30.12.2016 | 19:46
Wow til fyrirmyndar í vandræðalegri stöðu
Í gærmorgun bloggaði ég á þessum vettvangi um ferðalag frá Brixton á Englandi til Íslands. Ég dró ekkert undan. Það gekk á ýmsu. Ferð sem átti að taka rösklega tvo klukkutíma teygðist upp í næstum því sautján klukkutíma pakka.
Flug með Wow átti að hefjast klukkan 10.45 fyrir tveimur dögum. Brottför frestaðist ítrekað. Um hádegisbil var farþegum tilkynnt að þetta gengi ekki lengur. Það væri óásættanlegt að bíða og hanga stöðugt á flugvellinum í Brixton. Farþegum var boðið í glæsilegt hádegisverðarhlaðborð á Brixton hóteli. Það var alvöru veisla. Á hlaðborðinu var tekið tillit til grænmetisjórtrara (vegan), fólks með glúten-óþol og örvhentra.
Í eftirrétt voru allskonar ljúffengar ostatertur og súkkulaðiterta. Fátt gerðist fram að kvöldmat. Þá var röðin komin að öðru og ennþá flottara hlaðborði. Síðan fékk hver einstaklingur inneignarmiða upp á 11 sterlingspund (1500 ísl. kr.) í flugstöðinni í Brixton.
Eflaust var þetta allt samkvæmt baktryggingum Wow. Allt til fyrirmyndar. Flugmaður Wow í Brixton olli vandræðunum. Ættingjar hans tóku hann úr umferð. Kannski vegna ölvunar hans. Kannski vegna ölvunar þeirra. Kannski vegna alvarlegra vandamáls. Sjálfsagt að sýna því skilning og umburðarlyndi.
Aðrir starfsmenn Wow stóðu sig með prýði í hvívetna. Allan tímann spruttu þeir óvænt upp undan borðum og út úr ósýnilegum skápum. Stóðu skyndilega við hliðina á manni og upplýstu um stöðu mála hverju sinni. Þeir kölluðu ekki yfir hópinn heldur fóru eins og jó-jó á milli allra 200 farþega. Gengu samviskusamlega úr skugga um að hver og einn væri vel upplýstur um gang mála. Til viðbótar vorum við mötuð á sms-skilaboðum og tölvupósti.
Dæmi um vinnubrögðin: Þegar rútur mættu á flugvöllinn til að ferja okkur yfir á Bristol-hótel þá höfðu nokkrir farþegar - miðaldra karlar - fært sig frá biðskýli og aftur inn á flugstöðina. Erindi þeirra var að kaupa sér bjórglas (eða kaffibolla) til að stytta stundir. Ég spurði rútubílstjóra hvort að ég ætti ekki að skottast inn til þeirra og láta vita að rúturnar væru komnar. "Nei," var svarið. "Far þú inn í rútu. Við sjáum um alla hina. Við förum ekki fyrr en allir hafa skilað sér. Í versta falli látum við kalla eftir vanskilagemsum í hátalarakerfi flugstöðvarinnar."
Mínútu síðar sá ég bílstjórann koma út úr flugstöðinni með kallana sem laumuðust í drykkina.
Ég gef starfsfólki Wow hæstu einkunn fyrir aðdáunarverða frammistöðu í óvæntri og erfiðri stöðu. Ég ferðast árlega mörgum sinnum með flugvél bæði innan lands og utan. Ófyrirsjáanleg vandamál koma af og til upp. Stundum með óþægindum og aukakostnaði. Á móti vegur að frávikin krydda tilveruna, brjóta upp hversdaginn. Eru ævintýri út af fyrir sig. Viðbrögð starfsfólks flugfélaganna skipta miklu - mjög miklu - um það hvernig maður metur atburðarrásina í lok dags. Í framangreindu máli skiluðu jákvæð, fagleg og, já, fullkomin viðbrögð starfsfólks Wow alsáttum farþega - þrátt fyrir næstum því sólarhringslanga röskun á flugi.
Ferðalög | Breytt 31.12.2016 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2016 | 18:54
Jól - og styttist í Þorra
Heims um ból halda menn jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi í stól stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2016 | 13:55
Aðgát skal höfð
Á morgun spillist færð og skyggni. Hlýindakafla síðastliðinna daga er þar með að baki. Við tekur fljúgandi hálka, él, hvassviðri og allskonar. Einkum á vestari hluta landsins. Þar með töldu höfuðborgarsvæðinu. Þá er betra að leggja bílnum. Eða fara afar varlega í umferðinni. Annars endar ökuferðin svona:
![]() |
Snjór og hálka taka við af hlýindum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2016 | 19:25
Árinni kennir illur ræðari
Það er mörgum erfitt að tapa í kosningum. Vera "lúserinn" í leiknum. Ekki síst þegar viðkomandi hlýtur hátt á þriðju milljón fleiri atkvæði en sigurvegarinn. Með óbragð í munni má kalla það að hafa sigrað í lýðræðinu en tapað í (kosninga) kerfinu.
Hildiríður Clinton á erfitt með að sætta sig við að hafa orðið undir gleðigjafanum Dóna Trump í kosningum til embættis forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Bæði tvö hafa kennt stórkostlegu kosningasvindli um úrslitin. Dóni vill þó láta gott heita. Hann sættir sig nokkurn veginn við niðurstöðuna. Er svo gott sem reiðubúinn að taka að sér embættið þrátt fyrir allt.
Hildiríður heldur hinsvegar áfram að vera með urg. Hún er tapsár.
Vissulega er kosningakerfi Bandaríkjanna skemmtileg gestaþraut. Vægi atkvæða er afar mismunandi eftir ríkjum. Þökk sé kjördæmakerfinu. Heimskur almúginn fær ekki að verða sér til skammar með því að kjósa vitlaust. Þess í stað fer 538 manna hópur gáfaðra kjörmanna með endanlegt vald til að velja forseta. Þó að þeir séu aldrei allir sammála þá eru þeir samt gáfaðri en skríllinn.
Opinbert leyndarmál er að kosningasvindl leikur stórt hlutverk í bandarískum kosningum. Það er allavega. Kjósendur þurfa að skrá sig á kjörskrá nokkru fyrir kjördag. Þeir þurfa að gefa upp pólitísk viðhorf. Þetta eru ekki leynilegar kosningar að því leyti. Enda ekkert nema kostur að allt sé uppi á borðum, gegnsætt og án leyndarmála.
Á kjördag mætir fólk í mörgum ríkjum án skilríkja. Hver sem er getur kosið í nafni hvers sem er. Það gera margir. Hópar kjósa undir nafni annarra. Margir mæta á kjörstað til að fá þær fréttir að þegar sé búið að kjósa í þeirra nafni.
Í einhverjum ríkjum þurfa kjósendur að vísa fram skilríkjum. Ekki hvað skilríkjum sem er. Í einhverju ríkinu var lögum um það breytt á síðustu stundu þannig að 300 þúsund fátæklingar duttu út af kjörskrá. Enda hefði sá hópur kosið vitlaust hvort sem er.
Í sumum ríkjum eru rafrænar kosningar. Þar fara "hakkarar" á kostum. Ekkert síður stuðningsmenn Hildiríðar en Dóna. Pútín líka. Þegar upp er staðið hefðu úrslitin ekkert orðið öðruvísi þó að enginn hefði svindlað. Þegar margir (= allir) svindla mikið þá leitar það að endingu jafnvægis.
![]() |
Kennir Pútín og FBI um ósigurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2016 | 12:46
Einn söngvari hefur fallist á að syngja fyrir tilvonandi forseta
Eftir áramót verður ljúflingurinn Dóni Trump settur formlega í embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Löng hefð er fyrir því að við slíkt tilefni sé miklum hátíðarhöldum slegið upp. Að þessu sinni ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur ennfremur í Rússlandi.
Hefðin boðar að hátíðardagskráin samanstandi af leik og söng heitustu og stærstu nafna amerískra tónlistarmanna. Mikill heiður þykir fyrir viðkomandi að vera valinn til þátttöku. Jafnframt reynist hún hafa öflugt auglýsingagildi til langs tíma.
Trump hefur þegar haft samband við marga í hópi skærustu stjarna. Fram til þessa hefur hann farið bónleiður til búðar. - Þrátt fyrir boð um gull og græna skóga. Jafnvel setu í eftirsóttum embættum. Stemmningin er sú sama og þegar hver poppstjarnan á fætur annarri bannaði góðmenninu að spila lög þeirra á kosningafundum.
Örfáir tónlistarmenn könnuðust við að styðja forsetaframboð Trumps. Þeir hugsa sér nú gott til glóðarinnar. Vandamálið er að nöfn þeirra eru ekki af þeirri gráðu sem þörf er á. Kosningateymi Trumps gerir sér grein fyrir því að hljómleikarnir megi ekki samanstanda af þeim. Það væri hræðilega hallærisleg og niðurlægjandi staða.
Ein ljóstýra hefur kviknað. Lærð óperusöngkona, Jackie Evancho, upplýsti í gær að hún hafi þegið boð um að syngja á hljómleikunum. Hún varð þekkt fyrir sex árum vegna þátttöku og góðs gengis í vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, Americas Got Talent. Síðan hefur hún sungið jólalag og eitthvað fleira inn á plötu. Nafn hennar er á mörkum þess að vera nógu öflugt til að standa undir sólóhlutverki á hljómleikunum.
Jackie greindi frá því að hennar hlutverk verði að syngja lag með öðrum lærðum óperusöngvara. Sá heitir Bocelli. Frá honum hefur hinsvegar hvorki heyrst hósti né tíst um það hvort að hann sé tilkippilegur.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.12.2016 | 18:06
Svakalegustu íslensku hljómsveitanöfnin
Mér var bent á ansi skemmtilega samantekt yfir - eða kosningu um - þau íslensk hljómsveitanöfn sem hafa sjokkerað mest og flesta rækilegast. Áhugavert. Samt ekkert svo svakalegt. Frekar að þessi nöfn séu grallaraleg. Listinn ku hafa verið tekinn saman fyrir tíu árum, 2006, á spjallþræðinum www.live2cruize. Ég veit ekkert hvaða fyrirbæri það er. Mér var vísað á að listinn hafi verið endurbirtur á www.menn.is. Þar fann ég hann.
Þó að listinn sé tíu ára gamall þá kemur það ekki að sök. Engin ný hljómsveitanöfn hafa komið fram á síðustu árum sem sjokkera.
Efst hér er ljúft myndband með hljómsveitinni frábæru Sjálfsfróun (nafn nr. 6)
3. Bruni BB (Bruni Bjarna Benedikstssonar)
4. VBV (Vinstra brjóst Vigdísar)
7. Æla Ég held að þessi ágæta hljómsveit sé enn starfandi í Keflavík.
12. Hölt hóra (Hölt hóra með kúk á brjóstunum)
14. Nefrennsli Þekktust fyrir að bassaleikarinn var Jón Gnarr.
16. Rotþróin Ég hélt að nafn þessarar húsvísku hljómsveitar væri án ákveðins greinis. Nafnið sé Rotþró. Mig minnir að ég eigi eitthvað með þeim á kassettu.
Atli Fannar með Haltri hóru - áður en sú hljómsveit breyttist í Ingó & Veðurguðina. Sjaldan hefur góð hljómsveit tekið jafn afgerandi kollhnís aftur á bak á versta veg.
Tónlist | Breytt 7.12.2017 kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2016 | 19:37
Ný plata
Einn margra skemmtilegra fastra þátta á Útvarpi Sögu er "Meindýr og varnir". Þar fer Guðmundur Óli Scheving á kostum. Á auðskilinn hátt fræðir hann um allskonar pöddur, svo sem silfurskottur og veggjalýs. Líka rottur og myglusvepp. Fróðleikinn kryddar hann með gamansemi, skemmtisögum og frumsaminni tónlist. Frábærir þættir.
Að undanförnu hef ég verið að hlusta á tvær hljómplötur Guðmundar Óla. Listamannsnafn hans er Góli (stytting og samsláttur á nöfnunum Guðmundur Óli). Plöturnar heita "Sporin í sálinni" og "Spegillinn í sálinni". Sú fyrrnefnda kom út 2014. Hin 2015.
Töluverður munur er á þeim. Sú fyrri er hrárri og einfaldari í alla staði. Undirleikur er að uppistöðu til kassagítar. Ýmist plokkaður eða sleginn. Músíkina má skilgreina sem vísnasöngva eða þjóðlagatónlist (á ensku "folk"). Á hinni er meiri hljómsveitarbragur og popptónlist: Með hljómborðum, bassa og trommum. Jafnframt er meira lagt í útsetningar. Jafnvel svo mjög að þær lyfta vel undir lögin. Dæmi um það er bjöllukennt hljómborð í viðlagi "Þú ert mín ást". Hljómurinn (sándið) er sömuleiðis hreinni og tærari.
Öll lögin eru frumsamin. Þau eru aldeilis ágæt. Mörg hver grípandi og öll vel söngræn. Einföld og notaleg. Ég veit ekki hvort að ég meti það rétt en mér finnst eins og laglínur seinni plötunnar flæði liprar og áreynslulausar. Kannski vegna útsetninga. Kannski vegna þess að þar er meira kántrý.
Textarnir/ljóðin gefa tónlistinni drjúga vigt. Eru safaríkt fóður út af fyrir sig. Unun á að hlýða. Þeir/þau eru mörg sótt í smiðju úrvalsljóða Davíðs Stefánssonar, Steins Steinarr, Tómasar Guðmundssonar, Arnar Arnarssonar, Hannesar Hafsteins, Vilhjálms frá Skáholti og sjálfan margverðlaunaðan Guðmund Brynjólfsson. Í bland eru frumsamin ljóð.
Á "Speglinum í sálinni" er þetta ljómandi jólalag sem heyra má hér fyrir neðan.
Flottar plötur. Nú er komin út ný plata fá Góla. Hún heitir "Hvíslið í sálinni".
Tónlist | Breytt 16.12.2016 kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2016 | 18:48
Hneyksli ársins
Á dögunum fór allt á hliðina í Færeyjum. Samfélagsmiðlarnir loguðu: Fésbók, bloggsíður og athugasemdakerfi netmiðla fylltust af fordæmingum og undrun á ósvífni sem á sér enga hliðstæðu í Færeyjum. Umfjöllun um hneykslið var forsíðufrétt, uppsláttur í eina dagblaði Færeyja, Sósíalnum. Opnugrein gerði hneykslinu skil í vandaðri fréttaskýringu.
Grandvar maður sem má ekki vamm sitt vita, Gunnar Hjelm, lagði í stæði fyrir fatlaða. Hann er ófatlaður. Hann vinnur á sjúkraflutningabíl og hefur hreina sakaskrá.
Hann brá sér í bíó. Að því loknu lagði hann bíl í svartamyrkri og snjóföl í bílastæði. Hann varð þess ekki var að á malbikinu var stæðið merkt fötluðum. Ljósmynd af bíl hans í stæðinu komst í umferð á samfélagsmiðlum. Þetta var nýtt og óvænt. Annað eins brot hefur aldrei áður komið upp í Færeyjum. Viðbrögðin voru eftir því. Svona gera Færeyingar ekki. Aldrei. Og mega aldrei gera.
Gunnari Hjelm var eðlilega illa brugðið. Fyrir það fyrsta að uppgötva að stæðið væri ætlað fötluðum. Í öðru lagi vegna heiftarlegra viðbragða almennings. Hann var hrakyrtur, borinn út, hæddur og smánaður. Hann er eðlilega miður sín. Sem og allir hans ættingjar og vinir. Skömmin nær yfir stórfjölskylduna til fjórða ættliðar.
Svona óskammfeilinn glæpur verður ekki aftur framinn í Færeyjum næstu ár. Svo mikið er víst.
Löggæsla | Breytt 10.12.2016 kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2016 | 10:37
Jólaskip
Sinn er siður í landi hverju. Það kemur glöggt í ljós varðandi siði tengdum sólrisuhátíðinni jólum, hátíð ljóss og friðar. Jólasveinar leika stórt hlutverk ásamt ljósaskreytingum. Íslendingar búa svo vel að eiga þrettán nafnkennda jólasveina, svo og ófrýnilega foreldra þeirra, Grýlu og Leppalúða. Jólakötturinn er á hröðu undanhaldi. Kannski blessunarlega. Skepna sem étur börn er óvelkomin.
Erlendis er jólasveinninn iðulega skilgreindur með ákveðnum greini. Hann er einn. Hann er jólasveinninn. Oft nýtur hann liðsinni hjálpsamra jólaálfa, svokallaðra nissa. Þeir setja til að mynda glaðning í skóinn.
Það skrýtna er að þrátt fyrir að jólasveinninn í útlandinu sé aðeins einn þá má engu að síður rekast á fjölda slíkra sveina samankomna á einum stað. Það er ruglingslegt. Eða hvað? Skemmtilegt, jú.
Þannig er það í Færeyjum. Einn jólasveinn og margir nissar. Líka samt margir jólasveinar. Um og upp undir miðjan desember sigla ljósum prýddir bátar í höfn í þorpum. Um borð eru margir kátir jólasveinar. Þeir gleðja börnin með söng og og leik og nammi. Þetta mættu íslenskir jólasveinar taka upp.
![]() |
Geislaskreytingar færast í aukana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2016 | 11:18
Vinyllinn slær í gegn
Geisladiskurinn kom á markað á níunda áratugnum. Hann náði eldsnöggt að leggja undir sig plötumarkaðinn. Vinylplatan hrökklaðist út í horn og lyppaðist þar niður. Einnig kassettan. Framan af þráuðust ráðamenn í tónlistariðnaðinum í Bandaríkjum Norður-Ameríku við. Neituðu að taka þátt í geisladisksvæðingunni. Rökin voru ágæt. Ótti við að sala á tónlist myndi hrynja við innkomu disksins.
Annarsvegar vegna þess að tilfinningin fyrir því að halda á geisladisk væri lítilfjörleg í samanburði við að halda á 12" vinylplötu. Geisladiskurinn er aðeins fjórðungur af stærð vinylplötunnar. Textinn hálf ólæsilega smár. Myndefni ræfilslega smátt.
Hinsvegar var og er hljómplatan vinsæl gjafavara. Vinylplatan var og er í veglegri stærð. Myndarlegur pakki. Til samanburðar er geisladiskurinn aumari en flest annað. Minni en bók til dæmis að taka. Disknum er troðið í vasa.
Þegar Kaninn gafst upp fyrir þrýstingi - seint og síðar meir - og hleypti disknum inn á markaðinn þá brá hann á snjallt ráð: Pakkaði disknum inn í glæsilegan og myndskreyttan pappahólk af sömu hæð og umslag vinylplötu og þrefalt þykkri. Þetta virkaði. En fjaraði út hægt og bítandi. Markaðurinn vandist disknum og pappahólkurinn var einnota.
Með tilkomu tónlistar á netinu, USB-lykilsins, niðurhals og allskonar hefur diskurinn hopað hraðar en Grænlandsjökull. Á sama tíma hefur vinyllinn sótt í sig veðrið. Ástríðufullir tónlistarunnendur upplifa gömlu góðu tilfinninguna við að handleika 12" hlunkinn; vanda sig við að setja grammafónnálina niður á réttan stað á plötunni; skynja plötuna í aðgreindri hlið 1 og hlið 2; standa upp og snúa plötunni við. Það er alvöru skemmtun.
Nú er svo komið að á Bretlandi er sala á vinyl orðin stærri en niðurhal tónlistar. Hvergi sér fyrir enda á þeirri þróun. Vinylplötuspilarar seljast eins og heitar lummur. Plötubúðir eru aftur orðnar að gömlu góðu hljómplötubúðunum.
![]() |
Vínyll vinsæll í Bretlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2016 | 08:41
Að tala skýrt með tungum tveim
Löngum hefur háð Íslendingum að tala óskýrt um hlutina. Reglugerðir og lög eru loðin og óljós. Fróðasta fólk er í vandræðum með að átta sig á þeim. Fyrir bragðið einkennast samskipti af ágreiningi.
Nýjasta dæmið er bankabrask hæstaréttardómara. Þeir dæmdu á færibandi bankanum í vil í hverju málinu á fætur öðru. Bankanum sem þeir áttu sjálfir hlut í. Sumir telja að þarna hafi verið um grófa hagsmunaárekstra að ræða. Hæstaréttardómarar eru því ósammála. Þvert á móti. Þetta auðveldaði þeim í stöðunni. Þeir sáu málið frá báðum hliðum á meðan þeir sátu beggja vegna borðsins.
Þessu er öfugt farið í sjávarútvegi á Austurland. Þar tala menn skýrt. Þegar útgerðarmaður segir við hafnarvörð: "Drullaðu þér í burtu!" þá fer ekkert á milli mála hvað það þýðir. Hann vill að hafnarvörðurinn fari eitthvað annað. Þegar hann síðan fylgir málinu eftir með því að dúndra bumbunni í hafnarvörðinn er það ítrekun á fyrirmælunum.
Léttvægur ágreiningur vitna er um það hvort að upp úr útgerðarmanninum hrökk um leið: "Ég drep þig, ég drep þig!" Eða hvort að hann sagði aðeins einu sinni: "Ég drep þig!" - ef hann sagði það á annað borð. Hvort heldur sem er þá hefur hafnarvörðurinn sofið á bak við harðlæstar eftir þetta. Til öryggis.
Það var auðvelt fyrir héraðsdómara að komast að niðurstöðu í málinu. Þrátt fyrir að menn greini á um það hvort að hafnarverðinum hafi stafað ógn af framkomu útgerðarmannsins eða mikil ógn. Til refslækkunnar var metið að hann bað hafnarvörðinn afsökunar síðar sama dag. Hæfileg refsing er mánaðardvöl í fangelsi sem kemur ekki til fullnustu ef kauði heldur sig á mottunni í tvö ár. Ef hann hefði ekki beðist afsökunar fyrr en daginn eftir er ljóst að dómur væri þyngri.
![]() |
Dæmdur fyrir að hóta hafnarverði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2016 | 16:28
Aðgát skal höfð
Á níunda áratugnum voru gjaldeyrishöft við líði á Íslandi. Eins og stundum áður. Forstjóri stórs ríkisfyrirtækis náði með "lagni" að komast yfir erlendan gjaldeyri, töluverða upphæð. Á núvirði sennilega um 20 - 30 milljónir. Veruleg hjálp við söfnunina var að karl seldi vörur úr fyrirtækinu undir borði. Peningurinn fór óskiptur í hans vasa.
Eftir krókaleiðum komst hann í samband við íslenskan mann sem gat selt honum hús á Spáni. Allt svart og sykurlaust. Ekkert mál. Húseignin hvergi skráð hérlendis.
Áður en gengið var frá kaupunum flaug sölumaðurinn með hann til Spánar í einkaflugvél. Hann flaug niður að húsinu eins nálægt og við var komist og hringi umhverfis það. Einnig sýndi hann kaupandanum ljósmyndir af húsinu innan dyra.
Þegar heim var komið var gengið frá kaupunum. Kaupandinn fékk lykla og pappíra á spænsku (sem hann kunni ekki), afsal, staðfestingu á að húsið væri hans eign.
Skömmu síðar hélt kaupandinn í sumarfrí til Spánar. Þá kom í ljós að uppgefið heimilisfang var ekki til. Hann hafði verið plataður.
Þungur á brún hélt hann heim á ný. Hann hafði þegar í stað samband við seljandann. Þá brá svo við að sá var hortugur. Hvatti hann til þess að fara með málið til lögreglunnar. Leggja spilin á borðið. Upplýsa hvernig hann komst yfir gjaldeyri og hvernig átti að fela hann í fasteign í útlöndum.
Það var ekki góður kostur í stöðunni. Það eina sem hann gat gert var að fara - nafnlaus - með söguna til DV. Vara aðra við að lenda í því sama.
Fyrir nokkrum árum hitti ég seljandann. Hann sagðist hafa verið dáldið að fá sér í glas á þessu tímabili. Þetta var fyrir daga bjórsins. Sterkt vín fór illa í hann. Gerði hann kærulausan og espaði upp í honum hrekkjalóm.
![]() |
Lögreglan varar við íbúðasvindli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 27.9.2017 kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.12.2016 | 16:06
Móðursýkiskast vikunnar
Kanínur eru krútt. Vinsæl krútt. Þær eru frjósemistákn. Á frjósemishátíðinni miklu, Páskum, leikur kanínan stórt hlutverk - í bland við önnur frjósemistákn, svo sem egg og hænsnaunga. Súkkulaðikanínur eru í mörgum þjóðfélögum vinsælli en súkkulaðiegg. Einhverra hluta vegna eru páskaeggin hinsvegar allsráðandi hérlendis. Kannski af því að Nóa-eggin eru svo vel heppnuð. Kannski af því að kanínan er sjaldséð á Íslandi.
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku og víðar er kanínan tengd kynþokka. Þegar konur setja sig í eggjandi stellingar er algengt að kanínueyru séu spennt á höfuð.
Þvers og kruss um heim eru svokallaðir Playboy næturklúbbar, Allt frá Japan til Jamaíka. Flestir í Bandaríkjunum. Léttklæddar dömur sem vinna þar kallast Playboy-kanínur. Þær bera kanínueyru á höfði.
Í Bandaríkjunum hefur löngum tíðkast að mynda með vísifingri og löngutöng kanínueyru fyrir aftan höfuð þess sem stendur fyrir framan mann. Í sumum tilfellum hefur þetta kynferðislegan undirtón. Par gerir þetta gjarna í tilhugalífi. Gerandi vísar til þess að hinn aðilinn sé kanínan sín. Verra er að í sumum kreðsum táknar þetta ásökun um framhjáhald. Spurning hvort að það eigi við á myndinni hér fyrir neðan af Bush eldri að merkja kellu sína með kanínueyrum.
Algengasta túlkunin er sú að þetta sé saklaust vinabragð án kynferðislegs undirtóns. Einskonar gleðilæti sem sýna að vinátta viðkomandi sé komin á það stig að hún leyfi gáska og sprell. Í Bandaríkjunum er hefð fyrir því að vinir forsetans galsist á þennan hátt á myndum með honum.
Í gær lögðust samfélagsmiðar á Íslandi á hliðina. Ástæðan var sú að forseti Íslands og þingkona brugðu á leik. Hún gaf honum kanínueyru. Það var sætt. Besta framlag Pírata til stjórnmála frá kosningum. Meira þurfti þó ekki til að virkir í "kommentakerfum" netmiðla og vanstilltir á Fésbók fengju móðursýkiskast (vont orð) og blóðnasir. Fyrst móðguðust þeir fyrir hönd Guðna. Mest móðguðust þeir sem fyrir forsetakosningar ötuðu Guðna auri. Nú var hann orðinn heilagur forseti þeirra og þingkonan ófyrirleitin geimvera. Hún var sökuð um landráð og kölluð öllum illum nöfnum. Ötuð tjöru og fiðri.
Fljótlega var upplýst að Guðni hefði tekið viljugur þátt í gamninu. Mynd af honum í samskonar leik með eiginkonu sinni komst í umferð. Þá hljóðnaði móðgaða hjörðin og laumaði heykvíslunum aftur fyrir bak. Tók andköf og er enn að jafna sig - fyrir næsta flogakast.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2016 | 10:17
Eggjahræra
Uppskriftin er fyrir fjóra. Hún miðast við að eggjahræran sé ein í boði. Það er að segja ekki hluti af hefðbundnum enskum eða skoskum morgunverði ásamt pylsum, beikonstrimlum, bökuðum baunum, grilluðum tómatsneiðum, steiktum sveppum, ristuðu brauði og einhverju svoleiðis.
Heppilegast er að vera með fjórar pönnur.
12 brúnegg
160 gr beikonkurl
160 ml rjómi
Rammíslenskt smjör
salt og pipar
4 flöskur af kældu hvítvíni
Beikonkurlið er léttsteikt á einni pönnu. Á meðan eru eggin skrúbbuð hátt og lágt (til að ná af þeim músaeitrinu). Að því loknu er skurnin brotin og innihaldið látið gusast ofan í djúpa glerskál. Rjómanum er hellt út í. Beikonkurlinu er sturtað með.
Áður en þessu er hrært vandlega saman skal vænni smjörklípu skellt með látum á hverja pönnu. Nægilega stórri til að hún komi til með að fljóta yfir allan pönnubotninn. Pönnurnar eru látnar volgna. Þegar smjörið hefur bráðnað er hrærunni hellt yfir pönnurnar. Örlítið er skerpt á hitanum. Samt ekki mikið. Salti og pipar er stráð yfir. Bara smá. Fylgist spennt með hrærunni steikjast. Áður en hún nær að steikjast í gegn er slökkt undir pönnunum. Síðan er tekið til við að þamba hvítvínið á meðan hræran fullsteikist. Að því loknu er hún tilbúin. Þá verður kátt í kotinu.
![]() |
Hanga á Facebook-síðum almennings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.11.2016 | 19:11
Gróft dýraníð
Mikið lifandi skelfingar ósköp sem var óhugnanlegt að fylgjast með aðförum Sea Shepherd-liða í Færeyjum í fyrrasumar og sumarið þar áður. Steininn tók úr þegar þeir reyndu að kenna marsvínum að kafa undir báta Færeyinga er þeim var smalað upp í fjöru. Til að koma dýrunum í skilning um að þau ættu að kafa þá sigldu SS-liðar ofan á þau. Við það ristu bátskrúfurnar djúpa skurði í hold hvalanna. Þeir öskruðu af gríðarmiklum sársauka. Ekki tók betra við þegar saltaður sjórinn nuddaði salti í sárin. Þeir skildu hvorki upp né niður í þessu sadíska dýraníði. Ekki ég heldur.
![]() |
Sea Shepherd-liði dæmdur fyrir dýraníð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.11.2016 | 23:33
Hugmyndafræði pönksins
Pönkbyltingin á seinni hluta áttunda áratugarins var uppreisn gegn ráðandi öflum í dægurlagaiðnaðinum: Plöturisunum, umboðsmönnum sem stýrðu dæminu, stóru prog-hljómsveitunum, þreytta hippaliðinu með löngu gítarsólóin, taktskiptingar og svo framvegis. Pönkið var afturhvarf til einfalda rokksins. Líka áskorun til þess að rokkarar "kýldu á það", gerðu hlutina sjálfir (Do-It-Yourself). Allir máttu vera með: Að gera þó að eitthvað vantaði upp á að geta. Það útilokaði samt ekki flinka tónlistarmenn frá því að vera með. Allir máttu vera með.
Ég set spurningamerki við það að njörva pönkið niður í bás hugmyndafræðinnar. Pönkið táknar frelsi. Frelsi til að gera það sem þér dettur í hug. Vera þátttakandi í pönki án þess að þurfa að uppfylla alla reiti uppskriftar pönksins.
Það er ekkert nema gaman að sonur þeirra sem hönnuðu pönkið, Malcolms McLarens og Viviennar, skuli gera róttæka uppreisn gegn fortíðarhyggju gagnvart pönki. Allt svona mætir mótsögn. Þetta beinir athygli að pönki og rifjar upp pönkbyltinguna. Gróflega.
Eftir stendur að fátt er skemmtilegra en pönk. Það er góð skemmtun.
![]() |
Alvöru pönk hér á ferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2016 | 21:26
Aukasýning - aðeins í þetta eina skipti!
Nýverið kom út ný heimildarmynd um Bítlana, "Eight Days a Week". Í henni er fjöldi viðtala, m.a. við alla liðsmenn. Þar á meðal ný viðtöl við Paul McCartney, Ringo Starr og samstarfsmenn. Einnig áður óbirt viðtöl við John Lennon og George Harrison. Myndin dregur upp áhugaverða og skýra drætti af því hvaða áhrif velgengnin og síðan ofurfrægðin hefur á sálarlíf þeirra og þroska.
Að sjálfsögðu skipar tónlistin háan sess.
Sem kunnugt er komu öskur í áheyrendum iðulega illa niður á hljómleikaupptökum með Bítlunum. Hljóðkerfi sjöunda áratugarins voru ekki nógu öflug til að yfirgnæfa öskrin. Einmitt þess vegna gáfust Bítlarnir upp á hljómleikahaldi 1966. Þeir heyrðu ekki í sjálfum sér.
Með nýjustu stafrænu tækni tókst framleiðendum myndarinnar að dempa svo mjög niður áheyrendaöskrin að tónlistin heyrist hvellskýr. Við það opinberast Bítlaunnendum nýr heimur.
Myndin hefur hvarvetna hlotið einróma lof, jafnt gagnrýnenda sem almennings. Í Rotten Tomatoes fær hún meðaleinkunnina 95% (af 100).
Á morgun, sunnudaginn 27.nóv, er aukasýning á myndinni í Háskólabíói klukkan 18.00. Aðeins i þetta eina sinn. DVD útgáfa er ekki í sjónmáli vegna þess að höfundarrréttarsamningar fóru í hnút. Þar fyrir utan er meiriháttar upplifun að heyra tónlistina í hæstu hljómgæðum. Það er nánast eins og að sitja hljómleika með Bítlunum.
Aukasýningin er hvergi auglýst sérstaklega. Vinsamlegast deilið þessum upplýsingum á Fésbók og bloggi.
Tónlist | Breytt 27.11.2016 kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2016 | 16:14
Hjarðeðli Íslendingsins
Það þarf ekki mikið til að æra óstöðugan; breyta annars dagfarsprúðum og óframfærnum Íslendingi í villidýr. Öskrandi villidýr sem veit ekki í þennan heim né annan. Stjórnast af hjarðeðlinu einu.
Ef auglýst er að á morgun eða næsta dag verði verslun opnuð þá dettur landinn í hjarðeðlið. Hann hleypur eins hratt og fætur togar að versluninni og stillir sér upp í röð. Röð sem stækkar jafnt og þétt allt kvöldið og alla nóttina. Það sér hvergi fyrir enda á henni þegar búðin er opnuð um morguninn.
Það skiptir ekki máli hvort að í versluninni séu seld leikföng eða kleinuhringir eða skrúfjárn.
Nú eru íslenskar búðarlokur farnar að afgreiða töðugjöld (þeldökkur fössari. Á ensku "Black friday" vegna þess að hjörðin lendir í black-out) á sama hátt. Kitla hjarðeðli landans með sama árangri. Þetta er skemmtilegt. Einna mestur troðningur varð í búðarholu í Hafnarfirði sem bauð 7% afslátt á sprittkertum (samt voru þau miklu dýrari en í Ikea). Fólki er ekki sjálfrátt. En fær adrenalínbombu. Hún skilur eftir sig vellíðan. Það besta er að hún er vanabindandi.
![]() |
Vefur Elko hrundi vegna álags |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt 26.11.2016 kl. 06:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.11.2016 | 19:07
Lestrarkunnátta Trumps
Blíðmennið Dóni Trump hefur góða tilfinningu fyrir því sem hvítir kjósendur í Bandaríkjum Norður-Ameríku vilja heyra forsetaframbjóðanda segja. Hann er sömuleiðis næmur á að tala í einföldum texta sem smellpassar í fyrirsagnir dagblaða, netmiðla og sem fyrsta frétt í fréttatímum ljósvakamiðla.
Þetta er ástæðan fyrir því að hann vantar ekki nema tvær milljónir atkvæða til að komast upp að hlið Hildiríðar Clinton, keppinautar hans um embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Hugsanlega hjálpuðu rússneskir tölvuhakkarar og Julian Assange. Það er sama hvaðan góður liðsauki berst. Menn geta alltaf á sig blómum bætt.
Hitt er verra að Dóni Trump er ólæs á tónlistardeildina. Þar á bæ nýtur hann því sem næst einskis stuðnings. Jú, reyndar studdi rapparinn Kenya West framboð hans. En hafði ekki rænu á að kjósa hann. Fárveikur andlega.
Frá fyrstu kosningafundum Trumps varð honum fótaskortur á vali á baráttusöngvum framboðsins. Fram til þessa dags hefur hann neyðst til að skipta út baráttusöngvum vegna mótmæla höfunda og flytjenda. Þrátt fyrir að margir þeirra hafi verið í hans vinahópi. En reyndar flestir ekki í hans vinahópi. Frekar í hópi andstæðinga hans.
Meðal þeirra sem mótmæltu notkun Trumps á söngvum þeirra má nefna Njál Unga, R.E.M., The Rolling Stones, Aerosmith, Queen, Adela...Ég er að gleyma mörgum. Eins og gengur. Ótal fleiri heimsfrægir tónlistarmenn önduðu og anda köldu að Dóna. Allt frá Páli McCartney til Madonnu.
Þegar nýr forseti er settur formlega í embætti Bandaríkjaforseta þá er mikið húllumhæ. Tónlist skipar hæsta sess í hátíðarhöldunum. Þetta eru jafnan meiriháttar hljómleikar með mörgum stærstu tónlistarnöfnum heims. Spurning er hvernig Dóni afgreiðir dæmið. Fyrsta nafn sem opinberað var við innsetningarhátíð hans var breska tónlistarmannsins Eltons Johns. Það átti að undirstrika jákvæð viðhorf Dóna til samkynhneigðra. Elton var snöggur að "beila". Hann vill ekkert með Dóna að gera.
Hvað með hægri-jaðar-frjálshyggjurokkarann Mojo Nixon?
![]() |
Elton John mun ekki spila fyrir Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 25.11.2016 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.11.2016 | 11:13
Leyndarmál Bowies
Breski fjöllistamaðurinn Davíð Bowie var um margt sérkennilegur náungi. Það er að segja fór ekki alltaf fyrirsjáanlega slóða. Opinskár um sumt en dularfullur um annað. Hann féll frá fyrr á þessu ári. Varð krabbameini að bráð. Þrátt fyrir vitneskju um um dauðadóm sinn sagði hann engum frá. Þess í stað hljóðritaði hann í kyrrþey plötu, Blackstar, með djasstónlistarmönnum. Platan kom út í kjölfar dauða hans. Flott plata. Um margt ólík fyrri plötum hans.
Aðdáendur kappans fóru þegar að lesa út úr textum plötunnar ýmis skilaboð. Hann var ekki vanur að kveða þannig. Það skiptir ekki máli. Vitandi um dauðdaga sinn hugsar manneskjan öðruvísi en áður.
Nú hefur komið í ljós að umbúðir plötunnar eru margræðari en halda má í fljótu bragði. Ef umslagið er skoðað frá hlið í tiltekinni birtu sést móta fyrir mynd af vetrarbrautinni. Ef ljós fellur á sérstakan hátt á sjálfa vínylplötuna þá varpar hún stjörnu á nálægan vegg.
Með því að telja og leggja saman stjörnur í plötubæklingi, blaðsíðutal og eitthvað svoleiðis má fá út fæðingarár Bowies, ´47 (blaðsíðutal blaðsíða með mynd af stjörnu), og aldur á dánardægri, 69.
Sumir teygja sig nokkuð langt í að lesa út úr plötuumbúðunum. Einhverjir telja sig sjá augu Bowies þegar stjörnurnar eru speglaðar til hálfs.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)