Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.11.2018 | 00:01
Uppfinningar sem breyta lífi þínu
Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti. Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn. Hugmyndaflugið er ótakmarkað. Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu. Bara tímaspursmál um daga fremur en ár.
Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé. Margnota líftíðareign. Fer vel í stóra vasa.
Augndropar eru til stöðugra vandræða. Þeir hitta ekki á augað. Lenda upp á enni eða niður á kinn. Þar fer dýr dropi til spillist. Augndropatrektin leysir málið. Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu. Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað.
Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður; orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum. Í því ástandi fer hann illa í vasa. Klessist og atar vasann. Bananaboxið er lausnin. Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins. Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman; man ekki stundinni lengur hvað er hvað. Bananaboxið lítur út eins og banani. Enginn ruglast á því.
Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum. Þær staflast illa; kringlóttar og af öllum stærðum. Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar. Þær eru ræktaðar í kassa. Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.11.2018 | 07:27
Hvers vegna þessi feluleikur?
Á níunda áratugnum vann ég á auglýsingastofu. Einn daginn kom Ingvar Helgason á stofuna. Hann rak samnefnda bílasölu. Hann sagðist vera að gera eitthvað vitlaust. Hann væri búinn að kaupa fjölda heilsíðuauglýsinga í dagblöðunum um tiltekinn bíl án viðbragða.
Þegar ég skoðaði auglýsingarnar blasti vandamálið við. Í þeim var bíllinn lofsunginn í bak og fyrir. Hinsvegar vantaði í auglýsingarnar hver væri að auglýsa; hver væri að selja bílinn. Lesandinn gat ekki sýnt nein viðbrögð.
Ég á fleiri sögur af fyrirtækjum sem auglýsa hitt og þetta án upplýsinga um það hver er að auglýsa og hvar hægt er að kaupa auglýstu vöruna.
Í vikunni birtist í Fréttablaðinu heilsíðuauglýsing undir fyrirsögninni "Combo-tilboð". Þar voru myndir af mat og drykk, brauðmeti og allskonar á tilboðsverði. Það er að segja lækkuðu verði - að því er má skiljast.
Undir auglýsinguna er kvittað "netgíró Kvikk". Ekkert heimilisfang. Engin vísbending um hvort um er að ræða sjoppu á Reyðarfirði eða í Keflavík, Stokkseyri eða Hofsósi.
Ég sló inn netgíró.is. Fyrirbærið reyndist vera einhverskonar peningaplottsdæmi. Lánar pening, gefur út greiðslukort og hengir fólk eða eitthvað.
Ég sló inn "kvikk.is". Þar reyndist vera bifreiðaverkstæði. Eftir stendur að ég hef ekki hugmynd um hver er að selja pylsu og gos á 549 kall. Þangað til ég kemst að því kaupi ég pylsu og gos í Ikea á 245 kall. Spara 304 krónur í leiðinni.
Viðskipti og fjármál | Breytt 3.11.2018 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.9.2018 | 04:00
Auglýst eftir konu
Eftirfarandi frásögn svipar til brandara sem fór eins og eldur í sinu á níunda áratug síðustu aldar.
Færeyskur piltur, Klakksvíkingurinn John Petersen, fékk sér far með Dúgvuni, farþegabáti sem siglir á milli Klakksvíkur og Leirvíkur. Um borð keypti hann lakkrís og súkkulaðistykki. Sætaskipan er þannig að allir sitja til borðs með öllum. Ókunnug stúlka settist við sama borð og John. Skyndilega tekur hún sig til og brýtur vænan bita af súkkulaðinu. Honum þótti þetta "ódönnuð" framkoma. Lét samt eins og ekkert væri og fékk sér sjálfur vænan súkkulaðibita. Hún braut sér annan bita. Þá fór að síga í John. Til að tapa ekki restinni upp í stúlkuna gerði hann sér lítið fyrir og sporðrenndi henni með látum eins og langsoltinn hundur.
Kominn á land í Leirvík varð John á að fálma í úlpuvasa sinn. Þar fann hann súkkulaðið ósnert. Rann þá upp fyrir honum að hann væri dóninn. Ekki stúlkan. Hann hafði étið súkkulaði hennar. Hún var horfin úr sjónmáli. Þess vegna hefur hann nú tekið til bragðs að auglýsa eftir henni. Honum er í mun að biðjast afsökunar og útskýra hvað fór úrskeiðis.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
21.9.2018 | 08:11
Bruðlsinnar leiðréttir
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur varpað ljósi á einn anga bruðls með fé skattborgara. Hann var sendur til Grænlands við tíunda mann á fund Norðurlandaráðs. Þar voru samþykktar eldri ályktanir. Snúnara hefði verið að samþykkja þær rafrænt. Óvisst er að allir kunni á tölvu.
Guðmundi var stefnt til Nuuk tveimur dögum fyrir ráðstefnuna. Þar dvaldi hann í góðu yfirlæti á dýrasta hóteli sem hann hefur kynnst; 144 þúsund kall fyrir vikudvöl. Rösklega 20 þúsund kall nóttin.
Bruðlsinnar vísa til þess að einungis sé flogið til Nuuk frá Íslandi einu sinni í viku. Þess vegna hafi íslenskir ráðstefnugestir neyðst til að væflast í reiðuleysi í einhverja daga umfram ráðstefnudaga.
Vandamálið með dýra hótelgistingu sé að einungis eitt hótel finnist í Nuuk.
Hið rétta er að flogið er til og frá Nuuk og Reykjavík þrisvar í viku. Að auki er ágætt úrval af gistingu í Nuuk. Ekki allt 5 stjörnu glæsihótel; en alveg flott gistiheimili á borð við Greenland Escape Acommodation. Nóttin þar er á 11 þúsund kall.
Skoða má úrvalið HÉR.
Góðu fréttirnar - sem allir eru sammála um - eru að ráðstefnugestir fengu í hendur bækling prentaðan á glanspappír með litmyndum. Þar sparaðist póstburðargjald.
Viðskipti og fjármál | Breytt 22.9.2018 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.9.2018 | 23:48
Veitingaumsögn
- Veitingastaður: PHO Vietnam Restaurant, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík
- Réttir: Grísakótelettur og lambakótelettur
- Verð: 1890 - 3990 kr.
- Einkunn: **** (af 5)
Móðir mín á erfitt með gang eftir að hún fékk heilablóðfall. Vinstri hluti líkamans lamaðist. Öllum til undrunar - ekki síst læknum - hefur henni tekist að endurheimta dálítinn mátt í vinstri fót. Nægilegan til að notast við göngugrind. Henni tekst jafnvel að staulast afar hægt um án grindarinnar.
Þetta er formáli að því hvers vegna ég fór með hana á PHO Vietnam Restaurant. Hún er búsett á Akureyri en brá sér í dagsferð til borgarinnar. Henni þykir gaman að kynnast framandi mat. Ég ók með hana eftir Suðurlandsbraut og skimaði eftir spennandi veitingastað með auðveldu aðgengi fyrir fatlaða. Vietnam Restaurant virtist vera heppilegt dæmi. Ég ók upp á gangstétt og alveg að útidyrahurðinni. Þar hjálpaði ég mömmu út úr bílnum og sagði henni að ég yrði eldsnöggur að finna bílastæði.
Mamma var ekki fyrr komin út úr bílnum en ungur brosmildur þjónn staðarins spratt út á hlað, studdi hana inn og kom henni í sæti. Aðdáunarverð þjónusta. Þetta var á háannatíma á staðnum; í hádegi.
PHO Vietnam Restaurant er fínn og veislulegur staður.
Ég fékk mér grillaðar grísakótelettur. Mamma pantaði sér grillaðar lambakótelettur. Meðlæti voru hvít hrísgrjón, ferskt salat og afar mild súrsæt sósa í sérskál. Á borðum var sterk chili-sósa í flösku. Við forðumst hana eins og heitan eld. Þóttumst ekki sjá hana.
Réttirnir litu alveg eins út. Þess vegna er undrunarefni að minn réttur kostaði 1890 kr. en lambakóteletturnar 3990 kr. Vissulega er lambakjöt eilítið dýrara hráefni. Samt. Verðmunurinn er ekki svona mikill.
Kóteletturnar litu ekki út eins og hefðbundnar kótelettur. Engin fituarða var á þeim. Fyrir bragðið voru þær dálítið þurrar. Vegna þessa grunar mig að þær hafi verið foreldaðar. Sem er í góðu lagi. Ég var hinn ánægðasti með þær. Mömmu þóttu sínar aðeins of þurrar. Að auki fannst henni þær skorta íslenska lambakjötsbragðið; taldi fullvíst að um víetnamskt lamb væri að ræða. Ég hef efasemdir um að veitingastaður á Íslandi sé að flytja til Íslands lambakjöt yfir hálfan hnöttinn. Nema það sé skýringin á verðmuninum.
Kóteletturnar, þrjár á mann, voru matarmiklar. Hvorugu okkar tókst að klára af disknum.
Að máltíð lokinni sagði ég mömmu að hinkra við á meðan ég sækti bílinn. Er ég lagði aftur upp á stétt sá ég hvar brosandi þjónn studdi mömmu út. Annar en sá sem studdi hana inn. Til fyrirmyndar.
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.9.2018 kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.9.2018 | 00:07
Ný verslun, gamalt verð
Í vikunni hafa stórar tveggja blaðsíðna auglýsingar birst í dagblöðum. Þar er boðað að splunkuný verslun verði opnuð með stæl í dag (laugardaginn 1. september). Gefin eru upp skapleg verð á skóm og fleiri vörum. Svo skemmtilega vill til að einnig eru gefin upp önnur og hærri verð á sömu vörum. Fyrir framan þau segir: Verð áður. Hvernig getur búð vitnað í eldra verð sem gilti áður en hún var opnuð?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.8.2018 | 08:21
Örstutt smásaga um bílaverkstæði
Stelpurnar á bílaverkstæðinu Þrjú hjól undir bílnum raða sér í kringum eldhúsborðið. Það er kaffitími. Sigga "litla" brestur í grát. Hún grætur með hljóðum eins og kornabarn. Hinar stelpurnar þykjast taka ekki eftir þessu. Þetta gengur vonandi fljótt yfir. Svo reynist ekki vera. Hún gefur í. Korteri síðar spyr Sigga "sprettur": "Hvað er að? Meiddir þú þig í tánni?"
"Ég fékk uppsagnarbréf áðan," upplýsir Sigga "litla". "Mér er gert að rýma skrifborðið mitt fyrir klukkan fimm." Henni er eins og smávegis létt. Nokkuð slær á grátinn.
"En þú ert sú eina sem kannt á kaffivélina," mótmælir Sigga "stóra". Hún fær þegar í stað kvíðakast. Sigga "litla" róar hana: "Þið getið notað hraðsuðuketilinn og skipt yfir í te."
"Kakómjólk er líka góð," skýtur Sigga "sæta" að. "Hún er sérlega góð með rjómatertu sem er skreytt með jarðaberjum og kíví. Ég hef smakkað svoleiðis. Ég hef líka smakkað plokkfisk."
Kaffispjallið er truflað þegar inn þrammar stór, spikfeitur og tröllslegur maður. Hann hefur rakað af sér vinstri augabrúnina. Fyrir bragðið er léttara yfir þeim hluta andlitsins. "Ég þarf að láta stilla bílinn minn," segir hann.
"Stilla vélina?" spyr Sigga "litla" kjökrandi.
"Nei, útvarpið. Það er stillt á Rás 2. Ég vil að það sé stillt á rás 1."
"Ekkert mál. Þú mátt sækja bílinn á föstudaginn í næstu viku."
"Frábært! Lánið þið manni bíl á meðan?"
"Nei, en við getum leigt þér reiðhjól. Reyndar er það í barnastærð. Á móti vegur að leigan er lág. Aðeins 7000 kall dagurinn."
"Ég hef prófað að setjast á reiðhjól. Þá datt ég og fékk óó á olnbogann. Kem ekki nálægt svoleiðis skaðræðisgrip aftur. Ég kaupi mér frekar bíl á meðan þið dundið við að stilla á Rás 1."
"Þú getur líka keypt pylsuvagn. Hérna neðar í götunni er einn til sölu."
"Takk fyrir ábendinguna. Þetta lýst mér vel á. Ég skokka þangað léttfættur sem kiðlingur." Hann kjagar umsvifalaust af stað. Í vitlausa átt.
Andrúmsloftið er léttara.
"Eigum við ekki að syngja kveðjusöng fyrir Siggu "litlu?", stingur Sigga "sprettur" upp á. Því er vel tekið. Fyrr en varir hljómar fagurraddað "Éttu úldinn hund kona, éttu úldinn hund".
Þetta er svo fallegt að Siggu "litlu" vöknar enn og aftur um augu. Hún hugsar með sér að úldið hundakjöt þurfi ekki endilega að vera síðra en þorramatur. Kannski bara spurning um rétt meðlæti.
Er síðustu söngraddirnar fjara út grípur Sigga "sprettur" tækifærið og biður Siggu "litlu" um að tala við sig undir fjögur augu. Þær ganga út á mitt gólf.
"Hvað er málið með þennan brottrekstur?"
"Ég fékk formlega viðvörun fyrir 3 mánuðum. Mér var hótað brottrekstri ef ég bætti ekki mætinguna. Þú veist að ég sef of oft yfir mig. Vekjaraklukkan er til vandræða. Hún gengur fyrir rafmagni. Þegar rafmagni slær út þá fer klukkan í rugl."
"Þú færð þér þá bara batterísklukku."
"Ég get það ekki. Ég á ekkert batterí."
"Það er einhver skekkja í þessu. Þú stofnaðir verkstæðið. Þú ert eini eigandi þess og ræður öllu hérna. Hvernig getur þú rekið sjálfa þig?"
"Að sjálfsögðu hvarflar ekki að mér að mismuna fólki eftir því hvort að um eiganda eða óbreyttan launþega ræðir. Annað væri spilling. Svoleiðis gera Íslendingar ekki. Hefur þú ekki lesið blöðin? Ísland er óspilltasta land í heimi."
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.6.2018 | 00:24
Íslenska leiðin
Maður sem við köllum A var fyrirtækjaráðgjafi Glitnis. Hann gaf fátækum vinum olíufyrirtækið Skeljung. Þetta var sakleysisleg sumargjöf. Hún olli þó því að A var rekinn með skömm frá Glitni. Eðlilega var hann þá ráðinn forstjóri Skeljungs. Um leið réði hann þar til starfa nokkra vini úr bankanum. Þeirra í stað rak hann nokkra reynslubolta. Hinsvegar er hjásvæfa hans ennþá í vinnu hjá Skeljungi. Það er önnur saga og rómantískari.
Skeljungur keypti Shell í Færeyjum. Nokkru síðar var starfsmaður færeyska Shell ráðinn forstjóri Skeljungs. Síðan er fyrirtækinu stýrt frá Færeyjum. Þetta þótti einkennilegt. Hefðin var sú að framkvæmdastjóri tæki við forstjórastóli.
Fyrsta verk færeyska forstjórans var að kaupa hlutabréf í Skeljungi á undirverði og selja daginn eftir á yfirverði. Lífeyrissjóðir toguðust á um að kaupa á yfirverðinu. Kauði fékk í vasann á einum degi 80 milljónir eða eitthvað. Þetta er ólíkt Færeyingum sem öllu jafna eru ekki að eltast við peninga.
Persóna A var óvænt orðin meðeigandi Skeljungs. Hann (kk) og vinirnir seldu sinn hlut í Skeljungi á 830 milljónir á kjaft.
Þetta er einfalda útgáfan á því hvernig menn verða auðmenn á Íslandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.5.2018 | 03:38
Skelfilegur laxadauði
Laxeldi í kvíum er í sviðsljósinu í kjölfar áhugaverðrar heimildarmyndar eftir Þorstein J. Vilhjálmsson. Hún var sýnd í sjónvarpinu í síðustu viku. Töluverður vandræðagangur virðist ríkja í laxeldinu hér. Margt er á gráu svæði sem full ástæða er til að vera á verði gagnvart.
Arnarlax fyrir vestan skilaði góðu tapi vegna dauða laxa í vetur. Ofkæling.
Í Noregi er sömuleiðis sitthvað úr skorðum í laxeldi. Þar ganga nú yfir skelfileg afföll. Laxinn drepst í hrönnum. Í janúar-mars drápust 13,6 milljón laxar. Það er 30% aukning frá sama tímabili í fyrra. Allt það ár drápust 53 milljónir úr veikindum áður náðist að slátra þeim.
Sökudólgurinn er vandræðagangur með úrgang, aflúsun og eitthvað þessháttar. Þetta er dýraníð.
Eins og með svo margt er annað og betra að frétta frá Færeyjum. Þar blómstrar laxeldið sem aldrei fyrr. Nú er svo komið að laxeldið aflar Færeyingum meira en helmingi alls gjaldeyris. Langstærsti kaupandinn er Rússland. Íslendingar geta ekki selt Rússum neitt. Þökk sé vopnasölubanninu sem Gunnar Bragi setti á þá.
Ólíkt laxeldi á Íslandi er í Færeyjum engin hætta á blöndun eldislax og villtra laxa. Ástæðan er sú að lítið er um villtan lax í Færeyjum. Um miðja síðustu öld fengu Færeyingar nokkur íslensk laxaseyði. Þeim slepptu þeir í tvö lítil vötn sem litlar lækjasprænur renna úr. Laxveiðar þar eru þolinmæðisverk. Laxarnir eru svo fáir. Þegar svo ótrúlega vill til að lax bíti á þá er skylda að sleppa honum aftur umsvifalaust.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.5.2018 | 04:06
Hvað er í gangi?
Ikea er fyrirmyndarfyrirtæki. Þar fæst allskonar á þokkalegu verði. Meðal annars sitthvað til að narta í. Líka ýmsir drykkir til að sötra. Í kæliskáp er úrval af ungbarnamauki. Ég er hugsi yfir viðvörunarskilti á skápnum. Þar stendur skrifað að ungbanamaukið sé einungis ætlað ungbörnum. Ekki öðrum.
Brýnt hefur þótt að koma þessum skilaboðum á framfæri að gefnu tilefni. Hvað gerðist? Var gamalt tannlaust fólk að hamstra ungbarnamaukið? Hvert er vandamálið? Ekki naga tannlausir grísarif eða kjúklingavængi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)