigði, Fræbbblanna og Þeyr sem augljós dæmi."

  Ég var um tvítugt þegar breska pönkbylgjan skall á og fór eins og stormsveipur um heiminn.  En hún náði ekki almennilega upp á strendur Íslands.  Hér réði skallapoppið ríkjum,  auðn og tóm,  metnaðar- og sköpunarleysi.  Tímabilið 1977 til vorsins 1980 var geldasta tímabil íslensku rokksögunnar.  Gamlir þreyttir útlendir kántrýslagarar með íslenskum bulltextum einkenndu markaðinn. 

  Hljómleikar í Laugardalshöll með The Stranglers 1978 kveiktu áhuga fyrir útlendum pönkplötum.  Í kjölfarið varð eitthvað vart við neðanjarðarpönksenu.  Þar fóru Fræbbblarnir fremstir í flokki.  Pönksenan náði ekki upp á yfirborðið fyrr en vorið 1980 þegar Utangarðsmenn stukku með látum inn um dyrnar sem Fræbbblarnir höfðu opnað og snéru íslensku tónlistarsenunni á hvolf. 

  Bubbi og Utangarðsmenn sprengdu markaðinn upp á þann hátt að hann varð ekki samur á eftir.  Þeir settu ný viðmið,  komu með nýjan hljóm,  öðruvísi texta,  ofurkraftmikla stemmningu,  orku og spennu sem smitaði inn í hvern krók og kima. 

  Það er erfitt að útskýra þetta fyrir þeim sem upplifðu ekki beint í æð hvernig Bubbi og Utangarðsmenn umbyltu íslenskri poppmúsík.  Þegar menn heyrðu í og sáu Utangarðsmenn fyrst þá uppljómaðist tilfinning fyrir því að nú væri allt að gerast.  Og allt gerðist.   

  Utangarðsmenn spiluðu á hátt í 300 hljómleikum á einu ári,  sendu jafnframt frá sér 2 Ep-plötur,  eina stóra plötu og Bubbi sendi frá sér 2 sólóplötur.  Bubba-byltingin hreif með sér fjöldann.  Upp spruttu ótal pönksveitir.  Eldri popparar skiptu jafnframt um gír.  Ragga Gísla stökk úr Brimkló og stofnaði GrílurnarPálmi Gunnars skipti úr Brunaliðinu yfir í Friðryk og þannig mætti áfram telja.

  Það er kolröng greining hjá Bigga í Maus að Bubbi hafi aldrei verið leiðandi afl.  Bubbi var ótvíræður leiðtogi nýju bylgjunnar.  Hann var kóngurinn.  Ekki aðeins með Utangarðsmönnum heldur fylgdi hann dæminu eftir með Egói - sem varð ennþá stærra dæmi - og Das Kapital

  Hin fullyrðing Bigga,  um að SjálfsfróunVonbrigðiFræbbblarnir og Þeyr hafi staðið betur fyrir það sem pönkið gerði í fæðingu í London,  er líka ónákvæm túlkun á staðreyndum.  Vissulega hljómuðu þessar hljómsveitir - að Þeysurum undanskildum - líkar ensku pönksveitunum.  Utangarðsmenn voru með bandarískri og blúsaðri hljóm (enda 2 bandarískir gítarleikarar í leiðandi hlutverki).  En það var jafnframt styrkur Utangarðsmanna að hljómsveitin hafði í bland kunnuglegan en samt sjálfstæðan stíl. 

  Á þessum tíma umgekkst ég mikið Sigga PönkaraBjarna Móhíkana og Pésa Pönk sem síðar stofnuðu Sjálfsfróun.  Siggi elti uppi alla pönkhljómleika og var byrjaður að pönka með hljómsveitinni LSD.  Hann var á fyrstu hljómleikum Utangarðsmanna og sagði mér spenntur frá því að nú væri eitthvað stórt að gerast.  

  Utangarðsmenn urðu þessum strákum sú vítamínssprauta sem þurfti til að þeir kæmu út úr bílskúrnum og kýldu á hlutina.  Sjálfsfróun og Vonbrigði hefðu tæplega orðið til án Utangarðsmanna.  Að minnsta kosti hefðu þær hljómsveitir ekki orðið neitt það sem þær urðu.

  Þeysarar tóku U-beygju með tilkomu Utangarðsmanna.  Fram að þeim tíma voru Þeysarar létt-poppsveit með "prog" ívafi.  Þeyr urðu þó aldrei pönk heldur nýrokkarar í anda Killing Joke

  Bubbi hefur sakað Bigga í Maus um að vera falskasta söngvara landsins.  Það þarf ekki að hljóma eins illa og virðist í fyrstu.  Nick CaveKris Kristoferson og margir aðrir dáðir söngvarar eru falskir.  MegasDylan og fleiri eru fagurfræðilega ömurlegir söngvarar.  En frábærlega skemmtilegir söngvarar jafnframt.  Bubbi hefði sjálfur ekki komist langt í Idol - þrátt fyrir að vera dúndurgóður söngvari.  Biggi í Maus hefur sinn söngstíl,  sem gerði Maus að þeirri heillandi hljómsveit sem hún var. 


Hólmganga Árna Johnsen og Bubba

bubbimorthensárnijohnsen 

 Á leið minni til Fjáreyja í síðustu viku las ég Fréttablaðið.  Þar var frétt um að Árni Johnsen væri ósáttur við að Bubbi kalli hann ítrekað versta gítarleikara ársins.  Steininn tók út þegar Bubbi bætti því við í Kastljósi á dögunum að Biggi í Maus væri svo laglaus að hann toppaði Árna Johnsen.

  Árni brást illa við og hafði umsvifalaust samband við Kastljós og skoraði Bubba á hólm í gítarleik,  söng og boxi.  Árni segir þá Bubba kunna jafn mörg gítargrip,  15.  Bubbi sé samt örlítið flinkari á gítar en á móti komi að Bubbi ráði ekki við fjöldasöng.  Þar er Árni hinsvegar á heimavelli.

  Með það í huga metur Árni líkurnar á úrslitum í einvíginu sér í hag.  Sömuleiðis býðst Árni til að greiða rokkkóngnum 3 milljónir króna ef hann finnur einn falskan tón á nýjustu plötu eyjapeyjans. 

  Vegna fjarveru frá fjölmiðlum landsins veit ég ekki hvert framhald varð á umræðunni.  Aftur á móti þykir mér broslegt að Árni tiltaki fjölda gítargripa sem vitnisburð um hæfni þeirra Bubba í gítarleik. 

  Ég hef heyrt krakka metast á um það við jafnaldra sína hvað þeir kunna mörg gítargrip.  En þegar þeir ná tökum á gítarleik skiptir flest annað við gítarleik meira máli en fjöldi hljómanna sem menn kunna.  Enda mörg þekkt dægurlög best afgreidd með 2 - 4 hljómum. 

  Ef rétt er hjá Árna að þeir Bubbi kunni aðeins 15 grip þá er komin skýring á því hvers vegna þeir spila ekki lög úr smiðju Ozzy Osbourne.  Hljómagangur þeirra samanstendur iðulega af 16 - 21 gripi.  Árni og Bubbi gætu þó afgreitt War Pigs.  Það er aðeins 14 gripa lag.

  Varðandi áskorun Árna um leit að fölskum tóni á nýjustu plötunni:  Það eru meira en þrír áratugir síðan flest alvöru hljóðver eignuðust búnað sem lagfærir falskan söng.  Síðan hefur enginn söngvari þurft að óttast falskan tón á sínum plötum.  Meira að segja þokkalegar karíókí-græjur eru búnar sama leiðréttingabúnaði fyrir falska söngvara.  Áskorun Árna er þess vegna í raun ekki alvöru áskorun.  Það er að segja varðandi falskan söng á plötum hans.  En gaman yrði ef Bubbi tæki áskorun Árna um boxeinvígi. 

  Árni er í þokkalegri æfingu:  Hefur kýlt Hreim í Hlandi og sonum,  Pál Óskar Össur Skarphéðinsson,  aldraðan sjómann sem fann upp sjálfsleppibúnað björgunarbáta,  sett öxl í kvikmyndatökumann hjá sjónvarpinu,  veist að Rottweilerhundum og ótal öðrum. 


Fjáreyskur húmor

  Ég kom fyrst til Fjáreyja fyrir um það bil 12 - 13 árum.  Þá var saltgeymsla eyjanna í stórri skemmu skammt frá Þórshöfn.  Þegar ekið var til og frá Þórshöfn utan í brattri hlíð þá blasti við þak skemmunnar þar sem hún stóð niðri við bryggju í fjörunni.  Á mánudagsmorgni blasti óvænt við vegfarendum risastórt letur sem grallarar höfðu málað afskaplega vel og vandvirknislega á saltgeymsluþakið um nóttina.  Þar stóð Pipar.   

  Þetta er einkennandi fjáreyskur húmor:  Stuttur og snaggaralegur.  Aðrir dæmigerðir brandarar hljóma þannig:

  - Ég trúlofaðist á laugardaginn.

  - Nú?  Einhverjum sem þú þekkir?

-----------------------------------------------

  - Af hverju ertu að borða heftiplástur?

  - Ég er með magasár.


Útlendingar til vandræða í Fjáreyjum

  Lengst af hafa Fjáreyjar verið svo gott sem glæpafríar.  Glæpatíðni þar hefur verið svo lág að fólk læsir hvorki húsum sínum né bílum.  Upp á síðkastið hefur hinsvegar borið á því að útlendingar steli úr bílum,  verslunum og smygli eiturlyfjum.  Jafnframt stofna útlendingar í Fjáreyjum til slagsmála og annarra leiðinda í þessu annars friðsæla samfélagi.

  Nýjasta dæmið er að útlendingur réði sig til vinnu í Skálafirði.  Eftir að vinnuveitandi hans tók á móti honum, kom honum fyrir í húsnæði,  láði honum bíl til afnota,  þá lagði útlendingurinn leið sína samdægurs í bensínsjoppuna í Skálafirði.  Þar er starfsfólk ekki að anda ofan í hálsmálið á viðskiptavinum.  Það heldur sig til hlés en fylgist með bakatil með því að horfa á sjónvarpsskjá er sýnir það sem fram fer í búðinni.  Starfsfólkinu til undrunar sá það útlendinginn hlaða inn á sig bensínbrúsum og öðrum vörum.  Mesta undrun vakti þegar útlendingurinn bar út úr búðinni skjávarpa.

  Myndavélar bensínsjoppurnar kvikmynduðu allt.  Það var létt verk að kalla til lögreglu og sýna henni afbrot útlendingsins.  Í Skálafirði þekkjast allir og útlendingurinn var auðþekktur.  Hann var snarlega handtekinn og dæmdur í 30 daga fangelsun.  Í fangelsinu sitja fyrir nokkrir samlandar hans kærðir fyrir dópsmygl og fleira.  Í kjölfarið var útlendingnum vísað úr landi og fær ekki að koma til Fjáreyja næstu 3 árin. 

  Í ljós kom að útlendingurinn beið einnig dóms í heimalandinu,  Íslandi. 


Leiðrétting

 jimjim 

  Á forsíðu mbl.is segir frá því að breska fyrirsætan Kate Moss og núverandi kærasti hennar hafi dansað á gröf bandaríska söngvarans Jims Morrisons í París og sungið lagið Alabama Song.  Þar segir að lagið hafi komið út 1967.  Þegar smellt er á "Lesa meira" kemur fram að Jim Morrison hafi sungið þetta lag (inn á plötu) 1967.  Það er rétt.  Hinsvegar kom lagið fyrst út 1927.  Þremur árum síðar kom það aftur út og þá sem hluti af óperettunni Upprisa og fall Mahagonny borgar eftir Kurt Weill og Bertholt Brecht.

  Fyrir áratug eða svo aðstoðaði ég Bogomil Font lítillega við gerð plötunnar Út og suður sem innihélt lög eftir Kurt Weill.  Þá uppgötvaði ég að samkvæmt ákvæði í höfundarrétti Alabama Song þá má ekki syngja þetta sönglag á öðru tungumáli en ensku.  Aftur á móti er heimilt að snúa út úr textanum.  Það nýtti Jim Morrison sér.

  Í texta Bertholts Brechts segir:  "Show us the way to the next pretty boy."  Á plötu The Doors syngur Jim þessa línu þannig:  "Show me the way to the next little girl."

  Franska söngkonan Dalida syngur þetta svona:  "Show us the way to the next little dollar."  Svissneska tríóið Young Gods syngur útgáfu Dalidu. 

  David Bowie breytti línunni "Show me the way to the next whiskey bar" í "Show US the way to the next whiskey bar."

  Útgáfa Bowies er ekki góð.  En ég mæli eindregið með útgáfum Young Gods,  Bogomils Fonts og The Doors. 


mbl.is Dönsuðu á gröf Jim Morrison
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferð til fjár

  KBY-Ygg

  Það er sama hvað ég bið Fjáreyinga um að hafa ekki um of fyrir mér.  Þeir eiga erfitt með að hlíða.  Það er bara einn flugvöllur í Fjáreyjum.  Hann er í Vogum.  Þaðan aka flugrútur til Þórshafnar og annarra helstu þéttbýlisstaða eyjanna.  Rútuferðin til Þórshafnar tekur um klukkutíma eftir að undirsjávargöng voru lögð frá Vogum til Straumeyjar fyrir örfáum árum.  Áður þurfti að taka ferju á milli.

  Ég bið Fjáreyinga alltaf um að "slappa af" og leyfa mér að taka flugrútuna í stað þess að þeir séu að keyra eftir mér.  Sá fyrsti sem ég sá þegar ég kom út úr tollinum í Vogum var þó tónlistarmaðurinn og plötuútgefandinn Kristian Blak.  Það var hann sem bauð mér til eyjanna núna.  Á leiðinni til Þórshafnar upplýsti hann mig um að fyrirhuguðum hljómleikum um helgina með hljómsveitinni Orcu hefði verið aflýst.

  Orca er afskaplega áhugaverð hljómsveit.  Ég á eftir að blogga betur um hana.  Sú hljómsveit sniðgengur hefðbundin hljóðfæri.  Þess í stað brúkar hún fiðluboga á sög,  loftþrýstidælu á glerflöskur og annað eftir því. 

  Kristian tjáði mér að þjóðlaga-djasssveitin Yggdrasill myndi þess í stað spila fyrir mig.  Yggdrasill er ekki síður merk hljómsveit. Eivör hefur verið að syngja með henni en var stödd á Íslandi um helgina.  Í hennar stað sá hinn afburðargóði söngvari Kári Sverrissonum sönginn.  Hann hefur einmitt skipst á við Eivöru að syngja með hljómsveitinni þegar hún er fjarri góðu gamni.  Og tæplega er það á færi annars að hlaupa í skarðið fyrir álfadrottninguna.

  Kristian tjáði mér að hljómsveitin þyrfti að æfa frá klukkan 7 - 9 til að geta boðið upp á almennilega hljómleika.  Trommuleikarinn var upptekinn í öðru verkefni.  Þess vegna þurfti að endurútsetja hluta af prógramminu til að það kæmi ekki að sök.  Ég átti síðan að mæta í hátíðarsal (fjöl)Miðlunarhússins klukkan rúmlega 9.  Þar hélt Yggdrasil einkahljómleika fyrir mig til klukkan 10.  Það var opið út á götu þannig að gangandi máttu líka verða gestir.  Áður en yfir lauk höfðu 3 áheyrendur bæst við.  Ég varð feginn því.  Mér þótti ofrausn að þessi fræga hljómsveit væri að halda hljómleika fyrir mig einan.  Yggdrasill hefur túrað víða um heim við góða aðsókn og góðar undirtektir.  Plötur Yggdrasils seljast sömuleiðis vel út um allan heim.  Meðal annars hér á Íslandi.

  Þetta var fjarri því í fyrsta skiptið sem Fjáreyingar hafa sett upp einkahljómleika fyrir mig.  Ég lendi ítrekað í ofdekri af þessu tagi af hálfu þessa yndislega fólks. 

    

   


Fjáreyjar kalla

  Fjáreyjarnar kalla

og ég ætla að gegna þeim.

  Ég veit ekki hvort eða hvernig

eða hvenær ég kem heim.

  Heitið Færeyjar þýðir fjáreyjar.  Það er nefnilega allt morandi í kindum á eyjunum.  Þar er ekkert flatlendi.  Eintómir háir hólar og hæðir.  Fyrir bragðið hafa þróast í eyjunum tveir stofnar af kindum.  Á öðrum stofninum eru vinstri fæturnir styttri en á hinum eru hægri fæturnir styttri. 

  Þetta er til að kindurnar geti fyrirhafnarlítið rölt um snarbrattar hlíðar og úðað í sig safaríku grasi án þess að rúlla niður brekkuna og hafna ofan í sjó.

  Ferð til Fjáreyja er ferð til fjár í bókstaflegri merkingu.

  Mér er boðið til eyjanna.  Þar fer ég á hljómleika hjá hljómsveit sem heitir Orca.  Hún er gerð út af nafna mínum sem var bassaleikari í trip-hopp hljómsveit EivararClickhaze

  Ýmislegt fleira ætla ég að gera mér til gamans og gagns í leiðinni.  Verra er að danska krónan er komin yfir 14 íslenskar krónur.  Undanfarinn áratug og meir hefur danska krónan verið að dansa sitthvoru megin við tíkallinn.  Hvað er í gangi?  Þetta þýðir að kranabjórinn í Færeyjum kostar núna 560 íslenskar krónur í stað 400.  Sem betur fer þarf ég ekki að kaupa neitt annað í eyjunum að sinni.


Presley bítur frá sér

Lisa Marie PresleyElvis 1977

  Bandarískir fjölmiðlar hafa verið að slá því upp að Lisa Marie Presley,  dóttir konungs rokksins,  Elvis Presley,  sé farin að líkjast kallinum ansi mikið eins og hann var skömmu fyrir andlátið.  Þeir láta að því liggja að mataræði dótturinnar sé sömuleiðis farið að hneigjast í sömu átt og föður hennar undir lokin.

  Lisa Marie hefur brugðist hin versta við þessu sem hún kallar "særandi umfjöllun um sig" og kærir umsvifalaust þá fjölmiðla sem fjalla um hana á þennan hátt fyrir meiðyrði.  Óvíst er að vangaveltur slúðurblaðanna hefðu vakið sérstaka athygli ef stelpan hefði ekki kippt sér upp við þær.  Hörð viðbrögð hennar hafa hinsvegar beint kastljósinu rækilega að mataræði hennar og útliti.

  Það er ágætt að stelpan sýni tennurnar og verji sig.  Það er líka eðlilegt að hún eldist eins og annað fólk.  Myndin hér að neðan er - að ég held - tekin af Lisu Marie fyrir þremur árum.  Myndin fyrir ofan þennan texta til vinstri er nýleg.  Myndin hægra megin er af Elvis.     

  young lisa marie presley

     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband