Færsluflokkur: Lífstíll

Fésbókarsíða færeyskrar hljómsveitar hökkuð - sennilega af Sea Shepherd

  Í fyrravor hélt færeyska hljómsveitin Týr í hljómleikaferð um Bandaríkin og Kanada.  Þá brá svo við að hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd fóru í harða herferð gegn Tý.  Hvöttu fólk til að sniðganga hljómleikana.  Jafnframt boðuðu þau mótmælastöðu fyrir utan hljómleikastaðina.  

  Er það ekki lágkúra að fjölmenn samtök ofsæki fjögurra manna rokkhljómsveit fyrir að vera færeysk?;  komi frá 52 þúsund manna þjóð sem veiðir marsvín.

  Herferð SS gegn hljómleikaferð Týs varð samtökunum til mikillar háðungar.  Hljómleikarnir voru hvarvetna vel sóttir.  Hvergi mættu fleiri en 10 í mótmælastöðu.  Þeir einu sem mættu í mótmælastöðuna voru forsprakki SS,  Paul Watson, og aðrir starfsmenn SS. 

  Nú er hljómsveitin Týr á ný í hljómleikaferð um Bandaríkin.  Ekki heyrist múkk frá SS.  Hinsvegar var Fésbókarsíða Týs hökkuð í spað.  Hún gegnir eðlilega stóru hlutverki í hljómleikaferðinni.  Hakkarinn eða hakkararnir náðu að yfirtaka síðuna.  Honum/þeim tókst að henda öllum liðsmönnum Týs út af síðunni og blokka þá.  Eftir margra daga vesen hefur stjórnendum Fésbókar tekist að koma Fésbókarsíðunni aftur í hendur liðsmanna Týs.    

 


5 tíma svefn er ekki nægur

  Sumt fólk á það til á góðri stundu að hreykja sér af því að það þurfi ekki nema fimm tíma nætursvefn.  Þetta hefur verið rannsakað af New York háskóla í læknisfræði.  Dr. Rebecca Robbins leiddi rannsóknina.  Niðurstaðan er sú að hugmyndin um að fimm tíma svefn sé ekki aðeins bull heldur skaðleg.   

  Þetta stuttur nætursvefn eykur mjög líkur á fjölda lífshættulegra heilsubresta,  svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli og almennt ótímabærum dauða.  Fólki er ráðlagt frá því að horfa á sjónvarp fyrir háttatíma.  Jafnframt er upplýst að neysla áfengra drykkja undir svefn rýri svefngæði.  Frá þessu segir í The Journal Sleep Health en ekki hinu:  Að heppilegast sé að stunda morgundrykkju samviskusamlega.  

  Rannsóknin byggir á yfir 8000 gögnum.   

 

 


Ljósmyndir Lindu hjálpuðu Paul

  "But I´m not the only one," söng John Lennon.  Ég er ekki einn um að hafa áhuga á Bítlunum.  Mest lesna grein á netsíðu breska dagblaðsins The Guardian í dag er spjall við Paul McCartney.  Þar tjáir hann sig um ljósmyndir Lindu heitinnar eiginkonu sinnar.

  Í léttum dúr segist Paul hafa slátrað farsælum ljósmyndaferli hennar.  Áður en þau tóku saman var hún hátt skrifuð í ljósmyndaheimi.  Hún hafði meðal annars unnið til eftirsóttra verðlauna.  Fyrst kvenna átti hún forsíðumynd söluhæsta tónlistartímarits heims,  bandaríska Rolling Stone.  Myndin var af Eric Clapton.  Eftir að þau Paul tóku saman breyttist ímynd hennar úr því að vera verðlaunaljósmyndari í að vera "kona Pauls".  lennon-mccartney 1

  Margar ljósmyndir Lindu hjálpa og heila Paul að gera upp við upplausn Bítlanna.  Sem var honum afar erfið.  Hann telur sig hafa fengið taugaáfall við þann atburð og aldrei náð að vinna sig almennilega úr sorginni sem því fylgdi.  

  Paul þykir vænt um ljósmynd af þeim John sem Linda smellti af um það leyti er hljómsveitin sprakk í loft upp.  Þó að allt hafi lent í illindum þá nutu þeir þess að vinna saman að tónlist fram á síðasta dag.  Samband þeirra hafi verið einstaklega sterkt og náið til lífstíðar,  segir Paul og bendir á að þarna blasi við hamingjusamur John Lennon.

  Önnur ljósmynd sem Paul þykir vænt um segir hann vera dæmigerða fyrir stemmningu og andrúmsloft sem einkenndi samskipti Bítlanna innbyrðis.  Þar heilsast John og Paul í galsa með handabandi.  George og Ringo skemmta sér konunglega yfir gríninu. 

Bítlarnir

 

 

 

   


Gáfnafar Íslendinga slagar í asískar þjóðir

  Flestir vita að Asíubúar eru gáfaðastir allra jarðarbúa.  Þar af skora íbúar Hong Kong og Singapore hæst.  Fast á hæla þeirra koma íbúar Suður-Kóreu,  Japans, Kína og Tævans.  Til að allrar sanngirni sé gætt skal tekið fram að ekki hefur tekist að mæla gáfnafar íbúa Norður-Kóreu.  Að sögn þarlendra fjölmiðla búa stjórnendur ríkisins að yfirnáttúrulegu gáfnafari.  Og yfirnáttúrulegum hæfileikum á flestum sviðum,  ef út í það er farið.   Hafa meira að segja sent mannað geimfar til sólarinnar.

  Færri vita að Ítalir, Íslendingar og Svisslendingar koma þétt upp að Asíubúum í gáfnafari.  Ótrúleg staðreynd ef hliðsjón er höfð af útsendingum frá Alþingi.  Málið er að aðrar þjóðir eru vitlausari. 

  HÉR má sjá listann.  Hann er ekki fullkominn,  eins og að ofan greinir varðandi Norður-Kóreu.  Líka vantar Færeyinga á listann.  Þeir eru flokkaðir með Dönum.  Eiga áreiðanlega sinn þátt í því að Danir ná 9. sætinu. 


Górillur "pósa"

  Flestir reyna að koma þokkalega fyrir þegar þeir verða þess varir að ljósmyndavél er beint að þeim.  Ekki síst þegar teknar eru svokallaðar sjálfur.  Þetta er greinilegt þegar kíkt er á sjálfurnar sem flæða yfir fésbókina. 

  Svona hegðun er ekki einskorðuð við mannfólkið.  Þetta á líka við um górillurnar í þjóðgarðinum í Kongó.  Þær hafa áttað sig á fyrirbærinu ljósmynd.  Þær "pósa";  stilla sér upp bísperrtar og eins virðulegar og mannlegar og þeim er unnt.

  Á meðfylgjandi mynd er önnur górillan eins og hún sé með hönd í vasa.  Afar frábrugðið eðlilegri handstöðu apans.  Hin hallar sér fram til að passa upp á að vera örugglega með á mynd.  Undir öðrum kringumstæðum gengur gorillan á fjórum fótum.

apamyndapamnd 1 

 


Ódýrasta bensínið?

  Hvert olíufyrirtækið á eftir öðru auglýsir grimmt þessa dagana.  Þar fullyrða þau hvert og eitt að þau bjóði upp á lægsta verð.  Hvernig er það hægt?  Lægsta verð þýðir að allir aðrir eru dýrari. Ef öll olíufélögin bjóða sama verð þá er ekkert þeirra ódýrast.  

  Er einhver að blekkja?  Ekki nóg með það heldur er Jón Ásgeir kominn í stjórn Skeljungs.  Í kjölfar var færeyski forstjórinn settur af.  Fleiri fuku í leiðinni.  Við lifum á spennandi tímum,  sagði Þorgerður Katrín þegar bankarnir voru keyrðir í þrot (og kúlulán upp á heila og hálfa milljarða voru afskrifuð á færibandi). 

magn


Fölsk Fésbókarsíða

  Fésbókarvinur minn,  Jeff Garland,  sendi mér póst.  Hann spurði af hverju ég væri með tvær Fésbókarsíður með samskonar uppsetningu.  Sömu ljósmyndir og sömu Fésbókarvinir.  Draugasíðan hafði sent honum vinarbeiðni.  Mín orginal-síða er með 5000 vinum.  Draugasíðan var með 108 vini.  Öllum sömu og orginal-síðan mín.  

  Ég fatta ekki húmorinn eða hvaða tilgangi draugasíðan á að þjóna.  Enda fattlaus.  Jeff hefur tilkynnt FB draugasíðuna.  Vonandi er hún úr sögunni.  Draugasíðan hefur blessunarlega ekki valdið neinu tjóni.  Þannig lagað.  En ginnt 108 FB vini mína til að svara vinarbeiðni.     


Fullur þingmaður

  Eitt sinn er ég brá mér á Ólafsvökuna í Færeyjum þá var íslenskur alþingismaður í sömu flugvél.  Bæði á leiðinni út og á heimleiðinni.  Hann var blindfullur.  Hann átti að ávarpa færeyska lögþingið.  Hvernig það gekk fyrir sig hef ég ekki hugmynd um.  Ég sá hann ekki aftur fyrr en á heimleiðinni.  Þá var hann blindfullur.  Hann stillti sér upp framarlega í vélinni og hóf að raða farþegum í sæti:  "Sest þú hérna, góði minn" og "Sest þú þarna, góða mín."  Fólkið hlýddi.  Flugfreyjan stökk að honum og öskraði:  "Hvern djöfulinn heldurðu að þú sért að gera?  Allir eru með sætanúmerið sitt prentað á flugmiðann!"

  Þingmaðurinn svaraði hinn rólegasti:  "Ég var nú bara að reyna að hjálpa til."


Af hverju reyndi Paul að koma John og Yoko saman á ný?

  John Lennon og Yoko Ono urðu samloka nánast frá fyrsta degi sem þau hittust.  Þau voru yfirgengilega upptekin af og háð hvort öðru.  Þau límdust saman.  Endalok Bítlanna 1969 má að mörgu leyti rekja til þess - þó að fleira hafi komið til.

  Nokkrum árum síðar dofnaði sambandið.  John var erfiður í sambúð.  Hann tók skapofsaköst og neytti eiturlyfja í óhófi.  (Er hægt að dópa í hófi?).  Að auki urðu þau ósamstíga í kynlífi er á leið.  Kynhvöt Yokoar dalaði bratt.  En ekki Johns.  Sennilega spilaði aldur inn í dæmið.  Hún var 7 árum eldri.

  Spennan og pirringurinn á heimilinu leiddi til uppgjörs.  Yoko rak John að heiman.  Sendi hann til Los Angelis ásamt 22ja ára stúlku,  May Pang, sem var í vinnu hjá þeim hjónum.  John hafði aldrei ferðast einn.  Hann var alltaf ringlaður á flugstöðvum.  Sjóndepurð átti þátt í því. Hann var háður ferðafélaga.

  Yoko gaf May ekki fyrirmæli um að verða ástkona Johns.  Hún hefur þó viðurkennt fúslega að dæmið hafi verið reiknað þannig.  Sem varð raunin.

  Verra var að John missti sig algjörlega.  Hann datt í það.  Svo rækilega að hann var blindfullur í 18 mánuði samfleytt.  Hann ákvað meira að segja að drekka sig til dauða.  Fór í keppni við Ringo,  Keith Moon (trommara The Who) og Harry Nilson um það hver yrði fyrstur til að drekka sig til dauða.  Keith og Harry unnu keppnina.  Ýmsu var bætt inn í uppskriftina til að auka sigurlíkur.  Meðal annars að henda sér út úr bíl á ferð.

  Að því kom að fjölmiðlar birtu ljósmynd af John langdrukknum og blindfullum til vandræða á skemmtistað.  Hann var með dömubindi límt á ennið.

  Er Paul McCartney sá myndina fékk hann sting í hjartað.  Þekkjandi sinn nánasta fósturbróður sá hann óhamingjusaman, örvinglaðan,  ringlaðan og týndan mann.  Fram til þessa höfðu þeir átt í harðvítugum málaferlum vegna uppgjörs Bítlanna.  Að auki hafði John sent frá sér níðsöng um Paul,  How do you sleep?, og sent honum hatursfulla pósta.    

  Það næsta sem gerðist hefur farið hljótt.  Ástæðan:  Enginn spurði Paul, John og Yoko um það.  Engum datt þessi óvænta atburðarrás í hug.  Paul heimsótti í snatri Yoko.  Vinskapur þeirra hafði aldrei verið mikill.  Eiginlega ekki vinskapur.  En þarna ræddust þau við í marga klukkutíma.  Spjallið varði langt fram á nótt.  Paul bar undir hana alla hugsanlega möguleika á að hún sættist við John og tæki við honum aftur.  Yoko var erfið og setti fram ýmis skilyrði sem John yrði að fallast á.

  Því næst heimsótti Paul blindfullan og dópaðan John og fór með honum yfir kröfur Yokoar. John þurfti umhugsun en féllst að endingu með semingi á kröfur hennar.  Betur er þekkt að Elton John hélt í framhaldi af þessari atburðarrás hljómleika í Bandaríkjunum og bauð Yoko að hitta sig baksviðs.  Þar var þá John.  Þau féllust í faðma og tóku saman á ný.  Eignuðust soninn Sean Lennon.  John lagði tónlist á hilluna í nokkur ár.  Kom svo aftur til leiks sem léttpoppari 1980 - að því er virtist hamingjusamur.  Þá var hann myrtur.  

  Eftir stendur spurningin:  Hvers vegna var Paul mikið í mun að sætta John og Yoko?  Svar:  Í fyrsta lagi saknaði hann fóstbróður síns sárlega.  Í öðru lagi þráði hann að þeir næðu að endurnýja vinskapinn.  Ekki endilega að endurreisa Bítlana heldur að ná sáttum.  Sem tókst.  Þeir skildu í góðum vinskap áður en yfir lauk.  Paul hefur sagt að það hafi hjálpað sér mikið í sorginni sem fylgdi morðinu.

  Til gamans má geta að fyrir nokkrum árum hittust Yoko og May Pang óvænt á Hilton Hóteli í Reykjavík.  Þær þóttust ekki vita af hvor annarri.  Heilsuðust ekki einu sinni.  Einhver ólund í gangi.  Eins og gengur.

bítlabræður og frúrMay Pang

 lennon


Viðbjóðslegir veitingastaðir

  Til margra ára hef ég stundum horft á sjónvarpsþætti enska matreiðslumannsins  Gordons Ramseys.  Hann heimsækir bandaríska veitingastaði.  Smakkar mat þeirra.  Aldrei bregst að hann lýsir mat þeirra sem mesta viðbjóði er hann hefur séð og smakkað.  Það hlýtur að þýða að bandarísk matreiðsla hrörni stöðugt dag frá degi.  Annars gætu þessir matsölustaðir ekki toppað alla fyrri ógeðslegu matsölustaði ár eftir ár.

  Áhugavert er að hann afhjúpar ætíð í leiðinni rosalegan sóðaskap á matsölustöðunum.  Bandrtíska Heilbrigðiseftirlitið er ekki að standa sig. 

  Svo hundskammar hann alltaf óhæfan eiganda staðarins og kokkinn.  Er mjög ruddalegur og árásagjarn í orðum.  Keyrir þá upp að vegg.  Oftast er tekist hart á í orðum.  Svo gefur hann þeim góð ráð.  Viðkomandi knúsar hann í lok þáttar og allt verður gott. Þetta er ljómandi skemmtilegt sjónvarpsefni.  Eitt það besta er að nægilegt er að horfa á tíunda hvern þátt.  Hinir eru allir eins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband