Færsluflokkur: Spil og leikir

Sápuóperan endalausa

  Þessa dagana auglýsir Skeljungur grimmt eftir starfsfólki:  Sölumönnum í Reykjavík og einnig umboðsmanni á Austurlandi.  Þetta er athyglisvert.  Ekki síst í ljósi þess að fyrir jól sagði fyrirtækið upp 29 manns (um það bil þriðjungur starfsliðs).  Sennilega eru hinir brottræku enn á launaskrá en var gert að yfirgefa vinnustaðinn samdægurs.

  Hröð starfsmannavelta og óreiða einkenna reksturinn.  Líka tíð eigendaskipti.  Nýir eigendur hafa komið,  ryksugað fyrirtækið innanfrá og farið.  Hver á fætur öðrum.  Einn hirti meira að segja - í skjóli nætur - öll málverk ofan af veggjum.  

  Nýr forstjóri tók til starfa í vetrarbyrjun.  Hann er búsettur í Færeyjum og fjarstýrir Skeljungi þaðan.  Hans fyrsta verk í forstjórastóli var að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á undirverði og selja þau daginn eftir á fullu verði.  Mismunur/hagnaður skilaði honum yfir 80 milljónum króna í vasa á þessum eina degi.  

  Lífeyrissjóðirnir eru alltaf reiðubúnir að kaupa hlutabréfin á hæsta verði.  Jafnvel á yfirverði - eins og eftir að fyrirtækið sendi út falsfrétt um að það væri að yfirtaka verslunarkeðjuna 10-11.  Það var bara plat til að snuða lífeyrissjóði. 

  Þetta er sápuóperan endalausa.  

  magn.jpg


Málshættir

  Málshættir eru upplýsandi og fræðandi.  Nauðsynlegt er að halda þeim til haga.  Þeir geyma fyrir komandi kynslóðir gömul rammíslensk orð sem gott er að kunna.  Þeir geyma líka gömul orðatiltæki yfir vinnubrögð sem tilheyra fortíðinni en gott er að kunna skil á.  

  Íslenskir páskaeggjaframleiðendur hafa blessunarlega haldið málsháttum á góðu lífi á frjósemishátíðinni kenndri við frjósemisgyðjuna Easter.  Ástæða er til að rifja þá einnig upp á vetrarsólstöðuhátíð ljóss og friðar,  kenndri við Jólnir (Óðinn).

Feginn verður óbarinn biskup

Sjaldan fellur eggið langt frá hænunni

Allir hafa eitthvað gott til hunds að bera

Seint koma jólin en koma þó

Margt er til í mömmu

Þeir skvetta úr klaufunum sem eiga

Glöggt er gests eyrað

Ekki sést í skóinn fyrir hnjánum

Eigi geym þú ost í frysti

Allt er best í óhófi

Ekki er hún betri lúsin sem læðist

Enginn er verri þó hann vakni

Neyðin kennir nöktum manni að synda

Sjaldan er allt sem týnist

Betur sjá augu en eyru


Maður ársins

  Jafnan er beðið með spenningi eftir vali bandaríska fréttablaðsins Time á manni ársins.  Niðurstaðan er stundum umdeild.  Jafnvel mjög svo.  Til að mynda þegar Hitler var útnefndur maður ársins 1938.  Líka þegar Richard Nixon var maður ársins 1971 og aftur 1972. 

  Ástæðan fyrir gagnrýni á valið er sú að það snýst ekki um merkasta mann ársins - öfugt við val annarra fjölmiðla á manni ársins.  Time horfir til þess manns sem sett hefur sterkastan svip á árið.  Skiptir þar engu hvort að það hefur verið til góðs eða tjóns.

  Í ár stendur valið á milli eftirfarandi:

- Colin Kaepernick (bandarískur fótboltakall)

- Dóni Trump

- Jeff Bezos (forstjóri Amazon)

- Kim Jong-un (leiðtogi N-Kóreu)

- #meetoo átakið

- Mohamed bin Salam (krúnprins Saudi-Arabíu)

- Patty Jenkins (leikstjóri "Wonder Woman")

- The Dreamers (samtök innflytjenda í Bandaríkjunum)

- Xi Jinping (forseti Kína)

  Mér segir svo hugur að valið standi í raun aðeins á milli #metoo og þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna, Kína og Norður-Kóreu.


Söngvari Sex Pistols í Júrovisjón 2018

  Enski söngvarinn Johnny Rotten er Íslendingum að góðu kunnur.  Ekki aðeins sem söngvari Sex Pistols og að hafa túrað um Bandaríkin með Sykurmolunum - þá í hljómsveitinni PIL (Public Image Limited).  Líka fyrir að opna Pönksafnið í Lækjargötu.  Hann skemmti sér vel hérna.  Heimferð dróst.

  Nú upplýsir írska dagblaðið Irish Sun að hinn írskættaði Johnny muni keppa fyrir hönd Íra í Júrovisjón í vor.  Laginu sem hann syngur er lýst sem cow-pönki.  Ekki ósvipuðu og "Rise" með PIL.  Höfundurinn er Niall Mooney.  Sá er kunnugt nafn í söngvakeppninni.  Átti lagið "Et Cetera" í Júrovisjón 2009 og "It´s for you" 2010.

  Einhver smávægileg andstaða er gegn Johnny Rotten innan írsku Júrovisjón-nefndarinnar.  Nefndarmenn eru mismiklir aðdáendur hans. Uppátækið er vissulega bratt og óvænt.  þegar (eða ef) hún gefur grænt ljós mun hann syngja lagið við undirleik PIL.

 

    


Skemmtilegt tvist

  Ég hlustaði á útvarpið.  Hef svo sem gert það áður.  Þess vegna ber það ekki til tíðinda.  Hitt sem mér þótti umhugsunarverðara var að útvarpsmaðurinn hneykslaðist á og fordæmdi að fyrirtæki væru að auglýsa "Black Friday".  Þótti honum þar illa vegið að íslenskri tungu.

  Þessu næst bauð hann hlustendum til þátttöku í spurningaleiknum "pizza & shake". 


Ármúli þagnar

  Framan af þessari öld voru Ármúli 5, 7 og 9 heitasta svæði landsins.  Þar var fjörið.  Í Ármúla 5 (sama húsi og Múlakaffi) var Classic Rock Sportbar.  Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtistaður landsins.  Hundruð manna góndu á boltaleiki á stórum tjöldum.  Tugir pílukastara kepptu í leik.  Danshljómsveitir spiluðu um helgar.  Þess á milli voru hljómleikar með allt frá hörðustu metal-böndum til settlegri dæma.  Málverkasýningar og fleira áhugavert slæddist með.  Inn á milli voru róleg kvöld.  Þá spjallaði fólk saman við undirleik ljúfra blústóna.  Það var alltaf notalegt að kíkja í Classic Rock Sportbar.

  Í næsta húsi,  á annarri hæð í Ármúla 7 var rekinn hverfisbar sem gekk undir ýmsum nöfnum:  Jensen,  Wall Street,  Pentagon (Pentó, Rússneska kafbátaskýlið),  Elvis (Costello),  Bar 108,  Chrystal...  Hverfispöbb með karókí og allskonar.  Mikið fjör.  Mikið gaman.  

  Á neðri hæðinni var Vitabarinn með sveittan Gleym-mér-ei hamborgara og bjór.  Síðan breyttist staðurinn í Joe´s Diner og loks í ljómandi góðan filippseyskan stað, Filipino.

  Í sama húsi en húsnúmeri 9 var Broadway (Breiðvangur).  Stærsti skemmtistaður Evrópu.  Þar var allt að gerast:  Stórsýningar í nafni Queen, Abba og allskonar.  Hljómleikar með Yardbirds, the Byrds, Slade, Marianne Faithful og dansleikir með Geirmundi.  

  Þó að enn sé sama öld þá er hún önnur.  Classic Rock Sportbar hefur breyst í asískan veislusal.  Ég kíkti þangað inn.  Salurinn stóri hefur verið stúkaður niður í margar minni einingar.  Enginn viðskiptavinur sjáanlegur.   Aðeins ungur þjónn í móttöku.  Hann kunni ekki ensku né íslensku.  Við ræddum saman í góða stund án þess að skilja hvorn annan.  Hann sýndi mér bjórdælu.  Það gerði lítið fyrir mig.  Ég hef oft áður séð bjórdælu.  Ég svaraði honum með hendingum úr "Fjallgöngu" Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót upp í mót) og "Þorraþræl" Kristjáns Fjallaskálds (Nú er frost á fróni).

  Ég rölti yfir í næsta hús.  Allt lokað.  Filipino horfinn.  Gott ef löggan lokaði ekki Chrystal fyrir meintan nektardans eða vændi eða hvorutveggja.  Broadway hefur breyst í sjúkrahús,  Klínik.  Allt hljótt.  Ármúli hefur þagnað;  þessi hluti hans.

classic rock sportbarármúli nr 5broadway

         

      


Nauðsynlegt að vita um hænur

  -  Ef allar hænur heims eru taldar saman þá eru þær yfir 25 milljarðar.

  -  Ef öllum hænum heims er skipt jafnt á meðal manna þá gerir það 3,5 á hvern.

  -  Gainesville í Georgíu í Bandaríkjum Norður-Ameríku er alifuglahöfuðborg heims.  Þar er bannað með lögum að nota hnífapör við át á djúpsteiktum kjúklingi.  Hann er og skal vera fingramatur.

  -  Hæna verpir að meðaltali 255 eggjum á ári.

  -  Rannsókn leiddi í ljós að hæna getur léttilega þekkt yfir 100 andlit.  

  -  Lagið "Fugladansinn" - einnig þekkt sem "Hænsnadansinn" - var samið af Swisslendingnum Weren Thomas um 1960.

  -  1980 náði "Fugladansinn" vinsældum í Hollandi.

  -  1981 var lagið einkennislag fyrir Októberfest í Oklahoma undir heitinu "Hænsnadansinn".

 

 

 


Íslandsvinur í skjölunum

  Nöfn íslenskra auðmanna eru fyrirferðamikil í Paradísarskjölunum;  þessum sem láku út frá lögmannsstofunni Appleby á Bermúda.  Ef ég þekki íslenskan metnað rétt er næsta víst nöfn Íslendinga séu hlutfallslega flest miðað við höfðatölu.  Sem eru góðar fréttir.  Þjóð sem er rík af auðmönnum er vel sett.  Verra samt að svo flókið sé að eiga peninga á Íslandi að nauðsyn þyki að fela þá í skattaskjóli.

  Ekki einungis íslenskir auðmenn nota skattaskjól heldur líka Íslandsvinir.  Þekktastur er hugsjónamaðurinn Bono í hljómsveitinni U2.

 


mbl.is Tugir Íslendinga í skjölunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegt klúður lífeyrissjóðanna

 

  Fyrir nokkru tóku lífeyrissjóðir upp á því að fjárfesta í Skeljungi.  Svo virðist sem það hafi verið gert í blindni;  án forskoðunar.  Einhverskonar trú á að svo gömul og rótgróin bensínsala hljóti að vera gullnáma.  Á sama tíma hefur rekstur Skeljungs hinsvegar verið afar fálmkenndur og klaufalegur - með tilheyrandi samdrætti á öllum sviðum.

  Starfsmannavelta er hröð.  Reynslulitlum stjórnendum er í mun um að reka reynslubolta.  Þeir fá einn eða tvo klukkutíma til að taka saman eigur sínar og pilla sig á brott.  Engu að síður eru þeir á biðlaunum næstu mánuðina án vinnuframlags.  Í mörgum tilfellum taka þeir með sér dýrmæta þekkingu og viðskiptasambönd.

  Fyrr á árinu kynnti Skeljungur væntanlega yfirtöku á 10-11 matvörukeðjunni.  Þar var um plat að ræða.  Til þess eins ætlað að fráfarandi eigendur gætu selt lífeyrissjóðum hlutabréf sín á yfirverði.

  Í vetrarbyrjun var nýr forstjóri ráðinn.  Þar var brotin hefð og gengið framhjá fjórum framkvæmdastjórum fyrirtækisins á Íslandi.  Þess í stað var það sett undir framkvæmdastjóra færeyska dótturfélagsins,  P/F Magn.  Frá 1. okt hefur Skeljungi verið fjarstýrt frá Færeyjum.

  Nýjustu viðbrögð við stöðugum samdrætti eru að sparka 29 starfsmönnum á einu bretti:  9 á aðalskrifstofu og öllum á plani.  Héðan í frá verða allar bensínstöðvar Skeljungs án þjónustu.  Það þýðir enn frekari samdrátt.  Fólk með skerta hreyfigetu vegna fötlunar eða öldrunar hverfur eins og dögg fyrir sólu af bensínstöðvum Skeljungs.  

  Í gær sá ég einhentan mann leita ásjár hjá stafsmanni 10-11 við að dæla bensíni á bílinn.  Sá má ekki vinna á plani.  Meðal annars vegna þess að þar er hann ótryggður fyrir slysum eða öðrum óhöppum.  

  Liggur nærri að brottrekstur 29 starfsmanna sé um þriðjungs samdráttur.  Eftir sitja um 30 á aðalskrifstofu og um 30 aðrir á launaskrá.  Hinir brottreknu eru svo sem líka á launaskrá eitthvað fram á næsta ár.  Til viðbótar er mér kunnugt um að einhverjir af þeim sem eftir sitja hyggi á uppsögn út af öllu ruglinu.  Afar klaufalega var að öllu staðið.  Til að mynda var sölustjóra efnavara sparkað.  Hann var eini starfsmaður fyrirtækisins með haldgóða þekkingu á efnavörunum.  Það sýndi sig í hvert sinn sem hann fór í frí.  Þá lamaðist efnavörusalan á meðan.  Nú lamast hún til frambúðar.

  Einhver kann að segja að Skeljungur hafi skorað stig með því að ná bensínsölu til Costco.  Hið rétta er að skorið skilar ekki fjárhagslegum ávinningi.  Þar er um fórnarkostnað að ræða til að halda hinum olíufélögunum frá Costco.  Nú fá þau olíufélög fyrirhafnarlaust í fangið alla bílstjóra með skerta hreyfigetu.  Spurning hve eigendum lífeyrissjóðanna þykir það vera góð ávöxtun á þeirra peningum.  

caution


mbl.is „Ekki bara hægt að benda á Costco“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hann á litinn?

  Á síðustu dögum fyrir alþingiskosningar er gott og holt að hvíla sig einstaka sinnum á þrefi um framboðslista, frambjóðendur, kosningaloforð,  reynslu sögunnar og annað sem máli skiptir. Besta hvíldin fæst með því að þrefa um eitthvað sem skiptir ekki máli.  Til að mynda hvernig skórinn á myndinni er á litinn.

  Í útlöndum er rifist um það.  Sumir segja hann vera ljósbleikan með hvítri reim.  Heldur fleiri segja hann vera gráan með blágrænni (túrkís) reim. 

  Upphaf deilunnar má rekja til breskra mæðgna.  Þær voru ósammála um litina.  Leitað var á náðir Fésbókar.  Sitt sýnist hverjum.

  Þetta minnir á eldri deilu um lit á kjól.  Sumir sáu hann sem hvítan og gylltan.  Aðrir sem svartan og bláan.  Niðurstaðan varð sú að litaskynjunin fór eftir því hvort áhorfandinn er A fólk (morgunhanar) eða B fólk (vakir frameftir).  Aldur spilar einnig inn í.

 

skór á lit


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband