Færsluflokkur: Spaugilegt

Hótel Jórvík

  Á tíunda áratug síðustu aldar átti ég erindi til Þórshafnar á Langanesi.  Var með skrautskriftarnámskeið þar.  Gisti á Hótel Jórvík.  Hótelstýran var hölt öldruð kona.  Hún var hálf heyrnarlaus.  Lá því hátt rómur.  Auk mín dvöldu á hótelinu flugmaður og dúettinn Súkkat. 

  Ég kom mér fyrir í hótelinu síðdegis á föstudegi; hafði herbergisdyrnar opnar.  Ég heyrði að hótelsíminn hringdi.  Kerla svaraði.  Viðmælandinn var auðheyranlega að bjóðast til að hjálpa til.  Hótelstýran hrópaði í tólið:  "Ég slepp létt frá kvöldmatnum.  Ég er bara með nýja kalla sem komu í dag.  Hinir fóru í morgun.  Ég get þess vegna hitað upp afganginn af karríkjötinu frá því á mánudaginn og nýju kallarnir fatta ekki neitt!"

  Um kvöldið var karríkjötsréttur í matinn. 

  Hótelstýran lét okkur vita að hún hefði bjór og vín til sölu.  Við gestirnir pöntuðum eitthvað af veigum.  Enginn var barinn.  Konan sótti drykkina inn í hliðarherbergi.  Hún bar þá ekki fram í umbúðum heldur í vatnsglösum. 

  Nokkrum árum síðar var forsíðufrétt í DV um að við húsleit í Hótel Jórvík hefði fundist töluvert magn af heimabrugguðum bjór og víni ásamt bruggtólum.  Hótelstýran sagðist ekki selja áfengi.  Hún væri að geyma þetta fyrir sjómann sem hún vissi ekki hvað hét. 

Hótel Jórvík

 

 


Smásaga um gamlan mann

  Jói Jóns er 97 ára.  Hann er ern og sjálfbjarga.  Býr einn í hrörlegu einbýlishúsi.  Það er gamalt og kallar á stöðugt viðhald.  Jói er meðvitaður um það.  Honum þykir skemmtilegt að dytta að því.  Hann hefur hvort sem er ekki margt annað fyrir stafni.

  Að því kom að Jói þurfti að tjarga þakið til að verja það betur gegn vætu.  Er langt var liðið á verk missti hann fótanna á bröttu þakinu.  Sveif á hausinn.  Við aðrar aðstæður hefði hann rúllað fram af þakinu og kvatt þennan heim á stéttinni fyrir neðan.  Í þessu tilfelli límdist hann við blauta tjöruna.  Svo rækilega að hann gat sig hvergi hrært.  Hékk bara límdur á þakinu.  Það var frekar tilbreytingalaust.   Hann kallaði á hjálp.  Röddin var veik og barst ekki langt utan hússins.

  Kallinn kvartaði ekki undan veðrinu.  Það var honum hagstætt.  Nokkrum klukkutímum síðar áttu barnungir strákar leið framhjá húsinu.  Þeim þótti einkennilegt að sjá mann límdan við húsþak.  Komnir heim til sín sögðu þeir frá þessu sérkennilega þakskrauti.  Mamma eins þeirra hringdi í lögguna.  Löggan er þaulvön að bjarga köttum ofan úr trjám.  Henni þótti ekki meira mál að bjarga ellilífeyrisþega ofan af húsþaki. 

  Kominn niður af þakinu tók Jói staðfasta ákvörðun um að fara aldrei aftur upp á þak.  Hvorki á sínu húsi né öðrum. 

gamall maður


Einfaldur skilnaður - ekkert vesen

  Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði?  Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra.  Matsmenn eru kallaðir til.  Þeir telja teskeiðar, diska og glös.  Tímakaupið er 30 þúsund kall.  Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana.  Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.   

  Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár.  Hann sagaði húsið í tvennt.  Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta.  Þau eiga nefnilega tvo syni.  Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna.  Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra. 

  Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.

  Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum.  Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig.  Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.  

halft_hus 

 


Górillur "pósa"

  Flestir reyna að koma þokkalega fyrir þegar þeir verða þess varir að ljósmyndavél er beint að þeim.  Ekki síst þegar teknar eru svokallaðar sjálfur.  Þetta er greinilegt þegar kíkt er á sjálfurnar sem flæða yfir fésbókina. 

  Svona hegðun er ekki einskorðuð við mannfólkið.  Þetta á líka við um górillurnar í þjóðgarðinum í Kongó.  Þær hafa áttað sig á fyrirbærinu ljósmynd.  Þær "pósa";  stilla sér upp bísperrtar og eins virðulegar og mannlegar og þeim er unnt.

  Á meðfylgjandi mynd er önnur górillan eins og hún sé með hönd í vasa.  Afar frábrugðið eðlilegri handstöðu apans.  Hin hallar sér fram til að passa upp á að vera örugglega með á mynd.  Undir öðrum kringumstæðum gengur gorillan á fjórum fótum.

apamyndapamnd 1 

 


Leyndarmálin afhjúpuð

  Hver hefur ekki velt því fyrir sér hvernig sólin liti út ef hún væri blá?  Eða hvernig útsýnið væri ef Júpíter væri jafn nálægt jörðinni og tunglið?  Mér er ljúft og skylt að svipta hulunni af leyndarmálunum.  Ekki aðeins með orðum heldur öllu heldur með ljósmyndum.

  Sólin er á vinstri myndinni.

blá sóljúpíter 


Dularfull bilun

  Ég ók í rólegheitum á mínum þrettán ára gamla bíl.  Eðlilega er hann orðinn dálítið lúinn,  blessaður.  Ég kem að rauðu ljósi.  Í útvarpinu - Rás 1 - hljómaði ljúfur og djassaður píanóleikur.  Skyndilega er eins og bensíngjöfin sé stigin í botn.  Það hvín í vélinni.  Ég var ekki með fót á bensíngjöfinni.  Ég leit á hana.  Hún var uppi.  Þetta hafði því ekkert með hana að gera.

  Ég ákvað að bruna að verkstæði sem er þaulvant að gera við bílinn.  Í sama mund breytist hljóðið.  Þá átta ég mig á því að hljóðið kom úr útvarpinu.  Kontrabassi hafði bæst við píanóleikinn.  Hófst með langdregnum tóni sem hljómaði glettilega líkt vélarhljóði bílsins. 

  Þegar lagið var afkynnt kom í ljós að þarna var á ferð bassasnillingurinn, Íslands- og Færeyjavinurinn Niels-Henning heitinn Örsted Pedersen.

  Ég finn ekki lagið á youtube.  Sem gerir ekkert til.  Det var en lördag aften er skemmtilegra.

 

 

           


Fullur þingmaður

  Eitt sinn er ég brá mér á Ólafsvökuna í Færeyjum þá var íslenskur alþingismaður í sömu flugvél.  Bæði á leiðinni út og á heimleiðinni.  Hann var blindfullur.  Hann átti að ávarpa færeyska lögþingið.  Hvernig það gekk fyrir sig hef ég ekki hugmynd um.  Ég sá hann ekki aftur fyrr en á heimleiðinni.  Þá var hann blindfullur.  Hann stillti sér upp framarlega í vélinni og hóf að raða farþegum í sæti:  "Sest þú hérna, góði minn" og "Sest þú þarna, góða mín."  Fólkið hlýddi.  Flugfreyjan stökk að honum og öskraði:  "Hvern djöfulinn heldurðu að þú sért að gera?  Allir eru með sætanúmerið sitt prentað á flugmiðann!"

  Þingmaðurinn svaraði hinn rólegasti:  "Ég var nú bara að reyna að hjálpa til."


Smásaga um bíleiganda

  Jóhann og frú Þuríður eiga gamlan fólksbíl.  Að því kom að ýmislegt fór að hrjá skrjóðinn.  Um miðjan janúar gafst hann upp.  Þuríður fékk kranabíl til að drösla honum á verkstæði.  Þar var hann til viðgerðar í marga daga.  Bifvélavirkjunum tókst seint og síðar meir að koma honum í lag.

  Verkstæðiseigandinn hringdi í frú Þuríði.  Tilkynnti henni að bíllinn væri kominn í lag.  Þetta hefði verið spurning um að afskrifa bílinn - henda honum ónýtum - eða gera hann upp með miklum kostnaði.  

  Verkstæðiseigandinn útlistaði þetta fyrir frú Þuríði.  Sagði:  "Öll viðvörunarljós lýstu í mælaborðinu.  Þú hlýtur að vita að rautt ljós í mælaborði kallar á tafarlausa viðgerð á verkstæði.  Annars skemmist eitthvað."

  Frú Þuríður varð skömmustuleg.  Hún svaraði með semingi:  "Fyrstu ljósin kviknuðu í október.  Þau voru appelsínugul.  Svo fjölgaði ljósunum í nóvember.  Þar bættust rauð við.  Hámarki náðu þau í desember.  Okkur Jóhanni þótti þetta vera í anda jólanna, hátíðar ljóss og friðar.  Þetta var eins og jólasería.  Við erum mikil jólabörn.  Við ákváðum að leyfa þeim að lýsa upp mælaborðið fram á þrettándann að minnsta kosti.  Blessaður bíllinn stóð sína plikt og rúmlega það.  Ekki kom á óvart að hann reyndi sitt besta.  Við gáfum honum nefnilega ilmspjald í jólagjöf."

aðvörunarljós   


Pallbíll til sölu

  Nánast splunkunýr pallbíll - svo gott sem beint úr kassanum - er til sölu á tíu milljónir króna.  Samkvæmt ökumæli hefur hann verið keyrður miklu minna en ekki neitt;  mínus 150 þúsund kílómetra.  Góð framtíðareign;  fasteign á hjólum.  Slegist verður um hann á bílasöluplani Procar.  Fyrstur kemur, fyrstur fær.  Ryðblettirnir eru meira til skrauts en til vandræða.  

procar

  


Samkvæmt teikningunni

  Hver kannast ekki við að hafa sett saman skáp - eða annað húsgagn - samkvæmt teikningu frá Ikea og uppgötva síðar að hún snéri vitlaust?  Að sú væri ástæðan fyrir því að hurðarhúnn er staðsettur of neðarlega og að hillur snúa á hvolf.   Mörg dæmi eru til um abstrakt málverk sem hafa árum saman snúið á haus uppi á vegg.  Ef fólk gætir sín ekki þeim mun betur er þetta alltaf að gerast:  Að hlutirnir snúa á haus.  Glæsilegt hús virðist líta einkennilega út.  En teikningin er samþykkt og vottuð og "svona er þetta samkvæmt teikningunni."  Í einhverjum tilfellum hefur þetta leitt til málaferla.  Svoleiðis er aldrei gaman.

smiðurinn snýr teikningunni vitlaust asmiðurinn snýr teikningunni vitlaust bsmiðurinn snýr teikningunni vitlaust csmiðurinn snýr teikningunni vitlaust dsmiðurinn snýr teikningunni vitlaust e    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband