Færsluflokkur: Lífstíll
13.4.2018 | 02:11
Reykvískur skemmtistaður flytur til Benidorm
Um árabil var Ob-la-di Ob-la-da einn áhugaverðasti skemmtistaður landsins. Hann var staðsettur á Frakkastíg. Alltaf troðfullt út úr dyrum. Iðulega komust færri inn en vildu. Sérstaða staðarins var að þar spiluðu þekktir tónlistarmenn lög úr smiðju Bítlanna. Einungis Bítlalög. Ekkert nema Bítlalög. Sjaldnast í upprunalegum útsetningum. Samt stundum í bland.
Bassaleikarinn Tómas heitinn Tómasson hélt utan um dagskrána. Hann var jafnframt fasti punkturinn í hljómsveitunum sem komu fram, hvort sem þær kölluðust Bítladrengirnir blíðu eða eitthvað annað. Meðal annarra sem skipuðu húshljómsveitina ýmist fast eða lauslega voru gítarleikararnir Magnús R. Einarsson, Eðvarð Lárusson, Gunnar Þórðarson; trommuleikarinn Ásgeir Óskarsson; söngvararnir Andrea Gylfadóttir, Egill Ólafsson og Kormákur.
Að degi til um helgar spilaði Andrea Jónsdóttir vel valin Bítlalög af hljómplötum. Alltaf var rosalega gaman að kíkja á Ob-la-di. Útlendir Bítlaaðdáendur sóttu staðinn. Þar á meðal Mike Mills úr bandarísku hljómsveitinni R.E.M. Hann tróð upp með húshljómsveitinni. Mig rámar í að Yoko Ono hafi kíkt inn. Líka gítarleikari Pauls McCartneys.
Svo kom reiðarslagið. Lóðareigendur reiknuðu út að arðvænlegt yrði að farga húsinu og reisa í staðinn stórt hótel. Ob-la-di var hent út. Um nokkra hríð stóð til að Ob-la-di myndi flytja upp í Ármúla 5 í húsnæði sem þá hýsti frábæran skemmtistað, Classic Rock.
Leikar fóru þannig að kínverskt veitingahús keypti Classic Rock. Þá var ekki um annað að ræða en kanna möguleika á Spáni. Í morgun skrifaði eigandi Ob-la-di, Davíð Steingrímsson, undir húsaleigusamning í Benidorm. Innan nokkurra vikna opnar Ob-la-di á ný. Að þessu sinni í Benidorm.
Ob-la-di er ekki fyrsti íslenski skemmtistaðurinn sem flytur búferlum til útlanda. Fyrir nokkrum árum flutti heimsfrægur skemmtistaður, Sirkus, frá Klapparstíg til Þórshafnar í Færeyjum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.4.2018 | 04:42
Nauðsynlegt að vita
Íslendingar sækja í vaxandi mæli sólarstrendur út um allan heim. Aðallega sunnar á hnettinum. Vandamálið er að mannætuhákarlar sækja líka sumar af þessum ströndum. Mörg góð manneskjan hefur tapað fæti eða hendi í samskiptum við þá.
Hlálegt en satt; að hákarlinn er lítið sem ekkert fyrir mannakjöt. Hann sér allt óskýrt. Þegar hann kemur sínu sjódapra auga á manneskju þá heldur hann að þar sé selur. Hann elskar selspik. Eins og ég.
Hákarl er lélegur í feluleik. Hann fattar ekki að þegar hann syndir nærri yfirborði sjávar þá stendur uggi upp úr. Þetta skiptir ekki máli gagnvart selum sem synda neðansjávar. Manneskja sem kemur auga á hákarlsugga tekur hinsvegar eftir ógninni. Verstu viðbrögð eru að taka hræðslukast og sprikla í átt að landi. Það vekur aðeins athygli hákarlsins og espar hann upp. Hann heldur að þar sé selur að reyna undankomu. Stekkur á bráðina og fær sér bita.
Í þessum kringumstæðum hefur manneskjan tvo betri kosti en flótta. Önnur er að grípa um sporð ókindarinnar og hlaupa með hana snaröfuga upp í strönd. Hún kemur engum vörnum við. Sveigjanleiki skrokksins er svo takmarkaður.
Hin aðferðin er að ríghalda kvikindinu kjurru. Hákarl drukknar umsvifalaust ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu.
Lífstíll | Breytt 2.4.2018 kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2018 | 07:46
Það er svo undarlegt með augabrúnir
Augabrúnir eru til prýðis. Þær hjálpa til við að ramma andlitið inn. Jafnframt gegna þær því göfuga hlutverki að hindra að sviti bogi niður enni og ofan í augu.
Konur hafa löngum skerpt á lit augabrúnna. Á síðustu árum er algengt að þær láti húðflúra augabrúnastæðið. Það er flott. Í sunnanverðum Bandaríkjunum eru konur kærulausari með þetta. Þær eru ekkert að eltast við augabrúnastæðin af nákvæmni. Iðulega raka þær af sér augabrúnirnar og láta húðflúra augabrúnir uppi á miðju enni. Eða stílisera lögun augabrúnna á annan hátt. Fögnum fjölbreytni!
19.3.2018 | 01:59
Hvenær er sumarfrí SUMARfrí?
Á eða í Smáratorgi eru tveir ljómandi góðir matsölustaðir. Annar er asískur. Þar er hægt að blanda saman allt að þremur réttum. Einhverra hluta vegna er það 100 krónum dýrara en að blanda saman tveimur réttum. Ódýrast er að kaupa aðeins einn rétt. Engu að síður er eins réttar skammturinn alveg jafn stór og þriggja rétta máltíðin. Verðið ætti þess vegna að vera hið sama.
Hinn veitingastaðurinn heitir Food Station. Margir rugla honum saman við Matstöðina vestast í Kópavogi. Nöfnin eru vissulega lík. Annað þó þjóðlegra. Þessa dagana er Food Station lokuð. Á auglýsingatrönu fyrirtækisins stendur: "Lokað vegna sumarleyfa frá 15. mars til 4. apríl". Í mínum huga er ekkert sumarlegt við mars. Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl. Hann er meira að segja of snemma. Myndi heita vordagurinn fyrsti ef ekki væri nokkru áður frjósemishátíð vorsins, kennd við frjósemisgyðjuna Easter (páskar).
17.3.2018 | 06:25
Samgleðjumst og fögnum!
Aldrei er hægt að gera Íslendingum til hæfis. Stöðugt er kvartað undan lágum launum, lélegri sjónvarpsdagskrá og öðru sem skiptir máli. Nú beinist ólund að Neinum fyrir það eitt að forstjórinn náði að hækka laun sín um 20,6% á milli ára.
Að óreyndu mátti ætla að landsmenn samfögnuðu forstjóranum. Það væri gleðifrétt að eigendur Neins - lífeyrissjóðirnir og lífeyrissjóðsfélagar - hefðu efni á að borga honum næstum 6 milljónir á mánuði (þrátt fyrir hratt minnkandi hagnað olífélagsins undir stjórn ódýra forstjórans). En ónei. Í samfélagsmiðlum og heitum pottum sundlauga hvetja menn hvern annan til að sniðgöngu. Með þeim árangri að um þessar mundir sjást fáir á ferli við bensínstöðvar fyrirtækisins. Eiginlega bara hálaunamenn, svo sem stjórnarmenn lífeyrissjóðanna.
Svo verður þetta gleymt eftir helgi.
![]() |
Allir fái sömu hækkun og forstjórinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 18.3.2018 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.3.2018 | 03:42
Hvaða áhrif hefur tónlist?
Nútímatækni heilaskanna og allskonar græja hafa staðfest að tónlist hefur gríðarmikil áhrif á okkur. Það var svo sem vitað fyrir. Bara ekki mælt með myndum af starfsemi heilans.
Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að sérútfærð músík spiluð í stórmörkuðum getur aukið sölu um fjórðung. Það er rosalega mikið.
Hver og einn einstaklingur þekkir að músík hefur áhrif. Sum lög koma okkur í gott stuð. Önnur framkalla angurværð. Enn önnur framkalla minningar.
Þegar hlustað er á músík verður virkni heilans mikil. Þar á meðal heilastöðvar sem hafa að gera með athyglisgáfu, námsgetu, minni og framtíðaráform.
Tónlist kemur umsvifalaust af stað öflugri framleiðslu á vellíðunarboðefninu dópamín. Það og fleiri boðefni heilans eru á við öflug verkjalyf og kvíðastillandi. Eru að auki örvandi gleðigjafar og efla varnarkerfi líkamans svo um munar. Til viðbótar bætist við framleiðsla á hormónum sem einnig efla varnarkerfi líkamans.
Sjúklingar sem hlusta á sína uppáhaldsmúsík áður en þeir gangast undir uppskurð framleiða hormónið cortisol. Það eyðir áhyggjum og streitu.
Þegar hlustað er á uppáhaldstónlist þá verða viðhorf gagnvart öðrum jákvæðari. Fólk verður félagslyndara. Finnur jafnvel fyrir sterkri löngun til að bjóða upp í dans.
Börn sem læra á hljóðfæri stækka þann hluta heilans sem hefur að gera með sköpunargáfu í víðtækustu merkingu. Sú er ástæðan fyrir því að flestir tónlistarmenn eru jafnframt áhugasamir um aðrar listgreinar. Bítlarnir eru gott dæmi. John Lennon var myndlistamaður og rithöfundur. Paul McCartney var áhugateiknari og sendi frá sér teiknimyndabók. George Harrison var með leiklistadellu og gaf út kvikmyndir Monthy Pyton. Ringo Starr var einnig með leiklistadellu. Hann lék í fleiri kvikmyndum en Bítlamyndum. John Lennon sagði að ef liðsmenn Bítlanna hefðu ekki náð saman á réttu augnabliki og á réttum forsendum þá hefði aðeins Ringo náð að spjara sig. Hann væri það hæfileikaríkur leikari.
Hægur taktur tónlistar lækkar blóðþrýsting. Hún er einnig besta meðal gegn mígreni og höfuðverk. Meira en það: Hlustun á uppáhaldstónlist dregur mjög svo verulega úr flogaköstum veikra. Músíkástríða mín sem barns kvað niður flogaveikiköst (þau voru af gerð sem kallast drómasýki).
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.2.2018 | 19:55
Grænlendingum fækkar
Íslendingum fjölgar sem aldrei fyrr. Veitir ekki af. Einhverjir þurfa að standa undir klaufalegum fjárfestingum lífeyrissjóða. Líka ofurlaunum stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Tröllvaxinn ferðamannaiðnaður kallar á vinnandi hendur. Rótgrónir Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, við þrif eða við ummönnun. Þá koma útlendingar til góða sem gerast íslenskir ríkisborgarar.
Á síðasta áratug - 2007-2017 - fjölgaði Íslendingum svo um munar. Ekki vegna frjósemi heldur vegna innflytjenda. 2007 voru Íslendingar 307 þús. Í dag erum við nálægt 350 þús.
Færeyingar eru frjósamastir norrænna þjóða. Þeir eru iðnir við kolann. Enda fegurstir og kynþokkafyllstir. 2007 voru þeir 48 þús. Í dag eru þeir yfir 50 þús.
Norðmönnum fjölgaði um 12,3%. Þökk sé innflytjendum. Meðal annars Íslendingum í þúsundatali. Flestir með meirapróf. Íbúar Noregs, Finnlands og Danmörku eru hver um sig vel á sjöttu milljón. Svíar eru 10 milljónir. Samanlagt erum við norrænu þjóðirnar um 30 milljónir. Fjölgar árlega.
Verra er að Grænlendingum fækkar. Undanfarin ár hafa þeir ýmist staðið í stað eða fækkað. 2007 voru þeir næstum 57 þúsund. Í fyrra voru þeir innan við 56 þúsund. Ekki gott. Á móti vegur að íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér rétt til gullgrafar á Grænlandi.
Lífstíll | Breytt 21.2.2018 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2018 | 07:13
Færeyingar innleiða þorrablót
Þorrablót er gamall og góður íslenskur siður. Ungt fólk fær tækifæri til að kynnast fjölbreyttum og bragðgóðum mat fyrri alda. Það uppgötvar að fleira er matur en Cocoapuffs, Cheerios, pizzur, hamborgarar, djúpsteiktir kjúklingabitar og franskar kartöflur. Flestir taka ástfóstri við þorramat. Þannig berst þorramatarhefðin frá kynslóð til kynslóðar.
Víða um heim halda Íslendingafélög myndarleg þorrablót. Í einhverjum tilfellum hefur fámennur hópur Íslendinga í Færeyjum haldið þorrablót. Nú bregður svo við að Færeyingar halda þorrablót næsta laugardag.
Skemmtistaðurinn Sirkus í Þórshöfn, kráin Bjórkovin (á neðri hæð Sirkuss) og Borg brugghús á Íslandi taka höndum saman og bjóða Færeyingum og Íslendingum á þorrablót. Allar veitingar ókeypis (þorrablót á Íslandi mættu taka upp þann sið). Boðið er upp á hefðbundinn íslenskan þorramat, bjórinn Surt, snafs og færeyskt skerpukjöt.
Gaman er að Færeyingar taki þorrablót upp á sína arma. Hugsanlega spilar inn í að eigandi Sirkus og Bjórkovans, Sunneva Háberg Eysturstein, vann sem dyravörður á íslenska skemmtistaðnum Sirkus við Klapparstíg um aldarmótin. Hér kynntist hún þorrablótum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.2.2018 | 01:01
Eggjandi Norðmenn
Ólympíuleikar voru að hefjast áðan í Seúl í Suður-Kóreu. Meðal þátttakenda eru Norðmenn. Með þeim í fylgd eru þrír kokkar. Þeir pöntuðu 1500 egg. Íbúar Kóreu eru um 100 milljónir eða eitthvað álíka. Nágrannar eru 1400 milljónir Kínverjar og skammt frá 1100 milljónir Indverjar. Til samanburðar eru 5 milljónir Norðmanna eins og smáþorp. Þess vegna klúðruðu kóresku gestgjafarnir pöntun norsku kokkanna. Í stað 1500 eggja fengu Norsararnir 15.000 egg. Mataræði norskra keppenda á Ólympíuleikunum verður gróflega eggjandi.
Hvað fá þeir í morgunmat? Væntanlega egg og beikon. En með tíukaffinu? Smurbrauð með eggjum og kavíar. Í hádeginu ommelettu með skinkubitum. Í síðdegiskaffinu smurbrauð með eggjasalati. Í kvöldmat ofnbakaða eggjaböku með parmaskinku. Með kvöldkaffinu eggjamúffu með papriku. Millimálasnakk getur verið linsoðin egg.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.1.2018 | 06:04
Uppreisn gegn karllægu tungumáli
Íslenskan er mjög karllægt tungumál. Jón Gnarr hefur tekið eftir því. Hann stýrir skemmtilegum síðdegisþætti á Rás 2 á laugardögum (Sirkus Jóns Gnarr). Þar sker hann meðvitað upp herör gegn þessum kynjahalla tungumálsins. Heyrist þá glöggt hvað hallinn er yfirþyrmandi og allt í kring. Þannig til að mynda ávarpar hann hlustendur með orðunum: "Komið þið sælar hlustendur góðar."
Svo einkennilega vill til að einstök erlend tungumál eru líka karllæg. Eitt þeirra er enska. Yfirstjórn breskra hermála gerir nú gangskör í að leiðrétta þetta. Hún hefur tekið saman lista upp á tvær blaðsíður yfir orð sem má ekki nota í hernum og hvaða orð skuli nota í staðinn. Dæmi (rauðu orðin eru bannorð. Hin eiga að koma í þeirra stað):
Maður = fólk, persóna
Heiðursmannasamkomulag = óskráð samkomulag
Húsmóðir = heimavinnandi
Drenglyndi = sanngirni
Önnur dæmi er erfitt að þýða yfir á íslensku öðruvísi en lenda á eintómum karllægum orðum. Þar á meðal þessi:
Manpower = human resources
Forefathers = ancestors, forebears
Delivery man = delivery clerk, courier
Mankind = humanity, humankind, human race, people
Margir breskir hermenn hafa brugðist ókvæða við. Þeim finnst að herinn eigi að sinna hagnýtari hlutum en að endurskrifa tungumálið. Talsmenn hersins segja á móti að þetta sé hagnýtt skref inn í framtíðina. Það muni auðvelda yfirmönnum að ávinna sér virðingu og traust á meðal kvenna, samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, kynskiptinga og svo framvegis. Herinn þarf á því að halda.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)