Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.3.2018 | 02:31
Einkennilegt mál skekur Færeyjar
Glæpir eru fátíðir í Færeyjum. Helst að Íslendingar og aðrir útlendingar séu til vandræða þar. Sömuleiðis eru Færeyingar óspilltasta þjóð Evrópu. Að auki fer lítið fyrir eiturlyfjaneyslu. Í einhverjum tilfellum laumast ungir Færeyingar til að heimsækja Kristjaníu í Kaupmannahafnarferð og fikta við kannabis. Einstaka maður.
Í ljósi þessa er stórundarlegt mál komið upp í Færeyjum. Það snýr að virtum þingmanni, sveitarstjórnarmanni í Tvöreyri og lögregluþjóni. Sá heitir Bjarni Hammer. Hann hefur nú sagt af sér embættum. Ástæðan er sú að hann reyndi að selja ungum stúlkum hass.
Bjarni var lögþingsmaður Jafnaðarmannaflokksins. Önnur stúlkan er formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hin i Framsóknarflokknum. Þær geymdu upptöku af samskiptunum.
Í Færeyjum er gefið út eitt dagblað. Það heitir Sósialurin. Ritstjóri er hin ofurfagra Barbara Hólm. Hún er gift forsprakka pönksveitarinnar 200, sem á fjölmarga aðdáendur á Íslandi og hefur margoft spilað hér. Barbara er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Þjóðveldisflokksins. Hún frétti af málinu frá fyrstu hendi. Stormaði umsvifalaust með upptökuna til lögreglunnar og upplýsti málið í Sósíalnum.
Almenningur fékk áfall. Viðbrögð flokkssystkina Bjarna eru þau að fullyrða að málið sé pólitískt. Ósvífnir pólitískir andstæðingar Jafnaðarmanna hafi með slóttugheitum gómað hrekklaust góðmenni í gildru. Misnotað rómaðan velvilja manns sem leggur sig fram um að hjálpa og greiða götu allra.
Vinur Bjarna hefur stigið fram og lýst því yfir að hann hafi komið í heimsókn til sín 2014. Þar var fleira fólk. Vinurinn kallar á konu sína til vitnis um að í það skiptið hafi Bjarni hvorki gefið né selt vímuefni.
Annað þessu skylt; um væntanlega útgáfu ríkisins á vest-norrænni söngbók. Smella HÉR
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.2.2018 | 19:55
Grænlendingum fækkar
Íslendingum fjölgar sem aldrei fyrr. Veitir ekki af. Einhverjir þurfa að standa undir klaufalegum fjárfestingum lífeyrissjóða. Líka ofurlaunum stjórnarmanna lífeyrissjóða og fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Tröllvaxinn ferðamannaiðnaður kallar á vinnandi hendur. Rótgrónir Íslendingar vilja ekki vinna í fiski, við þrif eða við ummönnun. Þá koma útlendingar til góða sem gerast íslenskir ríkisborgarar.
Á síðasta áratug - 2007-2017 - fjölgaði Íslendingum svo um munar. Ekki vegna frjósemi heldur vegna innflytjenda. 2007 voru Íslendingar 307 þús. Í dag erum við nálægt 350 þús.
Færeyingar eru frjósamastir norrænna þjóða. Þeir eru iðnir við kolann. Enda fegurstir og kynþokkafyllstir. 2007 voru þeir 48 þús. Í dag eru þeir yfir 50 þús.
Norðmönnum fjölgaði um 12,3%. Þökk sé innflytjendum. Meðal annars Íslendingum í þúsundatali. Flestir með meirapróf. Íbúar Noregs, Finnlands og Danmörku eru hver um sig vel á sjöttu milljón. Svíar eru 10 milljónir. Samanlagt erum við norrænu þjóðirnar um 30 milljónir. Fjölgar árlega.
Verra er að Grænlendingum fækkar. Undanfarin ár hafa þeir ýmist staðið í stað eða fækkað. 2007 voru þeir næstum 57 þúsund. Í fyrra voru þeir innan við 56 þúsund. Ekki gott. Á móti vegur að íslenskt fyrirtæki hefur tryggt sér rétt til gullgrafar á Grænlandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.2.2018 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2018 | 04:03
Oasis-bræður
Dagblöðin í Manchester á Englandi skrifa um sína frægustu syni, Oasis-bræður, Liam og Noel Gallgher, á hverjum einasta degi. Líka önnur bresk dagblöð. Að vísu er ég ekki alveg með það á hreinu hvort að alltaf sé á landsvísu að ræða vegna þess að sum bresk dagblöð eru með sér-Manchester útgáfur. En Oasis-bræður eru yfirlýsingaglaðir og gott fréttaefni. Einkum Liam. Tísta (twitter) daglega. Gefa Dóna Trump ekkert eftir.
Gítarleikarinn Noel Gallagher gerir út á Oasis-lög á hljómleikum. Liam tístir að það sé sama hvað Noel rembist á hljómleikum þá muni hann, Liam, alltaf vera tíu sinnum betri söngvari. Sem reyndar er allt að því rétt.
Þrátt fyrir stöðugar pillur á milli bræðranna vakti athygli að Liam sendi Noel hlýjar jólakveðjur. Sem sá endurgalt ekki.
Noel lýsti því yfir um jólin að um leið og Brexit taki gildi (útganga úr Evrópusambandinu) þá flytji hann frá Manchester til Írlands. Brexit muni - að hans sögn - kosta enska tónlistarmenn meiriháttar vandamál og einangrun. Vegabréfavandræði, atvinnuleyfavandræði og þess háttar.
Þetta var borið undir Liam. Hann svaraði því til að bróðir sinn sé heimskur að taka mark á landamærum. Landamæri séu uppfinning djöfulsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.12.2017 | 08:15
Maður ársins
Jafnan er beðið með spenningi eftir vali bandaríska fréttablaðsins Time á manni ársins. Niðurstaðan er stundum umdeild. Jafnvel mjög svo. Til að mynda þegar Hitler var útnefndur maður ársins 1938. Líka þegar Richard Nixon var maður ársins 1971 og aftur 1972.
Ástæðan fyrir gagnrýni á valið er sú að það snýst ekki um merkasta mann ársins - öfugt við val annarra fjölmiðla á manni ársins. Time horfir til þess manns sem sett hefur sterkastan svip á árið. Skiptir þar engu hvort að það hefur verið til góðs eða tjóns.
Í ár stendur valið á milli eftirfarandi:
- Colin Kaepernick (bandarískur fótboltakall)
- Dóni Trump
- Jeff Bezos (forstjóri Amazon)
- Kim Jong-un (leiðtogi N-Kóreu)
- #meetoo átakið
- Mohamed bin Salam (krúnprins Saudi-Arabíu)
- Patty Jenkins (leikstjóri "Wonder Woman")
- The Dreamers (samtök innflytjenda í Bandaríkjunum)
- Xi Jinping (forseti Kína)
Mér segir svo hugur að valið standi í raun aðeins á milli #metoo og þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna, Kína og Norður-Kóreu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.12.2017 | 08:34
Nýræð í 14 mánaða fengelsi
Í Þýskalandi er bannað að afneita helför gyðinga á fyrri hluta síðustu aldar. Því er haldið fram að sex milljónir gyðinga hafi verið myrtir af nasistum. Sumir telja töluna vera ónákvæma. Hvað sem til er í því þá liggur í Þýskalandi allt að fimm ára fangelsisrefsing við því að þvertaka fyrir morðin. Slíkt er skilgreint sem hvatning til kynþáttahaturs.
Öldruð þýsk nasistafrú, Ursula Haverbeck, lætur það ekki á sig fá. Í fyrra var hún dæmd til 8 mánaða fangelsunar er hún reyndi að sannfæra borgarstjórann í Detmold um að það væri haugalygi að í Auschawitz hafi verið starfrækt útrýmingarstöð. Sú gamla forhertist. Hún reyndi að sannfæra dómara, saksóknara og alla sem heyra vildu að allt tal um útrýmingarbúðir væri viðurstyggileg lygi og áróður. Var henni þá gerð aukarefsing. Nú er hún 89 ára á leið á bak við lás og slá í 14 mánuði. Hún lýkur afplánun 2019 og heldur þá upp á 91 árs afmælið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.12.2017 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.11.2017 | 09:18
Nauðsynlegt að vita
Af og til hafa heyrst raddir um að ekki sé allt í lagi með vinnubrögð hjá Sorpu. Fyrr á árinu gengu manna á milli á Fésbók fullyrðingar um að bækur sem færu þangað skiluðu sér ekki í Góða hirðinn. Þær væru urðaðar. Ástæðan væri sú að nóg af bókum væru í nytjamarkaðnum. Einhverjir sögðu að þetta gerðist endrum og sinnum. Öðrum sárnaði. Einkum bókaunnendum. Einnig hafa heyrst sögur af fleiri hlutum sem virðast ekki skila sér úr Sorpu til búðarinnar.
Útvarpsmaðurinn snjalli, Óli Palli, lýsir nýlegum samskiptum sínum við Sorpu. Frásögnin á erindi til flestra:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.10.2017 | 09:30
Verða Grænlendingar sviptir sjálfræði?
Staðan innan danska sambandsríkisins er misjöfn eftir löndum. Færeyingar eru á fullu við að skerpa á sjálfræði sínu. Þeir eru að semja nýja stjórnarskrá sem fjarlægir þá frá þeirri dönsku. Á sama tíma er rætt um að svipta Grænlendinga sjálfræði. Umræðan er brött, hávær og eibhliða. Danski Flokkur fólksins talar fyrir þessu sjónarmiði.
Talsmaður flokksins segir við altinget.dk í morgun að Danir verði að taka við stjórn á Grænlandi á ný. Reynslan sýni að Grænlendingar ráði ekki við verkefnið. Danir beri ábyrgð á ástandinu og verði að grípa í taumana. Í gær skrifaði fyrrverandi rektor grænlenska Lærða-háskóla grein á sömu nótum.
Ekki nóg með það. Í grein í danska dagblaðinu Politiken heldur sagnfræðingurinn Thorkild Kjærgaard sömu skoðun á lofti.
Mig grunar að þessi áhugi Dana á að taka á ný við öllum stjórnartaumum á Grænlandi tengist verðmætum málmum sem hafa verið að finnast þar að undanförnu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.10.2017 | 04:12
Samfélagsmiðlarnir loga til góðs
Samfélagsmiðlarnir virka í baráttu gegn kynferðisofbeldi. Hvort heldur sem er Fésbók, Twitter, blogg eða annað. Undir millumerkinu #höfumhátt hefur hulu verið svipt af alræmdum barnaníðingum og klappstýrum þeirra. Þöggunartilburðir hafa verið brotnir á bak aftur. Skömminni verið skilað til glæpamannanna. Lögum um uppreist æru verður breytt.
Herferð undir millumerkinu #metoo / #églíka hefur farið eins og eldur í sinu út um allan heim. Kveikjan að henni hófst með ásökum á hendur Harvey Winstein, þekkts kvikmyndaframleiðanda. Hann var sakaður um kynferðisofbeldi, meðal annars nauðganir. Á örfáum vikum hafa yfir 40 konur stigið fram og sagt frá áreitni hans. Feril hans er lokið. Hann er útskúfaður sem það ógeð sem hann er.
Í kjölfar hafa þúsundir kvenna - þekktra sem óþekktra - vitnað um áreitni sem þær hafa orðið fyrir. Þær burðast ekki lengur einar með "leyndarmálið". Það á að segja frá. Skömmin er ofbeldismannsins.
Verstu innlegg í umræðuna er þegar karlar segja: "Menn eru hættir að þora að daðra við kvenfólk af ótta við að vera sakaðir um áreitni." Menn þurfa að vera virkilega heimskir og illa áttaðir til að skynja ekki mun á daðri og kynferðislegri áreitni.
Annað innlegg í umræðuna er skrýtið. Það er að ýmsir karlar finna hvöt hjá sér til að tilkynna að þeir hafi aldrei orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Það liggur í loftinu að þá langi til að skrifa það á ennið á sér.
![]() |
Weinstein varð brjálaður við höfnunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.10.2017 | 17:11
Lögreglumál
Íslenska þjófylkingin býður ekki fram í alþingiskosningunum síðar í mánuðinum. Ástæðan er óskemmtileg: Galli blasti við á meðmælendalistum er yfirkjörstjórn í Reykjavík leit sem snöggvast á. Einhverjar undirskriftir voru skrifaðar með sömu rithönd. Og það ljótri, frumstæðri og klúðurslegri rithönd, hvíslaði að mér lítill fugl. Með ritvillum til bragðbætis. Til að mynda eitt s í Jónson. Kannski svo sem alveg nóg undir öðrum kringumstæðum.
Þetta er hið versta mál. Það hefði verið gaman að mæla styrk ÍÞ í kjörklefum; hvaða hljómgrunn stefnumál hennar eiga meðal þjóðarinnar. Ennfremur hvaða kjörþokka frambjóðendur hennar hafa. Hann gæti verið meiri en margur heldur. Eða minni.
Verra er með undirskriftirnar. Þar er um saknæmt athæfi að ræða. Skjalafals. Að því er virðist gróft. Yfirkjörstjórn hafði samband við fólk á meðmælalistunum. Meirihluti þeirra fjallagarpa kom af fjöllum. Kannaðist ekki við að hafa ljáið nafn sitt á listana.
Mig grunar helsta keppinaut ÍÞ, Flokk fólksins, um græsku. Þeir hafi sent flugumann inn í herbúðir ÍÞ til að ógilda meðmælalistana. Annað eins hefur gerst í pólitík. Jafnvel rúmlega það. Hæpið er - en ekki útilokað - að einhver sé svo heimskur að halda að hægt sé að komast upp með að falsa meðmælendalista á þennan hátt.
Einn möguleikinn er að einhverjir meðmælendur ÍÞ kunni ekki sjálfir að skrifa nafna sitt. Það er ekki útilokað. Hver sem skýringin er þá hlýtur skjalafalsið að verða kært, rannsakað og glæpamaðurinn afhjúpaður. Að því loknu dæmdur til fangelsisvistar á Kvíabryggju innan um bankaræningja.
![]() |
Íslenska þjóðfylkingin býður ekki fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
11.10.2017 | 06:31
Grófasta lygin
Ég laug ekki beinlínis heldur sagði ekki allan sannleikann. Eitthvað á þessa leið orðaði þingmaður það er hann reyndi að ljúga sig út úr áburði um að hafa stolið þakdúki, kantsteinum, fánum, kúlupenna og ýmsu öðru smálegu. Í aðdraganda kosninga sækir margur í þetta farið. Kannski ekki að stela kantsteinum heldur að segja ekki allan sannleikann. Við erum vitni að því ítrekað þessa dagana.
Grófasta lygin kemur úr annarri átt. Nefnilega Kópavogi. Í Hjallabrekku hefur löngum verið rekin matvöruverslun. Í glugga verslunarinnar blasir við merkingin "10-11 alltaf opin". Hið rétta er að búðin hefur verið harðlæst undanfarna daga. Þegar rýnt er inn um glugga - framhjá merkingunni "10-11 alltaf opin" - blasa við galtómar hillur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)