9.10.2007 | 02:29
Risa fullnæging á mettíma
Bandarískt fyrirtæki hefur hannað og þróað byltingarkennt hjálpartæki til að gera konum kleift að fá fullnægingu á innan við tveimur mínútum. Fullnægingin er jafnframt mun kröftugri og varir lengur en við venjulegar samfarir. Tækið hefur verið að raka að sér verðlaunum. Án þess að útlista græjuna nánar þá vísa ég til http://techdigest.tv/2007/05/vortex_vibratio.html
Þau sem að vilja kynnast þessu galdratæki geta pantað það hjá Aloe Vera umboðinu. Með því að fletta upp á www.ja.is er hægt að nálgast upplýsingar til að hringja eða senda tölvupóst.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
4.10.2007 | 22:27
Svívirðileg níðskrif
Víkverji Morgunblaðsins leyfir sér stundum að ganga lengra í skrifum en siðaðra manna er háttur. Þetta gerir Víkverji í skjóli nafnleyndar og þeirrar staðreyndar að Víkverji er ekki ein persóna heldur skiptast blaðamenn á að skrifa í nafni Víkverja. Í blaðinu í dag ræðst Víkverji að rottum með svívirðingum. Meðal annars segir hann rottur vera "líklega viðbjóðslegustu kvikindi sem til eru á jörðinni."
Víkverji segir rotturnar vera illa þefjandi, ljótar og ógeðslegar með langt og slímugt skott.
Hið rétta er að rottur eru stöðugt að þrífa sig og eru þess vegna lyktarlausar. Skottið á þeim er vissulega langt í samanburði við dindil á kindum. Skottið er jafnan tandurhreint og þurrt en alls ekki slímugt. Rottur eru afskaplega félagslyndar og þykir sérlega gott að láta klóra sér á bak við eyrun. Þær eru í hópi greindustu dýra og eru fljótar að læra nafnið sitt. Rottur eru fallegar, krúttlegar og skarpeygar.
Þar fyrir utan er djúpsteikt rottukjöt með hrísgrjónum og súrsætri sósu herramannsmatur.
Ég skora á Víkverja að biðja rottur fyrirgefningar á þessum dæmalausu níðskrifum um dagfarsprúð og sérlega snyrtileg dýr. Hann yrði maður að meiri.
![]() |
Rottuæði í Frakklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 5.10.2007 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
4.10.2007 | 02:05
Fjölmiðlar togast á um mig
Héraðsfréttablað á Suðurlandi, Sunnlenska heitir það, er með viðtal við mig þessa vikuna. Ég held að það komi út í dag eða á morgun. Ég þarf að finna út hvort að það fáist einhversstaðar í Reykjavík.
Það var líka hringt í mig frá Fréttablaðinu í vikunni og lagðar fyrir mig 10 spurningar. Svörin verða birt í Fréttablaðinu á föstudag. Ég átti fá svör við þeim spurningum: Hver er leikstjóri dans- og söngleiks sem að heitir Ást; Hver er þjálfari Liverpool fótboltaliðs; Í hvaða landi landi gerist kvikmyndin Flugdrekahlauparinn?
Ég veit ekkert um fótbolta, dans- og söngleiki eða kvikmyndir. Mín svör voru bara pass, pass, pass. Ég held að af 10 spurningum hafi ég í hæsta lagi getað svarað 3 og 1/2 spurningu. Það var engin spurning um músík. Ég hefði sennilega getað svarað rétt spurningum um músík.
Á föstudagsmorgun, klukkan 9, er viðtal við mig á útvarpsstöðinni Reykjavík FM 101,5 (www.rvkfm.is) um tíðindi liðinnar viku.
Í næstu viku er viðtal við mig í tímaritinu Vikunni. Blaðinu verður dreift ókeypis með Morgunblaðinu í 60.000 eint0kum. Þetta er nú meira fjörið. Gamli maðurinn bara út um allt þessa dagana. Þetta minnir á gömlu dagana, fyrir aldarfjórðungi eða svo, þegar að ég var tíðum í fjölmiðlum vegna aðkomu að pönkhljómleikum, Poppbókinni, Stuð-pönkplötubúðinni og rokktímaritum. Þá var gaman og er aftur gaman núna. Bara fjör og læti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
2.10.2007 | 23:56
Góð saga
Ég var að kenna skrautskrift á Selfossi í kvöld. Þar var mér sögð ansi skemmtileg saga af sýslumanninum, Ólafi Helga Kjartanssyni. Hann gætir þess umfram ýmsa stéttarbræður sína að klæðast fullum skrúða dags daglega. Skrúði sýslumanna er miklu flottari en löggubúningur. Það eru fleiri strípur, borðar, gullhúðaðir hnappar og glingur á honum. Gott ef að búningurinn er ekki grænlitur en alla vega virkilega glæsilegur.
Eitt sinn kom Ólafur Helgi að þar sem að vandræði voru á Hellisheiði. Það var vonskuveður að vetri til. Bílar festust í snjó og umferðarhnútur hafði myndast. Ólafur tók af sinni alkunnu röggsemi á málum og fór að stjórna umferð til að leysa umferðarhnútinn. Þá hringdi fullorðinn maður í lögguna á Selfossi og tilkynnti: "Það er allt í rugli hérna uppi á Hellisheiði. Maður í lúðrasveitarbúningi er úti á miðri götu að fíflast í umferðinni!"
Spil og leikir | Breytt 3.10.2007 kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
26.9.2007 | 14:12
Wathne-færslan er komin inn aftur
Fyrir nokkrum dögum hvarf út af bloggi mínu færsla um íslenskan athafnamann sem að hefur haslað sér völl í Bandaríkjunum með umfangsmikilli eiturlyfjasölu og peningaþvætti. Í kjölfarið fékk ég upphringingu frá manni, kunningja mínum, sem að ráðlagði mér að vera ekki að reita þetta lið til reiði. Hann ráðlagði mér frá því að reyna að endurheimta færsluna.
En nú hef ég gert það. Slóðin er http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/310413/
Þó að ég viti ekki hvernig hvarf færslunnar bar að þá er eitt víst: Að stjórnendur mbl.is áttu engan þátt í hvarfi hennar.
Lífstíll | Breytt 27.9.2007 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
24.9.2007 | 01:02
Mest pirrandi íslenska dægurlagið
Undanfarnar vikur hef ég haldið úti skoðanakönnun um mest pirrandi íslenska dægurlagið. Ég nálgaðist viðfangsefnið með forvali í kunningjahópi og síðar með umræðu meðal lesenda bloggs míns. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi. Langflestir nefndu lagið Nína með Eyjólfi Kristjánssyni og næst flestir lagið Villi og Lúlla með Þú og ég (Þér og mér, ef að við viljum fallbeygja nafn dúettsins). Bæði lögin eru viðbjóður. Sumir telja þó að Villi og Lúlla sé svo hallærislegt að það sé frekar brandari en eitthvað sem að pirrar verulega.
Eftir að örfá atkvæði höfðu verið greidd kom þrýstingur á mig að bæta við laginu Skólaball með Brimkló. Ég lét undan þeim þrýstingi. Samt vitandi að það lag átti ekki séns í hin lögin. En vegna þess að því lagi var bætt inn eftir að 40 atkvæði höfðu verið greidd hinum tveimur lögunum þá hef ég leyft skoðanakönnuninni að fara vel yfir 500 greidd atkvæði. Núna þegar að 583 atkvæði hafa verið greidd er niðurstaðan þessi:
Nína 50,1%
Tónlist | Breytt 26.7.2009 kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
21.9.2007 | 21:21
Færeysk frétt
Um síðustu helgi var færeyskt sendiráð opnað á Íslandi með pomp og prakt. Á hátíðardagskrá í glerskálanum við Norræna húsið upplýsti ég færeyskan blaðamann um það að Eivör sat aðra viku í röð í efsta sæti íslenska plötulistans með plötu sína Mannabarn. Þannig segir blaðamaðurinn frá á www.planet.fo og í dagblaðinu Sósíalurin (það er alltaf svo gaman að lesa færeysku).
Eivør enn nummar eitt 19. sep 2007, 22:04 |

Mynd: Eivør og heimmildarmaður okkara í Íslandi, Jens Guð
Eivør er enn nummar eitt í íslendska sølulistanum
Hesa vikuna er Eivør Pálsdóttir aftur nummer eitt á sølulistanum í Íslandi. Hetta er onnur vikan, at fløgan Mannabarn er nummer eitt.
Heimmildarmaður okkara í Íslandi, Jens Guð, metir hetta vera at undrast á. Ikki tí, eins og íslendingar flestir, so hámetir hann sangfuglin Eivør, men meira er tað marknaðarføringin, ella vantandi marknaðarføringin, ið undrar. Og tað, at Eivør liggur á fyrsta plássi, hóast lítla og onga marknaðarføring.
Tað er, sum er tørvur ikki á at gera stórvegis við marknaðarføring, heldur Jens Guð.
Aðrar fløgur, ið liggja væl fyri á listanum, verða førdar fram við lýsingarherferðum, t.d. Magni, ið vann sangkapping í USA og nú er væl umtóktur í heimlandinum Íslandi.
Jens er eisini fegin um væl eydnaðu framførslurnar hjá føroysku tónleikarunum, tá føroyska sendistovan í Reykjavík lat upp í vikuni.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.9.2007 | 05:37
Rakstur kvenna
Það er einhver tískubylgja í gangi þess eðlis að konur eigi að raka sig að neðan. Meðal annars hefur vinur minn, Torfi Geirmundsson, rekið áróður fyrir þessu á Útvarpi Sögu. Jafnframt eru kvennablöð - einkum bandarísk - uppfull af áróðri fyrir þessu. Það er jafnvel talað um tiltekin tískufyrirbæri í "bikini-röndum".
Staðreyndin er sú að þetta er vitleysa. Brúskurinn gegnir mikilvægu hlutverki. Fyrir það fyrsta ver hann þetta svæði fyrir áreiti frá klæðnaði. Í annan stað er hlutverk hans að viðhalda réttu raka- og hitastigi á svæðinu. Í þriðja lagi ver hann leggöng fyrir því að óhreinindi berist þar inn.
Konur sem að raka sig að neðan eru að bjóða hættu heim. Þær lenda í því að þetta viðkvæma svæði verði fyrir ertingu frá klæðnaði. Leggöngin eru varnarlausari gagnvart óhreinindum. Rakastig leggangna fer úr skorðum. Rökuð kynfæri kvenna eru heldur ekkert flott eða "sexy". Þetta er andstætt náttúrunni og bara kjánalegt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (101)
15.9.2007 | 15:01
Enn eitt leyndarmálið upplýst
Við eftirvinnslu á plötunni Konu með Bubba þurrkaðist fyrir mistök hluti af söng hans út í einu lagi. Bubbi var kominn í meðferð og átti ekki heimangengt næstu vikurnar. Platan var bókuð í masteringu og fjölföldun úti í Englandi eftir örfáa daga. Nú voru góð ráð dýr.
Svo vildi til að söngvari Bara-flokksins frá Akureyri, Ásgeir Jónsson, sá um áslátt á plötunni. Hann gerði sér lítið fyrir og söng þann sönghluta lagsins sem hafði þurrkast út. Hermdi bara eftir Bubba svo glæsilega vel að munurinn heyrist ekki.
Ásgeir er góður í söngeftirhermum. Hann hermir léttilega eftir David Bowie og Freddie Mercury þegar sá gállinn er á honum. Þar er erfitt að greina á milli eftirhermu og fyrirmyndar.
Lagið sem um ræðir á Konu-plötunni heitir Seinasta augnablikið.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
14.9.2007 | 23:18
Skagamenn skoruðu mörkin
Ég veit ekkert um fótbolta. Ég fylgist ekkert með því dæmi. Mér þótti gaman að spila fótbolta sem barn og unglingur. Þótti skemmtilegast að svindla eða fíflast. Mér stóð alltaf á sama hver vann og annað í þeim dúr. En á fullorðinsárum skiptir fótbolti mig engu máli. Ég hef aldrei haldið með neinu liði öfugt við systkini mín og foreldra. Ættingjarnir eru uppteknir af Liverpool, KA, Þór, KR og einhverjum liðum sem að ég hef engan áhuga á að fylgjast með. Ég nenni ekki að horfa á fótbolta nema þegar Færeyingar keppa.
Á dögunum barst mér í hendur plata sem heitir Skagamenn skoruðu mörkin. Ansi hreint áhugaverð plata með lögum úr ýmsum áttum. Einkum þykir mér fengur að flutningi Óla Palla snillings á rás 2 á laginu Blindsker eftir Bubba Morthens. Frá því að mér barst platan hef ég ítrekað staðið mig að því að setja umrætt lag á "repeat". Lagið var/er frábært með Das Kapital. Það er ennþá flottara með Óla Palla. Aldeilis mögnuð útfærsla.
Ég á eftir að spila plötuna oftar áður en ég skrifa um hana plötudóm.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2007 | 21:54
Plötudómur
Flytjandi: Hljómsveitin Soundspell
Titill: An Ode to the Umbrella
Einkunn: **** (af 5)
Þessi plata er frumraun hljómsveitarinnar Soundspell á plötu. Liðsmenn hljómsveitarinnar eru aðeins 1 6 - 18 ára. Það er með ólíkindum hvað þessir ungu strákar hafa gott vald á tónlistinni. Það er engan veginn hægt að heyra að um þetta unga nýgræðinga sé að ræða. Öll þeirra tök á viðfangsefninu eru svo fagmannleg og yfirveguð.
Músíkin sver sig í ætt við Coldplay, Keane og Leaves. Í Englandi er svona músík flokkuð sem "indie". Í Bandaríkjunum er hún kölluð háskólapopp. Hérlendis er talað um gáfumannpopp.
Áferðin er mjúk. Lögin eru fremur hæggeng. Einfalt en hnitmiðað píanó"gutl" (með orðinu "gutl" er ekki átt við neikvæða merkingu heldur verið að undirstrika einfaldleika. Hér er ekkert yfirdrifið með stælum af neinu tagi). það er liðsheild hljómsveitarinnar sem skiptir máli. Hér er enginn með stæla eða að reyna að stela "sjóvinu". Þetta er allt látlaust. Rennur mjög þægilega.
Söngurinn er áreynslulaus og "mjúkur" en samt kraftmikill þar sem við á. Útsetningar eru fjölbreyttar og auðheyranlega töluverðar "pælingar" að baki. Jafnvel má merkja smá Sigur Rósar stemmningu myndast á stöku stað.
Laglínur eru fallegar. Í fleiru en einu lagi jaðrar við að stutt sé í Fix Youlag Coldplay.
Þetta er plata sem þarf að hlusta á nokkru sinnum áður en fegurð laganna birtist í öllu sínu veldi.
Platan rennur vel í gegn. Það kemur vel út að hafa "rokkaðasta" lagið sem nr. 2 á plötunni. Þannig kemst til skila að grunnt sé á rokkinu. Þó að þetta sé ekki rokkplata. Þannig lagað.
Á hljómleikum er hljómsveitin töluvert rokkaðri en á plötunni. Á hljómleikum leyfa strákarnir sér meiri læti og hávaða. Hljómsveitin er ljómandi góð hljómleikahljómsveit. Platan er hinsvegar lágstemmd og ljúf.
Ég hvet aðdáendur Coldplay, Keane og Leaves til að kynna sér þessa plötu. Þeir verða ekki fyrir vonbrigðum. Þessir strákar eiga bjarta framtíð fyrir sér og eru til alls vísir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2007 | 02:57
Annað leyndarmál upplýst
Ég ætla að dæla hér inn upplýsingum um leyndarmál úr poppbransanum. Jafnvel nokkrum safaríkum. Ég byrjaði á að upplýsa um trommuleikinn á plötu Facons frá Bíldudal. Um það má lesa hér aðeins neðar á síðunni.
Nú er röðin komin að laginu Búgívúgíelskhugi sem var B-lag á plötu Bubba & MX21, Skapar fegurðin hamingju? Þetta lag hefur síðar komið út sem aukalag á geisladiski með Bubba. Ég hannaði umslagið og sá um markaðssetningu.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að bassaleikarinn sem um ræðir er góður. Hefur gert margt gott. Meðal annars í laginu Vegbúinn með KK.
Tómas Tómasson (Stuðmaður) var upptökustjóri. Á þessum árum þurfti að senda upptökur til Englands. Þar voru þær "masteraðar" og unnar undir fjölföldun.
Í þessu tilfelli var upptakan bókuð til sendingar til Englands að morgni næsta dags. Um miðnætti hringdi Tómas í Ása, sem þá var kenndur við Grammið en er í dag kenndur við Smekkleysu. Tommi tjáði Ása að bassaleikurinn virkaði ekki. Úr varð að Tommi ræsti bassaleikarann upp eftir miðnætti til að hljóðrita bassaleikinn að nýju.
Undir morgun hringdi Tommi aftur til Ása og tjáði honum að nýja upptakan hafi ekki virkað heldur. Niðurstaðan varð sú að Tommi spilaði sjálfur bassalínuna. Loforð voru gefin út og suður um að Bubbi fengi ekki að vita af því. Bubbi og bassaleikarinn voru nefnilega svo góðir vinir.
Þegar platan kom út var haldið hóf og blaðamannafundur á Hótel Borg. Þegar platan var ítrekað spiluð þar segir bassaleikarinn sem vissi ekki betur: "Rosalega er ég þakklátur fyrir að Tommi skuli hafa hóað mig út um nóttina. Eins og ég var fúll yfir því. Upptakan sem ég á á kassettu var með glötuðum bassaleik. Núna er þetta perfekt."
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
10.9.2007 | 17:28
Gamalt leyndarmál upplýst
Flestir kannast sennilega við lagið Ég er frjáls. Það kom fyrst út á 4ra laga Ep plötu með hljómsveitinni Facon frá Bíldudal á sjöunda áratugnum. Á þessum árum var aðeins eitt hljóðver á landinu. Það var í ríkisútvarpinu. Panta þurfti tíma þar með margra vikna fyrirvara. Hljóðverið var svo þétt bókað. Ekki síst vegna þess að verulegur hluti dagskrár útvarpsins var hljóðritaður og unnin löngu fyrir útsendingu.
Þegar liðsmenn Facon voru að ferðbúast suður til að taka upp plötuna kom í ljós að trommuleikarinn var fastur úti á sjó. Nú voru góð ráð dýr. Eftir mikla leit að manni til að hlaupa í skarðið féllst Pétur Östlund á að taka að sér verkið. Pétur er í hópi bestu trommuleikara heims. Á þessum tíma var Pétur að færa sig úr rokki yfir í djass. Hann vildi ekki vera bendlaður við þessa plötu á neinn hátt. Þess vegna kom nafn hans hvergi fram á plötuumslagi né í viðtölum við hljómsveitina.
Þegar platan kom út voru gagnrýnendur blaðanna mjög hrifnir af trommuleiknum. Einn gagnrýnandinn orðaði það eitthvað á þessa leið:
Trommuleikarinn er sérdeilis efnilegur. Hann gæti náð langt ef að hann drífur sig suður og fer í læri hjá Pétri Östlund.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.9.2007 | 13:58
Takk, takk, takk
Kalli Tomm hringdi í mig í gær. Erindið var að afhenda mér glæsilegt leirlistaverk. Ég var hinsvegar upptekinn við að snúast með færeyska tónlistarmanninn og plötuútgefandann Kristian Blak um borgina. Kristian er í vinnuferð hér um helgina. Er þéttbókaður á fundi út og suður. Ég gat ekki skilið hann eftir einhversstaðar í reiðuleysi og sá mér því ekki fært að veita listaverkinu viðtöku við hátíðlega athöfn. En Kalli skildi það eftir þar sem ég gat nálgast það í gærkvöldi.
Listaverkið er frumlegt og fallegt, merkt nafni mínu og textanum Besti bloggarinn 2007. Ég er upp með mér af þessu, auðmjúkur og þakka kærlega fyrir mig. Takk, takk, takk.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.9.2007 | 22:40
Af www.planet.fo
Eivør er nummar eitt 07. sep 2007, 11:42 |

Mynd: Eivør Pálsdóttir
Fløgan Mannabarn hjá Eivør Pálsdóttir er nummar eitt á listanum yvir mest seldar fløgur í Íslandi
Fløgan er nummar eitt á listanum hesa vikuna, eftir at hon kom beinleiðis inn á 5. pláss fyri 14 døgum síðani. ´
Í síðstu viku var Mannabarn nummar tvey á listanum. Tá var fløga nummar eitt ein fløga hjá Magna, ið er íslendskur sangari, ið nú er kendur víða um, eftir luttøku í amerikonsku reality sendingini Rock Star Supernova.
Heimmildarmaður okkara í Íslandi, Jens Guð, sigur, at fløgan hjá Magna verður førd fram í stórum lýsingarherferðum. Fløgan hjá Eivør verður hinvegin ikki førd fram á sama hátt, men liggur tó á fyrsta plássi nú á listanum yvir mest seldu fløgur í Íslandi.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.9.2007 | 12:02
Bestu hljómleikahljómsveitirnar
Vegna færslu minnar um hljómleika Soundspell í gær þá er ég í hljómleikastemmningu. Þess vegna birti ég hér niðurstöðu úr lesendakönnun bandaríska tímaritsins Rolling Stone yfir bestu starfandi hljómleikabönd heims. Rolling Stone er söluhæsta músíkblað heims og úrslit í lesendakönnunum blaðsins þykja áreiðanleg. Þetta þykja bestu hljómleikaböndin:
1. The White Stripes
2. Radiohead
3. Pearl Jam
4. Rage Against the Machine
5. U2
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.9.2007 | 21:28
Ný áhugaverð plata
Ég var að fá í hendur splunkunýja plötu með íslensku hljómsveitinni Soundspell. Platan heitir An Ode to the Umbrella. Við fyrstu hlustun heyrist mér hljómsveitin vera á líkri línu og Coldplay, Keane og Leaves. Músíkstíllinn fellur undir víðtæka samheitið gáfumannapopp. Í Englandi er hann kallaður indie og í Bandaríkjunum háskólapopp.
Strákarnir í Soundspell eru ekki nema 17 - 18 ára. Músíkin hljómar samt eins og að þarna séu vanir fagmenn að verki. Útsetningar eru hugmydnaríkar og flutningurinn yfirvegaður.
Ég mun gera betri grein fyrir plötunni þegar ég hef hlustað á hana mörgum sinnum og rækilega.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
4.9.2007 | 21:20
Nýr dagskrárliður hjá frábærri útvarpsstöð
Ég hef áður hælt útvarpsstöðinni Reykjavík FM101,5. Þessi stöð er snilld. Þeir sem eiga ekki útvarp eða eru utan útsendingarsvæði stöðvarinnar geta hlustað á netinu http://www.rvkfm.is.
Í dag var hringt í mig frá Reykjavík FM101,5. Mér var tilkynnt um að þar á bæ væri reglulega gluggað í bloggið mitt. Og að stíllinn á því passi við morgunþátt stöðvarinnar, Capone. Spurningin væri að fá mig til að fara vikulega yfir tíðindi vikunnar með þeim Capone-bræðrum.
Samningaviðræður urðu hvorki langar né strangar. Klukkan 9 á hverjum föstudagsmorgni mæti ég galvaskur upp í Reykjavík FM101,5 og ræði um fréttir vikunnar. Ja, lengi getur gott útvarp batnað. Ég segi nú ekki annað.
Svo ætla ég hægt og bítandi að hafa spjallið lengra og lengra. Byrja að mæta aðeins fyrr líka. Áður en nokkur veit af verð ég búinn að leggja undir mig alla dagskrá á stöðinni og yfirtaka reksturinn. Um svipað leyti verður RÚV sett á frjálsan markað. Þá sameina ég þessi tvö fyrirtæki. Páll Magnússon fær samt að halda jeppanum. Nafnið RÚV mun þá standa fyrir Reykjavíkurútvarpið.
Samkeppnislög koma í veg fyrir að ég geti yfirtekið 365 miðla líka. Það er allt í lagi. Þá sameina ég bara Reykjavíkurútvarpið og Veðurstofu Íslands í staðinn. Og síðar Fiskistofu einnig. Þegar þar að kemur verða ríki og kirkja aðskilin. Þá yfirtek ég ríkiskirkjuna.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.9.2007 | 02:24
Plötudómur
Flytjandi: I Adapt
Titill: Chainlike Burden
Einkunn: ****1/2 (af 5)
Nýjasta plata I Adapt er gullmoli. 10 flott lög. Þetta er sennilega 6 ára gömul hljómsveit. Stofnuð upp úr ýmsum harðkjarna hljómsveitum (Bisund, Snafu, Molesting Mr. Bobo.fl.). Harðkjarni er á ensku kallaður hardcore og nær yfir pönkhljómsveitir í þyngri og harðari kantinum. Mikil öskur. Mikil læti.
Framan af var "pjúra" pönk áberandi. Á nýju plötunni er músíkin orðin þyngri, yfirvegaðri og að hluta "rólegri" eða hæggengnari. Án þess að það eigi að hljóma eins og eitthvað neikvætt gagnvart eldri frábærum plötum I Adapt þá er nýja platan eins og meira "alvöru". Hljómsveitin er eins og þroskaðri.
Það vantar ekkert upp á kraft eða hraða. Þó að inn á milli sé keyrslan ekki eins yfirkeyrð. Trommuleikurinn er einstaklega skemmtilegur. Kröftugar áherslurnar í trommuleiknum gera mikið fyrir lögin. Söngvarinn, Birkir Fjalar Viðarsson, var lengi í framlínu bestu trommara landsins. Spilaði með Bisund, Döðlunum og Stjörnukisa. Var réttilega kosinn besti trommuleikarinn í Músíktilraunum þegar Bisund lenti þar í 2. sæti (man ekki hvort að það var á eftir Soðinni fiðlu eða Steiner). Birkir myndi ekki sætta sig við neitt minna en þann snilldar trommuleik sem heyrist á plötunni.
Birkir ræður við að öskra út í eitt. Smá hnökri við plötuna er að söngurinn hefði fyrir minn smekk mátt vera hljóðblandaður pínu pons framar. Samt ekki neitt sem kemur að sök. Platan hljómar flott eins og hún er. Á köflum tel ég mig heyra samhljóm með einni af mínum uppáhalds hljómsveitum, hinni bandarísku Minsitry. Kröftugur öskursöngur yfir rólyndislega en þunga undiröldu.
Annar lítillegur hnökri er að ég heyri ekki orðaskil og textarnir sem prentaðir eru í flott umslag eru illlæsilegir fyrir mann á sextugsaldri. Þetta atriði skrifast þó frekar á sjóndepurð gamals manns en plötuumbúðir.
Þriðja atriðið er að I Adapt er ein allra skemmtilegasta hljómleikahljómsveit landsins. Stemmningin sem hljómsveitin nær að magna upp á hljómleikum skilar sér eðlilega ekki að fullu á plötu.
Fjórða atriðið er að platan er frekar seintekin. Ég er búinn að hlusta á hana um það bið 30 sinnum. Það tók mig nokkrar hlustanir að fá góðar lagasmíðarnar til að laumast inn.
Eftir stendur að þetta er frábær plata með frábærri hljómsveit. Platan fæst í 12 Tónum, Smekkleysu og fleiri búðum öðrum en Skífunni.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 04:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
30.8.2007 | 23:22
Besti bloggarinn?
Í kvöld hringdi í mig Kalli Tomm, trommuleikari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar (www.ktomm.blog.is). Hann tjáði mér að á bloggsíðu sinni hafi ég verið kosinn besti bloggarinn. Af um 600 greiddum atkvæðum fékk mitt blogg næstum fjórðung.
Fyrir það fyrsta vil ég í auðmýkt þakka fyrir mig. Í öðru lagi vil ég deila þessum titli með Gurrí Har. Atkvæði skiptust það jafnt á milli okkar. Munaði bara nokkrum tilfallandi atkvæðum á lokasprettinum. Þannig var staðan nánast frá upphafi. Nokkur atkvæði til eða frá vógu salt lengst af og allt til enda.
Gurrí er frábær penni. Blogg hennar eru alltaf skemmtileg aflestrar. Alltaf. Hún heldur sama stíl, sama húmor og léttleika, út í gegn. Mín blogg eru mistækari. Stundum bulla ég heilu ósköpin. Jafnvel svo að gengur fram af mér, gamla manninum sem vill vera virðulegur eldri maður. Stundum er ég reiður gamall karl í baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og börnum. Stundum er ég bara músíkdellukarl með öfgakenndar skoðanir. Mjög öfgakenndar skoðanir. Hef óbeit á iðnaðarkenndu léttpoppi.
Í þriðja lagi hafna ég því að vera besti bloggarinn. Það eru margir mun betri bloggarar en ég. Hinsvegar get ég samþykkt að sumt af bullinu sem veltur upp úr mér hefur skemmtanagildi. Sem léttvægt bull. En það skorar ekki hátt á mælistiku gæða.
Í fjórða lagi er skoðanakönnun www.ktomm.blog.is bara léttur leikur. Til gamans gerður og engin ástæða til að taka þetta hátíðlega. En samt skemmtilegur leikur fyrst að ég er sigurvegari í þessum létta leik.
Í fimmta lagi eru skekkjumörk. Kalli Tomm er bloggvinur minn. Við eigum marga sameiginlega vini. Þeir lesa bloggið hans og bloggið mitt. En fara kannski ekki stóran blogglestrarhring út fyrir okkar blogg. Við Kalli eigum sameiginlegan áhuga á rokkmúsík. Höfum lifað og hrærst í rokkbransanum í áratugi. Blogg okkar eiga þess vegna samhljóm. Þar fyrir utan vakti ég athygli á skoðanakönnun hans í bloggfærslu hjá mér. Styrkti þar með stöðu mína umfram þá sem ekki gerðu slíkt. Miðað við að vikuleg innlit á blogg mitt eru jafnan 8000 - 10.000 þá skerpti ég á stöðunni með því að blogga um skoðanakönnun hans á meðan atkvæðagreiðsla stóð yfir.
Eftir stendur að þetta er samkvæmisleikur. Ég er að sjálfsögðu ekki verulega ósáttur við niðurstöðuna. En vísa á skekkjumörkin. Jafnframt vísa ég á að flest önnur blogg sem til greina komu eru skemmtilesning: Jóna Á. Gísladóttir, Ásthildur Cesil, Jón Steinar, Katrín Snæhólm, Jenný, vélstýran, Anna Ólafs og, sorrý, ég er áreiðanlega að gleyma einhverjum.
Bloggar | Breytt 31.8.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)