Færsluflokkur: Spaugilegt

Uppfinningar sem breyta lífi þínu

  Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti.  Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn.  Hugmyndaflugið er ótakmarkað.  Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu.  Bara tímaspursmál um daga fremur en ár. 

sólarorkukveikjari

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé.  Margnota líftíðareign.  Fer vel í stóra vasa.

augndropatrekt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Augndropar eru til stöðugra vandræða.  Þeir hitta ekki á augað.  Lenda upp á enni eða niður á kinn.  Þar fer dýr dropi til spillist.  Augndropatrektin leysir málið.  Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu.  Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað. 

bananabox

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður;  orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum.  Í því ástandi fer hann illa í vasa.  Klessist og atar vasann.  Bananaboxið er lausnin.  Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins.  Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman;  man ekki stundinni lengur hvað er hvað.  Bananaboxið lítur út eins og banani.  Enginn ruglast á því.  

melónur sem staflast vel

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum.  Þær staflast illa;  kringlóttar og af öllum stærðum.  Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar.  Þær eru ræktaðar í kassa.  Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.  

vatnsmelóna 


Hugljúf jólasaga

  Sveinn hét maður. Hann var stórskorinn, brúnaþungur en hokinn í herðum;  nefið breitt og eyru útstæð.  Hann var náfrændi fjarskylds ættingja síns vestur á fjörðum. Þeir þekktust ekkert og eru nú báðir úr sögunni.

  Víkur þá sögu að vinnufélögunum Kolla og Tóta. Að löngum vinnudegi loknum plataði Kolli Tóta til að skutla sér heim. Gulrótin sem hann notaði var að lofa Tóta að bjóða honum upp á kaffi og döðlu. Sem hann sveik þegar á reyndi. Hann átti ekki einu sinni döðlu. Komnir heim að hrörlegum tveggja hæða kofa Kolla sótti hann stiga sem lá við húshliðina og reisti hann upp við framhliðina.

  - Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.

  - Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.

  Kolli brá við skjótt og sparkaði í gegnum rúðu í kjallaraglugga. Hún mölbrotnaði. Hann gerði sig líklegan til að skríða inn um opið. Tóti kallaði:

  - Ertu ekki með lykil að útidyrunum?

  - Jú, en mér þykir skemmtilegra að fara svona inn í húsið. Reyndar eru útidyrnar ólæstar. Nú fæ ég nóg að gera við að setja nýja rúðu í kjallaragluggann. Alltaf gott að hafa eitthvað fyrir stafni. Vinna göfgar.

  - En hvað með stigann?

  - Það er ekkert með hann. Bara reisn yfir því að sjá myndarlegan mann styðja við stiga sem enginn er að nota.

  Í þeim töluðu orðum stakk Kolli sér inn um gluggann. Hann veinaði skrækum rómi er glerbrotin skáru í útlimi. Svo hlunkaðist hann blóðrisa á gólfið. Samstundis spratt hann upp eins og stálfjöður; stangaði vegg, rotaðist í tæpar tvær mínútur og stakk síðan ringluðu höfðinu út um gluggann. Þeir félagarnir brustu þegar í stað í kröftugan söng svo undir tók í fjöllunum: "Bráðum koma blessuð jólin..."

jólatré


Ennþá fleiri gullmolar úr "Ekki misskilja mig vitlaust!"

  "Þrír skór á verði tveggja."  Útvarpsauglýsing frá íþróttavöruversluninni Under Armour vorið 2018.

  "Komið þið sæl - ég verð því miður að afboða forföll á sambandsþingið - óska ykkur góðs gengis.  Kv. Vigdís."  Vigdís Hauksdóttir.

  "Það er hver höndin upp á móti annarri við að hjálpa hinni."  Þórarinn Kristjánsson frá Hólum í Geiradal að lýsa hjálpsemi sveitunga sinna.

  "Hann var frændi minn til fjölda ára,  flutti svo háaldraður til Reykjavíkur og lést þar á besta aldri."  Langi-Sveinn (Sveinn Sveinsson) vörubílstjóri á Selfossi.

  "Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng."  Ína frá Víðidalsá í Steingrímsfirði (Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir) að kaupa peysu á dóttur sína.

  "Þetta voru ekki góð mistök hjá Herði."  Bjarnólfur Lárusson í knattspyrnulýsingu á Stöð 2.

ekki misskilja mig vitlaust 


Fleiri sýnishorn úr bókinni "Ekki misskilja mig vitlaust!"

  Í síðustu færslu sagði ég frá nýútkominni bók,  "Ekki misskilja mig vitlaust!".  Hér eru nokkur sýnishorn úr henni:  

  "Í Kína eru mannréttindi brotin daglega á hverjum degi." Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fréttakona hjá RÚV.

  "Það dregur úr vexti lambanna að slátra þeim of ungum."  Páll Zóphóníasson.

  "Hann hefur verið með meðfæddan galla frá fæðingu." Hörður Magnússon ,  íþróttafréttamaður Stöðvar 2.

   "Aðalverðlaunin eru ferð á páskamót sem Disney-garðurinn í París heldur í lok árs."  Karl Garðarsson,  fréttamaður á Stöð 2.

  "Ég get bara alveg sagt ykkur að hérna úti við vegamótin fórum við Reynir framhjá að minnsta kosti 100 manna hreindýrahópi."  Gugga Reynis á Vopnafirði.

  "Jæja,  þá erum við allir dánir, bræðurnir, nema ég og Gulla systir."  Árni á Brúnastöðum í Fljótum eftir jarðarför bróður síns á Siglufirði.

ekki misskilja mig vitlaust


Bráðskemmtileg bók

  Í vikunni kom út bókin "Ekki misskilja mig vitlaust!".  Hún inniheldur samantekt á spaugilegum mismælum og ambögum þjóðþekktra manna.  Einkum þeirra sem hafa mismælt sig í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum. Líka er vitnað til annarra.  Til að mynda er titill bókarinnar sóttur í ummæli Guðbjarts Jónssonar.  Hann var löngum kenndur við veitinga- og skemmtistaðinn Vagninn á Flateyri.

  Allar tilvitnanir eru feðraðar.  Þær eru ekki uppdiktaður útúrsnúningur.  Það gefur textanum aukið vægi.  Fjölbreytni er meiri en halda mætti að óreyndu.  Margar tilvitnanir eru einnar línu setning.  Aðrar slaga upp í smásögur.  

  Þrátt fyrir að bókin sé aðeins um 80 blaðsíður þá er textinn það þéttur - án mynda - að lestur tekur töluverðan tíma.  Best er að lesa hana í áföngum.  Japla á textanum í smáum skömmtum.  Sum broslegustu mismælin eru þannig að maður áttar sig ekki á þeim við fyrsta lestur. Önnur er gaman að endurlesa og jafnvel brúka til gamans. 

  Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson.  Í formála segir hann meðal annars:  "Mismæli og ambögur ... og oft er útkoman algjör snilld!  Merkir jafnvel eitthvað allt annað en upp var lagt með og kitlar þá stundum hláturtaugarnar.  Tengist oft misheyrn og misskilningi og auðvitað öllu þar á milli."

  Sýnishorn:

  "Heilbrigðisráðherra tók ákvörðunina að höfðu samræði við lækna." Heimir Már Pétursson,  fréttamaður á Stöð 2.

  "Bíllinn er hálfur á hliðinni."  Telma Tómasson,  fréttakona á Stöð 2.

  "Nú eru allir forsetar þingsins konur í fyrsta sinn."  Páll Magnússon í fréttalestri í Ríkisútvarpinu.

ekki misskilja mig vitlaust

 

 


Auglýst eftir konu

  Eftirfarandi frásögn svipar til brandara sem fór eins og eldur í sinu á níunda áratug síðustu aldar. 

  Færeyskur piltur,  Klakksvíkingurinn John Petersen,  fékk sér far með Dúgvuni,  farþegabáti sem siglir á milli Klakksvíkur og Leirvíkur.  Um borð keypti hann lakkrís og súkkulaðistykki.  Sætaskipan er þannig að allir sitja til borðs með öllum.  Ókunnug stúlka settist við sama borð og John.  Skyndilega tekur hún sig til og brýtur vænan bita af súkkulaðinu.  Honum þótti þetta "ódönnuð" framkoma.  Lét samt eins og ekkert væri og fékk sér sjálfur vænan súkkulaðibita.  Hún braut sér annan bita.  Þá fór að síga í John.  Til að tapa ekki restinni upp í stúlkuna gerði hann sér lítið fyrir og sporðrenndi henni með látum eins og langsoltinn hundur. 

  Kominn á land í Leirvík varð John á að fálma í úlpuvasa sinn.  Þar fann hann súkkulaðið ósnert.  Rann þá upp fyrir honum að hann væri dóninn.  Ekki stúlkan.  Hann hafði étið súkkulaði hennar.  Hún var horfin úr sjónmáli.  Þess vegna hefur hann nú tekið til bragðs að auglýsa eftir henni.  Honum er í mun að biðjast afsökunar og útskýra hvað fór úrskeiðis.   

súkkulaðijohn petersen   


Talnaglögg kona

  Ég var að glugga í héraðsfréttablaðið Feyki.  Það er - eins og margt fleira - í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.  Samt skemmtilegt og fróðlegt blað sem segir frá Skagfirðingum og Húnvetningum.  Þar á meðal Unu.  Ég skemmti mér vel við lestur á eftirfarandi.  Ekki kom annað til greina en leyfa fleirum að skemmta sér.

 

„Feykir, góðan daginn...“

„Já, góðan daginn, hvar sagðirðu að þetta væri?“

„Hjá Feyki. Get ég eitthvað gert fyrir þig?“

„Já, sæll. Ég ætlaði einmitt að hringja í Feyki.“

„Jæja.“

„Já, ég var að hugsa um að gerast áskrifandi. Hef reyndar lengi ætlað að gerast áskrifandi en betra er seint en aldrei, hehe...“

„Jáá, hvað segirðu, gerast áskrifandi, bíddu aðeins meðan ég næ mér í blað og blýant... hvað segirðu, hvert er nafnið?“

„Ég heiti nú Sigurveig Una Sólmundardóttir, fyrrum bókhaldari hjá...“

„Una segirðu... já, og kennitalan?“

„Kennitalan mín er einnmilljarður sexhundruðogellefumilljónir þrjúhundruðfimmtíuogáttaþúsund tvöhundruðfimmtíuogníu.“

„Ha? Hvað sagðirðu?!“

„Ég sagði einnmilljarður sexhundruðogellefumilljónir þrjúhundruðfimmtíuogáttaþúsund tvöhundruðfimmtíuogníu.“

„Já, hérna... kannski er best að fá bara hjá þér Visa-númerið. Ertu ekki annars með kreditkort Una?“

„Jú, það væri ljómandi gott væni, kreditkortanúmerið er fjórar trilljónir áttahundruðsextíuogsjöbilljarðar níuhundruðmilljarðar áttatíuogníumilljónir fimmhundruðþrjátíuogeittþúsund tvöhundruðfimmtíuogsex... Viltu fá endingartímann?“

„Nei, heyrðu Una, ég held ég biðji hana Siggu hérna í afgreiðslunni að hringja í þig í fyrramálið. Ég held það fari betur á því svo það verði enginn ruglingur. Hvað er símanúmerið hjá þér?“ „Jájá, ekkert mál væni minn. Númerið er... bíddu við... já, fyrst eru tvö núll og síðan er þetta bara þrírmilljarðar fimmhundruðtuttuguogáttamilljónir níuhundruðogfjórtánþú....“

„Takk, takk, Una. Við finnum þig á ja.is. Hún Sigga hringir í þig. Blessuð.“ 

 

una


Ný verslun, gamalt verð

  Í vikunni hafa stórar tveggja blaðsíðna auglýsingar birst í dagblöðum.  Þar er boðað að splunkuný verslun verði opnuð með stæl í dag (laugardaginn 1. september).  Gefin eru upp skapleg verð á skóm og fleiri vörum.  Svo skemmtilega vill til að einnig eru gefin upp önnur og hærri verð á sömu vörum.  Fyrir framan þau segir: Verð áður.  Hvernig getur búð vitnað í eldra verð sem gilti áður en hún var opnuð?  


Afi gestrisinn

  V-íslensk frænka mín í Kanada,  Deb Ísfeld,  hefur boðað komu sína til Íslands.  Hún tilheyrir ekki rótgrónu íslensku Ísfeldsættinni.  Langafi hennar,  Guðjón Ísfeld,  tók upp Ísfeldsnafnið er hann flutti vestur um haf í byrjun síðustu aldar.  Margir gerðu það.

  Guðjón var bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal.  Þá bjó Stefán afi minn á Nautabúi í Hjaltadal.  Kindurnar hans fenntu í kaf og drápust.  Við það snöggreiddist afi og hafði vistaskipti við Guðjón frænda sinn. 

  Þegar ég var krakki á Hrafnhóli á sjöunda áratugnum kom Gísli sonur Guðjóns í heimsókn.  Afi var upprifinn af heimsókninni.  Gísli talaði íslensku með enskuívafi.  Er Gísli sat við eldhúsborðið heima tók afi eftir því að kaffibollinn hans tæmdist.  Afi brá við snöggt og sótti kaffikönnuna.  Hún stóð á eldavélarhellu hinumegin í eldhúsinu.

  Afi átti erfitt um gang vegna brjóskeyðingar í mjöðmum.  Utan húss studdist hann við tvo stafi.  Innan húss studdist hann við borð,  bekki og stóla.  Hann fór því hægt yfir með kaffikönnuna.  Í þann mund er hann byrjaði að hella í bolla Gísla spurði pabbi að einhverju.  Gísli svarði snöggt:  "No, no, no!".  Afi hélt að hann ætti við kaffið og væri að segja:  "Nóg, nóg, nóg!".  Afi tautaði:  "Þú ræður því."  Hann brölti með kaffikönnuna til baka.  Gísli horfði í forundran til skiptis á eftir afa og í rétt botnfullan kaffibollann. 

kaffi 

 


Ljótur, ljótari...

  Á dögunum henti það í Norður-Karólínu í Bandaríkjum Norður-Ameríku að maður nokkur lýsti öðrum sem afar ljótum.  Ummælin bárust til viðkomandi.  Hann tók þau nærri sér.  Sameiginlegir kunningjar þeirra hvöttu orðhákinn til að lægja öldur með því að biðjast afsökunar á ummælunum.  Sá svaraði:  "Ef einhver ætti að biðjast afsökunar þá er það sá ljóti fyrir að vera svona ljótur!"

ljótur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband