Færsluflokkur: Útvarp

Önnur plata fyrrverandi borgarstjóra

 

  Það er skammt stórra högga á milli.  Haustið 2016 spratt fram á völl nýr en fullskapaður tónlistarmaður á sjötugsaldri.  Þar var kominn heimilislæknirinn,  fjallgöngugarpurinn,  umhverfisverndarkappinn og besti borgarstjóri Reykjavíkur,  Ólafur F.  Magnússon,  með hljómplötuna "Ég elska lífið".  Bættust þá við á hann titlarnir lagahöfundur, ljóðskáld og söngvari.

  Í lok liðins árs hristi Ólafur fram úr erminni aðra plötu.  Sú heitir "Vinátta" eftir opnulaginu.  Ljóðið er heilræðisvísa; eins og fleiri á plötunni.  Önnur yrkisefni eru m.a. Tyrkjaránið sem svo er kallað (Við Ræningjatanga) og þjóðhátíðarljóð Vestmannaeyja 1932 (Heimaey).  Höfundur þess síðarnefnda er Magnús Jónsson, langafi Ólafs.  Aðrir textar eru eftir ÓLaf.  Hann er sömuleiðis höfundur allra laga.  Meðhöfundur tveggja er Vilhjálmur Guðjónsson.  Sá snillingur sér jafnframt um útsetningar og hljóðfæraleik.  Í tveimur lögum í samvinnu við Gunnar Þórðarson.  Gunni afgreiðir einn útsetningu og kassagítarplokk í laginu "Við Ræningjatanga".

  "Vinátta" er jafnbetri/heilsteyptari plata en "Ég elska lífið".  Er "Ég elska lífið" þó ljómandi góð.  Þar syngur Ólafur aðeins helming laga.  Á nýju plötunni syngur hann öll lög nema eitt.  Í lokalaginu, "Lítið vögguljóð",  syngur Guðlaug Dröfn Ólafsdóttur á móti honum.  Hún hefur afar fagra, hljómþýða og agaða söngrödd sem fellur einstaklega vel að söngrödd Ólafs.  Hann er prýðilegur dægurlagasöngvari.  Syngur af einlægni og innlifun með notalegri söngrödd.

  Lög hans eru söngræn, snotur og hlýleg.  Ljóðin eru haganlega ort og innihaldsrík með stuðlum og höfuðstöfum.  Standa keik hvort heldur sem er án eða með tónlistinni.           

  Tónlistin ber þess merki að Ólafur lifir og hrærist í klassískri tónlist.  Útsetningar eru hátíðlegar,  lágstemmdar og sálmakenndar.  Eitt lagið heitir meira að segja "Skírnarsálmur".  Annað er barokk (Þú landið kæra vernda vilt).  Hið þriðja er nettur vals (Ísafold).  Þannig má áfram telja.

  Eitt lag sker sig frá öðrum hvað varðar útsetningu, flutning og áferð.  Það er "Bláhvíti fáninn".  Þar syngur óperusöngvarinn Elmar Gilbertsson um gamla íslenska fánann.  Hann er rosalega góður og þróttmikill söngvari.  Þenur sig kröftuglega.  Kannski þekktastur fyrir hlutverk Daða í óperunni um Ragnheiði Brynjólfsdóttur.   "Bláhvíti fáninn" er sterkur og hástemmdur ættjarðaróður sem leysir "Öxar við ána" af með glæsibrag.  

  Ég óska Ólafi til hamingju með virkilega góða plötu,  "Vináttu". Hún fæst í verslun 12 Tóna á Skólavörðustíg. 

 


Uppreisn gegn karllægu tungumáli

  Íslenskan er mjög karllægt tungumál.  Jón Gnarr hefur tekið eftir því.  Hann stýrir skemmtilegum síðdegisþætti á Rás 2 á laugardögum (Sirkus Jóns Gnarr).  Þar sker hann meðvitað upp herör gegn þessum kynjahalla tungumálsins.  Heyrist þá glöggt hvað hallinn er yfirþyrmandi og allt í kring.  Þannig til að mynda ávarpar hann hlustendur með orðunum:  "Komið þið sælar hlustendur góðar."

  Svo einkennilega vill til að einstök erlend tungumál eru líka karllæg.  Eitt þeirra er enska.  Yfirstjórn breskra hermála gerir nú gangskör í að leiðrétta þetta.  Hún hefur tekið saman lista upp á tvær blaðsíður yfir orð sem má ekki nota í hernum og hvaða orð skuli nota í staðinn.  Dæmi (rauðu orðin eru bannorð.  Hin eiga að koma í þeirra stað):

Maður = fólk, persóna

Heiðursmannasamkomulag = óskráð samkomulag

Húsmóðir = heimavinnandi

Drenglyndi = sanngirni

  Önnur dæmi er erfitt að þýða yfir á íslensku öðruvísi en lenda á eintómum karllægum orðum.  Þar á meðal þessi:

Manpower = human resources

Forefathers = ancestors, forebears

Delivery man = delivery clerk, courier

Mankind = humanity, humankind, human race, people

  Margir breskir hermenn hafa brugðist ókvæða við.  Þeim finnst að herinn eigi að sinna hagnýtari hlutum en að endurskrifa tungumálið.  Talsmenn hersins segja á móti að þetta sé hagnýtt skref inn í framtíðina.  Það muni auðvelda yfirmönnum að ávinna sér virðingu og traust á meðal kvenna, samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, kynskiptinga og svo framvegis.  Herinn þarf á því að halda.

   


Oasis-bræður

  Dagblöðin í Manchester á Englandi skrifa um sína frægustu syni,  Oasis-bræður,  Liam og Noel Gallgher,  á hverjum einasta degi.  Líka önnur bresk dagblöð.  Að vísu er ég ekki alveg með það á hreinu hvort að alltaf sé á landsvísu að ræða vegna þess að sum bresk dagblöð eru með sér-Manchester útgáfur.  En Oasis-bræður eru yfirlýsingaglaðir og gott fréttaefni.  Einkum Liam.  Tísta (twitter) daglega.  Gefa Dóna Trump ekkert eftir.

  Gítarleikarinn Noel Gallagher gerir út á Oasis-lög á hljómleikum. Liam tístir að það sé sama hvað Noel rembist á hljómleikum þá muni hann,  Liam, alltaf vera tíu sinnum betri söngvari.  Sem reyndar er allt að því rétt.

  Þrátt fyrir stöðugar pillur á milli bræðranna vakti athygli að Liam sendi Noel hlýjar jólakveðjur.  Sem sá endurgalt ekki. 

  Noel lýsti því yfir um jólin að um leið og Brexit taki gildi (útganga úr Evrópusambandinu) þá flytji hann frá Manchester til Írlands.  Brexit muni - að hans sögn - kosta enska tónlistarmenn meiriháttar vandamál og einangrun.  Vegabréfavandræði,  atvinnuleyfavandræði og þess háttar. 

  Þetta var borið undir Liam.  Hann svaraði því til að bróðir sinn sé heimskur að taka mark á landamærum.  Landamæri séu uppfinning djöfulsins. 

 


Íslendingar mættu taka sér Manchester til fyrirmyndar

  Nýkominn heim frá Manchester bloggaði ég á þessum vettvangi um blómlegt tónlistarlíf þar í borg.  Um það má lesa hér fyrir neðan.  Heimamenn gera sér grein fyrir þessu.  Og gera sér mat úr því.  Veggir stigagangs gistiheimilis er hýsti mig eru skreyttir stórum ljósmyndum af heimsþekktum poppstjörnum frá Manchester. 

  Ég álpaðist inn í plötubúð, Fopp.  Ég hef víðar séð plötubúðir undir þessu nafni.  Nema að þarna í miðborg Manchester blasa við á miðju gólfi tveir veglegir plöturekkar.  Þeir eru pakkaðir af plötum með Manchester-tónlist.  Einungis Manchester-tónlist.  Við hlið rekkanna eru jafnframt staflar af bókum um Manchester-poppara, sem og stórar veggmyndir af þeim. 

  Þetta er til fyrirmyndar.  Ég hef löngum gagnrýnt sinnuleysi Íslendinga gagnvart heimsfrægð íslenskra tónlistarmanna.  Ef vel væri að verki staðið væri flugstöðin í Sandgerði undirlögð risastórum veggmyndum af Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men, Kaleo,  Emilíönu Torríni,  Hilmari Erni Hilmarssyni og svo framvegis.  Götur og torg væru jafnframt kennd við þessar sömu poppstjörnur.  Framsóknarflokkurinn hefur viðrað hugmynd um að reisa styttu af Björk fyrir utan Hörpu.  Gott innlegg í umræðuna - þó ég setji spurnarmerki við styttur bæjarins (sem enginn nennir að horfa á).  


Frægir í Manchester

  Fyrr á þessari öld vandi ég mig á að fagna jólum og áramótum í útlöndum.  Einhver verður að gera það.  Þetta hentar mér vel.  Einkum að taka frí frá snjó og frosti.  Líka að komast að því hvernig útlendingar fagna vetrarsólstöðum og nýju ári.  Að þessu sinni varð Manchester á Englandi fyrir valinu.  Notaleg borg.  Hlýtt alla daga á þessum árstíma.  Smá rigning á næstum því hverjum degi.  Samt ekki svo að þurft hafi að spenna upp regnhlíf.

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Öfugt við Manchesterbúa.  Ég komst ekki hjá því að heyra í útvarpinu þeirra eitthvað um velgengi í boltabrölti.  Hitt veit ég að Manchester er stórveldi á heimsmælikvarða í tónlist.  Eiga það sameiginlegt með Íslendingum.  Okkar 340 þúsund manna þjóð státar af ótrúlega mörgum heimsfrægum tónlistarnöfnum.  Hæst bera Björk, Sigur Rós, Of Monsters and Men og Kaleo.  Fleiri Íslendingar hafa náð góðri stöðu á heimsmarkaði - en á afmarkaðri markaði og teljast því ekki beinlínis heimsfrægir.  Sólstafir hafa tröllriðið vinsældalistum í Finnlandi og Þýskalandi.  Skálmöld er þekkt í evrópsku þungarokkssenunni.  Jóhann Jóhannsson er þekktur í kvikmyndatónlist.  Líka Hilmar Örn Hilmarsson og fleiri.  Til viðbótar eru með ágæta stöðu á í tilteknum löndum nöfn eins og Emilíana Torrini,  FM Belfast, Múm, Steed lord...

  Ánægjulegur árangur íslenskra tónlistarmanna á heimsmarkaði hefur vakið undrun heimspressunnar. Hefur sömuleiðis skilað drjúgum skerf í ábatasaman ferðamannaiðnað hérlendis.  Takk fyrir það.  Hátt í 600 þúsund milljónir á síðasta ári.

  Til samanburðar hefur Manchester mun sterkari stöðu í tónlist.  Líka þó að miðað sé við höfðatölu.  Íbúar Manchester eru rösklega 540 þúsund.  59% fleiri en Íslendingar.  Heimsfræg tónlistarnöfn Manchester eru um margir tugir.  Þar af mörg af þeim stærstu.  Í fljótu bragði man ég eftir þessum Manchester-guttum:  

    Oasis, Noel Gallaghers High Flying Birds, The Smiths, Morrissey, Joy Division, New Order, Buzzcocks, The Stone Roses, The Fall, 10cc, Godley & Creme, The Verve, Elbow, Doves, The Hollies, The Charlatans, M People, Simply Red, The 1975, Take That, Everything Everything, Bee Gees, The Outfield, Happy Mondays, Ren Harvieu, Inspiral Carpets, James, The Chemical Brothers, The Courteeners, Hermans Hermits og Davy Jones söngvari Monkees.


Hlý og notaleg plata

   - Titill:  White Lotus

  - Flytjandi:  Hilmar Garðarsson

  - Höfundur laga og texta:  Hilmar Garðarsson

  - Einkunn: ****

  Að því er ég best veit er "White Lotus" önnur plata Hilmars Garðarssonr.  Hún er lágstemmdari og fábrotnari en "Pleased to Leave You" sem kom út 2004.  Núna er kassagítar eina hljóðfærið.  Ýmist lipurlega plokkaður eða nett "strömmaður".  Engir stælar.  Allt eins og beint af kúnni.  Það er líkast því að maður sé staddur á ljúfum tónleikum heima í stofu hjá Hilmari.  Söngröddin er dökk og þægileg; afslöppuð, vögguvísuleg (í jákvæðustu merkingu) og þíð.

  Við fyrstu spilanir runnu lögin dálítið saman.  Öll hæg og vinaleg; söngur og undirleikur í svipuðum gír.  Ég hugsaði:  "Gott væri að lauma lágværu orgeli undir eitt lag og snyrtilegum munnhörpuleik undir annað".  Við frekari hlustun féll ég frá þessari hugleiðingu.  Eftir því sem ég kynntist lögunum betur og sérkennum þeirra þá vil ég hafa þau eins og þau eru.  Platan er heilsteypt eins og hún er; alúðleg og ljúf.  Sterkasta lagið er hið gullfallega "Miss You".  Fast á hæla þess er lokalagið, "Nótt".

  

hilmar_gardarsson.jpg         


Hvenær er íslensk tónlist íslensk?

  Nýafstaðinn dagur íslenskrar tónlistar setti margan góðan manninn í bobba.  Allir vildu Lilju kveðið hafa.  Vandamálið er að það hefur ekki verið skilgreint svo öllum líki hvenær íslensk tónlist er íslensk.

  Frekar lítill ágreiningur er um að tónlist samin af Íslendingi og flutt af Íslendingi sé íslensk.  Og þó.  Sumir hafna því að hún sé íslensk ef söngtexti er á öðru tungumáli en íslensku.  Gott og vel.  Hvers lensk er hún þá?  Ensk ef textinn er á ensku, segja sumir.  Eða fer það eftir framburði söngvarans?  Er "Lifun" með Trúbroti bandarísk plata?  Eða kanadísk?

  Samkvæmt þessu eru plötur Bjarkar, Kaleo og Of Monsters and Men ekki íslenskar.  Ein plata Sigur Rósar er sungin á bullmáli.  Hún er ekki íslensk.  Það er ekki hægt að staðsetja þjóðerni hennar.   

  Þegar Eivör flutti til Íslands þá stofnaði hún hljómsveit, Krákuna,  með íslenskum hljóðfæraleikurum.  Íslenska plötufyrirtækið 12 Tónar gaf út plötu með henni.  Hún seldist fyrst og fremst á Íslandi.  Enda spilaði hljómsveitin aðallega á Íslandi.  Textarnir eru á færeysku.  Þar með er þetta færeysk tónlist en ekki íslensk.  Eða hvað?

  12 Tónar gáfu út aðra plötu með Eivöru.  Þar eru gömul rammíslensk lög sungin á íslensku.  Líka lög sungin á færeysku, ensku og sænsku.  Platan hlaut dönsku tónlistarverðlaunin sem besta danska vísnaplatan það árið.  Þetta er snúið.

  Lengi tíðkaðist að íslenskar hljómsveitir sungu íslenska texta við erlend lög.  Er það íslensk tónlist?  Íslenskari tónlist en þegar Íslendingur syngur íslenskt lag með frumsömdum texta á ensku?

  Hvernig er þetta í öðrum greinum?  Gunnar Gunnarsson skrifaði sínar bækur á dönsku.  Eru þær ekki íslenskar bókmenntir?  William Heinesen skrifaði sínar bækur á dönsku.  Samt eru þær skilgreindar sem perlur færeyskra bókmennta.

     


Styttur af Björk

  Hérlendis vantar fleiri styttur af körlum.  Undan því hefur verið kvartað áratugum saman.  Einnig hefur verið brugðist vel við því af og til.  Enda enginn skortur á uppástungum.  Kröfur eru háværar um styttu af Gvendi Jaka (helst tvær til að túlka tungur tvær),  steraboltanum Jóni Páli,  Hemma Gunn og svo framvegis. 

  "Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á," söng Spilverk þjóðanna á sínum tíma.

  Nú er komið annað hljóð í strokkinn.  Í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur er komin fram tillaga um styttu af konu.  Einkum er sjónum beint að styttu af Björk.  Hugmyndin er frumleg og djörf.  En ekki alveg út í hött.

  Enginn Íslendingur hefur borið hróður Íslands víðar og betur en Björk.  Án hennar væri ferðamannaiðnaðurinn ekki stærsta tekjulind Íslands.  Spurning hvernig henni sjálfri lýst á uppátækið.  Upplagt er að reisa eina styttu af henni við Hörpu.  Aðra við Leifsstöð.  Í leiðinni má breyta nafni flugstöðvarinnar.  Að kenna hana við Leif the Lucky (Lukku-Láka) er hallærislegt.  Í Liverpool er flugstöðin kennd við John Lennon.  Í Varsjá er flugstöðin kennd við Chopin.  Flustöðin í Sandgerði ætti að vera kennd við Björk.

 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegt tvist

  Ég hlustaði á útvarpið.  Hef svo sem gert það áður.  Þess vegna ber það ekki til tíðinda.  Hitt sem mér þótti umhugsunarverðara var að útvarpsmaðurinn hneykslaðist á og fordæmdi að fyrirtæki væru að auglýsa "Black Friday".  Þótti honum þar illa vegið að íslenskri tungu.

  Þessu næst bauð hann hlustendum til þátttöku í spurningaleiknum "pizza & shake". 


Bestu, undarlegustu og klikkuðustu jólalögin

  Hver eru bestu jólalögin?  En furðulegustu?  Tískublaðið Elle hefur svör við þessum spurningum.  Lögunum er ekki raðað upp í númeraðri röð.  Hinsvegar má ráða af upptalningunni að um nokkurskonar sætaröðun sé að ræða; þeim er ekki stillt upp eftir stafrófi né aldri eða öðru.  Fyrstu 5 lögin sem tslin eru upp eru fastagestir í efstu sætum í kosningum/skoðanakönnunum um bestu jólalögin.  Nema "At the Christmas Ball".  Ég hef ekki áður séð það svona framarlega. Samt inn á Topp 10. 

"Have Yourself a Merry Little Christmas" með Judy Garland (einnig þekkt með Frank Sinatra, Sam Smith og Christina Aguilera)

"At the Christmas Ball" með Bessie Smith

"Happy Xmas (War is Over)" með John Lennon, Yoko Ono og the Plastic Ono Band

"Fairytale of New York" með Kirsty Mcoll og the Pouges.  Á síðustu árum hefur þetta lag oftast verið í 1. sæti í kosningum um besta jólalagið.

"White Christmas" með Bing Crosby (einnig þekkt í flutningi Frank Sinatra, Kelly Clarkson,  Jim Carrey og Michael Bublé)

"Christmas in Hollis" með Run MDC

"Last Christmas" með Wham!  Í rökstuðningi segir að þrátt fyrir að "Do They Know It´s Christmas" sé söluhærra lag þá hafi það ekki roð í þetta hjá ástarsyrgjendum.

"Christmas Card from a Hooker in Minneapolis" með Tom Waits

"Jesus Christ" með Big Star

"Little Drummer Boy (Peace on Earth)" með David Bowie og Bing Crosby.

Af einkennilegum jólalögum er fyrst upp talið "Christmas Unicorn".  Þar syngur Sufjan Stevens í hálfa þrettándu mínútu um skeggjaðan jólaeinhyrning með ásatrúartré.

Klikkaðasta jólalagið er "Christmas with Satan" með James White.

Skiljanlega veit tískublaðið Elle ekkert um íslensk jólalög.  Þó er full ástæða til að hafa með í samantektinni eitt besta íslenska jólalag þessarar aldar,  "Biðin eftir aðfangadegi" með Foringjunum.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.