Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.5.2018 | 08:22
Paul Watson leiðir mótmælastöðu gegn Tý
Fyrir sléttum mánuði skýrði ég undanbragðalaust frá því að færeyska þungarokksveitin Týr væri að leggja upp í hljómleikaferð til Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada. Um það má lesa með því að smella H É R .
Hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd blésu þegar í stað í herlúðra. Af fullum þunga hófu þau öfluga herferð gegn Tý. Skoruðu á almenning að sniðganga hljómleikana með öllu. Markmiðið var að hljómleikunum yrði aflýst vegna dræmrar aðsóknar.
Ef markmiðið næðist ekki þá til vara myndu samtökin standa fyrir fjölmennri mótmælastöðu við hljómleikasalina.
Svo skemmtilega vill til að mæting á hljómleikana hefur verið hin besta. Sama er ekki að segja um mótmælastöðuna. Hún er spaugilega fámenn. Auk leiðtogans; Pauls Watsons, er þetta 8 eða 9 manns. Eru hljómleikarnir þó í fjölmennustu borgunum.
Bassaleikari Týs, Gunnar Thomsen, ræddi í smástund við Paul fyrir utan hljómleikahöllina í San Diego. Þeir voru ósammála. Gunnar benti honum á að baráttan gegn hvalveiðum Færeyinga væri vonlaus og skili engum árangri. Paul sagðist samt ætla að halda baráttunni áfram svo lengi sem hann lifi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2018 | 03:38
Skelfilegur laxadauði
Laxeldi í kvíum er í sviðsljósinu í kjölfar áhugaverðrar heimildarmyndar eftir Þorstein J. Vilhjálmsson. Hún var sýnd í sjónvarpinu í síðustu viku. Töluverður vandræðagangur virðist ríkja í laxeldinu hér. Margt er á gráu svæði sem full ástæða er til að vera á verði gagnvart.
Arnarlax fyrir vestan skilaði góðu tapi vegna dauða laxa í vetur. Ofkæling.
Í Noregi er sömuleiðis sitthvað úr skorðum í laxeldi. Þar ganga nú yfir skelfileg afföll. Laxinn drepst í hrönnum. Í janúar-mars drápust 13,6 milljón laxar. Það er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra. Allt það ár drápust 53 milljónir úr veikindum áður náðist að slátra þeim.
Sökudólgurinn er vandræðagangur með úrgang, aflúsun og eitthvað þessháttar. Þetta er dýraníð.
Eins og með svo margt er annað og betra að frétta frá Færeyjum. Þar blómstrar laxeldið sem aldrei fyrr. Nú er svo komið að laxeldið aflar Færeyingum meira en helmingi alls gjaldeyris. Langstærsti kaupandinn er Rússland. Íslendingar geta ekki selt Rússum neitt. Þökk sé vopnasölubanninu sem Gunnar Bragi setti á þá.
Ólíkt laxeldi á Íslandi er í Færeyjum engin hætta á blöndun eldislax og villtra laxa. Ástæðan er sú að lítið er um villtan lax í Færeyjum. Um miðja síðustu öld fengu Færeyingar nokkur íslensk laxaseyði. Þeim slepptu þeir í tvö lítil vötn sem litlar lækjasprænur renna úr. Laxveiðar þar eru þolinmæðisverk. Laxarnir eru svo fáir. Þegar svo ótrúlega vill til að lax bíti á þá er skylda að sleppa honum aftur umsvifalaust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.5.2018 | 03:44
Gríðarmikill uppgangur í færeyskri ferðaþjónustu
Lengst af aflaði sjávarútvegur um 97-99% af gjaldeyristekjum Færeyinga. Svo bar til tíðinda að sumarið 2015 og aftur 2016 stóð 500 manna hópur hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd vakt í Færeyjum til að hindra marsvínadráp. Aðgerðir þeirra voru afar klaufalegar. Skiluðu engum árangri nema síður væri. Varð þeim til háðungar.
500 manna hópur SS-liðanna klaufaðist til að auglýsa og kynna á samfélagsmiðlum út um allan heim fagra náttúru Færeyja. Með þeim árangri að ferðamannaiðnaður tekið risakipp. Í dag aflar ferðamannaiðnaðurinn 6,4% af gjaldeyristekjum Færeyinga. Vöxturinn er svo brattur að gistirými anna ekki eftirspurn. Þegar (ekki ef) þú ferð til Færeyja er nauðsynlegt að byrja á því að bóka gistingu. Annars verða vandræði.
Inn í dæmið spilar að samtímis hafa færeyskir tónlistarmenn náð sterkri stöðu á alþjóðamarkaði. Mestu munar um álfadrottninguna Eivöru, þungarokkshljómsveitina Tý, trúbadúrana Teit, Lenu Anderssen og Högna, pönksveitina 200, kántrý-kónginn Hall Jóensen, heimstónlistarhljómsveitina (world music) Yggdrasil og marga fleiri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2018 | 07:51
Á svig við lög
Lög, reglur og boðorð eru allavega. Sumt er spaugilegt. Til að mynda að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa. Mannanafnanefnd er botnlaus uppspretta skemmtiefnis. Verst að hún þvælist líka fyrir sumu fólki og gerir því lífið leitt. Þess á milli er hún rassskellt af erlendum dómstólum. Einnig af einstaklingum. Austurískur kvikmyndagerðarmaður, Ernst Kettler, flutti til Íslands á síðustu öld. Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt þá var hann skikkaður til að taka upp rammíslenskt nafn. Hann skoðaði lista yfir öll samþykkt íslensk nöfn og sótti um að fá að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy. Uppi varð fótur og fit. Ríkisstjórnin hafði leyft heimsfrægum píanóleikara með þessu nafni að fá íslenskan ríkisborgararétt og halda nafninu. Þar með var það viðurkennt sem íslenskt nafn.
Eftir jaml, japl og fuður varð niðurstaðan sú að Alþingi breytti mannanafnalögum. Felldi niður kröfuna um að innflytjendur þyrftu að taka upp rammíslenskt nafn. Taldi það skárri kost en að Ernst fengi að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.
Hestanafnanefnd er líka brosleg.
Refsilaust er að strjúka úr fangelsi á Íslandi. Það er að segja ef flóttafanginn er einn á ferð.
Boðorðin 10 eru að sumu leyti til fyrirmyndar. Einkum það sem boðar: Þú skalt ekki girnast þræl náunga þíns né ambátt. Ég vona að flestir fari eftir þessu.
Í Noregi er bannað að afgreiða sterkt áfengi í stærri skammti en einföldum. Þú getur ekki farið inn á bar og beðið um tvöfaldan viskí í kók. "Það er stranglega bannað að selja tvöfaldan sjúss að viðlagðri hárri sekt og jafnvel sviptingu áfengisleyfis," upplýsir þjónninn. En til að koma til móts við viðskiptavininn segir hann í hálfum hljóðum: "Þú mátt panta tvo einfalda viskí í kók. Það er ekki mitt mál að fylgjast með því hvort að þú hellir þeim saman í eitt glas."
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.5.2018 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.4.2018 | 06:37
Færeyski fánadagurinn
Í dag er færeyski fánadagurinn, 25. apríl. Hann er haldinn hátíðlegur um allar Færeyjar. Eða reyndar "bara" 16 af 18 eyjunum sem eru í heilsárs byggð. Önnur eyðieyjan, Litla Dimon, er nánast bara sker. Hin, Koltur, er líka lítil en hýsti lengst af tvær fjölskyldur sem elduðu grátt silfur saman. Líf þeirra og orka snérist um að bregða fæti fyrir hvor aðra. Svo hlálega vildi til að enginn mundi né kunni skil á því hvað olli illindunum.
Þó að enginn sé skráður til heimilis á Kolti síðustu ár þá er einhver búskapur þar á sumrin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2018 | 07:46
Það er svo undarlegt með augabrúnir
Augabrúnir eru til prýðis. Þær hjálpa til við að ramma andlitið inn. Jafnframt gegna þær því göfuga hlutverki að hindra að sviti bogi niður enni og ofan í augu.
Konur hafa löngum skerpt á lit augabrúnna. Á síðustu árum er algengt að þær láti húðflúra augabrúnastæðið. Það er flott. Í sunnanverðum Bandaríkjunum eru konur kærulausari með þetta. Þær eru ekkert að eltast við augabrúnastæðin af nákvæmni. Iðulega raka þær af sér augabrúnirnar og láta húðflúra augabrúnir uppi á miðju enni. Eða stílisera lögun augabrúnna á annan hátt. Fögnum fjölbreytni!
17.3.2018 | 06:25
Samgleðjumst og fögnum!
Aldrei er hægt að gera Íslendingum til hæfis. Stöðugt er kvartað undan lágum launum, lélegri sjónvarpsdagskrá og öðru sem skiptir máli. Nú beinist ólund að Neinum fyrir það eitt að forstjórinn náði að hækka laun sín um 20,6% á milli ára.
Að óreyndu mátti ætla að landsmenn samfögnuðu forstjóranum. Það væri gleðifrétt að eigendur Neins - lífeyrissjóðirnir og lífeyrissjóðsfélagar - hefðu efni á að borga honum næstum 6 milljónir á mánuði (þrátt fyrir hratt minnkandi hagnað olífélagsins undir stjórn ódýra forstjórans). En ónei. Í samfélagsmiðlum og heitum pottum sundlauga hvetja menn hvern annan til að sniðgöngu. Með þeim árangri að um þessar mundir sjást fáir á ferli við bensínstöðvar fyrirtækisins. Eiginlega bara hálaunamenn, svo sem stjórnarmenn lífeyrissjóðanna.
Svo verður þetta gleymt eftir helgi.
Allir fái sömu hækkun og forstjórinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2018 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.3.2018 | 02:31
Einkennilegt mál skekur Færeyjar
Glæpir eru fátíðir í Færeyjum. Helst að Íslendingar og aðrir útlendingar séu til vandræða þar. Sömuleiðis eru Færeyingar óspilltasta þjóð Evrópu. Að auki fer lítið fyrir eiturlyfjaneyslu. Í einhverjum tilfellum laumast ungir Færeyingar til að heimsækja Kristjaníu í Kaupmannahafnarferð og fikta við kannabis. Einstaka maður.
Í ljósi þessa er stórundarlegt mál komið upp í Færeyjum. Það snýr að virtum þingmanni, sveitarstjórnarmanni í Tvöreyri og lögregluþjóni. Sá heitir Bjarni Hammer. Hann hefur nú sagt af sér embættum. Ástæðan er sú að hann reyndi að selja ungum stúlkum hass.
Bjarni var lögþingsmaður Jafnaðarmannaflokksins. Önnur stúlkan er formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hin i Framsóknarflokknum. Þær geymdu upptöku af samskiptunum.
Í Færeyjum er gefið út eitt dagblað. Það heitir Sósialurin. Ritstjóri er hin ofurfagra Barbara Hólm. Hún er gift forsprakka pönksveitarinnar 200, sem á fjölmarga aðdáendur á Íslandi og hefur margoft spilað hér. Barbara er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hún frétti af málinu frá fyrstu hendi. Stormaði umsvifalaust með upptökuna til lögreglunnar og upplýsti málið í Sósíalnum.
Almenningur fékk áfall. Viðbrögð flokkssystkina Bjarna eru þau að fullyrða að málið sé pólitískt. Ósvífnir pólitískir andstæðingar Jafnaðarmanna hafi með slóttugheitum gómað hrekklaust góðmenni í gildru. Misnotað rómaðan velvilja manns sem leggur sig fram um að hjálpa og greiða götu allra.
Vinur Bjarna hefur stigið fram og lýst því yfir að hann hafi komið í heimsókn til sín 2014. Þar var fleira fólk. Vinurinn kallar á konu sína til vitnis um að í það skiptið hafi Bjarni hvorki gefið né selt vímuefni.
Annað þessu skylt; um væntanlega útgáfu ríkisins á vest-norrænni söngbók. Smella HÉR
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.2.2018 | 19:55
Grænlendingum fækkar
Íslendingum fjölgar sem aldrei fyrr. Veitir ekki af. Einhverjir þurfa að standa undir klaufalegum fjárfestingum lífeyrissjóða. Líka ofurlaunum stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Tröllvaxinn ferðamannaiðnaður kallar á vinnandi hendur. Rótgrónir Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, við þrif eða við ummönnun. Þá koma útlendingar til góða sem gerast íslenskir ríkisborgarar.
Á síðasta áratug - 2007-2017 - fjölgaði Íslendingum svo um munar. Ekki vegna frjósemi heldur vegna innflytjenda. 2007 voru Íslendingar 307 þús. Í dag erum við nálægt 350 þús.
Færeyingar eru frjósamastir norrænna þjóða. Þeir eru iðnir við kolann. Enda fegurstir og kynþokkafyllstir. 2007 voru þeir 48 þús. Í dag eru þeir yfir 50 þús.
Norðmönnum fjölgaði um 12,3%. Þökk sé innflytjendum. Meðal annars Íslendingum í þúsundatali. Flestir með meirapróf. Íbúar Noregs, Finnlands og Danmörku eru hver um sig vel á sjöttu milljón. Svíar eru 10 milljónir. Samanlagt erum við norrænu þjóðirnar um 30 milljónir. Fjölgar árlega.
Verra er að Grænlendingum fækkar. Undanfarin ár hafa þeir ýmist staðið í stað eða fækkað. 2007 voru þeir næstum 57 þúsund. Í fyrra voru þeir innan við 56 þúsund. Ekki gott. Á móti vegur að íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér rétt til gullgrafar á Grænlandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.2.2018 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2018 | 04:03
Oasis-bræður
Dagblöðin í Manchester á Englandi skrifa um sína frægustu syni, Oasis-bræður, Liam og Noel Gallgher, á hverjum einasta degi. Líka önnur bresk dagblöð. Að vísu er ég ekki alveg með það á hreinu hvort að alltaf sé á landsvísu að ræða vegna þess að sum bresk dagblöð eru með sér-Manchester útgáfur. En Oasis-bræður eru yfirlýsingaglaðir og gott fréttaefni. Einkum Liam. Tísta (twitter) daglega. Gefa Dóna Trump ekkert eftir.
Gítarleikarinn Noel Gallagher gerir út á Oasis-lög á hljómleikum. Liam tístir að það sé sama hvað Noel rembist á hljómleikum þá muni hann, Liam, alltaf vera tíu sinnum betri söngvari. Sem reyndar er allt að því rétt.
Þrátt fyrir stöðugar pillur á milli bræðranna vakti athygli að Liam sendi Noel hlýjar jólakveðjur. Sem sá endurgalt ekki.
Noel lýsti því yfir um jólin að um leið og Brexit taki gildi (útganga úr Evrópusambandinu) þá flytji hann frá Manchester til Írlands. Brexit muni - að hans sögn - kosta enska tónlistarmenn meiriháttar vandamál og einangrun. Vegabréfavandræði, atvinnuleyfavandræði og þess háttar.
Þetta var borið undir Liam. Hann svaraði því til að bróðir sinn sé heimskur að taka mark á landamærum. Landamæri séu uppfinning djöfulsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)