3.10.2025 | 09:29
Útvarpsraunir
Við sem búum á suðvesturhorninu erum þokkalega stödd varðandi úrval útvarpsstöðva til að hlusta á. Öðru máli gegnir með afganginn af landsbyggðinni. Þegar ekið er út úr bænum byrja útvarpsstöðvarnar að detta út hver á fætur annarri fljótlega eftir að Ártúnsbrekkunni sleppir.
Enn þrengir að. Nú er Sýn búin að slökkva á öllum sendum FM957 á landsbyggðinni að undanskildum Vestmannaeyjum og Akureyri. Verra er að slökkt hefur verið á öllum sendum X-ins út um landið. Það vekur furðu. X-ið er með miklu meiri hlustun en FM957. Eina skýringin sem mér dettur í hug er að manneskjan sem slekkur á útvapsstöðvum hlusti sjálf á FM957 en aldrei á X-ið.
Tekið skal fram að mæling á hlustun er meingölluð. Hún mælir einungis stöðvar sem borga fyrir að vera með. Þannig vantar samanburðinn við Útvarp Sögu. Í eldri könnunum hefur Saga verið í hópi 3ja vinsælustu stöðva.
Athygli vekur að kántrý-stöðin hefur aldrei náð flugi - þrátt fyrir mikla og góða kynningu.
Útvarp | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.9.2025 | 11:01
Ólíkindatólið
Enski bítillinn John Lennon var margbrotin persóna. Hann burðaðist með fjölda áfallastreituraskana. Pabbi hans stakk af út í heim er John var 5 ára. Skömmu síðar stakk mamma hans af. Systir hennar tók drenginn að sér ásamt eiginmanni sínum. Sá var John mjög kær. Hann féll óvænt frá er John komst á unglingsár. Um svipað leyti kynntist hann mömmu sinni. Nokkru síðar dó hún er fullur lögregluþjónn ók á hana.
John fór í myndlistaskóla og stofnaði hljómsveit sem síðar varð Bítlarnir (The Beatles). Stu skólabróðir hans og besti vinur spilaði á bassagítar. Þeir spiluðu m.a. í Þýskalandi. Þar tók Stu saman við þýska stúlku og dó úr heilablóðfalli.
John var kjaftfor ruddi og slagsmálahundur. Hann lamdi hina Bítlana (nema Ringo). Hann elskaði að stuða fólk með móðgunum.
Í júlí 1974 hélt John útihljómleikum í Bandaríkjunum. Hann kom auga á nokkra táninga, á að giska 16 - 17 ára. Þeir umkringdu 14 ára dreng. Hann var með Downs heilkenni. Systir hans bauð honum á hljómleikana. Hann var ákafur Lennon aðdáandi og kunni öll lög hans utanað. Hann söng með í öllum lögum, dansaði og skemmti sér innilega.
Táningarnir hæddust að dansi hans og söng. Bentu skellihlæjandi á hann, grettu og geifluðu sig og gerðu hróp að honum. Vegna heilkennisins áttaði strákurinn sig ekki á stríðninni. Systirin reyndi að koma honum frá hrekkjusvínunum. Án árangurs.
John reiddist. Hann stoppaði hljómleikana og benti á strákana; bað ljósamanninn að lýsa á hópinn. Hann las þeim pistilinn og lét fjarlægja þá af staðnum. Hann bauð systkinunum að koma upp á svið og fylgjast með hljómleikunum þar. Hann tileinkaði stráksa næstu lög.
Að loknum hljómleikum ræddi John við systkinin. Eftir þetta hélt hann sambandi við piltinn fram á síðasta dag. Skrifaði honum, hringdi í hann og póstaði til hans árituðum eintökum af sólóplötum sínum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
19.9.2025 | 10:10
Mistök
Dægurlagamúsík á að vera lifandi. Þannig er hún ekta. Þannig fær hún að anda. Hún er betri þegar örlítil mistök fá að fljóta með í stað þess að allt sé sótthreinsað og allir hnökrar fjarlægðir. Hér eru nokkur dæmi - og gaman væri að fá fleiri dæmi frá ykkur:
Minning um mann með Logum: Þarna er sungið um mann sem drakk Brennivín úr stæk. Orðið stendur með einhverju sem lyktar illa (stæk fýla). Eða að einhver sé öfgafullur (stækur andstæðingur). Lagið er eftir Gylfa Ægis. Hann orti um mann sem drakk Brennivín úr sæ og söng það inn á kassettutæki. Hann var í glasi og dálítið þvoglumæltur. Söngvara Loga misheyrðist.
Draumaprinsinn með Ragnhildi Gísla: Lagið er í kvikmyndinni Í hita og þunga dagsins. Á einum stað syngur hún um draumaprinsinn Benedikt. Á öðrum stað er draumaprinsinn Benjamín. Lengst af var skýringin sú að Ragga hafi ruglast á nafninu. Einhver hefur haldið því fram að um meðvitaðan rugling væri að ræða.
Blue Suede Shoes með Carl Perkins: Bilið (hikið) á milli fyrstu línu (Well, it´s one for the money) og annarrar (Two for the show) átti ekki að vera þarna. Þetta voru mistök. Carl var búinn með upptökutíma sinn og allan pening og gat ekki lagað mistökin.
Life on mars með David Bowie: Ef hækkað er í græjunum þegar píanóið fjarar út í lok lags má heyra símhringingu. Einhver gleymdi að loka dyrunum á hljóðversklefanum.
Satisfaction með Rolling Stones: Í lok hvers vers - rétt áður en gítar-riffið skellur á - má heyra pínulítinn smell þegar Keith Richards stígur á "effekta" fótstigið. Enginn tók eftir þessu í tæka tíð.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.9.2025 | 10:13
Furðulegur ágreiningur
Tveir vinir mínir hafa ólík sjónarmið til margra hluta. Eitt sinn voru þeir ágætir vinir. Nú andar köldu á milli þeirra. Einmitt vegna ólíkra viðhorfa.
Gulli starfaði lengst af sem sendibílstjóri í forföllum leyfishafa bílsins. Þegar leyfishafinn kom aftur til starfa fór Gulli í sjálfstæðan rekstur. Allt gekk á afturfótunum. Reksturinn sveif á hliðina. Hann tapaði leiguíbúð sinni. Í kjölfar fékk hann tímabundið inni hjá Halla vini sínum. Sá rak fyrirtæki á Selfossi en bjó heima hjá sér í Reykjavík um helgar. Þó sjaldan lengur en frá laugardagskvöldi og fram á mánudagsmorgun.
Gulli hóf leit að ódýrri leiguíbúð. Leitin bar árangur. Hann bað Halla um að lána sér sendibíl hans í örfáa daga svo hann gæti flutt búslóð sína. Halli sá engin vandkvæði á því. Þeir yrðu þó að skottast á bílnum til Selfoss morguninn eftir. Þaðan gæti hann reddað sér fari í bæinn um næstu helgi.
Þetta gekk eftir. Gulli settist undir stýri "til að kynnast bílnum." Er þeir renndu í hlað fyrir utan fyrirtæki Halla sagði Gulli ákveðinn: "Þetta er 20 þúsund kall."
Halli spurði hvað hann ætti við. Gulli svaraði: "Skutlið hingað kostar 20 þúsund kall!"
Halli varð ringlaður og sagði: "Bíddu við, þetta er minn bíll sem ég er að lána þér og þú býrð frítt heima hjá mér..."
Það fauk í Gulla. Hann æsti sig og hrópaði: "Það skiptir engu máli hver á bílinn. Fjöldi sendibílstjóra og leigubílstjóra á ekki bílinn sem þeir aka og það skiptir engu andskotans máli. Taxtinn fyrir skutl til Selfoss er 20 þúsund kall. Reyndu ekki að búa til vesen. Þú vilt ekki kynnast mér reiðum. Komdu með þennan 20 þúsund kall og ekkert rugl!"
Halli var ennþá ringlaður. Honum var jafnframt brugðið við æsinginn í Gulla. Eiginlega ósjálfrátt kippti hann 20 þúsund kalli upp úr vasa sínum. Þeytti honum í Gulla og kallaði um leið og hann stökk út úr bílnum: "Verði þér kærlega að góðu!"
Halli var afar ósáttur er hann sagði mér frá þessu. Ég spurði Gulla út í söguna. Það var þungt í honum: "Halli er svo heimskur að hann fattar ekki að sendibílstjóri undir stýri er að vinna. Það breytir engu um hver á bílinn. Ég eyddi næstum 2 tímum í Selfossskutlið. Ég stóð í flutningum og hafði nóg annað að gera við tímann!"
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
5.9.2025 | 10:55
Örstutt og snaggaralegt leikrit
Persónur eru tveir menn á tíræðisaldri. Annar situr á bekk við göngustíg. Hann er í stuttbuxum og ermalausum bol. Hinn kemur skokkandi, móður og másandi. Hann er í þykkri úlpu, með prjónahúfu undir hettunni, trefil um hálsinn og hnausþykka prjónavettlinga á höndum. Hann stillir sér upp fyrir framan þann léttklædda.
- Góðan dag. Ég er staðráðinn í að kasta mæðunni í smá stund.
- Góðan og blessaðan daginn í allan dag og fram til morguns.
- Ég heiti Jón Sigurðsson, kallaður Kiddi Skokk.
- Hvers son segist þú vera?
- Ég er oftast Pétursson. Heitir þú eitthvað?
- Nei, en ég er kallaður Palli eða Kalli. Ég er farinn að tapa heyrn þannig að ég veit ekki hvort er.
- Hvað gerir þú, strákur?
- Ég? Ertu að tala við mig?
- Það eru ekkert rosalega margir aðrir hér, er það?
- Ég er bara gestur.
- Er það vinna?
- Eiginlega frekar tómstundagaman.
- Í hverju felst það?
- Ég leyfi sköpunargleðinni að brokka eða fara á skeið. Jafnvel stökk.
- Fyrirgefðu, sagðist þú vera gestur eða hestur?
- Gestur.
- Ertu skyldur Gesti Einari Jónssyni, leikara?
- Nei, en ég hef heyrt um mann sem er skyldur honum. Ég hef það þó ekki frá fyrstu hendi
- Þú segir fréttir. Ég er heldur ekki skyldur honum. Við eru þá sennilega frændur.
- Ég er ekki viss um að ég sé skyldur neinum. Ég hef aldrei heyrt neitt um það.
- Allir eru skyldir einhverjum.
- Það er áróður.
- Er ekki allt áróður?
- Eru sokkarnir þínir áróður?
- Kannski og kannski ekki. (Dregur tvö Prince Polo upp úr vasa sínum og réttir hinum annað þeirra).
- Bestu þakkir (Rífur bréfið í ákafa utan af, hendir súkkulaðikexinu en stingur bréfinu upp í sig og kyngir).
- Hendirðu súkkulaðinu?
- Þetta er ekki súkkulaði. Þetta er spýta sem bréfið er vafið utanum til að halda því sléttu og lystugu. Annars myndi enginn kaupa þetta óæti. Þeir sem eru vanir að borða spýtur átta sig strax á þessu.
- Alltaf lærir maður eitthvað nýtt í landafræði. Vertu svo margblessaður frá öllum hliðum.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.8.2025 | 10:25
Týndi bílnum
Anna Marta Guðmundsdóttir frænka mín á Hesteyri í Mjóafirði var komin yfir miðjan aldur er hún tók bílpróf. Þökk sé Jóni Karlssyni frænda okkar. Hann gaf henni bílpróf og bíl. Fram að þeim tíma hafði hún haldið sig að mestu í Mjóafirði - ef frá er talið að einstaka sinnum fór hún með áætlunarbát til Neskaupsstaðar.
Komin á bíl brunaði Anna upp í Egilsstaði. Þar blasti við reisulegur stórmarkaður. Þangað hélt hún og gerði einhver spennandi innkaup. Er hún kom aftur út á bílaplanið fann hún ekki bílinn sinn. Enda margir bílar þarna hver öðrum líkari. Eftir mikla leit og rölt gafst hún upp. Hún fékk starfsmann búðarinnar til að hringja á lögguna. Löggan kom og fann bílinn undir eins. Hann var þarna á planinu og Anna áreiðanlega búin að ganga ítrekað framhjá honum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.8.2025 | 11:36
Herkænska
Ég skrapp í Ikea. Keypti mér þar skæri og hélt síðan á veitingasvæðið. Þar fékk ég mér lax. Á næsta borði sátu nokkur ungmenni. Kannski um tvítug. Ég fylgdist ekkert með þeim þangað til sími pípti hjá einum drengnum. Hann kíkti á sms skilaboð, dæsti og sagði: "Æ andskotinn. Framkvæmdastjórinn boðar mig á fund í fyrramálið."
- Hvað er í gangi? spurði annar.
- Ég held að hann ætli að reka mig. Hann hefur hótað því, útskýrði drengurinn og hélt svo áfram: Ég ætla að byrja fundinn á því að rétta honum uppsagnarbréf. Reka hann áður en hann rekur mig. Hann getur ekki rekið mig ef hann er ekki lengur framkvæmdastjóri!
- Getur þú rekið hann?
- Ég læt allavega reyna á það!
15.8.2025 | 10:58
Sér heiminn í gegnum tönn
Margir kunna nöfn flestra sinna tanna. Þar á meðal kannast ýmsir við augntönnina. Á dögunum öðlaðist nafnið nýja og óvænta merkingu. Forsagan er sú að öldruð kanadísk kona fékk sjálfsofnæmi. Við það dapraðist sjón hennar dag frá degi. Að lokum varð hún alblind. Þetta var fyrir áratug.
Á dögunum gekkst konan undir tvær aðgerðir þar sem augnlæknir freistaði þess að endurheimta eitthvað af sjón hennar. Það tókst með því að koma fyrir tönn og linsu í augnbotni. Aðgerðin var gífurlega flókin og erfið. Nú sér hún útlínur, hreyfingar og allskonar liti. Sérlega ánægð er hún yfir að sjá svarta hundinn sinn dilla rófunni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.8.2025 | 10:07
Dularfulla kexið
Eitt sinn heyrði ég sögu af nafngreindum eldri bræðrum. Þeir bjuggu tveir saman á sveitabæ í nágrenni Bolungarvíkur. Þeir stunduðu fjárbúskap. Fátt var um gestakomur til þeirra. Þó brá svo við einn daginn að farandsali heilsaði upp á þá. Annar bróðirinn bauð honum upp á kaffi og mjólkurkex. Hann bleytti upp í kexinu með því að dýfa því ofan í kaffið. Það mýkti kexið. Er hann hafði sporðrennt nokkrum kexbitum spurði gestgjafinn:
- Þykir þér vera skrýtið bragð af kexinu?
Gesturinn velti bragðinu og spurningunni fyrir sér og kvað hálf hikandi nei við. Bróðirinn mælti:
- Bróðir minn heldur því fram að kötturinn hafi migið í kexkassann. Ég held ekki.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
31.7.2025 | 11:48
Ókeypis utanlandsferð
Utanlandsferðir eru ekki beinlínis lúxus þegar allt er saman talið. Til að mynda eru máltíðir og aðrar vörur jafnan töluvert ódýrari í útlöndum. Það er eiginlega fyrst og fremst sjálf ferðin sem kostar hellings pening. Þann pening má spara. Það er alltaf sérstök og heillandi stemmning að skreppa til útlanda.
Hérlendis eru starfandi fasteignasölur sem selja hús á Flórída, Spáni, Búlgaríu og víðar. Ef þú þykist hafa áhuga á að kaupa hús af þeim standa til boða ókeypis skoðanaferðir. Það er meira að segja ókeypis rútuferð til og frá flugvelli.
Þetta eru frekar stuttar ferðir. Hægt er að teygja töluvert á þeim með því að segjast þurfa að skoða dálítið betur fleiri íbúðir, þurfa að kanna ströndina og svo framvegis.
Í steikjandi sól á strönd má spara kaup á sólvörn. Hið eina sem þarf er að klæðast samfestingi, lambhúshettu og vettlingum. Þetta ver húðina gegn sólbruna.
24.7.2025 | 10:05
Hlálegt
Opal er rammíslenskt jórtursælgæti í töfluformi. Það kom á markað á fyrri hluta síðustu aldar. Í Danmörku heitir það Obal. Ástæðan er sú að einhver danskur grallari varð fyrri til að tryggja sér einkarétt á nafninu Opal á dönskum markaði.
Sagan segir að upphaflega hafi Opal verið pappalím. Menn sem unnu við að líma saman pappakassa sóttu í að jórtra storknað límið. Svo datt þeim í hug að bragðbæta það. Þá varð þetta hið ágætasta nammi. Í kjölfar var stofnað fyrirtækið Opal og opalið selt í töfluformi. Það sló í gegn. Síðar keypti sælgætisgerðin Nói fyrirtækið sem þá var í blóma.
17.7.2025 | 10:33
Undarlegar nágrannaerjur
Ég átti erindi í smáíbúðahverfi; skutlaði þangað dóti til kunningja. Við stóðum við útidyrnar er nágranni renndi í hlað. Kunninginn kastaði glaðlega kveðju á hann. Viðbrögðin voru: "Haltu kjafti, fáviti!"
Kunninginn er ör og hvatvís. Hann er aldrei kyrr. Sama hvort hann horfir á sjónvarp eða situr í kirkju. Hann sprettur ítrekað á fætur til að senda sms eða sækja penna út í bíl. Ókyrrðin getur komið sér vel.
Hann útskýrði fyrir mér hegðun nágrannans: "Um síðustu helgi tók ég garðinn minn í gegn; sló, snyrti blómabeð, bjó til þetta kúlulagamunstur á limgerðið. Ég gleymdi mér í gróðri og mold. Rankaði allt í einu við að ég var farinn að taka til í þessum samliggjandi garði nágrannans. Ekki veitti af. Ég stakk upp blómabeð og endurraðaði blómum til að ná fram betri litasamsetningu. Sérðu þrepin þarna? Þetta var bara ljótur grjótbingur. Nokkrum dögum síðar kom nágranninn frá útlöndum. Hann trylltist. Sakaði mig um ósvífni, frekju, yfirgang og afskiptasemi. Ég átti frekar von á þakklæti. Maðurinn er eitthvað vanstilltur. Þú heyrðir hvernig hann hreytti í mig áðan. Það er annað en gaman að búa við hliðina á svona skapstirðum nágranna!"
10.7.2025 | 10:08
Rökfastur krakki
Ég renndi með bílinn í bifreiðaskoðun. Tími kominn á það árlega og nauðsynlega eftirlit. Á biðstofunni var ungt par með lítinn gutta. Ég giska á að hann sé þriggja ára eða rúmlega það. Mamman tilkynnti honum: "Eftir skoðunina kíkjum við í heimsókn til Gunnu ömmu og Nonna afa. Manstu hvar þau eiga heima?"
Jú, pilturinn romsaði heimilisfanginu út úr sér. Mamman hélt áfram: "Manstu hvar Halli afi á heima?"
Stráksi sagðist ekki þurfa að muna það. Mamman mótmælti. Sagði það geta komið sér vel að kunna heimilisfangið.
Stráksi útskýrði: "Við heimsækjum Halla afa aldrei. Hann heimsækir okkur. Það er hann sem þarf að vita hvar við eigum heima!"
3.7.2025 | 10:58
Ástarsvik eða?
Hann er á sjötugs aldri. Á enga vini og er ekki í samskiptum við neina ættingja. Skapgerðarbrestir eiga hlut að máli. Hann pirrast af litlu tilefni, snöggreiðist og verður stóryrtur.
Hann er heilsulítill offitusjúklingur; étur daglega lófafylli af pillum. Hann er nánast rúmfastur vegna orkuleysis, mæði, blóðþrýstings, brjóstsviða, magakveisu og allskonar.
Hann er mjög einmana. Fyrir nokkrum árum skráði hann sig á stefnumótavefinn Tinder. Um leið og hann skráði sig heilsaði upp á hann þrítug fegurðardís í Úkraínu. Hún sagðist vera forfallin Íslandsaðdáandi. Hún fagnaði því að ná sambandi við Íslending. Þau spjölluðu vel og lengi. Og ítrekað. Fljótlega samdi daman um að þau myndu skrá sig af Tinder og þróa þeirra samband.
Stúlkan er í stopulli vinnu og hugsar um veika móðir sína. Hún er í fjárhagsvandræðum. Að því kom að hún bað um smá peningalán. Svo færði hún sig upp á skaftið. Aldrei er neitt endurgreitt. Hún fór að ávarpa kallinn sem "kæra eiginmann sinn". Hann er uppveðraður af því. Sýnir hverjum sem er ljósmynd af fallegu eiginkonu sinni.
Verra er að hann gengur nærri sér til að senda "eiginkonunni" sem mestan pening í hverjum mánuði. Hann sveltir dögum saman og nær ekki alltaf að leysa út lyfin sín með tilheyrandi afleiðingum.
Konunni til afsökunar má telja að hún veit ekki af heilsuleysi mannsins. Á móti kemur að samband þeirra gefur tilveru hans lit. Það slær á einmanaleikann.
Fjármál | Breytt 4.7.2025 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
26.6.2025 | 10:31
Grillsvindlið mikla
Fjöldamargir - bæði Íslendingar og útlendingar - standa í þeirri bjargföstu trú að matur matreiddur utandyra sé að öllu jafna grillmatur. Fyrir bragðið troðast þeir hver um annan þveran - eins og rollur í rétt - við að kaupa færanlegar gaseldavélar á hjólum til að "grilla" utandyra. Raunveruleikinn er sá að matur eldaður á gaseldavél er ekki grillmatur. Skiptir þar engu máli hvort heldur sem hann er matreiddur utandyra eða innan.
Gaseldavélar á hjólum eru framleiddar fyrir fólk sem býr í hjólhýsi og eldar einungis utandyra. Þær verða ekki grill þó þær séu kallaðar gasgrill.
Alvöru grillmatur fær sitt góða alvöru grillbragð vegna grillkola eða trjákurls. Annað er ósvífin blekking. Svei attan!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.6.2025 | 09:55
Einn að misskilja!
Bono Vox. söngvari írsku rokkhljómsveitarinnar U2, blandar iðulega inn í hljómleikadagskrá hljómsveitarinnar hugleiðingum um trúmál, stríð og frið, fátækt, hungur, mengun og svo framvegis.
Svo bar til að U2 hélt hljómleika í Skotlandi. Á miðjum hljómleikum stöðvaði Bono tónlistina og bað áheyrendur um algjöra þögn. Síðan byrjaði hann að klappa saman höndum. Hægt en taktfast. Í salnum ríkti þögn í langan tíma á meðan. Loks tók Bono til máls og tilkynnti með þunga í röddinni: "Í hvert sinn sem ég klappa saman höndum þá deyr barn í afríku."
Mjóróma rödd framarlega í salnum hrópaði reiðilega á móti með sterkum skoskum hreim: "Hættu þá að klappa, óþokkinn þinn!"
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.6.2025 | 10:22
Ógeðfelld grilluppskrift
Þessa dagana eru netsíður, blöð og tímarit uppfull af tillögum um hitt og þetta varðandi grill og matseld. Lesendur eru hvattir til að brjóta upp hversdaginn og prófa þetta og hitt á grillið. Fyrirsagnirnar eru: "Tilvalið að grilla pizzur með banönum og bláberjum!" "Tilvalið að grilla pizzur með ís og súkkulaði!" "Tilvalið að grilla pizzur með lifrapylsu!".
Ólystugasta uppskriftin birtist fyrir nokkrum árum í dagblaði. Þar sagði: "Tilvalið að grilla pizzur með börnunum!" Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þetta. Að vísu er víða þröngt í búi, börn dýr í rekstri og það má alltaf búa til fleiri börn. Samt...
5.6.2025 | 13:08
Þessi vitneskja getur bjargað lífi
Íslendingar eru óvanir að rekast á ísbirni á förnum vegi. Sú staða kemur þó upp af og til. Vitað er um 600 ísbirni sem hingað hafa rekið á land frá Ameríku. Einkum Grænlandi. Hætt er við að þeim fjölgi í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.
Birnir eru hættulegir fólki. Ekki síst ef þeir eru soltnir eftir langt sjórek. Röng viðbrögð eru að reyna að hlaupa birni af sér. Bangsi hleypur miklu hraðar. Að auki espir hlaupandi manneskja upp veiðieðli dýrsins.
Heppilegri viðbrögð eru að lyfta höndum upp fyrir höfuð og syngja ljúfa ballöðu. Björninn þekkir af reynslu að stærra dýr er líklegra til að sigra í átökum. Hendur upp yfir höfði hækka manneskjuna.
Þekkt eru dæmi þess að birnir láta syngjandi fólk í friði. Ástæðan er sú að söng mannsins svipar til væls í húnum. Þetta virkar á ísbirni, skógarbirni, svartbirni og Birni Bjarnasyni.
29.5.2025 | 10:50
Sparnaðarráð sem munar um!
Sumt fólk fær gesti af og til. Oft má gleðja gest með því að færa honum kaldan bjór. Aðrir gestir eru uppvartaðir með tebolla og meðlæti. Til að mynda kökum eða nammi. Mesti höfðingjabragur er að bjóða upp á konfekt. Vandamálið er að konfekt er rándýrt. Þá er til ráð: Í stórmörkuðum fást stórir pokar af hundafóðri. 2ja eða þriggja kílóa pokar kosta álíka og minnstu konfektkassar.
Galdurinn er að bræða hjúpsúkkulaði og dýfa hundafóðursmolunum ofan í það. Við það verða til ódýrir konfektmolar í mismunandi lögun og mislitri "fyllingu". Til að skerpa á fjölbreytni er upplagt að strá sykurkosnum yfir suma molana og smá kókosmjöli yfir aðra.
Þarna eru orðnar til margra ára byrgðir af hollu konfekti á spottprís. Það inniheldur steinefni, vítamín, trefjar og fleira sem hundar þurfa á að halda.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.5.2025 | 09:09
Smásaga um hlýjan mann
Það er ofsagt að Fúsi flatskjár sé ekki eins og annað fólk. Til að mynda svipar honum mjög til föðurbróður síns: Sama sljóa augnráðið. Sama lafandi neðri vör og flæðandi slef í munnviki. Einhverra hluta vegna forðast fólk drenginn. Kannski vegna þess að hann þrífur sig ekki. Hann fer hvorki í sturtu né bað. Ástæða er til. Hann hefur séð hrollvekjandi sturtuatriði í bíómynd Alfreds Hitchock. Veit því að sturtur eru stórhættulegar.
Fúsi hefur tvívegis farið í bað. Í bæði skiptin með skelfilegum afleiðingum. Í annað skiptið var hann næstum drukknaður. Hann er nefnilega ósyndur. Honum til lífs varð að baðkarið var vatnslaust. Vatnsveitan var búin að loka fyrir vatnið til hans vegna vanskila.
Í hitt skiptið gerði hann vel við sig: Keypti margar plastendur og leikfangabáta. Með þetta fór hann í bað. Það var svo gaman að hann gleymdi sér. Rumskaði ekki fyrr en eftir langan tíma að síminn hringdi. Mjög langan tíma því Fúsi er ekki með síma. Vatnið var orðið ískalt. Kauði skalf eins og vibrator í hæsta gír. Hann fékk lungnabólgu og missti matarlyst í tvo daga. Það var áfall. Fáir eru gráðugri. Sósur af öllu tagi sullast yfirleitt yfir peysuna sem hann fer aldrei út. Þar má sjá fjölbreytt sýnishorn af matseðli síðustu vikna.
Fúsi er hlýr maður. Hann elskar að faðma fólk og skella slefblautum kossi á kinn eða munn. Hann er oft á vappi til að leita að einhverjum sem hann kannast við. Þá ljómar hann eins og tungl í fyllingu. Andlitið verður eitt slefandi bros svo skín í gulan og skörðóttan tanngarðinn. Glaðbeittur kjagar hann með útbreiddan faðm að fórnarlambinu. Viðbrögðin eru jafnan að hann horfir á eftir veinandi og hlaupandi fólki út í buskann á hraða sem myndi skila verðlaunasæti á Ólympíuleikum. Eftir stendur kjökrandi maður. Slefandi bros breytist í slefandi skeifu.
Foreldrarnir skipta sér lítið af drengnum. Þeir hafa aldrei samband að fyrrabragði. Ekki einu sinni á afmælisdegi hans. Mamman afsakar sig með því að fyrir handvömm hafi gleymst að skrá afmælisdag hans í afmælisdagabók heimilisins. Engin hafi því hugmynd um hvenær hann eigi afmæli. Ef hann eigi þá einhvertímann afmæli. Og þó mamman vildi hringja í hann á afmælisdegi þá er óhægt um vik út af símleysi hans.
Fúsi hringir stundum úr tíkallasíma í mömmuna. Oftast slitnar símtalið um leið. Það er ólag á tíkallasímum. Nema þegar Fúsi pantar sér pizzu.
Eitt sinn bankaði Fúsi upp hjá nágrannakonu. Hann kvartaði undan kvenmannsleysi. Hún tók honum vel en benti á að hann skorti kynþokka. Ráð væri að fylgjast með fréttum af fræga fólkinu. Herma síðan eftir klæðnaði þess. Það var eins og við manninn mælt: Gullfalleg kona hóf þegar í stað sambúð með kappanum. Að auki kom hann sér eldsnöggt upp tveimur viðhöldum: Einni konu og einum karli.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)