21.7.2013 | 19:12
Hagfræðingar ljúga
Hagfræðingar eru óáreiðanleg heimild um ástandið. Það vantaði ekki kokhrausta hagfræðinga til að vísa á bug viðvörunarljósum sem blikkuðu út um allt korteri fyrir bankahrun. Hagfræðingar skrifuðu og gjömmuðu hver í kapp við annan (á háum launum) um að engin hætta væri á bankahruni eða neinu slíku. Þvert á móti þá væri ástandið tær snilld og bankarnir ættu að gefa í með Icesave og alla þessa hamingju sem þeir væru að útdeila.
Eflaust má finna árinu 1976 sitthvað til ágætis. Bæði í Bretlandi og víðar. Breska pönkið byrjaði 1976. Það var frábært. Hófst um sumarið sem einskonar neðanjarðarhreyfing Sex Pistols, The Clash, The Damned, The Buzzcocks og Siouxie & The Banshees. Hreyfingin vatt hratt upp á sig. Um haustið var haldið 2ja daga pönk-festival í 100 Club við Oxford stræti. Fyrir árslok var pönkið orðið umtalað og komið á forsíður dagblaðanna.
Næstu ár á eftir fór pönkið með völd. Það ól af sér ótal músíkstíla sem kölluðust samheitinu nýbylgja. Það opnaði dyr fyrir reggí og ska. Það skóp hártísku og fatatísku. Það stillti rokkbransanum í heilu lagi upp við vegg. Flest sem rokkarar höfðu verið að gera og voru að gera var borið saman við pönkið. Breska pönkið fór eins og stormsveipur um heiminn. Upp spruttu öflugar pönkbylgjur þvers og kruss að hætti þeirrar bresku. Hérlendis hefur pönkbylgjan verið kennd við kvikmyndina Rokk í Reykjavík.
Til að breska pönkið næði upp á yfirborðið og yrði sú bylting sem það varð þá þurfti sérstakan farveg. Sá farvegur samanstóð af vondu efnahagsástandi í Bretlandi 1976, vonleysi og reiði. Einnig þreytu og leiða á risaeðlunni sem rokkmarkaðurinn var orðinn.
Atvinnuleysi í Bretlandi var mikið, heilu fjölskyldurnar og íbúar heilu bæjarhlutanna voru fastir í fátækragildru. Það logaði allt í verkföllum, kynþáttaóeirðum, lögregluofbeldi, pirringi. Stærsti nasistaflokkurinn í Bretlandi, National Front, naut stuðnings 130 þúsund kjósenda. Hatur og reiði út í allt og alla kraumaði og leitaði útrásar.
Ástandið, eins og ungir lágstéttarmenn upplifðu það, var súmmerað upp á næst fyrstu smáskífu Sex Pistols, God Save The Queen. Það getur að heyra í myndbandinu efst. Textinn hefst á þessum orðum:
God save the queen
The fascist regime
They made you a moron
Potential H-bomb
God save the queen
She ain't no human being
There is no future
In England's dreaming
Í niðurlaginu er margendurtekið að það sé engin framtíð. Svipuð viðhorf voru áberandi í öðrum breskum pönksöngvum. Það var sungið um fasisma og anarkisma, atvinnuleysi og vonleysi. Á fyrstu smáskífu Sex Pistols, Anarchy In U.K., er stjórnleysi boðað.
Í fyrsta smáskífulagi The Clash, White Riot, var sungið um óeirðir og uppþot. Myndbandið var skreytt klippum af lögreglu og mótmælendum. Upplifun bresku pönkaranna á ástandinu 1976 er ólík lýsingu hagfræðinganna á besta og hamingjuríkasta ári Bretlands. Söngvar bresku pönkaranna eru marktæk sagnfræði að einhverju leyti.
Tom Robinson lýsir ástandinu skýrar og ljóðrænna í Up Against The Wall. Þar segir m.a.
Darkhaired dangerous schoolkids
Vicious, suspicious sixteen
Jet-black blazers at the bus stop
Sullen, unhealthy and mean
Teenage guerillas on the tarmac
Fighting in the middle of the road
Supercharged FS1Es on the asphalt
The kids are coming in from the cold
Look out, listen can you hear it
Panic in the County Hall
Look out, listen can you hear it
Whitehall (got us) up against a wall
Up against the wall...
High wire fencing on the playground
High rise housing all around
High rise prices on the high street
High time to pull it all down
White boys kicking in a window
Straight girls watching where they gone
Never trust a copper in a crime car
Just whose side are you on?
Consternation in Brixton
Rioting in Notting Hill Gate
Fascists marching on the high street
Carving up the welfare state
Operator get me the hotline
Father can you hear me at all?
Telephone kiosk out of order
Spraycan writing on the wall
Eitt af mörgu góðu við pönkið var að það gerði þarfa uppreisn gegn kynþáttafordómum og nasisma. Slátraði National Front með því að spila undir yfirskrift á borð við Anti-Nazi League og Rock Against Racism, ásamt því að gagnrýna í textum kynþáttafordóma. Eins og að framan greinir áttu breskir nasistar sterkt fylgi þegar pönkbyltingin skall á. The Clash lýstu stöðunni þannig að ef Adolf Hitler kæmi til Bretlands þá yrði tekið á móti honum í limmósíu á flugvellinum.
![]() |
1976 var hamingjuríkasta árið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 22.7.2013 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.7.2013 | 12:26
Af hverju er Auður kölluð djúpúðg?
Viðurnefni Auðar djúpúðgu hefur þvælst fyrir íslenskum skólabörnum svo lengi sem elstu menn muna. Það hefur líka þvælst fyrir unglingum og rígfullorðnum. Við notum orðið djúpúðg ekki í daglegu tali. Það þarf að fletta því upp í orðabók til að uppgötva að það þýði vitur eða spök.
Í Færeyjum er Auður þessi kölluð Auður djúphugaða. Það er auðvelt að skilja. Auður djúphugaða er hátt skrifuð í Færeyjum. Þrándur í Götu er nefnilega afkomandi hennar. Gott ef Auður var ekki amma hans.
Þrándur í Götu var svo þver og fastur fyrir að á styttunni af honum í Götu er hann látinn standa láréttur bísperrtur út í loftið.
![]() |
Auður djúpúðga heldur til Færeyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.7.2013 | 22:09
Aðförin að Ólafi F. Magnússyni
Ólafur F. Magnússon hefur aldrei farið leynt með veikindi sín. Hann hefur tjáð sig af hreinskilni um þau í fjölmiðlum og ekkert dregið undan. Veikindi hans eru ekki stöðug. Þau eru sveiflukennd. Hann hefur náð heilsu og er alveg meðvitaður um ástandið. Meðvitaðri en margur annar undir þessum kringumstæðum vegna þess að hann er læknir og hefur læknisfræðilega þekkingu á sjúkdómnum.
Ég átti töluverð samskipti við Ólaf þegar hann var borgarstjóri og eftir það. Hann var við góða heilsu á því tímabili. Hann er vel gefinn, léttur og skemmtilegur í umgengni, með góðan tónlistarsmekk og hugsjónarmaður sem gefur engan afslátt á sínum hugsjónum. Hann er baráttumaður fyrir þeim. Hann er einlægur og fylginn sér í baráttu fyrir umhverfisvernd, verndun eldri húsa og því að flugvöllurinn sé áfram í Vatnsmýri.
Þessi lýsing á honum þýðir ekki að ég sé sammála honum um alla hluti. En sammála honum um marga hluti, svo sem flugvöllinn. Mér þykir vænt um hlý orð hans og góð í garð Ásatrúarfélagsins. Ég er í Ásatrúarfélaginu.
Að þessu sögðu vil ég fullyrða að lýsing Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur í tímaritinu Nýju lífi á heilsu Ólafs sé röng. Ólafur F. Magnússon var ekki veikur á því tímabili sem þau fóru saman með stjórn Reykjavíkurborgar. Alls ekki. Hann var við góða heilsu. Hann var góður borgarstjóri. Agaður og fastur fyrir. Hann leið ekki spillingu eða bruðl. Sem dæmi get ég tiltekið að iðulega nota borgarfulltrúar hvert tækifæri sem gefst til utanlandsferða á kostnað borgarbúa. Ólafur sat í borgarstjórn í áratugi og fór aðeins einu sinni til útlanda. Það var til Færeyja í boði þarlendra stjórnvalda.
Það felast miklir fordómar í garð fólks með geðhvörf að heimfæra sjúkdóminn yfir á allt í þeirra tilveru, líka þegar heilsa þess er í lagi og þú ert ósammála skoðunum þess. Ólafur F. Magnússon var heilbrigðastur allra sem sátu samtímis honum í borgarstjórn. Hann var sá eini sem gat lagt fram heilbrigðisvottorð.
![]() |
Misnotuðu veikindi Ólafs F. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt 12.8.2018 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
18.7.2013 | 11:25
Einföld og örugg aðferð við að skræla egg
Hungrið sverfur að. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa hrært í túnfiskssalat. Já, eða rækjusalat. Þá er ráð að skella slettu af því ofan á flatkökusneið og fá sér bita. Skyndilega verður hart undir tönn. Það er eggjaskurn í salatinu. Matarlystin hverfur eins og dögg fyrir sólu. Eggjaskurn er ólystug. Nema fyrir hænur. Þær kunna vel að meta skurn.
Vandamálið við að skræla egg liggur í því að hvít skurn og egg eru samlit. Þess vegna er veruleg hætta á að bútar af skurn verði eftir á egginu. Það er til gott ráð við þessu. Þannig er aðferðin:
Þú hellir Coca Cola í skál. Því næst er harðsoðnum eggjum komið fyrir í kókinu. Skálin er sett inn í ísskáp. Á nokkrum vikum eyðir kókið allri skurn utan af eggjunum. Algjörlega. Vel og snyrtilega. En lætur sjálft eggið í friði. Að öðru leyti en því að það fær sætt bragð yst. Það kallast veislukeimur.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2013 | 01:19
Norskur þungarokksnasisti, morðingi og kirkjubrennari
Ég er dálítð "svag" fyrir svartamálmi (black metal). Þessi músíkstíll varð til í Noregi og hefur breiðst út um heim. Verra er að einn af forsprökkum svartamálms er Norðmaðurinn Vargur Vikernes. Léttgeggjaður hægri öfgamaður sem blandar saman nasisma og ásatrú. Það þykir mér sem félaga í Ásatrúarfélaginu miður. Ásatrúarfélagið á Íslandi hafnar blessunarlega kynþáttafordómum, kynþáttahatri og nasisma.
1994 var Vargur dæmdur í lífstíðarfangelsi í Noregi fyrir að drepa gítarleikarann sinn og kveikja í fjórum kirkjum. Aðrar heimildir herma að hann hafi kveikt í 50 kirkjum. Einhverjir Íslendingar hófu bréfasamskipti við Varg á meðan hann sat í fangelsi. Flestir gáfust fljótlega upp á þeim samskiptum þegar þeir áttuðu sig á því hvað nasistinn er kolgeggjaður.
Lífstíðarfangelsi í Noregi þýðir 21 ár. Vargur losnaði úr fangelsi 2005. Hann stofnaði fjölskyldu með franskri konu og flutti til Frakklands. Að undanförnu hefur hann farið mikinn á internetinu. Hann hefur hvatt til uppreisnar gegn gyðingum og múslimum í Evrópu. Hann kennir gyðingum um bankakrísuna og skilgreinir almenning sem þræla gyðinga.
Frönsk yfirvöld hafa nú gripið inn í og handtekið Varg. það gerðu þau í kjölfar þess að hann var farinn að safna að sér skotvopnum og undirbúa hryðjuverk. Í dagblaðinu VG er Vargur sagður vera aðdáandi norska hægriöfgamannsins Breiviks og hefur átt í bréfasamskiptum við hann. Vargur var þó ósáttur við fjöldamorð Breiviks til að byrja með.
Eftir sem áður er Vargur flottur tónlistarmaður. Það reynir á prinsipp mitt að njóta tónlistar óháð viðhorfum flytjandans. Að vísu hef ég gert undantekningu með því að sniðganga barnaníðinga. En það er á mörkunum þegar nasistar á borð við Varg eiga í hlut. Læt fylgja með fordæmingu á nasisma, fasisma, kynþáttahatri og öllu því ógeði um leið og þetta ljúfa lag Vargs hljómar.
![]() |
Aðdáandi Breivik handtekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 18.7.2013 kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.7.2013 | 21:59
Eitraður brandari
Ég rakst á þessa skemmtilegu mynd á netinu. Ég sprakk úr hlátri og ætlaði seint að hætta að hlæja. Ég veit ekki hvers vegna. Það er bara eitthvað óbærilega fyndið við þessa mynd. Til að sitja ekki einn að þessum hláturvaka smellti ég myndinni inn á Fésbók. Á örfáum mínútum var hálft þriðja hundrað manns búið að deila henni yfir á sínar síður. Myndin kitlaði greinilega hláturtaugar fleiri. Því er mér ljúft og skylt að setja hana líka hér inn:
Já, holtin og veggirnir hafa eyru eins og flugan.
![]() |
Bandaríkjamenn festa Snowden |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
14.7.2013 | 21:38
Nýtt og betra
Það er merkilegt að ekki sé búið að koma fyrir hljóðdeyfi á höggborinn. Það er leiðinda hávaði frá þessu verkfæri. Hvellur og óþægilegur hávaði sem ærir alla nærstadda og í töluvert stórum radíus frá bornum. Það væri strax til bóta ef borinn gæti boðið upp á mismunandi tóna þannig að hægt sé að spila róandi lagstúf með honum. En hljóðdeyfir er betri kostur. Hann er hljóðlátari aðferð.
Tækninni fleygir fram við allt svona. Sú var tíð að hellulagnamenn bröltu um á hnjánum til að leggja gangstéttarhellur eða vegahellur. Það tók heilu dagana að helluleggja örfáa metra. Í dag eru hellur lagðar fljótt og snyrtilega eins og teppi með hellulagningavél. Vélin fer ekki hratt yfir. En hún helluleggur tugi metra á klukkutíma.
Lengi vel var meiriháttar mál að leggja malbikaða vegi. Með ýtum var jarðvegi rutt upp í rétta hæð. Þar sem ekki var nóg um möl voru vörubílar á þeytingi með möl úr malargryfjum. Yfirborðið sléttað út. Heitt malbik lagt ofan á það. Það tók heilu mánuðina að leggja hvern vegaspotta. Fjölmenni þurfti til. Við hvert verkefni var sett upp lítið þorp vegavinnuskúra. Þar sváfu vegavinnuflokkar. Einn skúrinn var mötuneyti. Það varð að fóðra kvikindin.
Núna er farið að leggja malbikaða vegi á annan hátt. Menn fá malbikaða vegi upprúllaða og leggja þá eins og teppi. Rúlla þeim eftir slóðinni. Það þarf aðeins einn mann í verkið. Hann leggur veginn jafn hratt og hann gengur.
Af því að tækninýjungar eru til umræðu má ég til með að nefna nýjan penna sem var að koma á markað. Hann lítur út eins og venjulegir pennar. Munurinn er sá að þegar orð er vitlaust stafsett þá titrar penninn. Víbrar og gefur smá stuð. Hann hættir ekki að víbra fyrr en orðið er rétt stafsett.
![]() |
Ólétt kona stöðvaði vinnu höggbors |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 15.7.2013 kl. 06:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2013 | 19:21
Óvenju hefðbundin, viðurkennd og yfirveguð handtaka
Íslenskir lögregluþjónar, þjónar fólksins, hafa lært og tileinkað sér háþróaða aðferð norskra stéttarbræðra við að handtaka ósjálfbjarga, hálf rænulausa og áttavillta ofur ölvi konu. Þetta er gríðarlega vandasamt verk. Kona í þannig ásigkomulagi getur verið lögregluþjónum stórhættuleg. Til að mynda gæti hún fyrirvaralaust lognast út af. Við það er hætta á að hún örmagnist utan í lögreglubíl. Konan gæti gubbað. Þá er lögreglubíllinn í ennþá meiri hættu. Það gæti slest á hann.
Hefðbundin og viðurkennd staða sem íslenskir lögregluþjónar standa frammi fyrir og hafa lært af norsku lögreglunni er; að á vegi þeirra verði ósjálfbjarga og ringluð kona. Á miðjum vegi þeirra. Þar liggur hún í götunni fyrir utan heimili sitt. Nauðsynlegt er í þessari stöðu að lögregluþjónarnir séu þrír og fílefldir í öruggu vari í stórum löggubíl. Þannig geta þeir af yfirvegun metið þá gríðarlegu hættu sem þeim stafar af konunni.
Þegar konan bröltir ringluð á fætur og skjögrar til hliðar - svo að bíllinn komist framhjá (á göngugötu, vel að merkja) - þá er brýnt, viðurkennt og hefðbundið að bruna af stað á bílnum. Trixið er að hættulega konan sé ekki búin að víkja meira en svo að spegillinn á löggubílnum skelli á andliti hennar. Sú aðferð kallast "klappe kvinnen på kinnet" (að klappa konunni á kinn).
Þessu er fylgt eftir með "nå kvinnen med dören". Það er óvenju hefðbundin og viðurkennd norsk aðferð. Hún felst í því að hurðinni er hrint upp og skellt framan á ringluðu konuna. Við það verður konan ennþá ringlaðri. Þá er lag að endurtaka hurðartrixið. Skella hurðinni aftur á konuna. Þá er hún orðin þrefalt ringlaðri.
Þegar hér er komið sögu tekur við hættulegasti kaflinn fyrir lögregluþjónana þrjá. Þeir verða að telja í sig kjark og yfirgefa öryggið inni í bílnum. Þeir verða að sýna sitt allra mesta snarræði. Sá sem er næstur konunni þarf að stökkva á hana, kippa í handlegg á henni og fella hana hratt og kröftuglega á bakið á járnhandrið. Járnhandriðið þolir þetta. Er eins og nýtt. En konan dasast og nær ekki andanum. Í sveiflunni snýst konan á magann í götuna. Lögregluþjónninn má hvergi gefa eftir. Hann verður að draga konuna á maganum um það bil tvo metra. Nákvæm hefðbundin og viðurkennd norsk vegalengd er 1.95 metrar. Það mega vera skekkjumörk upp á 8 cm + -. Ef drátturinn er innan skekkjumarka er skráð í lögregluskýrslu "að meðalhófs hafi verið gætt við handtökuna".
Næst rífur lögreglumaðurinn hendur vankaðrar konunnar aftur fyrir bak. Hún er handjárnuð með 90 kg lögregluþjón sitjandi ofan á baki hennar og hálsi. Annar lögreglumaður hleypur undir bagga. Það er rosalega mikil hætta af konunni og allt getur gerst. Þriðji lögreglumaðurinn verður að standa yfir þeim, tilbúinn til alls ef ringlaða konan rankar við sér og fer að beita grófu ofbeldi.
Hættan er hvergi liðin hjá. Þessu næst þarf að henda konunni eins og hveitipoka inn í skott á löggubíl. Þar sem hún er handjárnuð með hendur fyrir aftan bak skellur hún með andlitið í gólfið. Á eftir henni og ofan á hana henda sér tveir lögregluþjónar. Sá þriðji stendur vaktina tilbúinn að grípa inn í.
Hefðbundnari, viðurkenndari og yfirvegaðri getur handtaka á ósjálfbjarga ringlaðri konu ekki verið. Formaður Landssambands lögreglumanna vottar það. Hann viðurkennir undanbragðalaust að þessi óvenju hefðbundna aðferð líti ALDREI vel út á myndbandi. Aldrei. Þess vegna var óheppilegt að svona hefðbundin og viðurkennd handtaka á blindfullri konu rataði á myndband.
Hinsvegar lítur handtakan glæsilega út í lögregluskýrslu um þá skelfilegu ógn sem að lögregluþjónum steðjaði. Ásamt því hvernig þeim tókst að afstýra yfirgripsmiklu hættuástandi fyrir land og þjóð með óvenju hefðbundinni, viðurkenndri og yfirvegaðri handtöku á ósjálfbjarga ringlaðri konu.
![]() |
Beitti viðurkenndri handtökuaðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt 10.7.2013 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (95)
8.7.2013 | 23:34
Dýr eru furðufuglar
Flest - eða jafnvel öll - dýr þurfa að sofa endrum og eins. Þó ekki sé nema til að taka smá kríu. Sum dýr verða pínulítið brosleg þegar þau sofa. Önnur verða krúttleg þegar þau sofa. Norska dagblaðið VG efndi á dögunum til samkeppni um bestu ljósmyndir af sofandi dýrum. Þátttaka var góð. Hátt á annað þúsund mynda bárust. Þessar þóttu bestar:
Hvutti kom sér makindalega fyrir í ferðavöggu ungabarnsins, naut sín í botn og steinsofnaði.
Þessi ku vera sofandi þó að rifi í annað augað. Myndin er á hvolfi. Ef að hún snýr rétt skilar sér ekki hvað hvutti er eitthvað krumpaður.
Það er arfgengt hjá sumum hundum að sýna tennurnar í svefni. Kenningin er sú að þetta sé varnaraðferð. Aðrir hundar og önnur dýr sjá að tennurnar eru beittar og sterklegar. Jafnframt virðist dýrið vera vakandi þó að það sofi.
Hárlausir kettir hringa sig saman í svefni. Þannig nýta þeir betur líkamshitann.
Þessi sefur með eyrun sperrt. Hann er á vakt gagnvart minnsta grunsamlega hljóði þó að hann leyfi sér að dotta.
Þessi hvutti er vanur að sofa undir sæng. En þegar heitt er í veðri lætur hann aftari hluta líkamans standa undan sænginni.
Merðir mynda hjartaform þegar þeir fá sér dúr.
Flest dýr teygja úr sér þegar þau vakna. Sum teygja úr sér á meðan þau sofa.
Krúttlegt.
![]() |
Hvolpur fastur í vél bílsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 9.7.2013 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2013 | 22:15
Auðvelt töfrabragð til að finna út aldur fólks og skóstærð
Vísindi og fræði | Breytt 8.7.2013 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.7.2013 | 01:12
Sjötugir og alltaf jafn strákslegir
Breska blúsrokkhljómsveitin The Rolling Stones er um það bil elsta rokkhljómsveit heims. Hún er jafnframt ein örfárra rokkhljómsveita frá sjöunda áratugnum sem hefur aldrei hætt. Flestar rokkhljómsveitir frá sjöunda áratugnum hafa hætt. Sumar hafa alveg hætt. Aðrar hafa verið endurlífgaðar mörgum árum eða áratugum síðar.
The Rolling Stones hefur lítið skipt sér af eiginlegum rokkhátíðum. Það er að segja hátíðum sem standa í marga daga og bjóða upp á langa dagskrá með fjölda skemmtikrafta. Þess í stað hefur The Rolling Stones farið í stórar hljómleikaferðir vítt og breitt um heim. Það er mikið í þær lagt. Sérhönnuð sviðsmynd er sett upp á hverjum stað og allt er mjög stórt í sniðum. Eitt sinn hitti ég kokk sem vann ásamt fleirum við að elda ofan í liðsmenn The Rolling Stones og starfsmenn þeirra. Hópurinn var á við heilt þorp. Fyrir utan fjölda aðstoðarhljóðfæraleikara, bakraddasöngkvenna, rótara, hljóðmanna, ljósameistara, smiði, förðunarfræðinga og lífverði voru með í för læknir, líkamsræktarþjálfari og eitthvað þess háttar lið. Þó að kokkurinn hafi unnið daglega með hópnum í lengri tíma hafði hann einungis spjallað við gítarleikarann Ronnie Wood. Ronnie hafði spurnir af því að kokkurinn safnaði málverkum og málaði sjálfur í frístundum. Ronnie hafði frumkvæði af því að spjalla við kokkinn um myndlist af og til. Hina Rollingana hitti kokkurinn aldrei til að eiga orðaskipti við.
Hljómleikaferðir The Rolling Stones hafa alltaf vakið athygli og fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þær hafa jafnframt viðhaldið ímynd The Rolling Stones sem stærstu rokkhljómsveitar heims (eftir að Bítlarnir hættu).
Í vor brá hinsvegar svo við að liðsmenn The Rolling Stones höfðu frumkvæði af því að koma fram á stærstu árlegri útitónlistarhátíð heims, Glastonbury. Hún er alltaf haldin síðustu vikuna í júní. Það var gítarleikarinn Ronnie Wood sem suðaði í þeim hinum þangað til að þeir létu undan hans ósk: Að spila á alvöru útihátíð. Ronnie er krakkinn í hópnum. Sá eini Rollinga sem fær ekki gamalmennaafslátt í sund og strætó. Hann er nær því að fá afhentan barnamatseðil á veitingastöðum út á barnslegt andlit.
Ákvörðunin reyndist happadrjúg, bæði fyrir The Rolling Stones og Glastonbury. Ég var úti í Englandi þegar dagskrá Glastonbury var kynnt fjölmiðlum. The Rolling Stones var á forsíðum bresku dagblaðanna og músíktímarita næstu daga. Þetta var aðalfrétt í útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Spjallþræðir Breta á netinu voru undirlagðir umræðu um The Rolling Stones og Glastonbury. Fréttir af nú afstaðinni Glastonbury hátíðinni snúast meira og minna um The Rolling Stones. Allt mjög jákvætt. Eftir því var tekið hvað þessir sjötugu rokkarar eru strákslegir.
Þetta er eldri mynd af strákunum. Á Glastonbury voru þeir eins og fermingardrengir. Það hjálpaði upp á að Keith var málaður um augun (eyeliner) og Mick með fagurgrátt hár sitt litað brúnt.
Tónlist | Breytt 8.7.2013 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2013 | 10:51
Áríðandi! Ekki missa af!
Það er orðið alltof langt síðan færeyska álfadísin, Eivör, hefur haldið hljómleika á Íslandi. Ennþá lengra er síðan hún hefur haldið hljómleika á litlum stað þar sem hún er í nálægð við áheyrendur. Nú ber heldur betur til tíðinda: Næstkomandi föstudag (12. júlí) verður Eivör með hljómleika á Gamla Gauknum.
Eins og allir vita sem hafa verið á hljómleikum hjá Eivöru þá er það miklu áhrifaríkari og stórkostlegri upplifun en að hlusta á plötur með henni eða lög í útvarpi. Samt eru plöturnar hennar ljómandi góðar en ólíkar hver annarri. Á hljómleikum nær Eivör að framkalla töfra. Hún dáleiðir áheyrendur. Þeir sitja opinmynntir umvafðir fegurð tónlistarinnar; frábærum söng og túlkun Eivarar. Stór þáttur í magnaðri stemmningunni ræðst af sterkum sviðsþokka Eivarar, útgeislun og spjalli hennar á milli laga og kynningum á lögunum.
Ekki missa af þessum hljómleikum! Miðasala er hafin á www.gamligaukurinn.is . Það er algjörlega óvíst hvenær Eivör heldur næst hljómleika á Íslandi. Vinsældir hennar út um heim vaxa jafnt og þétt með tilheyrandi spurn eftir hljómleikum. Sem dæmi þá hafði nýjasta plata hljómsveitar hennar, Vamp, selst í 130 þúsund eintökum í Noregi síðast þegar ég vissi (í fyrra). Þá fékk Eivör afhenta þrefalda platínuplötu fyrir söluna. Næsta víst er að platan sé í dag til á nálægt 200 þúsund norskum heimilum. Hún var nefnilega enn í 1. sæti norska sölulistans þegar Eivör fékk þreföldu platínuplötuna.
Á undan Eivöru á Gauknum stígur á stokk önnur flott færeysk söngkona, Dorthea Dam. Hún átti eitt mest spilaða lag í færeysku útvarpi í fyrra. Það heitir Candy og hefur eitthvað verið spilað í íslensku útvarpi. Fleiri lög með Dortheu hafa fengið góða spilun í færeysku útvarpi.
Eftir að Dorthea og Eivör hafa heillað salinn upp úr skónum svífa á svið stuðboltinn Sigurður Ingimars og hljómsveit. Sigurður var sigurvegari í Íslensku trúbadorkeppninni og á færeyska konu.
Daginn eftir, laugardaginn 13. júlí, er Eivör með hljómleika á Græna hattinum á Akureyri.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2013 | 23:31
Íhaldssamur kennari með einfaldan smekk
Það er kúnst að vera kennari. Eða öllu heldur er það kúnst að vera góður kennari. Hvað er góður kennari? Svar: Sá sem laðar fram það besta hjá nemendum og - það sem skiptir jafnvel meira máli: lætur þeim líða vel í skólanum. Ákjósanlegasta staðan er þegar nemendur hlakka til að mæta í skólann.
Kennarinn er fyrirmynd. Afstaða hans til námsefnisins hefur mótandi áhrif á nemendur. Framkoma hans, talsmáti og jafnvel klæðaburður verður nemendum til eftirbreytni.
Skólamyndir af kennara - sem nú hefur sest á helgan stein - í Dallas í Texas hafa vakið athygli. Í 40 ár hefur hann haldið sig staðfastur við nokkurn veginn sama stíl: Hárgreiðslu, gleraugu, yfirvararskegg, skyrtu með stórum flaksandi kraga og brúna vestispeysu. Að vísu skóf hann af sér yfirvararskeggið 1975. En skeggið kom aftur sterkt til leiks 1976.
![]() |
Límdi fyrir munn sjö ára stúlku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2013 | 18:25
Lausn á vandamáli þingmanna
Eitt af stóru vandamálunum sem íslenska þjóðin glímir við er klæðaburður þingmanna. Margir þingmenn eru á þunglyndislyfjum vegna kvíðahnútar sem þeir eru með í maganum á kvöldin. Þeir eru í öngum sínum og bryðja svefntöflur til að létta á andvökunóttunum. Áhyggjurnar eru svo gríðarlegar af því hverju skuli klæðast daginn eftir. Hvað má? Hvað má ekki?
Það er auðvelt að bæta bölið og heilsu þingmanna. Það þarf aðeins að samræma klæðnað þingmanna. Þetta er gert við presta. Þeir klæðast flestir samskonar kjólum. Þetta er gert við fermingarbörn. Þau klæðast samskonar hvítum kjólum. Þingmenn tækju sig vel út í bleikjum kjólum. Sérstaklega Sigmundur Davíð.
![]() |
Elín Hirst lofar að skipta um buxur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.7.2013 | 21:42
Þetta vissir þú ekki!
Geitur eru merkilegri skepnur en margur heldur í fljótu bragði. Til að mynda hafa í aldir geitaspörð verið notuð til að lina þjáningar gigtveikra. Það þarf aðeins að taka inn fimm geitaspörð á fastandi maga í átta daga. Spörðunum er skolað niður með hvítu víni. Við magakveisu hefur öldum saman gefist vel að þamba geitahland. Það slær einnig á eyrnaverk. Geitalifur heldur draugum og öðrum framliðnum ófreskjum í skefjum. Ekki má gleyma því að þurrkað og mulið geitareista (af hafri) tekið inn með nægu vínmagni er kröftugasta meðal sem til er gegn ófrjósemi kvenna.
Þessi lyf og þessar aðferðir eru mörg hundruð árum eldri en nútímakukl lækna sem dæla í sjúklinga hættulegum pillum framleiddum af fégráðugum og glæpsamlegum auðhringum. Nútímalækningar eru svo ungar að þær eru í raun óhefðbundnar á meðan aldagamlar aðferðir með geitaafurðir eru hefðbundnar lækningar.
Geitur éta allt. Þær éta gaddavír, girðingastaura, niðursuðudósir, smásteina og hvað sem er. Þær vilja ekki vera skilgreindar grænmetisætur og vera þar með settar í flokk með Hitler. Geitur éta grasamat aðeins eins og meðlæti. Á sama hátt og annað fólk en Hitler nartar í grænmeti með kjöti, fiski og þess háttar.
Geitur eru húmoristar. Þeim þykir fátt skemmtilegra en að hræða fólk og hrella. Þá hlæja geiturnar inn í sér.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.7.2013 | 00:18
Fólki sem er fífl hjálpað að fóta sig í tilverunni
Fólk er fífl. Það vita allir. Nema fólkið sjálft. Það þarf leiðbeiningar um hvert skref. Annars fer allt í rugl. Þess vegna er brýn þörf á sem flestum umferðarmerkjum. Fjöldi embættismanna á launaskrá ríkisins vinnur að því hörðum höndum að hanna og koma fyrir sem víðast merkingum til að leiðbeina fólki sem er fífl. Í dag bættust 17 ný umferðarmerki í hóp þeirra tuga umferðarmerkja sem þegar eru út um allt.
Það er gott til þess að vita að ríkisstarfsmenn geri fleira en naga blýanta allan daginn alla daga. Þeir leggja sig líka fram um að leiðbeina kjánum. Einmitt núna þegar sól hefur verið minni í sumar (hún á kannski eftir að stækka) en elstu menn muna hefur innanríkisráðherra boðað að í nálægð við allar ísbúðir landsins verði komið upp skilti sem sýnir gamaldags (klassískan) rjómaís úr vél. Án þessa skiltis er veruleg hætta á að fólk sem er fífl kaupi sér í óvitaskap ís úr frystikistum stórmarkaða. Lítill fugl hvíslaði að mér að þetta væri gert að ósk Sigmundar Davíðs. Hann ku vera sólginn í rjómaís beint úr vél.
Áður en þetta skilti er fest upp sannreyna embættismenn Vegagerðarinnar og Framkvæmdastofnunar samgöngumála að ísinn sé afgreiddur í brauðformi og að það sé rjómabragð af honum.
Eitt af mörgu góðu við að fjölga umferðarskiltum á Íslandi er að það er atvinnuskapandi. Ekki endilega þannig að það fjölgi störfum heldur þannig að embættismenn innanríkisráðuneytisins (og stofnana sem heyra undir það) hafi eitthvað fyrir stafni. Það gerir engum gott að slæpast í vinnunni og hanga á fésbók. Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum er ríkur vilji hjá Framkvæmdastofnun samgöngumála að setja í næsta átaki upp skilti sem gefur til kynna hvar megi nálgast rammíslenska pylsu með öllu og hvar sé mögulegt að kaupa kalda mysu.
Gríðarlega mikil stemmning er fyrir því að setja upp við allar götur nálægt vínveitingastöðum skilti sem upplýsir að hætta sé á að þar fari ölvuð manneskja til síns heima (eða út í buskann). Aðgát skal höfð í nærveru drukkinna.
Þetta bráðnauðsynlega skilti sýnir hættu á að nautgripir detti ofan á bíla. Eina vandamálið er að bílstjóri getur á engan hátt komið í veg fyrir það. En þegar nautgripur dettur ofan á bíl getur bílstjórinn verið nokkuð viss um að það var nautgripur sem datt ofan á bílinn (en ekki geimskip eða loftsteinn). Það veitir öryggiskennd að vera ekki í vafa.
Hvar er hægt að fóðra krókódíla með fötluðum?
Sumt fólk er "mannýgt". Það stangar bíla. Erlendis hefur gefist vel að setja upp skilti nálægt bílum með hvatningu um að mannýgir stangi spegla á bílunum frekar en sjálft "boddýið". Þannig má komast hjá því að dælda bílana.
![]() |
17 ný umferðarmerki taka gildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.6.2013 | 22:44
plötuumsögn
- Titill: A Little Trip
- Flytjandi: Binni Rögnvalds
- Einkunn: **** (af 5)
Binni Rögnvalds er skagfirskur trúbador. Hann er söngvaskáld, gítarleikari og söngvari. Faðir hans, Rögnvaldur Valbergsson, er kunnur tónlistarmaður í Skagafirði; kórstjórnandi og hljómborðsleikari helstu hljómsveita Skagafjarðar, svo sem Trico og Hljómsveitar Geirmundar.
A Little Trip er fyrsta plata Binna. Í gamla daga hefði svona plata verið skilgreind sem Ep. Hún er sex laga (mitt á milli smáskífu og "stórrar" Lp plötu).
Fyrstu tvö lögin eru í svipuðum stíl: Þau falla undir skilgreiningu á "krúttpoppi". Þetta eru áferðarfögur lög. Róleg lög með minimalískum hljóðfæraleik. Upphafslagið, Hamburg, leiðir huga að With Or Without You með írsku hljómsveitinni U2. Seyðmögnuð og dáleiðandi fegurð umlykur þessi lög. Einfaldleiki, látleysi og klingjandi gítar laða fram ljúfa og notalega tilfinningu.
Í lagi nr. 2, Fly, bætist við í viðlagi söngur Dönu Ýr Antonsdóttur.
Þegar ég hlustaði fyrst á plötuna var ég kominn í þannig stemmningu að þriðja lagið var eins og þruma úr heiðskíru lofti. Heldur betur skipt um gír. Call In Sick er hart pöbbarokk; rythmablús. Mér kæmi ekki á óvart að það lag hafi verið hljóðritað "live" í hljóðveri. Rífandi gítar og fjör. Hressilegt lag. Binni fer úr hlutverki ljúfa söngvarans og þenur raddböndin.
Fjórða lagið er Fame and Fortune. Fyrstu þrjú lögin eru ekki með rífandi krækjur (hooks). Þau eru frekar með vinalegar laglínur sem vinna stöðugt á við ítrekaða hlustun. Fame and Fortune er með krækju bæði í laglínu og stefi í undirleik. Útvarpsvænasta lag plötunnar. Gítarinn jaðrar við að nálgast reggí-takt. Kannski er það óskhyggja hjá djassgeggjaranum mér að greina smá djasskeim í þessu lagi.
Fimmta lagið, Daddy´s Lullaby, kallar fram hughrif í átt að Nick Cave. Leiðandi píanólína og falleg laglína. Afskaplega snoturt lag.
Lokalagið, Who Belongs To Me, sver sig í sömu ætt. Þessi plata Binna Rögnvalds er afskaplega vel heppnuð. Góð lög, góður flutningur. Allt snyrtilega afgreitt. Engir stælar í hljóðfæraleik eða öðru. Enginn rembingur. Bara allt flott. Flott plata.
Tónlist | Breytt 29.6.2013 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2013 | 21:00
The Rolling Stones
Jú, reyndar vissir þú þetta ef þú ert sýslumaður Árnessýslu. Annars vissir þú það ekki. Kannski sumt af þessu. En ekki allt.
- Fyrsti trommuleikari The Rolling Stones varð síðar heimsfrægur sem trommari The Kinks. Hann heitir Mick Avory.
- Annar tveggja gítarleikara The Rolling Stones heitir Ronnie Wood. Fyrir daga The Rolling Stones gerði bróðir hans það gott á breska vinsældalistanum. Það var 1961 sem Ted Wood og hljómsveit hans, Temperance Seven, sló í gegn með laginu You´re Driving Me Crazy.
- Vörumerki The Rolling Stones er útfærsla á tungu og vörum söngvarans, Micks Jaggers. Vörumerkið er jafnframt sótt í tákn eins af guðum Hindúa, Kali the Destroyer.
- Bítlarnir uppgötvuðu The Rolling Stones, urðu ákafir aðdáendur og komu The Rolling Stones á plötusamning. Það var gítarleikari Bítlanna, George Harrison, sem gekk á fund forráðamanna plöturisans Decca og benti þeim á að þarna væri tækifæri til að rétta hlut sinn eftir að Decca hafði hafnað Bítlunum og orðið að athlægi fyrir klúðrið. Bítlarnir voru orðnir ofurstjörnur þegar hér var komið sögu. Forráðamenn Decca tóku ábendingu Harrisons með þökkum og gerðu plötusamning við The Rolling Stones í snatri.
- Fyrsta smáskífa The Rolling Stones náði ekki þeim árangri sem að var stefnt. Það var lag eftir Chuck Berry, Come On. Smáskífan náði ekki inn á Topp 20 vinsældalistans. En næstum því (21. sæti). Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney tóku sig þá til og sömdu fyrir The Rolling Stones lag sem átti að koma hljómsveitinni inn á Topp 20. Það gekk eftir. Lagið, I Wanna Be Your Man, flaug í 12 sæti breska vinsældalistans. Sögusagnir hafa verið um að þetta lag hafi upphaflega verið samið fyrir trommuleikara Bítlanna, Ringo Starr, til að syngja. Löngu löngu síðar upplýsti forsprakki Bítlanna, John Lennon, að þeir Paul McCartney hafi verið búnir að skilgreina þetta lag sem ekki nógu gott fyrir Bítlana. En það sem þeir Lennon og McCartney skilgreindu sem ekki nógu gott fyrir Bítlana myndi engu að síður skila The Rolling Stones inn á Topp 20. Sjálfir voru Lennon og McCartney þegar orðnir áskrifendur að 1. sæti breska vinsældalistans.
- Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney kenndu liðsmönnum The Rolling Stones galdurinn við að semja lög.
- Bítlarnir innleiddu nýja byltingarkennda hárgreiðslu: Að greiða hárið fram á enni og leyfa hárinu að vaxa yfir eyrun. Liðsmenn The Rolling Stones gengu lengra og lögðu sig fram um að vera með síðara hár en Bítlarnir. 1963 keyptu The Rolling Stones auglýsingar í dagblöðum undir jólakveðju sem hljómaði þannig: "Bestu óskir til sveltandi hárskera og þeirra fjölskyldna." Meiningin í textanum er: "Bestu óskir um gleðileg jól til..."
- Kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur notað The Rolling Stones lagið Gimme Shelter í fjórum af sínum kvikmyndum. Hann er einlægur og ákafur aðdáandi. Hann gerði líka heimildarkvikmynd um The Rolling Stones, Shine A Light. Alveg fjögurra stjörnu mynd.
- Nafnið á The Rolling Stones er sótt í samnefnt lag með bandaríska blúsaranum Muddy Waters.
- Nafnið The Rolling Stones er iðulega ranglega þýtt á íslensku sem Rúllandi steinar. Rétt þýðing er Flækingarnir.
- Söngvari The Rolling Stones, Mick Jagger, er eldheitur áhugamaður um ballettdans.
- Það kom mörgum á óvart þegar upplýst var að besti vinur bandaríska háðfuglsins, gítarsnillingsins og söngvahöfundarins Frank heitins Zappa var Mick Jagger, söngvari The Rolling Stones. Hvorugur þeirra hafði upplýst um þetta fyrir fráfall Zappa. Þeir voru ekki á nákvæmlega sömu línu í tónlist. En þeir náðu saman í heimspekilegu spjalli um heimsmálin, pólitík, listir og menningu og þess háttar. Báðir bráðgáfaðir. Þeim þótti fyrst og fremst gaman að spjalla saman. Þegar Mick var á ferð í námunda við heimili Zappa kom hann ætíð þar við og dvaldi jafnvel dögum saman hjá Zappa. Músík var sjaldnast á dagskrá.
- Trommuleikari The Rolling Stones, Charlie Watts, er lítið fyrir rokk. Hann er harðlínu djassgeggjari.
- Eitt sinn voru The Rolling Stones á hóteli. Að mig minnir á 3ju hæð. Söngvaranum, Mick Jagger, varð það á að tala um Charlie Watts sem trommuleikarann sinn. Charlie snöggreiddist. Hann stökk á Mick og ætlaði að henda honum út um glugga. Gítarleikarinn Keith Richard kom Mick til bjargar með því að skakka leikinn. Ástæðan sem Keith gaf var sú að Mick var í uppáhalds jakka Keiths. Keith vildi ekki sjá á eftir jakkanum út um gluggann.
- 1977 var gítarleikari The Rolling Stones, Keith Richard, böstaður fyrir að vera með dóp. Sanngjarnir dómarar dæmdu hann til að taka út refsingu með því að halda hljómleika fyrir blinda í Toronto. Hugmyndina fengu dómarar út frá frétt af því að Keith hafði áður tekið upp á því að hjálpa blindri konu að komast á hljómleika hjá The Rolling Stones. Keith var að sumu leyti sáttur við dóminn en líka í uppreisn. Hann lagði því allt undir með því að bjóða þeim blindu upp á glæsilegasta myndræna "show" sem mögulegt var. En vitaskuld sáu blindu "áhorfendurnir" ekkert af þessu "showi". Það er púki í Keith.
- Textarnir á plötu The Rolling Stones Exile On Main St. voru samdir eftir uppskrift bandaríska skáldsins William S. Burrough. Uppskriftin var sú að klippa niður texta og raða honum aftur tilviljunarkennt upp. Þannig fengju setningar og meiningar óvænt annað samhengi. William S. Burrough er eitt mesta skáld Bandaríkjanna. Meðal annars gerði Kurt Cobian (Nirvana) plötu við ljóð Williams S. Burroughs. Líka Michael Frant í Beatnigs og Spearhead. Fremur en að telja upp uppátæki Burroughs hvet ég til þess að þið "gúglið" kallinn. Hans saga er svo mikið dæmi.
Tónlist | Breytt 2.7.2013 kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.6.2013 | 23:01
Bráðskemmtileg og holl aðferð við að matreiða eggjahræru
Mörgum vex í augum að matreiða eggjaköku (ommilettu). Enda er það töluvert stúss. Það er fráhrindandi. Fólk þarf helst að hafa skál og þeytara eða písk við höndina. Það eiga bara ekki allir skál og þeytara eða písk. Þá er gott að kunna hina aðferðina. Hún er þannig: Þú tekur hrátt egg og vefur því innan í handklæði. Því næst vefur þú snæri þétt utan um handklæðið sitthvoru megin við eggið og hnýtir rembihnút á. Eggið þarf að sitja pikkfast innan í handklæðinu og vera vel dúðað.
Þessu næst bindur þú snærisspotta í sitthvorn enda handklæðisins. Snærisspottarnir þurfa að vera nógu langir til að þeir ásamt handklæðinu myndi sippuband. Svo er bara að vippa sér út á mitt gólf og sippa 20 sinnum. Gæta skal þess vandlega að sá hluti handklæðisins sem er vafinn utan um eggið lendi ekki í gólfinu. Að minnsta kosti ekki mjög harkalega. Enginn skal efast um hollustu þess að sippa. Betri líkamsrækt er vandfundin ef frá eru taldir göngutúrar, sund, hjólreiðar, skokk...
Að þessu loknu er sömu aðferð beitt við næsta egg. Og þar næsta. Og öll þau egg sem fjölskyldan ætlar að snæða þann daginn. Þar á eftir eru eggin soðin í vatni alveg eins og venja er. Þegar skurnin er fjarlægð af soðnum eggjunum kemur þessi fínasta ommiletta í ljós.
Matur og drykkur | Breytt 27.6.2013 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2013 | 21:38
Hvað er að gerast með unga fólkið í dag?
Nýverið hlustaði ég á Útvarp Sögu. Reyndar hlusta ég á Útvarp Sögu á hverjum degi. Í þessu tiltekna dæmi sagði maður nokkur (að mig minnir Kristinn Snæland. Kannski einhver annar) áhugaverða sögu. Hún var af vini sögumanns. Vinurinn fékk það skemmtilega verkefni að sækja afadóttur sína, 12 ára stelpu, reglulega úr einhverju námskeiði og skutla henni heim. Afinn hlakkaði til að fá þetta tækifæri til þátttöku í lífi stelpunnar. Hann sá fram á mörg skemmtileg samtöl.
Þegar á reyndi varð lítið um spjall. Stelpan var aldrei fyrr sest inn í bílinn hjá afa en hún dró upp síma og hamaðist stöðugt á lyklaborði hans. Hún mátti ekkert vera að því að spjalla við afa. Síminn átti allan hennar hug.
Þessi frásögn rifjaðist upp fyrir mér í dag. Þá átti ég erindi í matvöruverslun. Mig langaði í kalt Malt. Á stéttinni fyrir utan urðu á vegi mínum þrjár unglingsstúlkur. Þær voru á leið inn í verslunina. En hömuðust allar steinþegjandi á síma sína. Það vakti undrun mína hvað þær gengu hratt og örugglega þrátt fyrir að vera með augu límd á símaskjái.
Eins og oft vill verða þegar farið er inn í matvöruverslun ílengdist ég örlítið. Mér varð á að kaupa fleira en Malt þegar upp var staðið. Þegar ég hélt að afgreiðslukassa lenti ég í röð á eftir stelpunum. Þær voru ennþá að hamast á símunum. Rétt á meðan þær borguðu fyrir sælgæti og gosdrykki fékk síminn smá frí. Við það tækifæri skiptust þær á örfáum orðum. Það sannaði að þær voru ekki mállausar. Samt þögðu þær á leið út, allar að hamast á símanum.
Er þetta það sem koma skal? Hættir fólk að tjá sig munnlega? Færist spjall og önnur samskipti fólks inn í síma og tölvur?
Ég held að það hafi verið 1998 eða 1987 sem ég var staddur í Kaupmannahöfn. Þar rölti ég eftir gangstétt. Við hlið mér gekk ókunnugur danskur maður. Það voru ekki fleiri staddir þarna nálægt. Við röltum nánast hlið við hlið. Skyndilega heilsar Daninn á dönsku. Ég tók undir kveðjuna. Hann spurði hvað væri títt. Ég svaraði að ég segði allt gott. Áfram hélt spjallið í smá stund. Mér þótti einkennilegt að Daninn horfði aldrei til mín. En spjallið hélt áfram. Ég horfði á Danann þegar ég svaraði honum. Svo tók ég allt í einu eftir því að hann var með tól á eyranu og þráð sem hékk þaðan niður í brjóstvasa. Það var í fyrsta skipti sem ég sá það sem kallast handfrjálsan búnað. Daninn var að tala í síma - við einhvern annan en mig.
Spaugilegt | Breytt 26.6.2013 kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)