Færsluflokkur: Matur og drykkur

Bullað um rykmaura

  Ný rannsókn leiðir í ljós að svefnbæli simpansa eru snyrtilegri en rúm mannfólks.  Munar miklu þar um.  Þetta hefur vakið undrun og umtal.  Við hverju bjóst fólk?  Að simpansar væru sóðar?  Það eru fordómar.  Simpansar eru snyrtipinnar.  Þess vegna meðal annars skipta þeir ört um svefnbæli.

  Í umræðunni hérlendis hefur mörgum orðið tíðrætt um að rúm fólks séu löðrandi í rykmaurum og rykmauraskít.  Þetta er bull hvað varðar íslensk rúm.  Einhverra hluta vegna er bullið lífseigara og útbreiddara en niðurstöður rannsókna sem sýna annað.  Þær sýna að rykmaurar þrífast ekki á Íslandi.  Hita- og rakastig kemur í veg fyrir það.

  Jú,  það hafa fundist rykmaurar á Íslandi.  Örfáir.  Allir rígfullorðnir.  Engin ungviði.  Það undirstrikar að einu rykmaurarnir á Íslandi séu nýinnfluttir frá útlöndum.  Flækingar sem slæðast með ferðalöngum.  Verða ekki langlífir og ná ekki að fjölga sér.

  Hitt er annað mál að ástæðulaust er að amast við rykmaurum.  Þetta eru tvær vinalegar og ástríkar tegundir.  Önnur er undirlögð kynlífsfíkn á háu stigi.  Báðar tegundir éta dauðar húðfrumur.  Gott að einhver geri það.  

rykmaur    

 


Skelfilegur laxadauði

  Laxeldi í kvíum er í sviðsljósinu í kjölfar áhugaverðrar heimildarmyndar eftir Þorstein J.  Vilhjálmsson.  Hún var sýnd í sjónvarpinu í síðustu viku.  Töluverður vandræðagangur virðist ríkja í laxeldinu hér.  Margt er á gráu svæði sem full ástæða er til að vera á verði gagnvart.

  Arnarlax fyrir vestan skilaði góðu tapi vegna dauða laxa í vetur.  Ofkæling.

  Í Noregi er sömuleiðis sitthvað úr skorðum í laxeldi.  Þar ganga nú yfir skelfileg afföll.  Laxinn drepst í hrönnum.  Í janúar-mars drápust 13,6 milljón laxar.  Það er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra.  Allt það ár drápust 53 milljónir úr veikindum áður náðist að slátra þeim.

  Sökudólgurinn er vandræðagangur með úrgang,  aflúsun og eitthvað þessháttar.   Þetta er dýraníð.

  Eins og með svo margt er annað og betra að frétta frá Færeyjum.  Þar blómstrar laxeldið sem aldrei fyrr.  Nú er svo komið að laxeldið aflar Færeyingum meira en helmingi alls gjaldeyris.  Langstærsti kaupandinn er Rússland.  Íslendingar geta ekki selt Rússum neitt.  Þökk sé vopnasölubanninu sem Gunnar Bragi setti á þá.

  Ólíkt laxeldi á Íslandi er í Færeyjum engin hætta á blöndun eldislax og villtra laxa.  Ástæðan er sú að lítið er um villtan lax í Færeyjum.  Um miðja síðustu öld fengu Færeyingar nokkur íslensk laxaseyði.  Þeim slepptu þeir í tvö lítil vötn sem litlar lækjasprænur renna úr.  Laxveiðar þar eru þolinmæðisverk.  Laxarnir eru svo fáir.  Þegar svo ótrúlega vill til að lax bíti á þá er skylda að sleppa honum aftur umsvifalaust.  

lax

 

 

 

 


Hvað er í gangi?

  Ikea er fyrirmyndarfyrirtæki.  Þar fæst allskonar á þokkalegu verði.  Meðal annars sitthvað til að narta í.   Líka ýmsir drykkir til að sötra.  Í kæliskáp er úrval af ungbarnamauki.  Ég er hugsi yfir viðvörunarskilti á skápnum.  Þar stendur skrifað að ungbanamaukið sé einungis ætlað ungbörnum.  Ekki öðrum.

  Brýnt hefur þótt að koma þessum skilaboðum á framfæri að gefnu tilefni.  Hvað gerðist?  Var gamalt tannlaust fólk að hamstra ungbarnamaukið?  Hvert er vandamálið?  Ekki naga tannlausir grísarif eða kjúklingavængi.

tannlausungbarnamauk


Á svig við lög

  Lög, reglur og boðorð eru allavega.  Sumt er spaugilegt.  Til að mynda að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa.  Mannanafnanefnd er botnlaus uppspretta skemmtiefnis.  Verst að hún þvælist líka fyrir sumu fólki og gerir því lífið leitt.  Þess á milli er hún rassskellt af erlendum dómstólum.  Einnig af einstaklingum.  Austurískur kvikmyndagerðarmaður,  Ernst Kettler,  flutti til Íslands á síðustu öld.  Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt þá var hann skikkaður til að taka upp rammíslenskt nafn.  Hann skoðaði lista yfir öll samþykkt íslensk nöfn og sótti um að fá að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.  Uppi varð fótur og fit.  Ríkisstjórnin hafði leyft heimsfrægum píanóleikara með þessu nafni að fá íslenskan ríkisborgararétt og halda nafninu.  Þar með var það viðurkennt sem íslenskt nafn.  

  Eftir jaml, japl og fuður varð niðurstaðan sú að Alþingi breytti mannanafnalögum.  Felldi niður kröfuna um að innflytjendur þyrftu að taka upp rammíslenskt nafn.  Taldi það skárri kost en að Ernst fengi að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.

  Hestanafnanefnd er líka brosleg.

  Refsilaust er að strjúka úr fangelsi á Íslandi.  Það er að segja ef flóttafanginn er einn á ferð.

  Boðorðin 10 eru að sumu leyti til fyrirmyndar.  Einkum það sem boðar:  Þú skalt ekki girnast þræl náunga þíns né ambátt.  Ég vona að flestir fari eftir þessu.

  Í Noregi er bannað að afgreiða sterkt áfengi í stærri skammti en einföldum.  Þú getur ekki farið inn á bar og beðið um tvöfaldan viskí í kók.  "Það er stranglega bannað að selja tvöfaldan sjúss að viðlagðri hárri sekt og jafnvel sviptingu áfengisleyfis,"  upplýsir þjónninn.  En til að koma til móts við viðskiptavininn segir hann í hálfum hljóðum:  "Þú mátt panta tvo einfalda viskí í kók.  Það er ekki mitt mál að fylgjast með því hvort að þú hellir þeim saman í eitt glas.

double-whisky


Drekkur þú of mikið vatn?

  Vatn er gott og hollt.  Einhver besti drykkur sem til er.  Við Íslendingar erum svo lánssamir að eiga nóg af góðu drykkjarvatni úr krana.  Fæstir jarðarbúa eru svo heppnir.  Þeim mun einkennilegra er að Íslendingar skuli þamba daglega litað sykurleðjuvatn í sama mæli og Bandaríkjamenn.      

  Samkvæmt prófessor í Árhúsum í Danmörku (www.samvirke.dk) er of mikil vatnsdrykkja jafn varasöm og of lítil vatnsdrykkja.  Of mikil vatnsdrykkja getur sett svo mikið álag á nýrun að hún valdi vatnseitrun.  Þig svimar, færð krampa, verður máttlaus og í versta tilfelli deyrð.  Sjaldgæft en gerist þó árlega.

  Þumalputtareglan er sú að drekka ekki meira vatn en sem nemur 1/30 af líkamsþyngd.  60 kílóa manneskju hentar að drekka 2 lítra af vökva á dag.  90 kg manneskju hentar að drekka 3 lítra.  Við útreikninginn er brýnt að taka með í reikninginn allan vökva.  Ekki aðeins vatn.  Líka vökvarík fyrirbæri á borð við súpur, te, agúrkur, tómata og jarðarber.

  


Hvenær er sumarfrí SUMARfrí?

  Á eða í Smáratorgi eru tveir ljómandi góðir matsölustaðir.  Annar er asískur.  Þar er hægt að blanda saman allt að þremur réttum.  Einhverra hluta vegna er það 100 krónum dýrara en að blanda saman tveimur réttum.  Ódýrast er að kaupa aðeins einn rétt.  Engu að síður er eins réttar skammturinn alveg jafn stór og þriggja rétta máltíðin.  Verðið ætti þess vegna að vera hið sama.

  Hinn veitingastaðurinn heitir Food Station.  Margir rugla honum saman við Matstöðina vestast í Kópavogi.  Nöfnin eru vissulega lík.  Annað þó þjóðlegra.  Þessa dagana er Food Station lokuð.  Á auglýsingatrönu fyrirtækisins stendur: "Lokað vegna sumarleyfa frá 15. mars til 4. apríl". Í mínum huga er ekkert sumarlegt við mars.  Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl.  Hann er meira að segja of snemma.  Myndi heita vordagurinn fyrsti ef ekki væri nokkru áður frjósemishátíð vorsins,  kennd við frjósemisgyðjuna Easter (páskar).    

food station

   


Færeyingar innleiða þorrablót

  Þorrablót er gamall og góður íslenskur siður.  Ungt fólk fær tækifæri til að kynnast fjölbreyttum og bragðgóðum mat fyrri alda.  Það uppgötvar að fleira er matur en Cocoapuffs,  Cheerios,  pizzur,  hamborgarar,  djúpsteiktir kjúklingabitar og franskar kartöflur.  Flestir  taka ástfóstri við þorramat.  Þannig berst þorramatarhefðin frá kynslóð til kynslóðar.

  Víða um heim halda Íslendingafélög myndarleg þorrablót.  Í einhverjum tilfellum hefur fámennur hópur Íslendinga í Færeyjum haldið þorrablót.  Nú bregður svo við að Færeyingar halda þorrablót næsta laugardag.  

  Skemmtistaðurinn Sirkus í Þórshöfn,  kráin Bjórkovin (á neðri hæð Sirkuss) og Borg brugghús á Íslandi taka höndum saman og bjóða Færeyingum og Íslendingum á þorrablót.  Allar veitingar ókeypis (þorrablót á Íslandi mættu taka upp þann sið).  Boðið er upp á hefðbundinn íslenskan þorramat, bjórinn Surt, snafs og færeyskt skerpukjöt.

  Gaman er að Færeyingar taki þorrablót upp á sína arma.  Hugsanlega spilar inn í að eigandi Sirkus og Bjórkovans,  Sunneva Háberg Eysturstein,  vann sem dyravörður á íslenska skemmtistaðnum Sirkus við Klapparstíg um aldarmótin.  Hér kynntist hún þorrablótum.

þorramatur 

    


Eggjandi Norðmenn

  Ólympíuleikar voru að hefjast áðan í Seúl í Suður-Kóreu.  Meðal þátttakenda eru Norðmenn.  Með þeim í fylgd eru þrír kokkar.  Þeir pöntuðu 1500 egg.  Íbúar Kóreu eru um 100 milljónir eða eitthvað álíka.  Nágrannar eru 1400 milljónir Kínverjar og skammt frá 1100 milljónir Indverjar.  Til samanburðar eru 5 milljónir Norðmanna eins og smáþorp.  Þess vegna klúðruðu kóresku gestgjafarnir pöntun norsku kokkanna.  Í stað 1500 eggja fengu Norsararnir 15.000 egg.  Mataræði norskra keppenda á Ólympíuleikunum verður gróflega eggjandi.

  Hvað fá þeir í morgunmat?  Væntanlega egg og beikon.  En með tíukaffinu?  Smurbrauð með eggjum og kavíar.  Í hádeginu ommelettu með skinkubitum.  Í síðdegiskaffinu smurbrauð með eggjasalati.  Í kvöldmat ofnbakaða eggjaböku með parmaskinku.  Með kvöldkaffinu eggjamúffu með papriku.  Millimálasnakk getur verið linsoðin egg.     

egg_1.pngegg_2.jpgegg_3.jpgegg_4.jpgegg_5.jpgegg_6.jpgegg_7.jpgegg_8.jpgegg_9.jpgegg_10.jpgegg_11.jpgegg_13.jpgegg_14.jpgegg_16.jpgegg_17.jpg


Íslenskar vörur ódýrari í útlendum búðum

  Íslensk skip hafa löngum siglt til Færeyja.  Erindið er iðulega fyrst og fremst að kaupa þar olíu og vistir.  Þannig sparast peningur.  Olían er töluvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi.  Meira að segja íslenska landhelgisgæslan siglir út fyrir íslenska landhelgi til að kaupa olíu í Færeyjum.  

  Vöruverð er hæst á Íslandi.  Svo einkennilegt sem það er þá eru vörur framleiddar á Íslandi oft seldar á lægra verði í verslunum erlendis en á Íslandi.  Það á við um íslenskt lambakjöt.  Líka íslenskt lýsi.  Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Ásmundur Valur Sveinsson tók í Frakklandi.  Hún sýnir íslenskt skyr, eitt kíló, í þarlendri verslun.  Verðið er 3,39 evrur (417 ísl kr.).

  Hátt vöruverð á Íslandi er stundum réttlætt með því að Ísland sé fámenn eyja.  Þess vegna sé flutningskostnaður hár og markaðurinn örsmár.  Gott og vel.  Færeyjar eru líka eyjar.  Færeyski markaðurinn er aðeins 1/7 af þeim íslenska.  Samt spara Íslendingar með því að gera innkaup í Færeyjum.

  Hvernig má það vera að skyr framleitt á Íslandi sé ódýrara í búð í Frakklandi en á Íslandi - þrátt fyrir háan flutningskostnað?  Er Mjólkursamsalan að okra á Íslendingum í krafti einokunar?  Eða niðurgreiðir ríkissjóður skyr ofan í Frakka?   

isl_skyr_i_frakklandi.jpg


Ármúli þagnar

  Framan af þessari öld voru Ármúli 5, 7 og 9 heitasta svæði landsins.  Þar var fjörið.  Í Ármúla 5 (sama húsi og Múlakaffi) var Classic Rock Sportbar.  Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtistaður landsins.  Hundruð manna góndu á boltaleiki á stórum tjöldum.  Tugir pílukastara kepptu í leik.  Danshljómsveitir spiluðu um helgar.  Þess á milli voru hljómleikar með allt frá hörðustu metal-böndum til settlegri dæma.  Málverkasýningar og fleira áhugavert slæddist með.  Inn á milli voru róleg kvöld.  Þá spjallaði fólk saman við undirleik ljúfra blústóna.  Það var alltaf notalegt að kíkja í Classic Rock Sportbar.

  Í næsta húsi,  á annarri hæð í Ármúla 7 var rekinn hverfisbar sem gekk undir ýmsum nöfnum:  Jensen,  Wall Street,  Pentagon (Pentó, Rússneska kafbátaskýlið),  Elvis (Costello),  Bar 108,  Chrystal...  Hverfispöbb með karókí og allskonar.  Mikið fjör.  Mikið gaman.  

  Á neðri hæðinni var Vitabarinn með sveittan Gleym-mér-ei hamborgara og bjór.  Síðan breyttist staðurinn í Joe´s Diner og loks í ljómandi góðan filippseyskan stað, Filipino.

  Í sama húsi en húsnúmeri 9 var Broadway (Breiðvangur).  Stærsti skemmtistaður Evrópu.  Þar var allt að gerast:  Stórsýningar í nafni Queen, Abba og allskonar.  Hljómleikar með Yardbirds, the Byrds, Slade, Marianne Faithful og dansleikir með Geirmundi.  

  Þó að enn sé sama öld þá er hún önnur.  Classic Rock Sportbar hefur breyst í asískan veislusal.  Ég kíkti þangað inn.  Salurinn stóri hefur verið stúkaður niður í margar minni einingar.  Enginn viðskiptavinur sjáanlegur.   Aðeins ungur þjónn í móttöku.  Hann kunni ekki ensku né íslensku.  Við ræddum saman í góða stund án þess að skilja hvorn annan.  Hann sýndi mér bjórdælu.  Það gerði lítið fyrir mig.  Ég hef oft áður séð bjórdælu.  Ég svaraði honum með hendingum úr "Fjallgöngu" Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót upp í mót) og "Þorraþræl" Kristjáns Fjallaskálds (Nú er frost á fróni).

  Ég rölti yfir í næsta hús.  Allt lokað.  Filipino horfinn.  Gott ef löggan lokaði ekki Chrystal fyrir meintan nektardans eða vændi eða hvorutveggja.  Broadway hefur breyst í sjúkrahús,  Klínik.  Allt hljótt.  Ármúli hefur þagnað;  þessi hluti hans.

classic rock sportbarármúli nr 5broadway

         

      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.