Áhugaverð breyting á lista yfir bestu gítarleikarana

  Söluhæsta og áhrifamesta poppmúsíkblað heims,  bandaríska Rolling Stone,  var að setja saman lista yfir bestu gítarleikara sögunnar.  Listinn er að uppistöðu til byggður á niðurstöðu hátt í sextíu helstu gítarleikara,  allt frá Scotty Moore (Elvis Presley) til Tom Morello (Rage Agains the Machine,  Audioslave) og þar á milli ýmsir úr bítlahljómsveitakynslóðinni,  hipparokkinu o.s.frv. 

  Það má alltaf deila um niðurstöðu svona lista.  Í raun er þetta listi yfir bestu fræga engil-saxneska gítarleikara.  En fyrst og fremst er þetta léttur samkvæmisleikur og enginn allsherjar stóridómur.  Rolling Stone hefur áður staðið fyrir gerð svona lista.  Ætli sé ekki hátt í áratugur síðan (gæti verið styttra).  Þeir tveir listar eru ekki samhljóða.  Nema hvað varðar 1.  sætið.  Hins vegar er einmitt eitt það merkilegasta við nýja listann að bera hann saman við þann gamla. 

  Hér er listinn og innan sviga er staða viðkomandi á gamla listanum (rauður litur undirstrikar ef viðkomandi stendur í stað á lista eða hækkar.  Blár ef viðkomandi lækkar á lista): 

 

1   (1)   Jimi Hendrix

  Tom Morello segir Hendrix hafa sprengt upp hugmyndir fólks um það hvernig rokk gæti hljómað.  Gítarleikur hans hafi verið fyrirhafnarlaus.  Það finnist ekki ein einasta mínúta á ferilsskrá hans sem bendi til að hann hafi þurft að reyna á sig.  Það sé eins og allt flæði bara áreynslulaust í gegnum hann.  Hann hafi fléttað óaðfinnanlega saman hljómum,  stökum tónum og söng.

  Svo venjulegur blús í dag.  En algjörletga nýtt og byltingarkennt blúsdæmi 1966.

2   (4)   Eric Clapton
  Gítarhetjur breska blúsrokksins eru á uppleið.  Þeir helstu raða sér nú í sæti 2, 3, 4 og 5 (í stað sæti 4, 9, 10 og 14).  Clapton,  Page og Beck voru allir í The Yardbirds og hafa allir verið með  Goodnight Irene   og fleiri lög eftir Leadbelly á dagskrá sinni. 
  Eddie Van Halen segir:  "Gítarsóló Claptons eru svo söngræn og minnisstæð að ég get raulað þau fyrir þig."
.
.

3   (9)   Jimmy Page  (Led Zeppelin)

  Ég minnist þess ekki að hafa áður séð Blaðsíðuna svona hátt á lista yfir bestu gítarleikarana.  Joe Perry vill taka inn í dæmið hvað Page sé góður hljóðversmaður og ferilsskrá sem session-maður og í Yardbirds og Led Zeppelin.  Hann sé nákvæmur í hljóðblæ (sándi):  Hávær,  hljóðlátur,  mjúkur, hávær aftur...  

4   (10)  Keith Richards  (Rolling Stones)

  Nils Lofgren:  " Ég elska Chuck Berry. En Keith er betri. Ekki tæknilega - það er tilfinningin sem talar við mig.  Það sem Chuck er fyrir Keith er Keith fyrir mér." 

5   (14)   Jeff Beck

6   (3)   B.B. King
.

7   (6)   Chuck Berry

8   (70)  Eddie Van Halen

9   (2)   Duane Allman 

10  (50)  Pete Townshend  (The Who)

11  (21)  George Harrison

  Annar Bítill,  John Lennon,  er í 55. sæti.  George hataði "fössið" (rafsándið) í gítarnum hjá John.  George vildi alltaf mjúkan gítarhljómblæ.   George skar sig dálítið frá öðrum breskum gítarleikurum Bítlakynslóðarinnar um margt annað.  Meðal annars að því leyti að hann var lítið fyrir blús.  Hann var meira á línu Carls Perkins,  annarra rokk og rólara og þjóðlagapoppara (Dylan,  Pete Seeger,  The Byrds...).

 

12  (7)   Stevie Ray Vaughan

13  (-)   Albert King

  Albert King er hástökkvari listans.  Var ekki með á gamla listanum yfir þá 100 bestu en er nú í 13. sæti. 

14  (82)  David Gilmour  (Pink Floyd)

  Hilmar Jónsson gagnrýndi gamla listann yfir bestu gítarleikara harðlega fyrir að þar væri Kurt Cobain ofar en Davið Gilmour.  Endurskoðun á listanum hefur tekið mark á gagnrýni Hilmars.  Davíð hefur hlotið uppreista æru og Kurt settur út í kuldann.   

15  (25)  Freddie King

  Í þessum vangaveltum er mjög áhugavert að skoða hverjir hafa fallið af stalli og út af 19 efstu sætum:

20  (15)  Carlos Santana

31  (8)   Ry Cooder

46  (13)  Jerry Carcia (Grateful Dead)

71  (5)  Robert Johnson

  Ég er afar ósáttur við að Robert Johnson sé dottinn úr 5. sæti niður í það 71.  Það bendir til þess að yngsta kynslóð rokkgítarista sé ekki að hlusta á blús frá fjórða áratug síðustu aldar.

73 (12) Kurt Cobain  (Nirvana)

11  (-)   Kirk Hammett (Metallica)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skandall. Mér finnst vanta einn á listann. Gizz Butt.

Jóhann Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.11.2011 kl. 20:35

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Já, það er ekki hægt annað en að vera sáttur við Gilmore á uppleið. þótt ég hefði reyndar viljað sjá hann ofar..

Clapton er ágætlega að heiðrinum kominn þótt svo sem frumleiki og fjölbreyttni sé ekki hans sterka hlið, en góður er hann óumdeilanlega.

Page er magnaður og býr yfir mystík svolítið í ætt við Hedrix..

En Keith Richards nr 4 ?...hmmm

hilmar jónsson, 27.11.2011 kl. 22:34

3 Smámynd: Þórhallur Kristjánsson

Þessi ætti að vera mjög ofarlega á þessum lista ef ekki efst.

 http://www.youtube.com/watch?v=5vUDmFjWgVo

http://www.youtube.com/watch?v=zHVaA5VUajE

Þórhallur Kristjánsson, 27.11.2011 kl. 22:56

4 Smámynd: hilmar  jónsson

Þessi líka: http://www.youtube.com/watch?v=bmSKhg1geUw&feature=related

hilmar jónsson, 27.11.2011 kl. 23:04

5 Smámynd: Jens Guð

  Jói,  erum við ekki að tala um gítar-þrassarann sem var að spila með The Prodigy?

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 00:16

6 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar,  mér varð hugsað til þín þegar ég sá Kurt Cobain hrapa niður listann  og David Gilmour klifra úr 82. sæti upp í 14. 

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 00:19

7 Smámynd: Jens Guð

  Þórhallur,  jamm,  jú.  Knopler er dáldið flottur.  Sérstaklega hef ég gaman af að sjá hann nota þumal í gítarpikki.  Þegar allt er með talið,  líka hans flottu pikktæni,  þá er hann pínulítið einhæfur og fyrirsjáanlegur.  Á móti vegur að hann er góður söngvahöfundur.  http://www.youtube.com/watch?v=PQTaUuKPMIc&feature=results_video&playnext=1&list=PL04CFBFC44299599E

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 00:25

8 identicon

Jú Jens. Erum einmitt að tala um hann :) . Reyndar spilaði hann yfirleitt bara með þeim á tónleikum. Og var reyndar í sveitinni English dogs líka. Hann átti til með að taka svaklega takta á sviðinu.

Jóhann Kristjánsson (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 01:05

9 identicon

Þetta er ónýtur listi.. Það er erfitt að gera svona lista yfirhöfuð, en þessi listi er crapola

DoctorE (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 09:31

10 identicon

Tommy Emmanuel, sem spilar í Háskólabíói 9. janúar. Sem gítarleikari er hann sá besti sem ég hef séð og heyrt.

http://www.youtube.com/watch?v=x346VoDX3pA

Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.11.2011 kl. 15:24

11 Smámynd: Atli Hermannsson.

Ég man líka listann þegar Kurt Cobain var langt fyrir ofan David Gilmour, sem var náttúrulega bara fáránlegt. Þá má ég til með að segja ykkur að ég var í Royal Abert Hall þegar Remember That Night var tekið upp með Gilmour og félögum. Svo er einnig gaman að sjá Duane Allman þetta ofarlega sem dó því miður af slysförum bráðungur. Hann var eins og margir muna einnig í Derek and the Dominos með Clapton. Clapton sagði eitt sinn í viðtali að Duane hafi verið betri en hann. ... hver kannast ekki við slædinn í Lælu.

Atli Hermannsson., 28.11.2011 kl. 16:46

12 Smámynd: Jens Guð

  Hilmar (#4),  þessi Otto hermir ágætlega eftir Slash.

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 19:48

13 Smámynd: Jens Guð

  Jóhann (#8),  takk fyrir upplýsingarnar.

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 19:49

14 Smámynd: Jens Guð

  DoctorE,  það er rétt að það er erfitt að gera kórréttan lista yfir bestu gítarleikara heims.  Líklega er það ekki hægt.  Fólk metur gítarleik út frá svo mismunandi forsendum.  Sumir miða við tæknilega færni.  Aðrir meta meira tilfinningarnar í tjáningunni.  Enn aðrir leggja mikið upp úr fjölhæfni.  Margir meta mikils frumherjastarf og áhrif á sporgöngumenn.  Eflaust vegur þungt að menn hafi dálæti á músík viðkomandi.  Þannig mætti lengi telja. 

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 20:04

15 Smámynd: Jens Guð

  Jóhann (#10),  hann er assgoti flinkur.  Hann Viðar Júlí vinur minn á Reyðarfirði hlakkar gríðarmikið til hljómleikanna í Háskólabiói.

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 20:07

16 Smámynd: Jens Guð

  Atli,  það er alltaf eitthvað svona skrýtið sem kemur upp þegar listi er settur saman samkvæmt áliti margra,  eins og þetta dæmi með Cobain og Gilmoure.  Það spilar líka alltaf inn í hverjir eru mest í sviðsljósinu á þeim tímapunkti sem listinn er unninn.  Þá vilja gamlir jálkar gleymast sem hafa haft hljótt um sig lengi.

Jens Guð, 28.11.2011 kl. 20:11

17 Smámynd: hilmar  jónsson

Magnað Atli, hlýtur að hafa verið " The night " Þetta eru einir uppáhlds live tónleikarnir mínir. Crosby og Nash skemmdu heldur ekki fyrir.

hilmar jónsson, 28.11.2011 kl. 23:44

18 Smámynd: Jens Guð

  Grosby og Nash skemma aldrei fyrir.

Jens Guð, 29.11.2011 kl. 00:48

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er vinsældalisti en ekki hæfileikalisti. Það, að einhver detti niður á eitthvað frumlegt "sound" með gítarleik sínum og hljómsveit hans er að auki vinsæl, gerir það ekki að verkum að hann verðskuldi að vera á topplista yfir hæfileikamenn.

Það er erfitt að setja hæfileika undir mæliker, nema að láta fólkið spila sama lagið/lögin og bera saman tækni og túlkun þeirra þannig. En til þess að niðurstaða slíks samanburðar sé marktækur, þurfa "dómararnir" að hafa faglega þekkingu á tónlist og hljóðfæraleik. Ef slík fagmennska er ekki fyrir hendi, fáum við bara smekklista einhverra meðalmenna.

Margir poppskríbentar hafa yfirgripsmikla þekkingu á poppsögunni... hafa hlustað á margar plötur, en vantar samt faglega þekkingu. Gott dæmi um slíka skríbenta eru Óli Palli og Andrea Jónsdóttir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.11.2011 kl. 10:47

20 Smámynd: Atli Hermannsson.

Hilmar, Ég get alveg lofað þér því að þetta var "The night" og mjög sérstakt þegar maður horfir á tónleikana að vita að maður var á staðnum. Það var sérlega glæsilegt að hafa Grospy og Nash þarna ásamt nánast öllu fastagenginu sem tók þátt í PF Pulse tónleikaferðinni 1994. Þá sá ég í Parken -  og er ekki enn búinn að jafna mig.    

Atli Hermannsson., 29.11.2011 kl. 21:24

21 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar Th., það er nokkuð til í því hjá þér að tala um vinsældalista.  Því frægari sem gítarleikarinn er þeim mun fleiri hafa heyrt í honum.  Þar með er hann kominn með forskot:  Fleiri eru líklegri til að setja nafn hans á sinn lista.  Sú er einmitt ástæðan fyrir því að einungis nöfn mjög vel þekktra gítarleikara er á þessum lista.  

  Það verður aldrei hægt að búa til lista yfir bestu gítarleikara með því að láta þá spila sama lagið.  Í fyrsta lagi er fjöldi bestu gítarleikara dáinn.  Í öðru lagi þyrfti að bera saman assgoti fjölmennan hóp.  Kannski tugi þúsunda gítarleikara því að í svona dæmi væri ekki verið að einblína á fræga.

  Í tónlist (eins og ýmsum öðrum listgreinum) er óljóst hver er fagmaður og hver leikmaður.  Hver hefur faglega þekkingu á tónlist og hljóðfæraleik? 

  Sá sem hefur stundað langt og strangt nám í hljóðfæraleik og les nótur hefur vissulega eitthvað sem við getum kallað faglega þekkingu.  Hann kann að spila á það hljóðfæri sem hann hefur lært á.  Hann getur borið sinn hljóðfæraleik saman við aðra sem spila á samskonar hljóðfæri.  

  Þú getur talað við tvo píanóleikara með jafn langt nám í píanóleik að baki en þeir hafa gjörólíka skoðun á því hverjir eru bestu píanóleikarar heims eða Íslands.  Svo getur þú hitt píanóleikara sem hefur aldrei lært formlega á píanó.  Hann hefur farið í nám en ekki skilið upp né niður í kennslunni.  Skilur ekki nótur og kann fá hugtök yfir píanóleik.  

  Ég nefni Sigga Lee Lewis til sögunnar.  Hann spilar bugívúgí og rokk og ról á píanó betur og flottar en flestir.  Hámenntaðir píanóleikarar sem geta spilað flóknustu píanóverk horfa í undrun á leikni hans og segjast ekki eiga roð í hann á hans sviði.  

  Hámenntaður organisti sem sent hefur frá sér plötu með rosalegum og erfiðum verkum getur ekki spilað einfaldasta lag nema af nótum.  Umræddur organisti spilaði um tíma með danshljómsveit á Eskifirði (fyrir kannski 20 árum eða svo).  Eitt sinn kvefaðist söngvarinn og hljómsveitin þurfti að lækka um tóntegund.  Aðrir í hljómsveitinni höfðu aldrei stundað hljóðfæranám.  Þeir þurftu ekki svo mikið sem æfa sig til að átta sig á lægri tóntegund.  Organistinn hinsvegar þurfti að sitja yfir því í heilan dag að umskrifa nóturnar sínar.

  Sá sem stundað hefur langt og strangt nám í píanóleik;  hefur hann þar með vit á trommuleik?  Eða bassaleik?  Eða gítarleik?

  Hverjir hafa náð lengst á tónlistarsviði?  Eru það þeir sem hafa stundað langt og strangt nám í tónfræði,  lagasmíðum og hljóðfæraleik?  Nei.  Bítlarnir kunnu ekki nótnalestur og höfðu ekkert nám að baki í neinu sem laut að tónlist.  

  Heimurinn er fullur af hámenntuðum tónlistarmönnum sem ekki hafa náð neinum afgerandi árangri í tónlist umfram kannski að kenna á hljóðfæri.  Og eru að auki með vondan músíksmekk (skallapopparar).  Heimurinn er líka fullur af leikmönnum sem hafa átt farsælan feril í lagasmíðum og hljóðfæraleik.

  Þá komum við aftur að faglegu þekkingunni.  Ég kvitta undir að Óli Palli og Andrea hafi góða þekkingu á tónlist.  Óli Palli er líka glettilega góður gítarleikari.  

Jens Guð, 29.11.2011 kl. 23:39

22 Smámynd: Jens Guð

  Atli,  þú hefur greinilega skemmt þér vel.

Jens Guð, 29.11.2011 kl. 23:40

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Hámenntaður organisti sem sent hefur frá sér plötu með rosalegum og erfiðum verkum getur ekki spilað einfaldasta lag nema af nótum" segir þú Jens. Ég veit ekki hvað þú átt við nákvæmlega með "einfaldasta lag"  en þessu á ég afar erfitt með að trúa. Sjálfsagt eru til einstaklingar sem skera sig úr hvað þetta varðar, en þeir eru þá einhverskonar "freak of nature".

Annars er ég eiginlega ósammála þér í öllu þínu svari og þú kvittar ekkert undir hjá mér með að "Óli Palli og Andrea hafi góða þekkingu á tónlist" því það sagði ég ekki.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2011 kl. 00:50

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég vil bæta því við, að margir finna öryggi í því að syngja og spila með nóturnar fyrir framan sig og eiga erfitt með að venja sig af því.  Þetta er s.s. nokkusrkonar ávani, en það þarf samt ekki að þýða að viðkomandi "geti ekki" spilað eða sungið án nótna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2011 kl. 00:58

25 Smámynd: Jens Guð

  Gunnar TH.,  ég var kannski að oftúlka orð þín um Óla Palla og Andreu og biðst velvirðingar á því.  Þau hafi yfirgripsmikla þekkingu á poppsögunni en skorti faglega þekkingu.  Þá er mín spurning:  Hvar skortir Óla Palla faglega þekkingu?  Hann er góður gítarleikari.  Það hlýtur að falla undir faglega þekkingu. 

  Það er töluvert algengt að skólagengnir hljóðfæraleikarar séu rígbundnir við nótur.  Maðurinn sem ég vitnaði til heitir Pavell. Þú manst kannski eftir honum frá Eskifirði.   Ég stundaði söngnám hjá konu hans í 2 ár í Söngskóla Reykjavíkur.  Ég man ekki hvort að hún eða hann sagði mér frá þessu.  Hinsvegar þekki ég fleiri hljóðfæraleikara sem eru háðir nótnalestri og eiga í vandræðum með að spila eftir eyranu,  eins og það kallast.

Jens Guð, 30.11.2011 kl. 01:25

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Að Óli Palli sé góður gítarleikari eru þín orð, ég þekki það ekki. Spurning hvað viðmiðið er hjá þér. Ég er t.d. talinn ágætur skákmaður af mörgum.... en ég veit betur

Ég kann ágæt deili á Pavel Smid en hann var þó farinn héðan þegar ég kom austur 1989.

Sagan af komu hans til Íslands er skemmtileg. Hann kom frá Tékkóslóvakíu árið 1975, ásamt búlgarskri eiginkonu sinni, Violetu Smidovu. Hann var nýútskrifaður úr virtum tónlistarháskóla í heimalandi sínu og sá auglýsingu, þar sem óskað var eftir skólastjóra við tónlistarskóla á Reyðarfirði. Hann þekkti lítið sem ekkert til Íslands en hafði þó eitthvað heyrt um höfuðborg landsins.

Hann ákveður að slá til og pantar flug til Íslands. Honum hafði verið sagt að hann þyrfti að taka rútu frá flugvellinum í Keflavík á annan flugvöll og fljúga þaðan austur á land þar sem yrði tekið á móti honum. Þegar hann kemur til Reykjavíkur, hafði hann í raun ekki hugmynd hvar hann var staddur en hugsaði með sér að þetta væri þokkalega stór bær og varla yrði áfangastaðurinn verri en þetta. Svo lendir hann á Egilsstaðaflugvelli og er keyrður niður á Reyðarfjörð. Þegar hann kom niður úr Fagradal og fjörðurinn opnaðist fyrir honum, með pínu litlu þorpi í botni hans, þornaði hann í kverkunum og var viss um að þetta væri einhver misskilningur. Hann hefði ráðið sig sem skólastjóra og kennara við tónlistarskóla höfuðborgar Íslands, Reyðarfirði!

Karlanginn ruglaði saman Reyðarfirði og Reykjavík og var lengi sjokkeraður yfir örlögum sínum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2011 kl. 02:32

27 Smámynd: Jens Guð

  Ég kannast að hluta við söguna um Pavell Smid (sennilega erum við að stafsetja nafn hans vitlaust).  Violeta var söngkennarinn minn.  Ég held að þau séu skilin.  Annað hvort þeirra sagði mér frá því áfalli sem það var að koma til Eskifjarðar.  Þeim hafði aldrei dottið í hug að til væri þorp með færri íbúum en nokkur hundruð manns. 

  Ég er alveg ágætur gítarleikari sjálfur (að eigin mati) þegar best lætur. Um gítarleik Óla Palla vísa ég til kráku (cover song) hans á "Blindskeri" Bubba sem kom út á plötu,  ja,  að mig minnir til styrktar einhverju fótboltafélagi,  Hvað heitir fótboltafélagið á Akranesi?  ÍA?  Man það annars ekki.  Held samt að það heiti ÍA.  Ég hef heyrt til fleiri tilfella þar sem hann grípur í gítar.  Hann er alveg fínn gítarleikari.  Annars skiptir það ekki máli.  Handalaus maður getur alveg haft ágæta skoðun á gítarleik.  Sá sem aldrei hefur handleikið gítar getur haft góða þekkingu á gítarleik alveg eins og sá sem hefur atvinnu af því að spila á gítar.  Sjálfur er ég útskrifaður úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands eftir þar fjögurra ára nám. Með fínar einkunnir og það allt.  En því fer fjarri að mín myndlist slagi upp í margt af því sem óskólagengnir hafa gert.        

Jens Guð, 30.11.2011 kl. 03:06

28 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvað varð um Brian May úr Queen, var hann ekki einhvern tímann í 13. sæti, eða var það á einhverjum öðrum lista?

Theódór Norðkvist, 30.11.2011 kl. 09:05

29 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  að þessu sinni er Brian May í 26. sæti.  Næsta sæti fyrir ofan Bo Diddley.

Jens Guð, 30.11.2011 kl. 19:48

30 identicon

Slash?

Arnar (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 00:36

31 Smámynd: Jens Guð

  Slash er #36.  Hann er flottur og hefur skorað hærra á listum yfir "riff" og "lykkjur".

Jens Guð, 4.12.2011 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband