18.1.2014 | 22:11
Kvikmyndarumsögn
- Titill: 12 Years a Slave
- Leikstjóri: Steve McQueen
- Leikarar: Brad Pitt, Michael Fassbinder og fleiri
- Einkunn: **** (af 5)
Bandaríska kvikmyndin 12 Years a Slave er byggð á raunverulegum atburðum. Handritið er ævisaga blökkumanns, Solomons Northups. Hann var fiðluleikari í New York um miðja nítjándu öld. Honum vegnaði vel og var hamingjusamur tveggja barna faðir. Svo dundi ógæfan yfir. Honum var rænt af tveimur mönnum og seldur í þrældóm til Suðurríkjanna. Það var algengt á þeim tíma. Og refsilaust. Líka þó að þannig mál væru rekin fyrir dómsstólum í Norðurríkjunum þar sem þrælahald var bannað.
Sagnfræðingar sem taldir eru þeir fróðustu um þrælahald í Suðurríkjunum votta að engin kvikmynd hafi áður dregið upp jafn raunsanna mynd af þrælahaldinu. Það er ekki ástæða til að efast um það. Þetta er, jú, frásögn manns sem upplifði hryllinginn á eigin skinni - í bókstaflegri merkingu.
Bent hefur verið á að kvikmyndin sé framleidd fyrir hvíta áhorfendur. Það er ekki ókostur út af fyrir sig. Myndin er áhrifarík og situr eftir í huga áhorfandans. Ég tel mig hafa haft þokkalega þekkingu á þrælahaldinu í Suðurríkjunum. Fyrir bragðið kemur ekkert á óvart. Samt er sláandi að sitja undir því hversu óhugnanlegt og ofbeldisfullt þrælahaldið var. Líka hversu ógeðfelld viðhorf þrælahaldara voru. Jafnvel þeirra sem teljast voru - innan gæsalappa vel að merkja - "góðir" í samanburði við illgjörnu hrottana og sadistana.
Ég hvet til þess að þið farið í bíó og sjáið 12 Years a Slave. Það er ekki langt síðan þrælahald í Suðurríkjunum var upprætt. Innan við hálf önnur öld. Svona var þetta á tímum afa okkar og ömmu (eða foreldra þeirra). Enn í dag er fjöldi manns í Suðurríkjunum sem saknar þrælahalds. Enn er fjöldi manns sem heldur því fram í "kommentakerfum" bandarískra netmiðla að þrælar hafi haft það betra en hörundsdökkir útigangsmenn í Bandaríkjunum í dag. Þrælarnir hafi þó haft húsaskjól og verið í fæði. Þeir sem hampa þessari kenningu þurfa að sjá 12 Years a Slave.
Myndin er ekki gallalaus. Hún er of löng (næstum 2 og hálfur tími með hlé). Sumar senur eru langdregnar og hægar. Kannski með vilja gert til að laða fram tilfinningu fyrir því að 12 ár í þrældómi er langur tími. Einnig koma fyrir senur sem gera ekkert fyrir myndina. Hugsanlega skipta þær máli í bók mannsins sem segir söguna. Dæmi: Þrælar ganga fram á hóp Indíána. Í næstu senu eru Indíánarnir að spila á hljóðfæri og syngja. Svo eru þeir úr sögunni.
Fleira slíkt mætti tína til. Eftir stendur: Farðu í bíó. Kíktu á þessa mynd. Kynningarmyndbönd gera ekkert fyrir hana.
Önnur nýleg kvikmyndarumsögn: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1346507/
Allt annað: Þessi dama segist vera svo dugleg í líkamsræktinni að hún sé ekki með appelsínuhúð:
Kvikmyndir | Breytt 19.1.2014 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.1.2014 | 00:42
Glæsilegur pakki
Bæði erlendis og hérlendis höfum við ótal oft orðið vitni að því að hljómsveitir eða einstaklingar verði ofurvinsælar stjörnur um hríð en fatist flugið og endi í geymslu hjá tröllum. Bubbi er augljóst dæmi. Hann flaug með himinskautum á níunda áratugnum. Plötur hans seldust í um og yfir 20 þúsund eintökum. Hann naut ofurvinsælda og virðingar. Rödd hans hafði vægi. Í dag seljast nýjar plötur frá honum ekki neitt. Þrátt fyrir að plöturnar séu spilaðar grimmt í aðal útvarpsstöð Jóns "Baugs" Ásgeirs, Bylgjunni. Eða kannski að hluta einmitt þess vegna. Eða eitthvað.
Aðrir eiga langan farsælan feril sem hvergi sér fyrir enda á. Raggi Bjarna er dæmi um það. Annar til er Herbert Guðmundsson, Hebbi. Hann hefur í meira en fjóra áratugi verið áberandi í tónlistarsenunni. Á áttunda áratugnum söng hann með helstu rokksveitum landsins. Allt frá Tilveru og Eik til Pelicans og Kan. Um miðjan níunda áratuginn kom hann fram með eitt sívinsælasta lag íslensku rokksögunnar, ofursmellinn Can´t Walk Away. Þar var ekki látið staðar numið. Fjöldi annarra smella fylgdu í kjölfarið - alveg fram á þennan dag: Svaraðu, Hollywood, Eilíf ást, Time, Vestfjarðaróður...
Hver ný plata með Hebba selst í 5 - 6 þúsund eintökum. Nýjasta platan er glæsilegur pakki. Hún heitir Flakkað um ferilinn. Þetta er yfirlitsplata með tuttugu af hans vinsælustu lögum. Með í pakkanum eru tuttugu myndbönd á DVD. Þar af meirihlutinn tekinn upp á hljómleikum. Í veglegum umbúðum er að finna fjölda skemmtilegra ljósmynda af Hebba allt frá barnsaldri og unglingsárum í bland við nýjar og nýlegar.
Pakkann má panta á www.herbert.is/verslun eða kaupa í næstu plötubúð.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2014 | 23:46
Forsætisráðherra tekur upp merki fyrrverandi borgarstjóra
Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði. Þrátt fyrir búsetu í Reykjavík skilgreini ég mig alltaf sem Skagfirðing. Sem slíkur fylgist ég grannt með öllu sem gerist í Skagafirðinum. Þar eru æskuvinirnir, ættargarðurinn að stórum hluta, gömlu nágrannarnir, gömlu skólasystkinin, sundfélagarnir og sveitin mín. Feykir er héraðsfréttablaðið mitt og á heimasíðunni www.skagafjordur.is fylgist ég með fundum, fundargerðum og ýmsu öðru sem vindur fram í Skagafirði.
Í fundargerð frá fundi Byggðarráðs Skagafjarðar í dag rakst ég á þessa skemmtilegu bókun:
"Endurgerð gamalla húsa á Sauðárkróki
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.1.2014 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.1.2014 | 21:50
Maturinn í tómu rugli
Kona var í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum. Viðtalið snérist að einhverju leyti um lífstíl konunnar sem grænmetisætu. Vegna dýraverndunarsjónarmiða neytti konan hvorki kjöts né fisks eða annarra dýraafurða. Mjólkurvörur og egg fóru ekki inn fyrir hennar varir né heldur eggjanúðlur. Að því kom að konan var spurð um uppáhaldsmat. Hún svaraði því til að hún elskaði kjúklingasalatið á tilteknum veitingastað í Kópavogi.
Svona er Ísland í dag. Ekkert nautakjöt í nautakjötsbökum. Enginn hvítlaukur í hvítlauksbökum. Nautakjöt drýgt með hrossakjöti. Innfluttir kjúklingar og svínakjöt seld sem hágæða íslensk framleiðsla (eitthvað annað en útlenski óþverrinn sem er stútfullur af sterum og fúkkalyfjum). Kjúklingur skilgreindur sem grænmeti. Eins og pizzan í Bandaríkjunum. Það er allt í rugli allsstaðar.
Í Ástralíu er asíuættað matvælafyrirtæki, Lamyong. Það hefur sett á markað grænmetisskinku með kjúklingabragði. Þetta er snúið. Skinka er reykt og soðið svínslæri. Það getur ekkert annað hráefni verið svínslæri. Síst af öllu er hægt að kalla grænmeti svínslæri. Hvað þá grænmetisbúðing sem bragðast eins og kjúklingur.
Lengsta hungurverkfall á Íslandi varð frétt fyrir fjórum dögum. Fréttaefnið var að Höskuldur H. Ólafsson fékk í fyrsta skipti mat frá bankahruninu 2008. Vandamálið er að hvorki Höskuldur né aðrir muna lengur hvers vegna hann hóf hungurverkfallið fyrir hálfu sjötta ári. Það var Gerður Kristný rithöfundur sem kom auga á þessa frétt.
Ég kom hinsvegar sjálfur auga á skemmtilega útlenda Fésbókarfærslu sem vinsælt er að deila á þeim vettvangi. Þar segir af konu sem var að hefja matreiðslu á kvöldverði heimilisins. Eiginmaðurinn kom inn í eldhús og spurði hvort hann gæti hjálpað til. Konan jánkaði því. Sagði honum að taka kartöflupokann, skræla helminginn og sjóða í potti. Nokkru síðar blasti þessi sjón við konunni:
Matur og drykkur | Breytt 16.1.2014 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2014 | 00:25
Kvikmyndarumsögn
- Titill: The Secret Life of Walter Mitty
- Leikstjóri: Ben Stiller
- Leikarar: Ben Stiller, Ólafur Darri, Ari Matthíasson, Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson
- Einkunn: *** (af 5)
Þessi bandaríska - allt að því stórmynd - ku vera endurgerð á eldri bandarískri mynd. Um þá mynd veit ég fátt. Engu að síður er ég sannfærður um að Ísland og Íslendingar leiki ekki jafn stórt hlutverk í frumgerðinni. Jafnvel ekkert hlutverk. Það væri búið að fréttast.
Myndin segir frá uppburðarlitlum lúða sem vinnur í framköllunardeild ljósmynda hjá tímaritinu Life. Hann er skotinn í samstarfskonu sinni. Kjarkleysi kemur í veg fyrir að hann gangi lengra en láta sig dreyma dagdrauma um þau tvö. Hann dettur óspart í dagdrauma um margt fleira. Í dagdraumum er hann kjarkmikil ofurhetja, andstæðan við það sem hann er í raunveruleikanum. Andstæðurnar eru það skarpar að áhorfandinn á auðvelt með að greina dagdraumana frá raunveruleikanum.
Örlögin haga því þannig að óvænt er mannræfillinn hrifinn úr sínu örugga umhverfi í framköllunardeildinni og þeytist í viðburðarríkar ferðir til Grænlands, Íslands og Himalayafjalla. Allar senur þessara ferðalaga eru víst teknar á Íslandi. Það er trúlegt hvað varðar Ísland. Líka Himalayafjöll. En assgoti tekst vel til með senurnar sem eiga að gerast á Grænlandi. Ég hef þrívegis komið til Grænlands og flakkað dálítið um. Þetta er alveg eins og Grænland.
Senurnar á Íslandi og þær sem eiga að gerast á Grænlandi eru skemmtilegastar. Ekki aðeins vegna þess hversu fallegt og mikilfenglegt landslagið er og hversu gaman er að sjá íslenska leikara fara á kostum. Jú, jú, það vegur þungt. Það er virkilega gaman að sjá Ísland skarta sínu fegursta, íslenska náttúru minna hraustlega á sig og það er góð skemmtun að sjá íslenska leikara "brillera" í útlendri mynd sem hundruð milljóna manna um allan heim ýmist hafa séð, eru að sjá þessa dagana eða eiga eftir að sjá. Í þessum senum nær myndin hæstu hæðum í gríni. Hvert vel heppnaða spaugilega atvikið rekur annað. Ólafur Darri á stjörnuleik. Ari Matthíasson, Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson standa sig sömuleiðis með prýði.
Myndin skiptir mjúklega um gír þegar Íslandi sleppir. Síðasti fjórðungur myndarinnar er fyrst og fremst drama. Samt ekki leiðinlegt. Það er verið að hnýta saman lausa enda til að ljúka sögunni með fyrirsjáanlegum "happy end". Harmrænar myndir eða bara harmrænar senur hafa ekki verið hátt skrifaðar hjá mér. Svo rakst ég á niðurstöður viðamikillar vísindalegrar rannsóknar Notre Dame háskólans á Indlandi. Rannsóknin leiddi í ljós að fólk verði betri manneskjur við að horfa á dramatískar kvikmyndir. Umburðarlyndi og samkennd með öðrum vex. Fólk á auðveldara með að setja sig í spor þeirra sem eiga um sárt að binda.
Ben Stiller er góður leikari. Það staðfestir hann ítrekað í trúverðugum senum, hvort sem er í hlutverki lúðans eða hetjunnar í dagdraumunum. Og líka þegar lúðinn hefur öðlast sjálfstraust eftir ævintýrin á Íslandi. Sean Penn kemur einnig sterkur til leiks í stuttri senu. Töffaraáran er nánast áþreifanleg.
Ég mæli með því að fólk upplifi myndina í kvikmyndahúsi fremur en bíði eftir henni í sjónvarpi eða á DVD. Einkum vegna landslagssenanna. Það er áhrifaríkt þegar tónlist Of Monster and Men kemur til sögunnar er leikur berst til Íslands. Þegar upp er staðið er myndin öflug auglýsing fyrir Ísland. Kannski ein sú mesta fram til þessa ef frá eru taldar heimsvinsældir Bjarkar, Sigur Rósar og Of Monster and Men.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.1.2014 | 22:16
Gagnlegur fróðleikur um Evrópusambandið
Utanríkisráðherrann, Gunnar Bragi Sveinsson, veit margt - þó að hann viti ekki hvað sum lönd heiti. Hann veit bara eitthvað annað í staðinn. Gott dæmi um það er þessi fullyrðing sem hann slengdi óvænt fram í Kastljósi í kvöld: "Evrópusambandið eyðir meiri peningum í kynningar á sér en Kóka-kóla." Þetta er merkilegur og áhugaverður fróðleiksmoli. Takk fyrir það. Eftir stendur spurningin: Hvað eyðir Evrópusambandið miklum peningum í Kóka-kóla? Kannski miklum peningum. Ýmislegt bendir til þess. Til að mynda að starfsmenn Evrópusambandsins eru pestagemlingar. Veikindadagar þeirra eru þrefalt fleiri en í nágrannalöndum okkar.
Starfsmenn Evrópusambandsins halda sig heimavið fárveikir, skjálfandi eins strá í vindi vegna þynnku, með dúndrandi hausverk um 15 virka daga á ári að meðaltali. Þá er ótalið hvernig þetta lið liggur afvelta heima um helgar og á öðrum frídögum. Til að mynda í sumarfríinu. Það er svakalegt.
Einn af hverjum sjö starfsmönnum Evrópusambandsins drífur ekki í vinnuna vegna veikinda yfir 20 sinnum á ári. Þetta er ekki vegna þess að þeir séu undir miklu álagi í vinnunni. Né heldur vegna þess að vinnan sé þeim hættuleg og harðneskjuleg. Þeir reyna ekkert á sig. Hvorki líkamlega né andlega. Vinnan gengur aðallega út að það að finna sér eitthvað til að dunda við. Menn eru mest í því að rétta hver öðrum pappír.
Fyrir dundið eru þeir á hærri launum en almennur launamaður. Sjötti hver er með 16 - 20 milljónir í árslaun nánast beint í vasann. Þeir njóta verulegra skattfríðinda og ótal annarra fríðinda.
Til samanburðar er skrifstofumaður í Bretlandi að meðaltali frá vinnu vegna veikinda 5 daga á ári. Vinnuálag þeirra er mikið vegna þess að fyrirtæki og stofnanir eru undirmannaðar.
Það dugir að hlusta á fyrstu hálfu mín.
Matur og drykkur | Breytt 14.1.2014 kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.1.2014 | 23:46
Vaxandi vinsældir íslenskrar hljómsveitar í útlöndum
Fyrir mánuði síðan sagði ég frá vaxandi vinsældum íslensku hljómsveitarinnar Q4U í útlöndum. Um það má lesa með því að smella á slóðina: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1339108/ Vinsældunum hefur fylgt umfjöllun í útlenskum fjölmiðlum. Hér eru dæmi (kannski þarf að smella á mynd til að hún stækki:
Vinsældum íslensku pönksveitarinnar Q4U hefur fylgt að fjöldi fyrirbæra vill kenna sig við hljómsveitina. Allt frá framleiðendum krema og úra til verslana.
Tónlist | Breytt 13.1.2014 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hungrið sækir að. Þú átt ekkert í ísskápnum. Vonsku veður úti og þú nennir ekki í búð. Þú sest við tölvuna og prentar í þrívídd út máltíð. Það þarf aðeins að hita hana í örstutta stund í örbylgjuofni. Þá er hún tilbúin og þú getur byrjað að snæða.
Þetta er ekki fjarlægur framtíðardraumur. Þessi prentari kemur á almennan markað núna í vor.
Þegar ég var í Barselona yfir jól og áramót var mikið um þetta rætt. Það er spænskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Barselona sem stendur fyrir þessari skemmtilegu nýjung (að ég held í samvinnu við tölvufyrirtæki í fleiri löndum). Ég sá fréttir af þessu. Að vísu kann ég ekki spænsku. En ég sá myndir af ferlinu.
Við vitum að nú þegar eru fullkomlega nothæf skotvopn prentuð út í þrívídd. Einnig varahlutir í bíla og fleiri tæki.
Síðasta byltingarkennda nýjung í eldhúsi er örbylgjuofn. Hátt í þrír áratugir eru síðan hann kom á almennan markað. Þrívíddarprentarinn er stærri bylting. Það þarf ekki að draga fram allskonar potta og pönnur, skera niður lauk, hræra í sósum, hveiti og allskonar út um allt. Núna sest þú fyrir framan tölvuna og velur máltíð. Smellir á myndina og þrívíddarprentarinn hefst handa.
Þetta býður upp á fleiri möguleika. Ef börn fúlsa við spínati eða öðru hollu grænmeti er minnsta mál í heimi að breyta lögun þess. Láta það líta út eins og blóm eða flugvél eða annað spennandi.
Hvernig virkar þetta? Prentarinn er á stærð við nettan örbylgjuofn. Í stað blekhylkja í litaprentara eru tiltekin hráefni og krydd í hylkjum prentarans. Prentarinn byrjar á því að prenta örþunna flögu. Síðan hleður hann hverri örþunnu flögunni ofan á aðra til samræmis við myndina af matnum á skjánum.
Fyrsta kynslóð af prentaranum ræður ekki við hvaða mat sem er. Hann getur prentað franskar kartöflur og kartöflumús en ekki venjulegar kartöflur. Hann prentar hamborgara, pizzur, lasagna og eitthvað svoleiðis. Hann prentar allskonar kökur. Alveg frá súkkulaðibitakökum til ostatertna.
Matarprentarinn kostar um 150 þúsund ísl. kr. Líklegast er að veitingastaðir prentaravæðist á undan heimilum. Handan við hornið - strax í vor - eru veitingastaðir sem afgreiða einungis prentaðan mat.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.1.2014 | 16:58
Spennandi plata
Í lok janúar kemur út heldur betur spennandi 7 vínylplata. Þar skiptast á lögum tvær af mögnuðustu hljómsveitum landsins, Sólstafir og Legend. Um er að ræða flutning Sólstafa á laginu Runaway Train - sem Legend gaf út á plötunni Fearless - og flutning Legend á laginu Fjöru. "Fjara" er vinsælasta lag Sólstafa. Það er af plötunni Svartir Sandar.
Kanadíska plötufyrirtækið Artofact stendur að útgáfunni og útgáfudagurinn er 24. janúar. Nú þegar er þó hægt að heyra bæði lögin á netinu. Lag Sólstafa má streyma á Pitchfork.com og lag Legend á Lastrites.es.
Þessa dagana eru Legend að semja fyrir nýja plötu sem fylgir eftir Fearless - er kom út 2012 og fékk gríðalega góða dóma út um allan heim. Landaði dúettnum magnaða meðal annars útgáfusamningi hjá Artoffact.
Sólstafir eru um þessar mundir að leggja lokahönd á upptökur fimmtu plötu sinnar. Hún er væntanleg næsta sumar. Platan fylgir eftir Svörtum Söndum, sem náði miklum vinsældum um allan heim. Sólstafir hefa verið á tónleikaferðarlagi nánast látlaust síðan platan kom út í október 2011. Framundan er eitt viðburðaríkasta sumar hljómsveitarinnar til þessa þar sem hún er bókuð á tónleikahátíðir nánast um hverja einustu helgi. Þar á meðal eru stórhátíðir eins og Sweden Rock, Rock Hard, Hellfest, Graspop og auðvitað hið eina sanna Eistnaflug. "Ég sé fram á að búa í ferðatösku frá og með maí", segir bassaleikarinn Svavar Austmann, og bætir við: "En það er svo sem ekkert nýtt. Það er búið að tilkynna um 15 tónleikahátíðir nú þegar og það eiga fleiri eftir að bætast við."
Hægt er að heyra ábreiðu Sólstafa á Legend laginu Runaway Train hér:
http://pitchfork.com/reviews/tracks/16473-runaway-train/
Og ábreiðu Legend á Sólstafa laginu Fjara má heyra hér:
http://lastrit.es/articles/685/legend---fjara
Hér er svo flutningur Legend á "Runaway Train":
og flutningur Sólstafa á "Fjöru":
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2014 | 00:54
Plötuumsögn
- Titill: Trúður í felum
- Flytjandi: Stella Hauks
- Einkunn: **** (af 5)
Söngvaskáldið og trúbadorinn Stella Hauks varð sextug í lok síðasta árs. Vinir og velunnarar hennar samfögnuðu tímamótunum með því að hljóðrita 12 söngva hennar og gefa út á hljómplötu.
Fyrir mörgum árum sendi Stella frá sér sína fyrstu plötu. Sú plata var hrá og einföld í alla staði. Hún kynnti Stellu sem ágætt söngvaskáld með sterk persónuleg sérkenni sem söngkona. Röddin hrjúf og söngkonan skýrmælt.
Nýja platan virðist vera hljóðrituð svo gott sem "live" í hljóðveri. Mér telst til að 14 tónlistarmenn leggi sitt af mörkum. Fasti kjarninn er bassaleikarinn Tómas M. Tómasson, gítarleikararnir Eðvarð Lárusson og Magnús R. Einarsson, trommuleikarinn Birgir Nielsen og söngkonan Andrea Gylfadóttir.
Það er djammstemmning í flestum lögum. Sú stemmning birtist strax í upphafslaginu, Hvað með það?. Þar fer Eðvarð Lárusson á gott og grimmt spunaflug á rafgítar. Að öðru leyti er það lag og platan í heild á ljúfum lágstemmdum nótum. Hrá "live" stemmningin hentar söngvum Stellu afskaplega vel.
Ég hlusta yfirleitt ekki eftir textum fyrr en eftir að hafa melt laglínur og flutning. Laglínur Stellu eru grípandi og snotrar. Vinalegar og notalegar. Fremur einfaldar í um það bil þriggja hljóma uppskrift. Sumar með töluverðum kántrýkeim.
Frá fyrstu spilun hljóma lögin vel. Öll viðkunnanleg. Þegar síðar meir textarnir voru kannaðir kom í ljós að þeir eru bitastæðir; ljóðrænir og geta staðið sjálfstæðir sem fyrirtaks ljóð. Þetta eru vangaveltur um lífið og tilveruna, efa, kvíða og eftirsjá í bland við ástir, samkynhneigð, vonir og kæruleysi.
Hvað með það - hvað með það -
lífið heldur áfram í dag.
Þannig segir í viðlagi upphafslagsins.
Söngraddir Stellu og Andreu Gylfa eru ólíkar. Rödd Andreu silkimjúk, björt, hvíslandi og stelpuleg. Rödd Stellu dekkri og svipar meira til Marianne Faithful. Þessi munur ljær plötunni fjölbreytta áferð. Ég heyri ekki betur en Hafþór Ólafsson úr dúettinum Súkkat syngi í laginu Von. Hans er þó hvergi getið á umbúðum plötunnar. Von er sterkasta lag plötunnar. Bongotrommur og flautuspil gefa því seyðandi og draumkenndan blæ.
Heildarniðurstaðan er sú að vel hafi tekist til með plötuna. Efniviðurinn er góður og líflegur lausbeislaður flutningurinn klæðir hann hið besta.
Mynd: Óskar Pétur Friðriksson
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2014 | 22:14
Flottur útvarpsþáttur
Virkir morgnar á Rás 2 eru með allra skemmtilegustu þáttum í sögu útvarps á Íslandi. Þau Andri Freyr Viðarsson og Gunna Dís Emilsdóttir fara á kostum.
Ég hef fylgst með Andra Frey í útvarpi alveg síðan hann byrjaði með rokkþáttinn Karate á X-inu fyrir mörgum árum. Þessu næst fór hann á svakalegt flug í þættinum Freysa á sömu útvarpsstöð. Sá þáttur var ein samfelld rosaleg flugeldasýning. Engum var vægt og allt látið flakka. Það kostaði sitt. Lögfræðingar fengu hellings vinnu við að útbúa kærur á hendur Andra Frey og / eða hóta honum kærum. Líka handrukkarar. Grallaragangurinn á Andra Frey kostaði hann peninga. Og jafnvel vini. Á þessum tíma var hann gítarleikari í Botnleðju og lék aðra í bransanum grátt með "grófu" slúðri.
Þegar hlustað var á þáttinn Freysa hvarflaði ekki að neinum að Andri Freyr væri framtíðarstjarna RÚV, sjónvarps og Rásar 2. En það var augljóst að maðurinn var stjarna: Hugmyndaflugið óendanleg uppspretta spaugilegs gassagangs, hnyttin tilsvör, fyndið kæruleysi en jafnframt metnaður.
Stjórnendur og yfirmenn X-ins voru lengst af ótrúlega djarfir og umburðarlyndir gagnvart þættinum Freysa. Ég man ekki hvers vegna þátturinn var tekinn af dagskrá. Hvort að kærumál og skaðabætur voru farnar að íþyngja.
Allt í einu var Andri Freyr - ásamt Dodda litla - kominn með snilldar föstudagsþátt á Rás 2, Litlu hafmeyjuna. Þá var Andri Freyr plötusnúður í Danmörku. Gott ef ekki á skemmtistað Dóru Takefúsa og víðar.
Staðsettur á Íslandi hélt Doddi litli utan um þáttinn. Andri Freyr var meira með innslög og eitthvað svoleiðis. Viðtöl við danskar poppstjörnur og þess háttar. Það kom afskaplega vel út að Andri Freyr hefði einhvern við hlið sér sem veitti aðhald og héldi honum nær jörðinni.
Gunna Dís, sem er með Andra Frey í Virkum morgnum, er glæsileg í því hlutverki. Móðir mín á níræðisaldri gætir þess vandlega að missa aldrei af Virkum morgnum. Henni þykir þau tvö rosalega skemmtileg. Og skemmtilegast þykir henni þegar Gunna Dís veitir drengnum aðhald / tiltal.
Þau eru frábær saman. Ég er sammála mömmu með það. Og reyndar fleira sem er þessu óviðkomandi.
Andri Freyr er sömuleiðis meiriháttar skemmtilegur sjónvarpsmaður. Þættirnir um Andra á flandri eru afskaplega vel heppnaðir. Þar vinnur hann að hluta með skrifaðan texta (sem hann skrifar sjálfur) og þættirnir eru unnir fram og til baka. Í sumar verður Andri á flandri í Færeyjum. Ég hlakka mikið til að sjá þá.
Hér er Andri Freyr með hljómsveitinni stórkostlegu Bisund:
Og hér með Botnleðju - líka meiriháttar:
![]() |
Af hverju skiptiru þá ekki um stöð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Útvarp | Breytt 10.1.2014 kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2014 | 17:32
Embættismenn skemmta sér og skrattanum
Íslenskum embættismönnum þykir fátt skemmtilegra en setja reglur. Ekki síst embættismönnum ÁTVR. Þeir skríkja í kæti þegar þeim tekst að banna hitt og þetta. Eitt sinn bönnuðu þeir sölu á cider-drykk. Forsendan var sú að dósin var og er skreytt smáu blómamynstri. Innan um blómin mátti - með aðstoð stækkunarglers - koma auga á teikningu af nöktum fótlegg.
- Viðurstyggð! Stórskaðlegt og gróft klám, hrópuðu embættismenn ÁTVR.
Heildsali cider-drykksins áfríaði ákvörðun ÁTVR til dómsstóls. Þar voru embættismenn ÁTVR rassskelltir. Klám fannst ekki á umbúðunum. ÁTVR var skikkuð til að taka cider-drykkinn í sölu. Síðan hefur hann selst vel - án þess að leiða til ótímabærs kynsvalls og óhóflegrar fjölgunar kynlífsfíkla.
Í annað skipti komu embættismenn auga á smátt letur á bjórnum Black Death. Þar stóð: Drink in Peace.
- Grófur áróður fyrir neyslu áfengs drykkjar og getur leitt til ölvunar, hrópuðu embættismenn ÁTVR.
Í enn eitt skiptið bönnuðu embættismenn ÁTVR bjórinn Motorhead.
- Þeir sem drekka Motorhead eru í mikilli hættu á að byrja umsvifalaust að hlusta á enska hljómsveit með sama nafni. Þá er stutt í heróínneyslu og krakkreykingar.
Þetta var sameiginleg niðurstaða embættismanna ÁTVR.
Fyrir örfáum árum bönnuðu embættismenn ÁTVR íslenskan páskabjór.
- Það er teikning af svipljótum hænuunga á dósinni. Veruleg hætta á að börn hamstri þennan bjór, var útskýring embættismanna ÁTVR.
Nú er bjórframleiðendum gert að farga öllum jólabjór. Jólin eru búin.
Af hverju samt að farga hollum og neysluvænum drykkjum þó að jólin séu að baki?
- Þetta eru reglur. Við verðum einfaldlega að framfylgja reglum, segja embættismenn ÁTVR.
Hver setti þessar reglur?
- Við, er svar þessara sömu embættismanna.
![]() |
Farga óseldum jólabjór |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.1.2014 | 22:22
Íslensk tónlist í Barselona
Þetta er framhald á síðustu tveimur færslum.
Einu verslanir sem ég sniðgeng ekki á ferðum erlendis eru plötubúðir. Það er samt ekki jafn gaman og á árum áður að kíkja í plötubúðir í útlöndum. Sú tíð er nánast liðin að maður rekist á eitthvað óvænt og spennandi í þessum búðum. Í dag selja þær eiginlega bara plötur allra vinsælustu flytjenda. Lítið þekktir flytjendur sinna sínum markaði í gegnum netið.
Á vegi mínum í Barselona urðu þrjár plötubúðir. Allar á sama blettinum við Katalóniutorg. Í aðeins nokkurra metra fjarlægð hver frá annarri. Það er alltaf forvitnileg að sjá hvaða íslenskar plötur fást í útlendum plötubúðum. Í Barselona reyndust það vera:
Björk (margar plötur. Allar sólóplötur og einhverjar remix og smáskífur að auki)
Sigur Rós (margar plötur)
Emilíana Torríni (nýja platan, Tookah)
Ólöf Arnalds (nýja platan, Sudden Elevation)
Múm (margar plötur)
Þetta þýðir að viðkomandi flytjendur njóti töluverðra vinsælda í Barselona. Við vitum svo sem að Björk, Sigur Rós og Emilíana Torríni eru vinsæl víða um heim. Ólöf Arnalds er stærra nafn á heimsmarkaði en margur heldur. Til að mynda er hún töluvert nafn í Skotlandi og einnig þekkt í Englandi. Það kom mér á óvart að rekast á plöturnar með Múm í Barselona.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2014 | 22:05
Tapas á Spáni og Íslandi
Þetta er framhald á bloggfærslunni frá í gær.
Eitt af því sem gerir utanlandsferðir skemmtilegar er að kynnast framandi matarmenningu. Að vísu er það ekki alveg jafn spennandi eftir að hérlendis spruttu upp kínverskir veitingastaðir, tælenskir, víetnamskir, ítalskir, tyrkneskir, bandarískir... Samt. Í útlandi má alltaf finna eitthvað nýtt og framandi að narta í.
Í Barselona er af nógu að taka í þeim efnum. Þar á meðal eru það smáréttir sem kallast tapas. Upphaflega var tapas brauðsneið eða parmaskinkusneið lögð ofan á vínglas á milli sopa. Hlutverk tapas var að koma í veg fyrir að fluga kæmist í vínið. Enginn vill eiga það á samviskunni að fluga verði ölvuð og rati ekki heim til sín.
Þegar annað vínglas var pantað lét barþjónninn nýja skinkusneið eða brauðsneið fylgja því. Eða þá að á barnum lá frammi brauð og skinka. Gestir máttu fá sér eins og þeir vildu. Bæði til að hylja vínglasið og einnig til að maula sem snarl. Brauðið og skinkan eru sölt og skerpa á vínþorsta viðskiptavina. Það varð góður bisness að halda snarlinu að gestum. Þróunin varð sú að bæta söltu áleggi eða salati ofan á brauðbitana. Það er enginn endir á nýjum útfærslum af tapas. Í dag eru barir og krár á Spáni undirlagðar tapas. Viðskiptavinurinn getur valið úr mörgum tugum smárétta.
Nafnið tapas vísar til upprunans; sem tappi eða lok. Spænska orðið tapa þýðir að hylja. Mér skilst að víðast á Spáni sé tapas ókeypis snarl með víninu. Í Barselona er hver smáréttur seldur á 200 - 300 ísl. kr. Það er líka hægt að fá bitastæðari smárétti á hærra verði. Spánverjar skilgreina tapas alfarið sem snarl á milli mála. Þeir líta ekki á tapas sem máltíð. Það geri ég hinsvegar. Það er góð og fjölbreytt máltíð að fá sér 3 - 4 smárétti með bjórnum. Á sumum börum er hægt að kaupa á tilboðsverði 6 - 7 valda smárétti saman á 1000 - 1200 ísl. kr. Þá er blandað saman dýrum og ódýrum réttum. Þetta er of stór skammtur fyrir máltíð. En ágætur pakki fyrir þá sem sitja lengi að drykkju.
Verðlag á veitingum á Spáni er nokkuð áþekkt verðlagi á Íslandi. Ef íslensku bankaræningjarnir hefðu ekki slátrað íslensku krónunni 2008 værum við í dag að tala um verðlag á Spáni helmingi lægra en á Íslandi.
Það er önnur saga. Hérlendis eru veitingastaðir sem kenna sig við tapas. Það skrítna er að þeir eru rándýrir. Einn réttur kannski á 2000 - 3000 kall. Nokkrir smáréttir saman á 7000 kall eða eitthvað.
Ég gagnrýni þetta ekki. Þvert á móti dáist ég að þessum stöðum fyrir að komast upp með svona háa verðlagningu. Þetta er bisness eins og margt annað. Það er ekkert nema gaman að til sé hellingur af fólki sem hefur efni á að halda íslenskum tapas-stöðum á floti.
Meira á morgun.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.1.2014 | 00:06
Vasaþjófar og fjör í Barselona
Ég fagnaði sólrisu, sólstöðuhátíðinni og áramótum með því að taka snúning á London, Barselona og Kaupmannahöfn. Þetta var fyrsta heimsókn mín til Spánar. Þess vegna staldraði ég lengst við þar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2013 | 22:23
Og HJARTA ÁRSINS er...
Sæunn Guðmundsdóttir! Það er niðurstaða áhorfenda og dómnefndar sjónvarpsstöðvarinnar flottu, N4. Þetta fólk hefur ekki rangt fyrir sér. Ég votta það.
Það var skemmtilegt uppátæki hjá N4 og Miðbæjarsamtökum Akureyrar að efna til leitar að hjartahlýjustu manneskjunni. Sæunn er alltaf á fullu í því að hjálpa öllum og gleðja aðra.
Hún kann ekkert á peninga. Þegar hún kemur auga á bók eða plötu í búð þá er hennar fyrsta hugsun hvern bókin eða platan geti glatt. Það hvarflar ekki að henni hvort að hún hafi efni á kaupa enn eina gjöfina til að gleðja. Hún hefur ekkert efni á því. En löngun til að gleðja aðra víkur fyrir öllu.
Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika þá slær hún aldrei af við að sprella og grínast. Gefur frekar í en hitt við hverja raun. Hún og fjölskylda hennar hafa fengið stærri skammt af veikindum en hollt telst. Maður hennar er að glíma við eftirstöðvar heilablóðfalls. Er í endurhæfingu. Sjálf hefur Sæunn strítt við heilsuleysi af ýmsu tagi alveg frá barnsaldri og er móðir 2ja langveikra barna. Samtals eru börn hennar fjögur. Ég kann ekki upptalningu á veikindum Sæunnar. Hún er áhugasamari að tala um flest annað en nýrnabilun, vefjagigt og hvað þetta heitir.
Sæunn er ein af stofnendum Aflsins, systursamtaka Stígamóta á Norðurlandi. Hún er ennþá að vinna allan sólarhring fyrir Aflið.
Svo skemmtilega vill til að sama dag og Sæunn var útnefnd Hjarta ársins þá varð hún amma í annað sinn. Á myndinni hér fyrir ofan er hún með hinu ömmugullinu. Sæunn er til hægri á myndinni.
Til hamingju með daginn, kæra systir!
Löggæsla | Breytt 6.1.2014 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
19.12.2013 | 23:29
Íslensk hljómsveit nýtur vaxandi vinsælda erlendis
Hljómsveitin Q4U varð til í rokkbyltingunni 1980 - 1983, frjóasta og orkumesta tímabili íslensku rokksögunnar. Tímabili sem í dag er kennt við kvikmyndina og plötuna Rokk í Reykjavík.
Auglýsingar um myndina og framhlið umslags plötunnar skreytti ljósmynd af Ellý, söngkonu Q4U.
Á þessu tímabili naut Q4U mikillar athygli og vinsælda. Vinsælasta lag Q4U, Böring, er sívinsæl klassík.
Eins og flestar aðrar hljómsveitir í Rokki í Reykjavík lagðist Q4U í dvala. Liðsmenn hennar fóru að spila og syngja með öðrum hljómsveitum. Af og til reis hljómsveitin úr dvala og er enn að.
Fyrir nokkrum árum tók að berast póstur til Q4U frá Þýskalandi. Í póstunum var upplýst að í Þýskalandi ætti Q4U harðsnúinn aðdáendahóp. Einhverjir höfðu rekist á efni með Q4U á þútúpunni og heilluðust. Leikar fóru þannig þýski aðdáendahópurinn keypti 300 eintök af diski með heildarútgáfu á lögum Q4U. Það voru mun fleiri eintök en seldust af disknum hérlendis.
Þjóðverjarnir lögðu hart að Q4U að koma í hljómleikaferð til þýskalands. Áður en til þess kom barst Q4U póstur frá Brasilíu. Þar var annar harðsnúinn aðdáendahópur Q4U. Brassarnir lögðu enn harðar að Q4U að koma í hljómleikaferð til Brasilíu. Jafnframt vildu Brassarnir fá að gefa út "Best of" plötu með Q4U. Þeir fengu leyfi til þess. "Best of" platan kom út fyrir tveimur árum og seldist í 1000 eintökum í Brasilíu.
Á meðan liðsmenn Q4U veltu vöngum yfir hugsanlegri hljómleikaferð til Brasilíu og Þýskalands tók að berast póstur frá Bandaríkjunum. Þar var enn einn harðsnúni aðdáendahópurinn. Sá hópur grátbað Q4U um að koma í hljómleikaferð til Bandaríkjanna. Þá var komin upp sú staða að halda í hljómleikaferð til Þýskalands, Brasilíu og Bandaríkjanna. Ljóst var að það yrði töluverður pakki. Kannski 2ja - 3ja mánaða túr. Það var snúið mál. Liðsmenn hljómsveitarinnar voru í fastri vinnu sem erfitt var að hlaupa úr. Jafnframt foreldrar barna á ýmsum aldri. Allt niður í ung börn.
Túrinn var eiginlega þegar afskrifaður er Ingólfur gítarleikari veiktist af hvítblæði fyrir 15 mánuðum. Hann féll frá í vor og er sárt saknað.
Nýverið kom út í Bandaríkjunum vinyl-plata með Q4U. Hún er kölluð "Deluxe Edition 1980 - 1983". Hún inniheldur 16 lög frá þessum árum. Umslagið er hið sama og á Ep-plötu sem kom út með Q4U 1983.
Það er vel til útgáfunnar vandað í alla staði. Plötunni fylgir textablað og allar helstu upplýsingar um hljóðritanir á hverju lagi fyrir sig. Mér þykir líklegt að vinylplatan sé til sölu í helstuplötubúðum á Íslandi - sem á annað borð selja vinyl.
Tónlist | Breytt 20.12.2013 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.12.2013 | 23:34
Skemmtileg grein í héraðsfréttablaðinu Feyki
Þessi bloggfærsla er dálítið staðbundin (lókal). Feykir heitir héraðsfréttablað Skagfirðinga og Húnvetninga. Frábært vikurit sem upplýsir okkur brottflutta af því landssvæði um það sem helst ber til tíðinda í Skagafirði og Húnavatnssýslu. Til viðbótar við margt annað sem gaman er að lesa um, svo sem mataruppskriftir og skagfirska fyndni (Dreifarinn).
Í nýjasta hefti Feykis er viðtal við gamlan Skagfirðing:
---------------------------
Jens Guð skrifar um færeysku söngkonuna á Íslandi
Hjá Æskunni er komin út bók eftir Jens Guð, sem í Skagafirði er betur þekktur undir nafninu Jens Kristján. Þrátt fyrir að vera löngu brottfluttur er þessi landsþekkti bloggari og skrautskriftarkennari Skagfirðingur að ætt og uppruna. Bókin sem hann skriftar fjallar um færeysku söngkonuna Eivöru og ber titilinn Gata, Austurey, Færeyjar, EIVÖR og færeysk tónlist.
-Ég er fæddur (1956) og uppalinn á Hrafnhóli í Hjaltadal. Sonur Guðmundar Stefánssonar og Fjólu Kr. Ísfeld. Bærinn á Hrafnhóli brann 1979. Þá flutti fjölskyldan til Akureyrar. Nema Sæunn systir mín. Hún tók saman við Hallgrím Tómasson á Sauðárkróki, settist þar að og eignaðist með honum tvo syni. Sjálfur var ég kominn suður í nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þegar bærinn á Hrafnhóli brann, segir Jens.
Hin nýútkomna bók fjallar að uppistöðu um færeysku söngkonuna Eivöru, sem er vinsælasti erlendi tónlistarmaðurinn á Íslandi ef miðað er við plötusölu. Hérlendis selur hún um 10 þúsund eintök af hverri plötu. Miðað við vinsældir Eivarar hérlendis má ætla að bókin verði vinsæl. Hún er einnig seld í Færeyjum. Viðræður eru um að bókin verði þýdd yfir á dönsku og norsku.
Jens segist ennþá vera Skagfirðingum að góðu kunnur. -Flestir íbúar Hjaltadals og Viðvíkursveitar þekkja mig. Ég var tvo vetur í gagnfræðaskóla á Steinsstöðum. Flestir í Lýtingsstaðahreppi þekkja mig þess vegna. Það var nokkur samgangur á milli nemenda í Steinsstaðaskóla og Varmahlíðarskóla. Við krakkarnir í Hjaltadal lærðum sund á Sauðárkróki með krökkunum í Hofsósi og Hofshreppi.
Öll haust vann ég í Sláturfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki, þar sem pabbi var forstjóri. Pabbi var oddviti í Hólahreppi, lengi formaður ungmennafélagsins Hjalta og meðhjálpari á Hólum í Hjaltadal. Ég hef alltaf skilgreint mig sem Skagfirðing þrátt fyrir að hafa átt heima í Reykjavík síðastliðna áratugi. Til viðbótar þessari upptalningu á ég stóran frændgarð þvers og kruss um Skagafjörðinn. Þegar ég ferðast um Skagafjörðinn í dag þá þekki ég meirihlutann af öllum sem ég hitti.
Auk þess að vera landþekktur bloggari og hafa áður gefið út bækur er Jens kunnur fyrir skrautskriftarnámskeið sem hann hefur haldið vítt og breytt um landið. Um nokkurra ára skeið kenndi ég skrautskrift fyrir Farskóla Norðurlands vestra. Ég þekkti ekki alltaf alla nemendur í upphafi námskeiðs. En jafnan kom í ljós þegar á leið að ég þekkti foreldra þeirra, maka eða aðra nátengda. Ég hef einnig verið með fjölmörg skrautskriftarnámskeið í Húnavatnssýslu og þekki marga þar.
-------------
Nánar:
http://www.feykir.is/archives/77325
Tónlist | Breytt 19.12.2013 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2013 | 00:15
Bestu plötur ársins 2013
Það er svoooo gaman að skoða lista yfir bestu plötur ársins 2013 í áramótauppgjöri fjölmiðla. Hér er niðurstaða 3ja breskra tímarita. Fyrsta röðin er listi Uncut. Fremri sviginn vísar í lista Mojo. Aftari sviginn vísar í lista Q.
3. (9) (-) Nick Cave & the Bad Seeds Push the Sky Away
4. (5) (9) John Grant Pale Green Ghosts
5. (19) (18) Laura Marling Once I Was An Eagle
7. (1) (27) Bill Callahan Dream River
8. (-) (36) Kurt Vile Wakin On a Pretty Daze
9. (4) (1) Artic Monkeys AM
10. (-) (25) Boards of Canada Tomorrows Harvest
12. (12) (34) Prefab Sprout Crimson/Red
13. (2) (4) Daft Punk Random Access Memories
14. (-) (37) The National Trouble Will Find Me
15 (47) (-) Julie Holter Loud City Song
16. (-) (-) Thee Oh Sees Floating Coffin
17. (38) (26) Kanye West Yeezus
18. (-) (-) Parquet Courts Light Up Gold
19. (-) (-) Endless Boogie Long Island
20. (7) (2) Vampire weekend Modern Vampires of the City
Tónlist | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.12.2013 | 00:56
Flott bókargagnrýni
Árni Helgason skrifar góða, vandaða, ítarlega og vel rökstudda gagnrýni í nýjasta tölublað vikublaðsins Reykjavík um bókina "Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist".
Gagnrýnin spannar næstum hálfa blaðsíðu (dagblaðsbrot). Ég endurskrifa hér aðeins brot af gagnrýninni. Um leið kvitta ég undir aðfinnslur Árna. Þær eru réttmætar.
Fyrirsögnin er "Ég syng alltaf berfætt".
Í meginmálstexta segir m.a.: "Fyrir þá sem áhuga hafa á færeyskri tónlist á síðasta hluta 20. aldar og fyrstu árum hinnar 21. er fengur að þessari bók. Aðdáendur Eivarar fá einnig gott yfirlit yfir þátttöku hennar í tónlist og afrek hennar um víða veröld sem eru umtalsverð eftir því sem frá greinir í bókinni."
Líka segir: "Þessi bók er ekki ævisaga Eivarar í hefðbundnum skilningi og ekki er mikið fjallað um hana sjálfa nema að því er að tónlistinni lýtur en sú saga virðist tíunduð mjög nákvæmlega. Fjöldi hljómsveita og tónlistarmanna sem hún hefur unnið með er nefndur og margir leggja bókinni til umsagnir sínar sem eru undantekningalaust jákvæðar."
Síðan: "Í lok bókar tekur höfundur saman mjög ítarlegt yfirlit yfir hljómplötur og mynddiska sem Eivör hefur gefið út eða verið þátttakandi í. Er fengur að þeirri skrá sem og einni opnu sem höfundur kallar færeysk-íslenska orðabók en ég hygg að Íslendingar hafi gaman af því að sjá sum orðin og hugtökin svo sem að vera hundasjúkur sem getur hent eftir að menn hafa verið bakbundnir. Innskotskaflar um Færeyjar eru einnig mjög fræðandi og kemur margt fram sem líklega er ekki á allra vitorði hér á landi."
Svo: "Umfjöllunin er að nokkru leyti í tímaröð en þar sem sumir kaflarnir eru laustengdir Eivöru þá er farið nokkuð fram og aftur í tíma. Almennt er bókin lipurlega skrifuð... Fjöldi skemmtilegra mynda prýðir bókina.
Í heildina tekið er hér um fróðlega - og oft nokkuð hnyttna - bók um tónlistarmanninn Eivöru og tónlist í Færeyjum að ræða auk almenns fróðleiks um frændur okkar Færeyinga."
Bækur | Breytt 16.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Byggðarráð fagnar styrkveitingunni sem veitt er í endurbætur á þessu sögufræga húsi.
Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndra og óháðra leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er gleðilegt að sjá að forsætisráðherra hafi tekið upp merki fyrrverandi borgarstjóra Ólafs F. Magnússonar með því að standa vörð um og hvetja til endurbóta á gömlum húsum sem hafa menningarsögulegt gildi."