Dauði tónlistariðnaðarins

  Með reglulegu millibili koma fram á sjónarsvið fyrirbæri sem slátra tónlistariðnaðinum - ef mark er takandi á þeim sem hæst grætur hverju sinni yfir örlögum sínum á dánarbeði tónlistariðnaðarins.  Nýjasti morðingi tónlistariðnaðarins er niðurhalið á netinu og mp3.  Í lok síðustu aldar var það skrifanlegi geisladiskurinn.  Þar áður náði bandaríski tónlistariðnaðurinn að banna DAT-snælduna.  Japanskur snælduframleiðandi,  Sony,  gerði sér þá lítið fyrir, keypti bandaríska plöturisann CBS og aflétti banninu í krafti þess.  Um svipað leyti úreltis DAT-snældan vegna innkomu geisladisksins.

  Músíksjónvarpsstöðin MTV og tónlistarmyndbönd voru um tíma sökuð um að ganga af tónlistariðnaðinum dauðum.  "Myndbönd drápu útvarpsstjörnuna" (Video Killed the Radio Star),  sungu The Buggles og þóttu spámannslega vaxnir.  

  Á áttunda áratugnum urðu svokölluð kassettutæki þokkalega góð, ódýr og almenningseign.  Tónlistariðnaðurinn fylltist örvæntingu.  Hann sameinaðist í rosalega öflugri herferð gegn kassettunni.  Höfðað var til samvisku kassettutækjaeigenda.  Á plötuumslög og í plötuauglýsingum var birt teikning af kassettu yfir x-laga nöglum.  Uppstillingin var stæling á einkennistákni sjóræningja.  Með fylgdi texti þar sem fullyrt var að tónlist afrituð yfir á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.   

  Orðheppnu pönkararnir í Dead Kennedys tóku skemmtilegan snúning á þessu.  Þegar þeir sendu frá sér plötuna "In God We Trust, Inc." var hún einnig gefin út á kassettu.  Kassettan var merkt þessum boðskap um að upptaka á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.  Fyrir neðan þann texta bættu Dead Kennedys-liðar við:  "Við höfum þessa hlið kassettunnar óátekna svo þú getir lagt hönd á plóg" (við að slátra tónlistariðnaðinum).

  Á annarri plötu sungu Dead Kennedys gegn MTV í laginu "MTV Get Off the Air".  Til samræmis við það að MTV skiptir litlu máli í dag hafa núverandi liðsmenn Dead Kennedys breytt textanum í "Mp3 Get Off the Air".  

dead-kennedys-tape.jpg    

  Heildarsaga Dead Kenndys er jafn geggjuð og grátköst tónlistariðnaðarins og skallapoppara yfir stöðugri slátrun á sér.  Framan af var hljómsveitin mjög kjaftfor í bland við hárbeittan húmor.  Söngvarinn,  Jello Biafra,  var og er mjög fyndinn og beitir kaldhæðni af list.  Lagaheitin segja sitt:  "Too Drunk to Fuck",  "Stealing People´s Mail",  "Kill the Poor",  "Anarchy for Sale",  "California Uber Alles"...    

  Þegar fréttatímar voru uppfullir af sögum af Pol Pot og félögum í Kambódíu að þrælka og strádrepa íbúa landsins söng Jello um "Holiday in Cambodia".  Nafnið Dead Kennedys er baneitrað.  Íslenskur frændi minn skrapp til New York (eða hvort það var Boston?) á upphafsárum Dead Kennedys.  Þá var hljómsveitin þekkt í Evrópu en tilheyrði neðanjarðarpönksenu í Bandaríkjunum.  Í plötubúð spurði frændi eftir plötum með Dead Kennedys.  Það snöggfauk í afgreiðslumanninn.  Hann reiddi hnefa til höggs og spurði hvað þetta grín um dauða Kennedya ætti að þýða.  Það tók afgreiðslumanninn góðan tíma að ná andlegu jafnvægi á ný á meðan frændi upplýsti hann um þessa hljómsveit.

  Eins og algengt er áttuðu þöngulhausar sig ekki á kaldhæðni Jellos.  Nasistar og aðrir rasistar hylltu Dead Kennedys og fjölmenntu á alla þeirra hljómleika.  Á síðustu plötunni heitir eitt lagið "Nazi Punks Fuck Off".  Það breytti engu.  Ku Klux Klanarnir tóku því sem virðingarvotti í sinn garð.  Jello var nóg boðið og leysti hljómsveitina upp.  Hann snéri sér að uppistandi og nýtur mikilla vinsælda sem slíkur.  Hann hefur sent frá sér fjölda uppistandsplatna.  Hann var með vel heppnað uppistand á Íslandi fyrir nokkrum árum.

  Jafnframt hefur Jello sungið inn á plötur með ýmsum hljómsveitum (þar á meðal Lard og No Means No) og gert kántrý-plötu með Mojo Nixon.  Eftir að Jello leysti DK upp óx viðskiptavild hljómsveitarinnar bratt.  Allskonar hljómsveitir fóru að kráka (cover song) lög DK.  Auglýsendur,  kvikmyndaframleiðendur,  sjónvarpsþáttaframleiðendur og ýmsir aðrir vildu fá að nota lög DK.  Jello stóð fastur gegn því.  Hann vildi varðveita ímynd DK sem hljómsveitar í uppreisn,  með málstað pönksins að leiðarljósi. Jello stóð einnig gegn því að lög DK væru gefin út á safnplötum.  

  Hljóðfæraleikararnir í DK fóru í mál við Jello.  Þeir sökuðu hann um að hafa af þeim háar fjárupphæðir með því að taka ekki fagnandi allri notkun á DK-lögum á öllum vígstöðvum.  Þeir unnu málið.  Síðan hafa þeir selt lög DK út og suður.  Sömuleiðis endurreistur þeir hljómsveitina með öðrum söngvara og túra þvers og kruss.  

    


Hýrnar yfir Hafnarfirði

  Það er allt að snúast á sveif með Hafnarfirði þessa dagana.  Margt telur og hjálpast að.  Kærleikur, friður og tónlist eru að taka við af andstæðu sinni.  Mestu munar um að stofnað hefur verið Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar (MLH).  Þar fara fremst í flokki einstaklingar sem eru þekktir af því að láta verkin tala og hugsa stórt.  Til að mynda sjálfur Kiddi kanína,  einnig kenndur við Hljómalind;  Óli Palli Rokklandskóngur,  Erla söngkona Dúkkulísa og ég er ekki alveg nógu vel að mér um aðra í stjórn félagsins.  Enda er ég ekki Hafnfirðingur.

  Næsta sunnudag stendur MLH fyrir hljómleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði.  Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.  Öðru nær.  Það er sjálf færeyska álfadísin,  Eivör,  sem heldur tvenna hljómleika ásamt hljómsveit sinni.  Fyrri hljómleikarnir eru klukkan 16.00.  Þeir seinni klukkan 20.00.  Hafnfirska hljómsveitin Ylfa hitar upp.

  Eins ágætar og plötur Eivarar eru þá eru hljómleikar hennar margfalt sterkari upplifun.  Hún hefur rosalega sterkan sviðsþokka.  Margir hafa lýst því þannig að það sé eins og hún dáleiði salinn og leiði hann inn í töfraheima.  Fegurð tónlistarinnar umvefur dolfallinn áheyrandann sem situr í sæluvímu.  

  Miðasala er á www.mlh.is  

gata_austurey_eivor_1228395.jpg


mbl.is Vítisenglar yfirgefa Hafnarfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapofsabullur

gu_jonthor_ar.jpgthjalfarig.jpgthjalfarif.jpgthjalfarie.jpg

  Skapofsaköst einkenna boltabullur allra landa.  Þar virðist - stundum - oft - fara saman heimska og yfirgengilegur ákafi um boltaleik.  Eins og boltaleikir eru lítilfjörlegt gaman.  Ég fylgist svo sem ekkert með því sprikli.  Enda boltaleikir í raun fyrst og fremst ungs barns gaman.  Held ég.  Og ekki góðs vitni að einhverjir taki þetta sprikl galgopa hátíðlegt eins og eitthvað sem skiptir einhvern máli.  Myndir af þjálfurum boltaliða eiga það sameiginlegt að þeir eru reiðir á svip og öskrandi.  Það er vont fyrir blóðþrýstinginn.

thjalfarid.jpggu_jonthor_aro1.jpgthjalfaria.jpg   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

---------------------------------------------------

  Fyrir nokkrum dögum birti ég myndir sem gestir í Soltsjí hafa verið að birta á netinu.  Flestar myndirnir voru af salernisaðstöðu.  Þarna er klósettum raðað hlið við hlið í opnu rými án skilrúma.  Þetta má sjá með því að smella á þennan hlekk: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353491/'

  Rússarnir brugðust snöfurlega við gagnrýninni og hafa sett skilrúm úr pappa á milli flestra klósetta.

Sotsjí - Rússarnir byrjaðir að stúka klósettin af 


mbl.is „Hef aldrei séð hann svona reiðan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæðan fyrir því að fólk verslar eins og fífl

  Allir þekkja einhverja sem hafa fengið svokallað kaupæði.  Rólegheitamanneskja kíkir á útsölu,  ætlar ekki að kaupa neitt,  er bara að forvitnast,  en kemur heim hlaðin vörum sem hún hefur ekkert með að gera og kann enga skýringu á því hvað kom yfir hana.  Af hverju hún missti stjórn á sér.  Af hverju hún keypti hluti sem hana vantaði ekki.  Af hverju hún keypti hluti á hærra verði en hún er sátt við.

  Þetta hefur verið rannsakað á vísindalegan hátt í Háskólanum í Bangor í Wales.  Við tilteknar aðstæður,  til að mynda þegar útsala hefst,  þá myndast æsileg stemmning.  Það hleypur æði á viðskiptavini.  Stemmningin rafmagnast og magnast upp.  Eftir 23 mínútur í þessu spennuþrungna andrúmslofti æsings og hamagangs slekkur heilinn á þeim hluta sem stjórnar rökhugsun.  Við það breytist manneskjan í uppvakning.  Hún verður fáviti sem hefur enga stjórn á sér.  Án allrar skynsemi fer hún á sjálfstýringu sem gengur út á að kaupa og hamstra.  Verðskyn hverfur eins og dögg fyrir sólu sem og allt annað sem hefur með skynsemi að gera.  Manneskjan er dómgreindarlaus og stjórnlaus.

  Hið sama er uppi á teningnum þegar um uppboð er að ræða.  Fyrir aldarfjórðungi tók ég þátt í skammtíma sölumarkaði í Húsgagnahöllinni uppi á Höfða.  Til að lífga upp á stemmninguna var boðið upp á dagskrá með tónlistaratriðum og fleiru.  Þar á meðal uppboði með vörum úr sölubásunum.  Þá brá svo við að geggjun rann á gesti og þeir buðu í og keyptu vörur á þrefalt og fjórfalt hærra verði en þær kostuðu í sölubásunum.  Eftir tvö eða þrjú uppboð gekk þetta svo fram af okkur að frekari uppboð voru blásin af.  Þetta sem átti að vera léttur og skemmtilegur leikur reyndist kappsömum kaupfíklum ofraun.

  Næst þegar þú ferð á útsölu taktu þá með einhvern sem tekur tímann.  Að 23 mín. liðnum þarf hann að stoppa þig af með góðu (miklu fremur en illu).  Á því augnabliki ert þú að missa vitið.  Sættu þig við það og láttu gott heita.         

---------------------------------------

Tvífarar:

tvifarar_1228246.jpg 


mbl.is Borgað fyrir að fá að borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lulla frænka og bíllinn hennar í vonsku veðri

  Lulla frænka, föðursystir mín, átti það til að vera óþarflega neikvæð út í hlutina.  Þegar sá gállinn var á henni miklaði hún það neikvæða fyrir sér.
  Einu sinni sem oftar var verið að útskrifa Lullu af geðdeild.  Í þetta skipti dvaldi hún stutt á deildinni í kjölfar þess að hafa tekið inn of stóran skammt af pillum.
  Fullorðin frænka okkar bauð Lullu að búa heima hjá sér á meðan hún væri að ná áttum.  Frænkan bjó í stóru húsi.  Börnin flutt að heiman og nóg pláss.  Hún bauð Lullu að hafa risið út af fyrir sig.  Þar voru tvö kvistherbergi og sér baðherbergi. 
  Komin inn til frænku okkar hringdi Lulla í mig.  Erindið var að hana vantaði bílinn sinn.  Hann stóð á Skólavörðuholti.  Lulla vildi hafa hann nær sér þó að hún væri of slöpp til að aka á næstunni.
  Ég spurði Lullu hvort að ekki færi vel um hana hjá frænkunni.  Nei,  Lulla sagðist vera nánast í spennitreyju þarna í risinu.  Það væri svo þröngt að hún gæti varla snúið sér við öðruvísi en að rekast í allt.
  Þetta kom mér á óvart.  Þarna höfðu börnin á heimilinu alist upp og að því er manni skildist við góðan kost.  Ég leyndi ekki undrun minni:  "Nú?  Eru þetta ekki alveg tvö herbergi sem þú hefur til umráða og baðherbergi?"
  Það hnussaði í Lullu:  "Ég get ekki kallað þetta herbergi.  Þetta eru skápar.  Þú sérð það þegar þú sækir bíllyklana til mín."
  Ég sótti bíllyklana og við blöstu rúmgóð herbergi.  Hvort um sig 10 - 12 fm. "Þetta eru engir skápar,"  sagði ég.  "Þetta eru virkilega fín herbergi."
  Lulla gaf sig ekki:  "Ég þakka guði fyrir að vera ekki hærri í loftinu en þetta.  Stærri manneskja yrði að skríða eftir gólfinu til að athafna sig í þessum skápum."  Lulla benti á hallandi kvistloftið þar sem lægst var til lofts, ranghvolfdi augunum og hristi hneyksluð höfuðið.  Stærsti hluti herbergjanna var með fullri lofthæð.  Lulla var rösklega meðalmanneskja á hæð.  Það var vel rúmt um hana þarna og miklu stærri manneskja hefði ekki þurft að kvarta undan þrengslum. 
  Þegar ég sótti bílinn hennar kom ég að honum með báðar framdyr opnar.  Næstum því upp á gátt eða rúmlega að hálfu.  Þannig hafði bíllinn staðið í marga daga.  Kannski hálfan mánuð eða eitthvað.  Það var furða að hvorki börn né útigangsmenn hefðu lagt bílinn undir sig.  Sennilega bjargaði langvarandi frostharka og kuldatíð því að fáir áttu gönguleið um holtið.  Aðeins hafði fennt framan á bílinn.  Það var dálítill snjór innan í honum.  Ekki samt meiri en svo að lítið mál var að moka honum út með höndunum. 
  Er ég skilaði bílnum og lyklunum til Lullu spurði ég hana út í opnu dyrnar.  Lulla horfði stórum augum á mig undrandi yfir skilningsleysi mínu:  "Ég vil ekki að hurðirnar frjósi fastarEf það gerist þá kemst ég ekki inn í bílinn."   
---------------------------------
Hér er hægt að rekja sig áfram í gegnum fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1351524/
---------------------------------
Yoko Ono þykir - eins og öðrum - söngkonuna Adele skorta flest til að koma söngvum sómasamlega til skila.  Yoko tók sig til á dögunum og hélt sýnikennslu fyrir Adele um það hvernig á að gera þetta.  Spennandi verður að vita hvort að kennslan komst nógu vel til skila þannig að Adele sendi frá sér frambærilega sungið lag í framtíðinni. 
 

   

mbl.is Fundu mannlausan bíl í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sláandi myndir frá Sotsjí

  Keppendur og aðrir gestir Ólympíuleikanna í Sotsjí er þrumulostnir yfir ýmsu þar á bæ.  Meðal annars klósettaðstöðunni.  Þar er um almenningssalerni að ræða í bókstaflegri merkingu.  Þegar kvartað er undan þessu fyrirkomulagi benda Rússarnir á að tími leyndarmála og pukurs sé liðinn.  Nú eigi allt að fara fram fyrir opnum tjöldum.  Allt skuli vera uppi á borðum og gegnsætt.

sochi-olympics-0.jpgsochi-olympics-8.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Sum klósettin vekja upp fleiri spurningar en svör.

sochi-olympics-26.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Merkingar í salernisaðstöðunni koma á óvart.  Til að mynda að bannað sé að veiða með veiðistöng í klósettunum.  Líka að stranglega bannað er að setja pappír í klósettin.  Allan pappír á að setja í ruslafötu.  

sochi-olympics-21.jpg sochi-olympics-17.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Rússar eru félagslyndir.  Víða eru nokkrir stólar fyrir framan klósettin svo vinahópurinn geti sest niður og haldið áfram að spjalla á meðan einn úr hópnum brúkar dolluna.

sochi-olympics-28.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kranavatnið í Sotsjí er sagt vera eitt það hreinasta og tærasta í Rússlandi.  Það er gult á litinn og bragðast eins og skólp.  Hvernig veit fólk hvernig skólp bragðast?  

sochi-olympics-30_1228169.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Internetsamband er ágætt meirihluta dagsins þegar allt er saman talið.  Hinsvegar þykir frágangurinn vera í anda mannsins sem reddar hlutunum fyrir horn án þess að eltast við þetta fínlega.

sochi-olympics-7.jpg

j


mbl.is Á Pussy Riot bretti í Sotsjí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plötusala og tónlistarmenn blómstra

  Plötusala hefur vaxið og vex ennþá frá einum áratug til annars.  Þannig hefur það verið alveg frá upphafi plötuframleiðslu og plötusölu.  Þetta á við um plötusölu hérlendis,  jafnt sem erlendis.  Á þessum tíma hefur sala á plötum tekið allskonar hliðarspor.  Á tímabili kom kassettan sterk inn og náði nokkurri markaðshlutdeild í plötusölu.  Svokölluð 8 rása teip urðu líka vinsæl.  Einkum í Bandaríkjunum.  Svo leysti geisladiskurinn vinylplötuna af hólmi.  Um 15 ára skeið eða svo var geisladiskurinn allsráðandi.  Að undanförnu hefur sala á vinylplötum aukist aftur jafnt og þétt.

  Á sama tíma hefur sala á tónlist í stafrænu formi tekið stóran og ört vaxandi bita af kökunni.  Sá markaður er ennþá í mótun.  Hann á eftir að taka miklum breytingum eins og hingað til.  Músíkveitur á borð við tonlist.is og spotify.com selja stök lög og heilar plötur í gegnum niðurhal.  Sömuleiðis selja tónlistarmenn lög (og plötur) beint til neytandans af sínum eigin netsíðum.  Líka í gegnum erlendar netsíður á borð við amazon.com og play.com.  Sala á þessum síðum telur ekki í opinberum gögnum um sölu á íslenskum plötum.    

  Jafnframt hefur færst í vöxt að músík íslenskra tónlistarmanna sé gefin út af erlendum plötufyrirtækjum.  Sala á þeirra músík telur ekki í opinberum tölum um sölu á íslenskri tónlist.

  Þrátt fyrir þetta var í fyrra sala á tónlist gefinni út af íslenskum plötufyrirtækjum svipuð og árin 2009 og 2010.  Salan 2011 og 2012 var meiri.  

  Á síðustu fimm árum eru tónlistarmenn að selja plötur á Íslandi í stærra upplagi en áður þekktist.  Mugison og Ásgeir Trausti eru að selja 30 og 40 þúsund eintök af stakri plötu.  Of Monsters and Men kemur fast á hæla þeirra.

  Jaðarmúsík er að seljast vel.  Skálmöld selur sinn víkingametal í þúsunda upplagi.  Mammút,  Lay Low,  Valdimar,  Kaleo,  Blússveit Þollýjar og fleiri eru á góðu róli.  Hebbi selur um og yfir 6000 eintök af hverri plötu sinni. 

  Bestu fréttirnar eru þær að söluhæstu plötur síðustu ára eru góðar plötur.  Þetta eru plötur sannra listamanna sem leggja sálina í tónlist sína.  Sköpunargleði, metnaður og einlægni ráða för.  Þessir tónlistarmenn njóta virðingar fyrir að standa með sjálfum sér sem listamenn.  Það skilar sér í vinsældum og góðri plötusölu.  Ólöglegt niðurhal styrkir sölu á bitastæðri tónlist.  Rannsóknir í Bretlandi og Frakklandi hafa staðfest það.  Niðurhalarar eru stórtækustu plötukaupendurnir.  Vegna áhuga og ástríðu fyrir tónlist nota þeir allar leiðir til að kynnast sem mestu magni af tónlist.  Svo kaupa þeir rjómann af því sem best lætur í eyrum.     

  Íslendingar sem hafa fulla atvinnu af sinni tónlist eru mun fjölmennari en áður.  Góð og heiðarleg íslensk tónlist og íslenskir tónlistarmenn blómstra sem aldrei fyrr.  Líka í kynþokka.  

 


mbl.is Kynþokkafyllstu íslensku söngvararnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningar leysa vandamál og skapa önnur

          Allir hafa velt fyrir sér þeim möguleika að vinna álitlega upphæð í lottói eða öðru happdrætti.  Þess vegna kaupa flestir af og til lottómiða eða aðra happdrættismiða.  Upphæðir sem Íslendingar vinna á þennan hátt eru innan skynsamlegra marka.  14 - 20 milljónir kr.  Í mesta lagi 70 - 80 milljónir.  Þetta eru ekki upphæðir sem rugla neinn í ríminu.  En notaleg búbót sem kallar á að vinningshafinn geri sér dagamun. 

  Fyrir nokkrum árum las ég samantekt í bresku dagblaði yfir þá sem höfðu unnið hæstu upphæðir í þarlendu lottói.  Milljarða.  Það var dapurleg lesning um hjónaskilnaði,  málaferli,  fjölskylduerjur,  eiturlyfjaneyslu,  klessukeyrða sportbíla og önnur leiðindi. 

   Fyrir nokkrum dögum rakst ég á nýtt viðtal við einn af þessum "óheppnu" vinningshöfum.  Hann heitir Mark og vann 2,2 milljarða ísl. kr.  fyrir tveimur áratugum.  Hann segir vinninginn hafa laðað fram það versta í fari fólks;  gremju, öfund, græðgi, illgirni.  Ef hann fer á barinn er ætlast til þess að hann splæsi á alla.  Þegar hann gerir það er hann sakaður um að hreykja sér.  Ef hann gerir það ekki er hann kallaður nirfill.  

  Mark segir að vissulega geti peningar leyst tiltekin vandamál.  En þeim fylgi ótal önnur vandamál sem hann sá ekki fyrir.  Í dag umgengst hann nánast enga af þeim sem hann var í bestu sambandi við fyrir lottóvinninginn.  Þar á meðal hefur samband hans við dætur,  stjúpmóður og aðra ættingja rofnað vegna illinda.  Hann er fjórgiftur og kennir barnsmæðrum sínum um að hafa snúið dætrum hans gegn honum.

  Tilætlunarsemi og frekja var slík fyrst eftir vinninginn að ólíklegasta fólk bað hann um að kaupa handa sér bíla og hús.  Eða kaupa af þeim hús á uppsprengdu verði.  Hann gerði það í fjórum tilfellum og hlaut engar þakkir fyrir.  Þess í stað var hann sakaður um flottræfilshátt.  Fólkið sem hann taldi sig vera að gera greiða talar ekki við hann í dag.   

  Mark hefur staðið í svo mörgum málaferlum að hann grínast með að þægilegast yrði að fá fasta aðstöðu í einkaherbergi merktu sér í dómshúsinu.  Hann er kominn á sextugsaldur,  er ennþá vel settur fjárhagslega,  en þjáist af þunglyndi og sækir tíma hjá sálfræðingi til að komast í gegnum daginn.  

  Í greininni er sagt frá öðrum vinningshöfum,  tvennum hjónum sem bæði skildu í kjölfar vinningsins eftir langt og farsælt hjónaband.  Hér er Mark með fyrstu konu sinni á meðan allt lék í lyndi.                 

lottovinningshafi_1227932.jpg


mbl.is Klinkið varð að 14 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýralegar breytingar á þyrlum Landhelgisgæslunnar

þyrláhvolfi  Það hefur lengi háð Landhelgisgæslunni að þyrlur hennar líta út eins og aðrar þyrlum.  Fyrir vikið tekur enginn eftir þeim né ber tilhlýðilega virðingu fyrir þeim.  Fólki finnst þær vera bara eins og hverjar aðrar þyrlur.  Það er brýnt verkefni að ráða bót á þessu.  Þegar hefur ein þyrlan verið sent til Noregs í tilraunaskyni.  Norðmenn eru snillingar þegar kemur að því að breyta þyrlu úr því að vera venjuleg í það að stinga í stúf. 

  Ef Norðmönnum tekst vel upp með að breyta þessari þyrlu verður þeim einnig sigað á aðrar þyrlur.  Verið er að skoða nokkra möguleika.

thyrla.jpgthyrlb.jpg þyrlFþyrlGþyrlHþyrlC                        Einn möguleikinn er að líma mynd af jólasveini á þyrluhurðina og skreyta þyrluna með myndum af kartöflum.  Það er glaðvær stemmning í því. 

þyrlD                        Sumir hallast að heimilislegri útfærslu.  þyrlJ                     Aðrir eru hrifnastir af timbruðu útgáfunni.   þyrlE               Ódýrast er að breyta engu í útliti þyrlanna öðru en því að hnýta á þær litríkar slaufur.  Það er snyrtilegt.  þyrlK   Starfsmenn þyrlanna verða einnig að skera sig frá almúganum.  Þeir fá húfur.       þyrlhúfa                                                             


mbl.is Þyrlurnar verða mjög áberandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Músíksmekkur

  Smekkur á músík ræðst af mörgum þáttum.  Einn af þeim er andlegur þroski einstaklingsins.  Annar er hormónaframleiðsla líkamans.  Kornabörnum þykir fátt skemmtilegra en klingjandi spiladósir sem endurtaka í sífellu sama stutta stefið.  Á þetta geta blessuð börnin hlustað á sér til ómældarar skemmtunar mánuðum saman.  Það er vanþróaður tónlistarsmekkur.

  Stálpaðri börn sækja í ofurlétt popplög með grípandi laglínu.  Þegar strákar nálgast kynþroskaaldur fara þeir sumir hverjir að hlusta á poppað þungarokk samfléttað teiknimyndafígúrum.  Hljómsveitin Kiss verður oft fyrir valinu.  Flestir strákar með eðlilegan þroska vaxa upp úr Kiss um fermingaraldur.  Testóstera-framleiðsla líkamans er á flugi um og upp úr fermingaraldrinum og strákar sækja í harðari og árásagjarnari rokkmúsík.  Eða kjaftfora rappmúsík.  

  Stelpur aftur á móti sitja uppi með flæðandi framleiðslu á östrógen-hormóni.  Þess vegna sækja þær í mjúka og tilfinningaríka (verndandi og móðurlega) músík og píkupopp.  Ekkert að því.  

  Þegar dregur úr framleiðslu testóstera hjá körlum með aldrinum mýkist músíksmekkur þeirra.  All svakalega svo um munar.  Sú er ástæðan fyrir því að elliheimilin munu aldrei einkennast af Pantera og Slayer á fullu blasti.  Svo hart og hávært rokk passar einfaldlega ekki við líkamsstarfsemi gamals fólks.

  Undantekningar sanna regluna.  Á sjöunda áratugnum fóru bresku Bítlarnir mikinn.  Lögðu undir sig heimsmarkaðinn í dægurlagamúsík.  Oft háværir og rokkaðir.  Svo leystist hljómsveitin upp í lok sjöundar áratugarins.  Þá héldu liðsmenn Bítlanna út í sólóferil.  Eins og venja er mýktist músík þeirra með tímanum og poppaðist óþægilega hratt.    

  Bassaleikari Bítlanna og söngvari,  Paul McCartney,  er kominn á áttræðisaldur.  Hann er ekki alveg samstíga jafnöldrum sínum.  Hann er af og til að leika sér með framsækna Killing Joke-liðanum Youth í dúettinum The Fireman.  Þeir hafa sent frá sér þrjár spennandi plötur.  Þar á meðal fór Paul á mikið blúsflug á síðustu plötunni:  

  Þetta hljómar ekki eins og maður á áttræðisaldri.  Né heldur þegar Paul er að blúsa með Nirvana.  Kallinn heldur röddinni.  Hann gefur ekki tommu eftir.  Hann blúsar eins og ofvirkur unglingur.   

  Þessi maður er sá sami og samdi og flutti með hljómsveit sinni,  Bítlunum,  blúsinn Helter Skelter fyrir næstum hálfri öld (1968).  Það var nýlunda á þeim tíma að lag hætti tvívegis.  Það var reyndar margt fleira sem Bítlarnir gerðu á skjön við hefð þess tíma.  Mjög margt.  Einnig þessi ákafi öskursöngstíll Pauls.

   


Stórkostlegar ljósmyndir af Íslandi

  Bandaríska lífstíls- og menningarnetsíðan Airows spannar allt frá listum og bílum til ferðalaga og margt þar á milli.  Í nýlegri færslu er ljósmyndasyrpa sem ber yfirskriftina "20 ótrúlegar ljósmyndir sem vekja þér löngun til að sækja Ísland heim".  Þó að ég sé búsettur á Íslandi þá blossaði upp í mér löngun til að sækja Ísland heim er ég leit þessar myndir augum.  Algjört dúndur. 

isl_11.pngisl_12.pngísl 13ísl 14ísl 15ísl 16ísl 17ísl 18ísl 19ísl 20  ísl 4ísl 3ísl 2ísl 6ísl 7ísl 8ísl 9ísl 10ísl 5ísl 1


Blindraflug í bókstaflegri merkingu

blindrahundur.jpg

  Þessi saga er ekki léttúðlegt rangsannindagrín.  Í áætlunarflugi frá borginni Seattle í Washington í Bandaríkjum Norður-Ameríku til borgarinnar San Francisco í Kaliforníu í sama landi þurfti óvænt að millilenda í höfuðborg Kaliforníu,  Sacramentó.  Í hátalarakerfi flugvélarinnar var farþegum tilkynnt um 50 mín. stopp.  Þeim var boðið og ráðlagt að nota tækifærið og teygja úr fótunum inni í flugstöðinni.  Flugstjórinn gekk frá borði á eftir farþegunum.  Aðeins ein blind eldri kona sat áfram í flugvélinni ásamt blindrahundinum sínum.

  Flugstjórinn þekkti konuna.  Hann hvatti hana til að fara inn í flugstöðina og teygja úr sér.  Nei,  sú blinda vildi bara halda kyrru fyrir í flugvélinni.  Hinsvegar taldi hún að blindrahundurinn hefði gott af því að fá að rölta um.  Hún bað flugmanninn um að viðra hann fyrir sig.  Sem var sjálfsagt mál af hans hálfu.

  Þegar flugstjórinn kom inn í farþegasal flugstöðvarinnar leiddur af auðkenndum blindrahundinum greip um sig múgæsingur meðal farþega.  Eflaust hafði sitt að segja að flugstjórinn var með sín dökku flugstjóragleraugu sem eru svipuð þeim er margir blindir nota.

  Farþegar þyrptust að miðasölunni og létu breyta flugmiðanum sínum í annað flug.  Margir létu sér það ekki nægja heldur keyptu nýjan flugmiða hjá öðru flugfélagi. 

------------------------------

  Hljótt hefur farið að hljómsveitin Of Monsters and Men gaf á dögunum Barnaspítala Hringsins 110 milljónir króna.  Eina spurningin sem uppátækið hefur vakið er hvers vegna þetta fólk getur ekki fengið sér vinnu eins og annað fólk.  

 


Lulla frænka og jólin - 2. hluti

hangikjöt og uppstúf 

  Lulla frænka var góður kokkur.  Það var gaman þegar hún bauð í mat.  Þá var alvöru veisla.  Ein jólin bauð hún mér og minni frú,  svo og systir minni og hennar manni, í hangikjöt á annan í jólum.  Á miðju stofugólfi stóð reisulegt jólatré,  glæsilega skreytt í bak og fyrir.  Lulla hóf þegar að leggja á borð í stofunni.  Systir mín settist í stakan stól með háu baki.  Skömmu síðar steyptist hún út í kláða á bakinu og kvartaði undan því.  Lulla útskýrði það eins og ekkert væri sjálfsagðra:  

  "Það er út af englahárinu.  Ég slétti það út á stólbakinu áður en ég setti það á jólatréð.  Það er svo voðalega mikið af glerflísum í englahárinu.  Þess vegna glitrar það svona fallega á jólatrénu."

  Vissulega var rétt hjá Lullu að englahár var samsett úr bómull og glerflísum.  Þess vegna gætti fólk þess að láta englahárið ekki snerta neitt nema jólatré.  Ég held að englahár sé ekki lengur selt.  En kláðinn hélt áfram að angra systir mína þó að hún skipti þegar í stað um sæti.  Kláðinn eyðilagði dálítið fyrir henni kvöldi. 

  Lulla frænka var ekki nísk þegar hún bauð í mat.  Alls ekki.  En hún var barnslega opin og hreinskilin.  Þegar hún bar á borð fat með nýsoðnu hangikjöti kallaði hún til okkar:

  "Sjáið þessa örfáu hangikjötsbita.  Hvað haldið þið að þeir hafi kostað?  Ég veit að þið getið ekki giskað á það.  Þeir eru miklu dýrari en þið haldið.  Mér alveg krossbrá þegar ég sá verðið.  Það lá við að ég hætti við að kaupa þá.  Ég hefði hætt við það ef ég hefði ekki verið búin að bjóða ykkur í hangikjöt."

  Lulla frænka upplýsti okkur um verðið á hangikjötsbitunum.  Það var hátt.  Þetta var 1977.  Ég man ekki upphæðina.  Við gestirnir fengum nett samviskubit yfir að að setjast við veisluborðið upplýst um þessi útgjöld fátæks öryrkja.  Það var ekki ætlun Lullu.  Hún var ætíð höfðingi heim að sækja og í engu til sparað.  Fimm manna veisluborðið hefði mettað fjölmennari hóp og samt verið nóg eftir.

  Í annað sinn bauð Lulla frænka sama hópi í glæsilega kjötbolluveislu.  Kjötbollurnar hennar voru hnossgæti.  Þegar allir höfðu borðað sig pakksadda og lagt frá sér hnífapör hvatti Lulla til frekara áts:

  "Fáið ykkur endilega meira.  Nóg er til.  Þetta eru góðar kjötbollur,  þó að ég segi sjálf frá."

  Mágur minn,  stór og mikill,  ýtti frá sér disknum og sagði:  "Þetta eru bestu kjötbollur sem ég hef smakkað.  Ég er áreiðanlega búinn að torga 10 eða 12 og er gjörsamlega sprunginn."

  Lulla leiðrétti hann:  "Nei,  þú ert búinn að borða sjö."   

----------------------------

  Fyrri hluti af jólum Lullu frænku: 

---------------------------
Hjarðhegðun:
hjar_heg_un.jpg

 

   

  


Bannfært kjöt

  Öldum saman var Íslendingum bannað að borða hrossakjöt.  Það var ekki að ástæðulausu.  Í ævafornum þjóðsögum gyðinga í Mið-Austurlöndum eru skýr fyrirmæli frá drottni himintunglanna um að harðbannað sé að borða kjöt af öðrum dýrum en þeim sem bæði hafa klaufir og jórtra af ákefð hvenær sem því er við komið.  Hesturinn hefur aldrei komist upp á lag með að jórtra.  Að auki hefur hann hófa en ekki klaufir.

  Við kristnitöku á Íslandi var eðlilega rík áhersla lögð á að hér norður í ballarhafi væri farið í hvívetna eftir boðum og bönnum þjóðsaganna frá Arabíu.  Þorgeir Ljósvetningagoði náði með lagni að semja um undanþágu fyrir ásatrúarmenn (sem allflestir Íslendingar voru og eru).  Ásatrúarmönnum var heimilt að blóta á laun.  Þar á meðal að laumast í hrossakjöt svo lítið bar á.  Og það gerðu þeir með góðri lyst.  Enda hrossakjöt flestu öðru kjöti hollara og bragðbetra.  

  Bann kirkjunnar við hrossakjötsáti var málað dökkum litum.  Hrossakjötsát var skilgreint sem jafn mikill glæpur og að myrða nýfædd börn með útburði.  Í aldanna rás magnaðist upp viðbjóður á hrossakjöti.  Bara það að fara höndum um hrossakjöt framkallaði hroll.  Verstu martraðir sem guðhræddan prest dreymdi var að hann snerti í ógáti á hrossakjöti.  Þá vaknaði hann upp með andfælum,  sleginn köldum svita og náðu ekki svefni á ný fyrr en eftir að hafa farið með faðirvorið og maríubæn.

  Á 18. öld léku harðindi Íslendinga grátt.  Til að seðja sárasta hungur átu Íslendingar bækur,  skó og,  já,  þeir allra kærulausustu björguðu lífi sínu og barna sinna með því að laumast í hrossakjöt.  Um og upp úr 1800 neyddist kirkjan til að koma til móts við sársvangan almenning.  Yfirmenn kirkjunnar í Danmörku léttu hörðum refsingum af Íslendingum sem nörtuðu í hrossakjöt - ef forsendan var sár neyð.  

  Sýslumaður í Dalasýslu gaf út yfirlýsingu um að refsilaust væri í hans umdæmi að nota hrossafitu sem ljósmeti (í kertagerð eða í lampa).  Það þótti kúvending,  róttæk og byltingarkennd afstaða til hins forboðna hrossakjöts.

  Á 19. öld léku harðindi Íslendinga enn grátt.  Dómsstjóri í Reykjavík heimilaði að fóðra mætti aumingja á hrossakjöti.  Nánar tiltekið tukthúslimi og sveitaómaga.  Allt varð brjálað.  Almenningur hneykslaðist.  Margir náðu sér aldrei eftir það.  Urðu vitleysingar.  Dómsstjórinn varð að athlægi um land allt.  Hvar sem tveir menn eða fleiri komu saman sögðu þeir af honum frumsamda "Hafnarfjarðarbrandara".   

  Fram eftir síðustu öld slaknaði hægt og bítandi á andúð á hrossakjöti.  Þó var lífseig sú skoðun að vond hrossataðslykt loddi dögum og vikum saman við þann sem lagði sér hrossakjöt til munns.  Alveg fram á þessa öld var hrossakjöt ódýrt.  Eftirspurn var lítil og hrossakjötið var aðallega notað til að drýgja - undir borði - nautakjöt og kjöthakk.  Það er ekki fyrr en á síðustu 2 - 3 árum sem kílóverð á hrossakjöti hefur nálgast verð á nauta- og lambakjöti.  

  Í dag er hrossakjöt hluti af þorramat.  Það er við hæfi.  Þorri er kenndur við vetrarvætt ásatrúarmanna.  Kirkjan bannaði á sínum tíma þorrablót.  Núna leika þorrablót stórt hlutverk í árlegu skemmtanahaldi Íslendinga.  Ekki aðeins okkar í Ásatrúarfélaginu heldur alls almennings.  Það er gaman.  Verra er að þrátt fyrir ört vaxandi framboð á hrossakjöti þá hefur kílóverðið einnig rokið upp.           

    

Í Lögregluskólanum er nemendum kennt að styðja snyrtilega og virðulega - svo lítið beri á - við húfuna til að hún fjúki ekki.

logreglumenn_sty_ja_vi_hufur.jpg


mbl.is Hrossakjötsframleiðsla rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sokkar sem gera þig að góðum dansara

  

   Vond frétt fyrir danskennara og dansskóla.  Góð frétt fyrir aðra.  Sérstaklega þá sem girnist að dansa en kann það ekki.  Svo ekki sé minnst á þá sem vita nokkurn veginn hver danssporin eiga að vera en á dansgólfinu fer allt úrskeiðis.  Fæturnir fara í allar áttir og aðallega í vitlausar áttir.  Snælduvitlausar áttir.

  Eftir tvo mánuði koma á markað sokkar sem stýra fótunum í réttu danssporin.  Sokkarnir líta út eins og venjulegir sokkar.  Það má þvo þá í þvottavél og allt.  

  Sokkarnir eru úr næmum trefjum.  Þær eiga samskipti við forrit í snjallsíma á meðan viðkomandi dansar.  

 


Pete Seeger

  Bandaríska söngvaskáldið Pete Seeger kvaddi í gær.  Hann var alveg við það að ná 95 ára aldri.  Hann hefur verið kallaður faðir bandarísku þjóðlagatónlistarinnar.  Það er ónákvæmt.  En nálægt því.  Woody Guthrie er nær lagi.  Woody var 7 árum eldri og fyrri til að stimpla sig inn á markaðinn og leggja línurnar.  Þar fyrir utan spilaði Woody á kassagítar og blés í munnhörpu á meðan Pete spilaði á banjó.  Kassagítar og munnharpa hafa alla tíð síðan verið einkennishljóðfæri bandarískrar þjóðlagatónlistar.  Fáir spila á banjó.    

  7 ára aldursmunur er mikill þegar menn eru ungir.  Pete og Woody spiluðu saman í hljómsveitinni The Almanac Singers um og upp úr 1940.  Woody var fyrirmynd og lærifaðir Petes,  eins og margra annarra.  Woody kunni þann galdur að semja auðlærða einfalda létta söngva sem allir gátu spilað og sungið með án þess að hafa heyrt lagið áður.  Söngvar Petes voru ljóðrænni og "dýpri".  Lærisveinn þeirra beggja,  Bob Dylan,  skilgreindi sig síðar sem Woody Guthrie djúk-box.  Engu að síður leituðu söngvar hans meira í sama stíl og söngvar Petes.

  The Almanac Singers breyttist í hljómsveitina The Weavers.  1950 sló sú hljómsveit rækilega í gegn með lagi Leadbellys,  Goodnight Irene.  

  Þetta lag sat í 1. sæti bandaríska vinsældalistans í 13 vikur,  seldist í 2 milljónum eintaka.  Það sölumet stóð árum saman.  The Weavers átti annað topplag,  Tzena, Tzena, Tzena.  

  Bakslag kom þegar leið á sjötta áratuginn.  Pete Seeger hafði undarlegar skoðanir sem töldust vera hættulegar.  Hann var friðarsinni,  studdi mannréttindabaráttu blökkumanna og verkafólks, var andvígur fátækt og umhverfisverndarsinni.  Hann var - ásamt Chaplin og fleirum - settur á svartan lista vænisjúka fasíska drykkjuboltans McCarthys.  Það þýddi að flestar dyr lokuðust á Pete.  Hann var útilokaður frá útvarpi,  sjónvarpi,  tónleikastöðum og svo framvegis.  Bannfærður.  Það var til margra ára skrúfað fyrir tjáningafrelsi,  skoðanafrelsi,  atvinnufrelsi... 

  Söngvar Petes Seegers voru það öflugir að þeir fundu sér farveg í flutningi annarra (sem voru ekki á svarta listanum).  1962 náði Kingston Tríó 1. sæti bandaríska vinsældalistans með lagi Petes Seegers,  Where Have All The Flowers Gone?

  

  Þetta er einn af þeim skaðlegu söngvum sem setja spurningarmerki við tilgangsleysi hernaðar - þegar upp er staðið.  Lagið naut vinsælda hérlendis með íslenskum textum í flutningi Ragnars Bjarnasonar,  Ellýjar Vilhjálms og Savanna Tríós.  Á íslensku heitir það ýmist  Hvert er farið blómið blátt?  eða  Veistu um blóm sem voru hér?  

  Marlene Dietrich söng sama lag inn á plötu sama ár.  Það varð vinsælt í hennar flutningi bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.  

  1962 negldi tríóið Peter, Paul & Mary sönglag Petes Seegers,  If I Had a Hammer,  í 1. sæti víða um heim.  

  Ári síðar endurtók Trini Lopez leikinn með sama lag:

  1965 sendi fyrsta bandaríska bítlahljómsveitin,  The Byrds,  frá sér smáskífulag eftir Pete Seeger,  Turn, Turn,  Turn. Það flaug í 1. sætið.  Og var fylgt eftir með öðru sönglagi eftir Pete Seeger,  The Bells of Rhymney.    

 

  Pete Seeger spilaði stóra rullu í mannréttindabaráttu Marteins Luther Kings og annarra blökkumanna á sjöunda áratugnum.  Sönglag hans (byggt á eldra sönglagi) varð baráttusöngur í mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjanna,  We Shall Overcome.  

  Víkur þá sögu að systur Petes,  söngkonunni Peggy.  Hennar kall var skoskur söngvahöfundur,  Ewan McCall.  Um hana samdi Ewan sönglag sem Elvis Presley,  George Michael og fleiri hafa sungið inn á plötu.  Roberta Flack fór með það í 1. sæti vinsældalista víða um heim.

  Ewan McCall kynnti Bretum og Evrópu fyrir blús (sem náði hámarki með The Rolling Stones).  Það er önnur saga.  Hans frægasta lag er Dirty Old Town.  Það hefur komið út á íslenskum plötum með Pöpunum og PKK.

  Dóttir Ewans,  Kirsty McCall,  söng þekktasta lag The Pouges:  

  Svo sigldi blindfullur auðmaður á snekkju yfir Kirsty útifyrir Mexicó og drap hana.  Það var refsilaust.  Morðinginn var fínn kall með góð sambönd.  

  Kirsty kippti í kynið.  Var góður lagahöfundur.  Hennar frægasta lag var sungið af bresku leikkonunni Tracey Ullman.

  Kirsty sjálf náði hæstum hæðum á vinsældalistum með lagi eftir breska vísnapönkarann Billy Bragg,  A New England.  

  Billy Bragg tilheyrir yngstu kynslóð lærisveina Petes Seegers.  Billy náði 1. sæti breska vinsældalistans með lagi eftir Bítlana,  She´s Leaving Home.   

  Hér syngur Billy Bragg lag Seegers,  If I Had a Hammer.  Myndbandið er skreytt ljósmyndum af Pete.


Einföld leið til að tvöfalda framleiðsluna

haena_og_egg.jpg  Það er verulega undarlegt hvað mörgum gengur illa að hámarka framleiðslu í fyrirtækjum sínum.  Það er eins og framleiðendur á öllum sviðum vilji að reksturinn lulli í hægagangi á hálfum afköstum.  Dæmi:  Það er auðvelt að tvöfalda mjólkurframleiðsluna.  Líka eggjaframleiðsluna.  Það eina sem þarf að gera er að spila músík fyrir dýrin.  

  Þessar skepnur hafa einfaldan músíksmekk.  Þær kunna best við einfaldar laglínur og straumlínulagaðan flutning.  Flóknir taktar,  taktskiptingar,  ágeng sóló eða hamagangur og læti veita dýrunum ekki ánægju.  Kýr kunna vel við ljúft harmónikkuspil og léttklassík.  Hænur kunna best við létta söngleikjamúsík og léttklassík.

  Þessi músík veitir skepnunum vellíðan.  Þær slaka á,  kumra og mala inni í sér og fyllast hamingju.  Það leiðir til aukinnar mjólkurframleiðslu og örara eggjavarpi.

  Í einhverjum tilfellum er hægt að tvöfalda mjólkurframleiðsluna með þessari aðferð.  Hænurnar tvöfalda varpið með það sama. 

  Hér er sönglag sem Paul Simon orti um morgunverð.  Hann samanstóð af spældu eggi og kjúklingi.

   

  


mbl.is Lág laun ástæðan fyrir litlum hagvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plötuumsögn

svennibjorgvins.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  - Titill:  It´s Me

  - Flytjandi:  Svenni Björgvins

  - Einkunn: ***1/2 (af 5)

  Ég veit lítið sem ekkert um Svenna Björgvins.  Einhverjir hafa á Fésbók hampað tónlist hans.  Þar hefur komið fram að hann er Keflvíkingur.  Sveinn er höfundur allra 11 laga plötunnar.  Titillagið er að auki í tveimur útfærslum,  rafmagnaðri og órafmagnaðri.  Textarnir eru á ensku og ýmist eftir Svein eða textahöfunda frá Nýja-Sjálandi,  Bretlandi og Bandaríkjunum.  

  Svenni syngur aðalrödd og bakraddir.  Ingunn Henriksen og Lynn Carey Saylor hlaupa undir bagga í þremur lögum.  Hann spilar á öll hljóðfæri en fær aðstoð á hljómborð og munnhörpu í fjórum lögum.  Hljóðfæraleikurinn er snyrtilegur og látlaus.  Svenni er einkar lipur á gítar en hófstilltur.  Blessunarlega laus við stæla og sýndarmennsku.  

  Lögin eru ljúf og notaleg.  Þau hljóma vinaleg við fyrstu hlustun og venjast vel við frekari spilun.  Þau eru flest róleg.  Ekkert fer upp fyrir millihraða.  Músíkstíllinn er milt og áreynslulaust popp.  Samt ekki poppað popp.  Frekar hippalegt (í jákvæðri merkingu) og trúbadorlegt popp.  Það eru engar ágengar krækjur (hook-línur) heldur streyma lögin fram eftir bugðulausum farvegi.  Sterkasta er Into the Wind.  Það er á millihraða,  með pínulitlum kántrýkeim - eða kannski öllu heldur pínulitlum Creedence Clearwater Rivival keim.    

  Söngur Svenna er mjúkur og án átaka.  Það er þó auðheyrt að hann hefur ágætt raddsvið.  Hann gæti klárlega gefið í og þanið sig.  En gerir það ekki.  Nettur söngstíllinn hæfir músíkinni.

  Heildarstemmning plötunnar er þægilegt popp.  Platan rennur áfram án þess að trufla hlustandann með einhverju sem brýtur upp yfirlætislaust formið.  Þannig er platan fín sem bakgrunnsmúsík í amstri dagsins.  Hún er líka alveg fín til að hlusta á með græjur stilltar á hærri styrk.  Það er bara mín sérviska að langa til að heyra eitt ágengt eða rokkað lag.  Eða þótt ekki væri nema einn rifinn og fössaðan gítartón.  Áreiðanlega kunna fleiri betur við plötuna eins og hún er.     


Lulla frænka á jólunum

  Jól og áramót voru Lullu frænku oft erfið andlega.  Stundum fór hún svo langt niður á milli jóla og nýárs að hún var vistuð inni á Klepp eða geðdeild Borgarspítalans.  Læknar sögðu hana upplifa einsemd sterkar á þessum árstíma en oftast annars.  Jólin eru svo mikil barna- og fjölskylduhátíð.  Engu að síður voru ættingjar og vinir Lullu duglegir að senda henni jólakort, jólagjafir og hringja í hana.  Henni var líka boðið í jólakaffi og jólamat.  Hún fékk einnig heimsóknir.  

  Ég veit ekki hvort eða hvernig það spilaði saman við annað að Lulla var mjög óánægð með nánast allar jólagjafir sem henni bárust.  Það átti hún sameiginlegt með föður sínum,  afa mínum.  

  Þegar ég heimsótti hana um jól þá sýndi hún mér jólagjafirnar með útskýringum:

  "Foreldrar þínir gáfu mér þennan náttlampa.  Ég skil ekki hvernig þeim datt það í hug.  Ég er ekki með neitt náttborð.  Ég les aldrei uppi í rúmi.  Ég get hvergi haft lampann nema á eldhúsborðinu.  Þar er hægt að stinga honum í samband.  En það hefur enginn náttlampa á eldhúsborðinu.  Ég verð að athlægi.  Náttlampinn er bara til vandræða.  Ekkert nema vandræða."

  Og:  "Frænka þín gaf mér þessa bók.  Ég er ekki með neina bókahillu.  Ég hef enga aðstöðu fyrir bækur.  Alveg dæmalaust að einhverjum detti í hug að gefa mér bók."

  Ég:  "Það eru allir að tala um að þessi bók sé mjög skemmtileg."

  Lulla:  "Já,  það má hafa gaman af henni.  Ég hef gluggað í hana.  En ég er í algjörum vandræðum með að leggja hana frá mér.  Eini staðurinn sem ég get lagt hana frá mér er svefnherbergisgólfið.  Það geymir enginn bækur á gólfinu.  Bókin er alveg fyrir mér á gólfinu þegar ég skúra."

  Fljótlega eftir að ég flutti til Reykjavíkur reyndi ég að gleðja Lullu frænku með jólagjöfum.  Mér tekst ekki að rifja upp hvað varð fyrir valinu.  Aftur á móti man ég að Lulla setti út á valið.  Ég kippti mér ekkert upp við það.  Þekkti viðbrögðin,  bæði hjá henni og afa.  Þau áttu það jafnframt sameiginlegt að taka sumar gjafirnar síðar í sátt.  Og jafnvel verða ánægð með þær.  

  Í tilfelli afa voru upprunalegu óánægjuviðbrögð hans útskýrð af foreldrum mínum sem spennufall.  Hann hlakkaði alltaf svo rosalega mikið til jólanna að þegar hann pakksaddur eftir aðfangakvöldsveisluna fór að taka upp pakka þá réði taugakerfið ekki lengur við spennuna.  Hann hafði allt á hornum sér gegn öllum jólapökkum sem hann fékk.  Ég tel að foreldrar mínir hafi haft rétt fyrir sér með spennufallið.

  Ég veit ekki hvort að sama skýring nær yfir viðbrögð Lullu.  Ég varð ekki var við sama spenning hjá henni fyrir jólunum og hjá afa.  Kannski er það ekkert að marka.  Lulla var á allskonar lyfjum og synti áfram í rólegheitum í vímu þeirra meðala sem hún tók inn.  

  Þegar ég kvæntist áttaði konan sig fljótlega á því hvaða jólagjöf gæti glatt Lullu.  Konan vann í sjoppu.  Hún smalaði saman í stóran pakka þverskurð af sælgætinu í sjoppunni.  Þetta hitti í mark.  Lulla hringdi í mig á jóladag og lék við hvurn sinn fingur.  Hún skammtaði sér hóflegan skammt fyrir hvern dag.  Naut hvers bita og náði að láta nammið endast yfir marga daga.  

  Á annan í jólum hringdi Lulla aftur í mig.  Hún hafði fundið súkkulaðistykkjum á borð við Bounti og Snickers nýtt hlutverk.  Hún skáskar stykkin þannig að hver sneið leit út eins og tertusneið:  Þykk í annan endann og örþunn í hinn endann.  Lulla sagði:

  "Ég raða sneiðunum á lítinn disk.  Örfáum í einu.  Fjórum sneiðum eða fimm.  Svo geymi ég diskinn inni í ísskáp.  Í kaffitíma helli ég mér í kaffibolla og næ í diskinn.  Þá þykist ég vera með alvöru tertusneiðar.  Fæ mér bita af þeim með litlum gaffli.  Litla bita.  Þetta er svo gaman.  Sneiðarnar líta út alveg eins og alvöru tertusneiðar með kremi og öllu."  

------------------------------------

Meira af Lullu frænku:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1335376/


Mannað geimfar lenti á sólinni

geimfar_til_solarinnar_1226490.jpg

   Í gærmorgun var sautján ára drengur,  Hung Il Gong,  á leið heim til sín - eftir nætursvall - í Norður-Kóreu.  Að venju slagaði hann framhjá geimferðarstofnun landsins.  Við honum blasti nett geimflaug og dyrnar voru ekki alveg lokaðar.  Forvitni vaknaði,  Hung Il Gong skreið inn í flaugina og litaðist um.  Hann sá að allir takkar,  handföng,  mælar og annað var vel merkt og auðskiljanlegt.  

  Hung þótti ekki ástæða til að bíða með neitt.  Hann ræsti flaugina,  skaut henni á loft og setti stefnuna á sólina.  

  Svo heppilega vildi til að ferðalagið var eftir sólsetur og fyrir sólarupprás.  Hung ferðaðist þess vegna í myrkri þangað til hann kom að sólinni.  Þá stýrði hann flauginni lipurlega að bakhlið sólarinnar,  sem er ekki eins heit og framhliðin,  og lenti þar.

  Frásögn af lendingunni á sólinni var aðalfréttin í n-kóreska sjónvarpinu.  Þar sagði meðal annars að Norður-Kórea hafi skotið öllum þjóðum heims ref fyrir rass með geimferðinni til sólarinnar.  Hvatt var til þess að Hung Il Gong yrði fagnað sem hetju við heimkomuna.  Ferðin til sólarinnar væri stærsta afrek í sögu mannkyns frá upphafi. 

  Hung Il Gong er náfrændi Kim Jong-un,  leiðtoga þjóðarinnar.  Hung fyllti alla vasa af sjóðheitu sólargrjóti sem hann ætlar að færa Kim frænda að gjöf.  N-kóreskir fjölmiðlar þreytast ekki á að halda því fram að Kim Jong-un sé kynþokkafyllsti maður í heimi.  Jafnframt hamra n-kóreskir fjölmiðlar á því að Kim Jong-un hafi fundið upp herraklippingu sem farið hefur sigurför um heiminn.  Þess á milli rifja þeir upp að faðir Kim Jong-un hafi fundið upp hamborgarann.  

  Kim Jong-un hefur tekið upp sið föður síns að drekka sig blindfullan af koníaki á kvöldin.  Enda engin ástæða til annars.  Kim Jong-un hefur þó ekki apað upp sið pabbans að sitja allsnakinn við drykkjuna.  Kim Jong-un er svo kynþokkafullur að hann þarf ekki klæðaleysi til að flagga því. 

kim_jung-il_1226510.jpg  

  Hung ráðleggur næstu sólarförum að hafa sólgleraugu með.  Það er dáldið bjart á sólinni. 

kim-jong_un.jpg  

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband