Einfalt sparnaðarráð fyrir þá sem eiga ekki ljósmyndavél

  Flestir eiga sér draum.  Draum um að taka ljósmyndir.  Margir þeirra eiga sér einnig annan draum.  Draum um að eiga ljósmyndavél.  Draum um að taka á hana ljósmyndir.  Ljósmyndir til að hengja upp á vegg.  Skreyta húsakynni sín - og jafnvel annarra - með þessum ljósmyndum.

  Vandamálið er það að sumt af þessu draumórafólki er fátækt.  Það á engan pening fyrir ljósmyndavél.  Sumt af þessu draumórafólki á að vísu pening fyrir ljósmyndavél.  En það á engan pening fyrir því að láta framkalla myndina yfir á pappír. 

  Hvað er þá til ráða?  Lausnin er einföld.  Hún felst í því að teikna myndir sem líta út alveg eins og ljósmyndir.  Eiginlega þarf lítið annað til en þolinmæði.  Það er seinlegt að rissa upp þannig myndir.  En hvað liggur svo sem á?  Hver er að flýta sér?  Er einhver að missa af strætó?

  Þetta er sömuleiðis gott sparnaðarráð fyrir hvern sem er.  Málið er að nostra við smáatriðin.  Nostra og nostra.  Það má til að mynda fá ókeypis brúnan innpökkunarpappír á næsta pósthúsi og dusta rykið af trélitunum.  Þá verður útkoman svona:

teiknað auga 1teiknað auga 4 á brúnan umbúðapappír   

Ef enginn er pappírinn þá er málið að teikna á vegginn. 

teiknað á vegg 1teiknað á vegg 2

Ef engir litir eða málning er til taks er hægt að nota kolamola.  Útkoman verður eins og svart-hvít ljósmynd.

teiknað með kolamola 1teiknað með kolamola 2

Ef illa gengur að ná tökum á teikningunni getur verið ráð að vinna myndina á haus.  Það gefst oft betur.   

teiknað á haus 1teiknað á haus 2


Mjög örstutt smásaga um bíl

 

  Sólin skín á himni og varpar hlýjum geislum til jarðar.  Blessuð sólin elskar allt.  Það er heppilegt að hún skíni á himni en ekki einhvers annars staðar.  Þá væri ekki eins gott veður.  Tóti litli tindilfætti hefur lokið námi í Háskólanum.  Hann er staurblankur eftir margra ára nám.  Vikum saman voru aðeins kínverskar núðlusúpur í matinn.  Þetta er erfitt.  Hann hefur fyrir fjölskyldu að sjá.  En nú er hann útskrifaður úr sínu fagi,  kominn með vinnu og fastar tekjur.  Hann er samt auralaus eftir þrengingar námsáranna.

  Tóti er laghentur.  Hann er þúsund þjala smiður.  Allt leikur í höndunum á honum.  Hann dreymir um að eignast stóran alvöru amerískan glæsikagga.  Fjármálin leyfa það ekki.  Þennan sólríka dag hittir Tóti frænda sinn.  Sá er að láta afskrá gamlan Kadilják sem fékk ekki skoðun.  Bíllinn er gangfær.  "Boddýið" er hinsvegar ónýt ryðhrúga og að auki dældað á öllum hliðum.

  Tóti er snöggur að suða Kadiljákinn út úr frænda.  Hans næsta verk er að taka á leigu bílskúr til fjögurra mánaða.  Öll næstu kvöld og allar helgar fara í að gera gamla bílinn upp.  Tóti fjarlægir af bílnum króm,  ljós, rúður og annað slíkt.  Hann fer með slípirokk yfir ryðblettina,  réttir beyglur og ryðbætir öll göt.  Það er sparslað og grunnmálað.  Að næstum fjórum mánuðum liðnum er bíllinn tilbúinn undir sprautun.  Tóti fer í Bílanaust og finnur þar fallegustu bílamálningu sem hann hefur séð:  Gull-sanseraða málningu í úðabrúsa.  Í samráði við sölumann kaupir Tóti þá spreybrúsa sem til þarf í verkið.  Sölumaðurinn ráðleggur honum að æfa sig fyrst á að spreyja á pappa til að fá tilfinningu fyrir fjarlægð og því hvað þarf að úða miklu á fastan flöt bílsins.

  Þetta er á föstudegi.  Tóti hefst þegar handa.  Hann byrjar á að sprauta bílinn aftan frá.  Allt gengur rosalega vel.  Tóti nær að mála aftari hluta bílsins eins og best verður á kosið.  Vandvirkni ræður för.  Upp úr miðnætti gerir Tóti hlé á.  Hann heldur áfram daginn eftir.  Og næstum líkur verkinu þegar komið er að kvöldi.  Þá þagnar síðasti spreybrúsinn.  Bíllinn er allur fagurlitaður gull-sanseraða litnum.  Nema frambrettið vinstra megin.  

  Þegar hér er komið sögu var Hvítasunnuhelgi.  Tóti er svo spenntur fyrir því hvað bíllinn sé fínn að hann dundar sér alla Hvítasunnuhelgina við að koma aftur fyrir í bílnum rúðum,  ljósum og krómi.  Á þriðjudeginum mætir hann fyrstur manna í Bílanaust til að kaupa einn málningarbrúsa til viðbótar svo vinstra frambrettið fái sama lit og bíllinn.  "Því miður.  Þessi litur er ekki til.  Hann er uppseldur," svarar afgreiðslumaðurinn.  

  Tóti biður hann um að panta meira af þessum lit.  Við eftirgrennslan kemur í ljós að framleiðslu á þessum lit hefur verið hætt.  Góðu fréttirnar eru þær að ómálaða brettið er farþegamegin.  Tóti kemst þess vegna hjá því að horfa á það.  Að nokkrum dögum liðnum er hann búinn að steingleyma ómálaða brettinu.  Aðeins farþegar og aðrir sjá það.  Þeim þykir þetta kjánalegt.  

 

Fleiri smásögur og leikrit:

 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

Byltingarkennd aðferð við kartöflurækt

 

  Um þessar mundir eru margir Íslendingar að setja niður kartöflur;  gróðursetja þær í von um væna uppskeru síðsumars.  Gallinn er sá að vinnubrögð eru ekki eins og best er á kosið.  Það er einkennilegt að ekki hafi borist til Íslands almennileg vinnubrögð við kartöflurækt.  Þó þarf ekki að sækja þá þekkingu lengra en til Færeyja.  Þar fær maður bestu kartöflur í heimi.

  Í Færeyjum er jarðvegur afskaplega grunnur.  Þar er varla svigrúm til að grafa þokkalega holu sem kartöflunni er troðið niður í.  Þess í stað er móðurkartöflum raðað ofan á jörðina með stuttu millibili.  Síðan eru þunnar torfþökur lagðar ofan á.  Grasið snýr niður.  Moldarhliðin snýr upp.  

  Snilldin við þetta er að nýju kartöflurnar spretta upp úr torfþökunum.   Það þarf ekkert að grafa þær upp.  Auðveldast er að raka þeim bara saman og setja í poka.  Það þarf ekki einu sinni að þvo af þeim mold eða neitt.  Þær eru tilbúnar beint í pottinn.

  Til gamans má geta að í Færeyjum heita kartöflur epli.  Á veitingastað í Þórshöfn var um tíma boðið upp á rétt sem var bökuð kartafla og túnfiskssalat.  Hann hét á matseðlinum "Epli í túni".  Mér varð það á að upplýsa starfsfólk um það hvernig nafn réttarins hljómaði í íslensk eyru.  Mönnum var brugðið og rétturinn tekinn af matseðlinum.  Færeyingar vilja ekki að matseðlar virki broslegir þegar Íslendingar renna í gegnum þá.  Það er metnaður í gangi.

  Kartöflurækt heitir á færeysku að "velta epli".  Fyrstu kynni Íslendinga af eplum voru með þeim hætti að hingað komu kartöflur frá Færeyjum.  Íslendingar héldu að þær væru epli og snæddu kartöflurnar hráar.  Það þótti heilmikið sport þó að engum þættu "eplin" bragðgóð.  Síðar bárust til Íslands alvöru epli.  Þau voru auglýst sem "epli er bragðast eins og perur."  Þau epli þóttu bragðbetri. 

kartöflur í færeyjum

  Fróðleiksmoli:  Höfundur sönglagsins um kartöflugarðana heima,  Leadbelly,  hafði þann vonda kæk að drepa menn.  Hann lenti í fangelsi eins og fleiri sem hafa sungið þetta lag.


Misskilningur

  Það er glæsileg sýning hjá farandsirkusnum.  Í einu atriði kemur maður með stóran krókódíl inn á svið.  Maðurinn klæðir sig úr rándýrum jakkanum og brýtur hann rækilega saman.  Síðan bankar hann tvö högg á höfuð krókódílsins.  Viðbrögð krókódílsins eru þau að opna ginið upp á gátt.  Maðurinn leggur jakkann á neðri skolt krókódílsins.  Krókódíllinn lokar þegar í stað kjaftinum svo hvergi sést í fína jakkann.

  Maðurinn bankar aftur tvö högg á höfuð dýrsins.  Það opnar ginið.  Maðurinn tekur jakkann úr kjafti krókódílsins,  fer í jakkann,  snýr sér í hring og hneigir sig.  Síðan spyr hann áhorfendur hvort að einhver þeirra hafi kjark og þor til leika þetta eftir.  

  Gömul kona stendur upp.  Hún staulast hægt og með erfiðismunum upp á svið.  Þegar hún er komin að manninum segir hún:  "Þú mátt ekki banka mjög fast í höfuðið á mér.  Ég er svo gömul og veikburða."   

krokodill.jpg


Fólk er fíklar

  Fólk elskar að ögra sér.  Fólk elskar að taka áhættu.  Fólk er fíkið í "adrenalínkikk".  Þetta er algengast hjá stálpuðum krökkum og seinþroska unglingum.  Þeir eru stöðugt að láta reyna á það hvað þeir þora að stökkva fram af háum byggingum,  hvað þeir þora að glannast mikið á hjólabrettum eða reiðhjólum.  Það eru stöðugar tilraunir í gangi.  Þessi ungmenni reikna síður með því að slasast og dauðsfall er ekki til í þeirra hugsun.

  Þegar unglingar ná fullum þroska hægir um.  Flestir eignast börn og verða ábyrgir uppalendur án glæfralegs glannaskapar.  Svo fljúga ungarnir úr hreiðrinu og hversdagurinn verður grár.  Þá blossar upp löngun í gamla adrenalínskammtinn.  Fólk fer að ögra sér með því að klífa fjöll,  fara í teygjustökk,  fallhlífastökk, kjósa Framsóknarflokkinn og allskonar.  Bölvaður glannaskapur alltaf hreint.

Ekk fyrir lofthrædda á Indlandi

  Íbúar þessa turns á Indlandi láta lofthræðsluna kitla sig.  Aðrir þurfa stærri adrenalíngusu.  Þeir ganga á línu. 

ekki fyrir lofthrædda - gengið á vír   

  Mig grunar að þessi skemmtilegi fjallatroðningur sé í Asíu.  Útsýnið er fagurt en vegfarandur eru uppteknari af því að detta ekki. 

ekki fyrir lofthrædda - gengið í skólann

  Myndin fyrir neðan er af íslenskum fjallavegi.  Sumir kjósa fremur að ganga hann en aka.

ekki_fyrir_lofthraedda_-_islenskur_fjallavegur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Adrenalínfíknir Spánverjar byggja bratt.

ekki_fyrir_lofthraedda_a_spani.jpg


mbl.is Háskaleg ljósmyndataka ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingur bjargar júrivisjón

 

  Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.  Hjálpin er Færeyingur.  Þetta þekkjum við Íslendingar manna best.  Þegar allar þjóðir heims harðneituðu að lána Íslendingum gjaldeyri - í kjölfar bankahrunsins - komu Færeyingar með fullar hendur gjaldeyris til Íslands og lánuðu okkur.  Það var ekki einu sinni búið að biðja þá um hjálp.

  Sama hefur ítrekað gerst þegar Íslendingar lenda í öðrum hremmingum,  til að mynda snjóflóði.  Þá eru Færeyingar snöggir til hjálpar.

  Þetta fer ekki alltaf hátt.  Svo dæmi sé tekið þá vita fáir hver bjargaði byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.  Byggingin var svo flókin, snúin og nýstárleg að enginn Íslendingur fannst sem treystandi var fyrir svo erfiðu verki.  Að lokum var leitað til Færeyinga.  Þar fannst maður,  mikill snillingur,  sem taldi ekki eftir sér að bjarga byggingu Hörpu fyrir Íslendinga.  Það gerði hann með stæl - og var þó hlaðinn verkefnum út um allan heim.

  Á næsta ári verður söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva,  júrivisjón,  haldin í Danmörku.  Keppnin er orðin svo mikið og stórt batterí og í svo mörg horn að líta hvað tæknilegu hliðina varðar að danskir tæknimenn fóru á taugum við tíðindin.  Þeir óttast - eðlilega - að klúðra öllu.  Þess vegna leituðu þeir til Færeyja - viti sínu fjær af áhyggjum og ráðaleysi.  Færeyingur að nafni Per Zachariassen hefur látið undan grátbiðjandi Dönum og ætlar að halda utan um júrivisjón á næsta ári. 

per

  Þetta er Færeyingurinn sem bjargar júrivisjón.


Farðu nú að halda kjaftinum á þér saman!

  Nýverið skrifaði íslenskur dægurlagasöngvari ágæta grein um dónaskap Íslendinga.  Einkum eins og dónaskapurinn birtist í netmiðlum.  Ekki síst í svokölluðum "kommentakerfum".  Það er að segja þar sem fólk skráir athugasemdir við fréttir eða "statusa" á Fésbók. 

  Dægurlagasöngvaranum blöskrar dónaskapurinn.  Ummælin vekja honum undrun og sorg.  Í sumum tilfellum sé fólk ærumeiðandi.  Hann bendir á að enginn eigi að láta dónaskapinn viðgangast.  Nú sé nóg komið. 

  Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég renndi yfir athugasemdir við tiltekna frétt á dv.is.  Þar hafði fólk þetta að segja við og um söngkonuna Diddú (stafsetningin fær að halda sér.  Hún segir sitthvað).

  "Þvílíkt fífl er þessi tussa."

  "Þessi kelling er alger skítur."
  "Farðu nú að halda kjaftinum á þér saman frú miðaldra kelling."
  "Þessi kona kann sko ekki að singja."
  "Farðu nú að steinhalda kjafti."
  "Því miður er hún ömurleg söngkona."
  "Hún er náttúrulega kexrugluð greyið."
  "Þesa manneskja er sú laglausasta sem ég hef heyrt í."
  "Æi henni yrði greiði gerður ef einhver lokaði hana inná deild.  Konan er meira en lítið sjúk."
   "Hún þarf bara smá hjálp held ég."
  "Snillingurinn eina alt í folskum tonum sem fra henni kemur."
  "Greinilega ekki í lagi konugreyið."
  "Ein stórklikkuð."
  "Hún á verulega bágt þessi vesalings kona."
  "Íslendingar gerðu best í að gleima þessi maneskja sé til og hunsa hana með öllu."
  "Hún drullaði uppá bak hérna á íslandi sem annarstaðar."
  "Hún er mikið veik þessi kona vægt til orða tekið."
  "Hún er svo biluð þessi manneskja að þegar ég commentaði hjá henni blokaði hún mig...hljómar eins og köttur sem verið að murka lífið úr."
  "Hefur hún nokkurntímann verið í lagi?"
  "Hún er ekki í lagi þessi maneska hún ætti halda kafti."
  "Hún er klikkuð, leiðinlegt, athyglissjúk og afbyrðisöm því hún hljóðar eins og baulandi belja."
  "Hún er eitthvað lasin greyið."
  "Greinilega bæði veruleikafirrt, nautheims og hæfileikalaus."
  "Djöfull er hún klikkuð, þyrfti að leita sér hjálpar, að hún skuli segja að hún sé söngkonar er bara fááááránlegt!!!!"
  "Vá hvað þessi kelling er klikkuð þarf að leita sér hjálpar."
  "Ef hún væri ekki svo hrútleiðinleg og dónaleg myndi ég halda að hún gæti átt góðan séns í að verða heimsfræð í norður kóreu."
  "Klikkun þessarar kellingar var lengi vel nokkuð fyndin en bullið í henni fer að verða leiðinlegt."
  "Hún er aðhlátunarefni konu greyið."
  "Hún gengur nú ekki alveg á öllum blessuð konan."
  "Hún er bara athyglissjúkur geðsjúklingur."
  "Hún laglaus og hann jarmandi."
  "Leoncie er athyglissjúk og getur ekki sungið tek undir "Leoncie farðu að þegja."
 
  Þetta eru aðeins nokkur sýnishorn af mörgum hliðstæðum athugasemdum við einu og sömu frétt.  Það er rangt hjá mér að þessi skilaboð og umsagnir séu til og um Diddú.  Þær snúast um Leoncie.  Með því að heimfæra þær á Diddú komast dónaskapurinn og meiðyrðin betur til skila (fyrirgefðu,  Diddú, að ég blandi þér í dæmið.  Ég veit að þú tekur þessu vel vegna tilefnisins).  Það dettur engum í hug að skrifa svona um Diddú.  En svona leyfa sumir sér að tala til Leoncie. 
 
  Dægurlagasöngvarinn sem hóf umræðuna bendir réttilega á að kominn sé tími á að fólk beri ábyrgð á því hvernig það skrifar og talar um aðra.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar.  Þessi dæmi sem ég vitna í ganga nálægt því að falla undir einelti (svo mjög sem mér er illa við að gengisfella það orð). 
  Og, já, vel að merkja:  Ég er að kasta grjóti úr glerhúsi.  Þaulvanur því.  Engu að síður:  Þetta er umhugsunarvert.  Hvað finnst þér?  Af óþarfri nærgætni við þá sem "kommenta" svona læt ég nöfn þeirra ekki fylgja með. 
 

Þekkir þú skepnuna?

  Fólk ofmetur iðulega þekkingu sína á dýrum.  Fólk heldur að það þekki dýr sem það umgengst oft.  Jafnvel daglega.  Það heldur líka að það þekki dýr sem ber sjaldnar fyrir augu.  Látum reyna á þekkinguna.  Hér eru myndir af nokkrum dýrum.  Langt þar fyrir neðan eru nöfnin á þeim.

skepnur - augabrúnamaur

Mynd A

skepnur - höfuðlús

Mynd B

skepna - húsflugulirfa

Mynd C

skepnur - vespa

Mynd D

skepna - fiðrildalirfa

Mynd E

skepna - uppþemd skógarmítla

Mynd F

skepnur - sæormur

Mynd G

skepnur - vatnabjörn

Mynd H

britneyspears1.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd I 

-

-

-

-

-

-

-

-

-

Mynd A:  Þetta er augabrúnamaur.  Hann lifir í augabrúnum á okkur og víðar á skrokknum.  En aðallega í augabrúnum.  Þar grefur hann sig niður að hluta og skemmtir sér vel.  Sú er ástæðan fyrir því að okkur klæjar stundum örlítið í augabrún.  Þá er maurinn að krafsa.  Af sömu ástæðu fáum við stundum eins og örlitla flösu í augabrúnir.  Við varla sjáum hana reyndar.  Við sjáum ekki maurinn eiginlega heldur.  Nema vera með öflugt stækkunargler fyrir framan spegil.  Góðu fréttirnar eru að maurinn styrkir ofnæmiskerfi líkamans.  Hann heldur því sívakandi. 

Mynd B:  Höfuðlús.  Þarna er hún að fikra sig áfram á mannshári,  kvikindið atarna.  Lengi vel þótti mikil prýði af höfuðlúsinni.  Þeir lúsugustu voru eftirsóttir.  Hvort heldur sem var til vinnu eða undaneldis.  

Mynd C:  Húsaflugulirfa. 

Mynd D:  Vespa

Mynd E:  Fiðrildalirfa.  Hún er krútt.

Mynd F:  Skógarmítill.  Hann er alveg að springa.  Hann er svo uppbelgdur af blóði.  Þetta er stórhættuleg skepna.  Leitið upplýsinga um skógarmítil.  Gúglið kvikindið. 

Mynd G:  Sæormur.  Hann er örsmár.

Mynd H:  Vatnabjörn.  Hann er líka örsmár.  Þú verður ekkert var við hann þó að drekkir hann.

Mynd I:  Britney Spears


Ruglið um elstu karla

   Á dögunum var því haldið fram í Morgunblaðrinu að elsti karl hafi náð 116 ára aldri.  Ég skil ekkert í mínum kæru vinum,  Doddssyni og Guðna Einars, að hafa ekki rekið þessa fullyrðingu öfuga ofan í blaðamanninn.  Það þarf ekki að leita lengra aftur en í Gamla testamentið til að komast að annarri niðurstöðu: 
Adam var 930 ára.  Þá dó hann.
Set var 912 ára.  Þá dó hann.
Enos var 905 ára.  Þá dó hann.
Kenon var 912 ára. Þá dó hann.
Mahalelel var 895 ára. Þá dó hann.
Jared var 962ja ára.  Þá dó hann. 
Enok var 365 ára.  Þá dó hann.
Metúsala var 969 ára.  Þá dó hann.
Lamek var 777 ára.  Þá dó hann.
Nói var 950 ára.  Þá dó hann.
  Sumir halda því fram að Jesús lifi ennþá.  Það kæmi ekki öllum í opna skjöldu aö rétt sé.  Þá er hann orðinn vel á 3ja þúsund ára gamall.  Hann er þar með sigurvegarinn:  Elsti karl sögunnar.   Minna er vitað og skrásett um elstu konur og elstu börn.
.

Einvígi indverskrar prinsessu og geltandi frosks

 

  Í gær kvaddi Bubbi Morthens sér hljóðs.  Hann skipaði indversku prinsessunni,  Leoncie (Icy Spicy),  að halda kjafti.  "Leoncie, farðu að þegja,"  sagði hann.  Indverska prinsessan hlýddi ekki.  Þess í stað kallaði hún Bubba geltandi frosk.  Eða réttara sagt:  Hún sagði hann hljóma eins og geltandi frosk.  Það er eiginlega það sama.  Til viðbótar dró indverska prinsessan hæfileika Bubba í efa.  Mjög svo í efa.  Bubbi hafði áður efast um hæfileika indversku prinsessunnar og sakað hana um að vera dóna.  Þau gefa lítið fyrir hæfileika hvors annars.  Hvað er til ráða?

  Leoncie hefur komist að sanngjarnri niðurstöðu.  Niðurstöðu sem gengur út á það að þau etji kappi hvort við annað.  Fari í tónlistareinvígi.  Eðlilega á hlutlausu svæði.  Indverska prinsessan stingur upp á Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Hún hefur sterkan grun um úrslitin:  Að Bubbi fari grátandi heim. 

  Þorir Bubbi?   Tekur hann áskorun indversku prinsessunnar?  Eða lúffar hann? Í umræðunni á fésbók hallast flestir að því að hann setji skottið niður og þori ekki.   


Litlu verður Vöggur feginn

  Ég brá mér norður í Skagafjörð.  Það var nemendamót á Steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi.  Endurfundir skólasystkina.  Þvílíkt gaman.  Við höfum hist á fimm ára fresti síðustu áratugi.  Þetta er svo gaman að það slær flestu við.  Núna erum við að nálgast sextugs aldurinn.  Þegar við hittumst svona dettum við rúma fjóra áratugi aftur í tímann.  Flest er eins og það var.  Það er að segja stemmningin.  Skemmtileg atvik rifjast upp.  Hellast yfir.  Á unglingsárunum áttaði maður sig ekki á því hvað við skólasystkinin vorum góðir vinir.  Þegar við hittumst núna áttar maður sig betur á því hvað vinaþelið er sterkt;  hvað manni þykir vænt um þessa góðu og skemmtilegu vini.

  Allt annað: Í gær átti ég erindi í Neinn,  bensínstöð við Hringbraut.  Þar er út við glugga borð.  Þar eru fjórir barstólar.  Þeir voru auðir þegar ég mætti á svæðið.  Ég keypti eitthvað smotterí og settist síðan á einn stólinn.  Fór að glugga í vikuritið Grapevine.  Eftir að hafa gluggað í Grapevine í nokkra stund stóð skyndilega yfir mér ábúðafullur maður merktur Landvélum.  Hann horfði brúnaþungur á mig.  Örvænting og ásökun skein úr hverjum andlitsdrætti.  Að lokum stundi hann upp:  "Ég sat hérna."  Hann var greinilega miður sín og í ójafnvægi. 

  Ég sá í hendi mér að þetta sæti var honum kært.  Ég ákvað þegar í stað að gera góðverk dagsins.  Ég færði mig yfir í næsta sæti og hélt áfram að glugga í Grapevine.  Hann tók umsvifalaust gleði sína og settist í gamla sætið sitt.  Svo sátum við þarna tveir í dágóða stund og glugguðum í Grapevine.  Það þurfti ekki meira til að gleðja hann.  Hann kumraði af ánægju og sötraði appelsín.  Litlu varð Vöggur feginn.   

landvelar.jpg

  


Það er gaman að sjá fjörulabba

fjörulabbi 

  Víða um land,  einkum á Vestfjörðum,  er skemmtileg skepna á vappi.  Hún heitir fjörulabbi.   Fjörulabbi heldur sig að mestu í sjónum.  Þegar enginn sér til laumast fjörulabbinn í land.  Mest ber á því um fengitíma.  Þá má sjá fjörulabba hér og þar í fjöru og jafnvel upp í hlíðum.   Fjörulabba er alveg sama þó að hann sjáist.  Hinsvegar gætir hann þess vandlega að enginn sjái hann koma upp úr sjónum né fara í sjóinn.  Þess vegna hefur enginn séð það.

  Fjörulabbi er svo gott sem alveg eins og kind að stærð og lögun.  Reyndar hafa sjónarvottar komið auga á fjörulabba sem er alveg eins og hundur að stærð og lögun.

fjorulabbar.jpg 

 

 

 

 

 

  Fjörulabbi er ekki feiminn við ljósmyndavél.  Þvert á móti sækir hann í að "pósa" fyrir framan myndavél.  Besta aðferð til að komast í návígi við fjörulabba er að glenna framan í hann myndavél.  Þess eru dæmi að foreldri ætli að taka mynd af börnum sínum á Vestfjörðum þegar fjörulabbi kemur aðvífandi,  stuggar við börnunum og stillir sér upp fyrir framan ljósmyndavélina.  Frekjan er svo gengdarlaus.     


Lulla frænka

  Ég hef átt fleiri skemmtilega ættingja en Önnu á Hesteyri.  Anna Marta og móðir mín voru bræðradætur.  Systir pabba,  Lulla,  var líka skemmtileg.  Ég hélt upp á hana.  Hún var með annan fótinn á Kleppi og Geðdeild Borgarspítala.  Margoft reyndi hún að svipta sig lífi áður en það tókst.  Lulla var góð kona,  trygglynd og ættrækin.  Eftir að ég flutti sem unglingur til Reykjavíkur var hún dugleg að bjóða mér í heimsókn.  Hún var sömuleiðis dugleg að heimsækja mig.  Ekki síst eftir að synir mínir komu til sögunnar.  Hún átti það til að koma í heimsókn mörg kvöld í röð.  Það var gaman.  Lulla frænka var alltaf skemmtileg.

  Lulla gerði sér aldrei grein fyrir því að hún ætti við andleg veikindi að stríða.  Þegar hún var vistuð inni á Kleppi eða Geðdeild Borgarspítala sagði hún:  "Það halda margir að þetta sé geðdeild.  Það er eins og hver önnur della.  Þetta er heimili fyrir fólk sem þarf að hvíla sig."

  Eitt sinn var Lulla sett í vinnu hjá Múlalundi.   Múlalundur er það sem kallast verndaður vinnustaður.  Þá sagði Lulla:  "Það er alveg merkilegt hvernig getur safnast á einn vinnustað,  eins og Múlalund,  fólk sem eitthvað er að.  Ef það er ekki vangefið eða geðveikt þá er það á hækjum eða í hjólastól.  Það er eitthvað að öllum þarna nema mér.


Anna á Hesteyri og bíllinn hennar

  Anna frænka á Hesteyri var orðin nokkuð fullorðin þegar hún tók bílpróf og áskotnaðist Skoda bifreið.  Mig minnir að frændi okkar,  útgerðarmaður,  hafi gefið Önnu bílinn og bílprófið.  Eða alla vega verið henni innanhandar með hvorutveggja.  Bíllinn reyndist Önnu mikið ævintýri.  Hún skrifaði mömmu bréf og lýsti bílnum eins og um undur væri að ræða sem fáir hefðu séð með eigin augum.

  Bílinn skoðaði Anna í bak og fyrir.  Meðal annars vegna þess að hún þurfti að vita hvar einhver takki var í bílnum.  Ég man ekki hvort að það var takki til að opna bensínlok,  húdd eða skottlok.  Anna og vinnukarl hennar skiptu liði og leituðu skipulega að takkanum.  Karlinn leitaði inni í bílnum.  Anna leitaði utan á bílnum.  Þar á meðal skreið Anna undir bílinn.  Það var afrek út af fyrir sig.  Anna var það mikil um sig.  Hún sagði þannig frá:  "Það var aldeilis heppni að ég skyldi leita undir bílnum.  Þar fann ég nefnilega varadekk.  Ef ég hefði ekki leitað undir bílnum hefði mér aldrei dottið í hug að þar væri varadekk."

  Bíllinn entist Önnu í mörg ár.  Þó þjösnaðist hún á honum eins og um sterkbyggða dráttarvél væri að ræða.  Á móti kom að bíllinn var aldrei mikið ekinn í kílómetrum talið.  Að því kom að bíllinn gafst upp.  Þá var Anna að keyra á honum yfir á með stórgrýttum botni.  Anna hringdi miður sín í mömmu mína og sagði ótíðindin.  Mamma spurði hvort bíllinn hafi lent á stórum steini sem hefði skemmt eitthvað undir bílnum.  Anna andvarpaði, dæsti og svaraði döpur:  "Nei,  það er afar ólíklegt.  Ég hef oft keyrt yfir stærri steina sem hafa bankað miklu fastar undir bílinn án þess að hann hafi drepið á sér.  Það er einhver önnur ástæða fyrir því að bíllinn stoppaði." 

Anna Marta

Fleiri frásagnir af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1290123/


Sparnaðarráð

  Á síðustu árum hefur íslenskur landbúnaður dregist saman.  Búum hefur fækkað og fólk flutt á mölina til að rýna í hagtölur í stað þess að framleiða hráefni til matseldar.  Þvers og kruss um landið standa aðgerðarlausar dráttarvélar.  Engum til gagns.  En mörgum til leiðinda.  Á sama tíma eykst stöðugt spurn eftir léttum og liprum mótorhjólum til að snattast um bæinn með niðurstöður úr hagfræðiútreikningum.  Á tímabili önnuðu kínversk mótorhjól að nokkrum hluta eftirspurninni.  Þegar á reyndi kom í ljós að þau voru úr plasti og duttu í sundur við að fara yfir hraðahindrun.  Margir fengu vinnu við að tína upp plastdót úr kínversku hjólunum.  Það sló tímabundið á atvinnuleysi.  Aðeins tímabundið.  Það kaupir enginn viti borin manneskja kínverskt mótorhjól í dag.  Óvitibornar manneskjur eru svo fáar að þær mælast varla í hagtölum mánaðarins.

  Lausnin á vandamáli dagsins er handan við hornið.  Hún felst í því að hvaða laghent stúlka sem er getur án fyrirhafnar breytt dráttarvél í lipurt snatthjól.  Það eina sem þarf til er svissneskur hnífur.  Allt annað er til staðar:  Stýri, sæti, mótor, framljós, afturljós, dekk og svo framvegis.  Það allra besta er að þegar dráttarvél er breytt í snatthjól þá eru til afgangs tvö varadekk.  Þessi lausn er svo ókeypis og auðveld að hún er sparnaðarráð. 

motorhjol_ur_drattarvel.jpg

    


Finnum annað orð yfir "einelti"

  Orðið einelti skýrir sig sjálft að nokkru leyti.  Umboðsmaður barna skýrir þetta þannig: 

Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér að einstaklingur er tekinn fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum og sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, líkamlegri misbeitingu, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.

  Umboðsmaðurinn tiltekur algengar birtingamyndir eineltis: 

  • Uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Þeir sem beita ofbeldinu hvíslast á um fórnarlambið, flissa og hlæja.
  • Barnið er skilið útundan í leik, því er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum, Barnið þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn eða algert afskiptaleysi.
  • Eigum fórnarlambsins er stolið, t.d. skólabókum, pennaveski, skólatösku, nesti eða íþróttafatnaði eða þessir hlutir eyðilagðir.
  • Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu, s.s. girt niður um barnið, það látið eyðileggja eigur annarra, jafnvel skólans. Barnið fær neikvæð SMS-skilaboð og hótanir.
  • Gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað og hárreytt, sparkð er í það og því hrint.

  Fórnarlömb eineltis hafa mörg hver komið fram opinberlega að undanförnu.  Þau lýsa óhugnanlegri grimmd og andstyggilegheitum skólafélaga.  Þau eru lamin daglega í skólanum árum saman.  Það er stöðugt veist að þeim með uppnefnum og öðru niðurlægjandi orðalagi.  Mörg segjast þau hafa ítrekað leitt huga að sjálfsvígi.  Dæmi eru um að þau hafi gefist upp og svipt sig lífi.  Mörg, jafnvel flest, fórnarlömb eineltis telja sig hafa skaðast andlega til frambúðar.  Þau upplifa þunglyndi, vonleysi og sætta sig við vonda framkomu í sinn garð.

  Upp á síðkastið hefur borið á því að stjórnmálamenn kvarti undan einelti í sínu starfi.  Stjórnmálamenn kvarta líka undan því að aðrir stjórnmálamenn séu lagðir í einelti.  Þetta er fólk sem velur sér sjálfviljugt starf á vettvangi þar sem tekist er harkalega á um menn og málefni.  Þetta fólk gerir sjálft sig að opinberum persónum.  Þeir kvarta sárast sem sjálfir hlífa ekki öðrum við harkalegum lýsingum.  Þetta á við um fleiri opinberar persónur sem væla ámáttlega undan því að fólk í athugasemdakerfi dv.is líki ekki við músík þeirra og sé dónalegt.  Opinberar persónur sem jafnvel eru best þekktar fyrir ruddaskap og yfirlýsingagleði.

  Þetta er ekki eiginlegt einelti nema í víðustu merkingu orðsins.  Með því að nota orðið einelti yfir gagnrýni á kjaftfora stjórnmálamenn og dægurlagasöngvara er verið að gera lítið úr fórnarlömbum raunverulegs eineltis.  Leggjum heilann í bleyti og finnum annað orð yfir orðaskak og gagnrýni á kjaftforra stjórnmálamanna og hörundssára útbrunna skallapoppara.    

 


Litríkir og flottir bæir og þorp

siglóAsiglóFsiglóEsiglóCsiglóBBB

  Íslensk þorp,  íslenskir kaupstaðir,  íslenskir sveitabæir og bara flest hús á Íslandi eru litlaus og ljót.  Hvít, grá eða máluð öðrum dauflegum litum.  Siglufjörður er undantekning.  Myndirnar hér fyrir ofan eru þaðan.  Gott ef það var ekki myndlista- og kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Steinar Ragnarsson sem málaði bæinn rauðan og gulan og bláan...

  Grænlendingar kunna vel að meta skæra liti,  hvort sem er á fatnaði eða húsum.  Fyrir bragðið eru grænlensk þorp litrík og flott.  Hér eru nokkrar myndir:

litrík-greenland townlitrík-kangamiut--greenland

  Í sumum löndum aðeins lengra í burtu má rekast á skærlitaða bæjarhluta.  Til að mynda í Gamla Stan í Stokkhólmi í Svíþjóð:

litrík-Gamla-Stan, svíþjóð

  Einnig í Wroclaw í Póllandi:

litrík-Wroclaw, Póllandi

  Í Cinque á Ítalíu lífgar litagleðin upp á annars frekar ljótar byggingar:

litrík-Cinque-Terre Ítalíu

  Margir Íslendingar hafa heillast af ýmsu á Pattaya í Tælandi. 

litrík-Pattaya, Thælandi

  Til samanburðar höfum við grámyglulega Reykjavík (og næstum hvaða bæ eða þorp á Íslandi):

reykjavik 


Spennandi hljómleikar, kaffi og sölumarkaður 1. júní

 

  Nú verður heldur betur handagangur í öskjunni og fjörlegt í miðbæ höfuðborgar Íslands,  Reykjavík,  um næstu helgi.  Nánar tiltekið á Kirkjustræti 2.  Boðið er upp á glæsilega hljómleikadagskrá,  rjúkandi heitt og ilmandi kaffi,  nýbakað bakkelsi og stóran, fjölbreyttan og spennandi fata- og nytjamarkað. 

  Fjörið hefst klukkan 11.00 laugardaginn 1. júní í Herkastalanum og stendur til klukkan 17.00 sama dag.  Klukkan 14.00 stíga vinsælar poppstjörnur og hljómsveitir á stokk,  ein af annarri.  Þeirra á meðal er júrivisjón-söngvarinn Eyþór Ingi,  hljómsveitin Leaves,  færeyska söngkonan Dorthea Dam,  Steini í Hjálmum,  Sísý Ey og Siggi Ingimars. 

  Hátíðin heitir Hertex dagur 2013.  Tilgangurinn með hátíðinni er að skemmta sér og öðrum,  vekja athygli á og virkja náungakærleika og safna fé til hjálparstarfs Hjálpræðishersins;  fyrst og fremst til reksturs Dagsetursins á Eyjaslóð.  Það er athvarf fyrir útigangsfólk og aðra sem eru bágt staddir í lífinu. 

  Engin ein manneskja getur allt en allir geta eitthvað.  Nú er lag að hjálpast að við að hjálpa meðbræðrum okkar og -systrum sem hafa fallið utangarðs. 


Bestu trommuleikararnir

  Spin er næst söluhæsta bandaríska músíktímaritið.  Rolling Stone er söluhæst.  Rolling Stone er jafnframt söluhæsta músíktímarit heims.  Sala á þessum tímaritum í pappírsútgáfu hefur dalað töluvert eftir tilkomu internetsins.  Pappírsútgáfan af Rolling Stone selst í hálfri annarri milljón eintaka í dag - eftir að hafa áður verið nálægt tveimur milljónum eintak.  Pappírsútgáfan af Spin selst í hálfri milljón eintaka.  Að mestu í áskrift út um allan heim.  Það er svo einkennilegt í Bandaríkjunum að Spin og önnur bandarísk músíktímarit - önnur en Rolling Stone - eru ekki seld í blaðsöluvögnum eða sjoppum.  Þess í stað eru helstu bresku músíktímaritin seld þar.

  Engu að síður eru Spin og Rolling Stone ráðandi í heiminum í umfjöllun um rokkmúsík.   

  Nú hefur ritstjórn Spin tekið saman vel rökstuddan lista yfir bestu trommuleikara heims.  Svona listar Spin ráðast ekki af samanburði á tæknilegri færni hljóðfæraleikara heldur hvað hljóðfæraleikararnir gera fyrir hljómsveitirnar sem sínar.  Listar Spin eru þess vegna jafnan ólíkir öðrum slíkum listum. 

  Allir svona listar eru fyrst og fremst léttvægur samkvæmisleikur.  Enginn Stóridómur.  Smekkur fyrir músíkstílum og tónlist viðkomandi hefur margt að segja.  Þetta er aðeins til gamans.   

  Þannig er listi Spin yfir bestu trommuleikarana:

 1.  Dave Grohl (Nirvana)

  Spin:  Ekki með nákvæmustu tímasetningar eða flest litbrigði.  Þess í stað spilar Dave af tilfinningu, er ágengur og lætur stemmninguna ráða för.  Jafnframt er trommuleikur hans melódískur.
  Ég:  Dave er alltaf blessunarlega laus við rembing og stæla.
 
 
2.  Clyde Stubblefield og John "Jabo" Starks (James Brown)
  Spin:  Clyde og Jabo trommuðu ýmist sitt í hvoru lagi eða saman.  Clyde er hinn eini sanni fönk-trommari.  Jabo var með hárnákvæmar tímasetningar og "grúvið" sem skóp upphaf fönksins.
 
 
3.  Stewart Copeland (Police)
  Spin:  Byltingarkenndur trommuleikur sem einkenndist af strekktri sniðtrommu og reggí-kitli.  
 
 
4.  Tony Allen (Fela Kuti)
 
 
5.  Terry Bozzio (Frank Zappa)
6.  Jaki  Liebezeit (Can)
7.  Zigaboo Modeliste (The Meters)
8.  Steve Reid (Miles Davis og Sun Ra)
9.  ?uestlove (The Roots)
10.  Chad Smith (Red Hot Chili Peppers)
11.  Dave Lombardo (Slayer)
12.  Dale Crover (Melvins)
13.  Tim "Herb" Alexander (Primus)
14.  Will Calhoun (Living Colour)
15.  Drumbo (Captain Beefheart)
16.  Stephen Perkins (Jane´s Addiction og Porno for Pyros)
17.  Matt Cameron (Pearl Jam og Soundgarden)
18.  Jimmy Chamberlin (Smashing Pumpkins)
19.  Martin Chambers (The Pretenders)
20.  Tommy Ramone (Ramones)
21.  "Bigfoot" Brailey (Parliament / Funkadelic)
22.  George Hurley (Minutemen og fIERHOSE)
23.  Jon Theodore (The Mars Volta)
24.  Zack Hill (Death Grips)
25.  Bill Stevenson (Black Flag og Descendents)
26.  Ramon "Tiki" Fulwood (Parliament / Funkadelic)
27.  Mike Bordin (Faith No More)
28.  Budgie (Siouxsie and the Banshees)
29.  Danny Carey (Tool)
30.  Glenn Kotche (Wilco)
  Af merkum trommuleikurum sem ná ekki inn á Topp 30 en eiga þar engu að síður heima má nefna: 
  Tómas Haake í Meshuggah (32),  Mick Harris í Napalm Death (37),  Hugo Burnham í Gang of Four (49),  Bill Ward í Black Sabbath (62),  Igor Cavalera í Sepultura (73) og Topper Headon í The Clash (81).  Til að undirstrika græskulaust gamanið er í 60. sæti Roland trommuheili.
 

Einfaldasta og hraðvirkasta aðferð við að skræla kartöflur

kartaflaAkartaflaC 

  Íslendingar borða kartöflur á hverjum degi.  Hverjum einasta degi.  Ekki einu sinni heldur að minnsta kosti tvisvar á hverjum degi.  Jafnvel oftar þegar best lætur.  Samt er það svo einkennilegt að fæstir kunna einföldustu og hraðvirkustu aðferðina við að skræla kartöflurnar.  Fólk hangir í þeirri seinlegu og klaufalegu aðferð að dunda sér við að skræla heitar kartöflurnar með hníf.  Mörg handtök fara í að skræla hverja kartöflu með þeirri aðferð. 

  Aðrir setja kartöflurnar hráar í skrælivél.  Þar þeytast kartöflurnar um í langan tíma undir ægilegum hávaða frá vélinni.  Að því loknu eru kartöflurnar soðnar án hýðis.  Þær verða vatnskenndar, bragðlausar og næringarlausar.  Verra er að langur tími fer í að þrífa skrælivélina eftir hverja notkun. I raun fer meiri tími í þrifin heldur en að skræla soðnar kartöflur með gamla tímafreka laginu. 

  Einfalda og hraðvirka aðferðin er þessi:  Nýsoðin kartafla er sett í ískalt vatn og höfð þar í 5 sek.  Við það losnar skrælið.  Það þarf aðeins að kippa því laflausu af með einu handtaki.  Auðveldast er að vinda það af kartöflunni.

kartaflaD


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband