Færsluflokkur: Ferðalög

Níræður maður fraus fastur

  Næstum níræður kappi (88 ára),  sprækur og hress, brá sér á veiðar á litlu skektunni sinni núna á þriðjudagsmorgun.  Hann lét hvorki hörkufrost né veðurspá um ennþá kaldara veður hafa áhrif á sig.  Reyndar veitti hann því enga eftirtekt.  Hann hafði um annað að hugsa.  Honum þykir ekkert skemmtilegra en dúlla í skektunni sinni í Nakskov-firði í Danmörku.

  Kallinn var varla fyrr komin um borð en veðurguðirnir tóku stjórnina.  Hávaðarok feykti skektunni á miklum hraða þvert yfir fjörðinn.  Um 100 metrum frá landi stöðvaðist skektan loks í íshröngli.  Ísinn var of þunnur og mjúkur til að hægt væri að ganga á honum.  En nógu þéttur til að skektan fraus þar föst umsvifalaust.  Alveg pikkföst.  

  Kallinn var ekki með neinn búnað til að gera vart við sig.  Hann neyddist til að húka aðgerðalítill í skektunni í fjóra klukkutíma.  Hann hafði ekki einu sinni krossgátublað meðferðis til að stytta sér stundir.  Þess í stað starði hann vonlausum augum upp á land.  Hann var alveg ráðalaus.

  Um klukkan eitt eftir hádegi kom undrandi Dani auga á úr mikilli fjarlægð að maður sat í pikkfrosinni skektu úti á firði.  Hann hafði þegar í stað samband við neyðarlínuna.  Þar á bæ var ræstur út björgunarbátur,  sjúkrabíll og læknir.  Sá gamli var orðinn helkaldur,  lamaður af hræddur og ræfilslegur þegar björgunarsveitin fiskaði hann upp úr bátnum.  Hann skammaðist sín ógurlega og hefur heitið björgunarsveitinni því að gera þetta aldrei aftur.  Ekki einu sinni þó hann yrði píndur með flísatöngum og snúið upp á bakið á honum.  Hann dvelur nú á sjúkrahúsi þangað til mesti hrollurinn er farinn úr honum.

frosinn skektagamli sjóarinnsjúkrabíll   


mbl.is Útlit fyrir versnandi veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er svo auðvelt að búa til ódýran og flottan sportbíl

  Sumir halda að það sé meiriháttar mál að búa til glæsilegan og að þvi er virðist dýran sportbíl.  Það er samt svo lítið mál að það er broslegt.  Og kostar svo lítið.  Hér er þetta sýnt stig af stigi.  Þetta er svo einfalt og auðvelt að við getum flokkað það undir sparnaðarráð.  Vindum okkur í þetta:

.  bílasmíði 1

  Það þarf aðstöðu í bílskúr eða bílakjallara fjölbýlishúss.  Eða þokkalega rúmgóða stofu með stórum útkeyrsludyrum.  Þetta gengur ekki upp í kjallara með venjulegum 60 cm breiðum dyrum.

bílasmíði2

  Einföldustu útgáfu af bílagrind og sætum.

bílasmíði 3 

  Dekk undan reiðhjólunum.

bílasmíði 4

  Létta grind.

bílasmíði 5

  Skera niður pappa til að átta sig á útlínum bílsins.

bílasmíði 6

  Það er gott að hafa fyrirmynd til að átta sig á hlutföllum.

bílasmíði 7

bílasmíði 8 bílasmíði 9bílasmíði 10 

  "Boddý-ið" er búið til úr fisléttum og sveigjanlegum plaströrum.  Það er síðan þakið með venjulegu brúnu innpökkunarlímbandi.

bílasmíði 11

  Ljósin þurfa að vera að sínum stað.  Það skiptir máli.

bílasmíði 12bílasmíði 14bílasmíði 15bílasmíði 16

  Þetta er dáldið flott.  Bíllinn kominn á götuna með númeri.

bílasmíði 17

  Þá er bara að bjóða farþega í bíltúr.

bílasmíði 18

  Flottasti bíllinn í umferðinni.  Samsettur úr reiðhjóladekkjum og innpökkunarlímbandi.

 


Hver þarf sendibíl ef hann á hjól?

  Þegar flytja þarf eitthvað á milli staða,  eitthvað sem er stærra en lítill innkaupapoki úr matvöruverslun,  þá dettur fólki yfirleitt aldrei annað í hug en að hringja á sendibíl.  Helst með lyftu og trillu.  Þetta þekki ég vegna þess að ég ek um á sendibíl.  Staðreyndin er þó sú að það er miklu þægilegra að selflytja vörur á litlu og lipru hjóli.       

hver þarf vörubíl --------hver þarf vörubíl ---------hver þarf vörubíl -------hver þarf vörubíl Ahver þarf vörubíl Bhver þarf vörubíl ----

  Í fljótu bragði er ekki auðséð hvað hér er á ferð.  Við nánari skoðun kemur í ljós að þarna er verið að ferja stóran og glæsilegan spegil.


Sparnaðarráð

margir í bíl A

  Það er rosalega dýrt að keyra um Ísland.  Bara stuttur rúntur fram og til baka á milli Reykjavíkur og Egilsstaða getur kostað 20 þúsund kall eða meira.  Þegar manneskja ferðast ein er eðlilegast og ódýrast að ferðast á puttanum.  Það er aðeins snúnara þegar stórfjölskyldan ferðast saman:  Mamma,  pabbi,  amma,  afi,  börn,  barnabörn og bíll.  En það er engin ástæða til að leggja árar í bát.

  Til að spara bensínkostnað undir þessum kringumstæðum þarf aðeins að komast yfir kaðalspotta.  Síðan er drekkhlöðnum bílnum lagt úti í kanti,  rétt við bæjarmörkin.  Næsti bíll sem á leið hjá er stoppaður.  Við bílstjóra þess bíls er sagt:  "Hann drap á sér hjá mér.  Ertu til í að leyfa honum að hanga spölkorn aftan í þínum bíl?  Ég er ekki að fara langt."

  Trixið er að framlengja stöðugt hvert ferð er heitið.  Miklu skiptir að vera kurteis.  Segja:  "Það er bara aðeins lengra,  vinurinn.  Við erum alveg að verða komnir."

  Á ársgrundvelli getur þessi aðferð sparað hundruð þúsunda. 

-------------------------------------

Fleiri sparnaðarráð:

 http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1099543/

http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1031748/

     


Bráðskemmtilegar ljósmyndir af geitum

geit 

   Geitur eru góðar skepnur.  Geitamjólk er hollari en kúamjólk.  Reyndar er kúamjólk óholl.  Óþol gagnvart geitamjólk er næstum óþekkt.  Enda étur geitin næstum allt:  Hún sporðrennir girðingarstaurum,  gaddavír og fátt þykir henni betra að jórtra á en niðursuðudósum.  Það halda geitinni engin bönd.  Hún étur þau.

  Geitinni þykir gaman að klifra upp þverhnípta hamra og veggi.  Geitur hafa keppnisskap eins og Guðjón Þórðarson,  eða hvað hann heitir þessi fótboltaþjálfari sem er alltaf öskrandi á leikjum og bítur fólk í nefið utan vallar.

  Geitin vill alltaf sýna sig fyrir öðrum geitum.  Ef ein geit klífur hátt upp klettavegg reynir önnur geit að klifra ennþá hærra.  Og þannig koll af kolli.

  Hér eru skemmtilegar ljósmyndir af geitum í Wyoming í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þær keppast daglangt við að rölta um snarbrattan brúarvegg.  Það er bannað að gera þeim hverft við.  Annars er hætta á að þær rúlli niður vegginn.  Það þykir þeim niðurlægjandi. 

  Varast ber að rugla saman fjallageitum (með litlu f) og Fjallageitum.  Síðarnefnda fyrirbærið er gönguhópur fólks á höfuðborgarsvæðinu. 

fjallageitur.jpg

fjallageitura_1033895.jpg fjallageiturc_1033898.jpgfjallageiturd.jpg


Öðruvísi flugfélag - með húmor

kulula 2kulula 5kulula 6kulula 7kulula 8

  Í Suður-Afríku er vinsælt flugfélag sem heitir Kululat.  Þar ráða grínarar ferð.  Þetta er flugfélag sem líkja má við "Besta flokkinn".  Merkingar á flugvélum Kululat ganga út á grínið.  Sami grallaragangur einkennir ávarp flugfreyja og flugþjóna.  Dæmi:  "Við lendingu eru farþegar beðnir um að taka með sér farangur en mega þó skilja eftir eitthvað sem flugáhöfn getur gert sér gott úr."

  Í hátalarakerfi flugvélarinnar hefur meðal annars verið tilkynnt:  "Það eru 50 leiðir til að yfirgefa kærustuna/kærastann.  En hér eru aðeins 4 útgöngudyr."

  Í ókyrrð í lofti komu þessi skilaboð:  "Setjið fyrst á ykkur súrefnisgrímur áður en þið bjargið börnum ykkar.  Ef ókyrrðin gengur ekki yfir þá vinsamlegast veljið uppáhalds barnið ykkar til að bjarga."

  Önnur tilkynning frá flugstjóra:  "Ef þið viljið reykja þá vinsamlegast gerið það úti á flugvængnum. - Ef ykkur tekst að kveikja í sígarettunni þar."

  Eftir ókyrrð í lofti sagði flugstjórinn:  "Þið ættuð að sjá hér.  Kaffið helltist yfir mig þegar flugvélin hrapaði í loftleysi.  Ég er löðrandi í kaffi að framan."

  Farþegi með húmor hrópaði á móti:  "Það er ekkert miðað við buxurnar mínar að aftanverðu!"  


Hryðjuverkahellt flugfélag

  Hver er ekki hræddur við að fljúga á milli landa og landsvæða?  Hræddur vegna hættunnar á að illgjarnir hryðjuverkamenn leynist meðal flugfarþega og bíði færis til að sprengja flugvélina í loft upp skömmu eftir flugtak.  Þetta er ástæðan fyrir því að við þurfum að undirgangast gegnumlýsingu og leit að vopnum fyrir flugtak.  Meira að segja í sakleysislegu flugi innanlands og til Færeyja eða Grænlands. 

  Nú hefur nýtt flugfélag í Bandaríkjum Norður-Ameríku,  TPA (Terrorsist-Proof Airlines),  fundið upp aðferð til að bjóða upp á hryðjuverkahellt flug.  Aðferðin er einföld.  Farþegar þurfa aðeins að berhátta sig fyrir flug og föt þeirra koma með næsta flugi,  sem er yfirleitt strax daginn eftir.  Þar með sleppur enginn inn í flugvélina með skammbyssur,  sprengjur í skóm,  hnífa eða neitt slíkt.  Mér skilst að Flugvélag Íslands ætli að taka þessa aðferð upp.  Og enginn þarf þá að vera hræddur í flugi til Egilsstaða eða Akureyrar.

nektarflug


Veitingahússumsögn - Færeyskir dagar

Skerpikjøt

 - Veitingahús:  Smurbrauðsstofa Sylvíu,  Laugavegi 170

 - Réttur:  Ræstkjötssúpa og brauð með áleggi

 - Verð:  500 kr. + 1000 kr.

 - Einkunn:  **** (af 5)

  Þessa dagana eru færeyskir dagar á Smurbrauðsstofu Sylvíu.  Þar er boðið upp á ræstkjötssúpu (rast kjöt).  Einnig bakka með fjórum brauðsneiðum.  Á einni brauðsneiðinni er skerpukjöt (skerpikjöt).  Á annarri er færeysk rúllupylsa.  Á þeirri þriðju eru niðursneiddir knettir.  Á þeirri fjórðu eru niðursneiddir fríkadellur.

  Ræst kjöt og skerpukjöt eru hvorutveggja þurrkað lambakjöt.  Ræstkjötið er hryggur og frampartur og hangir skemur uppi.  Það er á stigi svipuðu því sem við köllum siginn fisk.  Skerpukjötið er læri (sjá mynd) og hangir lengur uppi en er ekki jafn þurrt og harðfiskur.  Bæði skerpukjötið og ræstkjötið eru bragðsterk og gefa endingargott eftirbragð.  

  Það er algengt að Íslendingum þyki þetta ekki góður matur þegar það er smakkað í fyrsta skipti.  Eftir að hafa smakkað það oftar vex sterk löngun í að komast í svona kjöt oftar.  Þetta er svipað og löngunin í kæstan hákarl,  kæsta skötu og hangikjöt.  Eitthvað sem maður verður að fá sér í það minnsta árlega.  Helst miklu oftar.

  Ræstkjötssúpunni svipar mjög til íslensku kjötsúpunnar.  Þetta er matmikil grænmetissúpa með rófum,  gulrótum,  lauk,  hrísgrjónum og þess háttar.  Hlutfall ræstkjötsins er minna en kjötið í íslensku kjötsúpunni.  Í Færeyjum er algengt að ræstkjötið sé fjarlægt úr súpunni og borðað sér með soðnum kartöflum.  Á Smurbrauðsstofu Sylvíu er kjötið í súpunni.  Bragðið af ræstkjötinu gefur súpunni töluvert skarpara bragð en er af íslensku kjötsúpunni.  500 krónur fyrir súpuna á Smurbrauðsstofu Sylvíu er gott verð og auðveldar óvönum að smakka.  Innifalið í verðinu er ábót ef einhver er rosalega svangur.  Ég hef aldrei þurft á því að halda.  Súpan er saðsöm og ein besta ræstkjötssúpa sem ég hef fengið.  Alveg súper.  5 stjörnu súpa.

  Það er ósanngjarnt að gefa einföldu "smurðu heimilisbrauði" hefðbundna einkunn (þó ég láti það draga heildareinkunn örlítið niður í þessari umsögn).  Smurðu heimilisbrauði er ekki ætlað að vera veislumatur sem keppir við alvöru "danskt smurbrauð".  Brauðbakkinn gefur góða hugmynd um hefðbundið smurt brauð á færeyskum heimilum.  Þó er skerpukjöt meira til spari í Færeyjum en snætt hvunndags. 

  Færeyska rúllupylsan er keimlík þeirri íslensku.  Sú færeyska er mildari og hlutfall kjöts meira á móti fitu.  Það er töluvert af lauk í henni og smávegis af púðursykri. 

  Knettir eru soðnar fiskbollur.  Uppistöðu hráefnið í knöttum er þorskur og kindamör.  Saman við það er blandað lauk, salti og pipar.  Sumir hafa örlítið af sykri með.  Færeysku knettirnir eru blessunarlega lausir við hveitibragð íslensku fiskbollanna.  Fyrir bragðið (í bókstaflegri merkingu) eru knettirnir eins og ferskari.  Að öðru leyti er bragðið líkt.

  Fríkadellur eru steiktar fiskbollur.  Að öðru leyti eru þær alveg eins og knettir.

  Þannig er frá brauðbökkunum gengið að hægt er að grípa þá með sér heim.  Það er upplagt að gera.  Meðal annars til að gefa öðrum að smakka með sér.  Og þess vegna að grípa með sér nokkra bakka til að eiga daginn eftir.  Jafnvel marga bakka til að eiga í marga daga. 

  Smurbrauðsstofa Sylvíu er lítil og hlýleg.  Þar eru 14 sæti sem raðast við fjögur borð. 

  Færeysku dagarnir standa fram á helgi.  Þið hafið morgundaginn (föstudag til klukkan 22.00) og laugardaginn (opið til klukkan 14.00) til að upplifa færeyska stemmningu í mat fyrir lítinn pening.

      


Jenis av Rana í predikunarferð til Íslands

jenis av rana

  Færeyski lögþingsmaðurinn,  trúarleiðtoginn,  heimilislæknirinn og formaður Miðflokksins er grátklökkur yfir þeim stuðningskveðjum sem rignt hefur yfir hann frá Íslendingum.  Einkum eru Íslendingarnir fagnandi yfir brotum Jenisar av Rana á lögum um upplýsingaskyldu er hann beitti þöggun varðandi barnaníð innan trúfélags síns.  Svo ekki sé minnst á skelegga baráttu Jenisar fyrir því að nýlegt lagaákvæði #266b verði afnumið.  Það kveður á um að bannað sé að ofsækja samkynhneigða.  Jenis av Rana vill að refsilaust sé að lemja homma.  Enda sé það nauðsynlegt þeim til góða svo þeir brenni ekki um eilífð í vítislogum.  Það er kvalafullt.  Jenis av Rana vill ekki að neinn þurfi að upplifa slíkan sársauka.  Og það svona lengi.

  Nú er Jenis av Rana á leið í predikunarferð til Íslands.  Trúfélag nokkurt hefur boðið honum að boða fagnaðarerindi sitt á samkomu hjá því.  Ekki fylgir sögunni um hvaða trúfélag er að ræða.  Aðeins að samkoman verði haldin stutt frá Reykjavík.  Jenis av Rana ætlar að grípa með sér vanan forsöngvara til að gera viðburðinn hátíðlegri.

  Grunur leikur á að Jenis av Rana muni í leiðinni halda námskeið til að kenna hvernig heppilegast er að lumbra með Biblíunni á hommum.  Annað námskeið,  þar sem kennt er hvernig þagga eigi niður barnaníð,  er óþarft.  Íslensku trúfélagarnir eru þaulvanir í því.  Eiginlega atvinnumenn. 

  Áður hefur komið fram að innan um stuðningskveðjurnar frá Íslandi leyndist kveðja frá forstöðumanni 1000 manna trúfélags.  Þau íslensku trúfélög sem eru næst því að vera með 1000 félagsmenn koma varla til greina.  Það eru Ásatrúarfélagið með um 1500 félaga og Búddistar sem eru um 900.  Önnur trúfélög eru töluvert fjölmennari eða fámennari.  Þetta er dularfullt.

  Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort aðrir en íslenskir uppklapparar Jenisar av Rana sýni einhver viðbrögð við heimsókn hans og predikun stutt frá Reykjavík.

  Jenis av Rana hefur einnig orðið var við stuðning heima fyrir.  Hann er með 25 undirskriftir frá Færeyingum undir höndunum því til staðfestingar. 


Svakalegt fjör á Sauðárkróki

Gæran 

  Það er allt að komast í fluggírinn á Sauðárkróki.  Búið er að fjarlægja þaðan hræ af ógangfærum Range Rover sem staðið hefur óhreyfður og óskráður í 4 ár.  Þar með er ekki neitt að vanbúnaði til að landsmenn geti fjölmennt á tónlistarhátíðina Gæruna á Sauðárkróki.  Þetta er í fyrsta skiptið sem þessi tónlistarhátíð er haldin og því um sögulegan viðburð að ræða.  Hátíðin mun vinda upp á sig næstu ár og verða hápunktur í árlegu skemmtihaldi Íslendinga og nágrannaþjóða.  Þá verður mönnum talið til helstu mannkosta að hafa verið á fyrstu Gærunni.

  Á þriðja tug hljómsveita halda úti þéttri dagskrá á Gærunni 13. - 14. ágúst í húsnæði Loðskinns á Sauðárkróki.  Á meðal þeirra sem sjá um fjörið má nefna:

 - Siggi Bahama og Beatur

 - Bróðir Svartúlfs

.
 - Erpur/Sesar A

.
 - Geirmundur Valtýsson

 - Bermuda

.
 - Nóra

.
 - Hoffmann
.

 - Múgsefjun
.
 - Myrká

.
 - Bárujárn

 - Davíð Jóns

.
 - Svavar Knútur

.
 - Biggi Bix

.
 - Gillon

.
 - The Vintage

.
 - Morning after Youth

.
 - Hælsæri

.
 - Fúsaleg Helgi

.
 - Binni Rögg

.
 - Best fyrir
.

 - Sing for me Sandra 

.
 - Jona Byron


  Miðaverð fyrir báða dagana er aðeins 4000 krónur á midi.is (http://midi.is/tonleikar/1/6021. Fimmari við hurð).  Innifalið í því er - auk allra hljómleikanna -aðgangur á þrjár heimildarmyndir um íslenska tónlist og frítt í sund.  Kvikmyndirnar eru hver annarri meira spennandi:


 - Handan Við Sjóinn (2009)
Heimildarmynd um íslenska tónlist

 - The Stars May Be Falling...but the stars look good on you (2009)
Heimildarmynd um tónlistarmanninn Ólaf Arnalds

 - Where´s the snow
Glæný heimildarmynd um Airwaves hátíðinna.
Ekki er um eiginlega forsýningu að ræða heldur svokallaða prufusýningu (screening).

 - http://gaeran.almidill.vefir.net/

 - http://www.facebook.com/pages/Saudarkrokur-Iceland/TONLISTARHATIDIN-GAERAN-2010/109182002449012?ref=ts&__a=24&

 - http://www.facebook.com/#!/event.php?eid=121364547910799&ref=ts

  Fjölmiðlafólk getur náð á aðstandendum Gærunnar í síma:  Ragnar 8975642, Sigurlaug 6604681 og Stefán 8685021.


mbl.is Dularfullur bílþjófnaður á Króknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband