Óvænt bylting í N-Kóreu

  Norður-Kórea er eitt lokaðasta og undarlegasta þjóðfélag heims.  Það er jafnframt eitt hervæddasta land heims.  Kommúnistaflokkur fer þar með völd.  Frá 1948 var Kim Il-Sung aðal spaðinn og er enn.  Hann lést 1994 en hefur samt ekki látið af embætti.  Þvert á móti þá heldur hann fast um stjórnartauma.

  Sonur hans,  Kim Jong-Il,  fékk það hlutverk að hafa milligöngu um að sinna störfum eilífðarforsetans.  Kim Jong-Il kaus sér jafnframt það hlutverk að þamba allsnakinn koníak á kvöldin og hlusta á plötur enska blúsgítarleikarans Erics Claptons.  Sérstakt dálæti hafði hann á flutningi Eiríks á gamla blússlagara Leadbellys Goodnight Irene.

kim jung-il

  Í fyrra féll Kim Jong-Il frá.  Að sögn kóreskra fjölmiðla vegna vinnuálags.

  Einhver vandræði voru á elstu sonum Kims Jong-Ils.  Ég man ekki alveg hver þau voru.  Gott ef einn þeirra lenti ekki í klúðri í Japan með fölsuð skilríki.  Ég man ekki hvort það var sá eða einhver annar sem var og er talinn vera bjáni.

  Það kom í hlut yngsta sonar Kims Jong-Ils,  Kims Jong-Un, að taka við sæti föður síns.  Sá hefur verið talinn af þeim sem til þekkja óreyndur og strengjabrúða embættismanna.  Á tímabili voru sögusagnir um að hætta væri á að honum yrði steypt af stóli.  Jafnvel að undirlagi Kínverja sem hafa haft miklar áhyggjur af ófyrirsjáanlegum uppátækjum ráðamanna í N-Kóreu.

  Framan af var Kim Jong-Un aðallega í því að skoða hluti,  eins og var aðal starf föður hans.  Kim Jong-Un virðst leiðast að skoða hluti.  Hann er jafnan með fýlusvip.  Nema þegar hann fær að skoða matvæli.  Þá brosti hann út að eyrum og er áhugasamur.  Hann þykir gráðugur mathákur.

  Reiknað var með að Kim Jong-Un myndi ekki rugga bátnum heldur reyna að festa sig í sessi í því hlutverki að skoða hluti.  Hann hefur svo sem hvergi slegið af sér við það.  Hins vegar kom hann verulega á óvart á dögunum með því að boða byltingarkenndar breytingar í N-Kóreu.

  Þær felast meðal annars í því að aflétta banni við því að konur gangi í buxum að eigin vali.  Sömuleiðis er reglum aflétt um það hvernig skóm konur skuli ganga í.  Jafnframt er konum heimilt að nota eyrnalokka. 

  Ekki nóg með það.  Kim Jong-Un hefur aflétt banni við því að þegnar landsins megi eiga og brúka farsíma. 

  Stærsta skrefið í umbótum Kims Jong-Uns er að hann hefur heimilað einstaklingum að opna matsölustaði með öðrum mat en hundakjöti og öðrum kóreskum þjóðlegum réttum.  Héðan í frá má hver sem er í N-Kóreu opna veitingastað með pizzum,  pylsum og hverju sem er.  Sjálfur hefur Kim Jong-Un vísað til þess að faðir hans fann að sögn upp skyndibita sem kallast hamborgari. 

  Þetta hljómar allt eins og eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt.  En í N-Kóreu er þetta bylting.

  Til gamans má geta að þrátt fyrir að íbúar N-Kóreu búi við mjög svo skert ferðafrelsi (eiginlega ekkert) þá hefur verið og er auðvelt fyrir útlendinga að heimsækja landið.  Þeim er úthlutað fararstjórum sem fylgja þeim hvert fótmál.

  Þegar ég skrapp til Noregs í fyrra hitti ég hermann frá S-Kóreu.  Sá sagði mér frá því að það væru engin vandkvæði fyrir sig að ferðast um N-Kóreu.  Hann vann á landamærum Kóreu-ríkjanna og átti vinsamleg samskipti við landamæraverði N-Kóreu.  Fór meðal annars í fjallaferðir með þeim í frístundum.  Engu að síður eru af og til skærur á milli ríkjanna.  En ekki á hans slóðum.  Þar ríkti vinsemd á milli landamæravarða.  Þeir léku sér saman í fótbolta og skiptust á geisladiskum með músík og svo framvegis. 

kim jong-un spilar á gítar

  Í N-kóreskum fjölmiðlum var birt þessi mynd af Kim Jong-Un að spila á gítar.  Kim var sagður hafa tekið þvílíkt gítarsóló að Eric Clapton gæti margt af honum lært.  Illar tungur telja sig sjá að gítarinn sé vanbúinn strengjum og þeir fáu strengir sem í gítarnum séu beri þess merki að vera of laust strekktir til að hægt sé að spila á hann með góðu móti.  Að auki bendi meðhöndlun Kims Jong-Uns á gítarnum ekki til fagmennsku í gítarleik.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Fjalla-læk á þennan pistil.

Billi bilaði, 4.7.2012 kl. 11:26

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mjög eru það illar tungur sem draga gítarsnilld leiðtogans í efa!

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.7.2012 kl. 11:59

3 Smámynd: Jens Guð

  Billi,  takk fyrir það.

Jens Guð, 4.7.2012 kl. 22:52

4 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Þór,  já,  það gætir óþægilegrar tortryggni í garð afreksverka n-kóresku feðgana.  Kim Jong-Il setti margfalt heimsmet í golfi í fyrsta og eina skipti sem hann prófaði þann leik.  Þrátt fyrir að 8 vitni staðfestu að hann hefði slegið holu í höggi hvað eftir annað þá var grín gert að því utan N-Kóreu. 

Jens Guð, 4.7.2012 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband