10.3.2008 | 17:04
Laminn og rændur
Eins og fram kemur á færslu hér aðeins fyrir neðan þá tókst Pönkhátíðin á Grand Rock á laugardaginn afskaplega vel í alla staði. Einn þeirra sem hafði hvað ríkustu ástæðu til að vera ánægður með það hvað kvöldið heppnaðist snilldarlega var söngvarinn, hljómborðs- og bassagítarleikarinn Árni Daníel Júlíusson, oftast kenndur við Q4U.
Kvöldið fékk þó heldur leiðinlegan endi fyrir Árna Daníel. Þegar hann gekk heim til sín um nóttina, sæll og glaður yfir ánægjulegu kvöldi, varð hann fyrir fólskulegri árás þriggja manna. Þeir börðu hann niður í götuna og rændu af honum iPod og 15 þúsund krónum.
Atvikið átti sér stað á Hringbraut við gatnamót Gamla kirkjugarðsins og Þjóðarbókhlöðunnar. Þetta var á sjötta tímanum aðfaranótt sunnudags. Árni Daníel hlustaði á tónlist í iPodinum og var með heyrnartólin í eyrunum. Hann heyrði þess vegna ekki þegar óþokkarnir læddust að honum og réðust á hann með barsmíðum aftan frá. Skyndilega fann hann bara þung högg í hnakka og aftan á háls þannig að hann skall til jarðar og vankaðist. Á örfáum sek. náðu þrjótarnir af honum iPodinum og seðlaveski með 15 þúsund krónum í. Síðan hurfu þeir jafn skjótt og þeir birtust.
Þetta gerðist svo hratt, jafnframt því sem Árna Daníel var eðlilega mjög brugðið, að hann náði ekki að bera kennsl á mennina að öðru leyti en því að þeir virtust vera ungir. Peningurinn og iPodinn eru ekki neitt sem skiptir miklu máli. Né heldur marblettir og bólgur. Það er hinsvegar upplifunin af að lenda í svona fólskubrögðum sem situr eftir.
Rétt er að vekja athygli á því að nágrenni Gamla kirkjugarðsins er hættusvæði á nóttunni. Ungir dópistar halda sig iðulega í kirkjugarðinum að nóttu til í góðu veðri. Árásin á Árna Daníel er hvorki sú fyrsta né önnur sem á sér stað þarna.
9.3.2008 | 22:44
Vinsælustu lögin í pyntingabúðum Bandaríkjahers
Brúskur forseti Bandaríkjanna beitti neitunarvaldi í liðinni viku gegn frumvarpi um að dregið verði úr pyntingum á föngum. Honum þykir næstum því jafn gaman af að láta lesa fyrir sig skýrslur um pyntingar eins og að horfa á jólunum á myndbönd af aftökum í Texas. Pyntingar og aftökur eru hornsteinn vestræns lýðræðis og mannréttinda samkvæmt hugarórum Brúsks. Það er kannski ekki ástæða til að setja spurningamerki við þá. Frekar kannski við vinsældalista þeirra sem breiða út boðskapinn með því að spila á hæsta styrk bandaríska músík - og þungarokk með áströlsku AC/DC og hommapopp með áströlsku Bee Gees - fyrir fanga Bandaríkjahers í Írak og Guantanamo. Bæði til að halda fyrir þeim vöku og ergja þá og til að yfirgnæfa í þeim sársaukaöskrin. Þannig lítur vinsældalistinn út:
1. "Fuck Your God" með Deicide
2. "Die MF Die" með Dope
3. "Take Your Best Shock" með Dope
4. "White America" með Eminem
5. "Kim" með Eminem
6. "Barney Them Song" með Barney
7. "Bodies" með Drowing Pool
8. "Enter Sandmen" með Metallica
9. "TV commercials" með Meow Mix
10. "TV Themes" með Sesar A
11. "Babylon" með David Gray
12. "Born in the USA" með Bruce Springsteen
13. "Shoot to Thrill" með AC/DC
14. "Hells Bells" með AC/DC
15. "Stayin Alive" með Bee Gees
16. "All Eyes on Me" með Tupac
17. "Dirty" með Kristínu Aguilera
18. "America" með Neil Diamond
19. "Bulls on Parade" með Rage Against the Machine
20. "American Pie" með Don McLean
Ég á nokkur lög á þessum lista. Og kann vel við þau. Til að mynda lögin með Brúsa Sprengjusteini, Metallicu, AC/DC, Deicide, Dope og Rage Against the Machine. Hinsvegar átta ég mig á því að það sé kvöl og pína að sitja undir viðbjóðnum með Bee Gees og Kristínu Aguilera. Jafnframt tel ég klaufalegt hjá pyntingastjórunum að spila ekki frekar "American Pie" í hörmulegum flutningi Madonnu en þægilegan flutning Dons McLeans.
Fyrir þá sem þekkja ekki Deicide þá er þar á ferð ágæt dauðarokksveit frá Florida. Í textum og viðtölum er hljómsveitin mjög upptekin af kristni, sem litast af andúð á samstæðu trúarbrögðunum frá Arabíu: Gyðingdómi, kristni og islam. Samt aðallega kristni.
Hljómsveitin Dope er þokkaleg speed-metal sveit sem einnig á rætur að rekja til Florida, þar sem bróðir Brúsks er ríkisstjóri. Nafnið er dregið af því að liðsmenn voru - og eru kannski enn - dópsalar.
Ég hef ekki hlustað mikið á Drowing Pool. Sú hljómsveit kemur frá Dallas í Texas, þar sem Brúskur var ríkisstjóri og toppaði önnur ríki Bandaríkjanna í aftökugleði á föngum. Af því litla sem ég hef heyrt með Drowing Pool þá skilgreini ég hana undir nu-metal (þungarokk með rapp-ívafi). Samt held ég að hljómsveitin sé fremur skilgreind sem almenn þungarokkssveit. En hvað veit ég? Þekki hljómsveitina ekki nógu vel.
Þegar Bandaríkjamenn spila "Born in the USA" með Brúsa Sprengjusteini bregða þeir jafnan bandaríska fánanum á loft. Sá kengruglaði forseti, Ronald Reagan, notaði þetta lag í kosningabaráttu sinni. Brúsi gaf sitt leyfi fyrir því gegn því að Ronald myndi hlusta á plötu Brúsa "Nebraska". Á "Nebraska" er sungið um fátæka fólkið í Bandaríkjunum. Í "Born in the USA" dregur Brúsi upp gagnrýna mynd af hernaði Bandaríkjanna í Vietnam. En í hugum Bandaríkjamanna er það viðlagið sem telur. Það framkallar þjóðarrembu.
Ég er sannfærður um að liðsmenn Rage Against the Machine eru ekki ánægðir með að músík þeirra sé notuð til pyntinga á föngum. Ég tók viðtal við gítarleikara RATM þegar hljómsveitin spilaði í Hafnarfirði 1992 eða ´93. Í nokkur ár á eftir héldum við sambandi. Eða réttara sagt þá sendi hann mér reglulega þá óútgefið efni með hljómsveitinni, skyrtuboli merktum hljómsveitinni og gott ef ekki húfu ásamt áróðursefni um mannréttindi í sunnanverðri Ameríku. Fyrir klaufaskap var ég latur við að þakka fyrir sendingarnar og samskiptin rofnuðu.
Tónlist | Breytt 10.3.2008 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
9.3.2008 | 20:08
Upprisa hljómsveitar
Það er skammt stórra högga á milli í upprisumálum stórhljómsveita. Fyrst voru það tröllin í Led Zeppelin sem endurreistu þessa bestu hljómsveit rokksögunnar með aðstoð Jasons Bonhams, sonar trommusnillingsins Johns heitins Bonhams. Flokkur íslenskra þursa lét sitt ekki eftir liggja og endurvakti Þursaflokkurinn. Og núna á 27 ára afmæli hljómsveitarinnar Lexíu frá Laugabakka í Húnavatnssýslu - og aldarfjórðungi eftir að hljómsveitin lagði upp laupana - er komið að lagþráðri upprisu. Lexía var vinsælasta ballhljómsveitin á Íslandi sumrin 1981 og 1982. Kíkið á heimasíðuna www.lexia.blog.is og fylgist með upprisunni, ásamt því að fræðast betur um hljómsveitina.
Sendið þangað inn ljósmyndir af Lexíu og af húðflúruðu nafni hennar á hinum ýmsu líkamspörtum aðdáendaskarans.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.3.2008 | 03:26
Glæsilega vel heppnuð pönkveisla
Ég var að koma af Pönkhátíðinni á Grand Rock og er virkilega sæll og glaður. Hljómleikarnir stóðust allar væntingar. Þeir tókust glæsilega vel í flesta staði. Lagavalið var eins og best verður á kosið; Öllum helstu þjóðsöngvum pönksins var gerð góð skil. Ég saknaði ekki neins lags sérstaklega.
Mér telst til að 7 lög hafi verið flutt af fyrstu þremur plötum The Clash. 4 - 5 (eða 6? Ég var ekki að telja en er að reyna að rifja upp) lög voru flutt úr smiðju eftirtalinna hljómsveita, hverri fyrir sig: Sex Pistols, The Jam, Stiff Little Fingers og The Ramones. Tvö lög eftir The Stranglers og lög frá The Damned, The Buzzcocks, Undertones...
Samsetningin á lagavalinu náði að fanga og koma bærilega til skila fjölbreytileika pönksins. Sumir sem upplifðu ekki pönkbylgjuna beint í æð halda ranglega að pönkið hafi verið einhæft músíkform er hafi verið rígbundið við uppskrift laganna Anarchy in UK, White Riot og New Rose. Það vill gleymast að reggí og ska vógu þungt í pönk-senunni. Sömuleiðis var nýbylgjan stórt fylgitungl pönksins. Þverskurður af þessu var afgreiddur eins og best var á kosið.
Fjölbreytninni var jafnframt gerð skil með tíðum innáskiptingum flytjenda. Valli í Fræbbblunum og Ingunn Magnúsdóttir, Árni Daníel úr Q4U, Óskar Þórisson úr Taugadeildinni og Heiða, kennd við Unun, skiptu á milli sín forsöng. Ég ætla ekki að reyna að telja upp hljóðfæraleikarana eða bakraddasöngvara. Læt nægja að telja upp trommarana: Stebba í Fræbbblunum, Komma úr Q4U og Gumma Gunnars úr Tappanum og Das Kapital. Hver um sig hefur sinn ágæta trommustíl.
Svo skemmtilega vill til að ég á öll 40 lögin sem flutt voru nema lagið með Blondie. Ég á enga plötu með Blondie og er ekki aðdáandi þeirrar hljómsveitar. Samt þótti mér ekkert nema vel við hæfi að hafa það lag með. Blondie var, jú, vinsælasti hlutinn af bandarísku pönksenunni.
Smá kurr var í salnum þegar reggí-lag frá Elvis Costello var flutt. Einhverjir gerðu athugasemd við að Elvis væri ekki pönk. Lagið smellpassaði samt inn í dagskrána og vissulega var STIFF-gengið - sem Elvis tilheyrði - áberandi hluti af pönksenunni.
Hljómleikarnir enduðu á frábæru lagi Sham 69, If the Kids Are United. Betra lokalag á næstum því 3ja klukkutíma langri pönkdagskrá er vandfundið. Magnað samsöngslag þar sem salurinn tók undir í söng og klappi.
Einu hnökrar hljómleikanna voru að söngur var oft of lágt stilltur. Árni Daníel, góðvinur minn úr Svarfaðardal og bekkjarbróðir Steina Briem, kom mér á óvart sem kröftugur öskursöngvari. Ég vissi að hann er fínn bassaleikari og hljómborðsleikari en vissi ekki af þróttmiklum sönghæfileikum hans. Söngvararnir - sem og reyndar allir aðrir flytjendur - voru virkilega flottir. Framan af ferli Fræbbblanna þótti mér Valli vera mistækur söngvari. Sem svo sem passaði við pönkstemmningu þeirra ára. Síðan hefur hann vaxið sem söngvari jafnt og þétt. Og er ágætur gítarleikari líka. Í kvöld var hann fantagóður söngvari og algjörlega á heimavelli.
Einn af mörgum kostum flutningsins í kvöld var að ekki var reynt að rígbinda sig við að hljóma alveg eins og frumflytjendur. Persónulegur stíll flytjenda fékk að njóta sín þó að tryggð væri haldið við frumflutning laganna. Til að mynda þótti mér gaman að heyra The Clash slagarann "White Man in Hammersmith Palias" hraðað lítillega úr reggítakti yfir í ska takt. Það kom virkilega vel út.
Hljómleikarnir voru kvikmyndaðir af tveimur kvikmyndavélum. Vonandi verða þeir sýndir í sjónvarpinu (og endursýndir þrisvar sinnum) og jafnvel sýndir í erlendum sjónvarpsstöðvum.
Ég var ekki aldursforsetinn í salnum. Hrafn Gunnlaugsson og Magnús Pálsson (bróðir Sæma Rokk) voru líka í salnum. Uppistaðan af áheyrendum voru þó ungt fólk. Efasemdir um að Grand Rock henti undir svona hljómleika stóðust ekki. Að vísu var troðið út úr dyrum. En það var bara hluti af stemmningunni.
Smá lókal: Gaman var að hitta Ágúst sem áður rak tölvufyrirtækið Micro. Hann er mágur Gumma frá Sölvanesi. Ég sá um auglýsingar fyrir Micro í gamla daga en hafði ekki hugmynd um að Gústi væri pönkari. Einnig hitti ég Hreiðar, sem spilaði á tímabili á bassa með Gyllinæð, og Einar Loka sem spilaði blús á opnunarhátíð Good Fellas í haust. Marga fleiri kannaðist ég við. Svo sem Frikka pönk sem spilaði með Sjálfsfróun á tímabili.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
8.3.2008 | 14:56
Pönkveisla á Grand Rock
Færeyingar tala um átfund þegar þeir eiga við veislu. Átfundur er gott orð sem lýsir fyrirbærinu betur en orðið veisla, sem þó er dregið af orðinu veitingar. Betur fer þó á því að kalla pönkhátíðina á Grand Rock í kvöld pönkveislu. Þar mun rjóminn af pönkrokkurum níunda áratugarins matreiða 40 helstu einkennislög pönkbyltingarinnar á seinni hluta áttunda áratugarins.
Eitt af aðalsmerkjum pönksins á þessum árum voru sterkar og grípandi laglínur. Fyrir bragðið hefur fjöldi þeirra orðið klassískur. Ég ætla að flestir rokkunnendur kannist við lögin sem verða flutt í kvöld þó að þeir séu undir þrítugsaldri. Og eitt er víst: Það verður mikið fjör og mikið gaman.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2008 | 01:32
Spurningakeppnin á Organ
Ég ætlaði í kvöld að taka þátt í popp-spurnginarkeppninni á Organ. Ég skutlaði Danna í Gyllinæð þangað korter yfir sex og leitaði að gjaldfrjálsu bílastæði. Fyrir viku síðan fékk ég nefnilega 1500 krónu sekt fyrir að leggja í gjaldskylt bílastæði. Það jafngildir næstum 3 bjórum. Þegar ég loks mætti í hús var spyrjandinn að bera upp spurningu númer 17.
Við Danni kunnum svörin við næstum því öllum spurningum sem við heyrðum. En það var of langt á keppnina liðið til að við hefðum möguleika. Sigurvegari kvöldsins var Helga Þórey, plötugagnrýnandi Morgunblaðsins. Hún og félagi hennar (sem ég náði ekki nafni á) voru með 23 rétt svör af 30.
Helga Þórey er ekki aðeins alfræðiorðabók um poppmúsík og plötugagnrýnandi sem ég er ALLTAF sammála. Hún er líka einlægur Færeyingavinur, bráðgáfuð, gullfalleg og skemmtileg.
Svo broslega vill til að Helga Þórey er spurningahöfundur næsta föstudags. Þá verð ég fjarri góðu gamni. Verð í Færeyjum og get ekki svarað rétt spurningum Helgu Þóreyjar um það hvað Eivör hefur sent frá sér margar sólóplötur (5) eða verið liðsmaður hvaða hljómsveita sem hafa sent frá sér plötur (Clickhaze og Yggdrasil).
Tónlist | Breytt 10.3.2008 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.3.2008 | 12:10
Fréttablaðið "skúbbar" með frétt af blogginu mínu
Til að allt sé á hreinu og enginn misskilji neitt þá þykir mér þetta gaman. Bara gaman og ekkert nema mjög gaman. Glaður í bragði og með bros á vör vek ég athygli á þessu: Ein aðalfréttin á visir.is í dag er "skúbb" um útkomu í skoðanakönnun hér á blogginu mínu um besta íslenska hljómsveitarnafnið. Ég hef ekki séð Fréttablaðið í dag en svo virðist sem fréttin sé þar líka. Fréttin er merkt Fréttablaðinu.
Strangt til tekið er "skúbbið" með fyrri skipunum. Könnuninni er ekki lokið. Ég geng þó út frá því sem vísu að endanleg niðurstaða sé komin varðandi efstu sætin núna þegar 439 atkvæði hafa verið greidd. Röðin á efstu sætunum hefur ekkert breyst frá því að innan við 100 atkvæði höfðu skilað sér í hús. Þannig að þetta skemmtilega "skúbb" Fréttablaðsins stendur.
------------------------------------------------------------------------------------------------
Spilverk þjóðanna besta hljómsveitarnafnið
Jens Kr. Guðmundsson hefur undanfarið staðið fyrir ýmsum lesendakönnunum á bloggsíðu sinni. Í nýjustu könnuninni er spurt Hvert er besta íslenska hljómsveitarnafnið?". Könnun Jens er hávísindaleg og hann byrjaði á því að óska eftir tillögum frá lesendum. Viðbrögð voru góð og Jens tók saman lista yfir þau fimmtán nöfn sem fengu flestar tilnefningar. Nú hafa rúmlega 400 manns kosið. Spilverk þjóðanna" hefur tekið afgerandi forystu með 18,4 prósent atkvæða. Kamarorghestarnir" eru í öðru sæti með tólf prósent, svo kemur Unun" með 9,6 prósent og Purrkur Pillnikk með 8,3 prósent atkvæða.
Þessi staða kemur mér ekkert á óvart, enda er þetta óviðjafnanlega stórt nafn fyrir litla hljómsveit og lágværa," segir Valgeir Guðjónsson, einn Spilverksmanna. Bandið varð til í MH og kom fyrst fram undir þessu nafni árið 1972. Áður höfðu nöfn eins og Hassanssmjör", Egils appelsín" og Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar" verið mátuð við tríóið.
Við vorum þrír að velta nafni sveitarinnar á milli okkar," segir Valgeir. Spilverk kom fyrst. Bjólan fór í orðabók og komst að því að Spilverk getur þýtt grindverk á milli bása í fjósi. Okkur fannst það ekkert verra. Þjóðanna bættist svo við. Okkur fannst það fyndið og lýsa geigvænlegum skorti á minnimáttarkennd. Það var lókal húmor hjá okkur að bæta þriðja n-inu við ákveðinn greini fleirtölu nafnorða svo nafnið var alltaf skrifað Spilverk þjóðannna í byrjun." - glh
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Ég var að setja lagið Ætlarðu að hringja á morgun? með söngkonunni Jóhönnu Seljan í tónspilarann hér á síðunni. Það hefur ekki verið gefið út ennþá. En fulltrúar plötufyrirtækjanna eiga eftir að togast á um að fá þetta lag á safnplötu í kjölfar þess að hlusta á það hér. Einnig munu dagskrárgerðarmenn útvarpsstöðva einhenda sér í að verða fyrstir til að kynna lagið í sínum þáttum.
Lagið er út af fyrir sig ekki nýtt. Það er hátt í hálfrar aldar gamalt. Tröllreið fyrst vinsældalistum í flutningi stúlknasönghópsins The Shirelles og hefur síðan verið endurunnið af ótöldum fjölda stórstjarna. Oft með góðum árangri. Í fljótu bragði man ég eftir laginu í flutningi Bryans Ferrys, Robertu Flack, Melanie, Amy Winehouse, Joe Walsh, Lindu Ronstadt, Smokey Robinson og Joni Michelle.
Höfundar lagsins eru Gerry Goffin og Carole King. Þegar ég skellti laginu í flutningi Jóhönnu Seljan undir geislann varð mér á að hugsa: "Nei, sko. Stelpan að heiðra Phil Spector." Það er svo sterkur Phil Spector keimur af laginu. En mér tókst að átta mig á höfundum þess áður en ég skrifaði þessa færslu.
Jóhönnu Seljan þekki ég ekki. En ég þekki Þórodd Seljan föður hennar, skólastjóra á Reyðarfirði síðast þegar ég vissi. Sömuleiðis þekki ég afa hennar og ömmu. Ömmunni kenndi ég skrautskrift fyrir mörgum árum. Afinn, Helgi Seljan, er formaður bindindisfélagsins IOGT. Hann var alþingismaður til margra ára og síðar framkvæmdarstjóri Öryrkjabandalagsins. Sjónvarpsmaðurinn Helgi Seljan, sem tók við mig Kastljóssviðtalið umtalaða, og Jóhanna eru bræðrabörn.
Allt saman svo mikið úrvalsfólk að það er mér heiður að fá að frumflytja og kynna til leiks þetta lag með Jóhönnu Seljan hér í tónspilaranum mínum. Ég veit fátt meira um þetta lag og þennan flutning annað en að trommari 200.000 naglbíta slær taktinn.
Gaman væri að heyra viðbrögð/skoðun ykkar á flutningi Jóhönnu á þessu lagi.
Athugið að það þarf að "skrolla" niður tónspilarann til að finna lagið.
Tónlist | Breytt 5.3.2008 kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
2.3.2008 | 23:38
Besta íslenska hljómsveitarnafnið?
Ég hef sett í gang skoðanakönnun um besta íslenska hljómsveitarnafnið. Aldrei þessu vant ákvað ég að gæta hlutleysis við að fá fram raunhæfa niðurstöðu um mat á því. Þess vegna byrjaði ég á því að óska eftir tillögum frá ykkur. Viðbrögð voru góð og ég tók saman lista yfir þau nöfn sem fengu flestar tilnefningar.
Næsta skref var að birta þann lista og óska eftir vangaveltum um hann, frekari stuðning við nöfnin á honum og bauð upp á fleiri tillögur. Út úr því ferli kom sá listi sem ég hef sett hér saman í formlega skoðanakönnun með atkvæðagreiðslu. Formlega skoðanakönnunin er þess vegna 3ja skref í leit að besta íslenska hljómsveitarnafninu.
Skoðanakannanakerfið hérna á blog.is býður einungis upp á val á milli 15 nafna. Þar eru þau 15 nöfn sem fengu flest atkvæði í forkönnunum tveimur. Ég hefði viljað setja á listann nokkur nöfn sem ég kann vel við: Gyllinæð, Frostmark, Jarlar, Bisund og svo framvegis. En vegna þess að ég vil fá marktæka niðurstöðu þá held ég mig alfarið við þau nöfn sem mestan stuðning fengu í forkönnunum.
Gaman væri að fá hjá ykkur rök fyrir stuðningi við það nafn sem þið teljið vera besta íslenska hljómsveitarnafnið. Sömuleiðis væri gaman að fá rök fyrir nöfnum sem þið teljið að eigi ekki heima á þessum lista.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (61)
1.3.2008 | 05:54
Hörkuspennandi tónlistargetraun
Siggi Lee Lewis dró mig á Organ í gærkvöld til að taka þátt í Pop-Quiz tónlistargetraun. Ég hef aldrei áður tekið þátt í svona tónlistargetraunum á Organ eða Grand Rock og vissi lítið út á hvað dæmið gekk. Hinsvegar hef ég lagt það í vana minn að koma vel út í öðrum tónlistargetraunum og sá enga ástæðu til að gera breytingu á.
Þátttaka var góð. Setið við hvert borð. Valgeir Guðjónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, var höfundur spurninga og spyrill. Hann fór á kostum. Honum tókst að yfirfæra einfaldar spurningar í góða brandara og sumum spurningum stillti hann þannig fram að svör gátu ekki orðið annað en brandarar líka. Sömuleiðis fór hann létt með að snúa athugasemdum utan úr sal upp í létta brandara. Varð af þessu hin besta skemmtun og óhætt að segja að Valgeir kitlaði hláturtaugar þannig að endanleg úrslit urðu aukaatriði í frábæru skemmtikvöldi.
Þegar farið var yfir svör voru tvær spurningar felldar niður. Önnur vegna þess að hún stóðst ekki og hin vegna þess að svarmöguleikar reyndust vera fleiri en einn. Þar var spurt um það fyrir hvað Jethro Tull hafi getið sér frægð.
Ég svaraði að hann hafi skrifað fræga bók um jarðrækt. Sá sem hæst skoraði á móti mér svaraði að Jethro Tull hafi orðið frægur fyrir plóginn. Svarið sem spurningahöfundur leitaði eftir var að Jethro Tull fann upp sáðvélina.
Ég vil meina að mitt svar sé réttast og vísa til upplýsinga um Jethro Tull á til að mynda Wikipedia. Engu að síður er svona spurningakeppni fyrst og fremst léttur leikur, góð skemmtun og engin ástæða til að umgangast hana öðruvísi. Það var mér algjörlega að meinalausu þó að þessi spurning væri felld niður. Og þó að Jethro Tull hafi ekki fundið upp plóginn þá betrumbætti hann plóginn.
Hin spurningin sem var felld niður snéri að því að þegar Pink Floyd hljóðritaði meistaraverkið Dark Side of the Moon þá hafi önnur ennþá frægari hljómsveit hljóðritað í sama hljóðveri ennþá frægari plötu. Valgeir vildi meina að það hafi verið Bítlarnir að hljóðrita Abbey Road. Ég benti á að Abbey Road var hljóðrituð 1969 en Dark Side of the Moon 1973. Án þess að ég viti hvar Pink Floyd hljóðrituðu sínar plötur þá hljóðrituðu Pink Floyd plöturnar More og Umma Gumma 1969. Sama ár hljóðrituðu Bítlarnir Abbey Road.
Þessi spurning var því felld niður af dómnefnd spurningakeppninnar.
Leikar fóru þannig að niðurstaða kvöldsins var fengin með bráðabana. Ég svaraði fyrstu 4 spurningum hans rétt en klikkaði á spurningunni um nafn köngulóarinnar í fyrsta laginu sem John Entwistle samdi. Keppinauturinn vissi að hún hét Boris. Þar með voru úrslit ráðin. Smáklúður hjá mér að muna ekki eftir nafni lagsins Boris the Spider. Ég endaði í 2. sæti. Sem er ekkert nema gaman.
Ég endurtek og ítreka að ég er ekki á nokkurn hátt ósáttur við úrslitin. Það er ekkert nema gaman að taka þátt í svona leik. Það er jafnframt bara gaman að uppgötva óvænt að ég sé ekki fróðastur allra um rokksöguna. Sú staðreynd kallar á endurmat á styrkleika mínum á því sviði. Ég er blessunarlega laus við keppnisskap og hafði einungis gaman að leiknum.
Ekki síður þótti mér gaman að hitta gamlan kunningja, Kristinn Pálsson, og uppgötva að hann sér um þáttaröðina fróðlegu og skemmtilegu á rás 2 Uppruni tegundanna. Eins vel og ég reyni að fylgjast með þessari þáttaröð þá var ég ekki búinn að kveikja á því hver er umsjónarmaður hennar. Einhvernvegin fannst mér það vera Páll Kristinn Pálsson rithöfundur, án þess að hugsa frekar út í það.
Einnig þótti mér gaman að hitta Helgu Þóreyju, plötugagnrýnanda Morgunblaðsins. Við höfum vitað af hvor öðru til fjölda ára án þess að þekkjast eiginlega. Skrifuðum til dæmis bæði fyrir poppblaðið Sánd á sínum tíma. En það skemmtilega er að við eigum sameiginlegan stóran kunningja- og vinahóp, bæði hérlendis og í Færeyjum. Þannig að við höfðum um margt að spjalla.
Ekki nóg með það heldur hitti ég líka yngri bróðir Kidda rokk. Sá er í hljómsveitinni Singapore Sling. Fleira fólk hitti ég sem gaman var að ræða við.
Þannig að kvöldið varð hin mesta skemmtun sem náði langt útfyrir spurningakeppnina. Áður en ég hélt heim fór ég í eftirlitsferð upp í Ármúla. Það var allt undir "kontról" bæði á Classic Rock og Good Fellas svo ég gat farið að sofa áhyggjulaus.
Tónlist | Breytt 4.3.2008 kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.2.2008 | 23:17
"Óhapp" á lögreglustöð
Höfum það á hreinu að hér er ekki verið að afsaka ölvunarakstur. En ofbeldi með þvaglegg eða annarskonar ofbeldi gagnvart ölvuðum ökumanni er ekki síður alvarlegt mál. Myndirnar hér að ofan segja meira en mörg orð. Efri myndin sýnir unga konu áður en hún var handtekin fyrir ölvunarakstur. Neðri myndir sýnir sömu konu eftir skýrslutöku.
Myndband af skýrslutökunni fer nú eins og eldur um sinu um netheima í Bandaríkjunum (og víðar). Myndbandið sýnir konuna handjárnaða í skýrslutöku. Skyndilega slekkur lögreglumaðurinn á upptökubúnaði. Þegar kveikt er á búnaðinum aftur nokkrum mínútum síðar er konan í því ásigkomulagi sem neðri myndin sýnir: Nefbrotin, er tveimur framtönnum fátækari, blóðug, marin og blá.
Eftir að myndbandið og ljósmyndirnar urðu opinberar var lögreglumaðurinn leystur frá störfum en yfirmenn hans hafa komið í veg fyrir að hann yrði kærður. Þrjár konur til viðbótar hafa þó komið fram sem lýsa svipuðum kynnum af lögreglumanninum: Það er að segja að hann hafi lamið þær í klessu.
Lögreglumaðurinn heldur því fram að hann hafi í einhverju fikti slökkt á upptökubúnaðinum en þá hafi konan dottið í gólfið með þessum afleiðingum án þess að hann gæti rönd við reist henni til hjálpar. Þetta hafi bara verið eins og hvert annað óhapp.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (165)
26.2.2008 | 23:20
Gleðisveitin Alsæla í Borgarleikhúsinu í kvöld, miðvikudag
Það var verið að benda mér á áhugaverða uppfærslu á leikriti í Borgarleikhúsinu. Einhverra hluta vegna hefur hún farið framhjá mér og þá sennilega fleirum. Leikritið er eftir Björk Jakobsdóttur og leikhópinn. Hann samanstendur af 12 unglingum á aldrinum 15 - 19 ára.
Leikritið heitir Alsæla, skýrt í höfuðið á Gleðisveitinni Alsælu. Held ég.
Sýningin inniheldur fjölda vinsælla laga, meðal annars eftir Gleðisveitina Alsælu. Held ég.
Samt ku besta lagið vera Should I Stay or Should I Go eftir The Clash. Jón Gnarr hefur samið nýjan texta við lagið og kallar það Á ég að vera eða fara. Hugsanlega verður það gefið út á plötu.
Einnig eru dansatriði. Þau eru ekki sótt til Gleðisveitarinnar Alsælu. Held ég.
En það er víst textinn sem stendur upp úr. Hann er sagður vera meitlaður og jafningjafræðsla af bestu gerð þar sem sýnt er fram á það hvað lífið hefur upp á margt að bjóða.
Tónlistarstjóri sýningarinnar er Valdimar Kristjónsson en söngstjóri er Ragnheiður Hall. Dansstjóri er Halla Ólafsdóttir.
Lokasýning þessa merka leikrits er í kvöld, miðvikudagskvöld.
Menning og listir | Breytt 27.2.2008 kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.2.2008 | 16:25
Stórfrétt ársins 1977
Tímarnir líða og breytast. Það er broslegt að rifja upp að eftirfarandi frétt, sem birtist í dagblaðinu Degi árið 1977, vakti mikla athygli og forvitni. Var það sem kallast gott "skúbb". Í kjölfarið þyngdist umferð mjög á norðausturlandi því margir vildu berja furðuveruna augum. Heilu fjölskyldurnar gerðu sér ferð um langan veg. Sala á sjónaukum og ljósmyndavélum með aðdráttarlinsu tók vænan kipp.
Ég hef grun um að bóndinn sem gerðist svo djarfur að fá negra í vinnu sé bróðir Steingríms J. Sigfússonar.
Ef smellt er á fréttina þá stækkar hún og verður auðlesnari.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
25.2.2008 | 22:21
Lag með Ylfu Lind komið í tónspilarann
Pálmi Gunnarsson hvatti mig til að setja sýnishorn af hinni ágætu plötu Ylfu Lindar, Petite Cadeau, í tónspilarann hjá mér. Ég brá við skjótt og hef nú sett eitt lag af plötunni í spilarann. Það er gamli Rolling Stones slagarinn As Tears Go By. Það þarf að "skrolla" niður spilarann til að finna lagið. Y er svo aftarlega í stafrófinu að lagið lenti neðst í spilaranum.
Gaman væri að heyra hvernig ykkur þykir Ylfu Lind takast upp með þetta ljúfa lag. Um leið hvet ég Ylfu Lind til að virkja tónspilarann á sinni síðu, www.ylfalind.blog.is, og hlaða fleiri lögum af plötunni í hann.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.2.2008 | 08:25
Þegar afi breyttist í varðhund - VII
Þegar við elstu systkinin komust á unglingsár brást afi illa við ef hann hélt að einhver af hinu kyninu væri að sýna okkur áhuga. Hafði hann þá allt á hornum sér gagnvart viðkomandi. Eitt atvikið var þannig að ungur námsmaður í Bændaskólanum á Hólum slæddist heim með okkur eftir dansleik á Sauðárkróki.
Morguninn eftir var afa brugðið er hann varð ókunnuga drengsins var. Afi kallaði mig á eintal og spurði hver þetta væri. Ég upplýsti það.
- Hverra erinda er hann hér?, spurði afi.
- Hann er eitthvað eltast við Júlíu systir, svaraði ég.
- Ég ætla rétt að vona að hún fari að leggja lag sitt við svona vesaling!
- Ég held að þetta sé fínn náungi. Honum gengur vel í skólanum og Halli skólastjóri er búinn að ráða hann sem sumarmann.
- Það lá að. Haraldur er aumingjagóður. Hann vorkennir þessum aumingja og ætlar að taka hann að sér til að reyna að koma honum til manns. Það verður þrautinni þyngra. Reyndu að vara Júlíu við þessari liðleskju.
Það styttist í hádegismat og afi ákvað að virða sveininn betur fyrir sér. Sagðist verða fljótur að sjá það út hvort lýsing sín á "mannleysunni" væri ekki rétt. Hafa skal í huga að afi var kominn hátt á áttræðisaldur og orðinn veikburða. Vegna brjóskeyðingar í mjöðmum var hann kominn í keng og staulaðist áfram við tvo stafi.
Við vorum 10 í mat og afi náði með lagni sæti beint á móti drengnum. Þar hleypti afi brúnum og starði á piltinn sem þótti þetta greinilega óþægilegt. Hann varð afar vandræðalegur undir illilegu rannsakandi augnráði afa og vissi ekki hvernig átti að bregðast við. Aðrir vissu það ekki heldur og horfðu í forundran á. Allir steinþegjandi. Skyndilega hnussaði í afa og hann tautaði fyrir munni sér í hneykslunartóni:
"Þvílíkt og annað eins kartöflunef!"
Við héldum með herkjum aftur af hlátrinum. Drengurinn kafroðnaði enn vandræðalegri en áður. Þá reigði afi sig, þandi út brjóstkassann, sýndi krepptan hnefa og sagði:
"Þú skalt hafa það í huga, drengur, að ég hef slegið niður stærri og sterkari menn en þig!"
Okkur tókst ekki lengur að halda aftur af hlátrinum þó ókurteislegt væri gagnvart stráksa. Afi varð hinn ánægðasti með sig, hlóð mat á diskinn sinn og lék við hvern sinn fingur allan matartímann án þess að yrða frekar á piltinn eða horfa til hans.
Næstu daga hældi afi sér ítrekað af því að "ónytjungurinn" myndi ekki þora annað en láta Júlíu í friði. "Ætli maður kunni nú ekki tökin á svona dugleysingjum," bætti afi við, drjúgur með sig.
Sveinninn áttaði sig fljótlega á því að best væri að hafa húmor fyrir afa og hélt áfram að kíkja í heimsókn af og til. Afi sniðgekk hann með öllu. Fljótlega fór stelpa sem vann á Hólum að kíkja í heimsókn með stráknum. Fyrr en varði settu þau upp hringa. Þá kúventi afi í framkomu og varð upp frá því hinn almennilegasti í þeirra garð.
Fleiri sögur af afa: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/418268
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.2.2008 | 23:37
Bestu pólitísku söngvarnir
Á dögunum efndi útbreiddasta músíkblað heims, hið bandaríska Rolling Stone, til skoðunar meðal lesenda sinna á besta sönglaginu með pólitískan boðskap. Yfirskriftin hjá Rolling Stone var reyndar leitun að besta mótmælasöngnum (protest song) en á listanum eru alveg eins lög sem flokkast frekar undir að vera baráttusöngvar. En þetta varð niðurstaðan:
1. Creedence Clearwater Revival: Fortunate Son
2. Bob Dylan: Masters of War
3. Rage Against the Machine: Killing in the Name
4. Country Joe & The Fish: I-Feel-Like-I'm-Fixin'-To-Die Rag
5. U2: Sunday Bloody Sunday
6. Bob Dylan: Blowin´ in the Wind
7. Marvin Gaye: What´s Goin´ On?
8. Sex Pistols: Anarchy in UK
9. Bruce Springsteen: Born in the USA
10. Edwin Starr: War
11. The Who: Won't Get Fooled Again
12. John Lennon: Gimme Some Truth
13. Buffalo Springfield: For What It's Worth
14. Public Enemy: Fight the Power
15. Neil Young: Let's Impeach the President
16. Guns ´N´ Roses: Civil War
17. Bob Marley: Redemption Song
18. John Lennon: Working Clash Hero
19. Bítlarnir: Revolution
20. Crosby, Stills, Nash & Young: Ohio
21. The Rolling Stones: Street Fighting Man
22. Bright Eyes: When the President Talks to God
23. Bob Marley: Get Up Stand Up
24. Sam Cooke: A Change is Gonna Come
25. REM: Ignoreland
Tónlist | Breytt 25.3.2008 kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
23.2.2008 | 18:32
Lay Low heldur toppsætinu
Platan Ökutímar með söngkonunni Lay Low er söluhæsta platan á Íslandi í dag, aðra vikuna í röð. Platan inniheldur tónlistina úr samnefndu leikriti sem naut gríðarlegra vinsælda í uppfærslu Leikfélags Akureyrar í vetur. Leikritið verður sett upp í Reykjavík næsta haust.
Mig minnir að ég hafi áður nefnt að á plötuumslaginu stendur: "Ágóðahlutur Lay Low af sölu þessa geisladisks rennur til Aflsins á Akureyri. www.aflid.muna.is."
Aflið er systursamtök Stígamóta á Norðurlandi. Þegar þið kaupið þennan disk eruð þið ekki einungis að eignast áheyrilega plötu heldur einnig að styrkja góðan málstað.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2008 | 04:01
Aldeilis furðulegt lag - hulunni svipt af
Í dag er síðasti dagur þorra, svokallaður Þorraþræll. Af því tilefni hef ég sett í tónspilarann gamalt lag sem ég gerði við kvæði Kristjáns Jónssonar, Þorraþræl (Nú er frost á Fróni...). Kristján þessi gegndi einnig nafninu Kristján Fjallaskáld.
Þetta lag hljóðritaði ég í galsa á tíunda áratug síðustu aldar. Líklega 1997 fremur en 1998. Ég sendi upptökuna til rásar 2 og þar var hún spiluð grimmt, samkvæmt STEF-gjöldum. Af því að ég var dómharður plötugagnrýnandi á þessum árum, kominn á fimmtugsaldur og lagið furðulegt þá skráði ég flytjanda lagsins Gleðisveitina Alsælu þó að ég væri bara einn að verki. Umræða um E-pilluna bar hátt og sumum þótti nafn flytjandans orka tvímælis. Til að mynda var heill þáttur á rás 2, Þjóðarsálin, lagður undir hugleiðingu um það hversu óheppilegt væri að kalla hljómsveit Alsælu. Eða réttara sagt fordæmingu á því uppátæki.
Sérstaklega fyndið þótti mér þegar lagið var kynnt í útvarpi þannig að talað var um strákana í Alsælu.
1999 kom lagið út á safnplötunni Rock for the Cold Seas. Plötu sem innihélt lög frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Samalandi. Hún seldist í 20 þúsund eintökum og lagið náði 6. sæti grænlenska vinsældalistans og fékk einnig góða spilun í færeyska ríkisútvarpinu. Í kjölfarið var mér í tvígang boðið að fara í hljómleikaferð til Grænlands. Þar tók ég með mér til undirleiks dauðapönksveitina Gyllinæð og Bjarna heitinn Móhíkana úr pönksveitinni Sjálfsfróun. Þær hljómleikaferðir urðu ansi skrautlegar vegna þess að töluvert varð um slagsmál og aðrar óvæntar uppákomur.
Magnús Geir Guðmundsson gerði þeim ævintýrum góð skil í dagblaðinu Tímanum ásamt grænlenskum, færeyskum, dönskum og kanadískum fjölmiðlum.
Einnig fékk ég boð um að spila á skoskri tónlistarhátíð út á Þorraþrælinn. Þangað fór ég bara einn en afgreiddi málið vel bara með kassagítar. Kynntist í leiðinni syni söngvara Nazareth og náunga sem síðar sló í gegn sem léttpoppari á breska vinsældalistanum. Ég man ekki nafn hans. Enda var vinsæla lagið hans leiðinlegt.
Þessar góðu viðtökur Þorraþrælsins míns komu mér verulega á óvart. Af minni hálfu var þetta sprell og viðlagið er afskaplega kjánalegt. Ég syng það reyndar þokkalega vel. En textinn er út í hött. Ljóðið um þorrann fjallar eðlilega um það tímabil ársins. Þess vegna er út í hött að í viðlagi segi:
Ó, það er löng löng bið,
frá maí til desember.
Ég finn engan frið
fyrr en í september.
Algjört hnoð og bara bull. Lagið er neðarlega í tónspilaranum mínum. Ég vil taka fram að í þessu lagi er ég ekki að reyna að rappa. Þetta er þulusöngur. Hinsvegar fékk sjónvarpið snillingana Erp Blazrocka og Sesar A til að flytja þetta lag á degi íslenskrar tungu 1998. Þá hafði sjónvarpið reynt - án árangurs - að finna Gleðisveitina Alsælu til að flytja þetta lag í sjónvarpssal. Erpur og Sesar A eru vinir mínir og vissu allt um feluleik minn með Alsælu. Þeir afgreiddu dæmið með stæl, eins og þeirra var von og vísa og þóttust ekkert vita um Alsælu.
Daginn eftir gerði Spaugstofan sína útgáfu af Þorraþrælnum mínum. Síðan hefur mér verið hlýtt til Spaugstofunnar. Núna er langt um liðið og allt í lagi að afhjúpa allt um Gleðisveitina Alsælu og Þorraþrælinn. Ég er ennþá að fá þokkaleg STEF-gjöld fyrir þetta lag og aðallega fyrir spilun á því í útlöndum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.2.2008 | 03:20
Mikilvæg leiðrétting á bloggfærslu
Fyrir nokkrum dögum birti ég mynd af því að Eiríkur Sigurbjörnsson sjónvarpsstjóri Omega lagði ólöglega í bifreiðastæði fatlaðra. Í gær hringdi Eiríkur í mig. Við erum gamlir vinir til margra ára. Hann ætlar að bjóða mér í súpu og bað mér guðblessunar. Frábær náungi og hann sagðist ekki hafa hringt í mig nema vegna þess að við erum góðir vinir.
Ástæðan fyrir því að Eiríkur lagði í bílastæði fatlaðra var sú að það er aldrei lagt í þetta bílastæði við Omega. Eiríkur var með slæmsku í hné og þurfti að styðjast við hækjur eftir að hafa gengist undir uppskurð. Þegar öll önnur bílastæði voru upptekin þá hugsaði Eiríkur: "Ef ég á einhvertímann rétt á að leggja í þetta bílastæði þá er það nú."
Ég fellst algjörlega á það að Eiríkur var þarna í rétti þó að hann væri ekki með löglega merkingu öryrkja í bílrúðu. Eiríkur er maður vandaður að virðingu sinni og mér er ljúft að votta að hann er heilsteyptur fyrir því sem hann stendur fyrir. Heill, sannur og einlægur. Það verður beðið fyrir mér á Omega og ekki í fyrsta sinni.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
20.2.2008 | 20:02
Fréttablaðið með rosa "skúbb" á morgun
Fréttablaðið hefur verið á blússandi siglingu að undanförnu. Efnistök sífellt hnitmiðaðri, betur skrifuð, áhugaverðari og skemmtilegri. Rannsóknarblaðamennskan hjá Fréttablaðinu er til fyrirmyndar. Þar eru svör fundin og birt við spurningunum sem heitast brenna á landsmönnum hverju sinni.
Undanfarnar vikur hefur ein spurning verið á allra vörum í heitum pottum sundlauga, saumaklúbbum og hverfispöbbum. Hún er: "Hvað borðar Jens Guð í morgunmat?" Á morgun upplýsir Fréttablaðið - fyrst íslenskra fjölmiðla - allt um málið.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (51)