4.3.2014 | 20:16
Hvað er í gangi?
Ég átti leið um Garðabæ áðan. Mér datt í hug að koma við í Ikea og kaupa sænska gosdrykki. Þegar á reyndi missti ég alla lyst á drykkjarföngum. Hvert sem litið var blasti við undarleg sjón. Það var eins og æði hafi runnið á mannskapinn.
![]() |
Saltkjötið ekki lengur á túkall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
3.3.2014 | 21:39
Sparnaðarráð: Ódýr heimsreisa
Fátt er skemmtilegra en að leggja land undir fót. Skreppa til útlanda og viðra sig yfir framandi morgunverði. Það er það skemmtilegasta þegar ferðast er frá einu landi til annars. Hefðbundinn þjóðlegur morgunverður lýsir svo vel persónusérkennum hverrar þjóðar og sögu. Eini gallinn við utanlandsferðir, sérstaklega heimsreisur, er að þær eru dýrar. Ég veit um ráð gegn þeim útgjaldalið. Mér er ljúft að deila því með ykkur.
Byrjum á því að fara til Skotlands. Það þarf ekkert að kaupa flugmiða eða neitt. Ekkert fara út á flugvöll. Aðeins bara að skjótast út í matvöruverslun. Kaupa þar egg, gróft brauð, smjör, bakaðar baunir, beikon, litlar grófar pylsur (sausage), ósúrt slátur, tómat og English Breakfast te. Komin heim í eldhús eru brauðsneiðar ristaðar. Allt hitt er steikt á pönnu nema bökuðu baunirnar. Te er lagað. Áður en morgunverðurinn er snæddur er upplagt að skella sekkjapíputónlist undir nálina. Svo er bara að anda vel að sér lyktinni af skoska morgunverðinum. Þá ertu komin til Skotlands.
Frá Skotlandi er haldið til Portúgals. Sami háttur er hafður á. Nema að einungis þarf að kaupa croissant brauð, flúrsykur, venjulegt kaffi og mjólk. Heima í eldhúsi er hellt upp á kaffi og flúrsykri stráð yfir brauðið. Kaffið er drukkið með mjólk. Dansmúsík frá Madeira smellpassar í bakgrunni.
Frá Portúgal er haldið til Ítalíu. Þar er einnig croissant brauð með flúrsykri málið. Nema að nú þarf að sprauta smávegis af súkkulaði yfir. Bara smá. Kaffið verður að vera cappuccino. Pavarotti skal hljóma undir.
Sérðu hvað það er einfalt og auðvelt að fara í heimsreisu með þessari aðferð? Í Frakklandi er einnig croissant brauð. Það er í fjölbreyttri útfærslu. Eitt brauðið er með rúsínum. Annað með súkkulaðibitum. Það þriðja með möndlukurli. Mestu munar um að músíkin er frábrugðin.
Þegar til Þýskalands er komið er gróft brauð komið á diskinn í stað croissant. Með því eru borðaðar þykkar sneiðar af osti og fjölbreyttum pylsum. Þessu er skolað niður með sterku kaffi.
Áður en rokið er til annarra heimsálfa lýk ég fyrsta hluta heimsreisunnar í Tyrklandi. Morgunverðurinn samanstendur af ólívum, ýmsum gerðum af ostum (bæði hörðum og smurosti), þurrkuðum tómötum eða tómat-paste, grófu brauði og smjöri, ferskum tómötum, gúrkum, bananabitum, ferskjubitum, berjasultu og hunangi með rjómaslettu. Með þessu er sötrað te.
Meira á morgun.
-------------------
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Ferðalög | Breytt 4.3.2014 kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.3.2014 | 22:13
Rússar þenja brjóst og sperra stél
Það er eins og Rússar verði sperrtari með hverjum deginum sem líður. Pútín og hans lið kemst upp með allt. Sama hvort er að bjarga sýrlenskum stjórnvöldum undan innrásarhótunum Obama eða bjarga Snowden undan Obama. Eða dæma gagnrýnendur Pútíns í þrælkunarbúðir. Eða halda Olympíu-leika og láta rússneska herinn umkringja úkraínskar herstöðvar og afvopna þær.
Rembingurinn í Rússum og og sjálfsupphafning þeirra er farin að taka á sig ýmsar myndir. Þar á meðal eru þeir farnir framleiða fólksbíla í rembingslegri yfirstærð.
Til að taka af allan vafa þá hefur ekkert verið átt við þessar ljósmyndir. Bíllinn er þetta stór.
Hinsvegar birtist sperringur Rússa líka í samsettum brúðkaupsmyndum. Hér þykist brúðguminn jafnhatta fólksbíl með brúðurina innanborðs:
Líka frekar undarlega samsett mynd af brúðhjónum sem eru sett inn sem dekk undir bíl:
Sumir Rússar monta sig af dráttarvélinni sinni. Í rússneskum sveitum er dráttarvélin stöðutákn. Metingurinn gengur út á að hafa stór dekk undir vélinni og góðan heyvagn aftan í henni. Takið eftir að við hlið annars framhjólsins er öðru og stærra dekki stillt upp til að dráttarvélin sýnist vera vörpulegri. Jafnframt er myndin tekin frá sjónarhóli þar sem þak á nálægu húsi virðist vera þak á heyvagninum og húsi traktorsins.
![]() |
Þetta er stríðsyfirlýsing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 3.3.2014 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.3.2014 | 00:35
Lulla frænka og Sophia Loren
Lulla frænka var ekki alltaf fyrirsjáanleg. Hvorki í orðum né gjörðum. Hún átti þrjú systkini á Norðurlandi. Sjálf bjó hún í Reykjavík. Hún var dugleg að heimsækja systkini sín og frændfólk. Dvaldi þá dögum saman hjá hverjum og einum. Það var alltaf mjög gaman þegar Lulla var í heimsókn. Hún skipti sér meira af okkur börnunum en flest annað fullorðið fólk. Spjallaði mikið við okkur alveg frá því að við lærðum að tala. Hún söng fyrir okkur í ítölskum óperustíl og jóðlaði heilu ósköpin. Hún kenndi okkur að húlla. Það var einhverskonar dans með stórri gjörð um mittið.
Lulla sagðist vera ein örfárra Íslendinga sem kynni að jóðla og kynni tökin á húlla. Gat sér til um að hún væri flinkasti húlla-dansari Íslands. Kannski var það rétt hjá henni. Við höfðum engan samanburð. Nema, jú, við krakkarnir gáfum henni lítið eftir þegar á reyndi. Kannski er húlla-hæfileikinn ættgengur.
Lulla taldi sig vera tvífara þekktrar ítalskrar leikkonu, Sophiu Loren. Henni dauðbrá, að sögn, stundum þegar hún leit í spegil. Í speglinum blasti við andlit Sophiu Loren. Hana grunaði sterklega að þegar hún væri á gangi niðri í bæ þá héldi fólk að þar færi Sophia Loren.
Lulla vissi ekki til að þær Sophia Loren væru skyldar. Engu að síður taldi hún augljóst að um æðar sér rynni suðrænt blóð. Hún gat ekki staðsett hvort hún væri af ítölskum, frönskum eða spænskum ættum. Það kom til greina að eiga ættir að rekja til allra þessara landa. Með orðum Lullu: "Sennilega er ég komin af einhverju fínu fólki í þessum löndum." Vísbendingarnar sem hún hafði fyrir sér voru meðal annars þær að þegar hún hélt á bolla þá lyftist litli putti ósjálfrátt út í loftið. Einnig skar hún skorpuna af smurbrauðsneiðum og leifði skorpunni. Hvorutveggja einkennandi fyrir kónga og annað fyrirfólk í suðrænum löndum, að sögn Lullu.
Lulla var svarthærð með svartar augabrúnir og stór augu. Með einbeittum vilja mátti merkja að eitthvað væri svipað með andlitsdráttum þeirra Sophiu Loren. En þær voru ekki tvífarar. Það var lítil hætta á að fólk ruglaði þeim saman.
Á æskuheimili mínu, sveitabæ í útjaðri Hóla í Hjaltadal, var oft fjölmennt á sumrin. Einkum í sumarfrísmánuðinum júní. Þá komu ættingjar og vinir foreldra minna í heimsókn. Flestir stoppuðu í marga daga eða vikur. Foreldrum mínum og okkur krökkunum þótti þetta rosalega gaman. Þegar best lét voru hátt í 30 næturgestir til viðbótar við 9 heimilisfasta. Þá var slegið upp tjaldi úti á hlaðvarpanum. Jafnframt man ég eftir tilfellum þar sem við nokkrir krakkar sváfum úti í hlöðu. Það var mikið ævintýri og góð skemmtun.
Lulla var eitt sinn í heimsókn þegar gestum fjölgaði. Einhverra hluta vegna var hún ósátt við það. Hugsanlega fannst henni þrengt að svefnstað sínum. Mér dettur það í hug vegna þess að hún tók upp á því að vaka fram á nótt eftir að aðrir voru lagstir til hvílu. Hún sat þá alein í eldhúsinu, drakk svart kaffi og keðjureykti.
Snemma nætur renndi nýr bíll í hlað. Lulla spratt til dyra. Úti fyrir stóð vinafólk okkar, langt að komið. Daginn eftir tilkynnti Lulla okkur að hún hafi verið snögg að snúa þessu fólki við. Hún hafi sagt þeim að það væri ekki smuga á næturgistingu fyrir þau. Það væri þvílíkt stappað að fjöldi manns svæfi á eldhúsgólfinu og sjálf þyrfti hún að sofa í baðkarinu.
Hvorutveggja var ósatt. Það svaf enginn í eldhúsinu og því síður í baðkarinu. Næturgestir voru ekkert það margir í þetta skiptið þó að þeir væru margir. Það var alveg pláss fyrir fleiri. Foreldrum mínum þótti miður að Lulla hefði vísað vinafólkinu á brott. Fannst samt fyndið að Lulla skyldi skrökva þessu með baðkarið. Lullu þótti ekkert fyndið við það. Hún sagði alvörugefin: "Þetta var það eina sem mér datt í hug. Og það hreif. Fólkið snéri við í dyrunum og fór. Ég fór að sofa og hef sjaldan sofið betur."
--------------------------------
Meira af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1358050/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2014 | 00:14
Lærum af dæminu með Hildi
Nú er lag að læra af dæminu um Hildi Lillendahl. Láta eitthvað gott koma út úr því dapurlega dæmi. Skerum upp herör gegn dulnefnum. Þau bjóða ekki upp á annað en óábyrgar yfirlýsingar, hótanir, heitingar og óábyrga umræðu. Gerum þá kröfu til netmiðla að notendur skrifi undir fullu nafni. Þannig er notendum gert að standa við orð sín án þess að felast á bakvið dulnefni.
Netmiðlar þurfa að taka ábyrgð á því sem fær að standa í umræðudálkum þeirra. Ég er ekki að kalla eftir neinni ríkisrekinni netlöggu. Netmiðlarnir sjálfir verða að sýna ábyrgð með því að eyða "kommentum" sem fela í sér hótanir um nauðganir, dráp og annað ofbeldi.
Þeir sem verða fyrir netníði þurfa að bregðast snöggt við og kæra umsvifalaust allar hótanir og annað níð. Ekki bíða eftir því að þetta líði hjá og fyrnist á tveimur árum. Dómstólar þurfa að taka á netníði af festu. Líðum ekki netníð. Við eigum alveg að ráða við það að ræða ágreiningsmál án hatursumræðu. Erum við ekki nógu félagslega þroskuð til þess? Öll dýrin í netheimum eiga að vera vinir.
![]() |
Vildi drepa Svein Andra með hamri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
27.2.2014 | 22:30
Aðgát skal höfð i nærveru netsins
Netið er varasamt. Ekki síst spjallþræðir, svo og athugasemdakerfi fréttamiðla. Fyrir það fyrsta tjáir fólk sig öðruvísi á lyklaborði en þegar staðið er fyrir framan þann sem orðum er beint að. Eða verið er að fjalla um. Bremsurnar eru ekki þær sömu og þegar horft er framan í manneskjuna. Í annan stað tjáir fólk sig öðruvísi á netinu undir dulnefni en réttu nafni. Það er eins og losni um hömlur og fólk leyfir sér meiri ókurteisi og ruddaskap þegar það er falið á bakvið dulnefni. Í þriðja lagi kemur iðulega illa út að blanda þessum tveimur atriðum - lyklaborði og dulnefni - saman við ölvun. Það þarf ekki netið til að fullt fólk segi sitthvað annað en þegar það er edrú.
Stemmning í athugasemdakerfum og spjallþráðum hefur mikið að segja. Ég þekki ekki barnaland.is og bland.is. Mér er sagt að umræðan á barnaland.is hafi verið svakaleg á köflum. Þar hafi notendur síðunnar keppst við að toppa hvern annan með slúðri um frægt fólk og niðrandi ummælum um það. Það ku hafa eitthvað dregið úr þessu eftir að nafni síðunnar var breytt í bland.is. Ég kíkti núna inn á bland.is og sé að allir skrifa þar undir dulnefni. Umræðan er eftir því.
Stundum má sjá í athugasemdakerfi fréttamiðla hvernig umræða þróast. Fyrstu "komment" eru kannski kurteisleg. Svo mætir einhver yfirlýsingaglaður á svæðið. Þá spólast aðrir upp. Áður en líður á löngu eru menn komnir í kapp við að toppa hvern annan. Þetta á einkum við um það þegar verið er að fjalla um ofbeldismenn, nauðgara, barnaníðinga og aðra slíka. Þá er stutt í yfirlýsingar á borð við: "Hnakkaskot og málið er dautt." Eða lýsingar á því hvernig gaman væri að pynta viðkomandi og láta hann deyja hægum sársaukafullum dauðdaga.
Annað mál er að sumt sem hljómar ruddalegt í skrifuðum texta er ekki illa meint. Það er sett fram í kaldhæðni eða á að vera í léttum dúr. Málið er að án þess að sjá svipbrigði þess sem skrifar og eða þekkja hann er auðvelt að meðtaka textann á annan hátt. Netið er svo ungur samskiptavettvangur að við höfum ekki ennþá náð að höndla það almennilega.
Fyrir daga netsins skrifaði fólk lesendabréf eða pistil í dagblöð. Fólk vandaði sig. Tók marga daga í að skrifa vandað bréf. Lét ættingja og vini lesa það yfir áður en það var sent til dagblaðs. Á þeim árum komu út mörg dagblöð: Morgunblaðið, Vísir, Tíminn, Þjóðviljinn, Dagblaðið, Alþýðublaðið og Dagur. Þessi dagblöð birtu ekki hvaða lesendabréf eða pistil sem var. Ósæmilegu efni var hafnað eða farið fram á að texta væri breytt. Það sem birtist á prenti hafði farið í gegnum síu. Núna hinsvegar getur fólk ýtt á "enter" um leið og það hefur lokið við að slá texta á lyklaborðið. Á næstu sek. er textinn orðinn opinber á netinu.
![]() |
Fullur kærasti á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt 28.2.2014 kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.2.2014 | 21:46
Sífellt bætist í hóp þeirra sem ætla að vera drukknir á páskunum
Það er langt síðan ég tók staðfasta ákvörðun um að reyna að stefna á að verða drukkinn á páskunum. Það hentar svo vel á þessari skemmtilegu alþjóðlegu frjósemishátíð. Frjósemistáknin; súkkulaðikanínur, litlir gulir hænuungar og Nóaegg smellpassa við páskabjórinn. Mér er kunnugt um að fleiri en ég ætli að verða drukknir á páskunum. Þar á meðal Jesús.
![]() |
Jesús drukkinn á páskunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.2.2014 | 23:52
Ný útvarpsstöð, ný fréttasíða
Það er allt í gangi. Nú er heldur betur uppsveifla hjá Útvarpi Sögu. Hleypt hefur verið af stokkum spennandi netsíðu: Fréttasíðunni sem þú ferð inn á með því að smella á þennan hlekk: http://www.utvarpsaga.is/index.php Það dugir líka að slá inn slóðina utvarpsaga.is
Hægt er að fara inn á þessa síðu til að hlusta á beina útsendingu Útvarps Sögu og nýrrar útvarpsstöðvar, Vinyls. Útvarps- og tónlistarstjóri Vinyls er Kiddi Rokk (einnig kenndur við Smekkleysu). Lagavalið samanstendur af klassískum rokk og -dægurlögum tímabilsins 1955 - 1985. Þetta tímabil var gullöld vinylplötunnar. Spannar upphaf rokksins og nær yfir til nýbylgjunnar (new wave).
Ég hef haft Vinyl mallandi í dag. Lagaflæðið er gott og notalegt. Allskonar klassískt rokk í bland við hátt hlutfall af eldri íslenskum dægurlögum. Kiddi Rokk kann þetta. Enda einn af hæst skrifuðu plötusnúðum landsins. Kíkið á fésbókarsíðu Vinyls og "lækið": https://www.facebook.com/vinylnetutvarp
Tónlist | Breytt 26.2.2014 kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.2.2014 | 22:58
Malta ræðst að Íslendingum með ósvífni
Fullyrðing Vigdísar Hauksdóttur um að Malta sé ekki sjálfstætt ríki hefur farið eins og eldur í sinu um netheima. Hver erlendi netmiðillinn á fætur öðrum hefur tekið málið upp. Þetta er frétt dagsins víða um heim. Þarna gætir smávægilegs misskilnings. Vigdís stóð í þeirri trú að Malta væri súkkulaðikex. Súkkulaðikex getur ekki verið sjálfstætt ríki. Þar fyrir utan er sjálfstæði ríkja teygjanlegt hugtak.
Sunnudagsútgáfa maltneska netmiðilsins circle.com leggur út af orðum Vigdísar von Malta og gerir samanburð á Íslandi og Möltu. Fyrirsögnin er: "Þess vegna er Malta betra land en Ísland"
Þessi hrokafulla rangsanninda fyrirsögn er rökstudd með eftirfarandi:
- Sólin skín í 3000 klukkutíma á ári í Möltu en 1300 tíma á Íslandi.
- Eldgos á Íslandi spúa eldi og brennisteini yfir alla Evrópu. Eldfjöll á Möltu hafa vit á að hafa hægt um sig.
- Maltnesk eldfjöll bera lipur nöfn á borð við Mosta og Dingli. Það er illmögulegt fyrir útlendinga að segja Eyjafjallajökull.
- Hætta á innræktun er meiri á Íslandi vegna fámennis. Íslendingar eru 320 þús. Maltverjar eru 452 þúsund.
- Verðlag á Íslandi er 8. hæsta í Evrópu. Verðlag á Möltu er í 22. sæti. Á Íslandi kostar brauðhleifur 1,55 evrur. Á Möltu kostar hann 0,83 evrur.
- Íslendingar hafa ekki þjóðarrétt Möltu, pastizzi. Þess í stað eru bestu pylsur í heimi seldar á einum stað í Reykjavík.
- Íslendingar eru sjálfhverfir skrattakollar í norðri.
Greinina má lesa í heild með því að smella á: http://www.sundaycircle.com/2014/02/why-malta-is-a-better-country-than-iceland/
![]() |
Fjölmiðlar á Möltu fjalla um Vigdísi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 25.2.2014 kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2014 | 22:13
Fersk skýring á orsökum íslenska bankahrunsins
Friðrik Schram heitir maður. Hann er prestur hjá Íslensku Kristskirkjunni. Í gær var hann staddur í Færeyjum og ávarpaði landsþing færeyska Miðflokksins. Í ávarpinu upplýsti Friðrik Færeyinga um orsök bankahrunsins á Íslandi 2008 og setti það í samhengi við blómstrandi velmegun í Færeyjum.
Stóri munurinn liggur í því að Færeyingar eru kristnasta þjóðin í Evrópu á sama tíma og Íslendingar hafa ekki varðveitt trúna. "Þúsundir Íslendinga töpuðu öllu," sagði Friðrik. "Bæði eignum, vinnu, peningum og trú á framtíðina." Allt vegna þverrandi guðsótta og þverrandi virðingar gagnvart náunganum. "Þetta eru afleiðingar þess að Ísland hefur afkristnast. Af græðgi og ábyrðarleysi misnotuðu einstaklingar aðstöðu sína til að safna auði."
Friðrik gleymdi ekki að rifja upp að Færeyingar urðu fyrstir þjóða til að lána Íslendingum gjaldeyri. Og það af stórhug. "Íslendingar eru ennþá að tala um það," sagði hann.
Friðrik fullyrti að eina leið Íslendinga út úr kreppunni sé að fara þá kristnu leið sem byggir á boðorðunum 10.
Sérstaklega þetta með að girnast ekki þræl náunga síns. Ja, hann tók það reyndar ekki fram. En það lá í loftinu. Held ég.
Færeyingum þótti mikið til ræðu Friðriks koma. Enda var hún flott. Það eina sem vantaði í hana var útskýring á því hvers vegna Færeyingar lentu í bankahruni og kreppu á tíunda áratugnum. Það var mun harðari skellur en íslenska bankahrunið. En Færeyingar voru fljótir að hrista hann af sér. Meðal annars með því að henda kvótakerfinu. Síðan hefur þeim gengið allt í hag.
Hlýðum hér á færeysku hljómsveitina Hamferð, sigurvegara færeysku Músíktilrauna 2011, flytja sálminn "Herra Guð þitt dýra nafn og æra". Frábær hljómsveit sem spilaði á Eistnaflugi á Neskaupstaði 2012.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
22.2.2014 | 22:37
Lulla frænka og stöðumælar
Lulla frænka tók lítið mark á umferðarreglum. Fyrir bragðið var hún stundum án ökuréttinda. Það breytti engu hjá henni. Hún keyrði eftir sem áður. Frændi minn var lögregluþjónn til skamms tíma. Á Lögreglustöðinni við Hverfisgötu fann hann heila möppu smekkfulla af umferðarsektum af öllu tagi á Lullu. Allar ógreiddar.
Þetta var löngu fyrir daga tölvunnar. Sektir voru handskrifaðar og innheimta í molum. Umferðalagabrot voru ekki neitt meiriháttar mál. Áreiðanlega var eitthvað umburðarlyndi gagnvart því að Lulla var andlega vanheil og eignalaus að frátalinni bíldruslunni, dældaðri á öllum hliðum.
Þegar Lullu var bent á að varasamt væri að keyra án ökuréttinda svaraði hún: "Það getur enginn ætlast til þess að ég labbi út í búð, eins slæm og ég er til fótanna. Ég þarf auðvitað að kaupa sígarettur eins og allir aðrir."
Og: "Það skilja nú allir að ég þurfi að keyra niður í SÍBS til að endurnýja happdrættismiðann minn. Ekki endurnýjar miðinn sig sjálfur."
Lulla bjó í Reykjavík alveg frá unglingsárum. Hún þekkti Reykjavík eins og lófann á sér. Samt fór hún iðulega einkennilegar leiðir án nokkurra vandræða að komast á réttan stað. Um tíma bjó ég á Kleppsvegi við hliðina á Laugárásbíói. Lulla kom í heimsókn síðdegis á sunnudegi. Um kvöldmatarleytið hugði hún að heimferð. Okkur hjónakornum datt í hug að skreppa í Gamla bíó og fá að sitja í hjá Lullu þangað (hún var með ökuréttindi þann daginn). Lulla bjó á Skúlagötu, skammt frá bíóinu. Leiðin frá Kleppsvegi meðfram sjónum og niður á Skúlagötu var einföld, þægileg og fljótfarin.
Lulla fór ekki þá leið. Hún brunaði austur að Elliðaám. Í undrun minni sagði ég að Gamla bíó væri á Hverfisgötu. Lulla svaraði: "Heldurðu að ég viti ekki hvar Gamla bíó er? Ég veit hvar allir staðir eru í Reykjavík. Þess vegna get ég alltaf ekið stystu leið hvert sem er. Ég keyri aldrei krókaleiðir."
Síðan brunaði hún vestur að Tjörninni, ók Lækjargötuna og skilaði okkur af sér við hornið á Gamla bíói. Þessi leið var að minnsta kosti tvöfalt lengri en hefði hún ekið vestur Kleppsveginn.
Bróðir minn var unglingur og farþegi í bíl hjá Lullu niður Skólavörðustíg. Eins og ekkert væri sjálfsagðra þá ók hún eftir gangstéttinni. Komst reyndar ekki langt því að stöðumælar voru fyrir. Lulla ók tvo niður. Það var ekki þrautalaust. Þeir voru vel skorðaðir í gangstéttina og bíll Lullu í hægagangi. Lögregluþjónn kom aðvífandi og skrifaði skýrslu á staðnum. Lulla hellti sér yfir hann með skömmum og formælingum. "Hvað á það eiginlega að þýða að planta stöðumælum niður þvert fyrir umferðina? Þetta eru stórhættulegir stöðumælar? Þú skalt ekki láta hvarfla að þér að ég fari ekki lengra með þetta!"
Til að byrja með reyndi lögreglumaðurinn að benda Lullu á að gangstéttin væri fyrir gangandi vegfarendur en ekki bíla. Það var eins og að skvetta vatni á gæs. Lulla herti á reiðilestrinum. Lögreglumaðurinn lenti í vörn, muldraði eitthvað, flýtti sér að ljúka skýrslugerð og forðaði sér. Lulla kallaði á eftir honum að hann ætti að skammast sín og allt hans hyski.
Lullu tókst að bakka bílnum af stöðumælinum, komast út á götuna og halda áfram för niður Skólavörðustíginn. En hún var hvergi hætt að hneykslast á þessum fíflagangi að setja stöðumæla þar sem fólk þurfi að keyra.
-----------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353811/
Löggæsla | Breytt 23.2.2014 kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2014 | 21:02
Vegir ástarinnar eru (ó)rekjanlegir
Stundum er því haldið fram að engir sölumenn komist með tærnar þar sem bílasölumenn á góðu flugi eru með hælana. Enda nauðsynlegt. Svo oft þarf að selja bílhræ sem engin heilvita manneskja svo mikið sem lítur á. En snjöllu sölumönnunum tekst að selja hverja einustu bíldruslu.
Víkur þá sögu að breskum hjónum á fimmtugsaldri, herra og frú Bayford, 2ja barna foreldrum. Þau unnu 148 milljónir sterlingspunda (x 188 ísl. kr.) í Lottó. Í fjölmiðlum sögðust hjónin vera staðráðin í því að láta aurinn ekki breyta sér og fjölskyldulífi þeirra á neinn hátt. Þau leyfðu sér samt að kaupa eitt og annað smálegt án þess að fara á eyðslufyllerí. Þar á meðal fór frúin á bílasölu. Bílasalinn gaf sér góðan tíma í að kynna fyrir kellu þá kosti sem voru í boði. Það var engin ástæða til að rasa um ráð fram þegar velja á heppilegasta bíla sem eiga að endast í marga mánuði. Áður en yfir lauk hafði salinn selt frúnni 5 Audi bíla: Sitthvorn bílinn handa foreldrum hennar, einn handa bróðir hennar, annan handa mágkonu hennar og einn handa frúnni sjálfri.
Herra Bayford skipti sér ekkert af þessu og kom hvergi nærri. Hann hefur engan huga á bílum. Er ekki einu sinni með bílpróf.
Um það leyti sem frú Bayford staðgreiddi bílana var hún komin upp í rúm til bílasalans. Það var ekki aftur snúið. Hún skildi í snatri við herra Bayford. Bílasalinn flutti inn til hennar. Hann sagði þegar í stað upp í vinnunni og hvílir sig.
![]() |
Fólk gleymir að rækta ástina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2014 | 22:01
Kjúklingur er grænmeti
Sú var tíð að börn og unglingar ólust við það að sjá grunnhráefnið í mat verða til fyrir framan sig. Lamb fæddist að vori, óx úr grasi og var slátrað að hausti. Skrokkurinn var sagaður í lærissneiðar, sviðakjamma, síðubita o.s.frv. Blóð og lifur urðu sláturkeppir. Kálfur fæddist og breyttist skömmu síðar í kálfasteik og kálfabjúgu. Þannig mætti áfram telja. Svona er hringrás lífsins og matarkeðjunnar.
Í dag kemst margt fólk á fullorðinsár án þess að hafa hugmynd um það hvernig maturinn verður til. Dýravinir hvetja fólk til að hætta að drepa dýr og kaupa frekar kjöt í kjötborði stórverslana.
Aðrir gera sér ekki grein fyrir því hvað er dýraafurð og hvað er kjöt. Það færist í vöxt að fólk haldi að ekkert sé kjöt nema rautt kjöt. Öfgafullar grænmetisætur lifa á kjúklingasalati um leið og þær sniðganga egg á þeirri forsendu að egg sé dýraafurð.
Í dag var áróðursriti kvótakónganna dreift í öll hús í boði hamborgarasjoppu. Þar gat - í bland - að líta matseðil sjoppunnar. Í innrömmuðum texta voru taldir upp nokkrir valmöguleikar, vik frá uppskriftinni. Meðal annars að hægt væri að fá kjúklingabringu í staðinn fyrir kjöt.
Þennan útbreidda misskilning; að kjúklingur sé grænmeti, má rekja til lýsinga á illri meðferð á verksmiðjukjúklingum. Aðbúnaður er svo vondur og meðferðin á þeim svo vond að þeir eru viti sínu fjær, skelfingu lostnir, sljóir og ein taugahrúga. Skilja hvorki upp né niður. Uppfullir af fúkkalyfjum og með dritbrunna fætur, reittir og tættir. Þeir ná ekki heilli hugsun. Að því leyti eru þeir grænmeti í merkingunni að hausinn sé ónýtur.
Matur og drykkur | Breytt 21.2.2014 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2014 | 23:32
Sýslumaður flytur lík á herðum sér
Á vegi mínum í dag varð eintak af Morgunblaðinu frá því fyrr í vikunni. Frétt vakti athygli mína. Ég mátti ekki vera að því að lesa fréttina. En sá að hún snérist um leyfi sýslumannsins á Siglufirði til að flytja lík á herðum sér. Af því að ég gaf mér ekki tíma til að lesa fréttina þá veit ég ekki hvort að hann fékk leyfi til að flytja lík á herðunum. Fyrirsögnin var: "Leyfi til líkflutnings á herðum sýslumanns á Siglufirði".
Ég vona að hann hafi fengið þetta leyfi fyrst að það er honum kappsmál.
-----------------------------------
Svo gott sem allt fólk talar í nútíð er það mælir. Nema nánast bara ein manneskja. Hún segist tala í fortíð. Það er aðdáunarverð kúnst sem fæstir leika eftir (nema örfáir eftir að hafa snætt görótta sveppi). Orðrétt hélt hún þessu fram sem skrifað er við myndina.
Þar fyrir utan: Flestum nægir að líta til baka án þess að vera að líta til baka.
Þessi spakmælta kona er sú hin sama og snéri nafnorðinu auðlind lipurlega upp í hæsta stigs lýsingarorð. Sagði Ísland vera auðlindasta land í heimi.
Þar áður hélt hún því fram að Róm hafi ekki verið byggð á einni nóttu. Sem er áreiðanlega rétt. Það er óhagkvæmt að byggja borg í myrkri nætur.
Fyrir daga rafmagns hefði verið hagkvæmara að byggja Róm að degi til.
Spaugilegt | Breytt 21.2.2014 kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.2.2014 | 23:50
Smásaga af fjárfesti
Ding-dong, gellur dyrabjallan. Húsfrúin gengur til dyra. Útifyrir stendur hvíthærður maður með sakleysislegan hvolpasvip. Hann býður góðan dag og kynnir sig sem Hrapp Úlfsson, fjárfesti og auðmann.
Viðskipti og fjármál | Breytt 23.1.2015 kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2014 | 21:46
Skemmtilegur bókardómur
Á tónlistarsíðunni Tónskrattanum skrifar Bubbi skemmtilega gagnrýni um bókina Gata, Austurey, Færeyjar, Eivör og færeysk tónlist. Hann gefur henni hálfa fjórðu stjörnu í einkunn. Meðal þess sem segir í dómnum er:
"Þetta er ekki ævisaga í þeim skilningi þó tiplað sé á ýmsu úr ævi Eivarar, enda fáránlegt að að skrifa ævisögu svo ungrar manneskju og algjör óþarfi, nema hún heiti Janis Joplin eða Jimi Hendrix. Þessi bók fjallar um færeyskt tónlistarlíf og þar er tónlistarferill Eivarar sennilega hryggjarstykkið og því er hún að sjálfsögðu aðalnúmerið hér. Inn á milli er síðan fléttaður skemmtilegur fróðleikur um Færeyjar og færeyskt þjóðlíf.
Bækur | Breytt 18.2.2014 kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2014 | 23:51
Pönkið í sókn!
Ég verð seint talinn áhugsamur um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og Ísraels, Júrovision. Keppnin fer nánast alltaf algjörlega framhjá mér. Þó að ég þyrfti að vinna mér það til lífs þá ætti ég í vandræðum með að nefna yfir tíu lög úr Júrovision, útlend og íslensk í bland. Ólíklegt er að á það reyni.
Tvívegis hef ég horft á Júrovison í sjónvarpinu. Í fyrra skiptið var ég gestkomandi á heimili í Færeyjum. Þangað safnaðist smá hópur til að fylgjast saman með. Allir stóðu með íslenska laginu. Nema ég. Ég stóð ekki með neinu lagi. Þótti þau hvert öðru leiðinlegra. Mér til bjargar varð að nóg var til af Föroya Bjór. Mér tekst ekki að rifja upp hvaða íslensku lagi var teflt fram það árið. Kannski var ég úti að reykja á meðan það var flutt.
Í seinna skiptið fylgdist ég með íslensku lokakeppninni. Þá hafði ég orðið var við að óvenju góður hópur flottra flytjenda atti kappi saman. Þar á meðal Botnleðja, Heiða í Hellvar, Eivör og Rúnar Júlíusson.
Í ár fylgdist ég ekki með. Ég heyrði glæsilegt lag eftir Ólaf F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóra, sem var sent inn en hafnað af dómnefnd. Lögin sem hlutu náð fyrir eyrum dómnefndar hljóta að vera tær snilld fyrst að flottu lagi Ólafs var hafnað. Mér er sagt - af þeim sem fylgjast með - að flest lög sem komust í gegnum nálaraugað standi lagi Ólafs langt að baki.
Ég held að ég hafi aðeins heyrt lag Pollapönks, Enga fordóma, af lögunum sem kepptu. Kannski búta úr öðrum lögum. Veit það ekki. Þegar ég las á netinu að lag Pollapönks hafi sigrað leitaði ég á náðir vod. Þar gat ég á 64-földum hraða spólað beint í lokamínútur útsendingarinnar og hlustað á Enga fordóma. Pollapönk er skemmtileg og grallaraleg hljómsveit. Undir smá áhrifum frá Steppenwolf. Flutningurinn í úrslitaþættinum er töluvert flottari en á myndbandinu á þútúpunni. Meðal annars hleypti Heiðar á skeið í töff öskursöngstíl í seinni hluta lagsins.
Vegna þekkingarskorts á Júrovision veit ég ekki hvort að þar hefur áður verið boðið upp á pönk. Mér segir svo hugar að það sé ekki. En hvort sem er: Það er allt í hönk og það vantar alltaf meira pönk.
Ég veit ekkert hvernig Pollapönkið passar inn í Júrovision-klisjuna. Það snýr hvergi að mér. Eftir stendur fjörlegt pönk. Það er gaman.
![]() |
Enga fordóma fer til Danmerkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 17.2.2014 kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.2.2014 | 00:44
Lulla frænka var skyggn
![]() |
Aldrei sátt við að vera skyggn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 17.2.2014 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2014 | 23:17
Alvarlegar rangfærslur
Í fjölmiðlum í dag mátti heyra ýmsa góða manneskjuna kenna Dag elskenda, Valentínusardaginn, við Bandaríki Norður-Ameríku. Sumir fussuðu yfir því að Íslendingar séu að apa eftir bandarískum ósiðum. Aðrir létu þess getið að Dagur elskenda sé eldri en Bandaríkin. Dagurinn eigi sögu aftur til 14 aldar í Evrópu.
Þar er sennilega vísað til Wikipedíu sem í þessu tilfelli segir aðeins hálfa sögu.
Hið rétta er að þetta var heiðinn hátíðisdagur til forna. Hann var kenndur við ástarguðinn Lupercus. Kirkjan hafði horn í síðu hans. Þegar fullreynt þótti að þessum heiðna hátíðisdegi yrði ekki útrýmt tókst kirkjunni að finna píslarvott, Valentinus, sem átti fæðingardag nánast á Degi elskenda. Það munaði aðeins einum degi. Málið var leyst með því að kirkjan uppnefndi heiðna hátíðisdaginn Valentínusardag. Heiðingjar tóku því fagnandi. Það var ekkert nema hið besta mál að þessi hátíðisdagur væri tekinn í sátt af kirkjunni.
Heimildir eru til um heiðna hátíðisdaginn frá því 4 öldum fyrir okkar tímatal.
Þetta er einfalda sagan af Degi elskenda. Það er til flóknari útgáfa.
Lífstíll | Breytt 15.2.2014 kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.2.2014 | 22:08
Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?
Spurningin sem margir spyrja sig - og nokkra aðra - er: Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð? Svar við spurningunni áleitnu brennur á íslenskum almenningi (og í bland nokkrum útlendingum með bakpoka). Mér er ljúft og skylt að upplýsa málið - fyrst að ég á annað borð veit svarið. Í stuttu máli er Bjarni Ben djúpsteiktur fiskur (nánar tiltekið fiskborgari). Sigmundur Davíð er hakkað naut (í formi nautaborgara).
Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru nýjustu réttirnir á veitingastaðnum Texasborgurum við Grandagarð.
Fram til þessa hafa hamborgararnir á Texasborgurum verið 140 gr. Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru hinsvegar 90 gr. Þeir eru afgreiddir í hamborgarabrauði og með frönskum kartöflum, sósu og salati. Verðið er sniðið að kaupgetu fólks í skuldaánauð; 690 kall.
Hlutverk nafngiftar þessara málsverða er að minna ráðamenn landsins á að skuldugir landsmenn eru langþreyttir á bið eftir skuldaleiðréttingu. Þeir bíða og bíða og bíða og bíða eftir skuldaleiðréttingu sem boðuð var á vormánuðum og átti að ganga í gegn einn, tveir og þrír. Svo gleymdist hún. Að mér skilst. Í atinu þurfti að einbeita kröftum að kvótagreifum sem toguðust á um að borga sér 800 milljónir í arð (í stað 700 milljóna). Eða eitthvað svoleiðis.
Ég þekki ekkert til þessara mála og skipti mér ekkert af þeim. En ég held að framtak Texasborgara sé skemmtilegur flötur á skuldaánauðinni.
Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Texasborgara. Aftur á móti snæði ég oft á Sjávarbarnum. Hann er við hliðina á Texasborgurum og - að ég held - sami eigandi. Á Sjávarbarnum er boðið upp á glæsilegt sjávarréttahlaðborð í bland við kjúklingarétti. Það er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Hér er eigandinn, Magnús Ingi Magnússon, með Bjarna Ben og Sigmund Davíð í fanginu.
Bjarni Ben spilar ekki á loftgítar. Þess í stað er hann liðtækur á loftklarinettu og loftfuglaflautu.
Matur og drykkur | Breytt 14.2.2014 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)