Nauðsynlegt á degi íslenskrar tungu

  Ég átti leið um vesturbæinn í dag.  Ók rólega og yfirvegað með útvarp í gangi.  Heyri þá að verið er að tala um dag íslenskrar tungu.  Mér skilst að það sé dagurinn í dag.  Ég ákvað að styðja yfirskrift dagsins með stæl.  Ég brá við skjótt og ók rakleiðis í Melabúðina.  Þar keypti ég nýsoðinn sviðakjamma.  Ég reif úr honum tunguna og snæddi hana.  Það var mér ljúft og skylt að innbyrða glóðvolga íslenska tungu á degi íslenskrar tungu.  Því næst sporðrenndi ég auganu úr sviðakjammanum.  Það er full ástæða til að hafa auga með íslenskri tungu.  

Af hverju tók Samkeppniseftirlitið hálfan kassa?

  Guðmundur Marteinsson,  framkvæmdarstjóri Bónus,  sagði ítrekað í útvarpsfréttum í gær og í Fréttablaðinu í dag að Samkeppniseftirlitið hafi afritað tölvugögn og einnig tekið með sér hálfan kassa af pappír.  Þetta er dularfullt.  Af hverju tók Samkeppniseftirlitið ekki heilan kassa?  Fannst enginn heill kassi í Bónus?  Hvorn helminginn af kassanum tók Samkeppniseftirlitið?  Hægri helminginn eða þann vinstri?  Eða efri hlutann,  þennan með lokinu?  Eða botninn?  Það verður að fást botn í þetta.  Tók Samkeppniseftirlitið líka hálfan kassa hjá Krónunni?  Til samanburðar eða til að púsla saman í heilan kassa?

 

 


mbl.is Samkeppniseftirlitið gerir húsleit hjá Bónus og Krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak

  Það var gott uppátæki hjá Samtóni að veita viðurkenningargripinn Bjarkarlaufið á degi íslenskrar tónlistar.  Samtónn eru samtök allra rétthafa tónlistar á Íslandi.  Sömuleiðis var vel við hæfi að heiðra Árna Matthíasson með Bjarkarlaufinu.  Árni hefur verið manna ötulastur og áhugasamastur við að kynna og styðja við bakið á íslenskri tónlist.   

  Í meira en tvo áratugi hefur Árni skrifað um íslenska tónlist í Morgunblaðið.  Líklega hefur hann álíka lengi farið fyrir dómnefnd Músíktilrauna Tónabæjar.  Það starf fer saman við áhuga hans á grasrótinni í músíksenunni.  Jafnframt hefur Árni fylgst náið með útrás íslenskra tónlistarmanna á heimsmarkaði og leyft lesendum Morgunblaðsins að fylgjast með.  Til viðbótar skráði Árni og gaf út í bókarformi sögu Sykurmolanna. 

  Það er ánægjulegt að Samtónn skuli á þennan hátt sýna í verki að starf Árna sé metið að verðleikum. 


mbl.is Árni Matthíasson hlaut Bjarkarlaufið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grófustu hljómsveitarnöfnin

  Ritstjórn bandaríska músíkblaðsins Rolling Stone hefur í samvinnu við lesendur sína tekið saman lista yfir ruddalegustu nöfn þekktra hljómsveita.  Þegar ég renndi yfir þennan lista - sem er birtur hér fyrir neðan - varð mér hugsað til þess hvað nöfn íslenskra hljómsveita eru jafnan kurteisleg.  Í fljótu bragði man ég þó eftir Morðingjunum, Gyllinæð og Haltri hóru.  Nafn Höltu hórunnar var meira að segja heldur grófara áður en það var stytt.  Langa útgáfan var Hölt hóra með kúk á brjóstunum. 

  En hér er listinn úr Rolling Stone:

1. Cattle Decapitation
2. Dahmer’s Icebox
3. Alien Sex Fiend
4. Chainsaw Surgery
5. My Bloody Valentine
6. Southern Death Cult
7. Cannibal Corpse
8. Christian Death
9. Revolting Cocks
10. Black Sabbath
11. diSEMBOWELMENT
12. Necrocannibalistic Vomitorium
13. Dogs Die In Hot Cars
14. Throbbing Gristle
15. Carcass
16. Pig Destroyer
17. Nosferatu
18. Flesh Eaters
19. …And You Will Know Us By The Trail Of Dead
20. Hootie & The Blowfish


Einföld leið til að breyta hallarekstri í gróða

  Sumir hafa gagnrýnt að Ríkisútvarpið var ekki fyrr orðið hlutafélag en laun útvarpsstjóra,  Páls Magnússonar,  tvöfölduðust.  Um leið fékk hann 5 milljón króna jeppa til einkaafnota.  Aðrir hafa bent á að umrædd launahækkun og hlunnindi hafi þegar reynst með eindæmum arðbær aðgerð.

  Áður höfðu Páll og fyrirrennarar hans af algjöru sinnuleysi leyft stofnuninni að hlaða utan á sig hallarekstri upp á hundruð milljónir króna.  Bara vegna þess að laun þeirra voru lág og bílkostur lélegur.

  Nú er öldin önnur.  Launahækkunin og jeppinn hafa reynst vera sú vítamínssprauta sem að var stefnt.  Páll hefur tekið til hendi svo um munar og snúið taprekstri í bullandi hagnað. 

  Uppi eru hugmyndir um að bæta enn um betur.  Margfalda hagnaðinn með þeirri einföldu aðgerð að skaffa Páli Magnússyni einkaþotu af gerðinni Airbus A380 með sánaklefa og keilusal. 

   


Hvað segir þetta um formann Framsóknarflokksins?

  Sigmundur Ernir Rúnarsson,  fréttamaður og rithöfundur,  hefur skráð ævisögu Guðna Ágústssonar,  formanns Framsóknarflokksins.  Í Fréttablaðinu í dag segist Sigmundur sjá sauðkindina í nýju ljósi eftir kynni sín af Guðna.  Ég velti því fyrir mér hvað það segi um formann Framsóknarflokksins;  að eftir því sem menn kynnast Guðna nánar þeim mun betur átta þeir sig á sauðkindinni. 

Útilokar orðið hjón hjónabönd samkynhneigðra?

  Bráðskemmtilegt innlegg Steinunnar Jóhannesdóttur í umræðu um hjónabandið hefur vakið mikla athygli.  Margir eru á því að Steinunn hafi í Silfri Egils trompað fyndnustu "sketsa" Spaugstofunnar.  Svo einlæg og áköf í raunverulegum ótta við að tapa kveneðli sínu,  hætta að vera kona,  ef samkynhneigðir fá að verða hjón í lagalegum skilningi. 

  Eftir að hafa horft á Silfur Egils nokkrum sinnum tel ég brýnt að bætt verði inn í frumvarpið að heimild samkynhneigðra tll að ganga í hjónaband muni á engan hátt skerða rétt Steinunnar Jóhannesdóttur til að vera kona áfram - kjósi hún það.  Ef svo ólíklega vill til að önnur kona en Steinunn sé jafn óttaslegin um að hún verði ekki lengur kona ef samkynhneigðir einstaklingar verði hjón þá má hafa orðalagið víðtækara.  Það er óviðunandi að setja Steinunni og hugsanlega aðra konu,  giftri karli,  í þá vandræðalegu stöðu að tapa áttum á því hver er hvað innan hjónabands þeirra;  hvort þeirra hjóna sé líklegra til að verða barnshafandi,  ganga með börn,  fæða börn og gefa þeim á brjóst.     

  Hermann Þórðarson,  fyrrverandi flugumferðastjóri,  bendir í Morgunblaðinu í dag á annað risastórt vandamál:  Það er að orðið hjón er hvorugkynsorð.  Þess vegna sé ekki hægt að nota það um tvo karlmenn eða tvær konur heldur einungis um karl og konu.  

  Ég vil benda Hermanni og fleirum á hans skoðun á að með sömu rökum á orðið foreldrar einungis við um tvo karlmenn.  Það er karlkynsorð:  Þeir foreldrarnir.  

  Svo bendi ég áhugavert spjall á http://www.haukurmh.blog.is/blog/haukurmh/entry/345222/#comments

 

 

 

Hjúkk! Steinunn rétt slapp við að hætta að vera kona

  Í Silfri Egils á dögunum var Steinunn Jóhannesdóttir,  rithöfundur og leikkona,  í sjokki.  Ótti hennar var mikill við að hún yrði ekki lengur kona ef prestar ríkiskirkjubáknsins myndu fá að gefa samkynhneigða saman í hjónaband.  Ekki fylgdi sögunni hvað Steinunn taldi sig verða eftir að hún yrði ekki lengur kona.  Kannski karlmaður?  Eða sauður?

  Það skiptir kannski ekki öllu máli.  Góðu fréttirnar eru þær að Steinunn hefur sloppið - í bili - við að hætta að vera kona.  Ríkiskirkjubáknið er að venju áratugum á eftir samfélaginu í framþróun.   


Er athyglisgáfan í lagi? Tékkaðu á því

borð til sölu  

  Sá sem auglýsti þetta borð og stólana til sölu er karlmaður.  Það eru yfirgnæfandi líkur fyrir því.  Hvernig er hægt að finna það út?  Skoðið ljósmyndina vel og þá sjáið þið vísbendingu sem gefur það sterklega til kynna.

  Með því að smella á myndina þá stækkar hún og verður skýrari.   

 


Víkverji veitist að Erpi

erpur 

 Á dögunum lýsti Víkverji Morgunblaðsins yfir undrun sinni á því að Erpur Eyvindarson væri álitsgjafi í söngvakeppni sjónvarpsins.  Það var ekki rökstudd frekar heldur lagði Víkverji blessun sína yfir að hinir álitsgjafarnir séu Selma Björnsdóttir og Þorvaldur Bjarni Þorsteinsson.

  Ég ætla ekki að reyna að geta í ástæður þess að Víkverji er ósáttur við Erp.  Erpur hefur yfirgripsmikla þekkingu á músík.  Hann hefur formlega verið sæmdur titlum á borð við poppstjarna ársins og sjónvarpsmaður ársins.  Lög hans og plötur hafa trónað á toppi vinsældalista.  Ein hljómsveitin hans sigraði í Músíktilraunum Tónabæjar og á feril sem geymir titla á borð við söluhæsta plata ársins og hljómsveit ársins.  Til viðbótar er Erpur afskaplega orðheppinn og hress.  Það gustar alltaf af honum.

  Hann hefur allt til að bera sem heppilegur álitsgjafi í söngvakeppni sjónvarpsins. 


Sagan sem breytist og breytist

 brúsi Allir kannast við það þegar bandaríska rokkstjarnan Bruce Springsteen - eða Brúsi frændi eins og hann er oft kallaður - tók lagið með íslenska "böskaranum" Jó-jó á Strikinu í Kaupmannahöfn.  Enda heimsfrægur viðburður sem trónir nú á youtube.  Í dag er sagan þannig:

  Jó-jó var að spila dúett með öðrum manni úti á götu.  Hinn þurfti að skjótast á klósettið.  Á meðan gekk Brúsi hjá,  greip upp gítar mannsins og byrjaði að syngja og spila með Jó-jó.

  Fyrst eftir atburðinn var sagan hinsvegar á þessa leið:

  Jó-jó vissi hvar Brúsi var staddur (á kaffihúsi eða matsölustað).  Hann vissi líka hvaða leið Brúsi myndi ganga upp á hótelið sitt,  rétt hjá.  Jó-jó kom sér því fyrir með aukagítar og kvikmyndatökumann.  Beið svo um hríð þangað til Brúsi rölti hjá.  Þá kallaði Jó-jó til hans ögrandi áskorun um að sýna að hann sé ekki yfir almenning hafinn og bað hann um að spila með sér eitt lag.  Brúsi varð undrandi og hálfringlaður en lét svo slag standa þegar Jó-jó rétti að honum gítarinn.

   


Blaðamaður gleymdi að lesa bloggið mitt

  imagine-peace-tower

  Flest fjölmiðlafólk gætir sín á því að lesa bloggið mitt reglulega.  Sérstaklega eru fréttamenn og blaðamenn samviskusamir við lesturinn.  Þannig komast þeir með puttann á púlsinn.  Það óhapp henti einn ágætan blaðamann nýverið að hann gleymdi að lesa bloggið mitt.  Fyrir bragðið sló hann upp í Morgunblaðinu í dag frétt af auka friðarsúlum sem sést höfðu í Reykjavík í fyrradag.  Hann fann ekki skýringu á tilurð auka friðarsúlanna en taldi þó fullvíst að þær hafi verið staðsettar í austurbænum.

  Æ, æ, æ.  Ég sem útskýrði þetta svo vel fyrir tveimur dögum:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/339679/

      


Soffía sæta

  Hún Soffía sæta er snillingur og ein af þessum manneskjum sem gerir tilveruna allt í kringum sig skemmtilegri.  Hún er svo mikið krútt.  Soffía sæta er kannski best þekkt annarsvegar sem kærastan hans Stjána stuðs og hinsvegar sem borðtennismeistari.  Hún hefur keppt á alþjóðamótum og farið heim með fangið fullt af verðlaunum.

  Í DV í gær var Soffía sæta spurð að því hvar hún myndi helst vilja búa ef hún þyrfti að búa annarsstaðar en á Íslandi. 

  "Einhversstaðar í útlöndum,"  svaraði Soffía.  Á eftir fylgdu nöfn nokkurra landa sem komu upp í hugann. 


Bestu hljómleikar rokksögunnar

  Í nýjasta hefti enska poppblaðsins Uncut er að finna bærilega rökstuddan lista yfir bestu hljómleika rokksögunnar.  Þannig raðast í efstu sætin:

 1.  Jimi Hendrix:  Montery Pop Festival í Kaliforníu,  16. - 18.  júní 1967 (það var á þessum hljómleikum sem Hendrix lauk laginu Wild Thing með því að kveikja í gítarnum).

 2.  Bítlarnir:  Hammersmith Odeon í London,  26.  desember 1964

 3.  Sex Pistols:  Lesser Free Trade Hall í Manchester,  4.  júní 1976

 4.  Bob Marley:  The Lyceym í London,  17.  júlí 1975 (þekkti og frábæri flutningurinn á No Woman No Cry er frá þessum hljómleikum). 

 5.  David Bowie:  Wembley á Englandi,  3. - 8.  maí 1976

 6.  Pink Floyd:  The International Times Launch Party í The Roundhouse í Camden á Englandi,  15.  október 1966

 7.  Arctic Monkeys:  Sheffield Boardwalk á Englandi,  26. maí 2005

 8.  Roxy Music:  Newport Country Club,  einhvertímann í júní 1972

 9.  White Stripes:  The 100 Club í London,  26.  júní 2001

10.  Clash:  The Palladium í New York,  17.  febrúar 1979


Gott útvarp sækir enn í sig veðrið

Sigurður og GuðmundurÚtvarp Saga 

  Útvarp Saga hefur gengið í gegnum langt þróunarferli.  Upphaflega var stöðin sett á laggir af 365 miðlum.  Þar náði stöðin sér ekki almennilega á skrið.  Samt var hún góð tilbreyting frá poppmúsíkstöðvunum.  En svona talmálsútvarpsstöðvar virðast þurfa lengri tíma til að stimpla sig inn á markað en músíkstöðvar.

  Þegar upp kom umræða að leggja stöðina niður tóku dagskrárgerðarmenn hennar sig til og keyptu stöðina.  Þetta voru þau Ingvi Hrafn Jónsson,  Arnþrúður Karlsdóttir,  Hallgrímur Þorsteinsson og Sigurður G.  Tómasson.  Einhver togstreita kom upp sem lauk með því að Arnþrúður keypti stöðina og karlarnir hættu að vinna þar.

  Í langan tíma eftir brotthvarf karlanna var vandræðagangur á dagskrá Útvarps Sögu.  Mistækir dagskrárgerðarmenn komu og fóru.  Einn gekk út í beinni útsendingu og sást ekki meir.  Ástæðan var sú að hann var með opinn símatíma.  Hlustendur hringdu inn og tjáðu sig um menn og málefni.  Dagskrárgerðarmaðurinn þoldi illa gagnrýni hlustanda á kvótakerfið,  hljóp gólandi á dyr og datt í það.

  Að undanförnu hefur Útvarp Saga braggast verulega.  Stöðin er búin að finna rétta taktinn.  Sigurður G.  Tómasson er kominn aftur til starfa á stöðinni.  Hann er einn besti útvarpsmaður landsins.  Svo fjölfróður að þegar hlustendur eða viðmælendur fara út í sérfróð málefni þá bætir Sigurður um betur og kemur með ennþá sérfróðari upplýsingar um málefnið.  Stundum svo mjög að með ólíkindum er.  Eitt sinn færði hlustandi í tal bíl nokkurn.  Gott ef það var ekki einhver gamall bandarískur kaggi í eigu Keflvíkings.  Sigurður vissi sitthvað meira um kaggann en viðmælandinn.  Og einhversstaðar í spjallinu nefndi Sigurður hvað bílinn var ekinn marga kílómetra.

  Þegar Sigurður var yfirmaður rásar 2 gekk ég á hans fund og óskaði eftir því að fá að gera þáttaseríu um pönk.  Sigurður svaraði:  "Hér er allt í hönk./ Hér vantar meira pönk."  Þar vitnaði hann í ljóð eftir Einar Má Guðmundsson.  Og erindi mínu tók hann vel. 

  Á föstudögum kemur Guðmundur Ólafsson,  hagfræðingur,  ætíð í þáttinn til Sigurðar.  Þeir tveir fara þá jafnan á gott og mikið flug.  Ég viðurkenni að það tók mig tíma að venjast Guðmundi.  Eða réttara sagt að átta mig á kímnigáfu Guðmundar.

  Arnþrúður Karlsdóttir er með opinn símatíma á milli klukkan 11 og 12.  Hún hefur lag á að kalla fram fjörugar umræður.

  Klukkan 16 er Markús Þórhallsson með viðtalsþátt.  Hann er jafnan naskur á forvitnilega viðmælendur.  Og nær að laða fram skemmtilegri hliðina á viðmælandanum.

  Einn af kostum Útvarps Sögu er að þættir dagsins eru endurspilaðir á kvöldin og um helgar.  Stundum heyrir maður niðurlag af þætti sem greinilega hefur verið áhugaverður.  Þá er bara að tékka á endurspilun,  www.utvarpsaga.is.

  Ég verð í viðtali á Útvarpi Sögu á morgun klukkan 16.  Ég veit ekkert um hvað viðtalið á að snúast annað en það að ég var beðinn um að grípa með mér 5 uppáhalds geisladiskana.  Tekið var fram að það megi vera pönkrokkdiskar.  Af tillitssemi við hlustendur Útvarps Sögu,  sem margir eru af annarri kynslóð en þeirri sem stakk öryggisnælum í nefið undir músík Dead Kennedys og Sjálfsfróunar ætla ég að vita hvort ég á ekki einhverja diska með víðari skírskotun.  Ég afgreiddi pönkið svo ljómandi vel á Reykjavík FM 101,5 síðasta föstudagsmorgun. 

   Myndin hér að ofan er af Sigurði G.  og Guðmundi Ólafssyni. 

Allt í drasli eða Allt í plati?

  Í raunveruleikaþættinum Allt í drasli á Skjá 1 er kíkt í heimsókn til fólks sem hefur misst tök á draslinu heima hjá sér.  Fólk með hreinlætisáráttu þrífur íbúð viðkomandi hátt og lágt og gefur góð ráð.  En ekki er allt sem sýnist.  Raunveruleikinn er sá að draslstaðan er viljandi ýkt.  Það er samið við heimilisfólkið um að þrífa ekkert heima hjá sér í 3 vikur áður en kvikmyndatökuliðið mætir á staðinn.  Það má hvorki strjúka af gólfum né vaska upp. 

  Á venjulegu heimili þar sem flestar máltíðir eru borðaðar heima hlaðast óhrein matarílát upp í dágóða hrúgu þegar ekki er vaskað upp í 3 vikur.  Ryk og önnur óhreinindi eru líka fljót að safnast upp á gólf sem ekki er strokið af í 3 vikur.  Vissulega er meira drasl betra sjónvarpsefni en minna drasl í þætti sem heitir Allt í drasli.  En samt smá svindl. 


Gott tímarit heldur áfram að batna, vaxa og dafna

  Á mínum fyrstu hjúskaparárum - á áttunda áratugnum - var tímaritið Vikan keypt reglulega.  Bæði var það vegna þess að ungur frændi minn seldi blaðið í lausasölu.  En einnig vegna þess að okkur ungu hjónunum þótti gaman að lesa blaðið.  Efni þess var létt og fjölbreytt.

  Síðar sá ég um poppmúsíkskrif fyrir blaðið um hríð.  Á einhverjum tímapunkti þróaðist Vikan úr því að vera fjölskyldublað yfir í að verða kvennablað.  Þá fjaraði minn áhugi á blaðinu út.  Ég leiddi blaðið hjá mér í fjöldamörg ár. 

  Í sumar sá ég út undan mér - þar sem ég beið í biðröð við kassa í Nóatúni - að forsíðu Vikunnar var vísað í ofsóknir gegn Gunnari í Krossinum.  "Það getur verið gaman að lesa um þær,"  hugsaði ég.  Og keypti blaðið.  Þá uppgötvaði ég að Vikan er orðið gott blað.  Það var heilmikið áhugavert lesefni í blaðinu.  Eftir þetta hef ég fylgst með Vikunni.  Mér til ánægju.  Á þetta hef ég áður minnst hér á blogginu.

  Núna í gær var nýjasta tölublaði Vikunnar dreift með Morgunblaðinu.  Þess vegna hafa áreiðanlega fleiri en fastir lesendur Vikunnar fengið staðfest að blaðið er orðið virkilega gott og áhugavert blað.  Fróðlegt,  skemmtilega skrifað og fjölbreytt. 

  Í þessu nýjasta tbl. er til að mynda langt og umhugsunarvert viðtal við móðir tvítugs sprautufíkils.  Einnig er forvitnileg grein um menn sem vinna við það að njósna um ótrúa maka.  Líka eru lífsreynslusögur fólks sem hefur mætt áföllum í persónulegum málum.  Og allskonar fróðleikur um eitt og annað.  Vissuð þið að Dyrhólaey er ekki eyja?  Svo er þarna viðtal við mig.  Mér þótti gaman að lesa það - þó að fátt í því hafi komið mér á óvart.

  Og talandi um mig:  Á þriðjudaginn verður viðtal við mig á Útvarpi Sögu klukkan 4 síðdegis.  Ég veit fátt um það viðtal annað en að ég á að taka með mér í viðtalið 5 geisladiska sem eru í uppáhaldi.      


Fullkomnustu lagasmíðar poppsögunnar

  Í nýjasta hefti breska tónlistarblaðsins Q er birtur listi yfir fullkomnustu lagasmíðar poppsögunnar.  Þar eru forsendur aðrar en þegar valin eru bestu lög poppsögunnar.  Í þessu tilfelli er útgangspunkturinn fagurfræðin/úrvinnslan við framvindu lagsins það sem málið snýst um.  Það er hópur þekktra lagahöfunda sem komust að eftirfarandi niðurstöðu:

 1.  Hallelujah - Leonard Cohen

 2.  Strawberry Fields Forever - The Beatles

 3.  Life on Marz - David Bowie

 4.  Sympathy For the Devil - The Rolling Stones

 5.  Strange Fruit - Billie Holiday

 6.  Bitter Sweet Symphony - The Verve

 7.  Born To Run - Bruce Springsteen

 8.  God Only Knows - The Beach Boys

 9.  Blowing in the Wind - Bob Dylan

10  Perfect Day - Lou Reed


Spaugilegar orðaskýringar

  Þessar orðaskýringar fékk ég sendar frá Austfjörðum.  Þar notar fólk sömu orð og aðrir Íslendingar en í annarri merkingu.  Þetta er bráðfyndið.  Og það sem merkilegra er:  Þessi orð eru bara notuð um kindur í daglegu tali á Austfjörðum. 


Að bera fé: Afklæða (= rýja) kind
Aflafé:
Kindur sem stunda veiðiskap
Áhættufé:
Fífldjarfar sauðkindur

Eigið fé:
Kindur sem eiga sig sjálfar

Eiðslufé: Kindur í sjálfsmorðhugleiðingum
Fégirnd: Afbrigðileg kynhneygð (= að girnast sauðfé)
Fégræðgi:
Að vera einstaklega sólginn í sauðaket
Féhirðir:
Smali

Féhirðir: Eivindur
Félag:
Lag sem samið er um sauðfé
Félagi:
Sá sem leggur lag sitt við sauðfé eða lagar sig að sauðfé
Félegur:
Eins og sauður (= kindarlegur)
Féleysi:
Þegar skorið hefur verið niður vegna riðuveiki (ef þú leysir fé "sem hefur verið heft til mjólkur")
Féleysi:
Sauðþrár

Fésýsla: Sauðfjárhérað
Fjárdráttur: Samræði við kind
Fjárhagur:
Einhver sem er afar laginn við sauðfé
Fjárhirslur:
Geymslur fyrir sauðfé
Fjárlög:
Öll lög sem samin eru um sauðfé (s.b. Sigga litla s....)
Fjármagn:
Þegar margar ær koma saman
Fjármál:
Tungumál sauðkinda (= jarm)
Fjármálaráðherra:
Yfirsmali
Fjármunir:
Lausamunir í eigu sauðkinda (svo sem; sauðnaut, sauðá, sauðskinn, sauðvarnir, o.s.frv. )
Fjárnám:
Skóli fyrir kindur

Fjárnámskrafa: Námskindur í kröfugöngu
Fjárplógsstarfsemi:
Jarðyrkja þar sem sauðfé er beytt fyrir plóg
Fjársöfnun:
Smalamennska
Fjárútlát:
Þegar ærnar eru settar út á vorin

Fjárútlát: þegar kindur drepast úti
Fjárvarsla:
Það að geyma kindur
Fjárveitingar:
Þegar boðið er upp á sauðket í matarboðum
Fjáröflun:
Smalamennska

Fundið fé: Kindur sem búið er að smala
Glatað fé:
Fé sem ekki hefur komið aftur af fjalli
Grímsá:
Kind í eigu Gríms

Sauðá: Kind í eigu sauðs 
Handbært fé: Horaðar kindur sem auðvelt er að bera heim af fjalli.
Handbært fé frá rekstri: Kindur sem menn hafa gefist upp á að reka og ákveðið að bera á höndum sér
Hlutafé:
Súpukjöt
Langá:
Einstaklega löng kind
Lausafé:
Kindur sem eru lausar á afréttinum
Norðurá:
Kind að norðan
Opnibert fé:
Fé í eigu ríkisins
Sauðburður:
Þegar handbært fé er borið að á milli staða
Sparifé:
Kindur sem ekki eru notaðar hversdags
Stofnfé:
Fyrstu kindurnar sem maður eignast
Tryggingafé:
Öruggt sauðfé
Veltufé:
Afvelta kindur
Þjórfé:
Drykkfelldar ær
Þverá:
Þrjósk kind

Þjórsá: Kind sem drekkur lítið enn lengi í einu
Jökulsá: Kind sem villtist upp á jökul
Morsá: Kind með vasaljós
Kaldá: Verulega kynköld kind
Hrútá: Það er mella
Búðará: Kind með kaupæði 
Vallá: Blanda af kind og geit
B.M.Vallá: Valla mannbær kind (= lamb)
Miðfjarðará: Verulega þrjósk kind sem heldur sig bara í miðjum firði
Svartá: Svarti sauðurinn
Hvítá: Albinói
Geithúsará: Kind sem áreitir Geitur
Ljósá: Verulega myrkfælin kind
Bleiksá: Samkynhneigð kind
Eivindará: Kind sem er búin að fara oft í áfengismeðferð 
 


Deilan á Prestbakka dómtekin síðar í mánuðinum

 Prestbakki IPrestbakki IIPrestbakki III

  Ég hef leyft ykkur að fylgjast með sérstæðum deilum sem poppstjarnan Hebbi Guðmunds og Svala kona hans standa í við nágranna sína.  Neðst í þessum texta eru tenglar inn á fyrri færslur um málið.  Ég ætla samt að fara í stórum dráttum yfir málið. 

  Hebbi og Svala búa í raðhúslengju á Prestbakka.  Í raðhúsunum í bökkunum hefur verið hefð fyrir því að hver íbúðareigandi sér um viðhald á sínum íbúðum,  að því frátöldu að viðhald á göflum er sameiginlegt.

  Fyrir nokkrum árum létu Hebbi og Svala endurnýja þakið á sinni íbúð.  Það gerði annar íbúðareigandi líka.  Eigendur hinna fjögurra íbúðanna í lengjunni eru að láta skipta um þak á sínum íbúðum núna.  Samkvæmt áeggjan Húseigendafélagsins er kostnaðinum deilt yfir á allar íbúðirnar - þrátt fyrir að ekki verði skipt um þak á tveimur þeirra.

  Hússjóður var stofnaður og mánaðargjald á hverja íbúð er 500.000 kr.  Hebbi og Svala hafa mótmælt þessum yfirgangi óg ósvífni.  Þau neita að borga 500.000 kr. á mánuði.  Fyrir það hefur þeim verið stefnt.  Málið verður dómtekið síðar í þessum mánuði.

  Fyrir utan ósanngirnina sem Hebba og Svölu er sýnd af nágrönnum sínum þá hefur þeim hjónum blöskrað vinnubrögðin að öðru leyti.  Almenna verkfræðistofan var fengin til að halda utan um framkvæmdina.  Með tilheyrandi kostnaði (2 milljónir kr. áður en framkvæmdir hófust).  Meðal annars var smiður fenginn til að labba í kringum raðhúslengjuna og benda á steypuskemmdir sem blöstu við öllum.  Fyrir rölt smiðsins kom reikningur upp á 167.000 kall.   

  Verktakinn sem tók að sér verkið hefur látið ólærða unglingspilta vinna verkið.  Strákarnir kunna ekkert til verka.  Það hefur orðið að tvívinna suma hluti vegna þekkingar- og reynsluleysis þeirra.  Önnur vinna er verulega gölluð af sömu ástæðum.  Óvatnsvarðar krossviðarplötur eru negldar ofan á rennblautan 35 ára gamlan pappa og hann þekur timburþak.  Þakið á íbúð Hebba og Svölu,  Prestbakka 15,  og nágranna þeirra á nr. 17,  eru að sjálfsögðu steypt.

  Á dögunum hætti verktakinn og tveir smiðir hafa verið ráðnir í staðinn. 

  Ef að smellt er á myndirnar þá stækka þær og verða skýrari.  Við þær birtast þá númerin Prestbakki I,  II og III.  Þannig merkti ég þær inn á stjórnborðið mitt.  Sú merking er pínulítið villandi vegna þess að myndirnar eru af Prestbakka 21. 

  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/284142


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband