Færsluflokkur: Bækur
16.12.2009 | 23:17
Útdráttur úr spennandi bók
Hér fer á eftir útdráttur úr bókinni frábæru Niðri á sextugu:
Samkeppnisvorið 1972
Svo haldið sé á með samvinnu Kjartans Sigmundssonar og frænda hans, Tryggva Guðmundssonar, var það vorið 1972 að Tryggvi er kominn vestur eftir lögfræðinám vetrarins og með honum Þórunn Guðmundsdóttir sem varð eiginkona hans. Kemur þá Kjartan til Tryggva og falar hann með sér í bjargið. Tryggvi brást vel við því og fór konuefni hans með bjargmönnum norður. Þá var svo komið að tvö gengi voru í bjarginu og vantaði Kjartan sárlega mann. Mikið af eggjum hafði verið borið saman í bjarginu og nú þurfti bara að slaka þessu niður og koma því á markað. Með Kjartani voru í liði þeir Brynjólfur Óskarsson og Sigurður Bjarnason frá Ísafirði. Finnbogi Jónasson úr Bolungarvík á Ströndum var foringi fyrir hinu liðinu á Bryndísi sinni og með honum Trausti Sigmundsson, Konráð Eggertsson, síðar hrefnuskytta, Gísli Hjartarson Ísfirðingur og Hálfdán Guðröðarson frá Kálfavík í Djúpi. Voru liðin hvort í sínu húsinu á Horni og ekki laust við að glímuskjálfti gerði vart við sig. Allt var þetta einvalalið hugaðra manna. Nú er þar til að taka að stíf norðanátt hafði ríkt síðustu viku og þungur sjór og hvorugt liðið treyst sér undir bjargið frá sjó til þess að ná í kúlu þá sem jafnan var send niður og vaðurinn var hnýttur við í þeim tilgangi að koma vírnum upp. Slík gnægð eggja hafði verið borin saman í hrúgur í bjarginu að ekki var viðlit að bera það allt á bakinu niður enda hvergi hægt að koma báti að. Vill þá svo til að kemur maður gangandi yfir fjall og er kominn alla leið úr Veiðileysufirði. Er þar kominn Björn nokkur Karlsson leikari sem verið hafði við kennslustörf á Ísafirði. Björn var hörkumaður og hann fer með Kjartani undir bjarg að skoða aðstæður. Skiptir engum togum að Bjössi kastar sér fyrir borð og syndir í gegnum brimgarðinn og kraflar sig upp í grýtta fjöruna. Hinir eru þá álengdar á Bryndísinni stórhneykslaðir í talstöðinni á þessu framferði Bjössa.
Fífldirfska
Einkum hafði Konráð Eggertsson stór orð um þá fífldirfsku að senda mann út í brimgarðinn, eiginlega út í opinn dauðann. Þeim frændum Kjartani og Tryggsinni. Nema að egg voru óborin saman úr Gránefjunum. var kom saman um að Konni hefði ekki hneykslast jafnmikið á þessu atferli hefði það verið honum í hag. Björn hefur engar vöfflur á, tekur kúluna og syndir gegnum brimgarðinn og er halaður upp í bátinn hjá Kjartani. Þar með voru þeir í góðum málum og blasti nú við að þeir hefðu forskot í markaðsmálum á Ísafirði og víðar um land. Þannig stóðu málin þegar Tryggvi Guðmundsson kom norður með Þórunni heitkonu Nema að egg voru óborin saman úr Gránefjunum.
Gáfaðasti fuglinn
Nú þótti liði Finnboga Jónassonar í nokkurt óefni komið og líklegt að þeir yrðu að láta í minni pokann fyrir Kjartani Sigmundssyni og félögum. Endaði með því að Trausti Sigmundsson lagðist undir feld og kom ekki undan honum fyrr en hann hafði upphugsað aðferð til þess að koma vírnum upp við ófærar rætur Hælavíkurbjargs. Fara þeir nú upp í bjargið og skipaði Trausti Hálfdáni Guðröðarsyni að færa sér lifandi svartfugl sem nóg var af í bjarginu. Dáni hafði vaðið fyrir neðan sig og kom með fjóra fugla í fanginu. Virti hann fyrir sér andlitssvip hvers og eins og einkum gogg og augnaráð, hver mundi gáfaðastur af þessum fuglum. Loks valdi hann einn sem hann taldi fluggáfaðan. Bundið var netagarn í fætur fuglsins og garnrúllan sett upp á sívala járnstöng sem tveir menn héldu á milli sín. Þegar allar tilfæringar voru klárar kastaði Hálfdán Guðröðarson fuglinum upp í loftið og hann flaug náttúrlega fram af bjarginu eins og eðli hans sagði honum. Féll hann brátt lóðrétt niður þegar tók í bandrúlluna og kom niður rétt hjá bátnum Bryndísi þar sem Finnbogi Jónasson var um borð. Var nú léttur eftirleikurinn að koma upp talíu við bjargið. Á þessum tíma voru komnar handstöðvar svo menn gátu talað saman í bjarginu á meðan eitthvert rafmagn leyndist á rafhlöðum. Hálfdán Guðröðarson barnaði aðeins söguna eins og hans var von og vísa. Finnbogi Jónasson, sem alltaf hefur verið seigur til aðdrátta, hafði víst ekki sleppt hinum gáfaða fugli og verið kominn með hann hálfa leið í pottinn þegar Hálfdán greip í taumana gegnum kalltæki sitt. Dáni sagðist mundu snúa Finnboga úr hálsliðnum ef hann dræpi fuglinn eftir afrek hans að fljúga með spottann og bjarga þar með heiðri allra í liðinu.
Framhald í næstu færslu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2009 | 21:42
Hressileg og gamansöm saga
Ein allra áhugaverðasta bókin í bókaflóði þessara jóla heitir Niðri á sextugu. Þar segir sagnameistarinn Finnbogi Hermannsson sögu annars meistara, Kjartans Sigmundssonar sjómanns og meistara bjargsins. Þetta er afskaplega hressileg og gamansöm saga um makalausa atburði. Frásögn um fólkið á Hornströndum er áhrifamikil og hrífandi; baráttan við náttúruöfl, ást í meinum og óhapp sem fylgdi ævilangt. Þetta er ein magnaðasta jólabókin í ár.
Í næstu færslum ætla ég að birta útdrátt úr bókinni - með leyfi útgefanda. Hlakkaðu til.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2009 | 19:26
Mikilvægt að leiðrétta
Mánudags- og þriðjudags tölublað DV þessa vikuna er sérdeilis skemmtilegt. Það er úttroðið af áhugaverðri umfjöllun um eitt og annað forvitnilegt og fróðlegt. Meðal annars er opnugrein um bók eftir Roger Boye breskan blaðamann The Times, Meltdown Iceland. Ingi F. Vilhjálmsson gagnrýnir bókina og finnur henni margt til foráttu. Til að mynda er hann afar ósáttur við eftirfarandi texta í bókinni:
"Björk Guðmundsdóttir, sem virtist deila þeirri trú landsbyggðarfólks, að til væri ósýnilegt fólk, álfar, sem gætu gert mönnum erfitt fyrir í lífinu ef þeim væri ekki sýnd tilhlýðileg virðing..."
Um þetta segir bókargagnrýnandinn:
"Við þurfum að fara að kveða niður þessar tröllasögur um álfatrú Íslendinga. Ég veit ekki hvaðan þær koma í nútímanum, ekki þekki ég einn mann sem trúir á eða talar um álfa."
Gagnrýnandinn stingur upp á að ríkisstjórnin grípi í taumana til að þagga niður í þeim sem nefna álfatrú Íslendinga í eyru útlendinga.
Ég veit ekki hverja sá maður umgengst er þekkir ekki einn mann sem trúir á eða talar um álfa. Það er um fátt annað talað þar sem ég þekki til. Á uppvaxtarárum mínum í útjaðri Hóla í Hjaltadal bjuggu álfar í hinum ýmsu steinum og klettum. Huldufólk (sem fellur undir víðan skilning á samheitinu álfar) bjó í nokkrum klettum. Um þetta var rætt um leið og menn spáðu í veðrið.
Það er vel á fjórða áratug síðan ég flutti suður. Ólíklegt er að viðhorf fólks fyrir norðan til álfa hafi breyst mikið.
Þvers og kruss um Ísland eru vegir lagðir í sveig framhjá álfabyggðum. Þar sem það er illmögulegt er samið við álfana. Það geta orðið langir og strangir samningafundir. Álfarnir eiga til að vera þráir við að yfirgefa heimili sín. En það borgar sig alltaf að semja við þá og ná góðri lendingu. Þeir eru nefnilega hefnigjarnir þegar sá gállinn er á þeim.
Íslendingar fjölmenna jafnan í svokallaðar álfagöngur. Þar er rölt um álfabyggðir. Sömuleiðis sýna Íslendingar Álfasetrinu á Stokkseyri mikinn áhuga. Það er troðningur þar yfir sumartímann. Komið hefur til tals að veiða meinlausan færeyskan álf og lauma honum í Álfasetrið.
Íslendingum þykir fátt skemmtilegra en syngja um álfa. Nema ef vera skyldi að hlusta á aðra syngja um álfa. "Hann mun aldrei gleym´enni," söng Rúnar Júl í sívinsælu lagi með Unun. Þar segir frá kynnum ungs manns af álfadís. "Eru álfar kannski menn?" syngur Magnús Þór Sigmundsson og upp á síðkastið einnig Gísli Hvanndal. Ekki má heldur gleyma "Stóð ég úti í tungsljósi". Bara svo örfáir söngvar um álfa séu nefndir.
Ein af helstu fjáröflunarleiðum SÁÁ er sala á SÁÁ álfum. Þeir eru að vísu ekki lifandi verur. En sýna hvað álfar skipa stóran sess í tilveru Íslendinga. Einnig öll þessi vinsælu mannanöfn á borð við Álfdís, Álfheiður, Álfgerður, Álfhildur, Álfrún, Álfgeir, Álfur, Álfþór, Huld, Hulda, Hulddís, Huldrún... Sömuleiðis bregður álfum oft og tíðum fyrir í íslenskum málverkum og íslenskum bókum.
Á seinni hluta sjöunda áratugarins fór að bera á gnómum hérlendis (afbrigði af álfum) í kjölfar vinsæls lags með Pink Floyd, The Gnome. Lag sem Facon frá Bíldudal krákaði með íslenskum texta.
Að lokum má benda á að skoðanakannanir sýna ætíð að meirihluti Íslendinga trúir á tilvist álfa. Hæst er hlutfallið hjá framsóknarmönnum. Næstum 7 af hverjum 10 trúir á álfa. Það á sér ýmsar skýringar. Kannski helstar þær að margir framsóknarmenn eru í afdölum þar sem meira er um álfa en í þéttbýli.
Ath: Myndin efst er ekki af alvöru álfum. Þetta er samsett mynd.
Bækur | Breytt 10.12.2009 kl. 03:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2009 | 04:19
Smásaga um rjúpu
Jón A. og Jón Ó. eru systrasynir. Nýverið sammæltust þeir um að vera áfram systrasynir næstu ár. Jafnvel lengur ef vel gengur. Jón A. er ómerkilegur þjófur og lygari. Jón Ó. er merkilegur þjófur og lygari. Hann er hér með úr sögunni. Jón A. er hinsvegar á heimleið. Fyrst kemur hann við í Nóatúni. Þar skokkar hann léttur á fæti - þrátt fyrir að vera 190 kíló - berfættur að kjötborðinu. Á skokkinu reynir hann að láta hné ná hæstum hæðum. Það er til að ná góðri teygjuæfingu á lærivöðvum.
Jón A. dregur ekki erindið. Hann vindur sér umsvifalaust að afgreiðslumanninum svo snöggt að þeir hrökkva báðir í kút. Jón A. spyr hvort til séu ófrosnar rjúpur. Afgreiðslumaðurinn biður Jón A. um að troðast ekki fram fyrir 10 manna röðina. En bendir honum á að flestar rjúpur landsins séu ófrosnar. Það sé góð tíð og rjúpan haldi á sér hita með því að fljúga um fjöll.
Jón A. spyr hvort ófrosnar rjúpur séu til sölu í búðinni. Afgreiðslumaðurinn segir svo ekki vera. Aftur á móti sé gott tilboðsverð á kjúklingum. Við það "snappar" Jón A. Hann missir stjórn á skapi sínu og öskrar: "Ertu klikkaður? Hvernig heldur þú að það komi út að hafa talið konunni trú um að ég sé búinn að vera á rjúpnaskytteríi alla helgina og segist svo hafa bara skotið hænur?"
Jón A. bíður ekki svars. Hann skokkar léttfættur út úr búðinni. Er reiðari sem aldrei fyrr. Utan við búðina spilar útlendingur á harmóniku. Jón A. hendir fjórum 5 þúsund köllum í kassa fyrir framan harmónikuleikarann. Í þann mund sem Jón A. klifrar upp í jeppann sinn fær hann bakþanka. Hann sér eftir að hafa gefið harmónikuleikaranum svona mikinn pening og snýr við. Hann fiskar 100 kall upp úr kassa harmónikuleikarans og hleypur með peninginn að jeppanum.
Kominn inn í jeppann er Jón A. svo reiður að hann grípur riffilinn og ákveður að fara aftur inn í búðina og skjóta afgreiðslumanninn. Í sama mund áttar hann sig á að hann er ekki í Bandaríkjunum. Við það bráir af honum og hann leggur riffilinn varlega frá sér í farþegasætið. Svo heldur hann áfram för heim á leið. Áður en hann veit af er hann farinn að blístra sónötu fyrir píanó og selló eftir Chopin. Jón A. er svo laglaus að hann þekkir ekki lagið.
Konan tekur fagnandi á móti Jóni A. "Hvernig gekk?" spyr hún glaðlega. Jón viðurkennir skömmustulegur að illa hafi gengið. Sem aldrei þessu vant er satt. En bætir við að hann hafi gengið á 7 fjöll áður en hann fann rjúpur. Þegar hann ætlaði að skjóta þær kom ekkert skot úr rifflinum. Þá uppgötvaði hann að þetta var felgulykill sem hann var með í höndunum en ekki riffill. Það var ekki um annað að ræða en ganga aftur yfir 7 fjöll og skipta á felgulyklinum og rifflinum. Og ganga síðan aftur til baka yfir 7 fjöll. Þegar þangað kom voru rjúpurnar horfnar. "Einhver kom að í millitíðinni og stal rjúpunum," fullyrðir Jón A. og vonast eftir samúð.
Sú von verður að engu þegar konan segir ávítandi: "Ég verð að refsa þér fyrir þetta klúður. Héðan í frá færð þú ekki að hafa vasa á þínum fötum." Hún fer rakleiðis í fataskáp Jóns A. og klippir alla vasa af fötum hans. Því næst rekur hún Jón A. úr buxum, jakka og skyrtu og klippir vasana af þeim.
Með fötin í fanginu fer konan að gráta. "Það er alltaf sama sagan með þig," segir hún hágrátandi. "Þú gerir ekki annað en hlaða á mig verkefnum. Nú þarf ég að sauma fyrir götin eftir vasana á öllum þínum fötum. Af því að ég er bara húsmóðir leyfir þú þér að koma svona fram við mig. Þetta er óþolandi." Hún grætur með fólskuhljóðum.
Jón A. veit í fyrstu ekki hvað hann á að gera. Þetta er vandræðalegt. Hann skokkar léttfættur að heimabíóinu, stingur myndinni "Blossa" í DVD spilarann og setur hana af stað. Þegar myndin hefst segir Jón A. með ákveðni í röddinni: "Nú hefur þú ástæðu til að gráta. Og láttu það eftir þér. Þó ekki sé nema vegna þess hvað myndin er illa gerð."
-------------------------
Fleiri smásögur:
www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/978349
Bækur | Breytt 20.1.2010 kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.11.2009 | 01:53
Smásaga um ólétta nunnu
Geislar sólar baða litla sumarbústaðinn í skóginum. Haustfrostið bítur utan dyra. Inni í bústaðnum er hlýtt og notalegt. Sólarljósið smeygir sér lipurlega í gegnum glerið í litlum glugganum. Það vekur allt með kossi sem getur vaknað. Í bústaðnum er það ólétta nunnan sem getur vaknað. Hún geispar, nuddar stírur úr augum og ákveður að kúra aðeins lengur undir sænginni.
. Ólétta nunnan heyrir fugla kvaka í móa. Í fjarlægð heyrist tígrisdýr öskra. Þá veit nunnan að hún er ekki á Íslandi. Það eru engin tígrisdýr á Íslandi. Því eina Íslandi sem nunnan veit um: Bresku matvöruverslunarkeðjuna Iceland.
.Eins og aðrar barnshafandi nunnur í klaustrinu áður hefur ólétta nunnan flúið úr þorpinu og hyggst dvelja í sumarbústaðnum þangað til útþaninn maginn hjaðnar. Óléttar nunnur verða alltaf fyrir aðkasti í þorpinu. Þorpsbúar eru fordómafulli.
Bækur | Breytt 5.12.2009 kl. 04:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.11.2009 | 22:09
Rosalega skemmtileg bók
Ég var að lesa bókina Íslenskar gamansögur 3. Hún er nýkomin út. Ég hef ekki lesið fyrri tvö heftin. En þessi #3 er virkilega skemmtileg og um margt fróðleg. Sögurnar eru sannar íslenskar gamansögur, flestar um nafngreinda einstaklinga. Fæstar eru sögurnar brandarar af því tagi sem enda með "pöns-læn" (endahnykk). Þetta eru frekar spaugilegar sögur af áhugaverðu fólki.
Margar söguhetjurnar eru kynntar rækilega í formála að sögunum um þær. Þannig nær lesandinn betur að skynja andrúmsloftið í atburðarrásinni og hugsunarhátt þeirra sem fjallað er um. Sumar sögurnar spanna tvær heilsíður og allt upp í 3 síður. Inn á milli eru stuttir brandarar og gamanvísur. Fjölbreytni er þess vegna með ágætum.
Svo skemmtilega vill til að einn kafli bókarinnar heitir Jens Guð. Hann samanstendur af sögum af blogginu mínu. Mér þótti gaman að lesa þær. Var búinn að gleyma sumum þeirra. Einnig kannast ég við sögur af blogginu mínu sem "dúkka" upp í öðrum köflum án þess að þess sé getið sérstaklega. Og bara gaman að því líka.
Bókin Íslenskar gamansögur 3 er vel heppnuð og kostar aðeins um 2000 kall. Hún á eftir að laða fram bros og hlátur hjá mörgum um jólin. Þetta verður vinsæl jólagjöf.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2009 | 21:32
Mæjónes-söfnuðurinn
Í DV í dag er staðfest flökkusaga um að fjölskyldufyrirtækið Gunnars mayonnaise hafi breyst í einskonar sértrúarsöfnuð. Þar á bæ hefur verið settur forstjóri, Kleopatra Kristbjörg, andlegur leiðtogi fjölskyldunnar. Að sögn starfsmanns kemur Kleopatra ekki nálægt rekstrinum og hefur enda enga þekkingu á til þess. Sumir starfsmenn fyrirtækisins hafa aldrei séð hana.
Helen Gunnarsdóttir, einn eiganda fyrirtækisins, fullyrðir að Kleopatra sé heiðarlegasta kona sem til er. Engin af rösklega 3,3 milljörðum kvenna heims kemst með tær þar sem Kleopatra hefur hæla. Hún er hlý með afbrigðum. Góð umfram allar manneskjur. Gáfuðust allra kvenna á Íslandi. "Ofsalega vel gefin og mælsk". Jafnframt er hún þeim einstæða hæfileika gædd að fá "fólk til að sjá ljósið". Hallelúja!
Helena segir Kleopötru vera hæfileikaríkan rithöfund. "Bókin hennar, Hermikrákuheimur, er besta bók sem til er," að sögn Helenar. Hallelúja! Biblían, Góði dátinn Sveijk og Sjálfstætt fólk eru prump til samanburðar við Hermikrákuheim.
Helena vill ekki meina að klíka sé í kringum Kleopötru heldur styrktaraðilar (hver er munurinn?).
Ég veit ekki hver Kleopatra er umfram það að í gegnum tíðina hafa birst í dagblöðum heilsíðuauglýsingar þar sem hún er hlaðin lofi. Þar er fullyrt að ALLIR vilji snerta hana og konur jafnt sem karlar bugti sig og beygi fyrir henni. Hún veki ALLSSTAÐAR aðdáun og fólk falli að fótum hennar. Jafnframt að hún sé mjög andleg og gædd dulrænum hæfileikum. "Að vera nálægt henni er engu líkt." Hallelúja!
Í umræddum auglýsingum eru sýnishorn af ritsnilld hennar og andlegri leiðsögn. Einnig í auglýsingum um bækur hennar. Þau sýnishorn styðja ekki fullyrðingar um hæfileika hennar. Þeir hljóta að opinberast á öðrum vettvangi.
Ég fann ekki mynd af andlegum leiðtoga mæjónes-safnaðarins. Ég læt samnefnara hans/hennar duga.
Bækur | Breytt 4.11.2009 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
30.10.2009 | 14:11
Spennandi bók
Ég rakst á auglýsingu um splunkunýja bók. Hún heitir Íslenskar gamansögur 3. Virðist sem sagt vera 3ja bókin í þessum bókarflokki. Á forsíðunni stendur þessi áhugaverði texti:
"Gurrí Haralds hringir í Rannsóknarlögregluna. Púlli og Haraldur Á. Sigurðsson, leikari, eru góðglaðir á Þingvöllum. Dávaldur fer á kostum á Norðfirði. Gvendur dúllari gefur vini sínum heilræði í brúðkaupsgjöf. Siggi á Fosshóli ekur í þoku. Össur Skarphéðinsson ætlar í kápu. Svavar Gests rekur á eftir gítarleikara. Sprengju-Tóti rífur úr sér annað augað og Jens Guð situr í hjá leigubílstjóra með athyglisbrest.
Hvað sagði Ólafur Ragnar aldrei? Vegna hvers er Lilja Mósesdóttir áþjáð? Við hvað var Arnór Hannibalsson hræddur? Og hvaða sjósóknarar dóu ekki ráðalausir í baráttu við franska skútusjómenn?"
Í auglýsingatextanum um bókina er henni lýst þannig:
"Í Íslenskum gamansögum 3 er samsafn af sprenghlægilegum gamansögum.
Þar kemur við sögu ekki ómerkara fólk en Gurrí Haralds, Púlli og Haraldur Á. Sigurðsson, leikari, Gunnar Finnsson, Ólafur Sigurðsson, skólameistari, Gvendur dúllari, Lúðvík Jósepsson, Sprengju-Tóti, Kristófer Reykdal, Garðar Sigurðsson, Siggi á Fosshóli, Lási kokkur, Arnór Hannibalsson, Lilja Mósesdóttir og Jens Guð. Eru þá sárafáir nefndir af þeim sem stíga hér fram á sviðið.
Íslenskar gamansögur 3 ættu að vera til á hverju heimili.
Leiðbeinandi verð: 2.280-."
Þetta hljómar virkilega spennandi. Er þetta ekki jólagjöfin í ár? Eitthvað sem laðar fram góða skapið?
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.10.2009 | 23:06
Hvað er þetta með Skagfirðinga?
Skagfirðingar eru ekki margir. Bara örlítið brot af íslensku þjóðinni. Samt eru fréttir fjölmiðlanna uppfullar af sigrum Skagfirðinga. 3 nýleg dæmi: Eyþór Árnason sendi á dögunum frá sér bókina Hundgá úr annarri sveit. Bókin var umsvifalaust verðlaunuð með Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar.
Fyrir nokkrum dögum kusu júrivisjón aðdáendur í útlöndum lag eftir Óskar Pál Sveinsson besta júrivisjón-lag aldarinnar. Áður var þetta sama lag búið að sigra önnur lög í undankeppni júrivisjón hérlendis.
Ungir strákar í hljómsveitinni Bróðir Svartúlfs skruppu suður til Reykjavíkur og tóku þátt í Músíktilraunum. Aðrar hljómsveitir áttu ekki séns. Bróðir Svartúlfs rúllaði Músíktilraunum upp.
Á dögunum spreytti hópur vönustu sjósundskappa landsins sig í sundkeppni yfir Eyjafjörð. Sigurjón Þórðarson skrapp frá Króknum og tók þátt án þess að hafa áður synt í sjó. Leikar fóru þannig að Sigurjón var löngu kominn yfir fjörðinn og búinn að þurrka sér og klæða sig áður en þeir næstu náðu landi.
Þannig mætti áfram telja í hið óendanlega.
Bækur | Breytt 19.10.2009 kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
16.10.2009 | 00:22
Hugljúf og notaleg saga fyrir svefninn
Tanaka-san Ono er gullfiskur. Hann fæddist og ólst upp við gott atlæti í tjörn í Japan. Vegna eftirnafnsins má leiða getum að því að hann sé fjarskyldur ættingi myndlistarkonunnar Yoko Ono. Einn úfinn Izuzu veðurdag kom vondi kallinn og veiddi Tanaka-san í háf og setti í plastpoka. Til allrar lukku var vatn í plastpokanum. Annars hefði Tanaka-san verið í vondum málum.
Því næst var flogið með Tanaka-san til Íslands. Ekki í einkaþotu. Nei, venjulegri farþegaflugvél. Hún var full af japönskum ferðamönnum sem vildu skoða Gullfoss, Geysi, Þingvelli og Bláa lónið. Allir höfðu myndavélar um hálsinn. Nema Tanaka-san.
Kominn til Íslands var Tanaka-san settur í gæludýrabúð. Þaðan var hann seldur tveimur ungum bræðrum. Þetta var mansal. Það var verslað með Tanaka-san eins og hverja aðra vöru. Sjálfur fékk hann ekki krónu fyrir sinn snúð.
Bræðurnir settu Tanaka-san í lítið fiskabúr ásamt 6 öðrum gullfiskum. Búrið er ómerkilegt og fyrir neðan virðingu Tanaka-san. Það er allskonar plastdrasl í búrinu: Plasttré og sitthvað fleira sem erfitt er fyrir ókunnuga að átta sig á hvað er.
Bræðurnir gefa fiskunum einhæft þurrfóður. Tanaka-san myndi þiggja lifandi flugur til að jórtra á. Þó ekki væri nema einstaka sinnum. En svo góð er tilveran ekki. Þess í stað sitja bræðurnir tímunum saman fyrir framan fiskabúrið og glápa á fiskana. Það þykir Tanaka-san argasti dónaskapur. Hann lætur þó á engu bera. Reynir bara að hreyfa sig sem minnst undir þeim kringumstæðum.
Einn daginn áttaði Tanaka-san sig á að honum leiddist tilbreytingarleysið. Hann fékk hugmynd. Hann stakk upp á því við hina fiskana að þeir myndu keppa í fótbolta á hverri nóttu. Bæði til að stunda reglulega hreyfingu og einnig til að hafa eitthvað fyrir stafni.
Þessu var vel tekið. Tveir fiskar mynda mark. Sá þriðji er markvörður. Tveir og tveir fiskar keppa síðan sín á milli. Yfirleitt er leikurinn nokkuð jafn. Samt skiptir það litlu máli. Þetta er fyrst og fremst leikur. Það finnst öllum. Nema einum fiski sem heitir Þórhallur Pétur Hróbjarts- og Sigurlínarson. Hann er svo tapsár og óþroskaður að hann æsir sig upp úr öllu valdi við minnsta mótlæti. Frekjan er slík að hann heimtaði eitt sinn að sjálfsmark sem hann skoraði væri talið sér til tekna.
Tanaka-san er ákveðinn í að koma hinum fiskunum skemmtilega á óvart um áramótin. Þá ætlar hann að stinga upp á að aðra hverja nótt keppi þeir í handbolta í stað fótbolta.
------------------------------------------------
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)