Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
2.5.2018 | 00:12
Ekki skipta um röð!
Hver kannast ekki við að vera dálítið á hraðferð, skreppa í stórmarkað, kaupa eitthvað smotterí og koma að langri biðröð við alla afgreiðslukassa? Þá þarf í skyndingu að vega og meta stöðuna. Innkaupakerrur sumra í röð eru sneisafullar af óþörfu drasli. Í annarri en lengri röð eru hinsvegar flestir með fátt annað en brýnustu nauðsynjar; mjólk, brauð og smávegir af nammi frá Nóa Síríus.
Þarna þarf að velja á milli. Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt af viðskiptafræðideild Harvard háskóla. Í rannsókninni voru einnig skoðaðar biðraðir á flugstöðvum og í pósthúsum.
Niðurstaðan er sú að fólk velur rétta biðröð í fyrstu atrennu. Sá sem fær bakþanka og færir sig yfir í aðra röð endar á því að vera afgreiddir seinna en sá sem er næstur á eftir honum í röðinni sem hann yfirgefur.
-----------------------------
Fróðleiksmoli: Hvert sem bresku Bítlarnir fóru - eftir að þeir slógu í gegn - mynduðust langar biðraðir eftir að sjá þá og kaupa miða. Eftirspurn var miklu meiri en framboð. Fjöldi manns slasaðist í biðröðunum vegna troðnings og æsings í Bandaríkjunum. Hámarkið var hljómleikaferð til Ástralíu. Biðraðir töldu kvartmilljón manns (250.000) og þær teygðu sig yfir 15 kílómetra.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2018 | 07:51
Á svig við lög
Lög, reglur og boðorð eru allavega. Sumt er spaugilegt. Til að mynda að bannað sé að spila bingó á föstudaginn langa. Mannanafnanefnd er botnlaus uppspretta skemmtiefnis. Verst að hún þvælist líka fyrir sumu fólki og gerir því lífið leitt. Þess á milli er hún rassskellt af erlendum dómstólum. Einnig af einstaklingum. Austurískur kvikmyndagerðarmaður, Ernst Kettler, flutti til Íslands á síðustu öld. Þegar hann fékk íslenskan ríkisborgararétt þá var hann skikkaður til að taka upp rammíslenskt nafn. Hann skoðaði lista yfir öll samþykkt íslensk nöfn og sótti um að fá að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy. Uppi varð fótur og fit. Ríkisstjórnin hafði leyft heimsfrægum píanóleikara með þessu nafni að fá íslenskan ríkisborgararétt og halda nafninu. Þar með var það viðurkennt sem íslenskt nafn.
Eftir jaml, japl og fuður varð niðurstaðan sú að Alþingi breytti mannanafnalögum. Felldi niður kröfuna um að innflytjendur þyrftu að taka upp rammíslenskt nafn. Taldi það skárri kost en að Ernst fengi að taka upp nafnið Vladimir Ashkinazy.
Hestanafnanefnd er líka brosleg.
Refsilaust er að strjúka úr fangelsi á Íslandi. Það er að segja ef flóttafanginn er einn á ferð.
Boðorðin 10 eru að sumu leyti til fyrirmyndar. Einkum það sem boðar: Þú skalt ekki girnast þræl náunga þíns né ambátt. Ég vona að flestir fari eftir þessu.
Í Noregi er bannað að afgreiða sterkt áfengi í stærri skammti en einföldum. Þú getur ekki farið inn á bar og beðið um tvöfaldan viskí í kók. "Það er stranglega bannað að selja tvöfaldan sjúss að viðlagðri hárri sekt og jafnvel sviptingu áfengisleyfis," upplýsir þjónninn. En til að koma til móts við viðskiptavininn segir hann í hálfum hljóðum: "Þú mátt panta tvo einfalda viskí í kók. Það er ekki mitt mál að fylgjast með því hvort að þú hellir þeim saman í eitt glas."
Viðskipti og fjármál | Breytt 4.5.2018 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.4.2018 | 00:04
Drekkur þú of mikið vatn?
Vatn er gott og hollt. Einhver besti drykkur sem til er. Við Íslendingar erum svo lánssamir að eiga nóg af góðu drykkjarvatni úr krana. Fæstir jarðarbúa eru svo heppnir. Þeim mun einkennilegra er að Íslendingar skuli þamba daglega litað sykurleðjuvatn í sama mæli og Bandaríkjamenn.
Samkvæmt prófessor í Árhúsum í Danmörku (www.samvirke.dk) er of mikil vatnsdrykkja jafn varasöm og of lítil vatnsdrykkja. Of mikil vatnsdrykkja getur sett svo mikið álag á nýrun að hún valdi vatnseitrun. Þig svimar, færð krampa, verður máttlaus og í versta tilfelli deyrð. Sjaldgæft en gerist þó árlega.
Þumalputtareglan er sú að drekka ekki meira vatn en sem nemur 1/30 af líkamsþyngd. 60 kílóa manneskju hentar að drekka 2 lítra af vökva á dag. 90 kg manneskju hentar að drekka 3 lítra. Við útreikninginn er brýnt að taka með í reikninginn allan vökva. Ekki aðeins vatn. Líka vökvarík fyrirbæri á borð við súpur, te, agúrkur, tómata og jarðarber.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.3.2018 | 01:59
Hvenær er sumarfrí SUMARfrí?
Á eða í Smáratorgi eru tveir ljómandi góðir matsölustaðir. Annar er asískur. Þar er hægt að blanda saman allt að þremur réttum. Einhverra hluta vegna er það 100 krónum dýrara en að blanda saman tveimur réttum. Ódýrast er að kaupa aðeins einn rétt. Engu að síður er eins réttar skammturinn alveg jafn stór og þriggja rétta máltíðin. Verðið ætti þess vegna að vera hið sama.
Hinn veitingastaðurinn heitir Food Station. Margir rugla honum saman við Matstöðina vestast í Kópavogi. Nöfnin eru vissulega lík. Annað þó þjóðlegra. Þessa dagana er Food Station lokuð. Á auglýsingatrönu fyrirtækisins stendur: "Lokað vegna sumarleyfa frá 15. mars til 4. apríl". Í mínum huga er ekkert sumarlegt við mars. Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl. Hann er meira að segja of snemma. Myndi heita vordagurinn fyrsti ef ekki væri nokkru áður frjósemishátíð vorsins, kennd við frjósemisgyðjuna Easter (páskar).
17.3.2018 | 06:25
Samgleðjumst og fögnum!
Aldrei er hægt að gera Íslendingum til hæfis. Stöðugt er kvartað undan lágum launum, lélegri sjónvarpsdagskrá og öðru sem skiptir máli. Nú beinist ólund að Neinum fyrir það eitt að forstjórinn náði að hækka laun sín um 20,6% á milli ára.
Að óreyndu mátti ætla að landsmenn samfögnuðu forstjóranum. Það væri gleðifrétt að eigendur Neins - lífeyrissjóðirnir og lífeyrissjóðsfélagar - hefðu efni á að borga honum næstum 6 milljónir á mánuði (þrátt fyrir hratt minnkandi hagnað olífélagsins undir stjórn ódýra forstjórans). En ónei. Í samfélagsmiðlum og heitum pottum sundlauga hvetja menn hvern annan til að sniðgöngu. Með þeim árangri að um þessar mundir sjást fáir á ferli við bensínstöðvar fyrirtækisins. Eiginlega bara hálaunamenn, svo sem stjórnarmenn lífeyrissjóðanna.
Svo verður þetta gleymt eftir helgi.
![]() |
Allir fái sömu hækkun og forstjórinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.3.2018 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.3.2018 | 07:13
Danir fjárfesta í Íslendingi
Í fyrrakvöld horfði ég á dönsku sjónvarpsstöðina DR1. Á dagskrá var þáttur sem heitir Lövens Hule. Í þættinum eru ný fyrirtæki sett undir smásjá. Forsvarsmenn þeirra eru yfirheyrðir og farið yfir áætlanir. Fjárfestum gefst færi á að kaupa fyrir lítinn pening smáan hlut í vænlegum hugmyndum. Ég man eftir íslenskri útgáfu af þessum þætti í - að mig minnir - Rúv.
Í þættinum í DR1 kynnti Íslendingur, Guðmundur Örn Ísfeld, vinylplötufyrirtæki sitt RPM Records. Hann flutti til Danmerkur fyrir nokkrum árum. Fyrir jól bloggaði ég um þetta fyrirtæki. Sjá HÉR
RPM Records hefur ekki ennþá hafið starfsemi. Það er verið að setja upp flókinn tækjabúnaðinn og innrétta aðstöðuna. Engu að síður sló uppskriftin í gegn í sjónvarpsþættinum. Tveir fjárfestar keyptu sitthvorn hlutinn á 8.350.000 ísl kr. (500.000 danskar krónur). Samtals 16,7 milljónir.
Í sögu Lövens Hule hafa viðbrögð ekki verið jafn jákvæð og skilað þetta hárri upphæð. Íslendingurinn Guðmundur Örn Ísfeld er að gera verulega gott mót í Danaveldi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 2.3.2018 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2018 | 07:13
Færeyingar innleiða þorrablót
Þorrablót er gamall og góður íslenskur siður. Ungt fólk fær tækifæri til að kynnast fjölbreyttum og bragðgóðum mat fyrri alda. Það uppgötvar að fleira er matur en Cocoapuffs, Cheerios, pizzur, hamborgarar, djúpsteiktir kjúklingabitar og franskar kartöflur. Flestir taka ástfóstri við þorramat. Þannig berst þorramatarhefðin frá kynslóð til kynslóðar.
Víða um heim halda Íslendingafélög myndarleg þorrablót. Í einhverjum tilfellum hefur fámennur hópur Íslendinga í Færeyjum haldið þorrablót. Nú bregður svo við að Færeyingar halda þorrablót næsta laugardag.
Skemmtistaðurinn Sirkus í Þórshöfn, kráin Bjórkovin (á neðri hæð Sirkuss) og Borg brugghús á Íslandi taka höndum saman og bjóða Færeyingum og Íslendingum á þorrablót. Allar veitingar ókeypis (þorrablót á Íslandi mættu taka upp þann sið). Boðið er upp á hefðbundinn íslenskan þorramat, bjórinn Surt, snafs og færeyskt skerpukjöt.
Gaman er að Færeyingar taki þorrablót upp á sína arma. Hugsanlega spilar inn í að eigandi Sirkus og Bjórkovans, Sunneva Háberg Eysturstein, vann sem dyravörður á íslenska skemmtistaðnum Sirkus við Klapparstíg um aldarmótin. Hér kynntist hún þorrablótum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.1.2018 | 00:15
Ósvífinn þjófnaður H&M
Færeyskir fatahönnuðir eru bestir í heimi. Enda togast frægar fyrirsætur, fegurðardrottningar, tónlistarfólk og fleiri á um færeyska fatahönnun.
Fyrir tveimur árum kynnti færeyski fatahönnuðurinn Sonja Davidsen til sögunnar glæsilegan og smart kvennærfatnað. Hún kynnir hann undir merkinu OW Intimates. Heimsfræg módel hafa sést spranga um í honum. Þ.á.m. Kylie Jenner.
Nú hefur fatakeðjan H&M stolið hönnuninni með húð og hári. Sonju er eðlilega illa brugðið. Þetta er svo ósvífið. Hún veit ekki hvernig best er að snúa sér í málinu. Fatahönnun er ekki varin í lögum um höfundarrétt. Eitthvað hlýtur samt að vera hægt að gera þegar stuldurinn er svona algjör. Þetta er spurning um höfundarheiður og peninga.
Á skjáskotinu hér fyrir neðan má sjá til vinstri auglýsingu frá Sonju og til hægri auglýsingu frá H&M. Steluþjófahyski.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.1.2018 | 05:28
Sápuóperan endalausa
Þessa dagana auglýsir Skeljungur grimmt eftir starfsfólki: Sölumönnum í Reykjavík og einnig umboðsmanni á Austurlandi. Þetta er athyglisvert. Ekki síst í ljósi þess að fyrir jól sagði fyrirtækið upp 29 manns (um það bil þriðjungur starfsliðs). Sennilega eru hinir brottræku enn á launaskrá en var gert að yfirgefa vinnustaðinn samdægurs.
Hröð starfsmannavelta og óreiða einkenna reksturinn. Líka tíð eigendaskipti. Nýir eigendur hafa komið, ryksugað fyrirtækið innanfrá og farið. Hver á fætur öðrum. Einn hirti meira að segja - í skjóli nætur - öll málverk ofan af veggjum.
Nýr forstjóri tók til starfa í vetrarbyrjun. Hann er búsettur í Færeyjum og fjarstýrir Skeljungi þaðan. Hans fyrsta verk í forstjórastóli var að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á undirverði og selja þau daginn eftir á fullu verði. Mismunur/hagnaður skilaði honum yfir 80 milljónum króna í vasa á þessum eina degi.
Lífeyrissjóðirnir eru alltaf reiðubúnir að kaupa hlutabréfin á hæsta verði. Jafnvel á yfirverði - eins og eftir að fyrirtækið sendi út falsfrétt um að það væri að yfirtaka verslunarkeðjuna 10-11. Það var bara plat til að snuða lífeyrissjóði.
Þetta er sápuóperan endalausa.
Viðskipti og fjármál | Breytt 19.1.2018 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
10.1.2018 | 06:05
Verðlag
Á Aktu-Taktu í Garðabæ var seld samloka á 1599 kr. Á milli brauðsneiðanna var smávegis kál, lítil ostsneið og sósa. Þetta var kallað vegan (án dýraafurða). Osturinn var að vísu úr kúamjólk. Í sósunni voru einhverjar dýraafurðir líka. Sennilega eggjarauða og eitthvað svoleiðis.
Vissulega var samlokan ekki upp á marga fiska. Ég set stærra spurningamerki við það að einhver sé reiðubúinn til að borga 1599 kr. fyrir samloku. Að vísu...já, Garðabæ.
Til samanburðar: Í Manchester á Englandi bjóða matvöruverslanir - nánast allar - upp á svokallað "3ja rétta tilboð" (3 meals deal). Það samanstendur af samlokuhorni, langloku eða vefju að eigin vali (áleggið er ekki skorið við nögl - ólíkt íslenska stílnum) + drykk að eigin vali + snakkpoka að eigin vali (kartöfluflögur, popkorn eða eitthvað álíka).
Þessi pakki kostar 3 pund sem jafngildir 429 ísl. kr. Ég valdi mér oftast samlokuhorn með beikoni og eggjum (um það bil tvöfaldur skammtur á við íslenskt samlokuhorn), ásamt hálfum lítra af ávaxtaþykkni (smoothies) og bara eitthvað snakk.
Á Íslandi kostar samlokuhorn um 600 kall. Kvartlítri af smoothies kostar um 300 kall. Þannig að hálfu lítri er á um 600 kall. Ætli snakkpoki á Íslandi sé ekki á um 300 kall eða meir.
Þetta þýðir að íslenskur 3ja rétta pakki er að minnsta kosti þrisvar sinnum dýrari en pakkinn í Manchester.
Í Manchester selja veitingahús enskan morgunverð. Að sjálfsögðu. Hann samanstendur oftast af tveimur saugagest pylsum (veit ekki hvað þær heita á íslensku), tveimur vænum beikonsneiðum (hvor um sig rösklega tvöföld að stærð í samanburði við íslenskar. Og með aðeina örlítilli fiturönd), grilluðum tómat, bökuðum baunum, ýmist einu eða tveimur spældum eggjum, tveimur hasskökum (hash browns = djúpsteiktri kartöflustöppu mótaðri í teygðum þríhyrning), ristuðum brauðsneiðum með smjöri; ýmist einum stórum pönnusteiktum sveppi eða mörgum litlum.
Enski morgunverðurinn kostar frá 3,75 pundum (537 ísl. kr.). Þetta er saðsöm máltíð. Maður er pakksaddur fram eftir degi. Nokkrir veitingastaðir á Íslandi selja enskan morgunverð - á 2000 kall.
4ra dósa kippa af 5% 440 ml dósum kostar 4 pund (572 ísl kr. = 143 kr.dósin). Ódýrasta bjórdósin á Íslandi kostar 249 kall (Euroshopper 4,6%).
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)