Færsluflokkur: Bækur
11.9.2009 | 01:57
Stóri dagurinn runninn upp: 11. september
Dagsetningin 11. september er greypt í vitund okkar sem munum eftir því þegar fasistar steyptu í blóðugri byltingu lýðræðislega kjörinni stjórn í Chile 1973. Við tók ógnarstjórn Pinochets sem einkenndist af aftökum á pólitískum andstæðingum í þúsundatali, hryllilegum pyntingar á pólitískum andstæðingum í tugþúsundatali og frjálshyggja.
11. september er líka merkur dagur fyrir það að í kvöld verður nýtt íslenskt barnaleikrit, Horn á höfði, frumsýnt í Grindavík. Höfundar eru Bergur Þór Ingólfsson og Guðmundur Brynjólfsson leikhúsfræðingur. Um tónlistina sér Villi naglbítur.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
7.9.2009 | 22:38
Hugljúf og örstutt saga af miðaldra manni
Líf Palla var eins og tilvera uppvaknings. Hann þurfti ekki að hugsa. Þess vegna sleppti hann því. Á hverjum degi endurtók hann án hugsunar sömu hluti og hann hafði áður gert í áratugi. Hann vaknaði á morgnana, fékk sér kókópöffs á meðan hann renndi í gegnum Fréttablaðið. Um leið og hann lagði frá sér blaðið var hann búinn að gleyma hvað stóð í því. Svo var mætt í vinnuna. Þar stóð Palli við færibandið og endurtók sömu handtökin allan daginn. Á kvöldin sofnaði Palli yfir heimskulegum þáttum á Skjá 1 sem eru alveg eins og allir hinir þættirnir.
Bækur | Breytt 8.9.2009 kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.8.2009 | 22:47
Léttsteikt smásaga
Hrafnkell hefur aldrei verið jafn taugaóstyrkur á ævi sinni. Samt margfaldaðist sjálfstraust hans þegar hann sigraði í kvennahlaupi karla í Grindavík fyrir nokkrum dögum. Sigurinn gaf honum kjark til að kalla foreldra sína á fjölskyldufund. Hann á 16 ára afmæli eftir nokkra daga og ætlar að halda upp á daginn frjáls, laus við leyndarmál. Fjölskyldufundurinn er að hefjast.
"Ég ætla ekki að sitja undir einhverju andskotans rugli," þrumar pabbi hans eins og sá sem valdið hefur. "Ég ætla að standa!"
Pabbinn gnæfir yfir Hrafnkel sem horfir vandræðalegur niður fyrir sig. Pabbinn er 2ja metra hár rumur og breiður eftir því. Hann er með krosslagða handleggi. Netabolurinn leyfir ótal húðflúrum af hauskúpum, sveðjum og blóðugum aftökum að njóta sín. Þykkt og fagurgult hárið er skipti í miðju og nær niður á mitt bak. Skeggið hefur ekki verið snyrt í áratugi.
Mamman situr, lítil og nett. Ljóst hár hennar er stuttklippt. Hún er alltof mikið máluð í andlitinu. Hún er áhyggjufull.
"Það er erfitt fyrir mig að segja þetta," viðurkennir Hrafnkell. Hann slær á kjólinn sinn eins og til að slétta ósýnilega krumpun á honum. Svo togar hann í síðar svartar fléttur sínar eins og 10 ára stelpa, herðir upp hugann og lætur vaða: "Ég er Kínverji."
"Hvurn djöfulinn ertu að segja, drengur?" öskrar pabbinn. "Nú verður einhver drepinn!" Heiftarleg reiði og kvíðakast hellast samtímis yfir hann. Það er að líða yfir hann. Á síðustu stundu nær hann að snúast á hæl og hlaupa öskrandi fram í eldhús. Þar rífur hann langan og flugbeittan skurðarhníf upp úr hnífaparaskúffunni. Hann heldur áfram að öskra að nú verði einhver drepinn. Með eldsnöggum hreyfingum sækir hann tertudisk upp í skáp og raðar snyrtilega á hann nokkrum niðurskornum brauðsneiðum. Úr ísskápnum sækir hann smjör, tómata, agúrku og fleira. Hann smyr brauðsneiðarnar vandvirknislega, sneiðir grænmetið ofan á þær, sprautar majónesi yfir miðjuna, setur ýmist rauðan eða svartan kavíar ofan á, rífur upp dós með niðursoðnum apríkósum og sker örlitlar sneiðar sem hann setur á miðju hverrar brauðsneiðar. Apríkósurnar eru frekar til skrauts en bragðbætis. Samt passa þær vel við. Það fá Hrafnkell og mamman að sannreyna eftir að pabbinn hefur lagt diskinn á stofuborðið á milli þeirra.
Mamman er hágrátandi en pabbinn hefur náð jafnaðargeði. Hann spyr þó hálf ringlaður: "Heitir þú þá ekki Hrafnkell? Hvert er kínverska nafnið þitt?"
"Þetta hefur ekkert með nafnið að gera," leiðréttir Hrafnkell. "En ætlarðu að segja mér að þig hafi aldrei grunað neitt?"
"Ójú, mig hefur grunað," viðurkennir pabbinn með fullan munn af brauði. "Á tímabili var ég viss um að mamma þín væri að halda framhjá mér. Hún hvarf úr húsi allar nætur - nema þegar hún var á túr - og kom ekki aftur fyrr en undir morgun. Eina helgina þurfti ég út á land. Vegna óveðurs varð ég að snúa við. Ég náði aftur heim um miðja nótt. Ég læddist inn til að vekja engan. Niðri í gangi sá ég ókunnuga fjallgönguskó. Ég læddist upp á loft í myrkri og heyrði að mamma þín var ekki ein í svefnherberginu. Ég stökk öskrandi inn í herbergið. Þá lágu þær þarna naktar mamma þín og Sigga sæta í næsta húsi. Þær voru að hamast í píkunni hvor á annarri. Þær sögðu mér að lús væri að ganga og presturinn eða hreppsstjórinn hefði beðið þær um að leita að lús. Það voru þær einmitt að gera þegar ég truflaði þær.
Ég notaði þetta vandræðalega augnablik til að spyrja út í næturferðir kellu. Hún sagðist stundum verða heitt á nóttunni. Þá væri hressandi að fara út og láta norðangarrann lemja sig í andlitið í nokkra klukkutíma. Það passaði við að hún kom alltaf rjóð og sæl inn aftur. Það sem ég skammaðist mín fyrir að hafa vantreyst þessari elsku." Pabbinn varð hálf klökkur og klappaði grátandi konunni á kinn.
Hrafnkell lætur þessa ljúfu sögu ekki slá sig út af laginu og heldur áfram: "Pabbi, hefur þér aldrei fundist skrýtið að ég sé svarthærður, skáeygður og með gula húð?"
"Nei, Hrafnkell minn," fullyrðir pabbinn glaður í bragði. "Björk er uppáhaldssöngkonan mín og það er gaman hvað þú líkist henni. Þess vegna hef ég alltaf keypt á þig samskonar kjóla og hún er í á myndböndunum sínum. Það er næstum eins og að hafa Björk daglega inni á heimilinu. Þetta eru forréttindi. En án þess að mér komi það við: Áttar þú þig á því hvers vegna þú ert Kínverji?"
Hrafnkell verður vandræðalegur og tautar stamandi: "Ja, Sigga sæta var búin að eignast stelpu. Fólkið í næsta húsi var búið að eignast tvíbura og einn strák til viðbótar. Þá fæddist ég. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum er fimmta hvert barn sem fæðist Kínverji. Ég var einfaldlega fimmta barnið í þessu tilfelli."
"Ég hefði getað sagt mér þetta sjálfur," segir pabbinn drjúgur með sig. Hann lítur á klukkuna og bætir við: "Ég ætla að fara og fá mér bjór með strákunum. Ég styð þig alltaf strákur minn. Mér kemur ekkert við hvort þú ert Kínverji, Reyðfirðingur eða Skoti svo framarlega sem þú ert ekki Dani. Ég er samt ekki sáttur við framkomu ykkar í garð Tíbeta."
Áður en pabbinn stekkur út úr dyrunum kallar hann: "Burt séð frá skammarlegu ofríki ykkar gagnvart Tíbetum er ég að mörgu leyti stoltur af þér, Hrafnkell minn. Þú hefur náð íslenskunni ótrúlega vel. Yfirleitt eiga Kínverjar erfitt með að læra íslensku."
----------------------------------------
Bækur | Breytt 10.8.2009 kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
19.7.2009 | 02:57
Falleg smásaga af ættleiðingu
Þið munuð öll, þið munuð öll,
Bækur | Breytt 7.9.2009 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
1.7.2009 | 14:39
Spennandi framhaldssaga
Fátt lesefni er skemmtilegra en smáauglýsingarnar í Fréttablaðinu. Þar er jafnvel hægt að rekast á framhaldssögur sem taka fram skáldsögum Arnaldar Indriðasonar hvað spennandi framvindu varðar. Ein slík hefur verið í gangi undanfarna mánuði undir liðnum "Húsnæði í boði". Sagan hófst á því að nýuppgerð stúdíóíbúð með þvottavél, þurrkara og interneti var auglýst til leigu á 59 þúsund kall. Síðan hefur verðið trappast niður hægt og bítandi. Lengi var það 54 þúsund. Síðustu daga hefur íbúðin verið auglýst á 49 þúsund. Fólk út um allt land og nokkrir Íslendingar búsettir erlendis fylgjast spenntir með framhaldinu. Ég spái því að endirinn komi á óvart.
Bækur | Breytt 16.9.2009 kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 22:53
Örleikrit - Bannað börnum og viðkvæmum!
Persónur og leikendur:
Strákur á fermingaraldri, snyrtilega klæddur í jakkaföt og með hálsbindi
Mamma, spariklædd í pels og með áberandi gullhringa á flestum fingrum
Ljótur hundur
Sviðið er myrkvað af reyk. Taktföst sögunarhljóð heyrast og fara hækkandi. Þau hljóma eins og grófri handsög sé beitt á undinn planka í sögunarverksmiðju í Brasilíu. Smám saman þynnist reykurinn. Þá sést strákurinn sitja við eldhúsborð. Hann hefur brett upp fyrir vinstri olnboga jakka og skyrtu og er í rólegheitum að saga af sér framhandlegginn. Blóð gusast úr sárinu og spýtist út um allt.
Mamman kemur inn úr dyrunum. Hún er með stóran úttroðinn innkaupapoka úr matvöruverslun.
Mamman (glaðleg): Hæ, ég keypti jógúrt í matinn handa okkur.
Strákurinn (kátur): Frábært. Ég var að byrja að fá leið á að borða alltaf rúgbrauð með spægipylsu í matinn.
Mamman (ennþá glaðleg): Af hverju ertu að saga af þér höndina?
Strákurinn: Mig klæjaði í handlegginn.
Mamman: Það er út af bómullarskyrtunni. Bómullin er erfðabreytt. Þess vegna veldur hún ofnæmi og kláða. Þú hefðir getað farið úr skyrtunni. Þá hefði þig hætt að klæja. Það getur líka verið að þú verðir ófrjór af að vera í skyrtunni. Fuglar í nágrenni erfðabreyttra akra verða ófrjóir.
Strákurinn: Þetta skiptir svo sem engu máli. Ég er of ungur til að fara að hrúga niður börnum. Svo er ég viss um að Óli einhenti í blokkinni hér fyrir neðan fer að hrökkva upp af. Hann er orðinn svo gamall og hrörlegur. Þá get ég fengið gervihöndina hans fyrir slikk.
Mamman (flissandi): Þú ert nú meiri kjáninn, elskan mín. Óla einhenta vantar hægri höndina. Þú ert að saga af þér vinstri höndina.
Strákurinn (nær að saga af sér höndina. Hún fellur með þungum slink í gólfið. Pirraður): Þú hefðir mátt segja mér þetta fyrr.
Mamman: Já, ég ætlaði að segja þér þetta í morgun. Ég reyndi að hringja í þig en það var slökkt á símanum þínum. En það gerði ekkert til. Ég hringdi í vinkonu mína í staðinn og sagði henni þetta. Hún ætlar að láta þetta berast. Það er áreiðanlega komið út um allt núna.
Mamman (hellir úr innkaupapokanum. Í honum voru tvær jógúrtdollur vafðar innan í sitthvora stóru kúluna úr loftblöðruplasti): Mikið er ég fegin að jógúrtdósirnar eru heilar. Ég hef alltaf áhyggjur af því að þær springi á heimleiðinni síðan ég datt á mjólkurkælinn í Nóatúni og sprengdi allar jógúrtdollurnar þar. Jeminn eini. Það var neyðarlegt. Á leiðinni út úr Nóatúni mætti ég, öll útbíuð í jógúrt, konu sem horfði svo skringilega á mig að hún hélt greinilega að ég hefði lent í kynsvalli með starfsmönnum Nóatúns. Láttu mig þekkja augnráðið. Komdu nú að borða, vinurinn. Settu höndina fyrst í matarskálina hjá Ljóti. Hann borðar hvort sem er ekki jógúrt. (Bíðlega) Óskaplega verður hann glaður, blessaður kallinn. Það er langt síðan hann hefur fengið svona mikið kjöt og góð bein til að naga.
Tjaldið fellur. Mamman heyrist kalla vinalega á Ljót. Hundurinn geltir. Hávær höggsmellur heyrist og hundurinn ýlfrar hátt. Mamman heyrist segja: Já, var það ekki? Þú ofleikur, helvítis kvikindið þitt. Ég ætti að sparka í þig aftur og miklu fastar. Ennþá hærri höggsmellur heyrist og hundurinn ýlfrar miklu hærra. Mamman hlær tryllingslega. 3 skothvellir heyrast og allt verður hljótt.
------------------------------------------------
Bækur | Breytt 17.8.2009 kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
25.4.2009 | 02:26
Smásaga um hund
Einu sinni var fjárhundur á sveitabæ. Hann hét Geir Finnur Þór. Enginn vissi af því. Þess vegna var hann kallaður Snati. Einn góðan veðurdag síðsumars fékk hann að fara í göngur með húsbónda sínum. Húsbóndinn reið með björgunum fram og Snati elti. Snata þótti ósanngjarnt að þurfa að hlaupa alla þessa leið á meðan húsbóndinn sat óþreyttur á hestbaki. Snati sagði ekki neitt. En hugsaði þeim mun meira. Eftir að hafa velt málinu fyrir sér á hlaupum inn dalinn komst Snati að þeirri niðurstöðu að húsbóndinn væri ójafnaðarmaður.
Innst í dalnum hafði safnast saman hópur fólks á hestum og hundar. Snati kom þar auga á fallegustu tík sem hann hafði augum litið. Snati vonaðist til að þau yrðu samferða í fjársmöluninni. Honum varð ekki að ósk sinni. En þau hittust aftur þegar komið var með féð í réttirnar. Snati vissi ekki hvernig hann átti að stofna til samskipta við tíkina. Í ráðaleysi sínu réðist hann á hana með kjafti og klóm. Hún varði sig af hörku. Þá kom eigandi hennar og sparkaði fantalega í Snata og lamdi hann með píski. Snata þótti það svínslegt. Leikurinn var orðinn ójafn. Tvö á móti einum. Snati rölti ýlfrandi heim á leið. Það var hundur í honum.
Bækur | Breytt 16.9.2009 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.12.2008 | 13:59
Þetta eru jólabækurnar sem ég mæli með
Fátt er skemmtilegra og meira við hæfi um jól en næra andann með lestri ljúfra bóka. Ég er þegar búinn að lesa nokkrar bækur nú á litlu jólunum. Mér er ljúft og skylt að miðla af minni reynslu. Með gleði í hjarta get ég mælt með eftirfarandi bókum sem áhugaverðum og ánægjulegum. Tekið skal fram að myndastærðin af kápum bókanna hefur ekkert með annað að gera en í hvaða stærð ég á þær tiltækar.
Í Gullstokkur gamlingjans rekur Vilhjálmur Hjálmarsson hugljúfar og margar skondnar æskuminningar úr Mjóafirði. Sjá nánar: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/713864/
Sá einhverfi og við hin eftir Jónu Á. Gísladóttur er safn notalegra frásagna af einhverfum syni hennar. Sjá: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/736914
Töfrum líkast - Saga Baldurs Brjánssonar töframanns er skráð af Gunnari Kr. Sigurjónssyni. Baldur var og er fremsti töframaður Íslands. Sjá: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/732693
Tabú - Ævisaga Harðar Torfa segir frá mannréttindafrömuðinum, baráttumanninum, tónlistarmanninum, leikaranum og leikstjóranum sem breytti og er enn að breyta gangi sögunnar. Skrásetjari er Ævar Örn Jósepsson. Sjá: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/729597/
Ég hef nú sjaldan verið algild - Ævisaga Önnu á Hesteyri er skemmtilegasta bók sem ég hef lesið til margra ára. Sjá: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/751586
Eric Clapton - Sjálfsævisaga á ekki mikið erindi til annarra en músíkdellufólks og aðdáenda Erics Claptons. En þeir fá hér fyllri mynd af gítarsnillingnum sem er óvenju mikið þjakaður af allskonar "komplexum" og sálarflækjum.
Bækur | Breytt 24.12.2008 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2008 | 23:14
Bókarumsögn
- Titill: Ég hef nú sjaldan verið algild - Ævisaga Önnu á Hesteyri
- Höfundur: Rannveig Þórhallsdóttir
- Útgefandi: Hólar bókaútgáfa
- Einkunn: **** (af 5)
Faðir Önnu á Hesteyri og afi minn voru bræður. Ég hef þekkt Önnu frá því ég fæddist. Þessi frábæra kona verður áttræð á næsta ári. Hún er einstakt náttúrubarn. Hún hefur sterkar skoðanir sem sumar koma stundum skemmtilega á óvart. Spjall við Önnu er ætíð uppspretta kátínu og gleði. Eitthvað sem gaman er að segja öðrum frá.
Í áratugi hafa ættingjar okkar Önnu skiptst á ævintýralegum sögum af henni. Oft hefur þá verið nefnt að einhver verði að safna þessum sögum saman og gefa út á bók.
Í fyrravor er ég byrjaði að blogga hef ég rifjað upp nokkrar sögur af Önnu. Það skiptir ekki máli hvort fólk þekkir Önnu eða ekki. Sögurnar eru jafn skemmtilegar fyrir ókunnuga.
Það var mikið fagnaðarefni þegar fréttist af því að Rannveig Þórhallsdóttir, bókmenntafræðingur, væri farin að skrásetja ævisögu Önnu. Bók um Önnu gat ekki orðið annað en bráðskemmtileg. Eina áhyggjuefni ættingjanna var að broslegar sögur af Önnu kæmu ekki almennilega til skila hvað þetta er merkileg manneskja. Að þær myndu draga upp mynd af Önnu sem "fígúru" sem er hlegið að á kostnað þess að sögurnar séu afgreiddar þannig að hlegið sé með Önnu.
Rannveigu hefur tekist virkilega vel að draga upp rétta mynd af Önnu. Koma til skila hversu heilsteypt og áhugaverð þessi manneskja er. Manneskja sem auðvelt er að bera mikla virðingu fyrir. Um leið og bókin er sneisafull af sprenghlægilegum sögum.
Þegar ég fékk bókina í hendur fletti ég henni fram og til baka og greip niður í hana hér og þar. Allsstaðar kom ég niður á mergjaðar smásögur. Síðan las ég bókina í tvígang frá upphafi til enda. Eftir það hef ég nokkrum sinnum haldið áfram að glugga í hana og rifja upp broslegar frásagnir.
Þetta er bók sem fólk á að kaupa handa sjálfum sér til að komast í gott skap um jólin. Og líka til að gleðja vini sína. Bókin er í 5. sæti yfir söluhæstu ævisögur. Mér skilst að hálft sjötta þúsund eintaka af bókinni séu komin í dreyfingu. Þar af séu um 5000 eintök seld. Það þýðir að margir munu skemmta sér konunglega við lestur þessarar bókar um jólin um hið kostulega náttúrubarn, Önnu á Hesteyri. Ekki láta bókina framhjá þér fara.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2008 | 22:56
Upplýsingar vegna greinar í Fréttablaðinu
Í Fréttablaðinu í dag er merkileg grein eftir blaðamanninn Kjartan Guðmundsson. Fyrirsögnin er Poppbókin - enn í fyrsta sæti. Greinin fjallar um bók sem kom út 1983. Kjartan segir Árna Daníel Júlíusson fá undarlega veglegan sess í Poppbókinni.
Málið er mér skylt. Þess vegna sé ég ástæðu til að draga fram eftirfarandi: Árni var áberandi í þeim hópi sem hratt pönk- og nýbylgjunni úr hlaði á Íslandi ´79/´80. Hann blés í saxófón í einni af allra fyrstu íslensku pönksveitunum, Snillingunum. Hann var maðurinn sem kýldi á hlutina og lét verkin tala. Sem dæmi þá stóð hann fyrir fyrstu hljómleikum Utangarðsmanna. Hljómleikunum sem ollu straumhvörfum í sögu íslenska rokksins.
Árni Daníel spilaði á bassa í Taugadeildinni og hljómborð með Tea for Two og Q4U. Þegar bókin kom út var Q4U stórt nafn. Kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd árið áður og hafði gífurlega sterk áhrif á það sem var að gerast í rokkinu. Q4U var áberandi í myndinni. Platan með lögunum úr myndinni seldist vel. Myndbandsspólan með Rokk í Reykjavík var nýlega komin út þegar bókin var skrifuð. Spólan seldist eins og heitar lummur og var mjög umtöluð. Q4U sendi frá sér plötu þarna um sumarið og lagið Böring af henni naut mikilla vinsælda.
Þetta var þó ekki megin ástæðan fyrir því að í Poppbókinni er viðtal við Árna Daníel heldur að hann hafði mikinn sagnfræðilegan áhuga á rokkmúsík. Hann las allt sem hann komst yfir um rokkmúsík. Hann skrifaði vikulega heilu og hálfu opnugreinarnar um rokkmúsík í DV og Vikuna. Hann velti öllum flötum rokkmúsíkur fyrir sér, skoðaði þá og skilgreindi. Hann sótti alla rokkhljómleika sem voru í boði á suðvesturhorni landsins. Hann kynnti sér allar íslenskar rokkplötur sem komu út og flestar þær helstu sem komu út erlendis. Hann var einn mesti viskubrunnur landsins um þann suðupott sem kraumaði í rokkmúsík þessara ára. Árni Daníel þekkti þennan pott frá öllum hliðum: Sem innsti koppur í búri, hljóðfæraleikari og tónleikahaldari, sem blaðamaður, sem fræðimaður. Ef einhverjum vantaði upplýsingar um eitthvað sem hafði gerst, var að gerast eða var framundan í íslensku rokksenunni var hringt í Árna Daníel. Hann var maðurinn sem vissi allt.
Það kom ekki á óvart að skömmu eftir útkomu Poppbókarinnar skellti Árni Daníel sér í sagnfræðinám. Síðan hefur hann skrifað fjölda bóka um allt frá íslenskum landbúnaði til jarðeigna kirkjunnar á Íslandi.
Þar fyrir utan er Árni Daníel úr Svarfaðardal.
Ljósmyndin er af Q4U. Árni Daníel er lengst til hægri.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)