Færsluflokkur: Lífstíll
10.6.2019 | 00:55
Ódýrasta bensínið?
Hvert olíufyrirtækið á eftir öðru auglýsir grimmt þessa dagana. Þar fullyrða þau hvert og eitt að þau bjóði upp á lægsta verð. Hvernig er það hægt? Lægsta verð þýðir að allir aðrir eru dýrari. Ef öll olíufélögin bjóða sama verð þá er ekkert þeirra ódýrast.
Er einhver að blekkja? Ekki nóg með það heldur er Jón Ásgeir kominn í stjórn Skeljungs. Í kjölfar var færeyski forstjórinn settur af. Fleiri fuku í leiðinni. Við lifum á spennandi tímum, sagði Þorgerður Katrín þegar bankarnir voru keyrðir í þrot (og kúlulán upp á heila og hálfa milljarða voru afskrifuð á færibandi).
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.6.2019 | 08:02
Fölsk Fésbókarsíða
Fésbókarvinur minn, Jeff Garland, sendi mér póst. Hann spurði af hverju ég væri með tvær Fésbókarsíður með samskonar uppsetningu. Sömu ljósmyndir og sömu Fésbókarvinir. Draugasíðan hafði sent honum vinarbeiðni. Mín orginal-síða er með 5000 vinum. Draugasíðan var með 108 vini. Öllum sömu og orginal-síðan mín.
Ég fatta ekki húmorinn eða hvaða tilgangi draugasíðan á að þjóna. Enda fattlaus. Jeff hefur tilkynnt FB draugasíðuna. Vonandi er hún úr sögunni. Draugasíðan hefur blessunarlega ekki valdið neinu tjóni. Þannig lagað. En ginnt 108 FB vini mína til að svara vinarbeiðni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.5.2019 | 00:07
Fullur þingmaður
Eitt sinn er ég brá mér á Ólafsvökuna í Færeyjum þá var íslenskur alþingismaður í sömu flugvél. Bæði á leiðinni út og á heimleiðinni. Hann var blindfullur. Hann átti að ávarpa færeyska lögþingið. Hvernig það gekk fyrir sig hef ég ekki hugmynd um. Ég sá hann ekki aftur fyrr en á heimleiðinni. Þá var hann blindfullur. Hann stillti sér upp framarlega í vélinni og hóf að raða farþegum í sæti: "Sest þú hérna, góði minn" og "Sest þú þarna, góða mín." Fólkið hlýddi. Flugfreyjan stökk að honum og öskraði: "Hvern djöfulinn heldurðu að þú sért að gera? Allir eru með sætanúmerið sitt prentað á flugmiðann!"
Þingmaðurinn svaraði hinn rólegasti: "Ég var nú bara að reyna að hjálpa til."
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
11.5.2019 | 23:09
Af hverju reyndi Paul að koma John og Yoko saman á ný?
John Lennon og Yoko Ono urðu samloka nánast frá fyrsta degi sem þau hittust. Þau voru yfirgengilega upptekin af og háð hvort öðru. Þau límdust saman. Endalok Bítlanna 1969 má að mörgu leyti rekja til þess - þó að fleira hafi komið til.
Nokkrum árum síðar dofnaði sambandið. John var erfiður í sambúð. Hann tók skapofsaköst og neytti eiturlyfja í óhófi. (Er hægt að dópa í hófi?). Að auki urðu þau ósamstíga í kynlífi er á leið. Kynhvöt Yokoar dalaði bratt. En ekki Johns. Sennilega spilaði aldur inn í dæmið. Hún var 7 árum eldri.
Spennan og pirringurinn á heimilinu leiddi til uppgjörs. Yoko rak John að heiman. Sendi hann til Los Angelis ásamt 22ja ára stúlku, May Pang, sem var í vinnu hjá þeim hjónum. John hafði aldrei ferðast einn. Hann var alltaf ringlaður á flugstöðvum. Sjóndepurð átti þátt í því. Hann var háður ferðafélaga.
Yoko gaf May ekki fyrirmæli um að verða ástkona Johns. Hún hefur þó viðurkennt fúslega að dæmið hafi verið reiknað þannig. Sem varð raunin.
Verra var að John missti sig algjörlega. Hann datt í það. Svo rækilega að hann var blindfullur í 18 mánuði samfleytt. Hann ákvað meira að segja að drekka sig til dauða. Fór í keppni við Ringo, Keith Moon (trommara The Who) og Harry Nilson um það hver yrði fyrstur til að drekka sig til dauða. Keith og Harry unnu keppnina. Ýmsu var bætt inn í uppskriftina til að auka sigurlíkur. Meðal annars að henda sér út úr bíl á ferð.
Að því kom að fjölmiðlar birtu ljósmynd af John langdrukknum og blindfullum til vandræða á skemmtistað. Hann var með dömubindi límt á ennið.
Er Paul McCartney sá myndina fékk hann sting í hjartað. Þekkjandi sinn nánasta fósturbróður sá hann óhamingjusaman, örvinglaðan, ringlaðan og týndan mann. Fram til þessa höfðu þeir átt í harðvítugum málaferlum vegna uppgjörs Bítlanna. Að auki hafði John sent frá sér níðsöng um Paul, How do you sleep?, og sent honum hatursfulla pósta.
Það næsta sem gerðist hefur farið hljótt. Ástæðan: Enginn spurði Paul, John og Yoko um það. Engum datt þessi óvænta atburðarrás í hug. Paul heimsótti í snatri Yoko. Vinskapur þeirra hafði aldrei verið mikill. Eiginlega ekki vinskapur. En þarna ræddust þau við í marga klukkutíma. Spjallið varði langt fram á nótt. Paul bar undir hana alla hugsanlega möguleika á að hún sættist við John og tæki við honum aftur. Yoko var erfið og setti fram ýmis skilyrði sem John yrði að fallast á.
Því næst heimsótti Paul blindfullan og dópaðan John og fór með honum yfir kröfur Yokoar. John þurfti umhugsun en féllst að endingu með semingi á kröfur hennar. Betur er þekkt að Elton John hélt í framhaldi af þessari atburðarrás hljómleika í Bandaríkjunum og bauð Yoko að hitta sig baksviðs. Þar var þá John. Þau féllust í faðma og tóku saman á ný. Eignuðust soninn Sean Lennon. John lagði tónlist á hilluna í nokkur ár. Kom svo aftur til leiks sem léttpoppari 1980 - að því er virtist hamingjusamur. Þá var hann myrtur.
Eftir stendur spurningin: Hvers vegna var Paul mikið í mun að sætta John og Yoko? Svar: Í fyrsta lagi saknaði hann fóstbróður síns sárlega. Í öðru lagi þráði hann að þeir næðu að endurnýja vinskapinn. Ekki endilega að endurreisa Bítlana heldur að ná sáttum. Sem tókst. Þeir skildu í góðum vinskap áður en yfir lauk. Paul hefur sagt að það hafi hjálpað sér mikið í sorginni sem fylgdi morðinu.
Til gamans má geta að fyrir nokkrum árum hittust Yoko og May Pang óvænt á Hilton Hóteli í Reykjavík. Þær þóttust ekki vita af hvor annarri. Heilsuðust ekki einu sinni. Einhver ólund í gangi. Eins og gengur.
Lífstíll | Breytt 13.5.2019 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.5.2019 | 00:06
Viðbjóðslegir veitingastaðir
Til margra ára hef ég stundum horft á sjónvarpsþætti enska matreiðslumannsins Gordons Ramseys. Hann heimsækir bandaríska veitingastaði. Smakkar mat þeirra. Aldrei bregst að hann lýsir mat þeirra sem mesta viðbjóði er hann hefur séð og smakkað. Það hlýtur að þýða að bandarísk matreiðsla hrörni stöðugt dag frá degi. Annars gætu þessir matsölustaðir ekki toppað alla fyrri ógeðslegu matsölustaði ár eftir ár.
Áhugavert er að hann afhjúpar ætíð í leiðinni rosalegan sóðaskap á matsölustöðunum. Bandrtíska Heilbrigðiseftirlitið er ekki að standa sig.
Svo hundskammar hann alltaf óhæfan eiganda staðarins og kokkinn. Er mjög ruddalegur og árásagjarn í orðum. Keyrir þá upp að vegg. Oftast er tekist hart á í orðum. Svo gefur hann þeim góð ráð. Viðkomandi knúsar hann í lok þáttar og allt verður gott. Þetta er ljómandi skemmtilegt sjónvarpsefni. Eitt það besta er að nægilegt er að horfa á tíunda hvern þátt. Hinir eru allir eins.
Lífstíll | Breytt 9.5.2019 kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.5.2019 | 01:20
Skemmtilegt verðlag í Munchen
Ég er enn með hugann við Munchen í Þýskalandi eftir að hafa dvalið þar um páskana. Ísland er dýrasta borg í heimi. Munchen hefur til margra ára dansað í kringum 100. sæti. Verðlag þar er nálægt þriðjungi lægra en í Reykjavík að meðaltali. Auðveldlega má finna dæmi þar sem munurinn er meiri.
Ég fer aldrei inn í verslanir í útlöndum. Nema stórmarkaði. Já, og plötubúðir. Helstu útgjöld snúa að mat og drykk. Í stórmarkaðskeðju sem heitir Rewe fann ég Beck´s bjór á 94 kr. (0,69 evrur). Hálfur lítri. 4,9%.
Á Íslandi er Beck´s örlítið dýrari, 389 kall í ÁTVR. Taka má tillit til þess að hérna er hann 5%. Það telur.
1,5 lítra vatnsflaska kostar 41 kr. (0,30 evrur).
Glæsilegt morgunverðarhlaðborð kostar 667 kr (4,9 evrur).
Á gistiheimilinu sem hýsti mig kostar hálfur lítri af bjór úr krana á 340 kr. (2,5 evrur) fram á kvöld. Síðar um kvöldið hækkar verðið í 476 kr. (3,5 evrur).
Ég hef engan áhuga á fínum veitingastöðum. Nenni ekki að sitja og bíða eftir að matur sé eldaður. Kýs frekar mat sem þegar er eldaður. Ég gerði þó undantekningu er ég sá að á asískum veitingastað var boðið upp á stökka önd (crispy) með grænmeti og núðlum. Sá veislumatur kostar 803 kr. (5,9 evrur). Enginn málsverður kostaði mig 1000 kall. Sá dýrasti var á 952 kr. Það var lambakjöt í karrý.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.4.2019 | 20:55
Tilviljun?
Listafræðikennarinn minn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á áttunda áratugnum var Björn Th. Björnsson. Hann var afskaplega skemmtilegur. Hann hafði sérstæðar kenningar um hitt og þetta og fylgdi þeim eftir af rökfestu. Ein var sú að ekki væri til neitt sem heiti tilviljun. Einhverjir mölduðu í móinn og tefldu fram sögur af meintum tilviljunum. Björn fór yfir dæmið lið fyrir lið. Ætíð tókst honum að greina fyrirbærið þannig að í raun hefði frekar verið tilviljun að þetta hefði ekki gerst.
Mér varð hugsað til Björns er ég var í Munchen um páskana. Þá sat ég á gistiheimilinu á spjalli við tvo aðra gesti; unga dömu frá Indlandi og ungan mann frá Afganistan. Hann er búsettur í Eistlandi. Þau höfðu aldrei áður hitts.
Fljótlega kom í ljós að bæði voru á leið til Írlands með haustinu. Norður-Írlands eða lýðveldisins? Dublin. Hvers vegna Dublin? Til að fara í skóla þar. Hvaða skóla? Þau reyndust vera á leið í sama skóla. Bæði göptu af undrun áður en þau ákváðu að verða Fésbókarvinir og halda hópinn. Til að byrja með myndu þau ekki þekkja neina aðra samnemendur skólans.
Tilviljun? Björn Th. hefði farið létt með að hrekja þá kenningu. Samt. Af 7,5 milljörðum jarðarbúa eru tveir unglingar - sem ekki þekktust - frá sitthvoru landinu á leið til Dublin í haust. Þeir voru samtímis á litlu gistiheimili í Munchen í Þýskalandi í örfáa daga. Þeir tóku tal saman. Ég giska á að hvorugur hafi lent á spjalli við fleiri en kannski 10 aðra gesti gistiheimilisins.
Lífstíll | Breytt 28.4.2019 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.4.2019 | 07:03
Furðuleg lög
Ég fagnaði frjósemishátíðinni - kenndri við frjósemisgyðjuna Easter (Oester) - úti í Munchen í Þýskalandi. Næstum aldarfjórðungur er síðan ég kom þangað síðast. Margt hefur breyst. Á þeim tíma var fátítt að hitta einhvern enskumælandi. Allt sjónvarpsefni var á þýsku. Hvergi var hægt að kaupa tímarit, dagblöð eða annað lesefni á ensku. Í dag tala allir ensku. Í fjölvarpinu nást enskar sjónvarpsstöðvar. Í blaðabúðum fást ensk og bandarísk tímarit og dagblöð.
Á meðan rigndi í Reykjavík var steikjandi sólskin í Munchen alla daga. Það var notalegt. Ég var vel staðsettur mitt í miðbænum, við hliðina á umferðamiðstöðinni (central station). Þar inni sem og fyrir utan er ekki þverfótað fyrir veitingastöðum og allrahanda verslunum. Ég átti ekki erindi inn í eina einustu verslun, ef frá eru taldir stórmarkaðir og blaðsölustaðir.
Fyrsta daginn rölti ég um nágrennið; reyndi að átta mig á því og kortleggja það. Að því kom að ég þreyttist á röltinu og hitanum. Hvergi var sæti að sjá nema við veitingastaði. Ég tyllti mér á tröppur fyrir utan DHL póstþjónustu. Lét sólina skína á andlit og handleggi. Hún býr til D-vítamín á húðinni. Það kemur af stað kalkupptöku sem þéttir bein og styrkir hár, húð og tennur.
Ég var varla fyrr sestur en að mér snaraðist lögreglumaður. Hann tilkynnti mér að stranglega væri bannað að sitja á gangstéttum. Ég benti honum á að ég sæti á tröppum en ekki gangstétt. Hann hélt því fram að tröppurnar væru skilgreindar sem hluti af gangstétt. Ég stóð upp og spurði hver væri ástæðan fyrir svona banni. "Af því að þetta eru lög," útskýrði laganna vörður ábúðafullur á svip.
Þetta olli mér vangaveltum. Helst dettur mér í hug að lögunum sé beint gegn betlurum, útigangsmönnum og rónum. Að minnsta kosti sáust engir slíkir þarna. Það er sérstakt í miðbæ stórborgar (hálf önnur milljón íbúa). Reyndar varð einn betlari á vegi mínum. Hann var fótalaus en á stöðugu vappi. Rölti um á höndunum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.4.2019 | 05:44
Færeyskar kjötbollur
Allir þekkja sænskar kjötbollur. Flestir sem sækja veitingastað Ikea hafa fengið sér kjötbollurnar þar. Sumir oft. Einkum sækja börn og unglingar í þær. Reyndar eru þær upphaflega komnar frá Grikklandi. Sú staðreynd er falið leyndarmál.
Margir þekkja líka danskar kjötbollur. Einkum eftir að Kjarnafæði hóf framleiðslu á þeim.
Frá því að íslenskir kjötsalar komust upp á lag með að selja kjötfars hefur nafn íslensku kjötbollunnar færst yfir í að heita hakkbollur. Mig grunar að kjötfars sé séríslensk uppfinning. Fyrir hálfri öld eða svo rak kunningi minn hverfisbúð með kjötborði. Besti bisnessinn var að selja kjötfars. Uppistöðuhráefnið var hveiti en hann gat selt þetta á verði kj0thakks. Stundum sat hann uppi með kjötfars sem súrnaði. Þá skellti hann slurki af salti í það og kallaði farsið saltkjötsfars.
Uppistöðuhráefni dönsku kjötbollunnar er svínakjöt. Svíarnir blanda saman svínakjötinu og nautakjöti. Á síðustu árum eru Íslendingar farnir að færa sig frá nautakjötshakki yfir í svínakjötshakk þegar kemur að hakkbollu.
Færeyingar halda sig alfarið við nautakjötshakkið. Þeir kalla sínar kjötbollur frikadellur eins og Danir. Færeysku frikadellurnar eru betri og frísklegri.
Hráefni fyrir fjögurra manna máltíð:
505 grömm nautahakk
2 laukar
2 hvítlauksrif
1 egg
1,7 dl mjólk
78 grömm hveiti (mæli frekar með hafragrjónum)
1,5 teskeið salt
Einfalt og gott. Laukurinn og hvítlauksrifin eru söxuð í smátt. Öllu er hrært saman. Kokkurinn setur á sig einnota plasthanska og mótar með aðstoð matskeiðar litlar bollur. Þær smjörsteikir hann uns þær eru orðnar fallega brúnar. Galdurinn er að bollurnar séu ekki stórar. Séu á stærð við þær sænsku. Kannski samt pínulítið stærri.
Heppilegt meðlæti er ofnsteikt rótargrænmeti og kartöflur. Líka heimalöguð tómatsósa (ekki ketchup).
4 smassaðir tómatar
1 svissaður laukur
2 svissuð hvítlauksrif
2 kjötteningar
3 saxaðar basilikur
Þetta er látið malla í 16 mínútur
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)