Færsluflokkur: Útvarp

Gríðarmikill uppgangur í færeyskri ferðaþjónustu

  Lengst af aflaði sjávarútvegur um 97-99% af gjaldeyristekjum Færeyinga.  Svo bar til tíðinda að sumarið 2015 og aftur 2016 stóð 500 manna hópur hryðjuverkasamtakanna Sea Shepherd vakt í Færeyjum til að hindra marsvínadráp.  Aðgerðir þeirra voru afar klaufalegar.  Skiluðu engum árangri nema síður væri.  Varð þeim til háðungar.  

  500 manna hópur SS-liðanna klaufaðist til að auglýsa og kynna á samfélagsmiðlum út um allan heim fagra náttúru Færeyja.  Með þeim árangri að ferðamannaiðnaður tekið risakipp.  Í dag aflar ferðamannaiðnaðurinn 6,4% af gjaldeyristekjum Færeyinga.  Vöxturinn er svo brattur að gistirými anna ekki eftirspurn.  Þegar (ekki ef) þú ferð til Færeyja er nauðsynlegt að byrja á því að bóka gistingu.  Annars verða vandræði.

  Inn í dæmið spilar að samtímis hafa færeyskir tónlistarmenn náð sterkri stöðu á alþjóðamarkaði.  Mestu munar um álfadrottninguna Eivöru,  þungarokkshljómsveitina Tý,  trúbadúrana Teit,  Lenu Anderssen og Högna,  pönksveitina 200,  kántrý-kónginn Hall Jóensen,  heimstónlistarhljómsveitina (world music) Yggdrasil og marga fleiri.    

 


Enn eitt færeyska lagið slær í gegn

  Frá 2002 hefur fjöldi færeyskra tónlistarmanna notið vinsælda á Íslandi.  Þar af hafa margir komið lögum sínum hátt á vinsældalista Rásar 2.  Í fljótu bragði man ég eftir þessum:

Hljómsveitin TÝR

Eivör

Brandur Enni

Hljómsveitin MAKREL

Högni Lisberg

Jógvan

Boys in a Band

  Eflaust er ég að gleyma einhverjum.  Núna hefur enn eitt færeyska lagið stokkið upp á vinsældalista Rásar 2.  Það heitir "Silvurlín".  Flytjandi er Marius Ziska.  Hann er Íslendingum að góðu kunnur.  Hefur margoft spilað hérlendis.  Jafnframt flutti hann ásamt Svavari Knúti lagið "Þokan" 2013.  Það fór ofarlega á vinsældalista Rásar 2.  Rétt eins og lagið "You and I" sem Kristina Bærendsen söng með Páli Rózinkrans í fyrra. 

"Silfurlín" er í 12. sæti vinsældalistans þessa vikuna.  Sjá HÉR  

Uppfært 22.4.2018:  "Silfurlín" stökk úr 12. sæti upp í 4. í gær.


Gjaldfrjáls tónlistarkennsla í Færeyjum

 

  Um síðustu aldamót urðu meiriháttar umskipti í færeyskri tónlist.  Svo afgerandi að við getum talað um byltingu.  Í stað þess að herma eftir frægum útlendum hljómsveitum komu fram á sjónarsvið hljómsveitir á borð við Ivory, Clickhaze og Yggdrasil, sóló-söngkonan Eivör og Teitur.  Þau spiluðu frumsamda músík á eigin forsendum án eftirhermu.  Já,  Eivör var reyndar söngkona Ivory, Clickhaze og Yggdrasil.  Með Ivory söng hún djass.  Með Clickhaze söng hún trip-hopp.  Með Yggdrasil söng hún spunadjasskennt heimspopp (world music).  Sem sóló söng hún vísnatónlist með djasskeim og þjóðlegum færeyskum kvæðasöng. Fram til þessa þótti ungum Færeyingum gamli kvæðasöngurinn hallærislegur.  En Eivör var svo töff að hún gerði hann töff.  Varð meðal annars þungarokkshljómsveitinni Tý innblástur til að dusta rykið af hringdanskvæðinu "Orminum langa" og þungarokksvæða það.  Með þeim árangri að það varð vinsælasta lagið í Færeyjum og á Íslandi 2002. 

  Fram að tónlistarbyltingunni um aldamótin var Færeyingum fjarlæg hugsun að hægt væri að lifa á tónlist.  Ennþá fjarlægara að hægt væri að spila utan Færeyja.  Kúvending varð á.  Fjöldi færeyskra hljómsveita og tónlistarmanna er atvinnumenn í faginu í dag.  Þeir selja mun fleiri plötur í útlöndum en í Færeyjum.  Ruðningsáhrif eru töluverð á aðrar atvinnugreinar.  Ekki síst ferðamannaiðnað.  Heimsfrægð færeyskra tónlistarmanna dregur allt upp að 7500 á árlega rokkhátíð,  G!Festival,  í Götu á Austurey.  Einnig á Ólavsvökukonsertinn á Ólavsvöku og fleiri tónlistarhátíðir.  Eivör hefur náð toppsæti á vinsældalistum í Noregi, Danmörku og Íslandi auk Færeyjum. Týr náði 1. sæti norður-ameríska vinsældalistans CMJ (mælir spilun í framahldsskólaútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada).

  Færeyskir ráðamenn hafa áttað sig á mikilvægi færeyskrar tónlistar.  Nú hefur færeyska ríkið gert 3ja ára samning við franska nettónlistarskólann Meludia.  Allir Færeyingar fá ókeypis aðgang að honum.  Þar læra þeir að lesa tónlist, skrifa tónlist og skilja tónlist.  Jafnt leikmenn sem fagmenn.  Allt kennsluefnið verður á færeysku.  Sjá:  https://www.meludia.com/

         


Íslendingur rændur

  Það er ekki vel falið leyndarmál að norskur þrjótur stal rammíslensku lagi í aldarbyrjun.  Sá ósvífni heitir Rolf Lövland.  Höfundur lagsins heitir Jóhann Helgason.  Á íslensku heitir lagið "Söknuður".  Það kom fyrst út á hljómplötu með Villa Vill 1977.  Norski þjófurinn kallar það "You Raise Me Up".

  Stuldurinn nær yfir rösklega 97% af laginu.  Aukaatriði er að þjófurinn eignaðist snemma kassettu með laginu og dvaldi á Íslandi um hríð.

  Margir hafa sungið lagið inn á plötu með enska texta þjófsnauts þjófsins.  Þeir hafa í grandaleysi skráð lagið á þjófinn.  Hann hefur rakað inn risaupphæðum í höfundarlaun. 

  Höfundurinn, Jóhann Helgason, hefur til áratuga staðið í stappi við að fá höfundarrétt sinn á laginu viðurkenndan.  Enda lag hans harla gott. Vandamálið er að þjófurinn þráast við að viðurkenna sök.  Er að auki studdur af útgefanda sínum,  Universal stórveldinu.

  Í þessari stöðu kosta málaferli til að fá leiðréttan höfundarrétt 150 milljónir eða svo. Farsæll íslenskur lagahöfundur á ekki þá upphæð í vasanum. Leitað hefur verið til margra ára að fjárfestum.  Án árangurs.  Sú leið er eiginlega fullreynd.

  Eigum við, íslenska þjóð,  sem fámennt samfélag að leyfa útlendum þjófi að stela einni bestu lagaperlu okkar?  Njóta heiðurs fyrir gott lag og raka inn milljónum króna í höfundargreiðslum? 

  Vegna þess að einstaklingsframtakið hefur brugðist í málinu verður að skoða aðra möguleika.  Við þurfum að leggja höfuð í bleyti og finna þá möguleika.  Einn möguleikinn er að lífeyrissjóðir fjárfesti í málaferlunum.  Áhættan er lítil og minni en margar aðrar fjárfestingaleiðir sem þeir hafa valið. 

  Annar möguleiki en krítískari er að íslenska ríkið - eitthvað ráðuneytið - blandi sér snöfurlega í málið.  Bregðist af hörku við að vernda íslenska hagsmuni.  Yfirgnæfandi líkur eru á að málið vinnist.  Útlagður kostnaður verður þá greiddur af Universal þegar upp er staðið.  Risaháar höfundargreiðslur munu að auki koma á vængjum inn í íslenska hagkerfið.  

  Fleiri uppástungur óskast.

  Sem öfgamaður í músíksmekk kvitta ég undir að kammerútsetning Villa Vill á laginu sé til fyrirmyndar.  Útlendu útfærslurnar eru viðbjóður. 

       


Íslenskst fönk á vinsælustu netsíðunni

  Stærsta og vinsælasta vinylplötunetsíða heims er breska The Vinyl Factory Limited. Hún er miðpunktur heimsins í umræðu um vinylplötur.  Á dögunum brá svo við að þar birtist yfirgripsmikil umfjöllun/samantekt um sjaldgæfar íslenskar fönk-vinylplötur.  Fyrirsögnin er "Frozen soul picnic:  The hunt for Iceland´s forgotten funk records". 

  Heimildarmaður umfjöllunarinnar er fæddur á Íslandi en starfandi plötusnúður og útvarpsmaður í Bandaríkjunum.  Hann gegnir nafninu DJ Platurn.  Á síðunni er hægt að spila rösklega 43ja mínútna samantekt hans á íslensku fönki.  Skemmtilegt dæmi. Jafnframt eru 8 íslenskar plötur kynntar með ítarlegum texta.

  Skilgreining DJ Platurn á fönki er víðari en mín.  Samt.  Gaman að þessu.  Sjá HÉR      


Músíktilraunir blómstra sem aldrei fyrr

  Músíktilraunir eru eitt besta fyrirbæri í íslenskri tónlist.  Þær eru útungunarvél frjósamrar tónlistarflóru nýliða.  Að vísu hafa vinningshljómsveitir ekki alltaf verið upp á marga fiska.  Allt í lagi með það.  Aðrar hljómsveitir í Músíktilraunum hafa þá verið þeim mun áhugaverðari.

  Fyrstu Músíktilraunir voru 1982.  Þá sigraði hljómsveitin Dron.  Þunnur þrettándi.  Skemmti mér samt vel við að fylgjast með keppninni..  Sem og næstu ár.  Ég sótti öll kvöld Músíktilrauna árum saman.  Svo færðist aldurinn yfir.  Undanfarin ár hef ég látið nægja að fylgjast með úrslitakvöldi í útvarpi og sjónvarpi.  Mjög gaman.  Síðustu Músíktilraunir sem ég fylgdist með frá upphafi til enda var 2002.  Ég færði mig svo yfir til færeyska systurfyrirbærisins Sements. 

  Lengst af voru Músíktilraunir karllægar.  Mjög karllægar.  Af tugum hljómsveita sem öttu kappi var sjaldnast að finna fleiri en eina eða tvær stelpur.  Að vísu komu, sáu og sigruðu kvennasveitir 1983 (Dúkkulísur) og 1992 (dúndurflott Kolrassa krókríðandi).  2004 var röðin komin að hinni frábæru hljómsveit Mammút.  Helmingur liðsmanna var og er kvenkyns. Nú fór að færast fjör í leikinn:

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2010 var hljómsveit Nönnu Bryndísar,  Of Monsters and Men. Framhald á sólódæmi hennar, Songbird.

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2011 var tríóið Samaris,  skipað tveimur stelpum og einum gutta.   

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2013 var hljómsveitin Vök;  með í fararbroddi hljómborðsleikarann, gítarleikarann og söngkonuna Margréti Rán.

  - Sigurvegari Músíktilrauna 2016 var Garðabæjar-pönkbandið Hórmónar. Meirihluti liðsmanna stelpur.

  - Sigurvegari Músíktilraun 2017 var vestfirski stelpnadúettinn Between Mountains.

  - Sigurvegari Músíktilrauna í ár er kvennasveitin Ateria.

  Mér segir svo hugur að námskeiðin "Stelpur rokka" eigi stóran þátt í stórtækri og árangursríkri þátttöku kvenna í Músíktilraunum á síðustu árum.

 


Enn stendur slagur á milli Bítla og Stóns

 Á sjöunda áratugnum sló breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) í gegn á heimsmarkaði.  Rækilega.  Svo rækilega að hvert met var slegið af öðru.  Met sem mörg standa enn hálfri öld síðar.  Met sem aldrei verða jöfnuð.

  Dæmi:  Ef undan er skilin fyrsta smáskífa Bítlanna,  "Love me do",  fóru allar aðrar smáskífur þeirra og stórar plötur í 1. sæti breska vinsældalistans og síðar þess bandaríska.

  Vorið 1964 áttu Bítlarnir 5 söluhæstu lög á bandaríska vinsældalistanum.  Í árslok reyndust 6 af hverjum 10 seldum plötum það ár í Bandaríkjunum vera Bítlaplötur.

  Þegar Bítlarnir héldu í hljómleikaferð til Bandaríkjanna urðu uppþot fastur liður.  Hljómleikasalurinn tók kannski 5000 eða 7000 manns.  En allt upp í 50 þúsund reyndu að kaupa miða.  Þeir sem ekki náðu miðum gengu berserksgang.  Grenjuðu eins og kornabörn,  brutu rúður og unnu önnur eignaspjöll.  Allt upp að 240 manns á dag voru fluttir stórslasaðir á slysavarðstofu. Í það minnsta tífalt fleiri voru lemstraðir án þess að leita á náðir sjúkrahúsa.

  Lögreglan réði ekki við ástandið. Þetta var neyðarástand. Lausn fólst í því að færa hljómleika Bítlanna úr hljómleikahöllum yfir í íþróttaleikvangi. Þeir rúma marga tugi þúsunda gesti.  Jafnvel uppfyrir 50 þúsund.  Allsstaðar uppselt.

  Þetta var nýtt:   Að hljómleikar væru haldnir á íþróttaleikvangi.  Hljóðkerfi íþróttaleikvanganna var ömurlegt og ekki hannað fyrir tónlist.  Skipti engu. Áheyrendur voru mættir til að sjá Bítlana og öskra.  

  Hvar sem Bítlana bar niður mættu þúsundir á flugvöllinn til að berja þá augum.  Í Ástralíu spannaði hópurinn 15 kílómetra svæði.  Kvartmilljón manns! 

  Ein hljómsveit komst með tær þar sem Bítlarnir höfðu hæla.  Það var the Rolling Stones.   Fjölmiðlar stilltu almenningi upp við vegg og spurðu:  "Hvort ertu Bítill eða Stónsari?"  Í uppstillingunni voru Bítlarnir snotrir, snyrtilegir og settlegir sætabrauðspopparar en Stónsarar ófríðir, ruddalegir og hættulegir blús-rokkarar.

  Almenningur vissi ekki að um snjalla sviðssetningu var að ræða.  Í raunveruleika voru það Bítlarnir sem uppgötvuðu the Rolling Stones;  komu þeim á plötusamning,  sömdu fyrir þá fyrsta smellinn og kenndu þeim að semja lög.  Togstreita á milli hljómsveitanna var tilbúningur.  Þær störfuðu náið saman.  Sendu aldrei frá sér lög eða plötur á sama tíma.  Þess var gætt að þær felldu ekki lag eða plötu hvorrar annarrar úr 1. sæti.

  Bítlahljómsveitin leystist upp 1969.  Stóns er hinsvegar enn í fullu fjöri.  Ein lífseigasta hljómsveit sögunnar. Í fyrra var hún söluhæsta hljómleikahljómsveit heims - eins og svo oft áður.  Númer 2 var bítillinn Paul McCartney.  Samanburðurinn er ekki alveg sanngjarn.  Einn sólóbítill á móti rótgróinni hljómsveit.  Langt þar á eftir var í 3ja sæti nýstirnið drepleiðinlega Ed Sheeran.


Kántrý-skotnir vísnasöngvar

 Ljóðin í sálinni er fjórða plata Góla - Guðmundar Óla Scheving.  Hún inniheldur 21 lag.  Spilunartíminn er klukkustund.  Það er þriðjungi lengri spilunartími en venja er.  Öll lögin eru frumsamin.  Á fyrri plötum hafa textar verið eftir Góla í bland við eftir helstu ljóðskáld síðustu aldar, svo sem Stein Steinarr, Örn Arnarson og fleiri, ásamt snjöllum hagyrðingum þessarar aldar á borð við hinn margverðlaunaða Guðmund djákna Brynjólfsson.  Að þessu sinni eru öll kvæðin eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Þau eru bragðsterkir og fjölbreyttir konfektmolar.  Samúð liggur með vinnandi stéttum og málleysingjum.  Hæðst er að borgarastéttinni.

  Lögin klæða ljóðin prýðisvel.  Gæða þau lífi.  Galsafengin ljóð fá fjörleg lög;  tregafull ljóð fá angurvær lög og svo framvegis.  Öll eru þau grípandi,  söngræn og einföld; flæða lipurlega.  Hægt er að syngja með þeim strax við fyrstu hlustun.  Mörg eru seyðandi fögur.  Sterkust í þeim stíl eru Fasteignasalinn, Léttúðin og Sporin þín.  Mörg önnur gefa þeim lítið eftir.  Þeirra á meðal Auðnin þegir.

  Ljóðin bjóða ekki upp á afgerandi viðlög.  Það er snyrtilega leyst í útsetningum sem jafnframt gefa lögunum sérkenni.  Gott dæmi er skemmtilega einföld en áleitin gítarlína í glaðlega kántrý-laginu Dönsku skónum.  Annað dæmi er lagið Þú.  Það hefst á söng við mildar kassagítarstrokur (strömm), rís síðan upp við fullan hljómsveitarflutning með rafgítar og bakraddasöng. Í kántrý-laginu Einn kemur, þá annar fer er einskonar viðlagsbútur trallaður.

  Ofar er nefnt lagið magnaða Sporin þín.  Framan af einkennir það sérlega skemmtilegur trommuleikur. Er á líður verður orgelspil áberandi.  Útsetningin staðsetur lagið bæði í flokkinn heimspopp (world music) og framsækna jaðarmúsík (alternative).  Aðrir músíkstílar á plötunni falla undir víða skilgreiningu á þjóðlagakenndum vísnasöng (folk music) ásamt kántrý-sveiflu.  Hljóðfæraleikur er sparlegur.  Víða aðeins kassagítar.  

  Góli er ágætur og blæbrigðaríkur söngvari.  Stundum syngur hann lágstemmt og blítt.  Stundum þenur hann sig.  Allt eftir yrkisefni ljóðsins.  Auðheyranlega kann hann kvæðin utanað og túlkar innihald þeirra af innlifun og einlægni.

  Ljóðin í sálinni er góð og eiguleg plata.  Og skemmtileg.  Hljóðheimurinn (sánd) er tær og hreinn.  Þökk sé www.studionorn.is.                       

Ljóðin í sálinni       


Fréttablaðið er að standa sig

  Ég var að hlusta á útvarp.  Þar var nýr framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skilgreindur sem rauðsokkulisti.  Ég veit ekkert um réttmæti þess.  Vel liðnum núverandi borgarfulltrúum er sparkað út í hafsauga.  Þakkað góð störf með því að vera hent í ruslið.

  Í stað þeirra er raðað á framboðslistann konum sem fáir vita deili á.  Þeirri sem stillt er upp í 2. sæti er sögð vera frambjóðandi Jóns Ásgeirs/Baugs/365 miðla.  Dóttir eða tengdadóttir ritstjóra Fréttablaðsins.

  Kannski er það sterkur leikur að bjóða fram í 1. sæti frambjóðanda Morgunblaðsins og í 2. sæti frambjóðanda Baugsmiðla.  Það er skotheld uppskrift á góðri fjölmiðlaumfjöllun stærstu fjölmiðla landsins.  Munar um minna.  

  Fréttablaðið er komið á flug.  Nýverið hleypti það af stokkum nýrri og ferskri netsíðu.  Hún mætir sterk til leiks.  Birtir allt aðra áhugaverða punkta en rata í prentútgáfu Fréttablaðsins.  Þar á meðal HÉR

   

    


Alþjóðlegi Clash dagurinn

  5. febrúar 2013 brá bandaríska útvarpsstöðin KEXP á leik;  Hún spilaði einungis lög með bresku hljómsveitinni the Clash þann daginn.  Þetta varð the Clash dagurinn.  Dagskráin vakti mikla athygli og gríðarmikla hrifningu hlustenda.  Hlustun á þessa vinsælu útvarpsstöð margfaldaðist.  Fyrr en varði endurtóku aðrar útvarpsstöðvar leikinn.  5. febrúar varð formlegi Clash dagurinn.  Í fyrra og í ár er hann reyndar 7. febrúar.  Það hefur eitthvað með það að gera að hann beri ekki upp á frídag.  Meðal annars vegna þess að 15 ríki og stórborgir halda í dag Clash daginn hátíðlegan sem frídag.  

  Bandaríska Seattle-borg var fyrst til að gera Clash daginn að opinberum hátíðisdegi.  Svo bættist við Washington ríki sem hýsir Seattle-borg. Einnig Washington DC ríki.  Toronto-borg í Kanada er komin með í leikinn.

  Á annað hundrað útvarpsstöðvar víða um heim halda Clash-daginn hátíðlegan; spila einungis the Clash lög.  Þær eru ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur einnig í Póllandi, Argentínu,  Kanada,  Írlandi,  Spáni og Japan. 

  Fyrir nokkrum árum hitti ég poppskríbent frá Seattle.  Hann sagði mér að ímynd útlensks rokks þar á borg sé fyrst og fremst Bítlarnir og the Clash.

   The Clash var önnur tveggja hljómsveita sem leiddi bresku (og alþjóðlegu) pönkbyltinguna 1976/77 (hin var Sex Pistols)  Hún varð eina breska pönksveitin sem náði ofurvinsældum í Amiríku.  Ekki síst í Bandarkjum Norður-Ameríku - þrátt fyrir að útgáfufyrirtæki hennar, CBS,  hafi þráskallast við að selja jómfrúarplötu hennar þar.  Enn í dag á fyrsta plata the Clash met í sölu á plötu í póstkröfu til Bandaríkjanna:  Hátt í hálfa milljón eintaka.  CBS hélt áfram að bregða fæti fyrir the Clash fram á síðasta dag.  Til að mynda gaf CBS út á smáskífu lagið "Remote control" - gegn áköfum mótmælum liðsmanna the Clash sem skilgreindu lagið sem lélegasta uppfyllingarlag jómfrúarplötunnar.  Síðar harðneitaði móðurfyrirtæki CBS í Bretlandi að gefa út lagið "Bankrobber".  Eftir illvígar deilur náðist lending um að útibú CBS í Þýskalandi gæfi lagið út án afskipta breska móðurfyrirtækisins (sem sá ekki einu sinni um heildsöludreifingu á því í Bretlandi).  Ljóst er að the Clash hefði orðið mun stærra nafn á ferlinum ef hljómsveitin hefði notið myndarlegs stuðnings CBS í stað ítrekaðra leiðinda í bland við afskiptaleysi.       

  Að Bítlunum frátöldum hefur engin hljómsveit þróað sína tónlist jafn hratt og í allar áttir frá fyrstu plötum og the Clash. Eftir að hljómsveitin brotlenti illa um miðjan níunda áratuginn og leystist upp hefur vegur hennar vaxið jafnt og þétt.  Til að mynda kraumaði lagið "Should I Stay or Should I Go" á vinsældalistum til margra ára uns það náði 1. sæti breska vinsældalistans 1991. Stærsta tónlistartímarit heims,  bandaríska Rolling Stone, útnefndi "London Calling" sem bestu plötu níunda áratugarins.  Í Bandaríkjunum varð the Clash risa "statium" band.  Spilaði fyrir allt að 140.000 manns á stökum hljómleikum.     

  Vinsældir the Clash eru ofurmiklar í spænskumælandi löndum.  Þar gera ótal hljómsveitir út á lög the Clash.  Ýmsir fleiri hafa gert það gott út á tónlist hljómsveitarinnar.  Til að mynda er margverðlaunað lag M.I.A. "Paper Planes" í kvikmyndinni "Slumdog Millionar" byggt á lagi the Clash "Straight to Hell".  Aðrir hafa gert það gott út á the Clash lagið "Guns of Brixton".  Lengi mætti áfram telja.  

               


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.