21.5.2025 | 09:09
Smásaga um hlýjan mann
Það er ofsagt að Fúsi flatskjár sé ekki eins og annað fólk. Til að mynda svipar honum mjög til föðurbróður síns: Sama sljóa augnráðið. Sama lafandi neðri vör og flæðandi slef í munnviki. Einhverra hluta vegna forðast fólk drenginn. Kannski vegna þess að hann þrífur sig ekki. Hann fer hvorki í sturtu né bað. Ástæða er til. Hann hefur séð hrollvekjandi sturtuatriði í bíómynd Alfreds Hitchock. Veit því að sturtur eru stórhættulegar.
Fúsi hefur tvívegis farið í bað. Í bæði skiptin með skelfilegum afleiðingum. Í annað skiptið var hann næstum drukknaður. Hann er nefnilega ósyndur. Honum til lífs varð að baðkarið var vatnslaust. Vatnsveitan var búin að loka fyrir vatnið til hans vegna vanskila.
Í hitt skiptið gerði hann vel við sig: Keypti margar plastendur og leikfangabáta. Með þetta fór hann í bað. Það var svo gaman að hann gleymdi sér. Rumskaði ekki fyrr en eftir langan tíma að síminn hringdi. Mjög langan tíma því Fúsi er ekki með síma. Vatnið var orðið ískalt. Kauði skalf eins og vibrator í hæsta gír. Hann fékk lungnabólgu og missti matarlyst í tvo daga. Það var áfall. Fáir eru gráðugri. Sósur af öllu tagi sullast yfirleitt yfir peysuna sem hann fer aldrei út. Þar má sjá fjölbreytt sýnishorn af matseðli síðustu vikna.
Fúsi er hlýr maður. Hann elskar að faðma fólk og skella slefblautum kossi á kinn eða munn. Hann er oft á vappi til að leita að einhverjum sem hann kannast við. Þá ljómar hann eins og tungl í fyllingu. Andlitið verður eitt slefandi bros svo skín í gulan og skörðóttan tanngarðinn. Glaðbeittur kjagar hann með útbreiddan faðm að fórnarlambinu. Viðbrögðin eru jafnan að hann horfir á eftir veinandi og hlaupandi fólki út í buskann á hraða sem myndi skila verðlaunasæti á Ólympíuleikum. Eftir stendur kjökrandi maður. Slefandi bros breytist í slefandi skeifu.
Foreldrarnir skipta sér lítið af drengnum. Þeir hafa aldrei samband að fyrrabragði. Ekki einu sinni á afmælisdegi hans. Mamman afsakar sig með því að fyrir handvömm hafi gleymst að skrá afmælisdag hans í afmælisdagabók heimilisins. Engin hafi því hugmynd um hvenær hann eigi afmæli. Ef hann eigi þá einhvertímann afmæli. Og þó mamman vildi hringja í hann á afmælisdegi þá er óhægt um vik út af símleysi hans.
Fúsi hringir stundum úr tíkallasíma í mömmuna. Oftast slitnar símtalið um leið. Það er ólag á tíkallasímum. Nema þegar Fúsi pantar sér pizzu.
Eitt sinn bankaði Fúsi upp hjá nágrannakonu. Hann kvartaði undan kvenmannsleysi. Hún tók honum vel en benti á að hann skorti kynþokka. Ráð væri að fylgjast með fréttum af fræga fólkinu. Herma síðan eftir klæðnaði þess. Það var eins og við manninn mælt: Gullfalleg kona hóf þegar í stað sambúð með kappanum. Að auki kom hann sér eldsnöggt upp tveimur viðhöldum: Einni konu og einum karli.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2025 | 10:03
Sparnaðarráð
Sumarið er tíminn. Sumarbústaðaeigendur og sumarbústaðaleigendur hlakka til helga og annarra sumarfrísdaga. Oft er gestkvæmt. Einkum í námunda við matmálstíma. Þá kemur sér vel að hafa hengt upp fisk og kjöt. Fátt er betra en siginn fiskur, skreið og skerpukjöt.
Verra er að flugan verpir í þetta lostæti. Það er ólystugt að bera á borð mat með iðandi möðkum - þrátt fyrir að ESB hvetji til skordýraáts. Ráð er að setja maðkaða bita í lokaðan plastpoka. Þegar dregur úr súrefni í pokanum skríður maðkurinn úr holu sinni. Á tveimur sólarhringum er hann dauður. Þá má taka matinn úr pokanum og skilja maðkinn þar eftir.
Alltaf er eitthvað um maðk sem drepst áður en hann hefur rænu á að forða sér. Hann má fela með því að sjóða hrísgrjón og hræra út í ljósa karrísósu. Heimilisfólki og gestum er talin trú um að þetta sé vinsæll indverskur hátíðaréttur. Enginn tekur eftir litlum dauðum möðkum í matnum. Þeir líta nefnilega út eins og hrísgrjónin í matnum.
7.5.2025 | 09:07
Smásaga um týnda sæng
Gistiheimilið lætur lítið yfir sér. Það er sparlega merkt - ef frá eru talin vel merkt bílastæði. Enginn hörgull er á viðskiptavinum. Hvert herbergi er jafnan uppbókað. Umsjónarmaður hússins hefur þann hátt á að skúra gólf um klukkan fjögur að morgni. Þá eru nefnilega engir á ferli. Engir til að trufla skúringarnar né rölta um blaut gólf á sokkunum.
Að loknum vel heppnuðum skúringum er kallinn vanur að skríða upp í rúm og leggja sig. Þá brá svo til eitt sinn að sængin hans var horfin. Sama hversu vel hann leitaði; sængin fannst ekki. Hann hinkraði frameftir morgni þangað til gestir fóru á ról. Þá bankaði hann upp á hjá öllum og spurði hvort þeir vissu hvar sængin hans væri. Enginn kannaðist við sængina. Fáir skildu upp né niður í málinu. Enda fáheyrt að menn týni sænginni sinni á meðan þeir skúra gólf. Fólk fór að tala um "stóra sængurmálið".
Góðar eftirlitsmyndavélar eru út um allt hús. Verra er að vegna persónuverndar tekur tvo daga að fá að skoða myndirnar. Á meðan þurfti umsjónarmaðurinn að sofa sængurlaus dúðaður í föt. Þegar myndirnar voru loks skoðaðar sást að umsjónarmaðurinn sjálfur arkaði með sængina inn í þvottahús. Þar tróð hann henni inn í þvottavél. Mikið rétt. Þarna var sængin komin er að var gáð. Niðurstaðan var sú að kallinn hefði gengið í svefni. Honum var brugðið við þessa uppgötvun. Á móti komu fagnaðarlæti yfir að fá sængina aftur í fangið.
Spaugilegt | Breytt 10.5.2025 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
30.4.2025 | 08:57
Ótrúlega ósvífið vanþakklæti
Ford pallbíll og Chrysler fólksbíll skullu harkalega saman á gatnamótum í Boston í Bandaríkjunum. Ökumaður síðarnefnda bílsins lést samstundis. Farþegi, ungur maður, slasaðist. Sjónarvottur að slysinu brá við skjótt. Hann hjúkraði þeim slasaða, veitti honum fyrstu hjálp og bar hann inn í sinn bíl. Því næst brunaði hann að næsta sjúkrahúsi og kom honum inn á slysavarðstofu. Þar aðstoðaði hann starfsfólk við að hlúa að sjúklingnum á meðan gert var að sárum hans.
Að því kom að hægt var að útskrifa hann. Hann sagðist þurfa að skreppa á salerni áður en hann myndi fylla út tryggingapappíra. Hann skilaði sér ekki til baka heldur náði að skríða út um glugga á salerninu. Þar með sat hjálpsami Samverjinn uppi með sjúkrareikninginn. Það var, jú, hann sem kom með "viðfangsefnið" á slysó.
Verra var að þegar hann kom út var bíllinn hans horfinn. Lögreglan var kölluð til. Í ljós kom að sá slasaði hafði náð að stela bíllykli Samverjans. Hann hafði gefið upp rétt nafn og heimilisfang við innritun. Lögreglan brunaði þangað og mikið rétt. Bíllinn var þar. Er lögreglan handtók kauða gaf hann þá skýringu að eftir andlát bílstjórans hafi hann verið bíllaus. Þetta var eina ráðið sem honum datt í hug til að bæta sér upp bílleysið.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.4.2025 | 10:15
Anna frænka á Hesteyri - Framhald
Að því kom að sumarhúsið var fullreist. Hjónin tilkynntu Önnu áfangann og drógu fána að húni. Sögðust koma eftir vinnu daginn eftir og sofa þarna um helgina. Hjónin hlökkuðu til að eiga heila helgi út af fyrir sig. Þá fyrstu í mörg ár.
Er þau voru að koma sér fyrir næsta dag birtist Anna og bauð þau velkomin. Með í för var fullorðin kona. Anna tilkynnti: "Þetta er frænka mín. Hún verður hjá ykkur um helgina."
Hjónunum var brugðið. Konan bað Önnu að tala við sig einslega aftan við húsið. Þar ávítti hún Önnu fyrir að troða inn á þau gesti. Anna svaraði: "Mér hraus hugur við að vita af ykkur aleinum hér alla helgina. Ég hugsaði mikið um það hvernig ég gæti forðað ykkur frá því að leiðast fyrstu helgi í bústaðnum. Þess vegna hringdi ég í frænku mína. Ég þurfti að suða í henni til að koma og vera ykkur til skemmtunar alla helgina. Hún fer á mánudaginn því hún er í vinnu."
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2025 | 09:29
Anna frænka á Hesteyri í fasteignabraski
Fullorðin hjón frá Fáskrúðsfirði brugðu sér í heimsókn til Önnu Mörtu frænku minnar á Hesteyri. Þau eru náttúruunnendur eins og hún. Þau þrjú röltu saman um land Hesteyrar og drukku í sig fegurð landsins. Nokkru fyrir ofan íbúðarhúsið er lítill foss. Hjónin göntuðust með að þarna væri fullkomið umhverfi fyrir sumarbústað.
Anna tók þau á orðinu og sagði: "Þið getið fengið landskika hérna á 43 þúsund kall."
Maðurinn hváði og spurði undrandi hvort hún væri að tala í alvöru.
"Ég skulda símreikninginn," útskýrði Anna. "Hann er 43 þúsund. Hann má ekki vera í vanskilum. Þið mynduð alveg bjarga mér."
Höfð voru snör handtök. Pappírar útbúnir, þinglýstir, gengið frá greiðslu, símreikningnum bjargað fyrir horn og sumarbústaður reistur.
Framhald í næstu bloggfærslu...
Ps. Þetta var undir lok síðustu aldar. Gengi krónunnar var annað. Hugsanlega má þrefalda verðgildið á gengi dagsins í dag.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.4.2025 | 09:13
Sérkennilegur vinsældalisti
Fyrir nokkrum árum - nánar tiltekið fyrir 61 ári - gerðist undarlegur hlutur vestur í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta var á vordögum 1964. Ensk unglingahljómsveit naut óvænt vinsælda og virðingar þarna vesturfrá. Slíkt hafði aldrei áður gerst. Þótti óhugsandi. Bandaríski vinsældalistinn varð ólíkur því sem tónlistarunnendur áttu að venjast. Skoðum hvaða lög röðuðu sér í 5 efstu sæti vinsældalistans:
Í 1. sætinu var lagið "Can´t Buy Ne Love" með Bítlunum (The Beatles). Lagið kom fyrst inn á vinsældalistann í marslok og klifraði síðan hratt upp í toppsætið.
Í 2. sætinu var "Twist And Shout" með Bítlunum. Það fór í 2. sætið í tveimur stökkum.
Í 3. sæti var "She Loves You" með Bítlunum. Lagið var áður í 1. sæti.
Í 4. sæti var "I Want To Hold Your Hand" með Bítlunum. Það var áður í 1. sæti.
Í 5. sæti var "Please Please Me" með Bítlunum. Það náði hæst í 3. sæti - vegna þess að sæti 1 og 2 voru blokkeruð af öðrum Bítlalögum.
Samtals áttu Bítlarnir 12 lög samtímis á bandaríska vinsældalistanum um þessar mundir. Nokkuð sérstakt vegna þess að hljómsveitin hafði aðeins sent frá sér 2 plötur. Þetta vakti heimsathygli.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.4.2025 | 09:52
Sparnaðarráð
Gott og hagstætt getur verið að kunna sparnaðarráð. Einkum þegar verðbólga geisar, stýrivextir eru óþægilega háir, bankavextir eru ennþá óþægilegri og framundan er tollastríð út um allar grundir. Hér kemur ráð sem kemur sér vel:
Þegar silungur eða bleikja eru smjörsteikt á pönnu þá er fátt betra en steikja möndlumylsnu með. Vandamálið er að hún er dýr. Hana má drýgja með því að ydda framan af blýanti, mylja yddið í smátt og blanda saman við möndlumylsnuna.
Brýnt er að brjóta blýið og henda því. Blý er óholt.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.3.2025 | 09:38
Niðurlægður
Ég átti erindi í Ikea. Þar er veitingastaður. Af mörgum ljúffengum réttum er lax girnilegastur. Ekki skemmir fyrir að máltíðirnar eru á hóflegu verði í samanburði við aðra matsölustaði.
Mig langaði í laxinn. Er ég tölti inn í veitingastaðinn fékk ég góða hugmynd. Mér datt skyndilega í hug að losa mig við eitthvað af klinki sem hafði hlaðist upp í vösum mínum. Til að tefja ekki röðina við afgreiðslukassann ákvað ég að vera tilbúinn með rétta upphæð.
Ég seildist eftir klinki úr tveimur vösum og lagði það í lófa minn. Þar taldi ég og sorteraði myntina. Eitthvað vantaði upp á rétta upphæð; ég seildist eftir fleiri krónum. Þá vatt sér að mér ung kona. Hún lagði 1000 kall í lófa minn. Ég spurði í forundran: "Hvað? Var ég að missa þennan seðil í gólfið?"
Hún svaraði: "Nei, ég er að gefa þér hann, Ég sé að þú ert í vandræðum með að nurla saman fyrir máltíð."
Ég leiðrétti hana. Sagðist vera borgunarmaður fyrir mat; ég ætlaði bara að losna við klink. "En takk samt!"
Ég rétti henni seðilinn. Nærstaddir flissuðu. Konan góða tók við honum niðurlút og sagði: "Úps! Sorry. Þetta er virkilega vandræðalegt."
Fjármál | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.3.2025 | 08:41
Safaríkt 1. apríl gabb
Áður en langt um líður þarf fjölmiðlafólk að leggja hausinn í bleyti og upphugsa gott 1. apríl gabb. Á árum áður gekk gabbið út á að fórnarlambið hlypi yfir þröskuld. Helst jafnvel 3 þröskulda.
Í dag eru þröskuldar á undanhaldi. Eflaust skýrir það að hluta hvers vegna gabbið hefur gengisfallið. Fjölmiðlar og fleiri eru að slá upp lygafrétt 1. apríl án þess að nokkur hlaupi. Til að mynda frétt um að einhver nafngreindur væri að hefja störf á nefndum fjölmiðli. Eða að tónlistarmaður væri að ganga í nefnda hljómsveit. Þetta eru hvorutveggja raunveruleg 1. apríl göbb sem voru andvana fædd. Enginn hljóp. Enginn hló.
Safaríkara var um árið gabb starfsfólks veitingastaðar á Höfn í Hornafirði. Það hringdi í lögguna og tilkynnti um brjálaðan mann í sturlunarástandi sem væri að rústa klósettinu. Lögreglumenn brugðu við skjótt. Er þeir ruddust með látum og kylfur á lofti inn á staðinn mættu þeim hlátrarsköll starfsfólks og gesta sem hrópuðu: "1. apríl!"
Full ástæða er til að endurnýta þetta hressilega gabb; hringja í slökkvilið, sjúkrabíl, björgunarsveitir og láta liðið hlaupa 1. apríl. Það yrði hamagangur í öskjunni!
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
12.3.2025 | 10:27
Svangur frændi
Fötluð kona í hjólastól bjó í kjallara á Leifsgötu. Dag einn fékk hún upphringingu frá frænku sinni í norðlenskri sveit. Sú sagði að 17 ára sonur sinn ætlaði til Reykjavíkur kvöldið eftir. Hann væri að kaupa bíl. Fengi hann að gista á Leifsgötunni?
Frænkan fagnaði erindinu. Frændann hafði hún ekki séð síðan hann var smápatti. Móðirin sagði hann fá far hjá vörubílstjóra. Þeir yrðu seint á ferð. Myndu varla skila sér fyrr en eftir miðnætti.
Kvöldið eftir bað sú fatlaða heimahjúkkuna um að laga mat handa frændanum og halda honum heitum uns hann mætti. Er nálgaðist miðnætti sótti syfja að konunni. Hún bað hjúkkuna um að renna sér inn í stofu. Þar ætlaði hún að dotta í haustmyrkrinu uns frændi kæmi.
Hún steinsofnaði en hrökk upp við að frændinn stóð yfir henni. Hún tók honum fagnandi og bað hann um að renna sér í stólnum fram í eldhús. Þar biði hans heitur matur. Stráksi tók hraustlega til matar síns. Hann var glorhungraður og fámáll. Umlaði bara já og nei um leið og hann gjóaði augum feimnislega í allar áttir. Sveitapilturinn var greinilega óvanur ókunnugum. Skyndilega tók hann á sprett út úr húsinu. Nokkrum mínútum síðar bankaði annar ungur maður á dyr. Hann kynnti sig sem frændann. Ættarsvipurinn leyndi sér ekki.
Hver var svangi maðurinn? Við athugun kom í ljós að stofugluggi hafði verið spenntur upp. Gluggasyllan og gólfið fyrir neðan voru ötuð mold. Greinilega var innbrotsþjófur á ferð. Hlýlegar móttökur og heitur matur hafa væntanlega komið á óvart!
5.3.2025 | 09:11
4 lög með Bítlunum sem þú hefur aldrei heyrt
Flestir hafa heyrt flest lög bresku Bítlanna. Flestir kveikja á perunni þegar þeir heyra í fyrsta skipti einhver önnur Bítlalög. Söngstíllinn og fleiri sérkenni svipta hulunni af þeim. En það eru til lög með Bítlunum sem þú hefur aldrei heyrt. Lög sem eru aldrei spiluð í útvarpi.
Undarlegasta lagið heitir Revolution 9. Það er eftir John Lennon. Uppskriftin er sú að ekki sé hægt að tralla með laginu né slá takt með því. Ekki nóg með það heldur er þetta lengsta lagið á Hvíta albúminu. Það spannar á níundu mínútu.
Annað lag heitir The Inner Light. Það er eftir George Harrison og var gefið út á B-hlið smáskífunnar Lady Madonna.
Svo er það Good Night á Hvíta albúminu. Það er eftir John Lennon en sungið af Ringo.
Upphaflega ætlaði John Lennon að hafa You Know My Name á Hvíta albúminu. Hann hætti við það og ætlaði að gefa það út á smáskífu með hljómsveit sinni Plastic Ono Band. Lagið endaði hinsvegar sem B-hlið Bítlasmáskífunnar Let It Be. Paul hefur upplýst að hann hafi aldrei skemmt sér betur við hljóðritun Bítlalags en á þessu lagi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.2.2025 | 11:09
Stórhættulegar Færeyjar
Í huga margra eru Færeyjarnar átján litlar sætar og saklausar krúttlegar smáeyjar. Jú, þær eru reyndar litlar sætar og krúttlegar smáeyjar. Samt geta þær verið óvönum varasamar. Einkum þeim sem þekkja lítið annað landslag en flatlendi.
Útlend kona, ferðamaður, komst í hann krappan er hún rölti upp fyrir þorpið Trongisvogur í Suðurey í Færeyjum. Þjóðerni hennar er ekki gefið upp. Hún var ekki komin langt upp hagann er henni varð litið aftur fyrir sig. Þá sundlaði hana og hún var gripin ofsahræðslu. Í kringum hana skokkuðu léttfættar kindur. Hún óttaðist hrap og dauðsfall og hringdi í ofboði í Neyðarlínuna.
Lögregluþjóninum sem tók símtalið tókst að róa konuna og bjóðast til að lóðsa hana niður í þorp. Sem hann og gerði.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2025 | 09:11
Aldeilis furðulegt nudd
Ég varð fyrir því að annar fóturinn bólgnaði um of og varð óþægilega aumur. Ráðið var að fara í sjúkranudd. Hugmynd mín um nudd reyndist allt önnur en raunveruleikinn. Ég var látinn leggjast á bekk. Þétt upp við bólguna var lagt tæki sem líktist Mackintosh (Quality Street) konfektdós. Nema það var ekki skrautlegt á litinn. Það var tengt við annað tæki sem líktist nettum ísskáp.
Nuddarinn ýtti á takka, settist niður og tók að skrifa á blað. Mig grunar að hann hafi verið að yrkja ljóð. Að nokkrum tíma liðnum kvartaði ég undan því að ekkert væri að gerast. Nuddarinn svaraði: "Þannig á það að vera. Þú átt ekki að finna neitt."
Að liggja í hálftíma í nuddi án þess að finna að maður sé í sjúkranuddi þykir mér klént. Hönnuður tækisins hefur greinilega enga þekkingu á sálfræði. Ef tækið á að virka sannfærandi þarf það að gefa frá sér ýmis hljóð, svo sem píphljóð. Einnig lítil blikkljós. Jafnvel titra örlítið af og til og senda frá sér smá hita.
Eftir "nuddið" fann ég engan mun á fætinum. "Alveg eins og það á að vera," fullyrti "nuddarinn" og bætti við: "Ég þarf að rukka þig um 15 þúsund og bóka þig í næsta tíma." Ég afþakkaði næsta tíma.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.2.2025 | 10:23
Frábær kvikmynd
- Titill: The Complete Unknown
- Lengd: 141 mín
- Einkunn:**** (af 5)
Myndin lýsir því þegar 19 ára söngvaskáldið Bob Dylan kemur til New York 1961. Hann var fæddur og uppalinn í Minnesota. Fyrirmyndir hans voru vísnasöngvararnir í New York. Þar á meðal aðal idolið, Woody Guthrie.
Blessunarlega eru leikararnir í myndinni ekki látnir herma nákvæmlega eftir fyrirmyndunum. Helstu sérkenni er þó stuðst við. Eðlilega reynir mest á hæfileika Timothée Chalamet. Hann leikur Dylan listilega vel; hvort heldur sem er í gítarleik, munnhörpublæstri, tali eða töktum. Hann er aðdáanlega jafnvígur á öllum þessum sviðum.
Monica Barbaro er eiginlega senuþjófur í hlutverki Joan Baez. Hún fær það erfiða verkefni að túlka ofurflotta söngrödd Baez. Útkoman er óaðfinnanleg.
Aðrir leikarar eru hver öðrum betri. Tónlistar- og þroskaferli Dylans er fylgt eftir fram til ársins 1965. Kauði er breyskur eins og flestir. Hann ræður illa við skyndilega ofurfrægð. Á það til að vera önugur, ótrygglyndur, vita ekki hver eru næstu skref og er í stöðugri vörn gagnvart samferðafólki sem setur fram ýmsar kröfur um framhaldið.
Myndin er áhugaverð í alla staði. Ekki bara fyrir aðdaendur Dylans. Líka þá sem eru að kynnast honum í fyrsta sinn. Tónlistin er að sjálfsögður fyrirferðamikil og skemmtileg. Lögin mörg hver fá að njóta til enda. Fyrir bragðið er myndin löng. Sem er gott. Enda meiriháttar lög og ennþá glæsilegri og safaríkari textar.
Ég hvet fólk til að drífa sig í bíó og njóta skemmtunarinnar í hæstu hljómgæðum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.2.2025 | 11:05
Kallinn sem reddar
Öll þekkjum við kallinn sem reddar málunum. Þennan sem getur lagað alla hluti sem farið hafa úrskeiðis. Einnig getur hann sett saman hluti af öllu tagi án þess að skoða leiðarvísi. Sama hvort það eru IKEA innréttingar eða tölvur eða hvað sem er. Hann getur meira að segja græjað sundlaug eins og hendi sé veifað.
Einkenni reddarans er að hann sniðgengur fagurfræði hlutanna. Hann er meira fyrir klastur; að hluturinn virki. Sjón er sögu ríkari.
Spaugilegt | Breytt 8.2.2025 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
29.1.2025 | 11:23
Af hverju hagar fólk sér svona?
Sú var tíð að ég bjó í lítilli risíbúð. Á hæðinni fyrir neðan bjó ungt barnlaust par. Við deildum sameiginlegri forstofu. Samskipti voru lítil sem engin. Iðulega um kvöld og helgar mátti heyra hávært rifrildi. Það var öskrað, lamið í borð, hurðum skellt og leirtau brotið.
Rifrildið stóð sjaldan lengi yfir. Hinsvegar gat það blossað upp að nýju eftir hlé. Auðheyranleg var ágreiningur um fjármál. Maðurinn sakaði konuna um að vera heimska eyðslukló og bruðlara. Konan kallaði hann nirfil og svíðing.
Einn daginn bankaði maðurinn á dyr hjá mér og spurði:
- Átt þú eitthvað vantalað við mig?
- Nei, af hverju spyrðu?
Hann dró fram stórt spjald. Á því stóð: "Farðu til helvítis, nískupúki!" Hann benti á spjaldið og spurði:
- Er þetta ekki frá þér?
- Nei, alls ekki.
- Ef þú átt eitthvað vantalað við mig þá vil ég að þú talir við mig fremur en hengja svona á hurðina hjá mér!"
Með það fór hann vandræðalegur.
Utan húss höguðu hann og frúin sér í ósamræmi við rifrildin. Þau leiddust, föðmuðust, hlógu og hamingjan geislaði af þeim. Frænka mín vann á sama vinnustað og þau. Þar á bæ voru þau álitin vera ástfangnasta par í heimi; stöðugt að faðmast og hlæja.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.1.2025 | 10:00
Passar hún?
Á Akureyri býr 94ra ára kona. Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól. Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika. Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér. Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.
Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening. Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu. Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.
Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði:
- Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?
- Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.
- Passar hún?
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.1.2025 | 10:34
Þegar Paul McCartney yfirtók frægustu hljómsveit heims
9. október 1956 fagnaði ungur drengur í Liverpool í Englandi 16 ára afmæli. Hann hét John Lennon. Nokkrum dögum síðar stofnaði hann hljómsveit, The Quarrymen. Hún spilaði svokallaða skiffle tónlist. John söng og spilaði á gítar. Hljómsveitin fékk nóg að gera.
Um sumarið gekk 15 ára piltur, Paul McCartney, til fundar við John. Hann langaði í hljómsveitina. John dáðist að tónlistarhæfileikum hans og bauð hann velkominn um borð.
Skólabróðir Pauls, George Harrison, var lipur gítarleikari. Hann var aðeins 14 ára. Á þessum aldri munar miklu um hvert ár. John hugnaðist ekki að verða barnapía. Paul suðaði og fékk að leyfa George að djamma með hljómsveitinni. Hann náði að heilla John.
Eftir nokkrar mannabreytingar endurnefndi John hljómsveitina The Beatles, kölluð Bítlarnir á Íslandi. 1962 tók Ringo Starr við trommukjuðunum. Þar með var hljómsveitin komin í sitt endanlega horf. Hún var alla tíð hljómsveit Johns. Hann réði ferðinni, samdi og söng flest lögin. Hann lagði þó ríka áherslu á að Bítlarnir væru hljómsveit jafningja. Hún lagði undir sig heimsmarkaðinn svo rækilega að aldrei verður saman jafnað.
Adam var ekki lengi í Paradís. Vinsældirnar og frægðin fóru að þjaka John. Hann varð óhamingjusamur. Hann varð faðir án áhuga á því hlutverki. Hann var í ástlausu hjónabandi. Honum þótti Bítlarnir vera sirkusatriði. Hvorki öskrandi áheyrendur né Bítlarnir sjálfir heyrðu hvað fór fram á sviðinu. Að auki hafði hann ekki unnið úr ótal áföllum æskuáranna. Foreldrarnir stungu drenginn af og hann hitti þau ekki fyrr en á fullorðinsárum. Ströng og snobbuð frænka hans ól hann upp. Hún var ekkert fyrir að faðma eða knúsa barn. Maður hennar var hressari. Hann dó er John var 12 ára. Þegar hann á unglingsárum hitti mömmu sína var hún drepin af ölvuðum bílstjóra. Áfram mætti lengi telja.
1966 féllst umboðsmaður Bítlanna, Brian Epstein, á að hljómsveitin hætti hljómleikahaldi. Ári síðar dó hann. Það var enn eitt áfallið. Hann hafði leitt hljómsveitina frá fyrstu skrefum og í gegnum ofurvinsældirnar. Viðbrögð Johns voru að hella sér út í harða eiturlyfjaneyslu. Upp frá því var hann hálfur út úr heimi, áhugalítill og latur.
Viðbrögð Pauls voru ólík. Hann var og er mjög ofvirkur en líka stjórnsamur. Hann tók eiginlega við af Brian Epstein. Bókaði hljómsveitina í hin ýmsu verkefni með misjöfnum árangri. Verra var að ofríki hans pirraði George og Ringo. Báðir hættu í hljómsveitinni um tíma. Hinsvegar var Paul diplómatískari í samskiptum við John, vitandi að hann léti ekki að stjórn. Á síðustu Bítlaplötunum semur Paul, syngur og útsetur flest lög.
Án ofvirkni Pauls og eftirrekstrar hefðu plötur Bítlanna orðið tveimur færri eða rúmlega það.
Tónlist | Breytt 6.2.2025 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.1.2025 | 19:36
Framhald á frásögn af undarlegum hundi
Þegar hér var komið sögu var hundinum komið fyrir í Kirkjubæ, fámennu smáþorpi á Straumey. Flottu þorpi með sögu. Úti fyrir þorpinu er smá hæð á veginum. Þar er einnig eins og dæld. Venjulega er ekið þar um á litlum hraða. Samt nógum til að bíllinn eins og stekkur yfir.
Hundurinn tók þegar í stað að leggjast flatur í dældina á veginum þegar bílar óku þar um. Bílstjórar urðu hans ekki varir fyrr en ekið hafði verið yfir hann. Þá var þeim illa brugðið en hvutti stóð upp, hristi sig og beið eftir næsta bíl. Tóku þeir þá gleði sína á ný.
Einhverra hluta vegna brá seppi aldrei á leik við íbúa Kirkjubæjar. Einhverra hluta vegna náði hann alltaf að staðsetja sig á veginum .þannig að hann varð ekki undir hjóli. Nema einu sinni. Þá voru dagar hans taldir.