Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Leyndarmálin afhjúpuð

  Hver hefur ekki velt því fyrir sér hvernig sólin liti út ef hún væri blá?  Eða hvernig útsýnið væri ef Júpíter væri jafn nálægt jörðinni og tunglið?  Mér er ljúft og skylt að svipta hulunni af leyndarmálunum.  Ekki aðeins með orðum heldur öllu heldur með ljósmyndum.

  Sólin er á vinstri myndinni.

blá sóljúpíter 


Hvaða Bítill var gáfaðastur?

 

  Augljósa svarið er John Lennon.  Eða hvað?  Svo skemmtilega vill til að allir Bítlarnir tóku greindarpróf (IQ) á unglingsárum í skólanum sínum.  Einhverra hluta vegna ber heimildum ekki saman um skor Lennons.  Flestar herma að hans IQ hafi mælst 165.  Aðrar heimilidir gefa upp 140.  Enn aðrar 150.  Ég hallast að hærri tölunum.  Í skóla velti John fyrir sér hvort að hann væri ofviti eða klikkaður.  Hann undraðist hvað hann átti létt með að máta kennara í tilsvörum.  Á sama tíma upplifði hann ýmislegt sérkennilegt.  Til að mynda sá hann nöfn og orð í lit.  Engir aðrir sem hann þekkti gerðu það.  Að auki samdi hann smásögur sem voru svo "sýrðar" að hann varð ringlaður.

  Paul McCartney mældist með 137 IQ.  George Harrison 117 IQ.  Ringo er sagður hafa verið skammt undan Harrison.  Meðagreind er 100 IQ.  Allir Bítlarnir voru því yfir meðalgreind.  Það þarf ekki að koma á óvart.  Yfirburðir Bítlanna á tónlistarsviði staðfesta það ásamt mörgu öðru. Kannski gáfaðasta rokkhljómsveit sögunnar.  Ofurgreind er skilgreind sem !Q 140 og þar yfir. 

  Engum blöðum er um að fletta að John Lennon var bráðgáfaður.  Leiftrandi góður húmoristi í tilsvörum,  bráðskemmtilegur og fyndinn smásagnahöfundur og einn af bestu ljóðskáldum rokksins.  

  Gáfur eru eitt.  Annað að nýta þær á besta hátt.  John Lennon stríddi við ótal vandamál sem hann kunni ekki að vinna úr.  Þau fylgdu honum alla ævi.  Hann ólst ekki upp hjá foreldrum sínum.  Hann kynntist þeim ekki fyrr en á fullorðinsárum.  Hann ólst upp hjá frænku sinni.  Hann kallaði hana aldrei mömmu.  Hann kallaði hana Mimi frænku.  Hún var ströng,  kuldaleg, stíf og afar snobbuð millistéttarfrú.  Hann var henni erfiður; reif kjaft og var óhlýðinn.  Hún skammaði hann fyrir að umgangast lágstéttarguttana Paul og George.  Til gamans má geta að pabbi Pauls varaði hann við að umgangast John.  Það myndi aðeins leiða til vandræða.  John var alræmdur í Liverpool fyrir að vera kjaftfor og árásargjarn uppvöðsluseggur.  Paul segir að allir unglingar í Liverpool hafi vitað af honum.  Hann var svo fyrirferðamikill.  Paul fannst John vera aðaltöffari Liverpool. 

  John drakk áfengi og reykti frá barnsaldri.  Hann var alki en hellti sér út í gríðarmikla eiturlyfjaneyslu sem leysti drykkjuna af hólmi um nokkurra ára skeið.

  Samskipti hans við Mimi frænku á uppvaxtarárum voru án hlýju og faðmlaga.  Hann reyndist henni vel á fullorðinsárum.  Gaf henni risastórt hús - að hennar sögn alltof stóra höll - í Liverpool og hringdi í hana aldrei sjaldnar en vikulega.  Oft tvisvar eða þrisvar í viku.

  Samskipti Johns við eiginmann Mimi frænku voru betri.  Sá var léttur og hress.  Hann gaf John munnhörpu.  Hann náði góðum tökum á henni.  Þegar upptökustjórinn George Martin tók ákvörðun um að gera plötusamning við Bítlana þá var það munnhörpuleikurinn sem heillaði hann umfram annað.  Fóstrinn dó er John var 12 ára.  Þar með missti hann sinn besta vin fram til þessa. 

  John Lennon sríddi við skapofsaköst.  Hann fór á bari til að slást.  Hann lamdi skólafélaga sína,  hann lamdi spilafélaga sína í hljómsveitinni sem varð Bítlarnir.  Hann lamdi Paul.  Hann lamdi Cyntheu fyrri konu sína.  Í viðtali við tímaritið Playboy sagðist hann sjá eftir því að hafa ekki lamið George Harrison þegar sá tók ólundarkast eftir að Yoko át súkkulaðikex hans.   

  John burðaðist með áfallastreituröskun.  Á fyrstu sólóplötu hans er upphafslagið,  "Mother",  sársaukafullur reiðisöngur í garð foreldra sinna fyrir að hafa yfirgefið hann.  Reyndar kynntist hann mömmu sínni óvænt um fermingaraldur.  Hún hafði allan tímann búið í næstu götu án þess að hann hefði hugmynd um það.  Gáfurnar og tónlistarhæfileika erfði hann frá henni.  Hún spilaði á banjó og píanó.  Hún gaf honum gítar og kenndi honum að spila banjó-hljóma.  En hún var geggjaður bóhem.  Svo ók fullur lögregluþjónn yfir hana og drap hana.  Einmitt þegar John var nýbyrjaður að njóta þess að kynnast mömmu sinni.  Pabba sinn hitti hann aðeins einu sinni.  Það var eftir að Bítlarnir slógu í gegn.  Þá bankaði kallinn upp hjá honum og sníkti pening.  John gaf honum pening en bað starfsfólk Bítlanna um að hleypa honum aldrei aftur aftur til síns.

  Sólóferill Johns hófst glæsilega.  En svo datt hann í það.  Var fullur og dómgreindarlaus í nokkur ár á fyrri hluta áttunda atatugarins.  Hann kallaði tímabilið "týndu helgina".  Allt var í rugli hjá honum.  Eiginkonan,  Yoko,  henti honum út.  Seint og síðar meir sættust þau og John dró sig út úr tónlistarheimi og sviðsljósi.

  1980 mætti hann aftur til leiks.  Samdi ennþá góð lög og texta.  En var orðinn léttpoppari.  Sagðist hafa í fríinu hætt að hlusta á framsækna músík.  Þess í stað hlustaði hann á léttpopp í útvarpinu.  Svo var hann myrtur.

  Félagsfærni Johns var broguð.  Hann hafði áráttu fyrir því að ganga fram af fólki og móðga það.  Var iðulega ruddi. Í fyrsta sinn sem Eric Clapton kynnti Lennon fyrir kærustu sinn þá gekk hann svo fram af henni með klámfengnum ruddaskap að eftir það var Clapton stöðugt á varðbergi í samskiptum við Lennon.

  Að sumu leyti hefur Paul unnið betur úr sínum gáfum.  Hann er "diplómat".  Að vísu pirraði sjórnsemi hans George og Ringo undir lok Bítlaferils.  Er umboðsmaður Bítlanna,  Brian Epstein,  dó gerðist Paul eiginlegur hljómsveitarstjóri þeirra.  Hann og George og Ringo litu þó alltaf á Bítlana sem hljómsveit Johns.  En hann var meira og minna hálfur eða allur út úr heimi í eiturlyfjaneyslu.  Paul er ofvirkur; hefur skipulagshæfileika þó að hann hafi ekki gætt nærgætni við Ringo og George er hér var komið sögu. 

  Meistaraverkið "Sgt. Peppers.." var hugmynd Pauls.  Líka "Hvíta albúmið" og "Abbey Road". 

  Einkalíf Pauls hefur verið farsælt.  Undan er skilið að hann lét gullgrafarann Heather Mills plata sig.  Gegn mótmælum barna hans. 

   Paul er 77 ára og er ennþá að afgreiða öskursöngsrokk eins og enginn sé morgundagurinn.  Hljómleikar hans eru rómaðir sem meiriháttar.  Hann spilaði betur úr sínum spilum en John.     

 


Tilviljun?

  Listafræðikennarinn minn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á áttunda áratugnum var Björn Th. Björnsson.  Hann var afskaplega skemmtilegur.  Hann hafði sérstæðar kenningar um hitt og þetta og fylgdi þeim eftir af rökfestu.  Ein var sú að ekki væri til neitt sem heiti tilviljun.  Einhverjir mölduðu í móinn og tefldu fram sögur af meintum tilviljunum.  Björn fór yfir dæmið lið fyrir lið.  Ætíð tókst honum að greina fyrirbærið þannig að í raun hefði frekar verið tilviljun að þetta hefði ekki gerst.

  Mér varð hugsað til Björns er ég var í Munchen um páskana.  Þá sat ég á gistiheimilinu á spjalli við tvo aðra gesti; unga dömu frá Indlandi og ungan mann frá Afganistan.  Hann er búsettur í Eistlandi.  Þau höfðu aldrei áður hitts.

  Fljótlega kom í ljós að bæði voru á leið til Írlands með haustinu.  Norður-Írlands eða lýðveldisins?  Dublin.  Hvers vegna Dublin?  Til að fara í skóla þar.  Hvaða skóla?  Þau reyndust vera á leið í sama skóla.  Bæði göptu af undrun áður en þau ákváðu að verða Fésbókarvinir og halda hópinn.  Til að byrja með myndu þau ekki þekkja neina aðra samnemendur skólans. 

   Tilviljun?  Björn Th.  hefði farið létt með að hrekja þá kenningu.  Samt.  Af 7,5 milljörðum jarðarbúa eru tveir unglingar - sem ekki þekktust - frá sitthvoru landinu á leið til Dublin í haust.  Þeir voru samtímis á litlu gistiheimili í Munchen í Þýskalandi í örfáa daga.  Þeir tóku tal saman.  Ég giska á að hvorugur hafi lent á spjalli við fleiri en kannski 10 aðra gesti gistiheimilisins.

        


Færeyskar kjötbollur

  Allir þekkja sænskar kjötbollur.  Flestir sem sækja veitingastað Ikea hafa fengið sér kjötbollurnar þar.  Sumir oft.  Einkum sækja börn og unglingar í þær.  Reyndar eru þær upphaflega komnar frá Grikklandi.  Sú staðreynd er falið leyndarmál.

  Margir þekkja líka danskar kjötbollur.  Einkum eftir að Kjarnafæði hóf framleiðslu á þeim.

  Frá því að íslenskir kjötsalar komust upp á lag með að selja kjötfars hefur nafn íslensku kjötbollunnar færst yfir í að heita hakkbollur.  Mig grunar að kjötfars sé séríslensk uppfinning.  Fyrir hálfri öld eða svo rak kunningi minn hverfisbúð með kjötborði.  Besti bisnessinn var að selja kjötfars.  Uppistöðuhráefnið var hveiti en hann gat selt þetta á verði kj0thakks.  Stundum sat hann uppi með kjötfars sem súrnaði.  Þá skellti hann slurki af salti í það og kallaði farsið saltkjötsfars.

  Uppistöðuhráefni dönsku kjötbollunnar er svínakjöt.  Svíarnir blanda saman svínakjötinu og nautakjöti.  Á síðustu árum eru Íslendingar farnir að færa sig frá nautakjötshakki yfir í svínakjötshakk þegar kemur að hakkbollu.

  Færeyingar halda sig alfarið við nautakjötshakkið.  Þeir kalla sínar kjötbollur frikadellur eins og Danir.  Færeysku frikadellurnar eru betri og frísklegri.

  Hráefni fyrir fjögurra manna máltíð:

505 grömm nautahakk

2 laukar

2 hvítlauksrif

1 egg

1,7 dl mjólk

78 grömm hveiti (mæli frekar með hafragrjónum)

1,5 teskeið salt

  Einfalt og gott.  Laukurinn og hvítlauksrifin eru söxuð í smátt.  Öllu er hrært saman.  Kokkurinn setur á sig einnota plasthanska og mótar með aðstoð matskeiðar litlar bollur.  Þær smjörsteikir hann uns þær eru orðnar fallega brúnar.  Galdurinn er að bollurnar séu ekki stórar.  Séu á stærð við þær sænsku.  Kannski samt pínulítið stærri.

  Heppilegt meðlæti er ofnsteikt rótargrænmeti og kartöflur.  Líka heimalöguð tómatsósa (ekki ketchup).  

4 smassaðir tómatar

1 svissaður laukur

2 svissuð hvítlauksrif

2 kjötteningar

3 saxaðar basilikur

  Þetta er látið malla í 16 mínútur

færeyskar frikadellur   

 

 

 


Uppfinningar sem breyta lífi þínu

  Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti.  Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn.  Hugmyndaflugið er ótakmarkað.  Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu.  Bara tímaspursmál um daga fremur en ár. 

sólarorkukveikjari

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé.  Margnota líftíðareign.  Fer vel í stóra vasa.

augndropatrekt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Augndropar eru til stöðugra vandræða.  Þeir hitta ekki á augað.  Lenda upp á enni eða niður á kinn.  Þar fer dýr dropi til spillist.  Augndropatrektin leysir málið.  Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu.  Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað. 

bananabox

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður;  orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum.  Í því ástandi fer hann illa í vasa.  Klessist og atar vasann.  Bananaboxið er lausnin.  Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins.  Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman;  man ekki stundinni lengur hvað er hvað.  Bananaboxið lítur út eins og banani.  Enginn ruglast á því.  

melónur sem staflast vel

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum.  Þær staflast illa;  kringlóttar og af öllum stærðum.  Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar.  Þær eru ræktaðar í kassa.  Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.  

vatnsmelóna 


Hvað segir músíksmekkurinn um þig?

  Margt mótar tónlistarsmekk.  Þar á meðal menningarheimurinn sem manneskjan elst upp í,   kunningjahópurinn og aldur.  Líkamsstarfsemin spilar stórt hlutverk.  Einkum hormón á borð við testósteron og estrógen.  Þetta hefur verið rannsakað í bak og fyrir.  Niðurstaðan er ekki algild fyrir alla.  Margir laðast að mörgum ólíkum músíkstílum.  Grófa samspilið er þannig:

  - Ef þú laðast að meginstraums vinsældalistapoppi (Rihanna, Justin Bieber...) er líklegt að þú sért félagslynd manneskja, einlæg og ósköp venjuleg í flesta staði.  Dugleg til vinnu og með ágætt sjálfsálit.  En dálítið eirðarlaus og lítið fyrir skapandi greinar. 

  - Rappheimurinn hefur ímynd ofbeldis og árásarhneigðar.  Engu að síður leiða rannsóknir í ljós að rappunnendur eru ekki ofbeldisfyllri eða ruddalegri en annað fólk.  Hinsvegar hafa þeir mikið sjálfsálit og eru opinskáir. 

  - Kántrýboltar eru dugnaðarforkar,  íhaldssamir,  félagslyndir og í góðu tilfinningalegu jafnvægi. 

  - Þungarokksunnendur eru blíðir,  friðsamir,  skapandi,  lokaðir og með frekar lítið sjálfsálit. 

  - Þeir sem sækja í nýskapandi og framsækna tónlist (alternative, indie...) eru að sjálfsögðu leitandi og opnir fyrir nýsköpun,  klárir,  dálítið latir,  kuldalegir og með lítið sjálfsálit.   

  -  Unnendur harðrar dansmúsíkur eru félagslyndir og áreiðanlegir.

  -  Unnendum klassískrar tónlistar líður vel í eigin skinni og eru sáttir við heiminn,  íhaldssamir,  skapandi og með gott sjálfsálit. 

  -  Djassgeggjarar,  blúsarar og sálarunnendur (soul) eiga það sameiginlegt að vera íhaldssamir,  klárir,  mjög skapandi með mikið sjálfstraust og sáttir við guði og menn.

 

 


Fékk sér sushi og missti hönd

  Suður-kóreskur gutti slapp í sushi á dögunum.  Skipti engum togum að í kjölfarið mynduðust stórar blöðrur á annarri hendi hans.  Þær voru fylltar blóði.  Læknar stungu á blöðrurnar og hleyptu blóðinu úr þeim.  Þá bættust við stór opin sár.  Þeim fjölgaði jafnt og þétt upp höndina án þess að hægt væri að stöðva sýkinguna.  Neyðarráðstöfun var að fjarlægja höndina af til að bjarga öðrum hluta líkamans.

  Hrár fiskur er varasamur.  Hrái fiskurinn í sushi inniheldur iðulega bakteríur og orma.  Það gerir heilsuhraustum ekki mein að ráði.  Í mesta lagi smávægileg magaóþægindi í einn eða tvo daga.  Verra er þegar um heilsulitla er að ræða.  Eins og í þessu tilfelli.  Maðurinn er með léleg nýru og sykursýki 2.  Þar að auki er hann á áttræðisaldri og hlustar á Bee Gees.   

bakteríusýking


Nýtt og öðruvísi súkkulaði

  Fátt er hollara og bragðbetra en súkkulaði.  Einkum svokallað suðusúkkulaði.  Fyrirferðarlítill orkubiti í fjallgöngur.  Jafnvel líka í eftirleit.  Verra er að á allra síðustu árum hafa verið blikur á lofti.  Kínverjar eru hægt og bítandi að uppgötva súkkulaði.  Þeir eru fimmti hluti jarðarbúa.  Þegar þeir uppgötva klósettpappír og eldhúsrúllur getum við kvatt regnskógana.

  Óttinn við að Kínverjar klári súkkulaðibirgðir heimsins byggist á smá misskilningi.  Ég ræddi þetta í gær við helsta súkkulaðifræðing Íslands.  Heimsendaspáin gengur út á óbreytta ræktun kakóbaunarinnar.  Hið rétta er að framboð á nýjum ræktarlöndum heldur í við vaxandi eftirspurn.  

  Ennþá skemmtilegra:  Tekist hefur að hanna frá grunni og rækta splunkunýja kakóbaun.  Súkkulaði unnið úr henni hefur ekkert með uppskrift á öðru súkkulaði að gera.  Þetta er alveg nýtt og sjálfstætt súkkulaði,  kallað Rúbin.  Bragðið er súkkulaðibragð en samt mjög "spes".  Til að skynja muninn er ráð að halda fyrir nefið á meðan súkkulaðinu er stungið upp í munn.  Síðan er beðið eftir því að súkkulaðið bráðni á tungunni.  Upplagt að ráða krossgátu eða Soduku á meðan.  Að því loknu er andað með nefinu á ný.  Heillandi og nýstárlegt bragð nýja súkkulaðisins kemur skemmtilega á óvart. 

  Tekið skal fram að ég sé ekki um auglýsingar fyrir Nóa, Síríus, Freyju,  Góu né neina aðra sælgætisframleiðslu.  Engin leynd er yfir því að ég vann í Freyju sumarið 1977.  1980-og-eitthvað hannaði ég einhverjar sælgætisumbúðir fyrir Freyju.  Kannski eru  umbúðirnar um rauðar lakkrísmöndlur enn í umferð?  Síðan hef ég ekki átt nein samskipti við Freyju.  Þar fyrir utan er ekkert sælgæti framleitt í Færeyjum.  Á dögunum hófst þar í fyrsta skipti í sögunni framleiðsla á ís.

chocolate

 

    


Fólk kann ekki handaþvott

  Bandaríska landbúnaðarráðuneytið stóð á dögunum fyrir vandaðri rannsókn á handaþvotti.  Fylgst var leynilega með 393 manns matreiða kalkúnaborgara og salat.  97% kokkanna fengu falleinkunn. Af helstu klúðrum var að þvo aðeins fremsta hluta fingra en ekki á milli þeirra.  Annað algengt klúður var að þvo ekki hendur eftir að hafa fiktað í nefi eða öðrum andlitshlutum né eftir að hafa hóstað eða hnerrað í lófa.  Þriðja algenga klúðrið var að skola puttana aðeins lauslega í alltof stutta stund.  Fjórða klúðrið er að sniðganga þumalinn.  Vegna sóðaskapar starfsmanna á veitingastöðum fá margir illt í magann eftir heimsókn þangað.

  Svona á að þvo hendur:

  - Fyrst skal bleyta hendurnar rækilega í vatni og nugga þær fram og til baka.  Klúður er að byrja á því að sápa þær.  Sápan dreifist aldrei nógu vel þannig.

  - Nugga sápu og vatni vel yfir báðar hendur.  Gæta sérlega vel að því að þvo á milli fingra.   

  -  Stóra málið er að gleyma ekki að sápa og þvo þumalinn. 

þvottur

 

 


Brjóstagjöf gegn matvendni

  Því lengur sem börn eru á brjósti þeim mun síður verða þau matvönd.  Þeim mun lystugri verða þau í grænmeti.  Ástæðan er sú að bragðið á brjóstamjólk sveiflast til eftir mataræði móðurinnar.  Brjóstmylkingurinn venst því að matur sé fjölbreyttur.  Þegar mataræði sex ára barna er skoðað kemur í ljós að börn alin á brjóstamjólk sækja í tvöfalt fjölbreyttara fæði en börn alin á vatnsblandaðri þurrmjólk.  Jafnframt eru brjóstmylkingarnir viljugri til að prófa framandi grænmeti.  

matur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband