Umræðan um "Stál og hníf"

  bubbimorthens

  Nýverið var haft eftir mér í Lesbók Morgunblaðsins að textinn "Stál og hnífur" sé illa ortur.  Þetta voru af minni hálfu sakleysisleg ummæli.  Ég var spurður að því hvaða íslenskar plötur væru ofmetnar af þeim sem jafnan tróna efst á listum yfir bestu plötur íslensku rokksögunnar. 

  Margir hrukku illa við ummæli mín og hafa sent mér kaldar kveðjur á blogginu.  Telja mig hafa ráðist að ósekju á höfundinn,  Bubba.  Jafnframt hafa sumir reynt að færa rök fyrir því að lagið sé gott.  Með ágætum árangri. 

  Gæði eða vankantar textans hafa lítið með ágæti lagsins að gera.  Lagið er vissulega magnað.  Auðlært til söngs og undirleiks.  Vinsæll rútubílasöngur og hvar sem brestur á með fjöldasöng.  Allir aldurshópar virðast kunna lagið og textann.  Samt efast ég um að margir skilji textann. 

  Þegar "Stál og hnífur" kom út á plötu 1980 var það hluti af íslensku pönkbyltingunni sem ýmist var og hefur verið kennd við Bubba eða "Rokk í Reykjavík".  Hugmyndafræðin var að kýla á hlutina.  Það var ekki verið að leggja upp með listræn fullkomin verk gerð af meistara höndum.  Pönkið var að hluta uppreisn gegn flóknu og þunglamalegu framsæknu (progressive) rokki,  fingrafimum hljófæraleikurum,  yfirlegu og "heavy pælingum".  Einnig gegn metnaðarlausu krákuðu poppi með bulltextum.  Í samanburði við "Diggy Liggy Ló" hljómaði "Stál og hnífur" jarðbundinn texti um raunveruleika íslensks farandverkafólks.   Hrár texti af þessu tagi 1980 og næstu ár féll vel að stemmningunni.  Pönkið og nýbylgjan hljómuðu að stóru leyti sem "demó" í flesta staði.  Það var bara flott.

  Engu að síður er "Stál og hnífur" ruglingslegur texti og hefur elst illa.  Öfugt við lagið sem er og verður sígilt.  Það á ekki að þurfa að kryfja textann línu fyrir línu til að sýna fram á það.  Nægilegt er að benda á rímið í síðasta erindinu þar sem orðið manna rímar á móti manna.

  Skoðun mín á textanum "Stál og hnífur" lýsir engri andúð á Bubba eða hans músík.  Eftir hann liggja 500 textar - eða svo - á plötum.  499 þeirra eru betri en "Stál og hnífur".  Ég hef alltaf verið jákvæður í skrifum út í Bubba og hans músík.  Ég á tugi platna með honum og hlusta oft á þær mér til skemmtunar.  Ólíklegt er að margir poppskríbentar hafi hlaðið Bubba jafn miklu lofi og ég þegar allt er saman tekið.  Þetta dreg ég fram til að það sé á hreinu að skoðun mín á textanum "Stál og hnífur" ræðst ekki af neikvæðri afstöðu til Bubba.  Alls ekki.  Ég hef jákvæða afstöðu til Bubba.  Kannski þess vegna tel ég mig vera í þeirri aðstöðu að viðra skoðun um það sem miður vel hefur tekist hjá hjá honum.  Líka vegna þess að ég veit að Bubbi þolir það án þess að taka því illa.   

  Á einu bloggi sá ég spurt hæðnislega hvort ég hafi ort texta.  Það kemur málinu ekkert við.  "Stál og hnífur" verður hvorki betri né verri texti hvort sem ég hef ort texta eða ekki.  Né heldur hvort ég hef ort lélegan eða góðan texta.  Þó það komi málinu ekki við þá hef ég ort marga texta.  Alla lélega.    

Stál og hnífur

AmollÞegar ég vaknaði um Dmollmorguninn
er þú Ekomst inn til Amollmín.
Hörund þitt eins og Dmollsilki
andlitiðE eins og Amollpostulín.

Við bryggjuna bátur vaggar Dmollhljótt,
í nóttE mun ég Amolldeyja.
Mig dreymdi dauðinn segði Dmollkomdu fljótt
það er svo Emargt sem ég ætla þérAmollsegja.

FEf ég drukkna, Cdrukkna í nótt,
Eef þeir mig Amollfinna.
Þú Fgetur komið Cog mig sótt
þá Evil ég á það Amollminna.

Stál og hnífur er Dmollmerki mitt
merki EfarandverkaAmollmanna.
Þitt var mitt og Dmollmitt var þitt
meðan ég Ebjó á meðal Amollmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 21.10.2008 kl. 00:10

2 Smámynd: S. Lúther Gestsson

"ruglingslegur texti og hefur elst illa". Láttu ekki svona Jens, þetta er flottur texti sem hefur elst lengi og vel.

S. Lúther Gestsson, 21.10.2008 kl. 00:17

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er með tvö bjánablæti yfir þessu, vonandi bæði jafnröng.

Annað er að Ásbjörninn hafi oftast tekið lagið í Emoll yfir í Amoll & H7und & hitt að Tolli eigi meira en smotterí í þessu.

Þú innir að þessu fyrir mig, gæzkur...

Steingrímur Helgason, 21.10.2008 kl. 00:32

4 Smámynd: Jens Guð

  Ómar,  takk fyrir innlitið.

  Sigurður Lúther,  skilurðu textann?  Báturinn vaggar hljótt en sögumaður mun deyja.  Er það eðlileg framvinda?  Dauðinn (hver er það?) kemur á framfæri - í draumi - skilaboðum um að hann þurfi margt að segja sögumanni.  Þar með lýkur hlutverki Dauðans án þess að upplýst sé í textanum hverjar upplýsingar Dauðans voru svona áríðandi.  Ef við grípum til bókmenntafræði kallast þetta að botn vanti í söguna.  Bolti er gefinn upp en fær ekki lendingu.

  Sögumaður tekur ekki meira mark á draumnum en svo að hann notast við EF.  En minnir á samstöðu farandverkamanna.  Samstöðu um hvað?  Jú,  táknið:  Stál og hníf.  En hvaða gildi hefur það eftir að sögumaður er dáinn? 

  Reyndar er það ekki bara söguþráðurinn sem er ruglingslegur heldur framsetning textans.  Orðalagið og skort á eðlilegu flæði.  Þessi texti er meira eins og uppkast að texta sem á eftir að umorða og laga.  Ekki endilega til að fella að stuðlum og höfuðstöfum heldur til að gera að góðum texta.  Þetta er "pjúra" pönktexti í anda Utangarðsmanna/Fræbbblanna 1980 en væri ekki boðlegur sem nýr texti í dag.

  Steingrímur,  ég kann lagið bara í þessum hljómagangi.   Þú ert betri en ég í tónfræði/hljómfræði og ég treysti mér ekki til að mótmæla þínum hljómagangi.  Á hinn bóginn tel ég mig geta fullyrt að Tolli eigi ekki smotterí í þessu sönglagi.  Hann er skólabróðir minn úr Myndlista- og handíðaskólanum og ég ætla að hann hefði nefnt við mig ef svo væri.  Hinsvegar kom Tolli víða við sögu í öðrum sönglögum Bubba og Utangarðsmanna á þessum árum.

  Ég ítreka að það sem ég finn að "Stál og hnífur" textanum er ekki meint sem andúð á Bubba og hans músík.  Bubbi hefur gert margt frábært.  Lagið "Stál og hnífur" er ein af hans perlum.  En ekki textinn.  

Jens Guð, 21.10.2008 kl. 01:41

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

verður það ekki að viðurkennast að „þegar ég vagtnaði um morguninn“ séu með fleygari setningum poppsögu Íslands?

Brjánn Guðjónsson, 21.10.2008 kl. 01:47

6 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jújú, víst má nú líklega taka undir það með Brjáni "Musterisriddara"!

En gott lag eða ekki, vondur texti eða ekki, skiptir víst litlu þegar öllu er á botnin hvolft, örlögin bara hagað því svo eins og með margan verknaðin annan í listum ærið misjafnan að gerð, að það telst nánast orðið sígilt nær þremur áratugum eftir útgáfu!

En líkt og með alla hluti, sígilda eða ekki, eiga menn auðvitað að vera óhræddir við að tjá sína skoðun og færa fyrir þeim rök og það gerir félagi Jens finnst mér á gagnrýnan og góðan hátt.

Skemmtileg pæling hjá STeingrími, sem gefur mér sem stundum áður líka, tækifæri til að rifja upp góðar stundir með þeim væna og hjartahlýja manni Ingimar heitnum Eydal! Hann hafði einmitt svo gaman af að sýna fólki með tóndæmum hvernig hægt væri að "teygja og tosa" hin ýmsustu smíðar í dúr og moll, afturábak og áfram, spinna jafnvel eitt frægt lag upp úr öðru slíku til að fólk heyrði að þau væru ekkisvo ólík!

En aftur að Stál og hníf, þá man ég nú ekki betur en það hafi verið tilviljun að lagið fór á Ísbjarnarblúsinn, engum þótt það nógu gott nema bubba sjálfum!? En man þetta ekki svo vel, en hlýt að hafa heyrt bubba sjálfan segja frá þessu, annað hvort í okkar eigin samtölum eða öðrum óteljandi!?

Magnús Geir Guðmundsson, 21.10.2008 kl. 16:38

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þessu er ég hjartanlega sammála. Þetta er ekki illa ortur texti heldur skelfilega illa ortur texti. Hún er barn síns tíma og það er jafnvel að maður skynji að hann hafi jafnvel ekki verið með takt lagsins (vals 3/4) á hreinu þegar textinn er saminn. Ef ég man rétt þá stóð jafnvel til að þetta lag yrði ekki með á plötunni. Ekki var hann sjálfur ánægðari með þetta en svo. Textinn er eiginlega eins og bulluppkast til að þróa lagið áfram. Meiningin hafi verið að laga hann síðar í samningsferli lagsins.

Bubbi vingaðist við Silju Aðalsteinsdóttur og Megas og skólaðist betur í textagerð sumpart með þeirra aðstoð eftir því sem sagan segir. Það verður að segjast eins og er að lesblindur Bubbi hefur komið sér býsna vel fyrir í laga- og ljóðagerð með þessa "fötlun" sína.

"Stál og hnífur" er eins og koníak: Svo má vondu venjast að gott þyki.

Haukur Nikulásson, 21.10.2008 kl. 16:47

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hún er barn... á sjálfsögðu að vera Hann (textinn) er barn síns tíma.

Haukur Nikulásson, 21.10.2008 kl. 16:49

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Held nú reyndar að bubbi sé skrifblindur, ekki les-, sem ku víst vera nokkur munur á. En þetta kann að vera réttar munar hjá Hauki með lagið, en hjá mér, en víst er að það var örugglega síðasta lagið sem fór á hana.

Magnús Geir Guðmundsson, 21.10.2008 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband