22.1.2025 | 10:00
Passar hún?
Á Akureyri býr 94ra ára kona. Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól. Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika. Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér. Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.
Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening. Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu. Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.
Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði:
- Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?
- Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.
- Passar hún?
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.1.2025 | 10:34
Þegar Paul McCartney yfirtók frægustu hljómsveit heims
9. október 1956 fagnaði ungur drengur í Liverpool í Englandi 16 ára afmæli. Hann hét John Lennon. Nokkrum dögum síðar stofnaði hann hljómsveit, The Quarrymen. Hún spilaði svokallaða skiffle tónlist. John söng og spilaði á gítar. Hljómsveitin fékk nóg að gera.
Um sumarið gekk 15 ára piltur, Paul McCartney, til fundar við John. Hann langaði í hljómsveitina. John dáðist að tónlistarhæfileikum hans og bauð hann velkominn um borð.
Skólabróðir Pauls, George Harrison, var lipur gítarleikari. Hann var aðeins 14 ára. Á þessum aldri munar miklu um hvert ár. John hugnaðist ekki að verða barnapía. Paul suðaði og fékk að leyfa George að djamma með hljómsveitinni. Hann náði að heilla John seint og síðarmeir.
Eftir nokkrar mannabreytingar endurnefndi John hljómsveitina The Beatles, kölluð Bítlarnir á Íslandi. 1962 tók Ringo Starr við trommukjuðunum. Þar með var hljómsveitin komin í sitt endanlega horf. Hún var alla tíð hljómsveit Johns. Hann réði ferðinni, samdi og söng flest lögin. Hann lagði þó ríka áherslu á að Bítlarnir væru hljómsveit jafningja. Hún lagði undir sig heimsmarkaðinn svo rækilega að aldrei verður saman jafnað.
Adam var ekki lengi í Paradís. Vinsældirnar og frægðin fóru að þjaka John. Hann var varð óhamingjusamur. Hann varð faðir án áhuga á því hlutverki. Hann var í ástlausu hjónabandi. Honum þótti Bítlarnir vera sirkusatriði. Hvorki öskrandi áheyrendur né Bítlarnir sjálfir heyrðu hvað fór fram á sviðinu. Að auki hafði hann ekki unnið úr ótal áföllum æskuáranna. Foreldrarnir stungu drenginn af og hann hitti þau ekki fyrr en á fullorðinsárum. Ströng og snobbuð frænka hans ól hann upp. Hún var ekkert fyrir að faðma eða knúsa barn. Maður hennar var hressari. Hann dó er John var 12 ára. Þegar hann á unglingsárum hitti mömmu sína var hún drepin af ölvuðum bílstjóra. Áfram mætti lengi telja.
1966 féllst umboðsmaður Bítlanna, Brian Epstein, á að hljómsveitin hætti hljómleikahaldi. Ári síðar dó hann. Það var enn eitt áfallið. Hann hafði leitt hljómsveitina frá fyrstu skrefum og í gegnum ofurvinsældirnar. Viðbrögð Johns voru að hella sér út í harða eiturlyfjaneyslu. Upp frá því var hann hálfur út úr heimi, áhugalítill og latur.
Viðbrögð Pauls voru ólík. Hann var og er mjög ofvirkur en líka stjórnsamur. Hann tók eiginlega við af Brian Epstein. Bókaði hljómsveitina í hin ýmsu verkefni með misjöfnum árangri. Verra var að ofríki hans pirraði George og Ringo. Báðir hættu í hljómsveitinni um tíma. Hinsvegar var Paul diplómatískari í samskiptum við John, vitandi að hann léti ekki að stjórn. Á síðustu Bítlaplötunum semur Paul, syngur og útsetur flest lög.
Án ofvirkni Pauls og eftirrekstrar hefðu plötur Bítlanna orðið tveimur færri eða rúmlega það.
Tónlist | Breytt 17.1.2025 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.1.2025 | 19:36
Framhald á frásögn af undarlegum hundi
Þegar hér var komið sögu var hundinum komið fyrir í Kirkjubæ, fámennu smáþorpi á Straumey. Flottu þorpi með sögu. Úti fyrir þorpinu er smá hæð á veginum. Þar er einnig eins og dæld. Venjulega er ekið þar um á litlum hraða. Samt nógum til að bíllinn eins og stekkur yfir.
Hundurinn tók þegar í stað að leggjast flatur í dældina á veginum þegar bílar óku þar um. Bílstjórar urðu hans ekki varir fyrr en ekið hafði verið yfir hann. Þá var þeim illa brugðið en hvutti stóð upp, hristi sig og beið eftir næsta bíl. Tóku þeir þá gleði sína á ný.
Einhverra hluta vegna brá seppi aldrei á leik við íbúa Kirkjubæjar. Einhverra hluta vegna náði hann alltaf að staðsetja sig á veginum .þannig að hann varð ekki undir hjóli. Nema einu sinni. Þá voru dagar hans taldir.
7.1.2025 | 09:06
Furðulegur hundur
Einu sinni sem oftar spilaði færeyski píanóleikarinn Kristian Blak fyrir dansi í Þórshöfn í Færeyjum. Úti var grenjandi rigning og kalsaveður. Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfæri og hljómkerfi í hús. Stór skoskur hundur stillti sér upp við útidyrnar.
Kristian spurði hundinn hvort hann langaði að koma inn úr rigningunni. Sá var snöggur að þiggja boðið. Hann lagði sig á sviðið og fylgdist síðan með fólkinu dansa. Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út á gólf. Hundurinn spratt á fætur og reisti sig upp framan á hann. Maðurinn steig dansspor með honum. Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hann með frekjulegu gelti og lagðist þétt framan á hann. Þetta vakti kátínu. Þeir dönsuðu í smástund uns maðurinn sagði voffa að hann verði að spila með hljómsveitinni. Það var eins og blessuð skepnan skildi; stökk upp á svið og lagði sig á ný.
Er dansleik lauk elti hvutti Kristian heim. Veður var ennþá svo leiðinlegt að Kristian bauð honum inn. Útskýrði jafnframt fyrir honum að hann yrði að fara um morguninn áður en húsfrúin vaknaði. Hún væri kasólétt og andvíg húsdýrum.
Morguninn eftir vaknaði Kristian snemma og hleypti hundinum út. Sá virtist alsáttur. Seint næsta kvöld sá Kristian hundinn bíða við dyrnar. Þetta endurtók sig. Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan í vinnuna til Kristians; sagði hund stara inn um glugga hjá sér. Hana grunaði að um svangan flækingshund væri að ræða. Kannski ætti hún að gefa honum matarbita. Kristian tók vel í það. Eftir það gekk hundurinn út og inn með því að opna og loka hurðinni sjálfur.
Konan komst að því hver ætti hundinn og Kristian kom honum til síns heima. Hundurinn strauk strax aftur til hans. Þetta endurtók sig. Neyðarráð var að koma voffa út í sveit. Í lítið þorp, Kirkjubæ.
Meira um dýrið á morgun.
Spaugilegt | Breytt 8.1.2025 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.12.2024 | 11:31
Undarleg gáta leyst
Dýralæknir var kallaður á heimili gamallar konu. Hún bjó ein í stórri blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hún átti litla og fallega kisu. Nú var hún veik. Verulega uppþembd og aðgerðalítil. Læknirinn fann strax út að kisan var kettlingafull.
"Það getur ekki verið," mótmælti gamla konan. "Hún er alltaf hérna inni. Hún fær aðeins að skjótast út á svalir þar sem ég fylgist með henni."
Læknirinn var viss í sinni sök. Hann fullyrti að stutt væri í að kettlingarnir kæmu í heiminn. Meira gæti hann ekki gert í málinu.
Á leið sinni út kom hann auga á kött. Sá svaf makindalega í forstofunni. Læknirinn kallaði á konuna og benti á köttinn. "Hér er ástæðan fyrir því að kisa er kettlingafull."
Konan gapti af undrun og hreytti hneyksluð út úr sér: "Er herra læknirinn eitthvað verri? Þetta er bróðir hennar!"
24.12.2024 | 08:13
Lífseig jólagjöf
Algengt vandamál með jólagjafir er að þær hitta ekki alltaf í mark hjá viðtakendum. Öll þekkjum við börn sem andvarpa þegar kemur að mjúkum pökkunum. Krakkar vilja hörð leikföng. Mjúkum pökkum fylgir stundum annað vandamál: Út úr þeim kemur fatnaður sem passar ekki á börnin. Svo eru það gjafakortin. Þau eru keypt í litlum verslunum sem hafa ekki upp á neitt girnilegt að bjóða. Eða þá að upphæðin á kortinu passar ekki nákvæmlega við neitt í búðinni. Eftir stendur kannski 1000 kall eða 2000. Peningur sem dagar bara uppi.
Eitt sinn fékk frænka mín í jólagjöf fallegan og íburðarmikinn náttkjól í gjafaöskju. Hún átti meira en nóg af náttkjólum. Hún brá á það ráð að geyma kjólinn til næstu jóla. Þá gaf hún mágkonu sinni kjólinn í jólagjöf. Einhverra hluta vegna voru viðbrögð hennar þau sömu: Kjóllinn varð jólagjöf til systur hennar næstu jól. Alls varð hann sjö sinnum jólagjöf. Í síðasta skiptið endaði hann aftur hjá konunni sem upphaflega gaf hann. Sú var búin að fylgjast með ferðalagi kjólsins og vildi ekki að hann færi annan rúnt. Hún tók hann í gagnið. Þetta varð uppáhalds náttkjóllinn hennar. Enda valdi hún hann þarna í upphafi vegna hrifningar af honum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.12.2024 | 09:18
Spennandi sjávarréttur - ódýr og einfaldur
Fyrir daga kvótakerfisins var fiskur og önnur sjávar- og vatnadýr fátækramatur. Þau voru á borðum flesta daga vikunnar. Nema sunnudaga. Þá var lambahryggur eða -læri með Ora grænum baunum. Í dag er sjávarfang lúxusfæði ríka fólksins. Það er helst að almenningur laumast til að sjóða sér fiskbita á mánudögum og herða sultarólina aðra daga.
Mér og öðrum til ánægju býðst hér uppskrift á ódýrum og virkilega bragðgóðum sjávarrétti. Í hann þarf eftirfarandi hráefni:
25 g smjörlíki
125 g strásykur
5 msk kakó
1 egg
Sulta þarf að vera innan seilingar. Skiptir ekki máli hvort það er rabbbara- eða bláberjasulta. Bara ekki sviðasulta.
90 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/2 bolli mjólk
1/2 vanilludropar og lítil dós af hákarlsbitum
Smjörlíkinu og strásykrinum er sullað saman og hrært kröftuglega í. Óvænt er eggjum bætt út í. Síðan svo lítið ber á er hveiti, matarsódi, kakói og salti sigtað saman og laumað út í svo lítið ber á ásamt mjólk og vanillu. Þessu er hrært saman undir spilun á laginu "Á sjó" með Þorvaldi Halldórs og Hljómsveit Ingimars Eydal.
Að því loknu er herlegheitunum sturtað í lausbotna tertuform og bakað við 147 ¨C í 47 mínútur. Á meðan er notalegt að sötra Irish Coffie eða Bailys. Eftir þetta er botninn skorinn í sundur, sultan smurð á milli og súkkulaðikremi - sem er til á öllum heimilum - klesst ofan á. Þegar tertan er tilbúin skal hverri sneið fylgja hákarlsbiti og honum skolað niður með kældu Brennivínsskoti.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
9.12.2024 | 10:13
Til minningar um gleðigjafa
Tónlistarmaðurinn og gleðigjafinn Brynjar Klemensson féll frá 24. nóvember. Hann var aðeins 67 ára. Í vina og kunningjahópi gekk hann undir nafninu Billy Start. Ástæðan var sú að hann var einskonar fylgihnöttur hljómsveitarinnar Start. Forsöngvarinn, Pétur heitinn Kristjánsson, var hans stóra fyrirmynd.
Billy átti auðvelt með að finna broslegar hliðar á mönnum og málefnum. Allt í góðlátlegri frásögn. Hann sagði skemmtilega frá. Þegar hann mætti á svæðið tilkynnti hann jafnan viðstöddum: "Billy Start mættur á kantinn!" Þetta var ávísun á fjörlegar samræður og mikið hlegið.
Billy var smá prakkari. Eitt sinn mætti hann á skemmtistað í Ármúla. "Ósköp er rólegt í kvöld. Ekkert fyrir dyravörðinn að gera," sagði hann. Ég samsinnti því. Sagði að dyravörður væri óþarfur þetta kvöldið.
Úti á miðju gólfi stóð ókunnugur miðaldra maður. Hann góndi á boltaleik á sjónvarpsskjá. Billy rölti til dyravarðarins og skrökvaði: "Sérðu manninn þarna? Þetta er alræmdur vandræðapési. Þú þarft að fylgjast vel með honum. Hann á eftir að hleypa öllu í bál og brand."
Hrekklaus dyravörðurinn lét ekki segja sér það tvisvar. Hann læddist aftan að manninum, stökk svo á hann með dyravarðafangbragði. Maðurinn var í skrúfstykki. Dyravörðurinn dró hann út á stétt og flýtti sér síðan að skella í lás. Maðurinn var alveg ringlaður. Hann bankaði - án árangurs - á dyrnar. Svo náði hann á leigubíl og fór. Þá opnaði dyravörðurinn dyrnar og allt féll í ljúfa löð.
Billy hrósaði dyraverðinum fyrir snöfurleg vinnubrögð. Við mig sagði hann: "Nú getur hann skráð í dagbók staðarins að honum hafi með lagni tekist að afstýra heilmiklu veseni!"
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.12.2024 | 09:02
Þegar Jón Þorleifs kaus óvænt
Jón heitinn Þorleifsson var í stöðugri uppreisn. Hann var verkamaður en snéri sér að ritstörfum kominn á efri ár. Hann naut sín við að yrkja níðvísur og deila á menn og málefni.
Hann notaði nánast aldrei atkvæðarétt sinn. Þó mætti hann á kjörstað. Þar skráði hann níðvísu um einhvern eða einhverja á kjörseðilinn.
Svo bar til einn bjartan kosningadag að þingmaður Alþýðubandalagsins mætti Jóni á gangi. Þeir voru kunnugir og heilsuðust.
- Sæll Jón minn. Ertu búinn að kjósa? spurði maðurinn.
- Já, aldrei þessu vant, svaraði Jón.
- Kaustu rétt?
- Það veit ég ekki. Ég krossaði við Alþýðubandalagið.
- Þakka þér kærlega fyrir atkvæðið. Hvað kom til?
- Þetta var eina ráðið sem ég hafði til að strika yfir nafnið þitt!
25.11.2024 | 10:22
Heilsu- og megrunarkúr sem slær í gegn
Margir bera nettan kvíðboga gagnvart jólunum - í bland við tilhlökkun vegna sigurs ljóssins yfir myrkrinu. Honum er fagnað með mat og drykk. Fólk gerir vel við sig og aðra. Sælgæti af ýmsu tagi er hluti af gleðinni: Konfekt, brjóstsykur, kökur, tertur, heitt súkkulaði og þessháttar er hluti af hefðinni. Ýmsum hættir til að bæta á sig einhverjum kílóum.
Á nýju ári er gripið til þess ráðs að fara í megrunarkúr. Jafnan er hann til þess verra er upp er staðið. Þá er gott að vita að til er bráðhollur megrunarkúr. Hann er fyrst og fremst heilskúr en hefur megrandi hliðarverkun. Engin fita og kaloríur. Bara prótein, steinefni og hollusta. Að auki kostar hann ekki neitt en kallar á skemmtilega útiveru fyrir alla fjölskylduna.
Þetta er skordýrakúrinn. Fjölskyldan fer út í náttúruna og safnar skordýrum: Flugum, möðkum, brekkusniglum, jötunuxum, járnsmiðum, köngulóm og svo framvegis. Dýrin eru skoluð og síðan léttsteikt á pönnu. Gott er að strá örlitlu salti og pipar yfir. Þetta má snæða með soðnum kartöflum. Einfalt, fljótlegt, holt og gott.
19.11.2024 | 10:15
Leifur óheppni
John Lydon (Rotten) er söngvari Sex Pistols og PIL. Hann hefur sent frá sér tvær sjálfsævisögur. Þær eru keimlíkar. Í annarri þeirra segir af meðstofnanda PIL, gítarleikaranum flotta Keith heitnum Levene. Lydon segir hann hafa verið fagmann í neikvæðni.
Nokkrum árum áður stofnaði Keith hljómsveitina The Clash. Hann þótti svo leiðinlegur að honum var sparkað.
Kunningi minn er í sama gír. Hann leyfir sér aldrei að gleðjast. Hann finnur ætíð einhverja vankanta á öllu. Gárungarnir kalla hann Leif óheppna.
Hann er tengdur bílaumboði fjölskylduböndum. Eitt sinn var hann í bílavandræðum. Umboðið gaf honum nýjan bíl. Kappinn hafði allt á hornum sér. Einkum var hann ósáttur við að bíllinn var hvítur. Hann hélt því fram að hvítir bílar væru ógæfutæki. Þeir lentu í árekstrum og fleiri vandamálum en aðrir bílar. Eftir langt ólundarskeið tókst honum að skipta á bílnum við vinnufélaga sem átti rauðan bíl. Sá var gamall og mikið keyrður. Öllu munaði að hann var ekki hvít slysagildra.
Svo bar til að við hittumst á asískum veitingastað. Í boði var meðal annars tilboðsréttur mánaðarins. Hægt var að velja á milli venjulegs skammts og stórs. Ég valdi venjulegan en vinurinn stóran. Er réttirnir voru bornir fram blasti við að skammtarnir voru álíka stórir. Eiginlega munaði aðeins að hans var á stærri diski. Þetta "óréttlæti" eyðilagði fyrir honum daginn. Skipti engu þó ég héldi því fram að hans skammtur væri í réttri stærð; ég hefði fengið óvenju stóran skammt.
Steininn tók úr er hann fékk lottóvinning upp á 9 millur. Í stað fagnaðar brotnaði hann niður. Þvílík ógæfa! Vikuna áður hafði 80 milljón króna vinningur gengið út. Kauða leið eins og hann hefði í raun tapað 71 milljón með því að fá vinning í "rangri" viku! Hann var svo miður sín að hann mætti ekki í vinnu í nokkra daga.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.11.2024 | 10:19
Anna frænka á Hesteyri hringdi á lögguna
Fyrir nokkrum árum hringdi Anna Marta á Hesteyri í eldri frænku okkar í Reykjavík. Það var alvanalegt. Konan var nýbúin að setja lit í hárið á sér Hún beið eftir að hann verkaðist áður en hann yrði skolaður. Hún upplýsti Önnu um stöðuna. Bað hana um að hringja aftur eftir 10 mínútur.
Í þann mund er konan skolaði hárið mundi hún eftir því að kartöflur og mjólk vantaði. Komið fast að kvöldverðartíma og eiginmaðurinn væntanlegur úr vinnu. Hún skrapp í matvörubúðina skammt frá. Aðeins ein stelpa var á afgreiðslukassanum. Hún var nýbyrjuð og óörugg. Gerði einhver mistök með tilheyrandi töfum. Röðin við kassann lengdist.
Er konan hélt heim blöstu við blikkandi ljós á sjúkrabíl og lögreglubíl í innkeyrslu hennar. Lögreglumaður upplýsti að tilkynnt hafi verið að kona væri steinrotuð og slösuð á baðherberginu.
Konan sýndi lögreglunni inn í baðherbergi og útskýrði að um misskilning væri að ræða. Síðan hringdi hún í Önnu fjúkandi reið. Anna sagðist hafa hringt í hana 10 mínútum eftir að konan bað hana um það. Síminn hringdi út. Aftur og aftur. Hún hafi þá lagt saman 2 og 2 og fengið þá niðurstöðu að konan hefði runnið til við að skola hárið og skollið harkalega á gólfið.
Konan bannaði Önnu að senda aftur á sig sjúkrabíl og lögreglu. Anna svaraði: "Jú, ef ég verð vör við að þú liggir slösuð þá hringi ég í neyðarlínuna! Ef þú hefðir slasast núna þá værir þú að þakka mér en ekki skamma mig."
Löggæsla | Breytt 13.11.2024 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.11.2024 | 09:43
Erfiður starfsmaður
Nonni er rafvirki. Á dögunum bættist á hann stórt verkefni í nýbyggingu. Hann auglýsti eftir vönum rafvirkja sem gæti hafið störf strax. Sá fyrsti sem hringdi var ráðinn. Honum var sagt að mæta til vinnu klukkan 9 næsta morgunn.
Klukkan var eitthvað gengin í 11 er starfsmaðurinn, ungur maður, mætti. Hann útskýrði málið: "Ég lagði af stað á réttum tíma út á strætóstöð. Þá sá ég að veðrið var svo gott að ég ákvað að ganga."
Nonni sagði að það væri mikilvægt að starfsmenn séu mættir klukkan 9. Hann sýndi rafvirkjanum hvar setja átti upp margar innstungur.
- Sýndu mér hvernig þú setur upp eina innstungu, bað drengurinn.
- Þú kannt að setja upp innstungu, fullyrti Nonni.
- Já, auðvitað. Mig langar bara að sjá hvernig þú gerir það.
Nonni setti upp innstungu. Hinn fylgdist með og tók svo við. Honum lynti strax vel við vinnufélagana og stimplaði símanúmer þeirra inn í símaskrá sína. Þeir voru alls sjö.
Daginn eftir var hann ekki mættur klukkan 9. Hálftíma síðar hringdi hann í vinnufélaga. Bað hann um að sækja sig. Nonni blandaði sér í símtalið. Sagði að ekki kæmi til greina að starfsmenn sæki hvern annan í vinnutíma.
- Já, já. Ég er sammála því, svaraði drengur. Vinnufélaginn hefur misskilið mig. Ég var að tilkynna veikindi. Ég er með svaka hausverk.
Næsta dag mætti hann sprækur klukkan 10. Sagði að strætóferð hafi fallið niður.
Eftir hádegi þurfti Nonni að bregða sér frá í nokkra tíma. Hann setti starfsmönnum fyrir verkefni. Þegar hann snéri aftur blasti við að ungi rafvirkinn hafði fátt gert. Nonni spurði hvað væri í gangi.
- Ég er búinn að vinna á fullu, fullyrti piltur. Einhvernvegin hefur verkið samt unnist hægt.
Verkefnið var komið í tímaþröng. Ákveðið var að vinna fram á kvöld. Um kvöldmatarleytið hélt vinnuflokkurinn á veitingastað með heimilismat. Strákur mótmælti. Sagðist aldrei borða kartöflumat á kvöldin. Hann óskaði eftir pizzu. Honum var boðið að fara á pizzustað á eigin kostnað. Vinnuflokkurinn væri hinsvegar á samningi við heimilismatstöðina. Kauði átti ekki pening og snæddi með ólund.
Ekki bólaði á honum daginn eftir. Nonni hringdi í hann. Afsökun hans var: "Mér er illt í maganum af því að ég fékk ekki pizzu. Ég varaði þig við að ekki eigi að borða kvöldmat með kartöflum. Þú tókst ekki mark á því. Þetta er þér að kanna!"
Nonni sagði honum að mæta aldrei aftur á staðinn. Um mánaðarmótin mætti hann þó til að sækja kaupið sitt. Kennitala hans leiddi í ljós að hann var aðeins 17 ára. Hann viðurkenndi að vera ekki rafvirki og hefði aldrei komið nálægt rafmagni áður.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.10.2024 | 10:43
4 vísbendingar um að daman þín sé að halda framhjá
Íslendingar eru ekki áberandi trygglyndir. Allir þekkja marga sem hafa haldið framhjá maka sínum. Munur á konum og körlum er óverulegur á þessu sviði. Í flestum tilfellum er sá kokkálaði grunlaus. Enda er framhjáhaldarinn lúmskur og hugmyndaríkur. Ef vel er að gáð þá kemur ýmis hegðun upp um dömu sem er að halda framhjá.
Dæmi 1: Sími hennar hringir. Hún hleypur með hann inn á baðherbergi. Þaðan berast hláturskellir í góðan tíma. Að því loknu kemur hún flissandi út úr herberginu og segir að þetta hafi bara verið vitlaust símanúmer. Þetta endurtekur sig dag eftir dag. Rautt flagg: Símasamband á baðherberginu er afleitt.
Dæmi 2: Hún segist þurfa að skreppa til útlanda í tveggja vikna vinnuferð. Rautt flagg: Hún er ekki í neinni vinnu.
Dæmi 3: Hún segist vera ólétt. Rautt flagg: Þið hafið ekki sofið saman í tvö ár.
Dæmi 4: Hún kemur heim með ungan mann; segir hann hafa ofkælst í frosthörku í strætóskýli í næstu götu. Hún verði að hátta hann í hvelli ofan í rúmið ykkar og halda á honum hita. Rautt flagg: Eina veður þessa dagana er steikjandi sól. Ekkert strætóskýli er í næstu götum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.10.2024 | 09:06
Varð ekki um sel
Reynsla og upplifanir sjómanna eru margar og mismunandi. Því oftar sem þeir eru úti á sjó þeim mun líklegra er að þeir verði vitni að margvíslegum ævintýrum. Þannig var það um helgina hjá honum Hjalta í Klakksvík. Hann sat í trillunni sinni og fylgdist með hvalvöðu lóna við hliðina. Þetta voru háhyrningar. Þeir vita ekkert æti betra en spikfeita seli.
Skyndilega stökk selur upp úr haffletinum. Hann hrópaði á hjálp og synti á ofsahraða að bátnum. Þar skorðaði hann sig við landganginn.
Hjalti drap á vélinni og horfði skilningsríkur í augu selsins, eins og til að róa hann. Hvalirnir skildu ekki upp né niður í því hvað varð um selinn. Þeir syntu undrandi fram og til baka í góðan hálftíma. Þá héldu þeir á brott í leit að öðru æti.
Hjalti gaf selnum til kynna með leikrænni tjáningu að hættan væri liðin hjá. Blessuð skepnan skildi og synti varfærnislega frá bátnum. Í þann mund er hann steypti sér í djúpið þá snéri hann sér við og veifaði sjómanninum í þakklætisskini.
Matur og drykkur | Breytt 23.10.2024 kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
15.10.2024 | 10:11
Gátan leyst
Afabróðir minn flutti til Færeyja um aldamótin 1900. Þar hófst hann þegar í stað við að eignast börn með tveimur þarlendum konum. Fyrir bragðið á ég fjölmennan frændgarð í Færeyjum. Flestir bera ættarnafnið Ísfeld. Margir hafa orðið áberandi í sjávarútvegi, tónlist og byggingarlist. Samruni íslenskra og færeyskra gena hefur gefist vel.
Barnungur færeyskur frændi minn, Nói, var í kristnifræði í skólanum fyrir helgi. Heimkominn tjáði hann mömmu sinni frá náminu. Kennarinn hafi upplýst að guð, Jesú og heilagur andi væru eitt og hið sama.
Stríðin mamman spurði: "Hvernig í ósköpunum geta 3 guðir verið eitt og hið sama?"
Nói svaraði um hæl: "Ætli það sé ekki eins og með sjampóið okkar, 3 in 1. Það er hársápa, hárnæring og baðsápa í einu og sömu flöskunni."
8.10.2024 | 09:03
Hrakfarir strandaglóps
Fyrir nokkru átti ég erindi til Akureyrar. Dvaldi þar á gistiheimili. Þegar ég hugði á heimferð spurði kona við innritunarborðið hvort strandaglópur mætti fljóta með suður. Um unglingspilt var að ræða. Nokkru áður hafði hann hitt akureyrska stelpu á Músíktilraunum í Reykjavík. Í kjölfarið keypti hann eldgamla bíldruslu til að heimsækja dömuna. Fjármálin voru reyndar í klessu. Hann átti aðeins 25 þús kall í vasanum. Engin kort. Þetta hlyti að reddast einhvernvegin.
Bíllinn gaf upp öndina í Hrútafirði. Stráksi lét það ekki á sig fá. Sá að vísu eftir því að hann var nýbúinn að fylla á bensíntankinn. Hann reyndi án árangurs að fá far á puttanum. Að vörmu spori stoppaði rúta hjá honum. Þetta var áætlunarbíll á leið til Akureyrar.
Kominn til Akureyrar bankaði hann upp hjá stelpunni. Hún var ekki heima. Hann spurði foreldra hennar hvort hann mætti hinkra eftir henni. Nei. Ekki var von á henni heim fyrr en eftir tvo tíma eða síðar.
Úti var rok og grenjandi rigning. Stráksi fann litla matvöruverslun. Þar hímdi hann í góða stund uns búðin lokaði. Þá færði hann sig yfir í sjoppu. Hann var ekki með síma. Að þremur tímum liðnum bankaði hann aftur upp heima hjá stelpunni. Hún var komin heim. Þau spjölluðu saman í forstofunni í góða stund. Að því kom að hann spurði hvort það væri nokkuð mál að gista hjá henni. Hún snöggreiddist. Spurði hvort hann væri klikkaður. Þau þekktust ekki neitt og hún hefði enga aðstöðu til að hýsa ókunnuga.
Þetta kom ferðalangnum í opna skjöldu. Hann var fæddur og uppalinn í litlu sjávarþorpi. Þar er til siðs að hýsa gesti. Jafnvel í nokkra daga. Stelpan benti á að í miðbænum væru ýmsir gistimöguleikar. Hún bað hann um að ónáða sig ekki aftur.
Þetta var ástæðan fyrir því að hann varð staurblankur strandaglópur á gistiheimilinu. Þegar ég tók hann með suður hafði hann ekkert borðað í tvo daga.
Er við ókum framhjá bilaða bílnum spurði ég hvort hann vilji stoppa við hann. Nei, hann sagðist ekki vilja sjá drusluna framar.
Ég benti honum á að búið væri að brjóta annað framljósið og stuðara. "Ég braut það óvart. Ég ætlaði að keyra nokkrar vegastikur niður. Ég hélt að þær væru úr timbri. Þær eru úr járni."
Hann bætti við að þetta væri ekki fyrsti bíllinn til vandræða. Er hann var nýkominn með bílpróf æfði hann sig í að hringspóla á heimilisbílnum í gamalli sandgryfju. Svo var fótboltakeppni fyrir utan þorpið. Fjöldi áhorfenda. Kauði ákvað að hringspóla á malarveginum þarna. Ekki tókst betur til en svo að bíllinn sveif útaf veginum og sat pikkfastur ofan í skurði.
"Mjög niðurlægjandi því allir þekktu mig," viðurkenndi hann.
Talið barst að sjómannsferli hans. Hann sagði hana reyna á taugarnar. Sem dæmi hefði skipstjórinn verið að öskra á hann út af litlu sem engu. Ósjálfrátt grýtti hann fiski í kallinn.
- Hvernig brást hann við? spurði ég.
- Hann rak mig. Það var óheppilegt. Ég fékk enga vinnu í þorpinu. Þess vegna neyddist ég til að flytja til Reykjavíkur og vinna á bónstöð í Kringlunni.
Skyndilega æpti drengurinn er við renndum inn í Reykjavík: "Andskotinn! Ég gleymdi að allt geisladiskasafnið mitt er í skottinu á bílnum!"
Nokkrum dögum síðar átti ég erindi í Kringluna. Ákvað að heilsa upp á gaurinn. Þá var búið að reka hann - fyrir að skrópa dagana sem hann var strandaglópur.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.10.2024 | 10:07
Breytti bíl í mótorhjól
Franskur rafvirki lét langþráðan draum rætast er hann brunaði um Marokkóska eyðimörk. Fararskjótinn var Citroen 2CV, uppnefndur bragginn. Í eyðimörkinni eru engar umferðareglur. Kappinn naut frelsisins. Hann leyfði sér að stíga þungt á bensínpedalann. Þá gerðist óhappið. Bíllinn skall ofan á steinhellu. Undirvagninn mölbrotnaði ásamt mörgum öðrum hlutum bílsins..
Úr vöndu var að ráða. Ekkert símasamband. Engir aðrir bílar á ferð. Enginn vissi af manninum þarna. 32 kílómetrar til byggða. Til allrar lukku var hann með mat og drykk sem gátu dugað til tíu daga ef sparlega var farið með. Vonlaust var að rogast með næringuna í fanginu í brennheitri sólinni. Hún var alltof þung.
Frakkinn fékk hugmynd: Hugsanlega var mögulegt að tjasla saman einhverju heillegu úr bílnum. Hanna frumstætt mótorhjól. Verra var að nothæf verkfæri voru fá í bílnum. Hann hafði takmarkaða þekkingu á bílum og mótorhjólum.
Eftir engu var að bíða. Hann puðaði langan vinnudag við að átta sig á aðstæðum. Verkið tók tólf daga. Ekki mátti seinna vera. Er hann loks náði að koma mótorhjólinu í gang átti hann aðeins hálfan lítra af vatni eftir. Hjólið skilaði honum til byggða. Þar vakti það mikla athygli. Rafvirkinn hafði fundið upp ýmsar lausnir sem mótorhjólaframleiðendur tileinkuðu sér þegar í stað.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.9.2024 | 08:34
Togast á um utanlandsferðir og dagpeninga
Utanlandsferðir hafa löngum freistað opinberra embættismenn ríkis og bæja. Togast er á um setu í nefndum, ráðum og æðri embættum. Öllum brögðum er beitt til að komast í utanlandsferðir. Þær eru bitlingur. Ekki aðeins er sport að fara í utanlandsferðir sem almenningur borgar heldur fylgja drjúgir dagpeningar með í pakkanum.
Undantekning frá reglunni var borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar. Hann beitti ströngu aðhaldi í rekstri borgarinnar. Hann fór aðeins í eina utanlandsferð í embætti. Hún var til Færeyja í boði Færeyinga. Þetta var svo óvenjulegt að illar tungur komu af stað lygasögu um að Ólafur væri flughræddur.
26 ferðir til útlanda á þessu kjörtímabili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
17.9.2024 | 09:19
Vegg stolið
Í miðbæ Þórshafnar, höfuðborgar Færeyja, er starfræktur írskur pöbb. Hann heitir Glitnir. Nafnið er ekki sótt í samnefndan íslenskan banka sem fór á hausinn. Nafnið er sótt í hýbýli norræns guðs. Sá er Forseti.
Færeyski Glitnir er notalegur pöbb. Á góðviðriskvöldum sitja viðskiptavinirnir úti á stétt. Allir deila borðum og sætum með öllum. Stundum taka menn lagið.
Á dögunum gerðist undarlegt atvik. Um það leyti sem starfsfólk lagði drög að því að loka þá uppgötvaðist að búið var að stela vegg sem þar var innandyra. Vitni telja sig hafa séð útundan sér tvo menn rogast í burtu með vegginn. Vegna ölgleði fylgdist enginn sérlega vel með þjófunum.
Líklegt þykir sem þarna hafi verið um góðlátlegt grín að ræða fremur en bíræfinn stuld. Færeyingar eru ekki alvöru þjófar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)