Færsluflokkur: Vísindi og fræði
9.4.2019 | 05:44
Færeyskar kjötbollur
Allir þekkja sænskar kjötbollur. Flestir sem sækja veitingastað Ikea hafa fengið sér kjötbollurnar þar. Sumir oft. Einkum sækja börn og unglingar í þær. Reyndar eru þær upphaflega komnar frá Grikklandi. Sú staðreynd er falið leyndarmál.
Margir þekkja líka danskar kjötbollur. Einkum eftir að Kjarnafæði hóf framleiðslu á þeim.
Frá því að íslenskir kjötsalar komust upp á lag með að selja kjötfars hefur nafn íslensku kjötbollunnar færst yfir í að heita hakkbollur. Mig grunar að kjötfars sé séríslensk uppfinning. Fyrir hálfri öld eða svo rak kunningi minn hverfisbúð með kjötborði. Besti bisnessinn var að selja kjötfars. Uppistöðuhráefnið var hveiti en hann gat selt þetta á verði kj0thakks. Stundum sat hann uppi með kjötfars sem súrnaði. Þá skellti hann slurki af salti í það og kallaði farsið saltkjötsfars.
Uppistöðuhráefni dönsku kjötbollunnar er svínakjöt. Svíarnir blanda saman svínakjötinu og nautakjöti. Á síðustu árum eru Íslendingar farnir að færa sig frá nautakjötshakki yfir í svínakjötshakk þegar kemur að hakkbollu.
Færeyingar halda sig alfarið við nautakjötshakkið. Þeir kalla sínar kjötbollur frikadellur eins og Danir. Færeysku frikadellurnar eru betri og frísklegri.
Hráefni fyrir fjögurra manna máltíð:
505 grömm nautahakk
2 laukar
2 hvítlauksrif
1 egg
1,7 dl mjólk
78 grömm hveiti (mæli frekar með hafragrjónum)
1,5 teskeið salt
Einfalt og gott. Laukurinn og hvítlauksrifin eru söxuð í smátt. Öllu er hrært saman. Kokkurinn setur á sig einnota plasthanska og mótar með aðstoð matskeiðar litlar bollur. Þær smjörsteikir hann uns þær eru orðnar fallega brúnar. Galdurinn er að bollurnar séu ekki stórar. Séu á stærð við þær sænsku. Kannski samt pínulítið stærri.
Heppilegt meðlæti er ofnsteikt rótargrænmeti og kartöflur. Líka heimalöguð tómatsósa (ekki ketchup).
4 smassaðir tómatar
1 svissaður laukur
2 svissuð hvítlauksrif
2 kjötteningar
3 saxaðar basilikur
Þetta er látið malla í 16 mínútur
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.11.2018 | 00:01
Uppfinningar sem breyta lífi þínu
Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti. Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn. Hugmyndaflugið er ótakmarkað. Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu. Bara tímaspursmál um daga fremur en ár.
Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé. Margnota líftíðareign. Fer vel í stóra vasa.
Augndropar eru til stöðugra vandræða. Þeir hitta ekki á augað. Lenda upp á enni eða niður á kinn. Þar fer dýr dropi til spillist. Augndropatrektin leysir málið. Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu. Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað.
Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður; orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum. Í því ástandi fer hann illa í vasa. Klessist og atar vasann. Bananaboxið er lausnin. Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins. Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman; man ekki stundinni lengur hvað er hvað. Bananaboxið lítur út eins og banani. Enginn ruglast á því.
Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum. Þær staflast illa; kringlóttar og af öllum stærðum. Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar. Þær eru ræktaðar í kassa. Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.10.2018 | 09:58
Hvað segir músíksmekkurinn um þig?
Margt mótar tónlistarsmekk. Þar á meðal menningarheimurinn sem manneskjan elst upp í, kunningjahópurinn og aldur. Líkamsstarfsemin spilar stórt hlutverk. Einkum hormón á borð við testósteron og estrógen. Þetta hefur verið rannsakað í bak og fyrir. Niðurstaðan er ekki algild fyrir alla. Margir laðast að mörgum ólíkum músíkstílum. Grófa samspilið er þannig:
- Ef þú laðast að meginstraums vinsældalistapoppi (Rihanna, Justin Bieber...) er líklegt að þú sért félagslynd manneskja, einlæg og ósköp venjuleg í flesta staði. Dugleg til vinnu og með ágætt sjálfsálit. En dálítið eirðarlaus og lítið fyrir skapandi greinar.
- Rappheimurinn hefur ímynd ofbeldis og árásarhneigðar. Engu að síður leiða rannsóknir í ljós að rappunnendur eru ekki ofbeldisfyllri eða ruddalegri en annað fólk. Hinsvegar hafa þeir mikið sjálfsálit og eru opinskáir.
- Kántrýboltar eru dugnaðarforkar, íhaldssamir, félagslyndir og í góðu tilfinningalegu jafnvægi.
- Þungarokksunnendur eru blíðir, friðsamir, skapandi, lokaðir og með frekar lítið sjálfsálit.
- Þeir sem sækja í nýskapandi og framsækna tónlist (alternative, indie...) eru að sjálfsögðu leitandi og opnir fyrir nýsköpun, klárir, dálítið latir, kuldalegir og með lítið sjálfsálit.
- Unnendur harðrar dansmúsíkur eru félagslyndir og áreiðanlegir.
- Unnendum klassískrar tónlistar líður vel í eigin skinni og eru sáttir við heiminn, íhaldssamir, skapandi og með gott sjálfsálit.
- Djassgeggjarar, blúsarar og sálarunnendur (soul) eiga það sameiginlegt að vera íhaldssamir, klárir, mjög skapandi með mikið sjálfstraust og sáttir við guði og menn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
7.9.2018 | 02:11
Fékk sér sushi og missti hönd
Suður-kóreskur gutti slapp í sushi á dögunum. Skipti engum togum að í kjölfarið mynduðust stórar blöðrur á annarri hendi hans. Þær voru fylltar blóði. Læknar stungu á blöðrurnar og hleyptu blóðinu úr þeim. Þá bættust við stór opin sár. Þeim fjölgaði jafnt og þétt upp höndina án þess að hægt væri að stöðva sýkinguna. Neyðarráðstöfun var að fjarlægja höndina af til að bjarga öðrum hluta líkamans.
Hrár fiskur er varasamur. Hrái fiskurinn í sushi inniheldur iðulega bakteríur og orma. Það gerir heilsuhraustum ekki mein að ráði. Í mesta lagi smávægileg magaóþægindi í einn eða tvo daga. Verra er þegar um heilsulitla er að ræða. Eins og í þessu tilfelli. Maðurinn er með léleg nýru og sykursýki 2. Þar að auki er hann á áttræðisaldri og hlustar á Bee Gees.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.8.2018 | 00:00
Nýtt og öðruvísi súkkulaði
Fátt er hollara og bragðbetra en súkkulaði. Einkum svokallað suðusúkkulaði. Fyrirferðarlítill orkubiti í fjallgöngur. Jafnvel líka í eftirleit. Verra er að á allra síðustu árum hafa verið blikur á lofti. Kínverjar eru hægt og bítandi að uppgötva súkkulaði. Þeir eru fimmti hluti jarðarbúa. Þegar þeir uppgötva klósettpappír og eldhúsrúllur getum við kvatt regnskógana.
Óttinn við að Kínverjar klári súkkulaðibirgðir heimsins byggist á smá misskilningi. Ég ræddi þetta í gær við helsta súkkulaðifræðing Íslands. Heimsendaspáin gengur út á óbreytta ræktun kakóbaunarinnar. Hið rétta er að framboð á nýjum ræktarlöndum heldur í við vaxandi eftirspurn.
Ennþá skemmtilegra: Tekist hefur að hanna frá grunni og rækta splunkunýja kakóbaun. Súkkulaði unnið úr henni hefur ekkert með uppskrift á öðru súkkulaði að gera. Þetta er alveg nýtt og sjálfstætt súkkulaði, kallað Rúbin. Bragðið er súkkulaðibragð en samt mjög "spes". Til að skynja muninn er ráð að halda fyrir nefið á meðan súkkulaðinu er stungið upp í munn. Síðan er beðið eftir því að súkkulaðið bráðni á tungunni. Upplagt að ráða krossgátu eða Soduku á meðan. Að því loknu er andað með nefinu á ný. Heillandi og nýstárlegt bragð nýja súkkulaðisins kemur skemmtilega á óvart.
Tekið skal fram að ég sé ekki um auglýsingar fyrir Nóa, Síríus, Freyju, Góu né neina aðra sælgætisframleiðslu. Engin leynd er yfir því að ég vann í Freyju sumarið 1977. 1980-og-eitthvað hannaði ég einhverjar sælgætisumbúðir fyrir Freyju. Kannski eru umbúðirnar um rauðar lakkrísmöndlur enn í umferð? Síðan hef ég ekki átt nein samskipti við Freyju. Þar fyrir utan er ekkert sælgæti framleitt í Færeyjum. Á dögunum hófst þar í fyrsta skipti í sögunni framleiðsla á ís.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2018 | 06:18
Fólk kann ekki handaþvott
Bandaríska landbúnaðarráðuneytið stóð á dögunum fyrir vandaðri rannsókn á handaþvotti. Fylgst var leynilega með 393 manns matreiða kalkúnaborgara og salat. 97% kokkanna fengu falleinkunn. Af helstu klúðrum var að þvo aðeins fremsta hluta fingra en ekki á milli þeirra. Annað algengt klúður var að þvo ekki hendur eftir að hafa fiktað í nefi eða öðrum andlitshlutum né eftir að hafa hóstað eða hnerrað í lófa. Þriðja algenga klúðrið var að skola puttana aðeins lauslega í alltof stutta stund. Fjórða klúðrið er að sniðganga þumalinn. Vegna sóðaskapar starfsmanna á veitingastöðum fá margir illt í magann eftir heimsókn þangað.
Svona á að þvo hendur:
- Fyrst skal bleyta hendurnar rækilega í vatni og nugga þær fram og til baka. Klúður er að byrja á því að sápa þær. Sápan dreifist aldrei nógu vel þannig.
- Nugga sápu og vatni vel yfir báðar hendur. Gæta sérlega vel að því að þvo á milli fingra.
- Stóra málið er að gleyma ekki að sápa og þvo þumalinn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.6.2018 | 02:56
Brjóstagjöf gegn matvendni
Því lengur sem börn eru á brjósti þeim mun síður verða þau matvönd. Þeim mun lystugri verða þau í grænmeti. Ástæðan er sú að bragðið á brjóstamjólk sveiflast til eftir mataræði móðurinnar. Brjóstmylkingurinn venst því að matur sé fjölbreyttur. Þegar mataræði sex ára barna er skoðað kemur í ljós að börn alin á brjóstamjólk sækja í tvöfalt fjölbreyttara fæði en börn alin á vatnsblandaðri þurrmjólk. Jafnframt eru brjóstmylkingarnir viljugri til að prófa framandi grænmeti.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.5.2018 | 05:51
Klæddu frambjóðendur sig rétt?
Litir hafa sterk áhrif á fólk. Til að mynda framkallar rauður litur hungurtilfinningu. Á síðustu öld bannaði matvælaeftirlit í Danmörku litarefni í cola-drykkjum. Þeir urðu þá gráir. Líktust steypu. Salan hrundi. Bannið var snarlega afturkallað.
Þegar frambjóðendur stjórnmálaflokka koma fram í sjónvarpi skiptir klæðnaður miklu máli. Ímynd vegur þyngra en málefni. Þetta hefur verið rannsakað til áratuga í útlöndum með einróma niðurstöðu. Árangurríkasti klæðnaður karlkyns frambjóðanda í sjónvarpi er jakkaföt og hálsbindi. Köflótt bómullarskyrta og prjónavesti eru vonlaust dæmi. Heppilegasti litur á jakka er dökkblár/svartblár. Sá litur kallar fram tilfinningu fyrir trúverðugleika, ábyrgð og góðri dómgreind. Nánast allir karlkyns frambjóðendur í kosningasjónvarpi sjónvarpsstöðva í ár fóru eftir þessu.
Heppilegasti litur á skyrtu er hvítur ljósblár; nánast hvítur með bláum blæ. Eða alveg hvítur. Flestir kunnu það. Færri kunnu að velja sér bindi. Dagur B. var ekki með bindi. Ekki heldur Þorvaldur í Alþýðufylkingunni. Bindisleysi Þorvaldar og Dags virkar vel á kjósendur Alþýðufylkingarinnar. En skilar engu umfram það. Í tilfelli Dags kostar það Samfylkinguna 8. borgarfulltrúann. Pottþétt.
Flestir aðrir frambjóðendur klikkuðu á hálsbindinu. Heppilegasti litur á hálsbindi er rauður. Rautt hálsbindi kallar fram tilfinningu fyrir ástríðu og áræði. Frambjóðandi Framsóknarflokksins var með grænt bindi. Það var ekki alrangt. Litur Framsóknarflokksins er grænn. En svona "lókal" skilar ekki sæti í borgarstjórn.
Í útlandinu kunna menn þetta.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2018 | 21:10
Bullað um rykmaura
Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks. Munar miklu þar um. Þetta hefur vakið undrun og umtal. Við hverju bjóst fólk? Að simpansar væru sóðar? Það eru fordómar. Simpansar eru snyrtipinnar. Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.
Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít. Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm. Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað. Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi. Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.
Jú, það hafa fundist rykmaurar á Íslandi. Örfáir. Allir rígfullorðnir. Engin ungviði. Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum. Flækingar sem slæðast með ferðalöngum. Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.
Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum. Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir. Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi. Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur. Gott að einhver geri það.
Vísindi og fræði | Breytt 18.5.2018 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.5.2018 | 00:12
Ekki skipta um röð!
Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð, skreppa í stórmarkað, kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa? Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna. Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli. Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar; mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.
Þarna þarf að velja á milli. Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla. Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.
Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu. Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.
-----------------------------
Fróðleiksmoli: Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða. Eftirspurn var miklu meiri en framboð. Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum. Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu. Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)