Færsluflokkur: Spil og leikir

Stónsari með móral yfir að hafa svindlað

 

 

  Hljótt fór að fyrir síðustu áramót boðaði gítarleikari the Rolling Stones,  Keith Richards,  söngkonuna Marianne Fathful á sinn fund í París.  Ég veit ekki af hverju í París.  Kannski er annaðhvort þeirra búsett í Frakklandi.  Eða kannski bæði. 

  Á fundinum játaði Keith fyrir henni að hann væri með bullandi móral yfir að hafa hlunnfarið hana um höfundarlaun fyrir lögin "Symphaty for the Devil",  "You Can´t Always Get What You Want" og "Sister Morphine".  Allt lög sem náðu miklum vinsældum í flutningi the Rolling Stones og haún átti stóran hlut í að semja með þeim Keith og Mick Jagger.

  Á þessum tíma sem lögin komu út á plötum var Marianne kærasta söngvara the Rolling Stones,  Mikka Jaggers.  Hún var jafnframt hálf út úr heimi vegna gríðarlegrar eiturlyfjaneyslu.  Fjölskylda hennar var og er vellauðug.  Marianne hefur aldrei þurft að pæla í peningum.  Réttskráð lög hennar og plötur hafa selst í bílförmum og skilað henni góðum tekjum.   

  Keith gerði sér þó lítið fyrir og endurgreiddi Marianne þau höfundarlaun sem hún hafði orðið af vegna þess að vera ekki réttilega skráð meðhöfundur áðurnefndra laga.  Jafnframt lét hann leiðrétta höfundarskráningu á þessum lögum.

  Marianne og Keith hafa alltaf talað hlýlega um hvort annað en ekki verið í miklu sambandi eftir að upp úr sambandi hennar og Jaggers slitnaði.  Klárlega hefur Keith fengið samþykki Jaggers fyrir því að leiðrétta höfundarlaun hennar.  Mick passar alltaf vel um sín fjármál.

keith

      


Íslenska leiðin

  Maður sem við köllum A var fyrirtækjaráðgjafi Glitnis.  Hann gaf fátækum vinum olíufyrirtækið Skeljung.  Þetta var sakleysisleg sumargjöf.  Hún olli þó því að A var rekinn með skömm frá Glitni.  Eðlilega var hann þá ráðinn forstjóri Skeljungs.  Um leið réði hann þar til starfa nokkra vini úr bankanum.  Þeirra í stað rak hann nokkra reynslubolta.  Hinsvegar er hjásvæfa hans ennþá í vinnu hjá Skeljungi.  Það er önnur saga og rómantískari.

  Skeljungur keypti Shell í Færeyjum.  Nokkru síðar var starfsmaður færeyska Shell ráðinn forstjóri Skeljungs.  Síðan er fyrirtækinu stýrt frá Færeyjum.  Þetta þótti einkennilegt.  Hefðin var sú að framkvæmdastjóri tæki við forstjórastóli. 

  Fyrsta verk færeyska forstjórans var að kaupa hlutabréf í Skeljungi á undirverði og selja daginn eftir á yfirverði.  Lífeyrissjóðir toguðust á um að kaupa á yfirverðinu.  Kauði fékk í vasann á einum degi 80 milljónir eða eitthvað.  Þetta er ólíkt Færeyingum sem öllu jafna eru ekki að eltast við peninga. 

  Persóna A var óvænt orðin meðeigandi Skeljungs.  Hann (kk) og vinirnir seldu sinn hlut í Skeljungi á 830 milljónir á kjaft. 

  Þetta er einfalda útgáfan á því hvernig menn verða auðmenn á Íslandi.

magn

 

 


Harðfisksúpa víðar en á Íslandi

  Harðfisksúpa Baldurs Garðarssonar hefur vakið verðskuldaða athygli.  Ekki síst eftir að hún sigraði með glæsibrag í hugmyndasamkeppninni Þjóðlegir réttir á okkar veg.  Atti harðfisksúpan þar kappi við 106 aðra rétti. 

  Svo skemmtilega vill til að harðfisksúpa er elduð víðar.  Heimsþekktur og margrómaður færeyskur sjávarréttakokkur,  Birgir Enni,  hefur til margra ára lagað harðfisksúpu.  Ég hef gætt mér á henni.  Hún er góð. 

birgir enni

 

súpa


Íslenskur kór og færeyska drottningin

  God of War heitir vinsæl tölvuleikjasería.  Hún hefur rakað að sér tilnefningum og verðlaunum á verðlaunahátíðum á borð við The Game Awards,  Game Critics Awards og IGN´s Best of E3 Awards.  Jafnframt slegið sölumet út um allan heim.

  Á dögunum kom út áttundi leikurinn í seríunni. Fyrri leikir fjalla um grísku goðafræðina.  Þessi gerir út á norræna goðafræði.  Sögusviðið er Miðgarður, Álfheimar, Hel, Jötunheimar,  Niflheimur,  Ásgarður,  Yggdrasil,  Bifröst o.s.frv.

  Söguhetjurnar eru feðgar og móðir drengsins.  Hún er fallin frá.  Feðgarnir leggja upp í mikið og viðburðaríkt ferðalag.  Tilefnið er að uppfylla ósk móðurinnar um það hvar eigi að dreifa öskunni af henni.

  Tónlistin í leiknum er samin af Bear McCreary.  Hann er best þekktur fyrir að vera h0fundur tónlistar í sjónvarpsseríum,  svo sem The Walking Dead og The Battlestar Galactica.  Eini flytjandinn sem hvarvetna er nafngreindur er færeyska álfadrottningin Eivör.  Hún syngur þemasöng móðurinnar og er hlaðin lofi fyrir frammistöðuna.  Meðal annarra flytjenda er ónefndur íslenskur kór. 

  Allir gagnrýnendur helstu dagblaða og netmiðla gefa útkomunni 5 stjörnur af 5 eða 10 af 10 með tveimur undantekningum.  Í öðru tilfellinu er einkunnin 9,5 af 10.  Í hinu tilfellinu er einkunnin 9,75 af 10.

  Eivör hefur átt lög og plötur í 1. sæti vinsældalista á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Færeyjum.  Samanlögð sala á þeim bliknar í samanburði við söluna og spilun á God of War.  Þar erum við að tala um hundruð milljónir.

 


Ekki skipta um röð!

  Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð,  skreppa í stórmarkað,  kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa?  Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna.  Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli.  Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar;  mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.  

  Þarna þarf að velja á milli.  Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla.  Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.

   Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu.  Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.

-----------------------------

  Fróðleiksmoli:  Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða.  Eftirspurn var miklu meiri en framboð.  Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum.  Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu.  Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra. 


Gjaldfrjáls tónlistarkennsla í Færeyjum

 

  Um síðustu aldamót urðu meiriháttar umskipti í færeyskri tónlist.  Svo afgerandi að við getum talað um byltingu.  Í stað þess að herma eftir frægum útlendum hljómsveitum komu fram á sjónarsvið hljómsveitir á borð við Ivory, Clickhaze og Yggdrasil, sóló-söngkonan Eivör og Teitur.  Þau spiluðu frumsamda músík á eigin forsendum án eftirhermu.  Já,  Eivör var reyndar söngkona Ivory, Clickhaze og Yggdrasil.  Með Ivory söng hún djass.  Með Clickhaze söng hún trip-hopp.  Með Yggdrasil söng hún spunadjasskennt heimspopp (world music).  Sem sóló söng hún vísnatónlist með djasskeim og þjóðlegum færeyskum kvæðasöng. Fram til þessa þótti ungum Færeyingum gamli kvæðasöngurinn hallærislegur.  En Eivör var svo töff að hún gerði hann töff.  Varð meðal annars þungarokkshljómsveitinni Tý innblástur til að dusta rykið af hringdanskvæðinu "Orminum langa" og þungarokksvæða það.  Með þeim árangri að það varð vinsælasta lagið í Færeyjum og á Íslandi 2002. 

  Fram að tónlistarbyltingunni um aldamótin var Færeyingum fjarlæg hugsun að hægt væri að lifa á tónlist.  Ennþá fjarlægara að hægt væri að spila utan Færeyja.  Kúvending varð á.  Fjöldi færeyskra hljómsveita og tónlistarmanna er atvinnumenn í faginu í dag.  Þeir selja mun fleiri plötur í útlöndum en í Færeyjum.  Ruðningsáhrif eru töluverð á aðrar atvinnugreinar.  Ekki síst ferðamannaiðnað.  Heimsfrægð færeyskra tónlistarmanna dregur allt upp að 7500 á árlega rokkhátíð,  G!Festival,  í Götu á Austurey.  Einnig á Ólavsvökukonsertinn á Ólavsvöku og fleiri tónlistarhátíðir.  Eivör hefur náð toppsæti á vinsældalistum í Noregi, Danmörku og Íslandi auk Færeyjum. Týr náði 1. sæti norður-ameríska vinsældalistans CMJ (mælir spilun í framahldsskólaútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada).

  Færeyskir ráðamenn hafa áttað sig á mikilvægi færeyskrar tónlistar.  Nú hefur færeyska ríkið gert 3ja ára samning við franska nettónlistarskólann Meludia.  Allir Færeyingar fá ókeypis aðgang að honum.  Þar læra þeir að lesa tónlist, skrifa tónlist og skilja tónlist.  Jafnt leikmenn sem fagmenn.  Allt kennsluefnið verður á færeysku.  Sjá:  https://www.meludia.com/

         


Nauðsynlegt að vita

  Íslendingar sækja í vaxandi mæli sólarstrendur út um allan heim.  Aðallega sunnar á hnettinum.  Vandamálið er að mannætuhákarlar sækja líka sumar af þessum ströndum. Mörg góð manneskjan hefur tapað fæti eða hendi í samskiptum við þá.

  Hlálegt en satt;  að hákarlinn er lítið sem ekkert fyrir mannakjöt.  Hann sér allt óskýrt.  Þegar hann kemur sínu sjódapra auga á manneskju þá heldur hann að þar sé selur.  Hann elskar selspik.  Eins og ég. 

  Hákarl er lélegur í feluleik.  Hann fattar ekki að þegar hann syndir nærri yfirborði sjávar þá stendur uggi upp úr.  Þetta skiptir ekki máli gagnvart selum sem synda neðansjávar.  Manneskja sem kemur auga á hákarlsugga tekur hinsvegar eftir ógninni.  Verstu viðbrögð eru að taka hræðslukast og sprikla í átt að landi.  Það vekur aðeins athygli hákarlsins og espar hann upp.  Hann heldur að þar sé selur að reyna undankomu. Stekkur á bráðina og fær sér bita.

  Í þessum kringumstæðum hefur manneskjan tvo betri kosti en flótta.  Önnur er að grípa um sporð ókindarinnar og hlaupa með hana snaröfuga upp í strönd.  Hún kemur engum vörnum við.  Sveigjanleiki skrokksins er svo takmarkaður.

  Hin aðferðin er að ríghalda kvikindinu kjurru.  Hákarl drukknar umsvifalaust ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu.


Hvaða áhrif hefur tónlist?

  Nútímatækni heilaskanna og allskonar græja hafa staðfest að tónlist hefur gríðarmikil áhrif á okkur.  Það var svo sem vitað fyrir.  Bara ekki mælt með myndum af starfsemi heilans.

  Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að sérútfærð músík spiluð í stórmörkuðum getur aukið sölu um fjórðung.  Það er rosalega mikið. 

  Hver og einn einstaklingur þekkir að músík hefur áhrif.  Sum lög koma okkur í gott stuð.  Önnur framkalla angurværð.  Enn önnur framkalla minningar.  

  Þegar hlustað er á músík verður virkni heilans mikil.  Þar á meðal heilastöðvar sem hafa að gera með athyglisgáfu,  námsgetu,  minni og framtíðaráform.  

  Tónlist kemur umsvifalaust af stað öflugri framleiðslu á vellíðunarboðefninu dópamín.  Það og fleiri boðefni heilans eru á við öflug verkjalyf og kvíðastillandi.  Eru að auki örvandi gleðigjafar og efla varnarkerfi líkamans svo um munar.  Til viðbótar bætist við framleiðsla á hormónum sem einnig efla varnarkerfi líkamans.  

  Sjúklingar sem hlusta á sína uppáhaldsmúsík áður en þeir gangast undir uppskurð framleiða hormónið cortisol.  Það eyðir áhyggjum og streitu.  

  Þegar hlustað er á uppáhaldstónlist þá verða viðhorf gagnvart öðrum jákvæðari.  Fólk verður félagslyndara.  Finnur jafnvel fyrir sterkri löngun til að bjóða upp í dans.  

  Börn sem læra á hljóðfæri stækka þann hluta heilans sem hefur að gera með sköpunargáfu í víðtækustu merkingu.  Sú er ástæðan fyrir því að flestir tónlistarmenn eru jafnframt áhugasamir um aðrar listgreinar.  Bítlarnir eru gott dæmi.  John Lennon var myndlistamaður og rithöfundur.  Paul McCartney var áhugateiknari og sendi frá sér teiknimyndabók.  George Harrison var með leiklistadellu og gaf út kvikmyndir Monthy Pyton.  Ringo Starr var einnig með leiklistadellu.  Hann lék í fleiri kvikmyndum en Bítlamyndum.  John Lennon sagði að ef liðsmenn Bítlanna hefðu ekki náð saman á réttu augnabliki og á réttum forsendum þá hefði aðeins Ringo náð að spjara sig.  Hann væri það hæfileikaríkur leikari.

  Hægur taktur tónlistar lækkar blóðþrýsting.  Hún er einnig besta meðal gegn mígreni og höfuðverk.  Meira en það:  Hlustun á uppáhaldstónlist dregur mjög svo verulega úr flogaköstum veikra.  Músíkástríða mín sem barns kvað niður flogaveikiköst (þau voru af gerð sem kallast drómasýki).  

          

     


Fólk er fíklar

  Allir eru að fá sér.  Allir eru fíklar.  Munurinn liggur í því hver fíknin er.  Sumir eru nikótínfíklar.  Aðrir eru matarfíklar,  spilafíklar,  alkar,  athyglissjúkir,  ástarfíklar,  dansfífl eða eitthvað allt annað.  

  Séra Óli sleikur er kattþrifinn sleikifíkill.  Hann má ekki sjá ósleikta konukinn án þess að stökkva á hana og sleikja.  Vegna jafnaðarhugsjónar er honum óstætt á að sleikja aðeins aðra kinn.  Hann finnur sig knúinn til að sleikja báðar kinnar.  Líka eyru og háls ef tími gefst til.

  Samkvæmt úrskurðarhópi og úrskurðarnefnd fagaðila og amatöra ríkiskirkjunnar er sleikiþörf embættismannsins eðlilegt embættisverk.  Óhreinar kinnar skulu sleiktar uns þær verða hreinar.  Þetta er eins og að skírast upp úr heilögu kranavatni.

  Fundið hefur verið að því að séra Óli sleikur ríghaldi konum föstum á meðan hann sleikir á þeim báðar kinnar, eyru og háls. Þessu ber að sýna skilning.  Ef konurnar væru að hlaupa út um allt á meðan séra Óli sleikur sleikir á þeim kinnar þá er næsta víst að sleikur myndi misfarast að hluta.  Jafnvel lenda aftan á hálsi eða baki.  Ekki vill ríkiskirkjan það.  Því síður mælir hún með því af sama krafti og umskurði.  

 


Kvartað undan píkupoppi

  Írska hljómsveitin U2 er stöðugt undir smásjá.  Ekki skrýtið.  Þetta er og hefur verið eitt allra stærsta hljómsveitarnafn heims til hátt í fjögurra áratuga.  Fékk meira að segja að fara í hljómleikaferð um Bandaríkin með Sykurmolunum á níunda áratugnum.  Að auki hefur söngvari hljómsveitarinnar,  Bono,  verið duglegur við að tjá sig um ýmis hitamál.  Til að mynda barist gegn fátækt og skuldum í 3ja heiminum,  tekið virkan þátt í forsetakosningum í Bandaríkjunum og verið upptekinn af trúmálum.

  U2 hefur verið mörgum hljómsveitum víða um heim fyrirmynd í tónlist.  Hérlendis heyrist það einna best í tónlist Gildrunnar.

  Nú liggur Bono undir þungum ásökunum um karlrembu og kvenfyrirlitningu.  Í viðtali við bandaríska tímaritið Rolling Stone kvartar hann undan því að músíkiðnaðurinn í dag sé ofurseldur píkupoppi (very girly music).  Hann segist áhyggjufullur yfir því að lítið svigrúm sé fyrir unga rokkara til að fá útrás fyrir reiði.  Hipp-hopp sé eini vettvangur ungra reiðra drengja.  Það sé ekki nógu gott.  

  "Hvað er rokk?" spyr hann og svarar sjálfur:  "Reiði er hjarta rokksins."  Ýmsir hafa komið Bono til varnar.  Bent m.a. á að vinsælustu karlpoppararnir í dag spili kvenlæga músík,  svo sem Ed Sheeran og Sam Smith.  Aðrir eru ósáttir.  Sumir fordæma að þessi nú meinta karlremba hafi verið tilnefnd "Maður ársins 2016" af glanstímaritinu Glamour.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband