Færsluflokkur: Bækur
12.4.2010 | 02:07
Smásaga um þjón
Bækur | Breytt 17.4.2010 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
31.3.2010 | 02:59
Gamli einbúinn - páskasaga
Gamli einbúinn á afskekkta afdalabýlinu er einn. Alltaf einn. Það eru næstum fjórir áratugir síðan hann bauð eiginkonu sinni og börnum síðast í heimsókn. Hann hefur ekkert heyrt frá þeim síðan. Reyndar heyrði hann ekki í þeim þá. Hann var uppi á fjöllum að eltast við ísbirni allan tímann sem þau voru í heimsókn. Hann fann engan ísbjörn og engin merki þess að ísbjörn hafi verið uppi á fjöllum.
Bækur | Breytt 17.4.2010 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
26.3.2010 | 12:50
Sprengja á bókamarkaði
Í dag kom út bókin Ekki lita út fyrir eftir Evu Hauksdóttur og Ingólf Júlíusson. Eva er þekkt sem Eva norn. Sumir telja að þá nafngift megi rekja til nornabúðar sem hún rak fram í miðja búsáhaldabyltingu. Eva var einmitt áberandi í búsáhaldabyltingunni. Ingólfur Júlíusson er þekktastur sem gítarleikari pönksveitarinnar Q4U. Hann er líka kunnur sem ljósmyndari hinna ýmsu dagblaða og tímarita og höfundur margra heimsfrægra músíkmyndbanda.
Bókin Ekki lita út fyrir mun koma margri settlegri manneskjunni til að hrökkva við. Jafnvel illilega. Meira segi ég ekki. Nema að Eva ætlar ekki að fjölmenna með mér í feministafélag Sjálfstæðisflokksins.
Hér fyrir neðan er eitt af músíkmyndböndunum hans Ingólf Júlíussonar:
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
10.2.2010 | 23:19
Smásaga um systur í sjávarþorpi
Myrkrið grúfir sig yfir litla sjávarþorpið hinumegin við fjallið. Allir þorpsbúar eru í fasta svefni. Samt er miður dagur. Komið langt fram yfir hádegi. Þorpsbúar hafa ruglað sólarhringnum. Ástæðan er sú að stóra útiklukkan á eina torgi þorpsins er vitlaus. Þorpsbúar stilla grunlausir sín úr og klukkur eftir torgklukkunni.
Það styttist í að þorpsbúar vakni. Í lágreistu timburhúsi býr gömul kona með sjal ásamt manni sínum og þremur dætrum. Þorpsbúar gera enga athugasemd við það. Systurnar eru ekki í neinni vinnu og eru tekjulausar. Foreldrarnir eru í vinnu, hafa þokkalegar tekjur og eiga húsið skuldlaust.
Systurnar vakna ein af annarri. Þær heita ekki neitt. Þess í stað eru þær kallaðar: Sú elsta. Hún er 7 ára; Miðsystirin. Hún er 6 ára; Og Yngsta barnið. Hún er 5 ára. Foreldrarnir eru kallaðir Pabbi og Mamma en heita Pétur og Páll. Foreldrarnir vakna líka.
Þegar fjölskyldan er í miðju kafi við að snæða smjörsteiktan hvítlauksristaðan humar með nýlöguðu og heitu Irish Coffie segir Mamma skyndilega skrækrómuð og taugaveikluð: "Stelpur, þið hafið kannski tekið eftir því að ég hef fitnað að undanförnu."
Yngsta barnið kannast við það og segir ávítandi: "Það er af því að þú drekkur mikið af bjór þegar enginn sér. Allir krakkarnir í leikskólanum segja að þú skolir honum niður með Einiberja-brennivíni og 8 ára Bacardi."
Mamma leiðréttir hana: "Nei, ég hef aldrei á ævi minni bragðað bjór eða neitt áfengi. Áfengi er óhollt. Ég sprauta mig bara einstaka sinnum með heróíni. Varla einu sinni tvisvar á dag. Ástæðan fyrir því að ég er orðin mikil um mig miðja er sú að ég er með barn í maganum. Ég veit ekki hvernig það hefur gerst. Læknirinn staðfesti þetta í gær og grunar Pabba um að hafa verið eitthvað að fíflast. Þið eruð að eignast nýtt Yngsta barn."
Yngsta barnið fölnar upp, fer að hágráta og spyr á milli ekkasoga: "Nýtt Yngsta barn? Hvað verður þá um mig?"
Mamma dæsir og segir sorgmædd og róandi: "Það þýðir að við verðum að henda þér í ruslið."
Pabbi grípur fram í blíðróma en ákveðinn: "Nei, elskan mín. Mamma er að bulla og dramatísera. Þér verður ekki hent í ruslatunnuna. Ég set þig í poka og hendi þér í sjóinn." Og það gerði hann.
Bækur | Breytt 31.3.2010 kl. 03:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.2.2010 | 12:07
Sprengja!
Væntanleg er á markað bókin Ekki lita út fyrir. Þetta er sjálfshjálparbók eftir Evu "norn" og Ingólf Júlíusson, ljósmyndara. Bókin er sú opinskáasta / klúrasta sem komið hefur út á Íslandi. Það er næsta víst að ýmsir muni hrökkva við. Hér eru sýnishorn úr bókinni. Þau eru valin þannig að ekki þurfi að banna þessa bloggsíðu lesendum undir 18 ára aldri.
Kynlífsbindindisfræðsla virkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.1.2010 | 20:53
Jólasaga
Klukkan slær 6 á aðfangadag. Klukkurnar í Hallgrímskirkju, við hliðina á litla kotinu, hringja inn jólin. Jón og Gunna fálma snöggt í vasa sína, draga upp tappa og setja í eyrun á sér. Þegar hávaðinn er liðinn hjá taka þau tappana úr eyrunum og setjast við matarborðið. Jólamaturinn er girnilegur á að líta: Kalt hangikjöt, kartöflur og uppstúf. Betri gerist hann ekki maturinn í litla kotinu. Reyndar er hangikjötið ekki raunverulegt hangikjöt. Jón og Gunna eiga ekki til pening fyrir hangikjöti. Þess í stað klippti Gunna út úr dagblöðunum ljósmyndir af hangikjöti. Það kemur eiginlega í sama stað niður. Myndirnar eru skýrar og snyrtilega útklipptar. Þar fyrir utan er nóg til af kartöflum og uppstúf.
Bækur | Breytt 10.2.2010 kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
23.12.2009 | 15:55
Útdráttur úr bókinni Allir í leik - annar hluti
Í gær birti ég útdrátt úr bókinni frábæru Allir í leik eftir Unu Margréti Jónsdóttur. Það vakti svo mikla lukku að ég get ekki annað gert en birta meira. Enda er það bara gaman.
Erlendis hafa sippleikir tíðkast lengur en hér og þar hefur verið algengt að fara með rím eða taktfastan texta um leið og sippað var, t.d. er til bandarísk bók sem heitir 101 sipprím. Í samanburði við það er ekki um auðugan garð að gresja hér á landi því að ég hef aðeins fundið þessi tvö sipprím hér sem auk þess eru nauðalík eins og tvö erindi í sama kvæði. En það þýðir ekki að bera sig saman við stórþjóðir og íslensku sipprímin eru skemmtileg og sérstæð. Ég hef ekkert fundið líkt þeim hjá enskumælandi þjóðum.Mamma segir er enn mjög vinsæll leikur sem flestar litlar stelpur þekkja og líka margir strákar þótt þeir sippi sjaldnar. Seinna erindið, Amma segir, er ekki eins algengt, en það virðist hafa komið um svipað leyti og Mamma segir og ég man vel eftir því frá bernskuárum mínum 1970-80. Ég hef spurt Svend Nielsen, sem rannsakað hefur danska leikjasöngva, um sipprím í Danmörku, en hann kannaðist ekki við neitt slíkt þar. Í Færeyjum er hins vegar til mjög svipað sipprím og er það svohljóðandi:
Mamma rópar systir inn.
Tú skal fá ein slikkepind.
Kom so inn.
Pabbi rópar systir út.
Tú hefur brotið ein rút.
Kom so út.
(Mamma kallar á systu inn. Þú skalt fá sleikipinna, komdu inn. Pabbi kallar á systu út. Þú hefur brotið rúðu. Komdu út.)
Heimild: Stúlka og drengur í Færeyjum, fædd 1991 og 1994. Hljóðritað 2004 þegar þau voru 13 og 10 ára.
Færeyjar: Bamse, bamse
Texti: Höfundur ókunnur.
Bamse, bamse, løb nu ind.
Bamse, bamse, tag din sten.
Bamse, bamse, stræk dine arme.
Bamse, bamse, stræk dine ben.
Bamse, bamse, stræk dig ud.
Bamse bamse, tag din sten.
Bamse, bamse, løb nu ud.
(Bangsi, bangsi, hlauptu inn. Bangsi, bangsi, taktu upp steininn þinn. Bangsi, bangsi, teygðu úr handleggjunum. Bangsi, bangsi, teygðu úr fótunum. Bangsi, bangsi, teygðu úr þér. Bangsi, bangsi, taktu upp steininn þinn. Bangsi, bangsi, hlauptu út.)
Heimild: Stúlka og drengur (systkini) í Færeyjum, fædd 1991 og 1994. Hljóðritað í ágúst 2004 þegar þau voru 13 og 10 ára.
Í þessum snú-snú-leik, sem ég fann í Færeyjum, er barnið, sem hoppar, kallað bangsi og því er sagt að gera alls konar kúnstir um leið og það hoppar yfir snú-snú-bandið: teygja úr handleggjunum, taka upp stein og fleira slíkt. Leikurinn er ekki á færeysku heldur dönsku, en krakkarnir báru hann ekki fram með dönskum framburði, þetta er svokölluð götudanska, sögðu foreldrarnir mér. Leikurinn er líka til í Bandaríkjunum: Teddy Bear, Teddy Bear, og er þar mjög svipaður. Ég hef einnig séð hann í svissneskri leikjabók.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.12.2009 | 04:19
Útdráttur úr bókinni Allir í leik
Í gær sagði ég frá leikjabókinni bráðskemmtilegu Allir í leik eftir Unu Margréti Jónsdóttur (sjá síðustu færslu). Fólk er gríðarlega spennt fyrir þessari bók. Mér rennur blóðið til skyldunnar að gefa frekari sýn inn í bókina. Því miður hef ég ekki yfir "skanner" að ráða og af þeim gögnum sem ég kemst yfir í netheimum tekst mér ekki að afrita og skeyta nótur af laglínunni á meðfylgjandi lagi. En það er allt í lagi. Nóturnar eru í bókinni. Meðfylgjandi sýnishorni er fyrst og fremst ætlað að leyfa ykkur að sjá efnistök. Eftirfarandi er leikur sem Færeyingar syngja þegar vel liggur á þeim (til gamans má geta að Færeyingar geta ekki sagt orð sem byrjar á hr. Þess vegna tala þeir um ring þar sem átt er við hring):
Kráka situr á steini
Lag: Færeyskt þjóðlag. Texti: Höfundur ókunnur.
Heimild: Páll Danielsen, f. 1964, æskustöðvar Þórshöfn og Eiði, Færeyjum, og Vár B. Danielsen, f. 1965, alin upp
í Húsavík á Sandoy og í Þórshöfn. Einnig börn þeirra, Bára Berghamar Danielsen, f. 1991, og Ári Berghamar
Danielsen, f. 1991. Hljóðritað í Þórshöfn í Færeyjum sumarið 2004.
(Einnig Johannesen, bls. 90, og Alfagurt ljóðar mín tunga, bls. 74.)
.
Kráka situr á steini
hakkar í beinið
fyrsta var eitt pottabrot,
annað var eitt útskot í ringi,
triðja var ein rövari á tingi.
Nú skal (Bára) venda sær í ringi.
.
Þýðing: Kráka situr á steini, kroppar í beinið. Fyrst var brot úr potti. Annar var
auladansari (útskot ræfill; ringi færeyskur dans (hringur)). Þriðji var ræningi á
þingi. Nú skal (Bára) snúa sér í hringnum.
.
Þegar ég var á ferð í Færeyjum sumarið 2004 rakst ég á færeyskan dans: Kráka situr
á steini sem er í sama anda og Vindum, vindum, vefjum band, en allt annað lag
og texti. Færeysk fjölskylda dansaði hann fyrir mig í stofunni heima hjá sér. Hann er í
færeyskum þjóðdansastíl, en sá sem er nefndur á nafn í síðustu hendingunni snýr sér við.
Í lokin er sagt að nú skuli allir snúa sér við og er það gert.
Í færeyskri leikjabók má sjá að dans þessi var vinsæll meðal barnanna þar á árum
fyrri heimsstyrjaldar og hugsanlega fyrr.1)
. Ljóst er að textinn er gamall því í bók Jóns Samsonarsonar, Kvæði og dansleikir, kemur fram að hluti úr honum var notaður í íslenska þulu fyrr á öldum. Þulan er höfð eftir sr. Friðriki Eggerz (1802-1894) og brotið, sem líkist færeyska textanum, er á þessa leið:
Einn pottur var brotinn,
annar útskotinn,
þriðji var þar ryðgaður við síðu.
Og síðar segir:
Hvör er sá á þinginu sem bjóða skal? 2)
Tilvísanir:
1. Johannesen, bls. 90.
2. Jón Samsonarson I, bls. ccxvi-ccxvii. Vitnað er í handrit Lbs. 936 4to, bls. 316-317.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 19:05
Flottasta bókin á jólamarkaðnum
Ein lang flottasta bókin á jólamarkaðnum heitir Allir í leik. Í henni er lýst fjölda sunginni leikja og birtar nótur laglínanna. Þetta eru leikir sem ömmur og afar, mömmur og pabbar og börn eldri en sex ára þekkja. Óvíst er að allir þekki alla leikina. Þeim mun skemmtilegra er að læra þá. Nokkrir leikir eru frá Færeyjum og Grænlandi. Þeir eru frábærir. Það er Una Margrét Jónsdóttir sem safnaði leikjunum saman.
Þetta er bók sem passar flestum bókum betur í jólapakka handa fólki á öllum aldri yfir sex ára.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2009 | 19:35
Útdráttur úr skemmtilegri og fróðlegri bók - annar hluti
Í gær birti ég - með leyfi útgefanda - útdrátt úr bókinni Niðri á sextugu. Það vakti mikla ánægju. Enda sagan hressileg og gamansöm. Þess vegna er ekki um annað að ræða en halda áfram þar sem frá var horfið. Hér kemur annar hluti. Góða skemmtun!
Pillsburys Best
Ein af mergjuðustu Austragreinum Magnúsar Kjartanssonar í Þjóðviljanum á sinni tíð bar yfirskriftina Pillsburys Best. Kona ein, sem var á framboðslista Alþýðuflokksins við borgarstjórnarkosningar í Reykjavík, hafði ekki annað til saka unnið en að sigra í bökunarsamkeppni sem umboðsmaður Pillsburys Best hveitis hélt um þær mundir. Ritstjórinn ýjaði að því að slík manneskja, sem Pillsbury hafði heiðrað með hrærivél og hveitipoka í verðlaun, myndi sóma sér vel í borgarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn. Nú leyfðist þetta ekki nokkrum manni og mundi vera kölluð argasta karlremba sem það var náttúrlega.
Því er þessi inngangur hafður að vorið 1973 þegar Tryggvi Guðmundsson lögfræðingur kom í bjargið var hann með nýja hvippu sem amma hans, Bjargey Pétursdóttir fyrrum húsfreyja í Hælavík, hafði saumað um veturinn handa drengnum. Hvippan var skjannahvít, gerð úr hveitipoka frá Pillsburys Best. Í fyrstu ferð datt Tryggvi á afturendann í brekkunni undir fíringavírnum og braut flestöll eggin í hvippunni. En hvippan var pottþétt og hélt öllu gumsinu að fyglingnum.
Tryggvi varð allreiður, stóð upp, leysti af sér hvippuna og lét hana falla utan af sér með öllu saman. Hvippan lá þarna í brekkunni síðast þegar menn vitu til. Upp frá því klæddist Tryggvi nethvippunni og ekki voru höfð fleiri orð um hvippuna Pillsburys Best.
Kjöldregnar gallabuxur
Í annan tíma voru þeir félagar að koma úr bjargferð og bar fatnaður þeirra ljóst vitni um það, allur grútdrullugur og illa lyktandi. Á heimstíminu tekur Tryggvi eftir því að Kjartan er að bjástra við að setja festingar í strenginn á gallabuxum sínum og bindur síðan í snæri. Lokaði buxnaklaufinni vandlega og henti síðan buxunum fyrir borð. Dró þær svo nokkra hríð á eftir bátnum og þegar honum fannst nóg dregið innbyrti hann fatið.
En með því að eggjalögur, fugladrit og annar almennur skítur úr bjarginu er sterk blanda vildu buxurnar ekki hreinkast. Kjartan hugsaði sig lengi um en fór síðan niður í lúkar og hafði þá fest handsápu á stagið svona hálfum metra framan við buxurnar. Var nú kastað aftur og buxurnar kjöldregnar inn allt Ísafjarðardjúp og inn undir höfn á Ísafirði. Voru þær þá orðnar tandurhreinar því handsápan hafði myndað löður sem gekk gegnum flíkina. Sáu menn nú fyrir sér að lítið yrði að gera fyrir þvottavélar á flotanum þar sem ný aðferð hafði verið fundin upp til að vaska gallana. Kjartan Sigmundsson var nefnilega frjór og hugmyndaríkur og hafði gaman af hvers kyns tilraunum.
Kjartan hvað hættast kominn
Gamlir sjóarar, sem hafa marga ölduna stigið, gera flestir lítið úr lífsháska sínum og muna ekki mikið eftir brotsjóum fyrri ára þegar öllu nema mönnum skolaði útbyrðis. Kjartan Sigmundsson gerir ekki heldur mikið úr lífsháskum sínum í Hælavíkurbjargi og Hornbjargi, enda þótt ýmsir hefðu talið hann í stöðugum háska þarna í björgunum. Þó er eitt atvik sem honum er ofarlega í sinni þótt liðin séu rúmlega sextíu ár frá atburðum og er lítillega getið hér að framan. Hann var þá við störf suður við Faxaflóa, en römm er föðurtúnataugin og í sumarleyfi sínu 1945 fór hann vestur að Hornbjargsvita, þar sem foreldrar hans bjuggu, ásamt frænda sínum Kjartani Guðmundssyni sem var fæddur og uppalinn á Búðum í Hlöðuvík. Þarna dvöldust þeir frændurnir í góðu yfirlæti í nokkra daga og nutu veðurblíðunnar á Ströndum. Einn daginn fóru þeir út í Stórubrekkuhillu í Hornbjargi að snara fugl. Til þess var notuð fuglastöng sem var með lykkju á endanum. Þetta var létt bambusstöng, en báðar hendur þurfti á stöngina þegar fuglinn var snaraður og lykkjan herti að höfði hans.
Kjartan sest nú á þúfu framarlega í brekkunni og dingla fætur fram af. Fer svo að bera sig til við að snara fugl. Fara verður afar varlega svo fuglinn styggist ekki því þá flýgur ekki bara fyrirhugaður fugl heldur líka allt næsta nágrenni og færa verður sig á annan stað. Með mikilli stillingu hafði Kjartani tekist að koma snörunni niður yfir hálsinn á foglinum, en í sama vetfangi og hann ætlar að kippa í stöngina og herða að hálsi fuglsins losnar þúfan sem hann situr á. Sleppir náttúrlega stönginni um leið og hún stingst fram af hengifluginu með fuglinn fastan í snörunni. Var nú líkt á komið með Kjartani Sigmundssyni og Þorgeiri Hávarssyni í Hornbjargi forðum nema Kjartani tókst að grípa í jurt af grasaættinni en Þorgeir hélt dauðahaldi í graðhvannarnjóla sem er ögn ofar settur í flórunni en grasið. Báðar urtirnar gerðu þó sitt gagn við að bjarga mannslífum og gat Kjartan híft sig upp á grastónni. Þormóður Kolbrúnarskáld barg hins vegar Þorgeiri fóstbróður sínum upp á bjargbrúnina án þess þó hann bæði um hjálp sem ekki var samboðið virðingu hans og hetjuskap. Varð samvera þeirra fóstbræðra ekki söm eftir lífgjöfina.
Allt gerðist með svo miklum flýti í dæmi Kjartans að hann segist ekki einu sinni hafa haft tíma til að verða hræddur, hvað þá að eitthvað flygi gegnum huga hans. Nafna hans Guðmundssyni brá aftur á móti illilega enda gat hann ekkert að gert annað en að horfa á atburðarásina og vona það besta. Ekki sannaðist þarna hið fornkveðna að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.
Hælavíkurfólkið hefur einatt verið dálítið dómhart hvert um annað og erfitt að fá álit þess á því sjálfu svona manna í millum. En hvernig bjargmaður var Kjartan Sigmundsson? Að því er Arnór Stígsson spurður þá orðinn áttatíu og átta ára gamall.
,,Hann var þrælflinkur í bjargi en talinn svolítið djarfur; maður heyrði þær sögur af honum. Hann hlaut líka að vera flinkur úr því hann lenti aldrei í neinu slysi öll þessi ár sem hann var í bjargi.
Svo bar það við eitt sinn að fara þurfti yfir hættustað mikinn í Hvolfinu. Ofurhugar gefa sig jafnan fram til slíkra verka og var Hallgrímur, sem jafnan er kallaður Lalli, strax fús fararinnar. Þarna voru skörð í þræðingana og mjórra á einum stað en öðrum. ,,Þurfti allt að því að nota miðflóttaaflið þegar maður hljóp, segir Hallgrímur, ,,og auðvelt að klúðra því; þá var það búið. Gamli maðurinn kvað þá upp úr með það að Lalli færi ekki. Hann hafði lokið stúdentsprófi og fyrsta ári í læknisfræði og sagðist Kjartan ekki vilja missa þarna heilt ár í læknisfræði niður í fjöru. Sagnamenn úr Hornbjargi orðuðu þetta öðruvísi; Kjartan hefði sagt að Lalli væri orðinn of dýr og gildir einu um orðalagið, meiningin var sú sama. Kjartan Sigmundsson bar virðingu fyrir menntun, en hennar hafði hann ekki sjálfur notið formlega.
Fæðingarstofnun, kirkja og kálfsmagi
Einangrað sveitabýli var altæk stofnun þar sem húsbændur skipuðu fyrir verkum og frjálsræði svokallað á nútímavísu var lítið. Enda datt engum í hug að vera með eitthvert múður eða skella hurðum og fara út í fússi. Hvert átti svo sem að halda? Hver hafði sitt hlutverk og vissi að hverju hann gekk og ekkert meira um það. Öll fjölskyldan bar ábyrgð á því að hún skrimti áfram og nóg væri að borða. Eiginlega voru margar stofnanir í einni í Hælavík. Ein var fæðingardeild þar sem hagleiksmaðurinn Sigurður var ljósmóðir og fæðingarlæknir þegar ekki náðist til ljósmóður. Einnig var hann héraðsdýralæknir staðarins. Hann rak líka tæknifyrirtækið í plássinu og endaði með því að láta Bæjarána knýja rennibekk sinn sem hann smíðaði nýtt hús yfir uppi með ánni. Hælavíkurbærinn breyttist stundum í kirkju og á heimili Kjartans tók Sigmundur faðir hans að sér hlutverk prestsins, en móðir hans var kirkjukórinn. Hælavík var ekki síst barnaskóli þar sem börnin lærðu að lesa og draga til stafs. Aðalkennari Kjartans var Sigmundur faðir hans og þá urðu börn síst ólæsari með bandprjónsaðferðinni en þau urðu síðar með útlendum formúlum. Á bænum var líka rekin matvælavinnsla í tengslum við landbúnað og eggjatekju með langa hefð í að súrsa egg og salta fugl svo eitthvað sé nefnt. Fiðurgerð vortímann þegar allur fugl var plokkaður og fiðrið söluvara. Smér strokkað og skyr hleypt með maganum úr kálfinum, og slíkt skyr engu líkt í veröldinni. Úrvinnsla sláturafurða upp á líf og dauða á haustin í stóru iðnaðareldhúsi með pott á hlóðum undir berum himni. Þvottahús var rekið og keppur aðalverkfærið og skolunarprógrammið í bæjarlæknum endalaust. Ullarverksmiðjan Framtíðin var við Frakkastíg í Reykjavík og önnur norður á Gleráreyrum á Akureyri. Hefðu eins getað verið í Ástralíu. Því þurfti að starfrækja ullarverksmiðju í Hælavík og vélar framleiddar á staðnum sem voru forláta rokkar Sigurðar skipasmiðs. Búsáhaldadeildin var líka undir forstöðu Sigurðar. Það var langt til Þórðar úra á Ísafirði og því var úrsmíðavinnustofa rekin í Hælavík og úrmakarinn sjálflærður á bænum. Hvorki kola- né olíuskip lagðist inn á Hælavíkina með orkugjafa. Það þurfti bara að líta í kringum sig. Atlantshafið sendi þeim rekann alla leið frá Síberíu og ármilljónirnar höfðu framleitt mó úr jurtaleifum sem bara þurfti að stinga og þurrka. Orkulindirnar voru á staðnum og bóndinn eigin orkumálaráðherra.
Gjaldeyrir Hælavíkur var í lömbum sem send voru til slátrunar og innleggs á Ísafjörð á haustin, eitthvað fékkst fyrir svartfuglsegg og fiður og svo náttúrlega komu einhverjir aurar inn fyrir rokka og aðra smíð Sigurðar skipasmiðs. Annað var það nú ekki.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)