Færsluflokkur: Matur og drykkur
2.11.2018 | 07:27
Hvers vegna þessi feluleikur?
Á níunda áratugnum vann ég á auglýsingastofu. Einn daginn kom Ingvar Helgason á stofuna. Hann rak samnefnda bílasölu. Hann sagðist vera að gera eitthvað vitlaust. Hann væri búinn að kaupa fjölda heilsíðuauglýsinga í dagblöðunum um tiltekinn bíl án viðbragða.
Þegar ég skoðaði auglýsingarnar blasti vandamálið við. Í þeim var bíllinn lofsunginn í bak og fyrir. Hinsvegar vantaði í auglýsingarnar hver væri að auglýsa; hver væri að selja bílinn. Lesandinn gat ekki sýnt nein viðbrögð.
Ég á fleiri sögur af fyrirtækjum sem auglýsa hitt og þetta án upplýsinga um það hver er að auglýsa og hvar hægt er að kaupa auglýstu vöruna.
Í vikunni birtist í Fréttablaðinu heilsíðuauglýsing undir fyrirsögninni "Combo-tilboð". Þar voru myndir af mat og drykk, brauðmeti og allskonar á tilboðsverði. Það er að segja lækkuðu verði - að því er má skiljast.
Undir auglýsinguna er kvittað "netgíró Kvikk". Ekkert heimilisfang. Engin vísbending um hvort um er að ræða sjoppu á Reyðarfirði eða í Keflavík, Stokkseyri eða Hofsósi.
Ég sló inn netgíró.is. Fyrirbærið reyndist vera einhverskonar peningaplottsdæmi. Lánar pening, gefur út greiðslukort og hengir fólk eða eitthvað.
Ég sló inn "kvikk.is". Þar reyndist vera bifreiðaverkstæði. Eftir stendur að ég hef ekki hugmynd um hver er að selja pylsu og gos á 549 kall. Þangað til ég kemst að því kaupi ég pylsu og gos í Ikea á 245 kall. Spara 304 krónur í leiðinni.
Matur og drykkur | Breytt 3.11.2018 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.9.2018 | 04:00
Auglýst eftir konu
Eftirfarandi frásögn svipar til brandara sem fór eins og eldur í sinu á níunda áratug síðustu aldar.
Færeyskur piltur, Klakksvíkingurinn John Petersen, fékk sér far með Dúgvuni, farþegabáti sem siglir á milli Klakksvíkur og Leirvíkur. Um borð keypti hann lakkrís og súkkulaðistykki. Sætaskipan er þannig að allir sitja til borðs með öllum. Ókunnug stúlka settist við sama borð og John. Skyndilega tekur hún sig til og brýtur vænan bita af súkkulaðinu. Honum þótti þetta "ódönnuð" framkoma. Lét samt eins og ekkert væri og fékk sér sjálfur vænan súkkulaðibita. Hún braut sér annan bita. Þá fór að síga í John. Til að tapa ekki restinni upp í stúlkuna gerði hann sér lítið fyrir og sporðrenndi henni með látum eins og langsoltinn hundur.
Kominn á land í Leirvík varð John á að fálma í úlpuvasa sinn. Þar fann hann súkkulaðið ósnert. Rann þá upp fyrir honum að hann væri dóninn. Ekki stúlkan. Hann hafði étið súkkulaði hennar. Hún var horfin úr sjónmáli. Þess vegna hefur hann nú tekið til bragðs að auglýsa eftir henni. Honum er í mun að biðjast afsökunar og útskýra hvað fór úrskeiðis.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
7.9.2018 | 02:11
Fékk sér sushi og missti hönd
Suður-kóreskur gutti slapp í sushi á dögunum. Skipti engum togum að í kjölfarið mynduðust stórar blöðrur á annarri hendi hans. Þær voru fylltar blóði. Læknar stungu á blöðrurnar og hleyptu blóðinu úr þeim. Þá bættust við stór opin sár. Þeim fjölgaði jafnt og þétt upp höndina án þess að hægt væri að stöðva sýkinguna. Neyðarráðstöfun var að fjarlægja höndina af til að bjarga öðrum hluta líkamans.
Hrár fiskur er varasamur. Hrái fiskurinn í sushi inniheldur iðulega bakteríur og orma. Það gerir heilsuhraustum ekki mein að ráði. Í mesta lagi smávægileg magaóþægindi í einn eða tvo daga. Verra er þegar um heilsulitla er að ræða. Eins og í þessu tilfelli. Maðurinn er með léleg nýru og sykursýki 2. Þar að auki er hann á áttræðisaldri og hlustar á Bee Gees.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.9.2018 | 23:48
Veitingaumsögn
- Veitingastaður: PHO Vietnam Restaurant, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík
- Réttir: Grísakótelettur og lambakótelettur
- Verð: 1890 - 3990 kr.
- Einkunn: **** (af 5)
Móðir mín á erfitt með gang eftir að hún fékk heilablóðfall. Vinstri hluti líkamans lamaðist. Öllum til undrunar - ekki síst læknum - hefur henni tekist að endurheimta dálítinn mátt í vinstri fót. Nægilegan til að notast við göngugrind. Henni tekst jafnvel að staulast afar hægt um án grindarinnar.
Þetta er formáli að því hvers vegna ég fór með hana á PHO Vietnam Restaurant. Hún er búsett á Akureyri en brá sér í dagsferð til borgarinnar. Henni þykir gaman að kynnast framandi mat. Ég ók með hana eftir Suðurlandsbraut og skimaði eftir spennandi veitingastað með auðveldu aðgengi fyrir fatlaða. Vietnam Restaurant virtist vera heppilegt dæmi. Ég ók upp á gangstétt og alveg að útidyrahurðinni. Þar hjálpaði ég mömmu út úr bílnum og sagði henni að ég yrði eldsnöggur að finna bílastæði.
Mamma var ekki fyrr komin út úr bílnum en ungur brosmildur þjónn staðarins spratt út á hlað, studdi hana inn og kom henni í sæti. Aðdáunarverð þjónusta. Þetta var á háannatíma á staðnum; í hádegi.
PHO Vietnam Restaurant er fínn og veislulegur staður.
Ég fékk mér grillaðar grísakótelettur. Mamma pantaði sér grillaðar lambakótelettur. Meðlæti voru hvít hrísgrjón, ferskt salat og afar mild súrsæt sósa í sérskál. Á borðum var sterk chili-sósa í flösku. Við forðumst hana eins og heitan eld. Þóttumst ekki sjá hana.
Réttirnir litu alveg eins út. Þess vegna er undrunarefni að minn réttur kostaði 1890 kr. en lambakóteletturnar 3990 kr. Vissulega er lambakjöt eilítið dýrara hráefni. Samt. Verðmunurinn er ekki svona mikill.
Kóteletturnar litu ekki út eins og hefðbundnar kótelettur. Engin fituarða var á þeim. Fyrir bragðið voru þær dálítið þurrar. Vegna þessa grunar mig að þær hafi verið foreldaðar. Sem er í góðu lagi. Ég var hinn ánægðasti með þær. Mömmu þóttu sínar aðeins of þurrar. Að auki fannst henni þær skorta íslenska lambakjötsbragðið; taldi fullvíst að um víetnamskt lamb væri að ræða. Ég hef efasemdir um að veitingastaður á Íslandi sé að flytja til Íslands lambakjöt yfir hálfan hnöttinn. Nema það sé skýringin á verðmuninum.
Kóteletturnar, þrjár á mann, voru matarmiklar. Hvorugu okkar tókst að klára af disknum.
Að máltíð lokinni sagði ég mömmu að hinkra við á meðan ég sækti bílinn. Er ég lagði aftur upp á stétt sá ég hvar brosandi þjónn studdi mömmu út. Annar en sá sem studdi hana inn. Til fyrirmyndar.
Matur og drykkur | Breytt 5.9.2018 kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.8.2018 | 00:00
Nýtt og öðruvísi súkkulaði
Fátt er hollara og bragðbetra en súkkulaði. Einkum svokallað suðusúkkulaði. Fyrirferðarlítill orkubiti í fjallgöngur. Jafnvel líka í eftirleit. Verra er að á allra síðustu árum hafa verið blikur á lofti. Kínverjar eru hægt og bítandi að uppgötva súkkulaði. Þeir eru fimmti hluti jarðarbúa. Þegar þeir uppgötva klósettpappír og eldhúsrúllur getum við kvatt regnskógana.
Óttinn við að Kínverjar klári súkkulaðibirgðir heimsins byggist á smá misskilningi. Ég ræddi þetta í gær við helsta súkkulaðifræðing Íslands. Heimsendaspáin gengur út á óbreytta ræktun kakóbaunarinnar. Hið rétta er að framboð á nýjum ræktarlöndum heldur í við vaxandi eftirspurn.
Ennþá skemmtilegra: Tekist hefur að hanna frá grunni og rækta splunkunýja kakóbaun. Súkkulaði unnið úr henni hefur ekkert með uppskrift á öðru súkkulaði að gera. Þetta er alveg nýtt og sjálfstætt súkkulaði, kallað Rúbin. Bragðið er súkkulaðibragð en samt mjög "spes". Til að skynja muninn er ráð að halda fyrir nefið á meðan súkkulaðinu er stungið upp í munn. Síðan er beðið eftir því að súkkulaðið bráðni á tungunni. Upplagt að ráða krossgátu eða Soduku á meðan. Að því loknu er andað með nefinu á ný. Heillandi og nýstárlegt bragð nýja súkkulaðisins kemur skemmtilega á óvart.
Tekið skal fram að ég sé ekki um auglýsingar fyrir Nóa, Síríus, Freyju, Góu né neina aðra sælgætisframleiðslu. Engin leynd er yfir því að ég vann í Freyju sumarið 1977. 1980-og-eitthvað hannaði ég einhverjar sælgætisumbúðir fyrir Freyju. Kannski eru umbúðirnar um rauðar lakkrísmöndlur enn í umferð? Síðan hef ég ekki átt nein samskipti við Freyju. Þar fyrir utan er ekkert sælgæti framleitt í Færeyjum. Á dögunum hófst þar í fyrsta skipti í sögunni framleiðsla á ís.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2018 | 09:39
Afi gestrisinn
V-íslensk frænka mín í Kanada, Deb Ísfeld, hefur boðað komu sína til Íslands. Hún tilheyrir ekki rótgrónu íslensku Ísfeldsættinni. Langafi hennar, Guðjón Ísfeld, tók upp Ísfeldsnafnið er hann flutti vestur um haf í byrjun síðustu aldar. Margir gerðu það.
Guðjón var bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal. Þá bjó Stefán afi minn á Nautabúi í Hjaltadal. Kindurnar hans fenntu í kaf og drápust. Við það snöggreiddist afi og hafði vistaskipti við Guðjón frænda sinn.
Þegar ég var krakki á Hrafnhóli á sjöunda áratugnum kom Gísli sonur Guðjóns í heimsókn. Afi var upprifinn af heimsókninni. Gísli talaði íslensku með enskuívafi. Er Gísli sat við eldhúsborðið heima tók afi eftir því að kaffibollinn hans tæmdist. Afi brá við snöggt og sótti kaffikönnuna. Hún stóð á eldavélarhellu hinumegin í eldhúsinu.
Afi átti erfitt um gang vegna brjóskeyðingar í mjöðmum. Utan húss studdist hann við tvo stafi. Innan húss studdist hann við borð, bekki og stóla. Hann fór því hægt yfir með kaffikönnuna. Í þann mund er hann byrjaði að hella í bolla Gísla spurði pabbi að einhverju. Gísli svarði snöggt: "No, no, no!". Afi hélt að hann ætti við kaffið og væri að segja: "Nóg, nóg, nóg!". Afi tautaði: "Þú ræður því." Hann brölti með kaffikönnuna til baka. Gísli horfði í forundran til skiptis á eftir afa og í rétt botnfullan kaffibollann.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2018 | 06:18
Fólk kann ekki handaþvott
Bandaríska landbúnaðarráðuneytið stóð á dögunum fyrir vandaðri rannsókn á handaþvotti. Fylgst var leynilega með 393 manns matreiða kalkúnaborgara og salat. 97% kokkanna fengu falleinkunn. Af helstu klúðrum var að þvo aðeins fremsta hluta fingra en ekki á milli þeirra. Annað algengt klúður var að þvo ekki hendur eftir að hafa fiktað í nefi eða öðrum andlitshlutum né eftir að hafa hóstað eða hnerrað í lófa. Þriðja algenga klúðrið var að skola puttana aðeins lauslega í alltof stutta stund. Fjórða klúðrið er að sniðganga þumalinn. Vegna sóðaskapar starfsmanna á veitingastöðum fá margir illt í magann eftir heimsókn þangað.
Svona á að þvo hendur:
- Fyrst skal bleyta hendurnar rækilega í vatni og nugga þær fram og til baka. Klúður er að byrja á því að sápa þær. Sápan dreifist aldrei nógu vel þannig.
- Nugga sápu og vatni vel yfir báðar hendur. Gæta sérlega vel að því að þvo á milli fingra.
- Stóra málið er að gleyma ekki að sápa og þvo þumalinn.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.6.2018 | 02:56
Brjóstagjöf gegn matvendni
Því lengur sem börn eru á brjósti þeim mun síður verða þau matvönd. Þeim mun lystugri verða þau í grænmeti. Ástæðan er sú að bragðið á brjóstamjólk sveiflast til eftir mataræði móðurinnar. Brjóstmylkingurinn venst því að matur sé fjölbreyttur. Þegar mataræði sex ára barna er skoðað kemur í ljós að börn alin á brjóstamjólk sækja í tvöfalt fjölbreyttara fæði en börn alin á vatnsblandaðri þurrmjólk. Jafnframt eru brjóstmylkingarnir viljugri til að prófa framandi grænmeti.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
30.5.2018 | 05:14
Harðfisksúpa víðar en á Íslandi
Harðfisksúpa Baldurs Garðarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli. Ekki síst eftir að hún sigraði með glæsibrag í hugmyndasamkeppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg. Atti harðfisksúpan þar kappi við 106 aðra rétti.
Svo skemmtilega vill til að harðfisksúpa er elduð víðar. Heimsþekktur og margrómaður færeyskur sjávarréttakokkur, Birgir Enni, hefur til margra ára lagað harðfisksúpu. Ég hef gætt mér á henni. Hún er góð.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.5.2018 | 08:22
Paul Watson leiðir mótmælastöðu gegn Tý
Fyrir sléttum mánuði skýrði ég undanbragðalaust frá því að færeyska þungarokksveitin Týr væri að leggja upp í hljómleikaferð til Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada. Um það má lesa með því að smella H É R .
Hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd blésu þegar í stað í herlúðra. Af fullum þunga hófu þau öfluga herferð gegn Tý. Skoruðu á almenning að sniðganga hljómleikana með öllu. Markmiðið var að hljómleikunum yrði aflýst vegna dræmrar aðsóknar.
Ef markmiðið næðist ekki þá til vara myndu samtökin standa fyrir fjölmennri mótmælastöðu við hljómleikasalina.
Svo skemmtilega vill til að mæting á hljómleikana hefur verið hin besta. Sama er ekki að segja um mótmælastöðuna. Hún er spaugilega fámenn. Auk leiðtogans; Pauls Watsons, er þetta 8 eða 9 manns. Eru hljómleikarnir þó í fjölmennustu borgunum.
Bassaleikari Týs, Gunnar Thomsen, ræddi í smástund við Paul fyrir utan hljómleikahöllina í San Diego. Þeir voru ósammála. Gunnar benti honum á að baráttan gegn hvalveiðum Færeyinga væri vonlaus og skili engum árangri. Paul sagðist samt ætla að halda baráttunni áfram svo lengi sem hann lifi.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)