Færsluflokkur: Matur og drykkur

Frásögn bresks blaðs af íslenskum jólum

  Hátíð ljóss og friðar,  jólunum,  varði ég í Skotlandi.  Í góðu yfirlæti.  Í Bretlandseyjum er gefið út götublað að nafni Daily Mirror.  Það er frekar lélegt blað.  En prentað á ágætan pappír.  Þannig lagað.

  Á aðfangadegi birti það grein undir fyrirsögninni "Jólasveinasnakk"  (Santa´s snack).  Þar segir: 

  "Jólin á Íslandi spanna 26 daga.  Þar af telja 13 jólasveinar, svo og tröll sem ofan koma úr fjöllunum og gefa gjafir.  Í þakklætisskini færa börnin þeim laufabrauð.  Það smakkast eins og stökkar vöfflur."


Ósvífin börn gerðu hróp að gömlum manni

  Ég fagnaði jólunum í Edinborg í Skotlandi.  Tók hvorki með mér tölvu né síma.  Var bara í algjörri hvíld.  Þannig hleður maður batteríin.  Verra var að illa uppalin börn gerðu hróp að mér með uppnefnum.  Og það í tvígang.  Í bæði skiptin var um að ræða á að giska fimm ára stelpur.  Í fyrra tilfellinu var ég á gangi í tívolí-garði.  Skimaði þar eftir indverskum mat.  Þá vatt sér að mér frekjuleg stelpa sem togaði í ermina á mér og sagði á ensku:

  "Jólasveinn,  komdu í heimsókn til okkar!"

  Það lá við að ég gæfi barninu "fuck you" merki.  En stillti mig.  Veifaði bara í staðinn.

  Næst var ég staddur á matsölustað.  Fékk mér djúpsteiktan þorsk.  Á næsta borði sat karl ásamt börnum.  Hann var með bendingar á eitt barnið og hló dátt.  Ég vissi ekki hvað það átti að þýða.  Svo yfirgaf hópurinn staðinn.  Þá snéri sér að mér stelpa sem hrópaði upp í opið geð á mér hátt og snjallt á ensku:  "Hóhóhó!  Gleðileg jól,  jólasveinn!"

 


Íslenskt rapp í Færeyjum

  Á morgun,  annað kvöld (laugardaginn 30. nóvember),  verður heldur betur fjör í Þórshöfn,  höfuðborg Færeyja.  Þá verður blásið til stórhátíðar á skemmtistaðnum Sirkusi.  Hún hefst klukkan átta.  Um er að ræða matar og menningar pop-up (pop-up event).  Þar fer fremstur í flokki Erpur Eyvindarson.  Hann rappar á íslensku undir listamannsnafninu Blaz Roca (sló fyrst í gegn er hann sigraði Músíktilraunir sem Rottweilerhundur).  Jafnframt verður boðið upp á spennandi kóreskan götumat (street food).

  Einnig bregða á leik plötusnúðurinn DJ Moonshine, svo og færeysku skemmtikraftarnir Marius DC og Yo Mamas. 

  Um síðustu helgi bauð Erpur upp á hliðstæðan pakka í Nuuk,  höfuðborg Grænlands.  Honum verða gerð góð skil í sjónvarpsþættinum Landanum á RÚV núna á sunnudaginn.  Vonandi verður hátíðin í Færeyjum í Landanum um þar næstu helgi.  Sirkus er nefnilega flottur skemmtistaður (er alveg eins og Sirkus sem var á Klapparstíg í Reykjavík sællar minningar).  Þar er alltaf einstaklega góð stemmning sem Erpur á klárlega eftir að trompa.  

  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann á samskipti við nágranna okkar.  Á fyrri hluta aldarinnar gerði hann út rappsveitina Hæstu hendina með dönskum tónlistarmönnum (já,  ég veit að hendin er röng fallbeyging,  "slangur" úr pókerspili).  Á dúndurgóðri plötu hljómsveitarinnar frá 2004 eru m.a. gestarapparar frá Færeyjum og Grænlandi.

Sirkus  

    


Dularfullt í Ikea

  Ég átti erindi í Ikea.  Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað.  Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð.  Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea.  Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.

  Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð.  Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka,  meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku.  Enginn sat við borðið.  

  Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað.  En ekkert bólaði á honum.  Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum.  Þetta er skrýtið.  Ég velti fyrir mér möguleikum:  Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd.  Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu.  Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn.  Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók;  sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út.  Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?

skanki    


Hótel Jórvík

  Á tíunda áratug síðustu aldar átti ég erindi til Þórshafnar á Langanesi.  Var með skrautskriftarnámskeið þar.  Gisti á Hótel Jórvík.  Hótelstýran var hölt öldruð kona.  Hún var hálf heyrnarlaus.  Lá því hátt rómur.  Auk mín dvöldu á hótelinu flugmaður og dúettinn Súkkat. 

  Ég kom mér fyrir í hótelinu síðdegis á föstudegi; hafði herbergisdyrnar opnar.  Ég heyrði að hótelsíminn hringdi.  Kerla svaraði.  Viðmælandinn var auðheyranlega að bjóðast til að hjálpa til.  Hótelstýran hrópaði í tólið:  "Ég slepp létt frá kvöldmatnum.  Ég er bara með nýja kalla sem komu í dag.  Hinir fóru í morgun.  Ég get þess vegna hitað upp afganginn af karríkjötinu frá því á mánudaginn og nýju kallarnir fatta ekki neitt!"

  Um kvöldið var karríkjötsréttur í matinn. 

  Hótelstýran lét okkur vita að hún hefði bjór og vín til sölu.  Við gestirnir pöntuðum eitthvað af veigum.  Enginn var barinn.  Konan sótti drykkina inn í hliðarherbergi.  Hún bar þá ekki fram í umbúðum heldur í vatnsglösum. 

  Nokkrum árum síðar var forsíðufrétt í DV um að við húsleit í Hótel Jórvík hefði fundist töluvert magn af heimabrugguðum bjór og víni ásamt bruggtólum.  Hótelstýran sagðist ekki selja áfengi.  Hún væri að geyma þetta fyrir sjómann sem hún vissi ekki hvað hét. 

Hótel Jórvík

 

 


Spornað gegn matarsóun

  Matarsóun er gríðarmikil á Íslandi - eins og víða um heim allan.  Algengt er að fólk kaupi of mikið matarkyns fyrir heimilið.  Maturinn rennur út á tíma og skemmist.  Sama vandamál hrjáir matvöruverslanir.  Svo eru það veitingastaðirnir.  Einkum þeir sem bjóða upp á hlaðborð.  Margir hrúga óhóflega á diskinn sinn og leifa helmingnum.

  Í Hong Kong er veitingastaður sem býður upp á hlaðborð.  Gestir eru hvattir til að taka lítið á diskinn sinn;  fara þess í stað fleiri ferðir að hlaðborðinu.  1000 kr. aukagjald er sett á reikning þeirra sem klára ekki af disknum sínum.  Þetta mættu íslensk veitingahús taka upp. 

hlaðborð


5 tíma svefn er ekki nægur

  Sumt fólk á það til á góðri stundu að hreykja sér af því að það þurfi ekki nema fimm tíma nætursvefn.  Þetta hefur verið rannsakað af New York háskóla í læknisfræði.  Dr. Rebecca Robbins leiddi rannsóknina.  Niðurstaðan er sú að hugmyndin um að fimm tíma svefn sé ekki aðeins bull heldur skaðleg.   

  Þetta stuttur nætursvefn eykur mjög líkur á fjölda lífshættulegra heilsubresta,  svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli og almennt ótímabærum dauða.  Fólki er ráðlagt frá því að horfa á sjónvarp fyrir háttatíma.  Jafnframt er upplýst að neysla áfengra drykkja undir svefn rýri svefngæði.  Frá þessu segir í The Journal Sleep Health en ekki hinu:  Að heppilegast sé að stunda morgundrykkju samviskusamlega.  

  Rannsóknin byggir á yfir 8000 gögnum.   

 

 


Viðbjóðslegir veitingastaðir

  Til margra ára hef ég stundum horft á sjónvarpsþætti enska matreiðslumannsins  Gordons Ramseys.  Hann heimsækir bandaríska veitingastaði.  Smakkar mat þeirra.  Aldrei bregst að hann lýsir mat þeirra sem mesta viðbjóði er hann hefur séð og smakkað.  Það hlýtur að þýða að bandarísk matreiðsla hrörni stöðugt dag frá degi.  Annars gætu þessir matsölustaðir ekki toppað alla fyrri ógeðslegu matsölustaði ár eftir ár.

  Áhugavert er að hann afhjúpar ætíð í leiðinni rosalegan sóðaskap á matsölustöðunum.  Bandrtíska Heilbrigðiseftirlitið er ekki að standa sig. 

  Svo hundskammar hann alltaf óhæfan eiganda staðarins og kokkinn.  Er mjög ruddalegur og árásagjarn í orðum.  Keyrir þá upp að vegg.  Oftast er tekist hart á í orðum.  Svo gefur hann þeim góð ráð.  Viðkomandi knúsar hann í lok þáttar og allt verður gott. Þetta er ljómandi skemmtilegt sjónvarpsefni.  Eitt það besta er að nægilegt er að horfa á tíunda hvern þátt.  Hinir eru allir eins.


Skemmtilegt verðlag í Munchen

  Ég er enn með hugann við Munchen í Þýskalandi eftir að hafa dvalið þar um páskana.  Ísland er dýrasta borg í heimi.  Munchen hefur til margra ára dansað í kringum 100. sæti.  Verðlag þar er nálægt þriðjungi lægra en í Reykjavík að meðaltali.  Auðveldlega má finna dæmi þar sem munurinn er meiri.

  Ég fer aldrei inn í verslanir í útlöndum.  Nema stórmarkaði.  Já, og plötubúðir.  Helstu útgjöld snúa að mat og drykk.  Í stórmarkaðskeðju sem heitir Rewe fann ég Beck´s bjór á 94 kr. (0,69 evrur).  Hálfur lítri. 4,9%.   

  Á Íslandi er Beck´s örlítið dýrari,  389 kall í ÁTVR.  Taka má tillit til þess að hérna er hann 5%.  Það telur. 

  1,5 lítra vatnsflaska kostar 41 kr. (0,30 evrur).

  Glæsilegt morgunverðarhlaðborð kostar 667 kr (4,9 evrur).

  Á gistiheimilinu sem hýsti mig kostar hálfur lítri af bjór úr krana á 340 kr. (2,5 evrur) fram á kvöld.  Síðar um kvöldið hækkar verðið í 476 kr. (3,5 evrur).

  Ég hef engan áhuga á fínum veitingastöðum.  Nenni ekki að sitja og bíða eftir að matur sé eldaður.  Kýs frekar mat sem þegar er eldaður.  Ég gerði þó undantekningu er ég sá að á asískum veitingastað var boðið upp á stökka önd (crispy) með grænmeti og núðlum.  Sá veislumatur kostar 803 kr. (5,9 evrur).  Enginn málsverður kostaði mig 1000 kall.  Sá dýrasti var á 952 kr.  Það var lambakjöt í karrý. 

morgunverður í munchenþýskur morgunverður 

stökk öndbarinnlamb í karrý


Gleðilega frjósemishátíð!

Gleðilega páska


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband