Jólahlaðborðsævintýri - sönn saga

jólahlaðborð-AJolahladbordjóla-borðjóladiskur
. 
   Eldri hjón hafa síðustu ár gert sér ærlegan dagamun þegar jólin nálgast.  Þau fara á jólahlaðborð.  Þetta er í eina skipti á árinu sem konan fer úr húsi.  Hún er hugsar um heimilið og er heimakær.  Hún er ekkert fyrir flandur.  Samskipti við börn sín og aðra ættingja fara að mestu fram símleiðis.  Eða þá að ættingjarnir koma í heimsókn.  Karlinn vinnur ennþá þó að hann sé kominn á aldur.  Hann er ekki eins heimakær.  Hann skreppur á sportbarinn Classic Rock í Ármúla til að horfa á fótboltaleiki á breiðtjaldi.  Hann fær sér kaldan öllara í leiðinni, hamborgara og franskar.  Konan er sæl með það.  Henni leiðast fótboltaútsendingar í sjónvarpinu. 
.
  Árlegt jólahlaðborð hjónanna er hápunktur ársins hjá konunni.  Dagsetning er ákveðin með fyrirvara.  Konan leigir ljósabekk heim til sín og nær fallegri og hraustlegri sólbrúnku í tæka tíð.  Hún fer í klippingu, hárlitun og hárlagningu;  augabrúnir eru plokkaðar og litaðar;  andlitið farðað með augnskuggum og allskonar "meiki";  varir litaðar; hendur og neglur snyrtar,  lakkaðar og skreyttar.  Bæði hjónin fara í sín fínustu föt.  Konan setur upp allt það glingur sem hún á í hálsfestum,  eyrnalokkum,  armböndum,  hringjum og öðru slíku.  Svo fer hún í fína dýra pelsinn sinn.
.
  Hjónin fara ekki tvö ár í röð á sama stað.  Þau eru búin að fara á Hótel Sögu,  Hótel Loftleiðir,  Kaffi Reykjavík og fjölda annarra staða.  Karlinn heldur utan um það hvert þau fara.  Hjónin njóta jólahlaðborðs í botn.  Þau sitja í rólegheitum yfir kræsingunum í 3 - 4 klukkutíma.  Smakka á öllum forréttum,  aðalréttum og eftirréttum.  Það fer heilmikill tími í það eitt að stafla á diskana.  Þau hvíla sig á milli rétta,  hlusta á hljómsveit hússins spila jólalög,  og dreypa á hvítvíni.  Þetta er í eina skipti á árinu sem konan bragðar áfengi.  Hjónin kunna með vín að fara.  Þau verða aldrei beinlínis full.  En vínið hreyfir nægilega við þeim til að þau taki leigubíl til og frá jólahlaðborði.  Kallinum þykir spaugilegt að konan verður hláturmild þegar hún sötrar hvítvín.  Kannski er skýringin líka sú að jólahlaðborðið kryddar rækilega tilbreytingarlaust líf konunnar.  
  Þegar hjónin hafa borðað nægju sína af jólahlaðborðinu færa þau sig yfir á barinn.  Þar sitja þau í 1 - 2 klukkutíma til viðbótar.  Ævinlega hitta hjónin einhverja sem þau þekkja á jólahlaðborðinu eða á barnum.  Enda "rútínerast" gestirnir töluvert á þeim 5 - 6 tímum sem hjónin eru á staðnum. 
. 
  Eitt svona jólahlaðborð hjá hjónunum kostar sennilega um eða yfir 100 þúsund kall þegar allt er með talið.  Þetta er eini lúxusinn sem þau leyfa sér.  Þau eiga ekki flatskjá og hafa aldrei farið til útlanda. 
  Fyrir síðustu jól lenti karlinn í tímahraki daginn sem þau hjón fóru á jólahlaðborð.  Planið var þannig að karlinn gaf konunni upp að mæting á jólahlaðborðið væri klukkan 6.  Þetta var á föstudegi en karlinn ætlaði að hætta fyrr um daginn í vinnunni.  Þegar á reyndi komst hann ekki frá verkefni í tíma.  Konan var í öngum sínum.  Klukkan varð 4 og karlinn fastur í vinnunni.  Klukkan 5 hringdi konan í hann.  Hún var búin að fylla baðið af heitu vatni fyrir hann,  taka til jakkafötin hans,  bursta skóna og gera allt klárt.  Karlinn komst ekki heim fyrr en um klukkan hálf 6.  
  Hann hafði ekki tíma til að fara í bað og skipta um föt.  Það var brýnna að þau mættu á réttum tíma.  Konan var miður sín fyrir hans hönd.  Hún vorkenndi honum fyrir að þurfa að fara í vinnugallanum á jólahlaðborðið.  Um leið var hún honum þakklát fyrir að fórna fataskiptum fyrir að mæta með á réttum tíma á hlaðborðið.  
  Konan er einstaklega jákvæð.  Hún gerir gott úr öllu.  Jagast aldrei.  Síst af öllu sýnir hún karlinum leiðindi - þó að henni mislíki eitthvað í hans fari eða gjörðum.  Þvert á móti veitir hún honum stuðning á öllum sviðum undir öllum kringumstæðum.  Þess vegna gætti hún sín á því að gera ekki veður út af vinnugallanum.
.
  Vegna tímahraksins keyrði karlinn sjálfur með þau hjón á jólahlaðborðið.  Hann ók inn Skútuvog.  Konan spurði í undrun:  "Hvað erum við að gera í Skútuvogi?"  Karlinn svaraði:  "Hérna."  Hann beygði inn að Húsasmiðjunni.  Konan skildi hvorki upp né niður.  Hún hélt áfram að spyrja karlinn eftir að hann var búinn að leggja bílnum og þau á leið út úr honum.  "Jólahlaðborðið er hér,"  útskýrði hann.
  Inni í Húsasmiðjunni blöstu við konunni allskonar skrúfur,  hamrar,  tangir og og önnur verkfæri.  Hún hafði aldrei inn í svona búð komið.  Karlinn rataði hinsvegar og þau komu að langri röð við mötuneyti Húsasmiðjunnar.  Þau voru hálftíma í röðinni.  Konunni gafst nægur tími til að virða fólkið í röðinni fyrir sér.  Það var að uppistöðu til verka- og iðnaðarmenn í óhreinum heilgalla með allskonar vösum.  Upp úr þeim stóðu málmbönd,  vinnuvettlingar og allra handa verkfæri. 
.
  Þegar hjónin náðu að jólahlaðborðinu var ljóst að þarna var um einskonar "miní" jólahlaðborð að ræða.  Eða verkamannajólahlaðborð,  eins og konan lýsir því.  Jú, jú,  þarna voru heitar pylsur,  kjúklinganaggar,  kjúklingavængir,  kartöflustrá úr dós og eitthvað svoleiðis.  Allt í lagi með það.  En ekkert hangikjöt.  Ekkert laufafbrauð.  Ekkert Ris a la Mande.  Engin hljómsveit að spila.  Ekki dúkuð borð.  Til viðbótar þurftu hjónin að standa með diskana sína í korter eða svo áður en borð losnaði.  Eða réttara sagt losnuðu tvö sæti við borð sem þau hjón urðu að deila með tveimur drengjum er unnu á bílaverkstæði þarna í grennd.   
  Með orðum konunnar:  "Þetta var sérkennileg lífsreynsla.  Dálítil vonbrigði.  Ég er viss um að aldrei áður hefur jafn vel til höfð og jafn vel klædd kona sést í Húsasmiðjunni."  
.
chicken-nugget

Grínverksmiðja ríkisins rassskellt - einu sinni enn!

  Mannanafnanefnd ríkisins hefur til fjölda ára (næstum 15) barist með kjafti og klóm fyrir því að stúlku nokkurri sé gert að heita Stúlka.  Ástæðan er sú að stúlkan vill heita Blær.  Foreldrar hennar vilja sömuleiðis að hún heiti Blær.  Aðrir ættingjar,  vinir og kunningjar stúlkunnar vilja líka að hún heiti Blær.  Enda er nafnið Blær afskaplega fallegt nafn,  hvort heldur sem konur eða karlar bera það.  Nú hafa dómstólar bæst í hóp þeirra sem telja það til sjálfsagðra mannréttinda að stúlkan þurfi ekki að gegna nafninu Stúlka heldur fái að heita því nafninu sem hana langar til,  Blær.   

  Grínverksmiðja ríkisins hefur þar með verið rassskellt eina ferðina enn.  Brandarar hennar eru fúlir og engum til gleði.  Hún er og hefur alltaf verið til óþurftar.  Það hlýtur að renna upp sá dagur að einhver stjórnmálamaður taki upp á því að forða landsmönnum undan forsjá Grínverksmiðju ríkisins.  

  Nú taka væntanlega við há útgjöld og tímafrek vinna hjá Blæ og foreldrum hennar við að afla nýs vegabréfs og annarra pappíra með nafni Blævar í stað nafnsins Stúlku.  Kostnaður ríkissjóðs,  sameiginlegs sjóðs Blævar, foreldra hennar og annarra Íslendinga,  vegna þessa eina staka brandara Grínverksmiðju ríkisins er sennilega á aðra milljón króna.  Engum þótti brandarinn góður.  Nema útlendingum.  Þeim þykir reyndar tilvist Grínverksmiðju ríkisins vera ennþá betri brandari.

  Þessi brandari er bestur:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1278566/

  Blær,  til hamingju með að þú megir nú bera  lögformlega þitt fagra nafn,  Blær.  Eitt blæbrigðafegursta nafn í nafnaskrá Hagstofu Íslands.  


mbl.is Fær að heita Blær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitingahússumsögn

þorramatur 
- Réttur:  Þorrabakki
- Veitingastaður: Ikea
- Verð:  1295 kr.
- Einkunn: *** (af 5)
  Bestu kaup í þorramat er að finna í sænsku húsgagnaversluninni Ikea í Garðabæ.  Um er að ræða staðlaðan skammt.  Hægt er að velja á milli disks með súrmeti og disks með nýmeti.  Á báðum diskunum er hangikjöt,  sviðasulta,  hákarl,  harðfiskur,  tvær rúgbrauðssneiðar,  tvenn smjörstykki,  maríneruð síld og rófustappa.  
  Á súrmetisdisknum eru að auki hrútspungar,  lundabaggi,  lifrarpylsa og blóðmör.
  Á nýmetisdisknum er að auki saltkjöt,  síld í sinnepssósu og ítalskt salat (Ora grænar baunir og gulrótarteningar í majonesi).  
  Eins og af upptalningu sést þá er súrmetisdiskurinn heldur veglegri.  Það er dálítið einkennilegt.  
  Ókosturinn við staðlaðan skammt er sá sami og við tilbúna þorrabakka sem seldir eru í matvöruverslunum:  Svigrúm er takmarkað til að velja uppáhaldsrétti og hafna því sem á síður upp á pallborð.  Þann vankant hafa þorrahlaðborð ekki.  Þess vegna eru þau svona vinsæl.  Ikea leysir þetta að hluta með því að bjóða upp á áðurnefnt val á milli diska með súrmat og nýmeti.
  Skammtarnir hjá Ikea eru ekki skornir niður við trog.   Þeir eru það veglegir að illmögulegt er að klára allt af súrmetisdisknum.  Nýmetisdiskinn má tæma með herkjum ef maður er  svangur. 
  Það eina sem ég sakna á þorradiskum Ikea er hvalur og magáll.  Já, og svo er enginn heitur réttur. 
  Hér er umsögn um þorrahlaðborð á Umferðarmiðstöðinni:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1279446/

Bráðnauðsynlegt að vita um snjó og bíl

  Í snjó og frosti er áríðandi að gæta sín á nokkrum hlutum ef ekki á illa að fara.  Einkum ef að kusur eru úti við.  Þá leiðist þeim alveg rosalega.  Þær finna ekkert gras til að bíta í.  Þær eru nautheimskar og átta sig engan veginn á því að hægt sé að finna gras undir snjónum.  Öfugt við til að mynda hestinn.  Hann er klár.  Hann krafsar í snjóinn,  ryður honum snyrtilega frá þangað til gras blasir við.

  Þegar gras er hulið snjó veit kusan ekki sitt rjúkandi ráð.  Henni er kalt.  Hvað er þá til ráða?  Kusan er í hópi allra forvitnustu dýra,  að manninum frátöldum.  Eðlislæg forvitni kusu reynist henni oftar vel heldur en illa.  Ef hún kemur auga á að bíll nálgist og sé lagt ekki allt of fjarri henni þá líður ekki á löngu uns hún fer að bílnum og forvitnast.  Hún þefar af honum,  skoðar hann hátt og lágt og sleikir hann aðeins til að kanna bragðið.  

  Í snjó og kulda er afar óheppilegt að kusa átti sig á því að húdd bílsins sé heitt eða volgt.  Þá bröltir hún nefnilega upp á húddið og kemur sér makindalega fyrir í notalegri hlýjunni.  Vandamálið er að vegna þyngdar kusu þá dældast húddlokið.  Bröltið á klaufdýrinu fer líka illa með lakkið á bílnum.  

  Þetta vita fáir.  Kýr eru svo sjaldan úti í snjó og kulda.  En það kemur fyrir.  Þá er nauðsynlegt að vita af þessu.

kusa hlýjar sér 


mbl.is Seyðfirðingar innlyksa í þrjá daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskar plötur skora hátt á lista yfir bestu plötur ársins 2012

  Einn af áhugaverðustu tónlistarnetmiðlum heims heitir All Scandinavian (www.allscandinavian.com).  Nafnið gefur freklega til sterkra kynna að tímaritið fjalli að uppistöðu til um skandinavíska tónlist.  Svo sannarlega stendur það undir nafni.  Það gerir skandinavískri dægurlagamúsík mjög góð skil.

  All Scandinavian er gert út frá Danmörku.  Samt er tímaritið skrifað á ensku.  Skrítið.  Í síðustu viku birti það lista yfir bestu skandinavískar plötur ársins 2012.  Niðurstaðan varð þessi:

1.  200 (færeysk) - Vendetta

  Það er ástæðulaust að vitna í rök All Scandinavian fyrir valinu á Vendettu sem bestu skandinavísku plötu 2012.  200 er flottasta pönksveit heims!  Það vitum við Íslendingar.  200 hefur margoft spilað á hljómleikum á Íslandi,  plötur tríósins hafa selst ágætlega hérlendis og svo framvegis.  Góð og sanngjörn niðurstaða hjá All Scandinavian.

2.  The Savage Rose (dönsk) - Love and Freedom

  "Annisette og hljómsveit hennar sýna öllum retro-rokkandi hljómsveitum þarna úti hvernig á að gera þetta með sínu seyðandi sálarríka rokk meistaraverki sem 21. plata The Savege Rose er á 44. ára ferli."

3.  Kontinuum (íslensk) - Earth Blood Magic

   "Fyrsta plata íslenska kvartettsins Kontinuum,  Earth Blood Magic,  er einfaldlega besta framsækna sýru-krát-þungarokksplatan sem gat að heyra á liðnu ári."

4.  Simian Ghost (sænsk) - Youth

5.  The Megaphonic Thrift (norsk) - The Megaphonic Thrift 

6.  Murmansk (finnsk) - Ruutli

7.  Efterclang (dönsk) - Piramida

8.  Goat (sænsk) - World Music

9.  Dunderbeist (norsk) -Black Arts & Crooked Tails & Songs of the Buried

10.  Pétur Ben (íslenskur) - God´s Lonely Man

  "Sex árum eftir frumburð Pétur Ben verðlaunar hann okkur fyrir þolinmæðina með annarri framúrskarandi plötu."

11.  Susanne Sundför (norsk) - The Silicon Vail

12.  Kúra (íslensk) - Halfway to the Moon


Veitingahússumsögn

-bakki 

 - Réttur:  Þorrahlaðborð

 - Staður:  Fljótt og Gott,  Umferðarmiðstöðinni

 - Verð:  2900 kr.

 - Einkunn:  ***1/2 (af 5)

  Það er reisn yfir því hjá Fljótt og Gott að bjóða upp á þorrahlaðborð allan daginn alla daga í þorramánuði.  Á boðstólum er flest það helsta sem einkennir alvöru þorrahlaðborð:  Hrútspungar,  lundabaggar,  bringukollar,  lifrarpylsa,  blóðmör,  sviðakjammar,  sviðasulta,  grísasulta,  hangikjöt,  hvalur,  hákarl,  heitt saltkjöt og fjórir síldarréttir.  Margt af þessu annarsvegar súrt og hinsvegar nýtt (ósúrt).  Meðlæti er hrásalat,  grænar baunir,  rauðrófur,  heitar kartöflur með eða án jafnings,  heit rófustappa og heit kartöflumús,  svo og flatkökur, rúgbrauð og soðbrauð.  

  Ástæðan fyrir því að hlaðborðið fær ekki fullt hús stiga er eftirfarandi:  Saltkjötið var þurrt og helst til feitt (ég veit að margir kjósa bitana sem feitasta.  Það má líka föndra við að skera fituna af).  Sennilega hafði það staðið lengi á hitaborðinu þegar mig bar að garði (um kvöldmatarleyti).  Sama á við um jafninginn.  Hann rétt huldi botn skálarinnar og var orðinn hnausþykkur og hlaupkenndur.  Aðeins ein lítil og þunn sneið lá í skál undir súran hval.  Hún hafði legið þar í vökva nógu lengi til að vera orðin lin og hálf slepjuleg.  

  Áreiðanlega eru þessir hlutir í góðu lagi þegar nýbúið er að fylla á skálarnar og bakkana.  En að sjálfsögðu get ég aðeins gefið einkunn fyrir hlaðborðið eins og það stóð mér til boða.  Að auki saknaði ég pínulítið magáls og harðfisks.  Engu að síður hrósa ég veitingastaðnum á BSÍ fyrir framtakið.  Ég mæti þangað aftur.  Og aftur.    

  Viðbót sett inn 1. febrúar:  

  Í gær var búið að bæta harðfisk við á þorrahlaðborðið.  Jafnframt var búið að strengja plastfilmu yfir saltkjötið þannig að það þornaði ekki.  Var safaríkt og gott.  Ég læt samt einkunnina standa því að hún á við um hlaðborðið eins og það var þá.   


Alvöru júró-rokk í kvöld (laugardaginn 26. janúar)

 

  Sólstafa hefur verið sárt saknað í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva,  Júrivisjón.  Einkum af Finnum.  Þar njóta Sólstafir meiri vinsælda en allir íslenskir þátttakendur í sögu Júrivisjón frá upphafi.  Stök plata með Sólstöfum lætur sig ekki muna um að fara í 12. sæti á finnska vinsældalistanum þegar vel liggur á mannskapnum. 

  Nú er júrivisjón-fárið skollið á í ár.  Þá er fátt heppilegra í stöðunni en flýja í faðm Sólstafa.  Hlusta á alvöru rokktónlist í hæsta gæðaflokki.  Og ekki bregðast Sólstafir sem aldrei fyrr.  Þeir bjóða upp á spennandi hljómleika í kvöld,  26. janúar (laugardag) á Gauki á Stöng.  Þetta eru fyrstu sjálfstæðu hljómleikar Sólstafa í meira en ár.  Vinna við næstu plötu er jafnframt hafin.   Hljómsveitin Kontinuum hitar upp.  Fjörið hefst klukkan 22.00. 

  “Við erum á flakki um Evrópu mest allt árið. Svona hefur þetta verið síðastliðin ár en þó aukist með ári hverju”, segir Sæþór Maríus, gítarleikari Sólstafa. “Á vorin og haustin eru það túrarnir og svo tónleikahátíðir yfir sumartímann”, bætir hann við.

  Síðust tónleikar Sólstafa erlendis voru á skemmtiferðaskipi sem sigldi frá Miami til Bahamaeyja. “Það var mikið ævintýri og ólíkt því sem við erum vanir. Við spiluðum á sundlaugadekkinu í glampandi sól. Fólk var þarna að headbanga í heitapottinum og fá sér sundsprett”.

Sæþór segir þá félaga í fantagóðu spilaformi enda nýta þeir vetrartímann vel til að æfa. “Við erum orðnir skipulagðir, æfingaplanið er komið í Excel-skjal. Við höfum líka verið duglegir að semja nýtt efni undanfarið. Það er alltaf gaman”, segir Sæþór kíminn.


mbl.is Þrjú lög komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru hinir?

  Í Fréttablaðinu segir frá nýtilkomnu risavandamáli sem herjar á íbúa Danmerkur um þessar mundir;  vasaþjófnaði.  Tilkynningum um vasaþjófnað hefur fjölgað um 40 frásent á síðustu 6 árum.  Flestum í Kaupmannahöfn.  Eftir Arne Wissing hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn er haft að í langflestum tilfellum þegar rænt er úr vösum sé um vasaþjófa að ræða. 

  Hverjir ætli hinir séu;  þessir sem ræna úr vösum án þess að vera vasaþjófar? 


Grínverksmiðja ríkisins rassskellt

.

  Í lok sjöunda áratugarins flutti heimsfrægur píanóleikari,  Vladimir Ashkenazy,  frá Rússlandi til Íslands.  Eiginkona hans var og er íslensk..

  Á þessum árum vissu fáir í heiminum að Ísland væri til.  Þeir örfáu sem könnuðust við nafnið Ísland vissu ekkert um land og þjóð.  Það taldist til tíðinda hérlendis ef útlending bar að garði.  Hvað þá að útlendingur vildi búa á Íslandi.  Svo ekki sé minnst á þegar heimsfrægur útlendingur settist að á Íslandi.
.
  Vladimir tók strax virkan þátt í menningarlífi Íslendinga.  Meðal annars ýtti hann úr vör Listahátíð sem allar götur síðan hefur verið stórt dæmi í íslensku menningarlífi. 
.
  1972 sótti Vladimir Ashkenazy um íslenskan ríkisborgararétt.  Þá voru íslensk mannanafnalög þannig að nýbúa var gert að taka upp rammíslenskt nafn.  Vladimir Ashkenazy var bent á að það væri lítið mál að breyta nafninu í Valdimar Áskellsson.  En, nei.  Vladimir Ashkenazy taldi að það myndi slátra ferli sínum.  Nafnið Vladimir Ashkenazy hefði viðskiptavild á heimsmarkaði.  Það myndi enginn mæta á tónleika með Valdimar Áskelssyni.  
.
  Þetta var snúin staða.  Íslensk stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því að Íslandi væri mikill akkur í því að þessi heimsfrægi píanósnillingur væri íslenskur ríkisborgari.  Þrautalending varð sú að lögformlega var nafnið Vladimir Ashkenazy samþykkt af íslenskum embættismönnum  sem íslenskt heiti.  
.
  Mörgum árum síðar flutti til Íslands austurískur kvikmyndagerðarmaður,  Ernst Kettler.  Þegar hann sótti um íslenskan ríkisborgararétt var honum gert að taka upp íslenskt nafn.  Fornafnið Ernst var ekki vandamál.  Það var þegar í mannanafnaskrá sem viðurkennt íslenskt nafn.  Seinna nafnið,  Kettler, átti ekki að vera neitt vandamál heldur.  Ernst Ketill hljómaði næstum eins.  Ernst Kettler var ósammála.  Nafnið Ernst Kettler var með viðskiptavild í kvikmyndabransanum.  Engu að síður: Embættismenn vísuðu í mannanafnalög.  Ernst yrði að taka upp lögformlegt íslenskt nafn til að fá íslenskan ríkisborgararétt.  
.
  Þá upphófst þref.  Því lauk með því að Ernst Kettler fór yfir öll viðurkennd nöfn í mannanafnaskrá ríkisins.  Niðurstaðan varð sú að hann sótti um að taka upp nafnið Vladimir Ashkenazy.  Það var löglegt íslenskt nafn.
.
  Umsókn Ernst Kettlers setti mannanafnanefnd, ráðuneyti og Hagstofu í klemmu.  Eftir mikinn vandræðagang varð niðurstaðan sú að lögum var breytt.  Felld voru úr gildi lög um að nýbúar yrðu að taka upp rammíslensk nöfn. 
  Hér er dæmi um ágætt myndband úr smiðju Ernst Kettlers.  Þorrinn gengur í garð. 
.

Grínverksmiðja ríkisins

 Mannanafnanefnd íslenska ríkisins er aðhlátursefni út um allan heim.  Jafnvel víðar.  Mannanafnanefnd ríkisins er dæmi um svo mikið óþurftarfyrirbæri að störf hennar og niðurstöður geta ekki orðið annað en kjánalegar og meiriháttar spaugilegar.  Reyndar var það aðeins tilviljun á sínum tíma að þessi nefnd varð mannanafnanefnd ríkisins en ekki dýranafnanefnd ríkisins.  Áköfuðustu forsjárhyggjusinnum þyrsti í ríkisrekna nafnanefnd.  Hending réði því að þeir náðu (fyrst) samkomulagi um mannanafnanefnd.
 
  Dæmi um brandara mannanafnanefndar ríkisins er að maður má heita Morgan Jón Sveinsson en stranglega er bannað að heita Jón Morgan Sveinsson.  Helst mælir grínverksmiðja ríkisins með heitinu Ljótur Vagn Jónsson. 
 
  Annar brandari er að konu er harðbannað að heita því fagra nafni Blær.  Virkilega blæbrigðafagurt nafn.  Þess í stað er henni gert - af mannanafnanefnd ríkisins - að heita Stúlka.  Nafnið Stúlka er svo sem ágætt á meðan kona er á þeim aldri þegar stelpur eru kallaðar stúlkur.  En það verður hallærislegt þegar öldruð kona heitir Stúlka.  Og ennþá hallærislegra þegar gömul kona er skikkuð af grínverksmiðju ríkisins til að heita Stúlka. 
  Á morgun verður birt á þessum vettvangi spaugileg frásögn sem afhjúpar betur en margt annað fáránleika grínverksmiðju ríkisins.  Það er enginn vandi að "gúgla" ókeypis góða brandara.  Það þarf ekki vel launaða ríkisnefnd til að vinna það verk að framleiða brandara.  Engu að síður má grínverksmiðja ríkisins njóta sannmælis um að hún vinnur fyrir kaupinu sínu.  Brandarar hennar eru gulls ígildi.  Þeir toppa alla aðra brandara.  Vandamálið er að brandararnir eru á kostnað annarra. 
.
     

mbl.is „Þarf að muna að ég heiti Stúlka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hljómsveitir voru töff í útliti - skemmtilegar myndir

  Í gamla daga voru liðsmenn hljómsveita kallaðir hljómsveitatöffarar og poppstjörnur.  Þeir voru svo svalir og töff.  Kynþokkinn geislaði af þeim.  Af hverju er þetta ekki lengur svona?  Hvað gerðist?  Núna eru liðsmenn hljómsveita bara venjulegt og hversdagslegt fólk.  Skera sig ekkert frá skrílnum að neinu leyti.  Það er ekkert gaman.  Þess í stað er gaman að ylja sér við að rifja upp þá gömlu góðu daga þegar töffararnir réðu ríkjum.

þegar fólk var svalt og töff - mamma umbi

  Þarna var blandað saman samræmdum hljómsveitarbúningi og síðu hippahári áttunda áratugarins.  Hárið er vel greitt og snyrt.  Allir með snyrtan topp en hárið fær að vaxa villt yfir eyrun.  Snyrtimennska og "wild" í bland.  Þannig var það þegar mamman fékk að vera stílisti hljómsveitarinnar.

þegar fólk var svalt og töff - sítt að aftanþegar fólk var svalt og töff - herðapúðar og blásið hár

   Hér er það níundi áratugurinn.  Hárið er litað,  blásið og látið halda sér snyrtilega úfið með lakkúða.  Það sést ekki vel en í þessari línu fylgdi að augnlínur voru skerptar með lit og augnskuggum.  Í herðar á jökkum og frökkum var troðið stórum púðum.  Það þótti svalast að bretta aðeins upp á frakkaermar.  Hvítt belti og hvítir skór voru töff.  Söngvarinn fékk iðulega að skera sig úr með því að vera í skærlitum plastgalla.  Svona hljómsveitir spiluðu tölvupopp og hafa verið kenndar við hárstílinn sítt-að-aftan (mullet).  

þegar fólk var svalt og töff - The Dance Band

  Sumar danshljómsveitir níunda áratugnum buðu upp á blandaðan stíl:  Einn töffarinn var með sítt-að-aftan,  annar með afró-hár,  þriðji í Village People múnderingu,  fjórði með hipp-hopp húfu og sólgleraugu og svo framvegis. 

þegar fólk var svalt og töff - Pretty Boy Floyd

  Á áttunda áratugnum varð til fyrirbæri innan þungarokksins sem kallaðist glysrokk.  Hluti af glysrokkinu var hármetall (hair metal).  Hugsanleg ástæða fyrir nafngiftinni getur verið sú að hárið var verulega sítt.  Liðsmenn hármetalsveita mála sig ennþá meira en sítt-að-aftan töffararnir og mála sig heldur ekki eins fagmannlega.  Hármetalsveitirnar spruttu aftur upp í Bandaríkjunum í lok níunda áratugarins.  Í það skiptið voru hljómsveitirnar léttklæddar.  Enda oft hlýtt í Bandaríkjunum.

þegar fólk var svalt og töff - Venom

  Svo eru það þungarokkshljómsveitir sem hafa sótt í víkingastemmningu.  Þar er oft nekt og uppháum þröngum stígvélum blandað saman,  ásamt hálsfestum, armböndum og allskonar glingri,  gömlum vopnum og reiðilegum grimmum svip. 

þegar fólk var svalt og töff - Grandmaster Flash

  Fönkhljómsveitir hafa oft verið rífandi svalar.  Þar hefur guli liturinn iðulega fengið að njóta sín.

þegar fólk var svalt og töff - Blue Beatles

  Fjöldi tónlistarmanna hefur stytt sér leið að töffaraímyndinni með því að herma eftir þeim svölustu.  Ttibute-bandið The Blue Beatles fór létt með það.  Þrátt fyrir að vera að nálgast eða komnir á fimmtugs aldur létu þeir sig ekki muna um að herma eftir útliti Bítlanna frá þeim tíma sem Bítlarnir voru ennþá á unglingsárum.  Kragalausu jakkafötin og hárlubbi niður eftir enni og út yfir eyru klæða miðaldra kallana alveg jafn vel og unglingsdrengina í Liverpool.  

þegar fólk var svalt og töff - presley herma

  En hvað er til ráða fyrir lúða sem lítur út eins og Phil Collins?  Hann skellir sér í Elvis-galla og verður umsvifalaust svalasti töffari allra.


Bubbi gefur "World Music from the Cold Seas" jákvæða umsögn

wmftcs 

 "Það hefur vel tekist til hér að flestu leyti þó ég geti kannski ekki metið fyllilega hversu sanna mynd þetta gefur af þjóðlegri tónlist þessara landa þar sem hún er mér frekar framandi. En platan stendur sem góð plata og henni er ef til vill frekar ætlað að sameina nútíð og fortíð því sumt af tónlistinni er kannski frekar samið í þjóðlegum anda, byggt á gömlum stemmum og ljóðum."

  Svo segir Bubbi um vest-norrænu plötuna World Music from the Cold Seas.  Hann skrifar reglulega yfirvegaða og vandaða plötugagnrýni af góðri þekkingu og sanngirni.  Hann greinir lögin á plötunni meðal annars með þessum orðum:

  "Það er vel við hæfi að Grænlenskur trommudans opni plötuna, en þeir sem kannast við dönsk/grænlensku myndina "Lysets hjerte" ættu að þekkja það. Síðan er mættur Færeyingurinn Kristian Blak sem er dálitið allt í öllu í tónlistarlífi landa sinna og tengist 3/4 hlutum færeyska efnisins hér og gott ef hann á ekki plötuútgáfuna Tutl sem gefur plötuna út. Hið fallega instrumental lag hans um öndina með langa stélið er byggt á tónlist frá Austur Grænlandi, en ég vissi fyrst ekki hvaðan á mig stóð veðrið er trommudansarinn Anda hóf upp raust sína í hlutverki andarinnar undir lok lagsins. Við Anda Kuitse erum nú orðnir vinir. 

  Kristian Blak mætir síðan aftur með Yggdrasil og Eivöru Páls í The Eagle, hvar jassfílingurinn kitlar hlustirnar. Enn kemur Blak við sögu  í Trana Trýta sem er úr instrumental svítu hans, Shalder Geo og byggt á færeyskum sálmi. Hér svífur nettur Þursaandi yfir vötnum... einhver óræð jassrokk/progg stemmning. Innlegg Kristian Blak er með því besta á plötunni, en víkingarokk sveitin  Týr lokar hinum Færeyska kafla... og plötunni með Orminum langa, hinum aldna Færeyska hringdansi sem margir hlustendur rásar 2 ættu að kannast við...þökk sé Guðna Má Henningssyni.

  Tónlist Samanna er mjög flott hér og það lag sem greip mig fyrst á plötunni  var heillandi samruni Samíska yóksins (yoik) hjá Ingu Juuso og kontrabassa Steinars Raknes í Taxi driver og flott hvernig hin forna samíska sönghefð blandast jassinum. Elin Kaven er dulúðug í Aibbas jaska og þar blandast nútíma poppmúsík við heimstónlist, jass og Samíska músík. Hún minnir dálítið á Samísku söngkonuna Mari Boine sem er sú eina af samísku tónlistarfólki sem ég þekki eitthvað til og hefur sent frá sér frábæra tónlist og gott ef hún hefur ekki sungið með Peter Gabriel. Hana er þó ekki að finna hér, en Johan Andesr Bær og Sámi Luondu, Collerisku eru hér og skila sínu óaðfinnanlega.
 
  Grænlendingarnir heilluðu mig minnst en eru þó ágætir. Hin draumkennda ballaða Qinnut með Samma Samma Jaffa Jaffa er full löng fyrir minn smekk en hún slagar í 9 mínútur. Hljómsveitin Sume eru frumkvöðlar í Grænlensku rokki og sendu frá sér fyrstu rokkplötu þarlendra 1973. Ég reikna með að lag þeirra Upernaaq sé frá 8. áratugnum en mér finnst það galli að ártöl eru ekki við lögin. Lagið dregur dám af Bandarísku 70´s kántrí rokki og skemmtileg munnharpa gegnumgangandi, en ekki er þetta sérlega Grænlenskt. Óhætt er að segja að framlag Grænlendinganna brjóti upp stemninguna hér og ekki síður The Drum með Nanu Disco, þar sem heyra má hraða danstónlist hvar aðal takturinn er byggður á gömlum trommudansi. Lagið byrjar á aðvörun á ensku en síðan heyri ég ekki betur en sungið sé á frönsku... nema Grænlenska og Franska séu farin að hljóma svona líkt.
 
  Fjöllistamaðurinn Tryggvi Hansen er hér með góða útgáfu af Ólafi Liljurós/Riddararós, sem ég veit aldrei hvort er Færeyskt eða Íslenskt þjóðlag. Að vísu á ég frekar erfitt með að skilja textann er líður á lagið, en það eru kannski bara eyrun á mér. Auk þess er galli í disknum í þessu eina lagi sem lýsir sér þannig að lagið hoppar til á tveimur stöðum, og það er bagalegt. Lagið Vélsög, eða á maður frekar að segja stef Margrétar Örnólfsdóttur úr kvikmynd Þráins Bertelssonar Einkalíf passar alveg inn í stemmninguna, en gaman væri að vita hver hin klassísk lærða söngkona er sem a-ar í laginu.
 
 
  Hinn Dansk/Íslenski Klakki með Nínu Björk Elíasson í fararbroddi á svo Fæðing máfsins við texta eftir Sjón og hef ég hug á að kynna mér frekar þá sveit eins og margt annað hér. Þá er tilgangi svona útgáfu sannarlega náð... vekja forvitni."
 

   Heildar umsögn Bubba má lesa á:  http://bubbij.123.is/blog/2013/01/05/645100/

  World Music from the Cold Seas fæst í verslun Smekkleysu á Laugarvegi og eflaust víðar.

 


Einfalt og ódýrt að laga gallað malbik

  Vegagerðin og allskonar lið er í rosalegum vandræðum með ýmsa dularfulla hluti sem hrjá stundum vegi víða um land.  Það veit enginn hvernig þetta gerist.  Ennþá síður vita menn hvað skal til ráða.  Þetta er mjög vandræðalegt ástand.  Það lýsir sér þannig að það er eins og vegunum blæði eða þeir gráti.  Eitthvað losnar af vegunum og eltir bíla langar leiðir.  Jafnvel þó aðeins sé skroppið stutta leið.  Í verstu tilfellum er eins og smáar og snyrtilegar rifur myndist í malbikinu. 

  Það er til ráð.  Þökk sé íslenska flugdólgnum að ráðið fannst.  Vegagerðir erlendis eru þegar farnar að nota grípa til þess með góðum árangri.  Það eina sem þarf að gera er að líma veginn saman með pökkunarlímbandi.

limt_malbik.jpg  


mbl.is Dularfullar blæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Torg á Spáni nefnt í höfuðið á söngvara The Clash

 

  Nú er áratugur frá því að forsprakki ensku pönksveitarinnar The Clash,  Joe Strummer,  féll frá,  50 ára.  Í tilefni af þeim tímamótum er minning Jóa heiðruð í spænsku borginni Granada.  Í vikunni fékk helsta torg borgarinnar formlega nafnið Plaza Joe Strummer. Óháð Jóa er bassaintró London Calling eitt það flottasta í rokksögunni.  Ég þarf að kreista út úr Jakobi Smára og Pálma Gunnars staðfestingu á því glæsilega dæmi.  

  Í fljótu bragði er ekki augljóst samhengi á milli Jóa Strummers,  The Clash,  Granada og Spánar.  The Clash var önnur tveggja forystusveita bresku pönkbyltingarinnar á síðari hluta áttunda árum (hin var Sex Pistols).  Tónlist The Clash þróaðist frekar hratt frá frumpönkinu yfir í reggí,  fönk,  djass og ýmislegt fleira. 

  Hljómsveitin varð risaveldi á heimsvísu.  Þar munaði einhverju um að The Clash sló rækilega í gegn í Ameríku,  þar á meðal í Bandaríkjunum.  Breska pönkdeildin átti að öðru leyti erfitt uppdráttar á þeim slóðum. 

  The Clash hafði djúpstæð áhrif á íslenska rokkmúsík.  Hljómsveitir á borð við Fræbbblana og Utangarðsmenn spiluðu lög úr smiðju The Clash,  ásamt því sem frumsamin lög þeirra hljómsveita og fleiri bergmálaði áhrif frá The Clash.  1980 héldu Jói Strummer og The Clash magnaða hljómleika fyrir troðfullu húsi í Laugardalshöll. 

  Kærasta Jóa Strummers var spænsk en búsett í Englandi.  Hún var söngkona nýbylgjuhljómsveitarinnar The Slits.  Í samtölum kærustuparsins bar Spán stundum á góma.  Á þriðju plötu The Clash,  London Calling,  er að finna lagið  Spanish Bombs.  Í því er minnst á borgina Granada.  Platan kom út 1979.  Fjórum árum síðar settist Jói tímabundið að í Granada.  Þar var starfandi hljómsveitin 091.  Kærasta Jóa hafði nokkrum árum áður kynnt liðsmenn 091 fyrir Jóa.  Um tíma bjuggu þeir heima hjá kærustuparinu í London.

  Á meðan Jói Strummer bjó í Granada 1983 þá stýrði hann upptökum á plötu 091.  Hljómsveitin var staurblönk.  Það var ekkert mál.  Jói borgaði úr eigin vasa allan kostnað við hljóðversvinnuna og útgáfu plötunnar.  Ekkert mál.  Bara gjöf frá góðum vini.  Til viðbótar tróð Jói upp með 091 á þessu tímabili.  Platan seldist ekki neitt og 091 er fáum kunn.  Öðrum en íbúum Granada.  Þeir minnast með hlýju og þakklæti dvalar Jóa Strummers í Granada 1983 og vinskapar hans við 091.     

 

  Fleiri en Spánverjar heiðra minningu Jóa Strummers.  Í Englandi er haldin árlega popphátíðin Strummer of Love.  Á síðustu hátið komu fram stjörnur á borð við The Pogues,  Seasick Steve,  Frank Turner,  Emmy The Great og fleiri.   

  Til viðbótar hafa verið framleiddar tvær kvikmyndir um Joe Strummer.  Önnur þeirra,  Joe Strummer:  The Future is Unwritten,  er virkilega flott.  Hægt er að leigja hana á vod-inu hjá Skjábíó.  Hin heitir Strummerville.   

  Í vinnslu er kvikmynd,  söngleikur,  um Jóa Strummer.  Ég man ekki hvað hún heitir.   Hinsvegar var Jói Reiðufé (Johnny Cash)  mikill aðdáandi Jóa Strummers og The Clash.  Þeir deildu meðal annars aðdáun á jamaíska rastafarian trúboðanum Bob Marley.

  The Clash innleiddi reggí í pönkið.  Fræbbblarnir hentu það á lofti:

 


Nýjasta tískuæðið

flugdólgurGuðmundur Karl Arnþórsson límdur við staurguðmundur karl arnþórsson límdur við fánastöng

  Gangnam Style dansinn (og lagið) var skæðasta tískubylgja síðasta árs.  Nú hefur nýtt æði gripið um sig og fer um heiminn eins og stormsveipur.  Það er kennt við íslenskan flugdólg.  Sá er orðinn þekktasti flugdólgur gervallrar veraldarinnar og þar með sérkennileg auglýsing fyrir Ísland.  Það mun væntanlega skila sér í auknum ferðamannastraumi til Íslands.

  Myndir af íslenska flugdólgnum hafa þegar reynst límbandsframleiðendum öflugur söluhvati.  Sala á pökkunarlímböndum hefur rokið upp.  Það er komið í tísku að fólk lími sjálft sig eða aðra.  Myndir af útkomunni flæða yfir Fésbókina.

límd niðurtapedduct-tapedbondageKid-Duct-tapedlímdchantelle___mummified_and_duct_tapedhandlímdurlímdur á staurönnur hendin límd fösttapedtoatreeNo-NailsDavid-Letterman-with-duct-Taped-Children-58433

  Sjónvarpsþáttastjórinn David Letterman býður áhorfendum sínum upp á daglegt límbandsgrín.  Hér hefur hann látið líma börn á hurðir að því er virðist (reyndar eru þetta aðeins ljósmyndir af börnum.  Annars fengi David kæru á sig og leiðindi).

  Fleiri gera grín.  Einn límdi nestið sitt á hausinn:

límt brauð

  Annar límdi keðjusögina sína:

keðjusög

  Enn einn límdi bjórdósina sína:

bjórdós

  Sumir líma leikfangadýr:

límdur fugl


Plötuumsögn

Monterey time passing time

Titill:  Time Passing Time
 
Flytjandi:  Hljómsveitin Monterey
.
Einkunn:  ****
.
  Það er nettur Pink Floyd keimur af tveimur fyrstu lögunumMoving On  og  Time Passing Time.  Að minnsta kosti við fyrstu hlustun.  Eftir ítrekaða spilun er hann ekki áberandi.  Gítar og orgel mynda þó hljóðheim álíkan þeim sem einkennir tónlist Pink Floyd frá fyrri hluta áttunda áratugarins. 
  Steindór Ingi Snorrason er höfundur laga og texta.  Hann syngur og spilar á orgel, gítar og bassa.  Hann er aðal númerið í Monterey.  Ég þekki ekki vel til en Monterey virðist vera hliðardæmi út frá hljómsveitinni Ég. 
  Andri Geir Árnason trommar.  Baldur Sívertsen Bjarnason leikur á gítar.  Arnar Ingi Hreiðarsson plokkar bassa. 
  Fyrstu tvö lögin eru mjög róleg og tregafull.  Það er mun léttara yfir þriðja laginu, ballöðunni Song from the Minor.  Og ekkert sem minnir á Pink Floyd en kannski eitthvað sem kallar nafn hljómsveitarinnar Wilco fram í hugann.  Þetta er fjörlegasta lag plötunnar.  Í allra víðasta skilningi má greina eitthvað í humátt að kántrý.   
  Óskar Guðjónsson lyftir vel undir fjórða lagið,  Jesus (like me),  með saxófónblæstri.  Þar örlar á fönk-stemmningu í niðurlagskafla.  Óskar fer á kostum. Aldeils frábært innlegg.
  Pink Floyd keimurinn skýtur aftur varfærnislega upp kolli í laginu  Don´t Shoot.  Þar ber þó meira á snyrtilegum básúnublæstri Þrastar Sigurðssonar.
  Í  With Your Open Eyes  syngur Ástrós Elíasdóttir með Steindóri.  Þetta er poppaðasta lag plötunnar.  Tvísöngur þeirra á þátt í því. 
  When I Go Away  leynir á sér.  Lætur ekki mikið yfir sér en sækir á við frekari spilun.  Rólegt og lágstemmt. 
  Mr. Smith  framkallar enn og aftur fram óm frá Pink Floyd.  Engan veginn má þó skilgreina plötuna sem einhverskonar Pink Floyd eftirhermu.  Alls ekki.  Ekkert fremur en að plötur Hljóma og The Rolling Stones voru ekki eftirhermur af Bítlaplötum.  Bara lík stemmning á köflum.  Tónlist Monterey hefur verið líkt við Bítlapopp seinni hluta sjöunda áratugarins.  Ég kvitta ekki alveg undir það.  Með einbeittum vilja má greina hippalega stemmningu.  En platan er ekki gamaldags. Hún hljómar vel og er notaleg og hógvær.  Samt engin lyftumúsík.  Hún getur þó notið sín sem hlutlaus bakgrunnsmúsík.  En það er meira gaman að hlusta á hana af athygli.  Lagasmíðar eru fínar og flutningur allur án rembings.  Platan rennur ljúflega í gegn. 
  Lokalagið,  Feeling Sorry,  sver sig í ætt við plötuna að öllu leyti.  Hæggengt, látlaust og þægilegt.
.

Kynnisferðir með óvænt útspil

rúta-2 

  Fyrir nokkrum dögum kom ég í flugvél frá útlandinu.  Óvenju fáir farþegar voru í flugvélinni.  Kannski tíu eða fimmtán eða eitthvað svoleiðis.  Eftir að hafa skoðað mig um í Fríhöfninni og freistast til að kaupa þar eitt og annað skokkaði ég léttilega út í Flugrútuna.  Aðrir farþegar fóru út í sinn eigin bíl eða í aðra bíla sem biðu þeirra.  Ég var sá eini sem fór í Flugrútuna.

  Bílstjóri rútunnar spurði mig að því hvort ég væri á hraðferð.  Þetta var um miðja nótt og ég ekkert að flýta mér neitt.  Þá sagði bílstjórinn:  "Það var önnur flugvél að lenda.  Ef ég hinkra eftir farþegum úr henni þá leggjum við af stað eftir 20 - 30 mínútur.  Til að vega upp á móti þeirri bið get ég skutlað þér heim í hlað þar sem þú býrð.  Þú þarft þá ekki að eltast við leigubíla og sparar þér leigubílakostnaðinn.  Að auki sleppi ég þér við að borga 2000 króna fargjald með rútunni.  Ef þig hinsvegar langar til að við brunum strax í bæinn þá get ég lagt af stað núna.  Þá tekur rútan þarna hina farþegana.  Þú bara ræður og segir til."

  Ég valdi fyrri kostinn.  Það var notalegt að vera skutlað heim að dyrum.  Það var líka góð tilfinning að spara rútukostnað og leigubílakostnað.  Gott ef það var ekki líka góð tilfinning að spara Flugrútunni kostnað við það að keyra með aðeins einn farþega til Reykjavíkur.

  Út af fyrir sig hefði bílstjórinn ekkert þurft að semja við mig.  Hann hefði getað látið duga að tilkynna mér að rútan legði af stað eftir 20 - 30 mínútur.  Kannski hefði ég orðið smá óhress.  En ég var ekki í sterkri samningsstöðu til að mótmæla því.  Það var til fyrirmyndar að bjóða mér þennan höfðinglega kost.  Kynnisferðir eru að standa sig.  Viðskiptavild fyrirtækisins hjá mér er mun stærri í ár en áður. 

  Ljósmyndin frábæra er birt með leyfi höfundar,  Kristjáns Jóhanns Bjarnasonar.      


Færeyskur brandari

  Færeyskir brandarar eru örlítið öðru vísi en íslenskir brandarar.  Færeysku brandararnir eru stuttir og iðulega smá orðaleikur.  Oft snúa þeir að Dönum.  Hér er einn: 

  Dönsk fjölskylda fékk í heimsókn Englending.  Danska húsfrúin tilkynnti:  "We will serve fishing balls for a dinner."  Englendingurinn:  "I didn´t know the fish has balls."


Einnar konu maður - framhald

  Einnar konu maðurinn, sem bloggfærsla gærdagsins sagði frá (http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1276138/),  var skemmtilega hvumpinn.  Honum hætti til að taka hlutum illa og brást þá harkalega við.  Dæmi um það var árekstur á milli hans og eldri hjóna sem einnig dvöldu á hótelinu.  Forsagan er sú að gríski einnar konu maðurinn spjallaði reglulega við börn sín og konu í gegnum tölvu snemma morguns,  kannski klukkan hálf átta til átta eða svo.  Þetta gerði hann í opinni setustofu í útskoti á ganginum.  Sennilega var netsamband fartölvunnar best þar.  Að minnsta kosti söfnuðust gestir iðulega þangað með fartölvurnar sínar á kvöldin.  

  Þegar Grikkinn ræddi við fjölskyldu sína í gegnum tölvuna þá hækkaði hann röddina töluvert.  Herbergi eldri hjónanna var staðsett við setustofuna.  Einn morgun kom konan fram í herbergisdyrnar og sussaði á Grikkjann.  Bað hann um að taka tillit til þess að hótelgestir væru almennt ennþá sofandi á þessum tíma sólarhrings.

  Það snöggfauk í Grikkjann.  Hann öskraði á konuna að gamalt fólk hefði ekkert að gera á hótelum.  Það ætti að gista heima hjá ættingjum eða vinum í stað þess að flækjast fyrir yngri hótelgestum með stöðug leiðindi.  "Komið ykkur í burtu héðan,  skrattans gamlingjar!"

  Gamla konan hrökk aftur inn í herbergið sitt og lokaði dyrunum.  Grikkinn hrópaði á dyrnar endurteknar skammir.  Síðar um daginn sagði hann mér að "gömlu svínin" hefðu klagað sig og hótelstýran bannað sér að tala hátt á morgnana.  Hann var afar ósáttur við gömlu hjónin.

  Eftir þetta hætti Grikkinn að taka undir kveðju gömlu hjónanna þegar þau urðu á vegi hans.  Þess í stað sendi hann þeim hatursfullt augnráð.

  Nokkrum dögum síðar rak hótelstýran Grikkjann af hótelinu.  Mér tókst ekki að fá upplýsingar um ástæðuna.  Ég spurði stýruna út í það síðar en hún sagðist ekki ræða mál einstakra gesta.  Það eina sem ég veit um þetta er að ég heyrði Grikkjann hrópa æstan mjög frammi á gangi.  Hótelstýran talaði of lágt til að ég heyrði hvað hún sagði í deilu þeirra.  Hinsvegar heyrði ég Grikkjann öskra:  "Af hverju sagðir þú mér þetta ekki í gær?  Hringdu á lögguna!  Þú heldur að þú sért rosalega gáfuð!  Ég átti hund sem var tvöfalt gáfaðri en þú!  Ég slátraði honum.  Hann var svo heimskur!"  

         


Einnar konu maður

  Á sama hóteli og ég dvaldi á í Stokkhólmi í Svíþjóð yfir jól og áramót bjó grískur maður.  Hann á sænska konu.  Hún og börn þeirra búa þarna í nágrenninu í Stokkhólmi.  Maðurinn var duglegur að heimsækja fjölskyldu sína og ræddi einnig oft og tíðum við hana í gegnum tölvu.  Það fór ekki framhjá öðrum gestum á hótelinu.  Manninum lá óvenju hátt rómur þegar þau samskipti áttu sér stað.

  Ég spurði manninn að því hvers vegna hjónin væru í fjarbúð.  Hann svaraði þungbrýnn og alvarlegur:  "Konan er mjög ruddaleg.  Hún sakar mig stöðugt um óheiðarleika,  ósannindi og framhjáhald.  Það er ekki hægt að búa við svona ósvífnar ásakanir.  Ég læt ekki bjóða mér það.  En ég elska þessa konu og vil að við verðum hjón til lífstíðar.  Ég er einnar konu maður."

  Stundum rölti maðurinn með mér á barinn.  Þá reyndi hann við hverja dömuna á fætur annarri.  Eitt kvöldið með þeim árangri að hann fór heim með einni þeirra.  Daginn eftir nefndi ég við hann að það benti til þess að flugufótur væri fyrir ásökum eiginkonunnar.  Hann varð alvörugefinn og útskýrði málið:  "Ég bað ekki um símanúmer hjá þessari konu.  Ég mun aldrei hitta hana aftur.  Þegar ég sef hjá konum úti í bæ þá nota ég alltaf smokk.  Ef þær biðja mig um símanúmer þá gef ég þeim upp vitlaust númer.  Ég vil aldrei hitta þær aftur.  Ég vil bara eiginkonu mína.  Ég er einnar konu maður."   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband