28.8.2013 | 21:20
Óhugnanlegar fullyrðingar um eiturlyfjabransann
Fyrrum lögregluþjónn og skipstjórnarmaður heldur úti bloggsíðu á Vísisblogginu. Að eigin sögn naut hann viðurkenningar og virðingar Alþjóðalögreglunnar, Interpol, fyrir löggæslustörf sín. Engin ástæða er til að rengja það. Á bloggsíðu sinni nafngreinir hann Íslendinga og fólk þeim tengt sem hefur óhreint mjöl í pokahorninu.
Bloggarinn nafngreinir yfirmann Evrópudeildar bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Segir hann eiga veitingastað á Benidorm á Spáni; eiga nafngreinda íslenska kærustu og dóttir með henni. Öll stundi þau innflutning á eiturlyfjum til Íslands. Og það með vitund íslenskra lögreglumanna í Frímúrareglunni.
Inn í þetta blandast fjöldi annarra nafngreindra. Þar á meðal danskur tollvörður sem jafnframt er í dönsku leyniþjónustunni. Málið teygir sig til Úkraínu. Rússar koma einnig við sögu. Svo og Hjálpræðisherinn.
Þetta er allt svo svakalegt að ég hef hér aðeins tiplað á örfáum atriðum. Bloggfærsluna í heild má lesa með því að smella á þennan hlekk: http://blogg.visir.is/kristjansk10/?vi=1099#post-1099
![]() |
Stærsta dópverksmiðjan sem fundist hefur í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 29.8.2013 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
27.8.2013 | 22:00
Smásaga um súran hval
Það var fyrir hálfri öld. Íslensk alþýðuheimili voru fátæk. Það þurfti að spara hverja krónu. Engu var eytt í óþarfa. Þvert á móti þurfti að beita ýtrustu útsjónarsemi til að endar næðu saman. Það mátti ekkert út af bregða til að heimilið stæði skil á sínum gjöldum. Heimilisfaðirinn fagnaði hverri aukavinnu sem bauðst. Húsmóðirin framlengdi endingu á slitnum fötum heimilisfólksins með því að staga í og sauma bætur yfir slitnustu fleti. Það var sjaldan svigrúm til að gera sér dagamun. Þó var það reynt á stórhátíðum.
"Gunni minn, þú þarft að skjótast fyrir mig í búðina," kallaði húsmóðirin á átta ára drenginn, elstan þriggja barna. "Af því að sumardagurinn fyrsti er á morgun þá ætla ég að hafa súran hval í eftirrétt á morgun. Taktu þennan hundrað króna seðil og keyptu 250 grömm af súrum hval."
Gunni lét ekki segja sér það tvisvar. Honum þótti gaman að fara í búðina. Það var svo gaman að horfa á allt góðgætið sem þar fékkst. Hann var vanur að heita sjálfum sér því að þegar hann yrði fullorðinn þá myndi hann kaupa nammi. Hann var viss um að það væri bragðgott.
Gunni var ekkert að flýta sér í búðinni. Hann gaf sér góðan tíma til að skoða margt. Lyktin var góð. Eftir langan tíma gekk hann að kjötborðinu, veifaði 100 króna seðlinum og bað um súran hval. Kaupmaðurinn tók við seðlinum og troðfyllti þrjá innkaupapoka af súrum hval.
"Það verður aldeilis veisla heima hjá þér," kallaði kaupmaðurinn glaður í bragði þegar hann horfði á eftir Gunna kjaga um búðina með hvalinn.
"Já, það er sumardagurinn fyrsti á morgun," útskýrði Gunni um leið og hann rogaðist með pokana út úr búðinni.
Á heimleiðinni varð Gunni hvað eftir annað að setjast niður og hvíla sig. Hvalkjötið var svo þungt. Hann hlakkaði til að fá hrósið frá mömmu sinni fyrir dugnaðinn og eljuna. Viðbrögðin urðu önnur. Mamman hrópaði í geðshræringu: "Keyptir þú hval fyrir allan peninginn? Ertu búinn að missa vitið?"
Hún beið ekki eftir svari. Það var hárrétt ákvörðun. Það kom ekkert svar. Hún settist niður, fól andlitið í höndum sér og fór að hágráta. Hún grét af reiði. Grét af vonbrigðum. Grét í ráðaleysi og örvinglan.
Gunni horfði undrandi á þessi viðbrögð. Að honum læddist grunur um að hann hefði klúðrað einhverju við innkaupin. Hann vissi ekki hverju. Hann mat stöðuna þannig að betra væri að læðast í burtu í stað þess að leita skýringar. Hann læddist hljóðlega inn í litla herbergi systkinanna, klifraði upp í efri kojuna og beið þess að pabbi kæmi heim úr vinnunni. Það var alltaf léttara yfir mömmu þegar pabbi var heima.
Gunni spratt fram þegar hann heyrði pabba koma inn úr dyrunum. Sem betur fer var mamma hætt að gráta. Hún var samt eins og niðurdregin, ef vel var að gáð. En ekki reiðileg.
"Gunni minn, leggðu á borð. Við fáum okkur að borða," sagði hún. Gunni hlýddi. Mamma bar á borð skál með súrum hval.
Það hýrnaði yfir pabba. "Það er bara veisla," sagði hann fagnandi. "Já, það er sumardagurinn fyrsti á morgun," upplýsti mamma.
Öllum þótti hvalurinn góður. Líka morguninn eftir þegar hvalur var á borðum í stað hafragrautar. Hvalurinn vakti ekki alveg sömu kæti þegar hann var hádegisverðurinn. Yfir kvöldmatnum spurði pabbi: "Væri ekki ráð að hafa soðnar kartöflur með hvalnum? Hann er dálítið einhæfur svona einn og sér í hvert mál."
"Nei," mótmælti mamma. "Ef við förum að drýgja hvalinn með kartöflum eða brauði eða öðru þá sitjum við uppi með hvalinn í allt sumar. Það væri annað ef við ættum ísskáp. Þá væri hægt að hafa hvalinn í annað hvert mál. En eins og þetta er verðum við að hafa hvalinn í öll mál þangað til hann er búinn."
Allir andvörpuðu og vissu að þetta var rétt. Eftir því sem dögunum fjölgaði varð hvalurinn ólystugri. Öllum bauð meira og meira við hvalnum. Kjötið tapaði þéttleika. Það varð slepjulegra og hlaupkenndara með hverjum deginum sem leið. Allir minnkuðu skammtinn sinn við hverja máltíð. Allir kúguðust. Kannski var það ekki einungis vegna þess hvað súr hvalur í öll mál dag eftir dag eftir dag er einhæf fæða. Kannski tapaði hvalurinn bragðgæðum við að standa sólarhringum saman í hlýju eldhúsi. Kannski var þetta samverkandi. Enginn hafði áhuga á að komast að hinu sanna í því. Það var aldrei minnst á hval eftir þetta á heimilinu. Aldrei.
---------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
- Bílasaga
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303801/
Matur og drykkur | Breytt 28.8.2013 kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2013 | 22:19
Veitingahússumsögn
- Réttur: Marineruð úrbeinuð kjúklingalæri
- Staður: BK kjúklingur á Grensásvegi
- Verð: 1990 kr.
Matur og drykkur | Breytt 27.8.2013 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2013 | 14:12
Auðlærðar aðferðir til að lesa í veðrið
Stöðug vætutíðin í vor og sumar hefur slævt tilfinningu Íslendinga fyrir veðrinu. Veðrið er alltaf eins. Við erum hætt að hugsa út í það. Hætt að spá í veðrið. Hætt að tala um veðrið. Veðrið er bara þarna. Alveg eins og í gær. Alveg eins og í síðustu viku. Alveg eins og í síðasta mánuði. Alveg eins og í allt sumar.
Þetta er hættuleg staða. Ef að skyndilega hitnar í veðri og enginn tekur eftir því er næsta víst að illa getur farið. Til að forðast hættuna er ástæða til að hafa augun hjá sér. Skima stöðugt allt í kringum sig. Reyna að koma auga á vísbendingar. Það er auðveldara en halda má í fljótu bragði. Þumalputtareglan er að læra utan að eftirfarandi atriði:
Tekur vodkaglasið úti á veröndinni skyndilega upp á því að halla undir flatt? Svoleiðis hendir í heitu veðri. Einkum ef um plastglas er að ræða.
Liggur umferðarkeilan í götunni eins og sprungin blaðra? Gáðu að því. Kannski er þetta húfa sem álfur hefur týnt. Ef þetta reynist vera umferðarkeila er heitt í veðri.
Sjást fuglar aðeins í skugga? Hvergi annarsstaðar? Þá er heitt.
Liggur hálfsofandi dýr ofan í vatnsskálinni á veröndinni? Ef að dýrið harðneitar að yfirgefa vatnsskálina má reikna með að heitt sé í veðri.
Liggur hesturinn ofan í vatnsbalanum sínum? Það gerir hann bara í heitu veðri.
Leka spaðarnir á loftkælingunni niður? Það er ekkert flott.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2013 | 22:03
Ný lög frá Högna
Högni Lisberg sló fyrst í gegn með trip-hopp hljómsveitinni Clickhaze. Þar trommaði hann af snilld. Eivör og Pétur Pólson sungu. Mikael Blak, Jón Tyril, Bogi og Jens L. spiluðu á hin hljóðfærin. Þetta var rosaleg hljómsveit. Allir að springa úr sköpunarþörf og spilagleði. Merkasta hljómsveit færeysku rokksögunnar fyrir margra hluta sakir.
Clickhaze sigraði með yfirburðum í færeysku Músíktilraununum. Í kjölfarið hélt hljómsveitin hljómleika á Hróarskeldu og Íslandi 2002. Svo sprakk hún. Liðsmenn voru hver um sig of stórir með of stór áform fyrir hljómsveitina. Þeir uxu hljómsveitinni yfir höfuð.
Högni hóf sólóferil. Hann hefur sent frá sér fjórar sólóplötur. Titillag plötu nr. 2, Morning Dew, sló í gegn hérlendis. Ég man ekki hvort að það náði toppsæti íslenska vinsældalistans en það sat að minnsta kosti vikum saman ofarlega á honum. Fleiri lög af sömu plötu nutu vinsælda á Rás 2 og fleiri útvarpsstöðvum. Í kjölfarið spilaði Högni á Airwaves og víðar á Íslandi.
Lag af Haré! Haré!, þriðju plötu Högna, rataði inn í bandarískan tölvuleik, NBA 2K 11. Tölvuleikurinn seldist í milljónum eintaka. Lagið hans Högna, Bow Down, er vel þekkt í Bandaríkjunum og víðar út af þessum tölvuleik. Til samans hafa myndbönd með laginu verið spiluð yfir milljón sinnum á þútúpunni. Aðdáendur lagsins spila fleiri lög með Högna. Mánaðarleg spilun á myndböndum hans til samans á þútupunni er kvartmilljón.
Á Spotify eru lög með Högna spiluð 150 þúsund sinnum á mánuði.
Nú hefur Högni í fyrsta skipti á ferlinum hljóðritað nokkur lög þar sem hann syngur á færeysku. Hann er búinn að deila tveimur þeirra yfir á þútúpuna. Fyrra lagið heitir Fólkið í Sprekkunum. Magnað lag.
Tónlist | Breytt 25.8.2013 kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2013 | 21:38
Skondin skilaboð
Þegar fyrirtæki, stofnanir eða heimili í Danmörku eru heimsótt er ekki byrjað á því að bjóða upp á kaffi. Kannski er slíkt aðeins séríslenskur siður. Ég veit það ekki. Í Danmörku er gesturinn spurður að því hvort hann vilji Carlsberg eða Tuborg. Það er góður siður.
Víða erlendis er rótgróin og sterk pöbbamenning. Hún er í Danmörku, Þýskalandi of út um allt Bretland. Og víðar. Þar um slóðir er fastur siður að karlar (og nokkrar konur) skreppi á pöbbinn eftir kvöldmat. Það má mikið ganga á til að menn skrópi á pöbbinn.
Þar sem margir pöbbar eru í samkeppni á sama svæði er reynt að lokka viðskiptavini inn með skondnum texta á auglýsingaskilti. Textinn skartar ekki tilboði eða slíku. Hann skartar sniðuglegheitum. Fólk stoppar við skiltin til að lesa broslegan texta. Sá sem staðnæmist fyrir utan pöbba er líklegri til að kíkja inn heldur en sá sem gengur framhjá.
Hér eru sýnishorn:
"Súpa dagsins er ROMM!"
"Áfengi leysir ekki vandamál þín... Ekki heldur mjólk."
"Ef þú drekkur til að gleyma, vinsamlegast borgaðu fyrirfram."
"Ef lífið færir þér sítrónu skaltu laga sítrónusafa og finna einhvern sem lífið hefur fært vodka og slá upp partýi!!!"
"21 árs aldurstakmark. Hér eru börnin búin til en fá ekki afgreiðslu"
"Ekki gleyma að kaupa gjafakort handa pabba á feðradaginn (mundu að þú ert ástæðan fyrir því að hann drekkur)"
"Drekktu þrefaldan, sjáðu tvöfalt, hegðaðu þér eins og þú sért einn"
Það má líka skilja Act single sem "hegðaðu þér eins og einhleypur".
Rúsínan í pylsuendanum er textinn á skiltinu hér fyrir neðan:
"Eitthvað hnyttið, djúpviturt og ögrandi (forstjórinn bað mig um að skrifa þetta)"
![]() |
Carlsberg næstum uppurinn í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2013 | 00:50
Andlit út um allt
Við lifum öll í spilltum heim, sem gefur engum grið.
Þar sem samviska er engin til og lítil von um frið.
Þar sem tortryggni og sjálfselska sér eiga engin mörk.
Þar sem jafnrétti og bræðralag eru orð á hvítri örk.
Þannig orti og söng Jóhann G. Jóhannsson fyrir meira en fjórum áratugum. Þá voru spilling og njósnir frumstæðari en í dag. Miklu frumstæðari. Það var ekki einu sinni hægt að njósna í gegnum internetið. Né heldur var hægt að leka myndböndum af stríðsglæpum inn á netið.
Nú er fylgst með öllum allsstaðar. Ef að vel er gáð má greina uppglenntar glyrnur og kjöftuga kjafta út um allt. Það eru andlit út um allt. Þau eru fyrir framan okkur hvar sem við erum og hvert sem við förum. Við tökum hinsvegar ekki eftir neinu. Við erum alveg sljó. Þess vegna er svona auðvelt að ráðskast með okkur.
Rauður sportbíll lætur lítið yfir sér. Hann er sakleysið upp málað. Eða hvað? Prófum að þrengja sjónarhornið. Þá blasa við forvitin augu sem láta ekkert fram hjá sér fara og gapandi gin.
Innan í bílnum er öryggisbelti. Það er auðvelt að afhjúpa andlit þess með tunguna lafandi út úr sér.
Inniljós bílsins hafa vakandi auga með öllu.
Báturinn glápir og glottir.
Líka flugvélin.
Og járnbrautalestin.
Með útstandandi augu svolgra herþyrlur í sig hermenn.
Í keilusalnum er fylgst með hverri hreyfingu.
![]() |
Manning huggaði grátandi lögmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 03:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.8.2013 | 23:12
Sjaldan fellur eplið langt frá hænunni
Það er tvíeggjað sverð að vera sonur eins af merkustu tónlistarmönnum sögunnar. Kosturinn er sá að margar dyr standa opnar. Viðskiptavild pabbans er stór og sonurinn nýtur góðs af því. Sonurinn fær á þann hátt forgjöf umfram aðra nýliða í tónlist. Það munar öllu.
Ókosturinn er sá að allt sem sonurinn gerir í tónlist er og verður borið saman við helstu afreksverk pabbans. Það er ójafn leikur.
James McCartney, sonur bítilsins Pauls McCartneys, segir að ekki einu sinni pabbi hans geti keppt við Bítlana. Paul hefur sjálfur sagt að engin hljómsveit geti keppt við Bítlana. Ef Bítlarnir hefðu verið endurreistir á meðan John Lennon og George Harrison voru á lífi á áttunda áratugnum þá hefðu þeir ekki getað keppt við Bítlana eins og hljómsveitin var á sjöunda áratugnum. Bítlarnir voru slík yfirburðarhljómsveit á sínum stutta ferli að ótal met hennar í vinsældum, áhrifum og öðru verða aldrei slegin út.
James McCartney, sonur Pauls, var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu. Hann er hálf fertugur og hefur verið að dútla í músík til margra ára. En látið fara lítið fyrir sér. Hann hefur þó spilað á gítar á nokkrum plötum pabbans. Hann hefur einnig sent frá sér nokkrar smáskífur í hálfgerðri kyrrþey.
Plata James heitir Me. Gagnrýnendur tæta plötuna í sig. Breska tímaritið Q gefur henni 1 stjörnu af 5. Hér er eitt lag af plötunni. Það á ekki eftir að toppa neinn vinsældalista. Frekar óspennandi dæmi.
Söngrödd og raddbeitingu James skortir alveg sjarma Pauls. Að öðru leyti er ósanngjarnt að bera músík James saman við Bítlana, samanber tilvitnanir hér að ofan. Sanngjarnara er að bera músík hans saman við minna þekkt lög pabbans, Pauls. Það er að segja lög sem hafa ekki tröllriðið vinsældalistum, svo sem "Let Me Roll It". Sönglag sem Paul hrissti fram úr erminni til að svara skætingi frá John Lennon. "Leyfðu mér að leika mér í friði," söng Paul og hermdi skemmtilega eftir höfundareinkennum Johns, gítarstíl hans og trommuleik Alans Whites (Yes) sem trommaði með Lennon.
Það er sterkur "karakter" í söngrödd Pauls. Takið eftir því hvað hann gefur skemmtilega örlítið í um og upp úr mín. 1.00. Röddin verður smá rám í örskotsstund. Um mín. 2.00 gefur Paul enn betur í og bregður fyrir sig nettum öskursöngstíl. Hann kann þetta en James kann þetta ekki.
Eldri sonur Johns Lennons, Julian, fór ágætlega af stað í músík með ska-laginu "Too Late for Goodbyes".
Svo var hann fullur í mörg ár og hefur aldrei náð að byggja upp feril. Hér eru skemmtilegar ljósmyndir af þeim feðgum á sama aldri.
Þeir eru glettilega líkir, feðgarnir. Julian verður ekki föðurbetrungur úr þessu. Það er næsta víst.
Yngri sonur Johns, Sean, hefur valið þá skynsamlegu leið að gera út á jaðarmúsík (alternative). Þar með staðsetur hann sig nær mömmunni, Yoko Ono. Vandamálið er að hann er ekki góður lagahöfundur.
Þau mæðgin, Yoko og Sean, hafa verið með annan fótinn á Íslandi síðustu ár. Þau eru hér miklu oftar en fjölmiðlar skýra frá.
Sonur bítilsins George Harrisons, Danni Harrison, á íslenska konu. Ég man ekki nafnið en hún er dóttir Kára Stefánssonar (Íslensk erfðagreining). Danni hefur farið sömu skynsamlegu leið og Sean: Gert út á jaðarmúsík, ólíka Bítlapoppinu.
Tónlist | Breytt 22.8.2013 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2013 | 21:53
Spaugileg húðflúraklúður
Ég hitti mann sem ég kannast lítillega við. Við tókum spjall saman. Einhverra hluta vegna barst tal að skrautskrift. Maðurinn sagði að sér veitti ekki af tilsögn í skrift. Hann skrifaði svo illa að það væri til vandræða. Því til sönnunar bretti hann upp ermi og sýndi mér húðflúr á handleggnum. Þar stóð skýrum stöfum ÓLA FUR.
Þetta húðflúr fékk maðurinn sér úti í Hollandi fyrir fjörtíu árum eða svo. Þar hafði hann vel við skál rambað inn á húðflúrstofu, skrifað nafn sitt á blað og beðið um að það væri flúrað á handlegginn. Maðurinn var óvanur að skrifa nafn sitt með eintómum upphafsstöfum. Því fór svo að hann hafði í ógáti of mikið bil á milli A og F. Hollenski húðflúrarinn hélt að um tvö nöfn væri að ræða og hafði bilið ennþá stærra.
Maðurinn skammast sín svo mikið fyrir þetta klúður að hann hefur alla tíð falið húðflúrið í stað þess að flagga því með stolti.
Þetta er gallinn við húðflúr: Það er varanlegt "skraut" á líkamanum. Að vísu eru snjallir húðflúrarar lagnir við að flúra ofan á gömul húðflúr og "lagfæra" þau. Það er líka hægt að láta fjarlægja húðflúr. Eftir stendur þá ör. Það er síst snotrara en ljótt húðflúr.
Út um allan heim má finna klaufaleg húðflúr, hvort heldur sem er með vitlaust stafsettum texta eða einstaklega illa teiknuð. Þetta er sérlega áberandi í sunnanverðum Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ástæðan er margþætt. M.a. sú að Suðurríkjamenn eru vanir að gera hlutina sjálfir. "Redda sér" án aðstoðar fagmanna. Rauðhálsarnir í suðrinu eru lausir við pjatt og eltast ekki við fínlegustu útfærslur. Það er krúttlegt.
Mörg húðflúr eru teiknuð innan fangelsismúra. Það er ekki einskorðað við Suðurríkin. Margir sem sitja í fangelsi hafa ekki góð tök á réttritun. Þetta á einnig við um þá fanga sem húðflúra. Þeir eru ekki fagmenn. Því er útkoman skrautleg.
Húðflúr með svona og álíka yfirlýsingum eru vinsæl meðal fanga og fyrrverandi fanga: "Iðrast einskis". Gallinn er sá að það vantar t í orðið nothing.
"Enginn draumur er of stór" er metnaðarfull yfirlýsing. Réttritunin er ekki eins metnaðarfull. Það vantar annað o í Too.
"Til fjandans með yfirvöld" er algeng yfirlýsing á handleggjum rauðhálsa. Ótrúlega oft er s ofaukið í orðinu system.
Á þútúpunni má finna mörg myndbönd þar sem flytjandi tónlistar er ranglega skráður Bob Marley. Þetta er algengara en með aðra tónlistarmenn. Ég hef séð mörg vel heppnuð húðflúr með andliti Bobs Marleys. Það allra flottasta er á tónlistarmanninum Hilmari Garðarssyni, teiknað af Sverri "Tattú". Hér er aftur á móti ágætt húðflúr með andliti Jimis Hendrix. En það er merkt Bob Marley.
Ekki er öllum gefið að teikna og húðflúra andlit svo vel sé. Það er sérstök kúnst. Jafnvel flestir annars góðir teiknarar eiga í basli með að teikna andlit. Bandaríska and-rasíska mannréttindabaráttukonan fagra Marilyn Monroe (skráð meintur kommúnisti í skjölum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI) er vinsælt viðfangsefni húðflúrara. Sjaldan með góðum árangri.
Siðvöndum húðflúraranum þótti Marilyn full léttklædd (neðri myndin). Hann kappklæddi hana.
Aðdáendur furðufugsins Mikjáls Jacksonar hafa margir hverjir fengið sér húðflúr með mynd af "fríkinu". Það er svo sem nokkuð sama hver útkoman er. Húðflúruð mynd af Mikjáli er ekkert furðulegri en ljósmynd af honum.
Lífstíll | Breytt 20.8.2013 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.8.2013 | 21:34
Veitingahússumsögn
- Veitingastaður: Hótel Cabin, Borgartúni 32 í Reykjavík
- Réttur: Salatbar
- Verð: 1490 kr. í hádegi, 1850 kr. á kvöldin
- Einkunn: ***1/2 (af 5)
Eftir fyrstu heimsókn í Hótel Cabin hafði ég hug á að gefa salatbarnum 4 stjörnur. Nú hef ég heimsótt staðinn 8 sinnum með nokkurra daga millibili. Við ítrekaðar heimsóknir fækkaði stjörnunum um hálfa.
Út af fyrir sig er salatbarinn hinn ágætasti. Hann er hefðbundinn og þar með ekkert sérstakur. Það er engin ný, framandi eða spennadi salatblanda. Þetta er allt ósköp "venjulegt". Hægt er að velja um yfir þrjá tugi tegunda grænmetis, ávaxta, núðla, pasta og þess háttar. Þetta er allt frá rúsínum og túnfiski til niðursneiddra eggja, tómata og agúrkna. Úrval af köldum sósum er gott. Ofan á "þakinu" á sjálfu salatborðinu stendur fjöldi flaskna með allskonar olíum. Þær virðast vera frekar til skrauts en brúks. Ég hef hvorki séð mig né aðra gesti skipta sér af olíunum.
Í auglýsingum er sagt að úrval heitra og kaldra rétta sé í boði. Það er ósatt eða í besta falli töluvert villandi. Einungis einn heitur réttur er í boði hvern dag. Sá er jafnan lítilfjörlegur. Í eitt skiptið voru það litlar kjötbollur. Í annað skiptið voru það núðlur með örlitlu af kjöthakki. Í öll hin skiptin hafa það verið of þurrir og óspennandi kjúklingavængir og -leggir.
Daglega er boðið upp á tvær súputegundir og gott nýbakað gróft kornbrauð. Ætíð fleiri en ein tegund. Gestir skera sér sjálfir brauðsneiðar. Súpurnar eru einhæfar. Í öll skiptin nema eitt var um samskonar tæru grænmetissúpuna að ræða. Í undantekningatilfellinu var það lauksúpa. Hún var samt merkt sem grænmetissúpa. Og þannig er það með merkingarnar á súpunum. Þær eru oft rangar. Aðrar súpur geta verið þykk grænmetissúpa eða paprikusúpa. Súpurnar eru ágætar en ekkert "spes".
Drykkir eru innifaldir í verði - að ég held: Gosdrykkir, kaffi og litað sykurvatn með ávaxtakjörnum (djús). Vatnið er alltaf best - ef maður er á bíl. Eðlilega þarf að borga fyrir áfenga drykki.
Staðurinn er hreinn og snyrtilegur í milliklassa. Mjúk leðursæti með háu baki.
Það er gaman að skreppa þarna einstaka sinnum. Einhæfni gerir örar heimsóknir ekki eins spennandi.
Nýjustu 10 veitingaumsagnir:
Grillmarkaðurinn: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1298062
Matur og drykkur | Breytt 18.8.2013 kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2013 | 21:04
Eftirlitsiðnaðurinn - fölsk vernd
Þú ert aldrei ein/n á ferð. Það er alltaf einhver sem fylgist með þér. Allsstaðar. Á bak við hverja þúfu er ábúðafullur embættismaður. Hann passar upp á að allt sé í lagi; að allt sé samkvæmt strangasta bókstaf laga og reglna. Eftirlitsiðnaðurinn blæs út eins og púki á fjósbita. Verra er að hann er orðinn helst til dýr. Rándýr. Og frekur á pappír, skýrslur og annað slíkt til að raða í möppur. Árangurinn er rýr. Neytendaverndin er fölsk.
Árum saman fengu sælgætis- og matvælaframleiðendur að nota götusalt í framleiðslu sína. Eftirlitsaðilar vissu af því en horfðu sljóeygir framhjá ósvífninni. Svo dæmi sé nefnt.
Lítið matvælafyrirtæki á Suðurnesjum neyddist til að hækka verðlista sinn um 12% vegna aukins kostnaðar við pappírsvinnuna. Kostnaður fyrirtækisins vegna heilbrigðiseftirlits voru einhverjir þúsund kallar. Ég man ekki hvort árlegur kostnaður var 30 eða 40 þúsund. Það var eitthvað svoleiðis. Í dag er árlegur kostnaður kominn yfir 800 þúsund kall ásamt því sem drjúgur tími fer í að skrifa á pappíra.
Jón Gerald Sullenberger hefur skrifað blaðagreinar um samskipti Kosts við embættismenn Tollsins. Það er gott grín en kemur niður á neytendum.
Sigurður Þórðarson, forstjóri Eðalvara, hefur í áraraðir staðið í stappi við embættismenn. Ástæðan er sú að á markaðnum er svikið ginseng. Sigurður selur Rautt Eðal ginseng. Svikna ginsengið er kallað Rautt kóreskt ginseng. Það er selt í keimlíkum umbúðum í sömu litum og með hliðstæðum íslenskum texta.
Neytendasamtökin (sem eru ekki opinber stofnun) hafði frumkvæði að því að láta rannsaka svikna ginsengið (eftir fjölda kvartana frá neytendum). Niðurstaðan var sú að EKKI væri um rautt ginseng að ræða. Til að ginseng sé skilgreint rautt þarf það að uppfylla ýmis ströng skilyrði varðandi ræktun.
Eðalvörur hafa snúið sér til hinna ýmsu embætta til að verjast svikna ginsenginu. Söluaðili þess hefur brugðið fyrir sig ósannindum og öðru sprelli. Eftir margra ára ferli hefur ekki ennþá tekist að upplýsa um uppruna svikna ginsengsins. Embættisaðilar vísa hver á annan og henda málinu á milli sín. Það kallar á nauðsyn þess að fækka svona embættum. Tálga þau niður þannig að eftir standi eitt embætti sem verði fært um að taka snöfurlega á málum. Það er verkefni fyrir Viggu Hauks og félaga með niðurskurðarhnífana.
Sigurður hefur sent Neytendastofu eftirfarandi bréf:
"Hegningarlagabrot í skjóli Neytendastofu? Um aðild og kæruheimild vegna brota á 146. og 147 gr. hegningarlaganna." ..
Að gefnu tilefni hef ég undirritaður reynt eftir bestu getu að kynna mér hver sé til þess bær að láta þá sem brjóta þessar lagagreinar sæta ábyrgð.Lagagreinarnar ákvarða refsingar við því að gefa eftirlitsstjórnvaldi rangar upplýsingar er varða mál sem stjórnvaldið rannsakar.Brot á þessum lagagreinum beinist gegn stjórnvaldinu sem slíku, þó það geti bitnað á almannahagsmunum eða lögaðilum.
Flest bendir til að vilji eftirlitsstofnun alls ekki kæra þess háttar lögbrot, muni hinn seki sleppa og forherðast, því brotin beinast tæknilega að henni. Þarna takast á annars vegar almannahagsmunir og hins vegar réttur stjórnsýslunnar til að taka við röngum (atvinnuskapandi) skýrslum, sem samdar eru til að villa um fyrir stjórnsýslunni, tefja mál og/eða ná fram rangri niðurstöðu og forða brotlegum aðilum þannig frá réttvísinni eftir eigin geðþótta.Athygli yðar er því vakin á því að fyrirtæki mitt hefur skaðast verulega vegna viðvarandi og endurtekinna lögbrota, sem ekki hafa verið kærð til lögreglu af þar til bærum yfirvöldum, þrátt fyrir óskir mínar þar að lútandi. Þó brotin blasi við eru svör stjórnsýslunnar vægast sagt mismunandi um hverjum beri að kæra.
Áfrýjunarnefndum ber saman um að þeim beri ekki að kæra því þær séu bara úrskurðaraðili en ekki eftirlitsstofnun.
Neytendastofa segir að áfrýjunarnefndin geti vel kært sérstaklega fyrir það sem skrökvað sé að henni ef hún vill. Allavega beri Neytendastofa enga ábyrgð á því að logið sé að áfrýjunarnefnd neytendamála.
Innanríkisráðuneytið telur að ekki þurfi að kæra brot til lögreglunnar sem kemst upp, sbr. úrskurð Neytendastofu nr. 8/ 2007, en telur að ég geti sjálfur kært ef brotin halda áfram.
Ákærusvið lögreglunnar hefur skoðað málið og segist muni rannsaka það sem refsimál berist um það ósk frá Neytendastofu. Kannski er þyngst á metunum lögfræðiálit Páls Þórhallssonar, forstöðumanns lagasviðs forsætisráðuneytisins (sem hefur yfirumsjón með allri stjórnsýslunni) en þar segir að eftirlitsstofnanir eigi að kæra en vilji þær ekki kæra tiltekinn aðila af einhverjum ástæðum, liggi ábyrgðin hjá viðkomandi ráðuneyti sem fulltrúa almannahagsmuna.
Æskilegt væri ef lögin væru virt, það myndi spara stjórnsýslunni og almenningi tíma og fjármuni. Fullt tilefni er að spyrja Neytendastofu og kannski fleiri eftirlitsstofnanir, hvers vegna óprúttnir aðilar ættu að víla fyrir sér að brjóta lög með því að gefa rangar skýrslur ef aldrei er kært og refsiheimildir laganna ekki nýttar? Vonandi telur Neytendastofa lögin ekki óþörf en telji hún að verklagsreglur um framkvæmd laganna séu ekki nógu skýrar vil ég spyrja hana hvort hún vilji þá leggja mér lið við að kynna þetta vandamál fyrir Alþingi svo bæta megi úr?Löggæsla | Breytt 17.8.2013 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.8.2013 | 21:46
Það er fylgst með þér
Veggirnir hafa eyru. Það er fylgst með þér úr öllum áttum. Þú sleppur ekki hvert sem leiðin liggur. Hvað sem þú gerir; allt er kortlagt. Ásarnir og holtin, allt hefur það tungur og álfur í sérhverjum hól. Ef að vel er gáð hafa flest hús andlit. Þau eru með augu sem fylgjast með hverri hreyfingu. Til að átta sig á þessu þarf aðeins að "spotta" húsin frá tilteknu sjónarhorni.
Þessi litla sæta kirkja í Flórída lætur ekki mikið yfir sér. En ef læðst er fyrir rétt horn á henni má auðveldlega greina hvernig hún glennir upp glyrnurnar.
Skoðum nokkur önnur dæmi af handahófi:
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2013 | 20:46
Greitt eftir eyranu
Þegar árunum fjölgar fækkar hárunum. Einkum á hvirflinum á karlmönnum. Þau sem eftir sitja grána. Menn bregðast við á ýmsan máta. Sumir taka varla eftir þessu. Aðrir fagna. Þeim þykir breytingin færa sér yfirbragð virðulegs eldri manns. Það er gott að losna við galgopasvip unglingsáranna.
Svo eru það þeir sem bregðast ókvæða við. Þeir hefja gagnsókn og berjast á hæl og hnakka gegn þróuninni. Hárígræðsla og snotur kolla geta gert kraftaverk.
Þegar svoleiðis lúxus er ekki fyrir hendi má grípa til annarra ráða. Klassíska leiðin er að safna hári fyrir ofan annað eyrað og greiða það (hárið, ekki eyrað) yfir skallann. Þegar best tekst til fattar enginn hvað er í gangi.
Gott ráð er að safna einnig hári allt umhverfis eyrað og í hnakkanum, leyfa því að falla niður að öxlum. Skegg hjálpar heilmikið. Þar með er talað um að viðkomandi sé loðinn um höfuðið og enginn áttar sig á skallanum.
Til að leiða athyglina enn fremur frá hvirflinum er upplagt að svitna vel undir höndunum. Þá beinir fólk sjónum ekki eins ofarlega.
Það er einn galli við þessa hárgreiðslu: Þegar viðkomandi er berhöfðaður úti að ganga og gustur kemur, feykir hárinu af hvirflinum og það flaggar eins og láréttur fáni fyrir ofan eyrað.
Það gerist ekki oft. En ég hef séð svoleiðis. Það kemur ekki nógu vel út.
Oft vill brenna við að menn séu heldur seinir á sér að bregðast við breytingunni á hárvexti. Þegar þeir loks taka ákvörðun um að safna hári frá eyra yfir hvirfil líður á löngu þangað til hárið nær yfir hvirfilinn. Á meðan er hárgreiðslan skrítin. Þolinmæði vinnur þrautir allar. Málið er að halda sínu striki.
Jafnvel þó að ekkert sé hvassviðrið þá er hlýðir hárið ekki alltaf fyrirmælum um að sitja eins og þægur krakki á hvirflinum. Margir sem aðhyllast þessa útfærslu þróa með sér kæk sem felst í því að strjúka hárið stöðugt. Ganga þannig úr skugga um að það sitji vel og veita því strangt aðhald.
Algengt vandamál við aðferðina er að hún virkar vel í spegilmyndinni beint framan frá en aftar á höfðinu er allt í klúðri.
Önnur aðferð er að safna hári í hnakkanum og greiða það snyrtilega fram á enni. Þá er ekkert klúður í hnakkanum.
Ein heimsfrægasta útfærsla á "greitt frá hnakka" er íslensk. Jón "sprettur" límir hárið úr hnakkanum á ennið á sér og krullar það þar.
Enn ein aðferðin er að safna síðu skeggi og greiða það rækilega yfir höfuðið. Eins og einskonar húfu.
Frægasta hárgreiðsla heims er sennilega sú sem einkennir bandaríska auðmanninn Donald Trump. Hann brúkar hárið úr hnakkanum með góðum árangri til að vera hárprúður. Fyrrverandi ástkona segir hann aðeins þurfa hálftíma á morgnana til að græja dæmið. Hann notar ljósmynda-spreylím til að festa hluta af hárinu úr hnakkanum fram á enni. Þannig tryggir hann að skalli komi ekki í ljós þó að veðurguðirnir blási.
Myndin hér fyrir neðan er frá því áður en Donald komst upp á lag með að brúka ljósmynda-spreylímið:
Spaugilegt | Breytt 16.8.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.8.2013 | 21:00
Veistu hver ég var?
17. ágúst næstkomandi svífur á skjáinn splunkuný sjónvarpsþáttasería, "Veistu hver ég var?" Hún verður á dagskrá Stöðvar 2. Þetta er spurningaþáttur. Umsjónarmaður, spyrill og dómari er Siggi Hlö. Viðfangsefnið er níundi áratugurinn. Nánar tiltekið sú músík sem fellur undir samheitið "80´s" (dansvænt tölvupopp, nýróman...) og kvikmyndir.
Hvernig stendur á því að ég veit þetta? Öfgafullur maður sem var á kafi í því selja pönkplötur, gefa út pönkplötur og stússa í pönkhljómleikum á níunda áratugnum?
Skýringin liggur í því að ég er í einu af 18 keppnisliðum sem spreyta sig í "Veistu hver ég var?" Þættirnir hafa þegar verið teknir upp. Það var góð skemmtun að taka þátt í leiknum. Egils Gull var í boði. Gott ef að pizzur og eitthvað fleira voru ekki einnig á boðstólum. Ég einbeitti mér að Gullinu.
Ég var í keppnisliði Hebba Guðmunds. Ásamt okkur var í liðinu Bjarni Jóhann Þórðarson. Það munaði um minna. Sá var og er á heimavelli þegar 80´s poppið er annars vegar. Þar fyrir utan hugsar hann svo hratt að áður en mínar heilasellur náðu að sameinast í að grafa upp svar við einni spurningu var Bjarni búinn að svara mörgum.
Keppnislið Hebba atti kappi við lið Sverris Stormskers. Sverrir er fjölfróðari um 80´s músík en margur heldur. Honum til halds og trausts voru tveir Snorrar. Annar er Snorrason og sigurvegari í Idol eða X-factor. Ég held að ég sé ekki að rugla honum saman við einhvern annan þegar ég tengi hann við hljómsveitina Jet Black Joe.
Hinn Snorrinn er Sturluson. Hann var íþróttafréttamaður, ja, nú man ég ekki hvort það var á Rúv eða hjá Stöð 2. Eða kannski báðum. Hann hefur líka verið dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og öðrum útvarpsstöðvum. Lið Sverris var öflugt.
Siggi Hlö er stuðbolti. Hann tekur sig ekki hátíðlega. Það einkennir þáttaseríuna. Þetta er allt til gamans gert. Það er útgangspunkturinn. Ungmennafélagsandinn "að vera með í leiknum" svífur yfir vötnum. Siggi Hlö er rétti maðurinn í hlutverki þáttastjórnandans, eins og dæminu er stillt upp: Fjörmikill gleðipinni og snöggur til svars af léttúð undir öllum stöðum sem upp koma. Hann á auðvelt með að keyra upp stemmninguna Það er svo mikið stuð á stráknum. Hann kann þetta frá A - Ö.
Það var virkilega gaman að taka þátt í þessum spurningaleik. Ég skemmti mér konunglega. Ég hlakka til að sjá útkomuna í endanlegri útfærslu. Ekki aðeins þáttinn með keppnisliðum Hebba og Stormskers. Aðrir þættir eru líka spennandi. Til að mynda viðureign Rásar 2 og Bylgjunnar.
Tónlist | Breytt 14.8.2013 kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
12.8.2013 | 22:09
Færeysku fjölskyldudagarnir á Stokkseyri - 2. hluti
Það er erfitt að átta sig á því hvað margir nákvæmlega sóttu hátíðina Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri um verslunarmannahelgina. Það var ókeypis aðgangur á flesta dagskrárliði, í sýningarsali, á viðburði og annað. Ef miðað er við þá sem smökkuðu á skerpikjöti og þá sem keyptu veitingar í Art Café má ætla að eitthvað á annað þúsund manns hafi sótt Færeyska fjölskyldudaga.
Á tjaldstæðinu voru um 50 bílar þegar mest var. Tvær til fjórar manneskjur í hverjum bíl. Flestir gestirnir dvöldu hinsvegar aðeins yfir daginn og kvöldið. Sumir komu dag eftir dag án þess að gista á Stokkseyri. Þetta var fólk sem dvaldi í sumarbústöðum í nágrenninu eða á heima á Selfossi, Eyrarbakka eða Hveragerði. Kannski einhverjir frá Þorlákshöfn einnig. Jafnvel frá höfuðborgarsvæðinu.
Allt fór vel og friðsamlega fram. Engin slagsmál, engin þjófnaðarmál, engin skemmdarverk. Einungis gleði, fjör og gaman. Fjörið náði hámarki á dansleik á sunnudagskvöldinu. Jógvan Hansen og Vignir Snær kunna svo sannarlega að keyra upp stuðið og ná salnum út á dansgólfið. Ekki var verra að Jógvan á auðvelt með að afgreiða færeysk óskalög sem gestir af færeyskum uppruna þráðu að heyra.
Reyndar þurfti ekki færeyskan uppruna til að beðið væri um færeysk lög. Ég var plötusnúður á Færeyskum fjölskyldudögum. Á hverju kvöldi var ég þrábeðinn af Íslendingum um að spila "Ormin langa" með Tý. Allt frá þrisvar á kvöldi og upp í sjö sinnum!
Það er gömul saga og ný að fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á fjölskylduhátíðum sem fara friðsamlega fram. Þar sem allt gengur eins og í sögu. Orðið tíðindalaust lýsir stöðunni. Fréttamenn sækja í fréttir af líkamsárásum, skemmdarverkum, innbrotum og þess háttar. Þess vegna skiptu fjölmiðlar sér lítið af Færeyskum fjölskyldudögum. Það kom ekki á óvart. Hitt vakti undrun mína: Að sunnlenskir fjölmiðlar þögðu þunnu hljóði um hátíðina á Stokkseyri.
Eftir því sem ég kemst næst var ekkert sagt frá Færeyskum dögum í héraðsfréttablöðunum Dagskránni og Sunnlenska, né heldur í Útvarpi Suðurlands. Að óreyndu hefði mátt ætla að þessir fjölmiðlar legðu sig í líma við að kynna í bak og fyrir svona hátíð á Suðurlandi. Ég þekki ekki nógu vel til þarna um slóðir til að giska á hvort að hrepparígur eða eitthvað annað olli fálæti sunnlenskra fjölmiðla.
Útvarp Saga, Rás 1 og Rás 2 stóðu sig hinsvegar með prýði. Því má halda til hafa. Lítill fugl hvíslaði því að mér að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafi keypt umfjöllun um aðrar hátíðir á Suðurlandi um verslunarmannahelgina út úr miðlum 365.
Tónlist | Breytt 13.8.2013 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2013 | 00:10
Færeysku fjölskyldudagarnir á Stokkseyri
Hátíðin Færeyskir fjölskyldudagar var haldin á Stokkseyri dagana 1. - 5. ágúst. Hún tókst í flesta staði afskaplega vel. Veðrið lék við gesti og gangandi. Glampandi sól, hlýtt og þurrt. Undantekningin var að um miðbik hátíðarinnar blésu veðurguðirnir óvænt. Flestum þótti það bara hressandi. Svo datt allt í dúnalogn aftur.
Í næstu bloggfærslu hér fyrir neðan má sjá dagskrá hátíðarinnar. Hún er ekki tæmandi. Nokkur skemmtileg dagskráratriði bættust við. Ber þar hæst heimsókn kanadísku hljómsveitarinnar Horizon. Sú hljómsveit sérhæfir sig í lögum úr smiðju Pink Floyd, Guns N´ Roses og fleiri slíkra. Þetta eru afskaplega flinkir fagmenn, hvort heldur sem er í hljóðfæraleik eða söng.
Liðsmenn Horizon fréttu í Dubai af Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri. Ótrélegt en satt. Svo heppilega vildi til að hljómsveitin var stödd í Reykjavíkurhöfn í útlendu skemmtiferðaskipi um verslunarmannahelgina. Það lá því beinast við að skjótast til Stokkseyrar. Þar skemmti hljómsveitin sér konunglega. Hún kvittaði fyrir sig með því að troða í tvígang upp á dansleik Bee on Ice á laugardagskvöldinu, undrandi gestum til óvæntrar ánægju. Fagmennskan var slík að það var eins og Pink Floyd væri mætt á svæðið.
Fyrr á laugardeginum mætti á svæðið einn góður gestur til, píanósnillingurinn Siggi Lee Lewis.
Hann brá sér í tvígang upp á svið í hátíðarsal Lista- og menningarverstöðvarinnar og gaf gestum vænt sýnishorn af fjörlegri búgívúgísveiflu og blús.
Af öðrum hápunktum Færeyskra fjölskyldudaga má nefna smakk á færeyskra þjóðarréttinum skerpikjöti. Það er þurrkað og verkað lambalæri af ársgömlum sauð. Bragðsterkt með rífandi eftirbragði, skolað niður með færeysku Eldvatni (einskonar færeysku brennivíni, þríeimuðu).
Skerpikjötið á það sameiginlegt með kæsta hákarlinum að annað hvort verða menn sólgnir í það sem algjört sælgæti eða þá að bæði lykt og bragð vefjast fyrir óvönum. Mun fleiri falla gjörsamlega fyrir sælgætinu en þeir síðarnefndu.
Nafnið skerpikjöt vísar til þess að bragðið sé skarpt. Það er búið að skerpa á því.
Á laugardeginum og sunnudeginum voru þrjú væn skerpikjötslæri skorin niður í smakkbita og borðuð upp til agna. Margir gerðu sér langa ferð til að komast í smakkið. Sumir til að forvitnast um kjötið og spurðu margs. Aðrir vegna þess að þeir þekktu sælgætið og voru friðlausir að komast í bitann.
Hér eru Færeyingarnir Gunnar og Tóti að skera skerpikjötið niður. Ég stend ábúðafullur hjá, gæti þess að allt sé "undir kontról" og er tilbúinn að svara fyrirspurnum þegar gestir hópast að og deila út namminu. Við Gunnar erum með færeysku þjóðarhúfuna:
Skerpikjöt er svo girnilegt og spennandi að meira segja grænmetisætur, eins og Harpa Karlsdóttir, létu freistast til að smakka:
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.7.2013 | 22:03
Fjörið og góða veðrið um verslunarmannahelgina
Eins og glöggt má lesa um í meðfylgjandi frétt, "Besta veðrið suðvestantil", þá verður besta veðrið á suðvesturhorninu yfir alla verslunarmannahelgina. Góða veðrið skellur á af fullum krafti strax á fimmtudaginn. Það er einmitt þá sem svo skemmtilega vill til að á Stokkseyri hefjast Færeyskir fjölskyldudagar. Þetta er svo heppilegt vegna þess að besta veðrið verður nákvæmlega á Stokkseyri. Gargandi sól, hiti, fjör og gaman.
Í besta veðrinu um verslunarmannahelgina verður eftirfarandi um að vera á Færeysku fjölskyldudögunum. Ég tók þetta af Fésbókarsíðu Færeyskra fjölskyldudaga:
.
Dagana 1.- 5. ágúst næstkomandi verður haldin færeysk stórhátíð á Stokkseyri.
Margt verður í boði frá fimmtudegi til mánudags: Söfn verða opin alla helgina, svo og sýningar, þjónusta og fjölbreytt afþreying. Ýmis tilboð verða í gangi og aðgangur er ókeypis á fjölda viðburða.
Boðið verður upp á skemmtun með fjölbreyttri færeyskri tónlist, kynningu á Færeyjum, sagðar gamlar og nýjar sögur frá Færeyjum, kynning á skerpikjöti og gefið smakk. Þetta er margþætt skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Jens Guð sér um kynningu á Færeyjum, segir sögur þaðan og verður með okkur alla helgina, kynnir færeyskan mat og gefur smakk af færeysku skerpikjöti.
Jens Guð sér um fjörið á Draugabarnum á föstudagskvöldið og fram á nótt.
Bee on ice sjá um fjörið á laugardagskvöldið á Draugabarnum og fram á nótt.
Jógvan Hansen og Vignir Snær sjá um að skemmta á sunnudagskvöldið og fram á nótt á Draugabarnum.
Alla helgina verður hægt að fara á kajak og kanna vatnasvæðið í grennd við Stokkseyri. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir börn um helgina.
Fjöruborðið er einn af betri veitingastöðum á landinu og þótt víða væri leitað, þar verður hægt að fá mat alla helgina.
Tjaldsvæðið er mjög gott á Stokkseyri og bíður upp á góða þjónustu, þar gildir Útilegukortið.
Skálinn (Shell) bíður upp á fjölbreytta þjónustu: Bensín, olíur, gos, veglegan matseðil, verslun og fleira.
Hægt er að veiða í Hraunsá alla helgina og á bryggjunni.
Fjaran er engu lík við Stokkseyri, margir pollar sem iða af lífi, krabbar, síli, fiskar, skeljar, kuðungar og fleira. Krakkar (og fullorðnir) upplifa eftirminnalegt ævintýri við að kynnast dýralífinu í pollunum.
Góður fótboltavöllur og sparkvöllur er á Stokkseyri.
Fimmtudagur 01.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
10.00 - 18.00 Art kaffi opnar í Lista og menningarverstöðinni 3.hæð
13:00 - 21:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar kynnt og sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
Föstudagur 02.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
10.00 - 18.00 Art kaffi opnar í Lista og menningarverstöðinni 3.hæð.
13:00 - 21:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
14.00 - 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Lista og menningarverstöðinni: Jens Guð sér um kynningu á Færeyjum og segir sögur frá Færeyjum. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa GUSSA málara verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa Herborgar Auðunsdóttur Leirkerasmiðs verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
23.00 Dansleikur á Draugabarnum Jens Guð spilar færeyska tónlist og fjöruga popptónlist og allt í bland. Aðgangur ókeypis
Laugardagur 03.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum´´.
10:00 - 17:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
10.00 18.00 Art kaffi opnar í Lista og menningarverstöðinni 3.hæð.
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 18:00 Rjómabúið við Stokkseyri opinn fyrir alla. Aðgangur ókeypis
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
14.00 - 17:00 Kajak kennsla fyrir börn. Aðgangur ókeypis
14.00 - 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Lista og menningarverstöðinni. Jens Guð sér um kynningu á Færeyjum og segir sögur frá Færeyjum. Aðgangur ókeypis
14. 00 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Lista og menningarverstöðinni Smakk á Skerpikjöti meðan birgðir endast. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa GUSSA málara verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa Herborgar Auðunsdóttur Leirkerasmiðs verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
23:00 Dansleikur á Draugabarnum Bee on ice halda uppi stuðinnum, ballið hefst kl 23.00 og stendu fram á nótt. Aðgangur 1000.- kr
Sunnudagur 04.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum".
10:00 - 17:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
10.00 - 18.00 Art kaffi opnar í Menningarverstöðinni 3.hæð.
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
13:00 - 18:00 Rjómabúið við Stokkseyri opinn fyrir alla. Aðgangur ókeypis
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin.
14.00 - 17:00 Kajak kennsla fyrir börn. Aðgangur ókeypis
14.00 - 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Menningarverstöðinni. Jens Gud sér um kynningu á Færeyjum og segir sögur frá Færeyjum. Aðgangur ókeypis
14. 00 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Menningarverstöðinni. Smakk á Skerpikjöti, meðan birgðir endast. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa GUSSA málara verður opin . í Menningarverstöðinni Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa Herborgar Auðunsdóttur Leirkerasmiðs verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
23:00 Dansleikur á Draugabarnum. Jögvan Hansen og Vignir Snær sjá svo um að halda uppi stuðinu á sunnudagskvöldið og fram á nótt. Aðgangur 2000 kr.
Mánudagur 05.ágúst 2013
09:00 - 21:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
10:00 - 17:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
12:00 - 22:00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
13:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 20:30 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
ATH.
Tjaldsvæðið á Stokkseyri er flott og til fyrirmyndar.
Útilegukortið gildir á tjaldsvæðinu Stokkseyri.
Allir hjartanlega velkomnir
Sjá nánar á: www.stokkseyri.is
Upplifið færeyska stemmingu um verslunarmannahelgina.
Nokkur símnúmer sem gott er að vita af:
Neyðarlínan. einn,einn,tveir 112
Lögreglan Selfossi. 480-1010
Fjöruborðið Veitingastaður Humar/Humarsúpa/Lamb. 483-1550.
Kæjaka leiga/kensla. 896-5716.
Skálinn Veitingahús,Verslun,Sjoppa,Bensínst. 483-1485.
Sundlaug Stokkseyrar. 480-3260
Tjaldsvæðið Stokkseyri. 896-2144
Lista og Menningaverstöðinn. 483-1600
Draugasafnið. 483-1202 / 895-0020
Draugabarinn. 483-1202 / 899-0020
Álfa Trölla og Norðurljósasafnið. 483-1600 / 895-0020
Art Kaffi .483-1600 / 842-2610
Icelandic Wonders. ehf 483-1600 / 895-0020
Aurora Experience. ehf 483-1600
![]() |
Besta veðrið suðvestantil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 31.7.2013 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.7.2013 | 23:36
Presley eftirhermur
Út um allan heim er allt morandi í svokölluðum Presley-eftirhermum. Það eru menn sem lifa að meira og minna leyti á því að herma eftir bandaríska rokksöngvaranum Elvis Presley. Eftirhermurnar reyna að líkjast Presley sem mest í útliti og sviðsframkomu. Þær klæðast samskonar hvítum samfestingi og Presley lét sérsauma á sig á áttunda áratugnum. Þær líma á sig gervibarta og syngja lög sem Presley gerði fræg. Herma að sjálfsögðu sem nákvæmast eftir söngrödd og söngstíl Presleys.
Einhverra hluta vegna er uppistaðan af Presley-eftirhermum "skrítnir" náungar. Sumir mikið skrítnir og laglausir. Aðrir smá skrítnir og syngja betur. Þetta á ekki við um alla. Og hver er svo sem ekki skrítinn á sinn hátt? Málið er bara að í nánast öllum löndum má finna aragrúa af laglausum og skrítnum Presley-eftirhermur. Sumar eru stjörnur í sínu landi. Til að mynda Svíinn Eilert Pilarm. Hann er stórstjarna út um alla Skandinavíu og víðar.
Presley sjálfur var mjög góður söngvari; lagviss með sterka baritón-rödd og góða raddbeitingu. Sennilega var hann fyrsti hvíti söngvarinn til að beita öskursöngstíl. Og afgreiddi það dæmi frábærlega flott.
Margir hafa velt fyrir sér og reynt að greina ástæðu þess að tugþúsundir mishæfileikaríkra/-lausra manna um allan heim hermi eftir Presley. Sumir sjá samlíkingu við þann fjölda vistmanna á geðdeildum sem telur sig vera Napoleon og aðrir telja sig vera Jesú. Sá munur er á að Presley-eftirhermurnar eru meðvitaðar um að þær eru ekki Elvis Presley. Þær vita að um hlutverkaleik er að ræða.
Hvers vegna tugþúsundir Presley-eftirherma en teljandi á fingrum annarrar handar Mikjáls Jacksons eftirhermur og varla finnast Paul McCartney eftirhermur af þessu tagi? Það er alveg jafn auðvelt að herma eftir útliti og söng Johns Lennons og Bobs Dylans, svo dæmi séu tekin. Margir fagmenn gera út á það. En Presley-eftirhermurnar dúkka upp við öll tilefni við misjafnar undirtektir.
Sumir vilja rekja ásóknina í að herma eftir Presley felast í hvíta samfestingnum. Hann sé svo sterkt einkenni fyrir Presley að sá sem klæðist samfestingnum upplifi sig vera að klæðast í sjálfan Presley.
Það vantar sjaldan íburðinn þegar takt- og laglausar Presley-eftirhermur fara mikinn á sviði. Né heldur vantar fagnaðarlætin frá áheyrendum.
Tónlist | Breytt 29.7.2013 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.7.2013 | 20:49
Töfrar ljósmyndarinnar
Ljósmyndir eru merkilegt fyrirbæri. Það er hægt að ljúga með þeim. Það er ennþá auðveldara eftir að "fótósjopp" kom til sögunnar. Ljósmyndir geta líka lýst raunveruleikanum betur en margt annað. Þær geta varðveitt augnablikið; komið tíðarandanum og stemmningunni rækilega til skila. Meðfylgjandi eru nokkrar skemmtilegar para- og fjölskyldumyndir sem staðfesta þetta.
Efsta myndin er auðsjáanlega samsett úr tveimur myndum af sama parinu.
Næst efsta myndin er af gæfum vatnafiski sem heitir Som. Það er ónákvæmt að kalla hann og dömuna eiginlegt par. Meira svona vini.
Neðsta myndin segir stærstu eða skrítnustu söguna.
![]() |
Sannleikurinn á bak við fyrir og eftir myndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2013 | 19:12
Hagfræðingar ljúga
Hagfræðingar eru óáreiðanleg heimild um ástandið. Það vantaði ekki kokhrausta hagfræðinga til að vísa á bug viðvörunarljósum sem blikkuðu út um allt korteri fyrir bankahrun. Hagfræðingar skrifuðu og gjömmuðu hver í kapp við annan (á háum launum) um að engin hætta væri á bankahruni eða neinu slíku. Þvert á móti þá væri ástandið tær snilld og bankarnir ættu að gefa í með Icesave og alla þessa hamingju sem þeir væru að útdeila.
Eflaust má finna árinu 1976 sitthvað til ágætis. Bæði í Bretlandi og víðar. Breska pönkið byrjaði 1976. Það var frábært. Hófst um sumarið sem einskonar neðanjarðarhreyfing Sex Pistols, The Clash, The Damned, The Buzzcocks og Siouxie & The Banshees. Hreyfingin vatt hratt upp á sig. Um haustið var haldið 2ja daga pönk-festival í 100 Club við Oxford stræti. Fyrir árslok var pönkið orðið umtalað og komið á forsíður dagblaðanna.
Næstu ár á eftir fór pönkið með völd. Það ól af sér ótal músíkstíla sem kölluðust samheitinu nýbylgja. Það opnaði dyr fyrir reggí og ska. Það skóp hártísku og fatatísku. Það stillti rokkbransanum í heilu lagi upp við vegg. Flest sem rokkarar höfðu verið að gera og voru að gera var borið saman við pönkið. Breska pönkið fór eins og stormsveipur um heiminn. Upp spruttu öflugar pönkbylgjur þvers og kruss að hætti þeirrar bresku. Hérlendis hefur pönkbylgjan verið kennd við kvikmyndina Rokk í Reykjavík.
Til að breska pönkið næði upp á yfirborðið og yrði sú bylting sem það varð þá þurfti sérstakan farveg. Sá farvegur samanstóð af vondu efnahagsástandi í Bretlandi 1976, vonleysi og reiði. Einnig þreytu og leiða á risaeðlunni sem rokkmarkaðurinn var orðinn.
Atvinnuleysi í Bretlandi var mikið, heilu fjölskyldurnar og íbúar heilu bæjarhlutanna voru fastir í fátækragildru. Það logaði allt í verkföllum, kynþáttaóeirðum, lögregluofbeldi, pirringi. Stærsti nasistaflokkurinn í Bretlandi, National Front, naut stuðnings 130 þúsund kjósenda. Hatur og reiði út í allt og alla kraumaði og leitaði útrásar.
Ástandið, eins og ungir lágstéttarmenn upplifðu það, var súmmerað upp á næst fyrstu smáskífu Sex Pistols, God Save The Queen. Það getur að heyra í myndbandinu efst. Textinn hefst á þessum orðum:
God save the queen
The fascist regime
They made you a moron
Potential H-bomb
God save the queen
She ain't no human being
There is no future
In England's dreaming
Í niðurlaginu er margendurtekið að það sé engin framtíð. Svipuð viðhorf voru áberandi í öðrum breskum pönksöngvum. Það var sungið um fasisma og anarkisma, atvinnuleysi og vonleysi. Á fyrstu smáskífu Sex Pistols, Anarchy In U.K., er stjórnleysi boðað.
Í fyrsta smáskífulagi The Clash, White Riot, var sungið um óeirðir og uppþot. Myndbandið var skreytt klippum af lögreglu og mótmælendum. Upplifun bresku pönkaranna á ástandinu 1976 er ólík lýsingu hagfræðinganna á besta og hamingjuríkasta ári Bretlands. Söngvar bresku pönkaranna eru marktæk sagnfræði að einhverju leyti.
Tom Robinson lýsir ástandinu skýrar og ljóðrænna í Up Against The Wall. Þar segir m.a.
Darkhaired dangerous schoolkids
Vicious, suspicious sixteen
Jet-black blazers at the bus stop
Sullen, unhealthy and mean
Teenage guerillas on the tarmac
Fighting in the middle of the road
Supercharged FS1Es on the asphalt
The kids are coming in from the cold
Look out, listen can you hear it
Panic in the County Hall
Look out, listen can you hear it
Whitehall (got us) up against a wall
Up against the wall...
High wire fencing on the playground
High rise housing all around
High rise prices on the high street
High time to pull it all down
White boys kicking in a window
Straight girls watching where they gone
Never trust a copper in a crime car
Just whose side are you on?
Consternation in Brixton
Rioting in Notting Hill Gate
Fascists marching on the high street
Carving up the welfare state
Operator get me the hotline
Father can you hear me at all?
Telephone kiosk out of order
Spraycan writing on the wall
Eitt af mörgu góðu við pönkið var að það gerði þarfa uppreisn gegn kynþáttafordómum og nasisma. Slátraði National Front með því að spila undir yfirskrift á borð við Anti-Nazi League og Rock Against Racism, ásamt því að gagnrýna í textum kynþáttafordóma. Eins og að framan greinir áttu breskir nasistar sterkt fylgi þegar pönkbyltingin skall á. The Clash lýstu stöðunni þannig að ef Adolf Hitler kæmi til Bretlands þá yrði tekið á móti honum í limmósíu á flugvellinum.
![]() |
1976 var hamingjuríkasta árið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 22.7.2013 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)