Frábær kvöldskemmtun til fjáröflunar fyrir Ingó og hans fjölskyldu

ingojul_1192777.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

  Tilefni fjáröflunarhljómleika í kvöld fyrir Ingó og hans fjölskyldu var og er dapurlegt.  Ingó greindist með bráðahvítblæði í októberbyrjun.  Síðan hefur hann gengið í gegnum þrjár erfiðar meðferðir til að kveða sjúkdóminn niður.  Án árangurs.  Meðferð hefur verið hætt.

  Í kvöld komu 600 vinir Ingós saman í Norðurljósum í Hörpu.  Um 100 þeirra stóðu fyrir fjölbreyttri dagskrá ásamt fylgdarliði (róturum, hljóðmönnum, ljósameisturum og svo framvegis).  500 vinir Ingós fylltu Norðurljósasalinn.  Mér er til efs að margir einstaklingar í öllum heiminum (að meðtalinni vetrarbrautinni) eigi jafn marga góða vini og Ingó.  Allir sem kynnast Ingó eignast umsvifalaust kæran og traustan vin,  frábæran húmorista og grallara,  einstakt góðmenni sem má ekkert aumt sjá,  hjálplegan náunga sem allt vill fyrir alla gera og upptalningin á mannkostum Ingós er óendanleg.

  Ég er svo lánssamur að hafa haft Ingó sem ferðafélaga mörgum sinnum til Færeyja og á Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri.  Frábærari ferðafélaga er ekki hægt að hugsa sér.  Hann er svo fyndinn, jákvæður og elskulegur í alla staði.  Hver samverustund með Ingó er gulls ígildi.  Það er góð skemmtun frá A-Ö.  Allir sem kynnast Ingó elska hann sem sinn besta vin.

  Það kom ekki á óvart að vinahópur Ingós fyllti Norðurljósasal Hörpu í kvöld.  Né heldur hvað margir tónlistarmenn voru áhugasamir um að leggja fjáröflun fyrir Ingó og hans fjölskyldu lið með því að mæta.  Vandamálið var og er að Ingó hefur lengst af starfað sem "free lance" ljósmyndari (marg verðlaunaður sem slíkur).  En þegar honum var skyndilega kippt út af vinnumarkaði sat hann og hans fjölskylda uppi með ýmis föst útgjöld sem hann áður gat staðið skil á með vinnu sem "free lance" ljósmyndari (húsaleiga, afborganir af vinnutækjum og þess háttar).

  Hljómleikarnir í kvöld í Norðursal Hörpu tókust glæsilega vel í alla staði. Óperusöngvarar Óp-hópsins hófu dagskrá.  Síðan tók við nýrokkssveitin Nóra.  Sú hljómsveit gaf út á síðasta ári eina af bestu plötum ársins 2012.  Seyðandi og dulmagnað krúttpopp með skemmtilegri stigmögnun fallegs hljómagangs og dálitlum látum í framvindu laga.   Nóra er ennþá skemmtilegri (og hrárri) á sviði en á plötu.  Samt er nýjasta plata Nóru frábær:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1273485/

  Næstir á svið voru Hrafnar.  Sú hljómsveit á rætur í Vestmannaeyjum.  Kynnirinn,  Hörður Torfason,  skilgreindi Hrafna sem Logandi Papa (les= Logar + Papar).  Hrafnar spila írskættaða órafmagnaða pöbbaslagara.  Banjó, mandólín,  munnharpa...  Skemmtileg hljómsveit sem grallaðist í kynningum á lögum og liðsmönum.

  Á eftir Hröfnum spilaði KK tvö ljúf og róleg lög.  Ari Eldjárn uppistandari tók við og afgreiddi nokkra brandara út frá dagskrá KK.  Þar með afhjúpaði hann hversu naskur hann er á það fyndna í stemmningu augnabliksins.  Hann samdi brandara á staðnum.  Í endursögn eru brandarar hans ekki eins fyndnir og þegar hann segir þá.  Ari hefur frábært vald á því sem á ensku kallast "timing" (að skynja stemmningu augnabliksins og tímasetja þagnir og framhald á tali.  Þetta hefur líka eitthvað að gera með raddblæ og framsetningu).  Ari var svo stórkostlega fyndinn að hann þurfti ítrekað að gera hlé á sínum texta á meðan áheyrendur lágu í hláturskasti. 

  Á eftir virkilega fyndnu uppistandi Ara tók við Ný dönsk.  Ný dönsk er séríslenskt fyrirbæri í músíkflóru.  Dálítið hippalega hljómsveit í aðra rönd en á sama tíma líka eitthvað í átt að því sem á sínum tíma var skilgreint sem nýbylgja í víðustu merkingu.   

  Eftir hlé tók harða og pönkaða rokkið við:  Hellvar,  Bodies,  Q4U,  Fræbbblarnir og Dimma.  Fyrir minn smekk voru það bestu konfektmolarnir.  Ég elska Hellvar.  Ég elska Bodies.  Lagið "Where Are The Bodies" er eitt allra flottasta lag íslensku rokksögunnar.  Það er jafn ferskt og hrífandi í dag og fyrir þremur áratugum.

   Fræbbblarnir eru flottari og magnaðri með hverju ári.  Yfir heilu línuna eru Fræbbblarnir eiginlega í dag svo gott sem flottasta hljómsveit íslensku rokksögunnar.  Með fullri virðingu fyrir öðrum frábærum hljómsveitum af kynslóð "Rokks í Reykjavík".

  Q4U flutti fjögur lög.  Ingó var kallaður upp á svið og spilaði á gítar í síðasta lagi Q4U.  Þá ætlaði allt um koll að keyra.  Ingó hefur verið gítarleikari Q4U síðustu áratugi.  Egill Viðarsson í Nóru leysti Ingó af á þessum hljómleikum en svo spiluðu þeir báðir á gítar í laginu "Creeps".      

  Þegar dagskrá var tæmd sté Ingó á svið og þakkaði fyrir sig.  Hann var að venju fyndinn og orðheppinn.  Gaf Ara Eldjárn eiginlega ekkert eftir á því sviði.  

  Fjölmennið í Norðurljósum, bæði áheyrendur og þeir sem gáfu vinnu sína á svið, staðfesti að Ingó á fleiri góða og trygga vini en nokkur önnur manneskja í heiminum.  Það er eðlilegt fyrir okkur í hans vinahópi.  

  


mbl.is „Þetta verður að skoða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég berst á fáki fráum...

hrossalasagna

  Það er svo sem alveg hægt að hanga hér eins og asni í stað þess að hanga í frystikistum stórmarkaða í lasagnaréttum. 

asni hangir

  Víða um heim er orðinn tilfinnanlegur skortur á hestum.  Vegna þess hafa knapar orðið að grípa til ýmissa ráða þar sem kappreiðar njóta vinsælda.

kappreiðar á kúmkappreiðará fuglsbakiköttur á hundsbaki


Veitingahússumsögn

beniz1benzin2 
.
  - Réttur:  Steikarsamloka,  franskar og gos
  - Veitingastaður:  Benzin Café,  Grensásvegi 3
  - Verð: 2050 kr.
 - Einkunn: *** (af 5)
.
  Nafnið Benzin hljómar ekki aðlaðandi fyrir veitingastað.  Ég hef grun um að staðurinn hafi áður verið kenndur við kebab.  Þetta er sportbar með fjölda pool-borða og sjónvarpsskjáa. 
  Steikarsamloka staðarins er veglegur baguette bátur fremur en samloka.  Í hann er troðið 150 gr af þverskornu nautakjöti ásamt smjörsteiktum lauk,  ostsneiðum,  sýrðum gúrkum og dijon sinnepi.  Kjötið er gott.  Laukurinn passar vel við og var í hæfilegu magni.  Sýrðu gúrkusneiðarnar voru aðeins þrjár og allar smáar.  Þær hefðu mátt vera fleiri.  Sömuleiðis hefði mátt vera aðeins meira af sinnepinu.  Báturinn var frekar þurr.  Það kom þó ekki að sök.  Gosdrykkur er innifalinn í máltíðinni,  svo og franskar kartöflur. 
  Í auglýsingu eru sveppir taldir með.  Ég varð ekki var við þá. 
.
benzin-steikarsamloka
.
Fleiri nýlegar veitingahússumsagnir: 
 

Sharia lög og þorraþræll

  Í mörg þúsund ára gömlu þjóðsagnasafni gyðinga í Mið-Austurlöndum er að finna fjölda fyrirmæla um þorraþræl.  Gaman er að rifja örfá þeirra upp.  Ekki aðeins í tilefni dagsins heldur ennþá frekar vegna þess að vaxandi áhugi er fyrir því að á Íslandi verði tekin upp lög sem byggja á þessum fyrirmælum.  Svokölluð sharia lög. 

  Hér eru örfá sharia lög sem nauðsyn er að taka mið af við lagasetningar:

Þú skalt ekki girnast þorraþræl náunga þíns eða ambátt, ekki uxa hans né asna (Exodus 20: 17) 
Sérlega mikilvægt er að girnast ekki asna náunga þíns.  Svoleiðis er asnalegt.
.
Ef maður slær þorraþræl sinn eða ambátt með staf, svo að hann deyr undir hendi hans, þá skal hann refsingu sæta. En sé hann með lífi í einn dag eða tvo, þá skal hann þó eigi refsingu sæta því að þorraþrællinn er eign hans verði keypt. (Exodus 21:20-21)

Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar. Geðjist hún eigi húsbónda sínum, sem ætlað hefir hana sjálfum sér, þá skal hann leyfa að hún sé leyst. Ekki skal hann hafa vald til að selja hana útlendum lýð, með því að hann hefir brugðið heiti við hana. En ef hann ætlar hana syni sínum, þá skal hann gjöra við hana sem dóttur sína. Taki hann sér aðra konu, skal hann ekki minnka af við hana í kosti eða klæðnaði eða sambúð. Veiti hann henni ekki þetta þrennt, þá fari hún burt ókeypis, án endurgjalds.
(Exodus 21:7-11)

Viljir þú fá þér þorraþræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þorraþræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa. Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar. Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þorraþrælum. (Leviticus 25:44-46)'


mbl.is Kristin gildi ráði við lagasetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fyrir lofthrædda!

  Flestir eru lofthræddir.  Það er nauðsynlegur hluti af varnarviðbrögðum manneskjunnar.  Í genum okkar er mörg þúsund ára reynslubanki með upplýsingum um að vont sé að falla úr mikilli hæð.  Sumir nýta sér lofthræðslu til að láta líkamann framleiða adrenalín.  Það er einskonar dóp sem gefur fólki adrenalínkikk.  Þessi mynd er frá Reyðrók í Færeyjum:

ekki fyrir lofthrædda-1-Reyðarók í Færeyjum

  Þarna lætur fólk sig síga niður í rúm sem það sefur í.  Þannig upplifir það sterkt að vera úti í náttúrunni:

ekki fyrir lofthrædda129

  Hér glanna menn á snjóhengju í Frakklandi:

ekki fyrir lofthrædda - Frakkland

  Þessi vegur er í Dýrafirði.  Sumir kjósa fremur að labba þessa leið heldur en sitja í bíl:

ekki fyrir lofthrædda-í Dýrafirði

  Hér er ró og hér er friður.  Hér er gott að tjalda og hvíla sig.

ekki fyrir lofthrædda - áningastaður


Það er svo geggjað...

  Findus hefur í langan tíma verið framarlega í framleiðslu og sölu á tilbúnum klárum frystum nautakjötsréttum.  Réttirnir hafa þótt vera á hóflegu verði í almennt hryssingslegu verði stórmarkaða.  Nú hafa Findus-menn hleypt á skeið og eru farnir að bjóða upp á ferskvöru, frísandi ferskt nautakjöt.

findus ferskvara


Heilsudrykkir, bætiefna- og meðalahirsla í eldhúsinu

  Heilsudrykki,  bætiefni og meðöl er heppilegast að neyta með máltíðum.  Þess vegna er hagkvæmt að koma sér upp í eldhúsinu snyrtilegri og fyrirferðarlítilli hirslu undir þær vörur.  Til að sem minnst fari fyrir því er best að nýta eldhúsgólfið.

meðalaskápurA

  Grafa örlítið niður og koma hringstiga þar fyrir ásamt hillum sem raðast snyrtilega umhverfis stigann.

meðalaskápurB

  Þetta gengur yfirleitt best þegar eldhús er á jarðhæð.  En er einnig upplagt í kjallaraíbúð.  Á efri hæð í sambýlishúsi þarf að ná samkomulagi við íbúa á neðri hæð.  Flestir fallast á að góð heilsa skipti meira máli en margt annað.  Flestir vilja sömuleiðis leggja sig fram um að hafa góða stemmningu í sambýlinu.

MeðalaskápurCMeðalaskápurD

Vandamál
Meðal
Daglegur skammtur
Unglingabólur
Médoc, Cabernet Franc
1 glas
Blóðleysi
Barbera, Dolcetto
2 glös
Ofnæmi
Pinot Noir
1 glas
Lungnabólga
Brunello, Cabernet Sauvignon
2 glös
Hægðatregða
Chardonnay
2-4 glös
Kólesteról
Dry Champagne
2-4 glös
Sykursýki
Beaujolais Nouveau
1-2 glös
Niðurgangur
Champagne sec
1 flaska
Sýruútfall
Burgundy , Santenay Rouge
1-3 glös
Þvagsýrugigt
Sancerre , Pouilly Fume
2 glös
Hár blóðþrýstingur
Alsace , Sancerre
4 glös
Breytingarskeið (tíðahvörf)
Grenache, Syrah
4 glös
Þunglyndi
Médoc, Tempranillo
1-3 glös
Þvagrásarvandamál
Sangiovese
1-3 glös
Offita
Syrah
1 flaska
Gigt
Malbec eða Merlot
1-2 glös
Svefnleysi
Port
1 glas
Minnisleysi
Hvert sem er af ofantöldum
Frjálst eftir hendinni


mbl.is Súperhollur súkkulaðimorgunmatur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logið með myndum

  Í auglýsingum er auglýsendum gjarnt að sýna sparisvipinn.  Kostir þess sem verið er að auglýsa eru dregnir fram.  Jafnframt eru myndir látnar laða fram bestu hlið vörunnar.  Það er alveg eðlilegt.  Auglýsingum er ætlað að selja.  Þetta er hluti af sölutækni.  Hinsvegar má ekki ljúga í auglýsingum.  Auglýsendur verða að geta staðið við allt það sem haldið er fram í auglýsingum.

  Það er spurning hvort að þetta á við um myndskreytingar.  Ég held að aldrei hafi reynt á það.  Kannski vegna þess að fágætt er að auglýsendur ljúgi gróflega með myndum.  Veitingastaðurinn KFC er þar undantekning á.  Í fyrra varð hávær umræða um hróplegan mun á kjúklingaskammti í fötu annarsvegar eins og hann var sýndur á mynd og hinsvegar eins og hann var í raun. 

  Á Okursíðunni hans Dr. Gunna er annað dæmi í sama dúr.  Í því tilfelli er fjallað um kjúklingaborgara sem er auglýstur í heilsíðuauglýsingum í dagblöðum um þessar mundir.  Það er ástæða til að vekja athygli á þeim óheiðarlegum vinnubrögðum sem viðhöfð eru hjá KFC.

kfc 


Anna á Hesteyri og Glettingur

annamartaguðmundsdóttir

  Fyrir tuttugu árum eða eitthvað álíka barst mér í pósti eintak af tímariti sem heitir Glettingur.  Þetta er vandað tímarit með litmyndum prentað á góðan pappír.  Blaðið er gefið út á Austurlandi.  Í því er fjallað um málefni tengd Austurlandi.  Þetta er ekki eiginlegt héraðsfréttablað heldur er umfjöllunarefnið tímalausar greinar um menningu,  listir,  náttúruna,  minjar,  söguna,  þjóðtrú og eitthvað þannig.  Einnig eru í blaðinu ljóð,  smælki og viðtöl. 

  Á þessum tíma var ég á kafi í auglýsingabransanum.  Allir helstu fjölmiðlar landsins voru í góðu sambandi í von um að auglýsingum væri vísað til þeirra.  Algengast var að dagblöð og tímarit væru send á auglýsingastofuna.  Í einhverjum tilfellum voru blöð og erindi send heim til mín.  Þar fyrir utan voru bæði dagblöð og tímarit stundum send á heimili í einhvern tíma í kynningarskini.  Þá var vonast til að viðkomandi heimili gerðist áskrifandi í kjölfarið.

  Eintak af tímaritinu Glettingi kom þess vegna ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti.  Ég velti því ekkert fyrir mér.  Það var alveg gaman að lesa blaðið - þó að ég þekki lítið til Austurlands. 

  Nokkru síðar fékk ég fleiri tölublöð af Glettingi.  Mig minnir að þau hafi verið þrjú áður en mér barst gíróseðill.  Þar var ég rukkaður um áskriftargjald fyrir Gletting.  Ég hringdi í áskriftadeild Glettings og spurði hvað væri í gangi.  Einhvernvegin var fundið út að Anna Marta á Hesteyri hefði gert mig að áskrifanda. 

  Ég hringdi þegar í stað í Önnu.  Sagði henni frá því að verið væri að rukka mig um áskrift að Glettingi.  Hún spurði ósköp blíð og áhugasöm:  "Já,  finnst þér þetta ekki vera skemmtilegt blað?"  Jú,  ég gat ekki þrætt fyrir það.  Anna varð glöð í bragði og hrópaði sigri hrósandi:  "Alveg vissi ég að þetta væri eitthvað fyrir þig!"

  Svo sagði hún mér frá því að oftar en einu sinni hefði hún verið að lesa eitthvað skemmtilegt í Glettingi og hugsað með sér:  "Þetta þætti Jens frænda gaman að lesa."  Hún var ekkert að tvínóna við hlutina:  Hringdi í blaðið og gerði mig að áskrifanda.  En sá enga ástæðu til að flækja hlutina með því að bera það undir mig.   

  Fleiri sögur af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1282508/   


Sönn gamansaga af vindmyllum

  Bloggfærslan frá í gær - um vindmyllur - vakti mikla athygli.  Enda fáir sem höfðu gert sér grein fyrir því hvernig skýin verða til.  Ónefndur tónlistarmaður sendi mér skemmtilegan póst um vindmyllur.  Sagan er sönn og of góð til að ég einn sitji að henni. 

  Á síðustu öld fór vinsæl íslensk hljómsveit til Hollands.  Söngvarinn var á þeim tíma mikil stjarna en oft dálítið ringlaður vegna vímuefnaneyslu (í dag er hann þekktastur sem grúppía bankaræningja).  Hljómsveitarrútan átti leið framhjá túni með fjölda vindmylla.  Söngvarinn horfði hálf dáleiddur á spaða myllnanna sem snérust allir á jöfnum og góðum hraða.  Það var fögur sjón.  Að dálitlum tíma liðnum spurði söngvarinn sljór og opinmynntur:  "Ætli þær gangi fyrir rafmagni?" 


Þannig verða ský til

  Margir halda að ský hafi alltaf verið til.  Samt eru engar ljósmyndir til frá því í gamla daga af skýjum.  Það eru ekki til neinar gamlar heimildir um ský.  Þau eru nefnilega seinni tíma fyrirbæri.  Þau urðu ekki til fyrr en vindmyllur voru smíðaðar og teknar í notkun.  Það eru vindmyllur sem búa til ský.  Þær þjappa saman raka í loftinu.  Útkoman er ský.  Reyndar geta svokallaðar þrýstiloftsflugvélar einnig búið til ský. 

vindmillur framleiða þoku og ský

  Hægt er að búa til skemmtilega skýhnoðra með því að setja vindmillu í gang og slökkva á henni eftir hálfa mínútu.  Það er hægt að leika sér endalaust með svoleiðis. 

skýhnoðri


mbl.is Blæs duglega á vindmyllurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plötuumsögn

evulög 

- Titill:  Evulög

 - Flytjandi:  Gímaldin

 - Einkunn: **** (af 5)

  Gímaldin er listamannsnafn Gísla Magnússonar,  söngvaskálds,  gítarleikara og söngvara.  Hann er ólíkindatól.  Músík hans sveiflast á milli ólíkra músíksstíla:  Allt frá a-everópskri vísnamúsík til þungarokks.  Reyndar ekki á þessari plötu,  Evulögum. 

  Upphafslagið er með nettum kántrý-keim.  Önnur lög eru einhverskonar létt-pönkað vísnapopp-rokk.  Allt einfalt og verulega hrátt.  Það er kostur.  Meira en nóg framboð er af fínpússuðu poppi.

  Um margt hljómar platan eins og demó (lítið unnin kynningarupptaka/sýnishorn fyrir plötuútgáfu sem á eftir að fínpússa hlutina).  Það er ekkert neikvætt.  Bara jákvætt.  Demó-stemmningin nær bæði yfir flutning og lagasmíðar.  Laglínur eru iðulega snotrar en gætu hljómað "útvarpsvænni" með smávægilegu glassúri.

  Vegna þess hversu hrá platan er þá er hún pínulítið seintekin við fyrstu hlustun - þrátt fyrir að sum lög séu grípandi. 

  Söng er skipt á milli margra:  Allt frá Megasi (föður Gímaldins) til Rúnars Þórs,  Karls Hallgrímssonar,  Trausta Laufdals,  Agnesar Ernu Estherardóttur,  Láru Sveinsdóttur og HEK. 

  Vegna margra söngvara hefur platan yfirbragð safnplötu.  Og þó eiginlega ekki vegna þess að lagasmíðar Gímaldins og útsetningar hafa sterkan höfundarblæ.

  Eins og nafn plötunnar,  Evulög,  vísar til eru textarnir eftir Evu Hauksdóttur.  Hún er þekkt sem norn, aðgerðarsinni og kjaftfor bloggari.  Ljóð hennar á plötunni eru ljúf,  ljóðræn og bundin í form stuðla, höfuðstafa og ríms (sum að vísu lausbundnari en ekki síðri).  Þau eru áhugaverðar vangaveltur um lífið og tilveruna.   

  Evulög er skemmtilega hrá plata sem venst betur og betur við hverja spilun.  Sterkasta lagið er Sálumessa. Ég kann vel að meta ljóðræn og falleg kvæði Evu sem og þetta ofur hráa popp-rokk Gimaldins.  Platan er góð skemmtun.

 


Ekki missa af!

 

  Takið fimmtudaginn 28.  febrúar frá.  Eða í það minnsta fimmtudagskvöldið.  Þá fer nefnilega fram virkilega spennandi,  fjölbreytt og mikil tónlistarhátíð.  Tilgangurinn er brýnn og göfugur.  Tónlistarhátíðin fer fram í Norðurljósum í Hörpu.  Herlegheitin byrja klukkan 20.00.  Meðal þeirra sem koma fram eru  KK,  Fræbbblarnir,  Óp-hópurinn,  Nóra,  Hrafnar,  Q4U,  Dimma,  Bodies,  Hörður Torfason og Ari Eldjárn.

  Tilgangur tónlistarhátíðarinnar er að afla fjár til styrktar ljósmyndaranum Ingólfi Júlíussyni.  Síðasta haust greindist hann með hvítblæði.  Síðan hefur hann verið í einangrun á Landspítalanum og stöðugri meðferð,  sem ekki hefur skilað tilætluðum árangri. 

  Ingó starfaði sem "free lance" ljósmyndari,  ásamt því að spila á gítar í hljómsveitinni Q4U.  Við það að vera kippt án fyrirvara af vinnumarkaði fóru fjármálin í klessu.  Ingó hefur fyrir fjögurra manna fjölskyldu að sjá.  Að auki situr hann tekjulaus uppi með fastan kostnað við vinnustofu (húsaleiga,  afborganir af tækjabúnaði o.s.frv.).   

  Með því að mæta á tónlistarhátíðina slærð þú tvær flugur í einu höggi:  Styrkir góðan málstað og upplifir frábæra tónlistarveislu.  Takið með ykkur gesti.


Næsti páfi

páfi-nnpáfi-Apáfi rafmagnaður

  Aðeins einni manneskju tókst að átta sig á því hvað Benedikt sextándi var að muldra þegar hann tilkynnti á blaðamannafundi afsögn sína úr embætti.  Óvíst er hvort að manneskjan heyrði rétt.  Heimsfréttin um afsögnina hefur ekki verið borin til baka af Vatíkaninu.  Það bendir til þess að konan hafi heyrt rétt og sátt ríki um hennar túlkun á fréttinni.

  Meiri ágreiningur ríkir um ástæður afsagnarinnar.  Sumir telja að komið hafi upp ósætti og óyfirstíganlegur ágreiningur á milli páfans og himnaföður hans.  Sá síðarnefndi var með stöðuga hrekki sem lýstu sér þannig að hvert sem páfi fór þá gustaði á kjólinn hans sem vafðist honum um höfuð og byrgði sýn.  Þá fengu ófáar húfur,  pottlok og hattar að fjúka af páfanum út í buskann. 

  Í þau örfáu skipti sem kjóllinn fékk að vera í friði myndaðist gustur páfa yfir höfði og skóp hárgreiðslu kennda við pönkara og hanakamb.

páfi með hanakamb

  Ef páfinn nær að setja upp gleraugu er eins og hann sé með það sama kýldur í hausinn;  gleraugun hendast út um allt andlitið og koma aldrei að gagni. Þau hafa ósjaldan endað uppi í túlanum og hann jórtrað á þeim eins og tyggjói.  

páfi m gleraugu 

  Aðrir telja að páfinn sé á leið út úr skápnum,  svo þekktur sem hann er fyrir að vera með tunguna út um allt. 

páfi kyssir iman

   Páfa verður minnst fyrir harðorða og skelegga gagnrýni á prjál og pjatt.  Einhverjir hafa af óskammfeilni talað um að páfi kasti glerflöskum úr steinhúsi allur hlaðinn bling-bling glingri og gullslegnum hatti.  Hið rétta er að hatturinn er ekki til skrauts.  Hann er nestispakki páfa.   

páfi McDonalds

  Eðlilega er byrjað að máta ýmsa einstaklinga í páfastól.  Það skiptir máli hver vermir hann.  Páfinn er óskeikull leiðtogi fjölmennasta sértrúarsafnaðar heims.  Þessir þykja taka sig best út sem arftakar Benna - enn sem komið er:

páfi-hugsanlegur-berlusconipáfi-hugsanlegur-ozzypáfar-hugsanlegirpáfi-hugsanlegur-lemmypáfi-hugsnalegur-foremanpáfi-hugsanlegur-orgpáfi-hugsanlegur

 


mbl.is Konan sem skildi hvað páfi var að segja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af Önnu frænku á Hesteyri

AnnaMarta 

  Anna frænka á Hesteyri var mikill dýravinur.  Að miklu leyti snérist hennar tilvera um dýr.  Hún var dugleg við að skrifa ættingjum bréf og hringja í okkur.  Iðulega snérust frásagnir hennar um það sem á daga hafði drifið kinda hennar eða annarra dýra.  Hænur, kríur og mýs gengu sjálfala innan húss hjá henni.  Svo fékk hún sér tvær gæsir.  Hún áttaði sig ekki á því að það þarf að klippa af þeim flugfjaðrirnar.  Anna horfði þess vegna á eftir þeim fljúga á haf út.

  Anna var í öngum sínum.  Hún hringdi í Sigfús Vilhjálmsson (Hjálmarssonar, fyrrverandi menntamálaráðherra) á Brekku,  næsta bæ við Hesteyri.  Hann var og er hreppsstjóri í Mjóafirði.  Anna bað hann um að fara út á sjó og sækja gæsirnar.

  Svo illa stóð á að Sigfús var fastur í öðru verkefni.  Í galsa vísaði hann Önnu á að hringja í Landhelgisgæsluna og láta varðskip sækja gæsirnar.  Anna lét ekki segja sér það tvisvar.  Hinsvegar var erindinu illa tekið af þeim sem fyrstir urðu fyrir svörum hjá Landhelgisgæslunni.  En Anna vísaði til þess að það væru fyrirmæli frá sjálfum hreppstjóranum að Landhelgisgæslan ætti að sækja gæsirnar.  Eftir að símsamband hafði verið gefið út og suður innan Landhelgisgæslunnar urðu málalyktir þær að varðskip elti gæsirnar uppi,  náði þeim og boðaði Önnu niður í fjöru.  Þrátt fyrir að vera mikil um sig þá varð Anna sporlétt er hún rölti niður í fjöru og sótti gæsirnar sínar tvær. 

  Síðar sögðu skipsverjar á varðskipinu frá því að það hefði verið fyrirhafnarinnar virði að horfa á eftir Önnu kjaga upp túnið með gæs undir sitthvorri hendi.

  Önnur saga af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1281120/


Plötuumsögn

nýtt upphaf
 - Titill:  Nýtt upphaf
 - Flytjandi:  Herbert Guðmundsson
 - Einkunn: ****
.
  Yfir tónlistinni í heild er meiri léttleiki en á fyrri plötum Hebba.  Ballöðurnar eru poppaðri.  Í textum er hinsvegar tregi og eftirsjá í fyrstu 4 lögunum.  Í fimmta laginu,  Komdu með, er skipt um gír:  "Kveð veturinn / sem langur var og stríður."  Sumri, sól, ást og gleði er fagnað í fjörlegum léttrokkuðum sumarslagara.  Þetta lag hefur alla eiginleika til að verða sívinsæll sumarsmellur.
  Treginn skýtur aftur upp kolli í næsta lagi,  ballöðunni  Sé þig hvar sem er.  Þannig skiptast á skin og skúrir í næstu lögum.  Það er nett sumarstemmning í laufléttu og söngrænu  Sumarið er stutt
  Í hinu rólega  Við tvö  örlar á smá kántrý eða eiginlega blágresiskeim.  Í fljótu bragði man ég ekki eftir Hebba á þeim slóðum.
  Það kemur ekki á óvart að stórsmellurinn frá í fyrra,  Eilíf ást,  sé á plötunni.  Reyndar bæði í íslenskri útgáfu og einnig með enskum texta.  Enska útgáfan er hraðari og glaðværari.
  Mörgum kom í opna skjöldu að  Eilíf ást  skyldi ekki verða keppnislag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í fyrra.  Ég hef aldrei fylgst með þessari keppni og veit ekki út á hvað hún gengur.  Mér skilst að dansspor keppenda,  klæðnaður,  hárgreiðsla og eitthvað svoleiðis skipti sköpum. 
  Hvort sem sá skilningur er réttur eða ekki þá hefur  Eilíf ást  orðið lífseigari en flest lögin sem það atti kappi við í keppninni í fyrra.
  Þátttakan í keppninni færði Hebba stærri sigur en öðrum keppendum.  Þátttakan leiddi saman hann og eiginkonu hans,  Lísu Dögg Helgadóttur.  Platan er tileinkuð henni.  Lísa Dögg er höfundur texta upphafslagsins,  Camilia. 
  Hebbi hefur jafnan gert út á frumsamda söngva.  Á  Nýju upphafi  bregður svo við að Hebbi spreytir sig á sjö lögum eftir sænska höfunda.  Fyrir bragðið er pínulítið önnur áferð á sumum laglínum og í útsetningum en við eigum að venjast á plötum með Hebba.  Engu að síður gerir Hebbi lögin að sínum með sínum persónulega stíl.  Hans þrjú frumsömdu lög skera sig ekki frá sænsku lögunum.  Þetta er heilsteypt plata.  Allur flutningur er fagmannlegur.  Þórir Úlfarsson spilar á hljómborð og heldur utan um upptökur og útsetningar;  Gulli Briem og Ingólfur Sigurðsson tromma;  Pétur Valgarð Pétursson og Stefán Már Magnússon spila á gítara;  Friðrik Sturluson plokkar bassa og semur flesta texta.  Um bakraddir sjá Þórir Úlfarsson, Edda Viðarsdóttir, Elísabet Ormslev pg Pétur Örn Guðmundsson.   
..

Veitingahússumsögn

pizza king-túnfiskur

-  Veitingastaður:  Pizza King,  Skipholti 70
-  Réttur:  Túnfisksbátur
-  Verð:  990 kr.
-  Einkunn:  **1/2 (af 5)
.
  Það er gaman að gera sér erindi í nýjan veitingastað.  Einkum ef hann býður upp á eitthvað sem er dálítið öðru vísi en aðrir staðir. 
  Veitingastaður að nafni Pizza King hefur verið opnaður í sama húsi og American Style í Skipholti.  Bara í hinum enda hússins.
.
  Í Bandaríkjum Norður-Ameríku má víða rekast á Pizza King.  Ég hef aldrei kíkt inn á svoleiðis stað.  Á ferðum erlendis er ástæðulaust að kaupa pizzu ef annað er í boði. 
  Í Hafnarstræti er staður sem heitir Pizza Royal.  Leturgerð og annað útlit bendir til þess að um systurstað Pizza King sé að ræða.  Ég hef ekki stigið fæti inn í Pizza Royal.  Þess vegna hef ég ekki samanburð við þann stað né Pizza King í Bandaríkjunum.
.
  Pizza King í Skipholti ber þess merki að vera skyndibitastaður.  Innréttingar eru fábrotnar,  tómlegar og kuldalegar.  Kannski er réttara að segja stílhreinar. 
  Hægt er að sitja á barstól við lítið borð áfast endilöngum veggjum.  Á miðju gólfi er eitt borð sem hægt er að sitja við allan hringinn.  Á vegg er sjónvarpsskjár.  
  Ljósmynd upp á vegg sýnir girnilegan brauðbát, vel úttroðinn af grænmeti og túnfiski (sjá mynd efst).  Kominn með bátinn í hendur blasti við töluvert rýrari útgáfa.  Í henni gleypti báturinn túnfiskinn, kál, rauðlauk, agúrkusneiðar og tómatsneiðar.  Skammturinn af þessu var varla helmingur af því sem myndin sýnir.  Kannski aðeins þriðjungur. 
  Á myndinni sjást líka paprika og ólívur.  Hugsanlega voru þær í mínum bát.  Ég fletti honum ekki í sundur til að kanna það.  Hafi þær verið með fór glettilega lítið fyrir þeim.  Einhver örlítil hvít sósusletta var í botninum á brauðinu.  Gott hefði verið að fá ríflegar af sósunni.  Báturinn var of þurr til að snæða án drykkjar.  Ástæða er til að taka fram að um túnfisksbita er að ræða en ekki majónes-hrært túnfisksalat á borð við það sem er í túnfisksbátnum á Subway.
.
  Eflaust er það sérviska í mér að finnast egg ómissandi með túnfiski.  Ég saknaði þeirra.  Brauðið er ágætt eldbakað hvítt hveitibrauð.  Þetta er dálítið í ítölskum stíl.  Stærð bátsins er svipuð og Hlöllabáta.    
  Þrátt fyrir hróplegan stærðarmun á fyllingunni í bátnum á mynd annarsvegar og bát í hendi hinsvegar er síðarnefnda útgáfan alveg ásættanleg máltíð.  Það er upplagt að smakka Pizza King bát til tilbreytingar frá Hlöllabátum og Nonnabátum.  Pizza King bátur er "öðru vísi" og ítalskri.     
.
pizza king matsalur

Anna á Hesteyri

Anna Marta

  Þegar ég byrjaði að blogga fyrir nokkrum árum var það fyrst og fremst til að eiga orðastað við ættingja og vini.  Liður í því spjalli var að rifja upp sögur af Önnu frænku á Hesteyri.  Hún og móðir mín voru bræðradætur.  Svo skemmtilega vildi til að fleiri en ættingjarnir höfðu gaman af sögunum.  Þær urðu kveikja að bók um Önnu sem varðveitir sögurnar betur.  Og var ekki seinna vænna.  Anna lést nokkrum mánuðum eftir útkomu bókarinnar.

  Ég gerði hlé á upprifjun á sögum af Önnu þegar bókin kom út.  Ég vildi ekki trufla sölu á henni.  Þegar Anna féll frá var ég ekki í stuði til að skrá fleiri sögur fyrst á eftir.  Nú er hlé á enda.  Á næstunni birti ég hér fleiri sögur af Önnu.

  Anna var afskaplega greiðvikin.  Hún vildi öllum vel.  Hún var stöðugt að hugsa um það hvernig hún gæti glatt aðra.  Hún var dugleg að skrifa ættingjum og vinum bréf.  Sömuleiðis notaði hún símann óspart.  Símreikningar hennar voru töluvert hærri en á öðrum heimilum.

  Í desemberbyrjun eitt árið hringdi Anna í frænku okkar í Reykjavík.  Sú var með slæma flensupest.  Það olli Önnu áhyggjum.  Hvernig fer þá með jólahreingerninguna?  Hvað með jólainnkaupin,  jólaskreytingar og jólabakstur?  Frænkan í Reykjavík viðurkenndi að þetta væri óheppilegur árstími fyrir flensu.  Hinsvegar væri maður hennar og unglingssynir við góða heilsu og gætu sinnt því brýnasta.  "Þeir kunna ekki að baka,"  fullyrti Anna áhyggjufull.  Frænkan í Reykjavík taldi góðar líkur vera á að flensan yrði að baki fyrir jól.

  Nokkrum dögum síðar fékk frænkan í Reykjavík stóran kassa frá Önnu.  Í honum voru tertur með glassúr,  jólakaka og fleira bakkelsi.  Þó að Anna væri lítið fyrir bakstur þá hafði hún undið sér í að bjarga jólabakstrinum fyrir frænkuna í Reykjavík.  Verra var að bakkelsið hafði orðið fyrir töluverðu hnjaski í póstflutningum frá Hesteyri í Mjóafirði til Reykjavíkur.  Það var ekki eins lystugt á að líta og þegar Anna tók það úr ofninum á Hesteyri.  Ennþá verra var að ofan á tertunum skoppuðu bæði efri tanngómur og neðri. 

  Frænkan í Reykjavík hringdi þegar í stað í Önnu.  Þakkaði vel fyrir bakkelsið og spurði hvort að rétt væri tilgetið að Anna saknaði fölsku tannanna sinna.  "Hvernig getur þú vitað það?"  spurði Anna gapandi hissa.  Frænkan í Reykjavík sagðist hafa fundið þær í kassanum.  Anna varð heldur betur glöð við þessi tíðindi.  Hún var búin að gera allsherjar leit að tönnunum dögum saman.  Svo vel vildi til að hún vissi af manni í Reykjavík sem ætlaði að vera í Mjóafirði yfir jólin.  Ef hratt væri brugðist við mætti koma tönnunum á hann.  "Það kæmi sér vel fyrir mig að vera með tennurnar um jólin,"  útskýrði Anna.  Það tókst.   

.

falskar tennurfalskar tennur A


Bestu plötur Megasar

 

  Fyrir nokkru síðan ýtti ég úr vör skoðanakönnun um bestu plötur Megasar.  Fyrsta skrefið var að leita á náðir lesenda.  Ég bað þá um að tiltaka þær plötur Megasar sem þeim þykir bestar.  Öllum plötum sem nefndar voru til sögunnar stillti ég upp í formlega skoðanakönnun.  Ég ákvað að láta könnunina standa þangað til 2000 atkvæði hefðu skilað sér í hús.  Nú hefur það mark náðst.  Niðurstaðan er sú sama og þegar 100 atkvæði höfðu verið greidd.  Af því dreg ég þá ályktun að útkoman sé nokkurn veginn til samræmis við almennan smekk fyrir plötum Megasar.  Að minnsta kosti hvað varðar plöturnar í efstu sætunum.  Þar er útkoman afgerandi.  Ég ætla að flestir aðdáendur Megasar hefðu að óreyndu giskað rétt á hvaða plötur myndu hreiðra um sig í efstu sætunum. 

  Þar fyrir utan er þetta fyrst og fremst léttur samkvæmisleikur. 

  Þannig er listinn: 

1.  Á bleikum náttkjólum 25,5%

2.  Megas (fyrsta platan) 17,7%

3.  Loftmynd 12,5%

4.  Til hamingju með fallið 8,1%

5.  Í góðri trú 7,7%

6.  Drög að sjálfsmorði 7,3%

7.  Millilending 6,4%

8.  Fram og aftur blindgötuna 5,2%

9.  Nú er ég klæddur og kominn á ról 4,5%

10.  Þrír blóðdropar 2,7%

11.  Höfuðlausnir 2,3%

Eiturslanga ræðst á dreng og ljósmyndarar taka myndir

eiturslanga ræðst á stelpu

  Þessi ljósmynd hefur farið eins og eldur um sinu á Fésbókinni.  Eiturslanga ræðst á ungan dreng og ljósmyndarar fylgjast spenntir með í stað þess að grípa inn í og koma emjandi drengnum til hjálpar.  Drengnum viti sínu fjær af skelfingu og hræðslu,  þekkjandi að einungis nokkrar sekúndur í þessum aðstæðum skilja á milli lífs og dauða.  Ljósmyndararnir eru fordæmdir fyrir.  Ég vatt mér í að rannsaka málið.  Niðurstaðan er sú að þetta er ekki drengur heldur 13 ára stúlka. 

  Eftir að ljósmyndararnir höfðu náð mörgum góðum myndum af viðureign eiturslöngunnar og stelpunnar óhlýðnaðist innfæddur aðstoðar- og leiðsögumaður myndatökuliðs tímaritsins National Geographic fyrirmælum um að trufla ekki atburðarásina.  Hann réðist á slönguna og snéri hana af stelpunni.  Slangan gerði sér þá lítið fyrir og át manninn.  Það náðust góðar myndir af því. 

  Talsmenn National Geographic segja að þær myndir verði ekki birtar fyrr en lögfræðileg atriði hafi verið afgreidd.  Þau snúa að fjölskyldu mannsins sem eiturlyfjaslangan át.  "Við þurfum að ganga frá smávægilegum tæknilegum atriðum áður en myndirnar verða birtar," segir talsmaður tímaritsins.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband