4.6.2008 | 23:37
Skemmdarverk á skoðanakönnun um versta íslenska hljómsveitarnafnið
Að undanförnu hef ég haldið úti á bloggi mínu skoðanakönnun um versta íslenska hljómsveitarnafnið. Ég stóð frekar vel og heiðarlega að því. Ég bauð lesendum að tilnefna vond íslensk hljómsveitanöfn. Um 100 nöfn voru tilnefnd. Næsta skref var að bjóða lesendum að styðja tilnefningar. Þau nöfn sem voru studd af þremur eða fleirum stillti ég upp í formlega skoðanakönnun. Það reyndust vera aðeins 8 nöfn. Sjálfur stóð ég að mestu til hliðar þó að ég viðraði skoðun um tvö nöfn. Annað þeirra hlaut ekki stuðning.
Ég margítrekaði að þetta væri fyrst og fremst léttur samkvæmisleikur sem alls ekki ætti að taka of hátíðlega. Leik sem væri ekki beint gegn neinum tilteknum músíkstílum eða hljómsveitum. Þannig lagað. Bara saklaus skemmtun til að gera sér dagamun.
Gamli góði ritstjórinn Jónas Kristjánsson, einn af mínum uppáhaldspennum, fór í þann gírinn að taka samkvæmisleikinn full alvarlega. Hann skrifaði á www.jonas.is:
"Jens Guð birtir atkvæðagreiðslur á vefsvæði sínu. Þar velja þátttakendur sjálfa sig í úrtakið. Kosningar þessar brjóta öll fræðileg lögmál kannana. Samt kallar Jens þær skoðanakannanir. Hann telur sér jafnframt kleift að gagnrýna fræðilegar skoðanakannanir. Segir nýja könnun á fylgi flokka í Reykjavík vera ómarktæka. Telur veruleikann undir niðri vera flóknari en þann, sem mælingin sýnir. Það má að nokkru satt vera. En Jens mætti þá taka mark á því í sínum eigin atkvæðagreiðslum..."
Gagnrýni Jónasar er réttmæt. Skoðanakannanaformið sem Moggabloggið býður upp á getur aldrei fallið undir hávísindaleg fræði. Tölvuhakkarar geta svindlað í þessum könnunum. Aðrir geta smalað atkvæðum meðal vinnufélaga, kunningja eða annarra. Þannig mætti áfram telja. Að mögulegum skekkjumörkum frátöldum eru svona skoðanakannanir einungis til gamans gerðar. Rétt eins og þegar hlustendur rásar 2 velja mann ársins eða hlustendur rásar 2 og Útvarps Sögu taka daglega þátt í skoðanakönnunum á heimasíðum þessara útvarpsstöðva.
Listinn yfir verstu íslensku hljómsveitanöfninn tók fljótt á sig fastar skorður í skoðanakönnun minni. Röðin breyttist ekkert frá því að atkvæðum fjölgaði úr 50 í 600. Það gefur vísbendingu um að niðurstaðan sé ekki fjarri raunveruleikanum. Í gær birti Fréttablaðið niðurstöðuna:
Versta íslenska hljómsveitarnafnið er Eurobandið (um 25%), númer 2 er Pláhnetan (um 21%) og númer 3 Hölt hóra (um 19%).
Í kjölfar fréttar Fréttablaðsins snarbreyttist staðan. Á nokkrum mínútum bættust við 800 atkvæði. Öll greidd Pláhnetunni. Það er ljóst að "hakkari" á vegum Eurobandsins breytti stöðunni. Skyndilega var nafn Eurobandsins ekki efst á lista yfir versta íslenska hljómsveitarnafnið heldur Pláhnetan.
Ég verð að ógilda þessi 800 atkvæði og birta niðurstöðuna eins og hún var áður en svindlið hófst.. Versta íslenska hljómsveitarnafnið er Eurobandið.
Númer 2: Pláhnetan.
Númer 3: Hölt hóra
Númer 4: 8-villt
Númer 5: Morðingjarnir
Númer 6: Lummurnar
Númer 7: Á móti sól
Númer 8: Síðan skein sól
Tónlist | Breytt 5.6.2008 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
3.6.2008 | 03:10
Þjóðvegamorðingi
Þórður Jónsteinsson hefur verið sviptur ökuleyfi til fjögurra ára og dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsunar í 12 mánuði. Með ofsaakstri og tilraun til glannalegs framúraksturs við vond skilyrði svipti hann tvö ungmenni lífi, olli þriðja ungmenninu líkamstjóni til frambúðar og slasaði föður barnanna.
Fyrir atburðinn hafði Þórður í fjórgang hlotið dóm fyrir ofsaakstur. Eftir atburðinn hefur hann 9 sinnum verið tekinn fyrir ofsaakstur. NÍU SINNUM.
Dauðaslysinu olli Þórður 2. desember 2006. Það er fyrst núna, 29. maí 2008, sem ökuníð hans er afgreitt fyrir dómi. Í millitíðinni hefur hann fengið að halda áfram glannalegum ofsaakstri með ökuskírteini í fullu gildi, þrátt fyrir að hafa verið samtals FJÓRTÁN SINNUM staðinn að ofsaakstri. Hvað oft þar fyrir utan stundaði hann þjóðvegaglæp án þess að vera staðinn að verki?
Eitt er að dómgreindarlaus og samviskulaus ökuníðingur sé ítrekað staðinn að glæpsamlegu athæfi. Annað er að hann skuli komast upp með það árum saman vegna dugleysis Héraðsdóms Reykjaness. Verður þetta víti til varnaðar? Verður gripið til þeirra ráða sem duga til að svona endurtaki sig ekki? Dómstólar voru sneggri til þegar andlega veikur maður stal súpupakka í matvörubúð á dögunum.
Ferðalög | Breytt 4.6.2008 kl. 03:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (76)
31.5.2008 | 20:25
Tvíburar saman í hljómsveitum
Sem hlutfall af jarðarbúum eru tvíburar ekki margir. Tvíburar eru heldur ekki áberandi í rokkinu. Þó leynast þar fleiri tvíburar en halda má í fljótu bragði. Hér eru dæmi um nokkra tvíbura sem syngja og spila saman í hljómsveit:
- Gyða og Kristín Anna Valtýsdætur í Múm
- Kristinn og Guðlaugur Júníussynir í Vinyl og síðar The Musik Zoo
- Gísli og Arnþór Helgasynir. Þeir spiluðu mikið saman á árum áður og sendu frá sér eina plötu, Í bróðerni.
- Gunnar og Matthew Nelson í Nelson. Þeir eru synir Rickys Nelsons (frægastur fyrir Hello Mary Lou). Þessir ljóshærðu bláeygu Kanar eru klárlega af norrænum ættum. En hvort þeir eiga ættir að rekja til Dalvíkur eða Bergen veit ég ekki.
- Charlie og Craig Reid í skoska dúettnum The Proclaimers
- Kelley og Kim Deal í The Breeders
- Simone og Amedeo Pace í Blonde Redhead
- Matt og Luke Goss í hinni hræðilegu bræðrahljómsveit Bros
- Marge og Mary Ann Ganser í The Shangri-Las
- Benji og Joel Madden í Good Charlotte
- Tegan Rain og Sara Kiersten Quin í Tegan & Sara
- Lee and Tyler Sargent í Clap Your Hands Say Yeah
- Glenn og Mark Robertson í Fotostat
- James og Ben Johnston í Biffy Clyro
- Gary og Ryan Jarman í The Cribs
- Michael og Jay Aston í Gene Loves Jezebel
- Monica og Gabriela Irimia í The Cheeky Girls
- Chandra og Leigh Watson í The Watson Twins
Það eru engir tvíburar í skosku hjómsveitinni The Cocteau Twins eða ensku hljómsveitinni The Thompson Twins.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
29.5.2008 | 23:30
Stórkostlegur jarðskjálfti - meira svona!
Fátt er betra en góður jarðskjálfti. Það er að segja ef fólk kann gott að meta. Ég myndi glaður vilja fá daglega svona jarðskjálfta eins og kom í dag. Um leið og ég heyrði að jarðskjálftinn var að skella á þá henti ég mér snarlega á bakið á gólfið og teygði lítillega úr mér. Gólfið hristist og víbraði hressilega þannig að ég fékk virkilega gott baknudd. Það besta sem ég man eftir að hafa fengið.
Þegar skjálftanum lauk stóð ég upp, hristi mig smá og hélt síðan áfram að vinna eins og ekkert hafi í skorist, sprækur og allur endurnærður. Síðan hef ég ekki fundið fyrir þreytu í bakinu frekar en fyrir skjálftann.
27.5.2008 | 23:11
Sprenghlægilegt myndband frá sprenghlægilegri söngkonu
Indverska prinsessan gullfallega (ja, gull er reyndar ekkert fallegt), Leoncie, eða Icy Spicy eins og hún kallar sig einnig, var að senda frá sér myndband við lagið "Enginn þríkantur". Að hennar sögn er myndbandið mjög hlægilegt og skartar meðal annars uppblásinni plastdúkku.
Þó að ég hafi ekki séð myndbandið þá er ég sannfærður um að fegurðardrottningin frá Sandgerði lýgur engu um að myndbandið sé mjög hlægilegt. Það er allt mjög hlægilegt sem að Leoncie snýr. Maður þarf ekki annað en sjá ljósmynd af henni til að veltast um af hlátri. Hvað þá þegar í boði er heilt myndband við eina af hennar meistaralegu tónsmíð spilaðri á vel með farinn skemmtara árgerð 1976 og sungin með hennar nefi. Eða eins og Nóbelsskáldið sagði aðspurt um plötu Árna Johnsen: "Það syngur hver með sínu nefi, hrafninn og spóinn."
Það er alltaf tilhlökkun þegar nýtt lag, plata eða myndband kemur frá þokkadísinni snotru, drottningu eurotrashins, eins og Bretar kalla hana. Hláturinn lengir lífið og kryddar tilveruna. Í tilfelli Leoncie er kryddið sterkt og rífur í.
Ljósmyndin hér að ofan er af umslagi plötunnar Radio Rapist, sem Leoncie tileinkaði þáverandi útvarpsmanni, Sigurjóni Kjartanssyni. Leoncie hafði boðið honum í mat heim til sín í Sandgerði. Að hennar sögn mætti hann með frygðarsverð á lofti og hefði nauðgað henni ef fleiri hefðu ekki verið með í för. Skömmu áður hafði Geir Ólafs sýnt sömu tilburði, samkvæmt frásögn Leoncie. Og meira að segja Jón Góði reyndi að nauðga henni fyrir allra augum í samkvæmi nokkru áður. Að vísu höfðu allir viðstaddir einmitt blikkað augum í sömu andrá eða horft í ógáti í aðra átt þannig að enginn varð til vitnis.
Tónlist | Breytt 28.5.2008 kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
25.5.2008 | 20:57
Leikhúsdómur
Leikverk: Ástin er diskó, lífið er pönk
Höfundur: Hallgrímur Helgason
Leikstjóri: Gunnar Helgason
Leikhús: Þjóðleikhúsið
Einkunn: **1/2 (af 5)
Mér hefur alltaf þótt diskómúsík leiðinleg og flest sem henni tengist. Hinsvegar kann ég vel við pönk og margt sem því tengist. Ég gerði mér þess vegna fyrirfram grein fyrir því að diskóhluti söngleiksins yrði ekki mín bjórdós en pönkhlutinn myndi vega upp á móti. Sú varð raunin.
Ástin er diskó, lífið er pönk er ágæt kvöldskemmtun. Sagan er þunn og framvindan fyrirsjáanleg klisja. Sem skiptir litlu máli. Það sem skiptir máli er að leikverkinu er ætlað að fanga stemmninguna á Íslandi 1980: Stemmningu þar sem tveir ólíkir heimar, diskó og pönk, mættust í óvild og andúð hvor á öðrum. Leikverkið kemur þessum sérstæða tíðaranda bærilega til skila. Dregnar eru fram broslegustu hliðar beggja fyrirbæranna, diskósins og pönksins, og þær kryddaðar léttum bröndurum
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.5.2008 | 23:06
Þjóðin sameinast í sjónvarpsglápi
Það er gaman þegar íslenska þjóðin rennur saman í eina samstæða þjóðarsál. Eins og í dag. Það var sama hvort ég fór á Umferðarmiðstöðina (að fá mér að borða) eða vestur á Granda til að kaupa mér skó (það er komin sprunga í sólann á öðrum skónum mínum) eða í matvöruverslun öreiganna, Bónus (til að vita hvað Bjarni Ármanns var að kaupa í matinn): Allir sem ég hitti og þekkti ætluðu að horfa á sjónvarpið í kvöld. Og ég líka. Ég keypti meira að segja snakk og ídýfu til að stemmningin væri upp á sitt best. Það er ekki á hverjum degi sem Skjár 1 sýnir frá gömlum hljómleikum með Bob Dylan.
Upp úr klukkan 6 í kvöld léttist umferð. Þegar ég renndi í hlað heima hjá mér um hálf 7 var varla bíll á ferli. Þátturinn með Dylan byrjaði klukkan hálf 7. Og þátturinn sveik engan. Þarna var sýnt úrval frá hljómleikum Bobs Dylans frá árunum 1962 til 1965. Hver gullmolinn rak annan.
Þessi sjónvarpsþáttur var svo skemmtilegur að ég horfði aftur á hann á Skjá 1+. Þar flutti Dylan fleiri og ennþá skemmtilegri lög. Joan Baez var komin með í leikinn og þetta var snilld.
Lögreglan hefur staðfest að allt var í rólegheitum á meðan á útsendingu Skjás 1 á þætti Bobs Dylans og endursýningu á Skjá 1+ stóð. Síminn fékk að vera í friði á lögreglustöðinni. Ég get staðfest að það sama var með minn síma. Það vogar sér enginn að trufla mig eða lögguna á meðan sjónvarpsþáttur með Bob Dylan er í loftinu.
Til að skerpa á stemmningunni er ég núna að hlusta á Lay Lady Lay eftir Dylan í mögnuðum flutningi "industrial" hljómsveitarinnar Ministry. Þvílíkt flott.´
Myndin til vinstri er af Bob Dylan úr sjónvarpsþættinum á Skjá 1. Myndin til hægri er úr endursýningunni á Skjá 1+.
![]() |
Allir að horfa á sjónvarpið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt 25.5.2008 kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.5.2008 | 00:39
Sögufölsun
Ég átti leið um bensínsjoppu sem heitir því bjánalega nafni Neinn (skrifað N1). Þar lá frammi fríblað sem heitir álíka bjánalegu nafni, eða Hann Hún. Nei, það fjallar ekki um "she-male" en margt annað misáhugavert. Mér varð starsýnt á þetta blað um stund þangað til ég skyndilega greip það eldsnöggt og fór að glugga í það.
Þar sá ég mér til ánægju ljósmynd (tekna af Getty með skráðum höfundarrétti Nordicphotos) og grein um Bob Dylan. Það er eitthvað sem veldur því að ég les allar greinar um Dylan, Bítlana og Stóns.
Í greininni um Dylan segir: "Það er því undarlegt til þess að hugsa að fyrsta lag hans sem náði efsta sæti á vinsældarlista í Bandaríkjunum var Knocking on Heaven´s Door sem kom út árið 1973."
Þarna er farið rangt með á grófan hátt. Lag Dylans Mr. Tambourine Man raðaði sér alveg þvers og kruss í efsta sæti bandaríska vinsældalistans 1965 í flutningi The Byrds. Hinsvegar man ég ekki betur en að þetta flotta lag, Knocking on Heaven´s Door, hafi hæst náð í 12. sæti bandaríska vinsældalistans 1973. Þá var ég 17 ára og fylgdist glöggt með ferli Bobs Dylans. Mér vitanlega hefur hann aldrei sjálfur komið lagi í efsta sæti bandaríska vinsældalistans þó að breiðskífur hans hafi náð toppsætinu.
Nú gæti einhver hártogað dæmið vegna orðalagsins "efsta sæti á vinsældalista í Bandaríkjunum" og vísað til einhverra annarra vinsældalista í Bandaríkjunum en hins eina sanna opinbera almenna vinsældalista. En það stenst ekki heldur. Like a Rolling Stone með Dylan náði 2. sæti bandaríska vinsældalistans 1965 og toppsæti ýmissa annarra sértækari vinsældalista í Bandaríkjunum.
Að öðru leyti er greinin í Hann Hún um Bob Dylan ljómandi góð, sem og plötudómar á sömu síðu og kannski eitthvað á öðrum síðum (ég nennti ekki að lesa þær).
Tónlist | Breytt 31.5.2008 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.5.2008 | 22:59
Svíðingslegir viðskiptahættir
Ég átti leið um Salahverfi í Kópavogi. Þorsti sótti á mig. Ég mundi eftir því að verslun sem heitir Nettó hafði auglýst að þar væri boðið upp á Egils kristal á 99 krónur. Ég var með 110 krónur í Johnny Cash (reiðufé) í vasanum og hugði því gott til glóðarinnar. Ætlaði að kaupa Egils kristal á 99 krónur og fara síðan í sjoppu og kaupa karamellu eða kúlu eða lakkrísbút fyrir 11 krónur. Ég byrjaði að hlakka til að komast í nammið.
Ég gekk hröðum og öruggum skrefum að gosdrykkjarekkanum. Þar var skilmerkilega merkt að Egils kristallinn kostaði 99 krónur. Ég greip eina flösku og kom mér í röðina við afgreiðslukassann. Á undan mér var eldri maður með hálffulla innkaupakerru. Til að stytta mér stundir í röðinni þá laumaði ég sokkabuxum í kerruna hjá honum án þess að hann tæki eftir.
Þegar sá gamli fór að hlaða vörum úr kerrunni á afgreiðsluborðið hjálpaði ég honum og hélt honum uppi á snakki til að hann tæki ekki eftir sokkabuxunum. Allt gekk hið besta fyrir sig og ég var ennþá að spjalla við hann á meðan ég var afgreiddur. Þegar ég gekk út úr Nettó áttaði ég mig á því að ég hafði verið rukkaður um 109 krónur fyrir Egils kristalinn. Ég var með kvittun í höndunum sem staðfesti þetta.
Þarna hafði verslunin beitt svíðingslegum viðskiptaháttum: Auglýst og merkt Egils kristal á 99 krónur en verðlagt drykkinn á rúmlega 10% hærra verði við kassann. Ég var á hraðferð og tímdi ekki að eyða tíma í að gera læti yfir þessu. Ákvað þess í stað að fordæma þennan níðingsskap á þessum vettvangi. Nettó: Skamm, skamm! Ég átti aðeins eina krónu eftir en ekki 11 til að kaupa nammi í næstu sjoppu. Þetta var rán á björtum degi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 24.5.2008 kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
19.5.2008 | 14:27
Bráðfyndnar ljósmyndir af mistökum
Þessar bráðskemmtilegu ljósmyndir hér að neðan fékk ég sendar og hló dátt. Ég ætla að leyfa ykkur að hlæja dálítið líka. Neðsta myndin var reyndar ekki í þeim pakka sem ég fékk. En mér finnst hún passa inn í þessa myndaröð af mistökum. Veit ekki alveg hvers vegna.
Spaugilegt | Breytt 20.5.2008 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
18.5.2008 | 23:30
Bestu hljómsveitir Bubba
Á dögunum stóð ég fyrir skoðanakönnun um viðhorf til hljómsveita Bubba Morthens. Valið stóð á milli helstu afgerandi hljómsveita hans. Þeim minna þekktu sleppti ég (svo sem Gúanóbandinu og Mögulegu óverdósi). Spurt var: Hver var/er besta hljómsveit Bubba? Niðurstaðan varð þessi:
1. Utangarðsmenn 42,8%
Það kemur ekki á óvart að Utangarðsmenn hreppi toppsætið. Þetta var hljómsveitin sem kom Bubba-æðinu af stað 1980 og breytti landslagi íslenskrar rokkmúsíkur til frambúðar. Sprengdi poppmarkaðinn upp með látum og kom af stað rokkvakningu sem náði hámarki í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík.
2. Egó 29,1%
Ég reiknaði með að mjórra yrði á munum á Egói og Utangarðsmönnum. Egó náði ennþá meiri almennum vinsældum en Utangarðsmenn. Að sumu leyti var Egó þó brokkgengari hljómsveit: Byrjaði ferilinn sem þungarokkshljómsveit en sveigði fljótlega yfir í aðgengilegra og fjölbreyttara nýrokk, svokallaða nýbylgju. Bubbi dældi á færibandi út stórsmellum með Egói sem margir hafa orðið sívinsælir, svo sem Stórir strákar fá raflost, Móðir, Fjöllin hafa vakað og Meskalín. Ferill Egós endaði ekki eins glæsilega og hann hófst. Hljómsveitin liðaðist í sundur eftir ítrekaðar mannabreytingar og var komin í illindi við útgefanda sinn. Síðasta plata Egós var gefin út af öllum í ólund: Hljómsveitinni sem og útgefandanum. Platan stóð fyrri plötum Egós að baki, hún var lítið sem ekkert auglýst og seldist dræmt. Áður en Egó hætti endanlega var Bubbi hættur í hljómsveitinni en Sævar Sverrisson tekinn við hljóðnemanum. Síðustu ár hefur Egó verið endurvakin með reglulegu millibili.
3. Das Kapital 13,5%
Ekki hefði ég veðjað á að Das Kapital yrði ofar GCD á þessum lista. En Das Kapital var svo sem frábær hljómsveit, vel pönkuð, hrjúf og ljúf. Þekktustu lög Das Kapital eru Blindsker, Lili Marlene og Leyndarmál frægðarinnar.
4. GCD 7,1%
Mig grunar að GCD hafi starfað aðeins of lengi. Það var ævintýraljómi yfir hljómsveitinni framan af: Rokkkóngurinn Bubbi og Hr. Rokk, Rúnar Júlíusson, saman með súpergrúppu. Hljómsveitin hlaut gífurlega góðar viðtökur og þeir félagar dældu út stórsmellum á borð við Mýrdalssand, Hótel Borg, Kaupmanninn á horninu og fleiri. Mér segir svo hugur að GCD hefði varðveitt stærri ímynd ef hún hefði aðeins starfað í 2 ár eða svo, eða jafn lengi og þetta hljómaði virkilega frísklegt og spennandi dæmi.
5. MX-21 4,3%
Margir líta kannski á MX-21 sem einskonar undirleikarahljómsveit hjá Bubba. Þetta var hljómsveitin sem spilaði með honum á Frelsi til sölu og Skapar fegurðin hamingjuna? Snilldar plötuumslag.
6. Stríð og friður 3,2%
Það sama á við um Stríð og frið eins og MX-21: Margir hugsa eflaust um þessar hljómsveitir sem undirleikarahljómsveitir hjá Bubba. Stríð og friður er sú hljómsveit Bubba sem hefur starfað lengst og spilar á væntanlegri plötu hans.
Tónlist | Breytt 19.5.2008 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.5.2008 | 16:32
Verstu plötuumslögin
Þau eru sprenghlægilega hallærisleg mörg plötuumslögin hér fyrir neðan. Enska poppblaðið New Musical Express hefur að undanförnu staðið fyrir skoðanakönnun um verstu plötuumslög sögunnar. Þó að ekki sé búið að kveða upp úr með endanlega niðurstöðu þá virðist mér sem hún sé þegar ráðin. Enda mörg umslögin kunn úr öðrum samskonar könnunum. Þetta eru 20 verstu umslögin:
1. The Handless Organist: "Truly a Miracle of God"
Þetta umslag er gömul klassík á lista yfir verstu plötuumslögin og þaulsetin í vinningssætinu. Færri sögum fer af músíkinni.
2. Fabio: "Fabio After Dark"
Þó að Fabio sé heimsfræg fyrirsæta þá náði hann sér ekki á strik sem poppstjarna og einhverra hluta vegna hugnast lesendum New Musical Express ekki þetta plötuumslag. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta umslag svona ofarlega áður.
3. Millie Jackson: "Back to the Shit!"
Það er ekki augljóst hvað Millie var að pæla með þessu umslagi. Þessi ágæta bandaríska soul-söngkona sló fyrst í gegn með gospel-laginu A Child of God (It's Hard to Believe) snemma á áttunda áratugnum og átti á næstu árum mörg önnur vinsæl lög og plötur.
Kannski ætlaði Millie að stimpla sig inn hjá kjaftforu rappkynslóðinni með þessu umslagi en Millie brúkaði tal-söng löngu fyrir daga rappsins. En hver sem pælingin var þá "floppaði" þessi plata svo rækilega að hún er minnst selda platan á ferli dömunnar. Samt nutu stök lög af plötunni vinsælda (meðal annars lagið hennar Jóhönnu Seljan, Ætlarðu að hringja á morgun?). En það er eins og fólk vilji ekki eiga þetta plötuumslag - þó það gleymi því ekki þegar kosið er um verstu plötuumslögin.
4. Manowar: Anthology
Monowar gera út á víkingarokk. Þeir syngja um Óðinn og taka sig hátíðlega. Aðrir gera það hinsvegar ekki. Manowar eru einungis kjánalegir. Ef menn vilja víkingarokk með einlægum alvöru víkingarokkurum þá er færeyska hljómsveitin Týr málið.
5. Tino: Por Primera Vez
Ég veit ekkert um þennan stuttbuxnanáunga.
6. The Handsome Beasts: Beastiality
Um þessa hljómsveit veit ég fátt annað en að hún er bresk og tilheyrir því sem kallaðist nýbylgja breska þungarokksins um 1980.
7. Herbie Mann: Push Push
Herbie Mann hefur sent frá sér marga góða djass-heimspopps plötuna. Push Push er ein af þeim. En umslögin hafa ekki alltaf verið eins góð hjá honum.
8. Gary Dee Bradford: Sings For You and You and You
Þessi náungi varð aldrei stórstjarna. Plötuumslagið hefur þó séð til þess að hann gleymist ekki.
9. Orleans: Walking and Dreaming
Orleans er kannski þekktust sem fyrrverandi hljómsveit Johns Halls (Hall & Oats). Hallærisleg popp-rokk hljómsveit, varla nógu rokkuð til að falla undir flokkinn bandarískt iðnaðarrokk.
10. Jim Post: I Love My Life
Ef ég er ekki að rugla einhverjum saman þá er Jim Post bandarískur vísnasöngvari.
11. Ken: By Request Only
12. Country Church
13. Cher: Take Me Home
Munurinn á umslagi á borð við það með Country Church (#12) hér fyrir ofan og þessu hérna með Cher er að umslag Country Church er óhannað. Einhver kunninginn sem átti góða ljósmyndavél hefur bara smellt mynd af liðinu fyrir framan heyhlöðuna og prentarinn í sveitinni rúllað upp nafni hópsins með "sniðugu" letri. Einfalt, unnið án fagmennsku og útkoman er hallærisleg.
Umslagið með Cher fer yfir strikið í hina áttina. Það er svo hryllilega ofunnið að það er jafn hallærislegt og hitt.
14. The Frivolous Five: Sour Cream & Other Delights
15. Millie Jackson: E.S.P. (Extra Sexual Persuasion)
Það er nokkuð afrek hjá Millie að eiga 2 af 15 verstu plötuumslögum sögunnar. Þessi plata þykir næstum því jafn slöpp og umslagið.
16. Al Davis: Christian Crusaders
17. William Hung: Hung for the Holydays
Það er allt í stíl hjá William Hung: Laglaus söngur, vond músík og vond umslög. "Nævismi" í bak og fyrir.
18. Mike Adkins: Thank You for the Dove
19. Michael Bolton
Bandaríski vælukjóinn Michael Bolton er holdgerfingur hins hallærislegasta í poppmúsík og nær einnig að koma því til skila á plötuumslagi.
20. Pooh-Man: Funky as I wanna Be
Tónlist | Breytt 19.5.2008 kl. 03:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
16.5.2008 | 22:38
Plötuumsögn
Titill: Revival
Flytjandi: John Fogerty
Músíkstíll: Kántrý, popp og hart rokk
Einkunn **** (af 5)
Bandaríska hljómsveitin Creedence Clearwater Revival skar sig nokkuð frá því sem var að gerast í rokki hippaáranna á seinni hluta sjöunda áratugarins og í byrjun þess áttunda. Hrá og blúsuð rokkhljómsveit sem gerði út á einfaldleika. Er á leið ferilinn fjölgaði sterkum laglínum verulega og kántrý slæddist með. Sérkenni CCR fólust meðal annars í þróttmiklum öskursöngstíl Johns Fogertys og heillandi útsetningum hans. Lög hans voru krákuð af Elvis Presly, Ike & Tínu Turner, auk ótal annarra og íslenskar danshljómsveitir gerðu heilu og hálfu dansleikina út á þau. Gildrumezz úr Mosfellsbæ gaf út heila plötu með lögum Johns Fogertys.
Tónlist | Breytt 17.5.2008 kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.5.2008 | 14:56
Gælunöfn íslenskra poppara
Það er gaman að velta fyrir sér gælunöfnum íslenskra poppara. Þá á ég við gælunöfnum sem þeir hafa ekki tekið upp sjálfir sem listamannsnafn (sbr. Dr. Gunni eða Lay Low) heldur titlar eða gælunöfn sem aðrir hafa gefið þeim og þau nöfn fests við viðkomandi. Hér eru nokkur dæmi og gaman væri að fá fleiri dæmi frá ykkur:
Bubbi kóngur
Þegar Bubbi Morthens kom inn á markaðinn með hávaða og látum var fljótlega farið að tala um hann sem rokkkóng. Það hafði sömuleiðis fylgt Davíð Oddssyni seðlabankastjóra að hann fór með hlutverk Bubba kóngs í leikriti á menntaskólaárum. Ég hef grun um að þetta kunnuglega heiti, Bubbi kóngur, frá leikaraferli Davíðs hafi átt þátt í því að fólki þótti eðlilegt að kalla Bubba Morthens Bubba kóng.
Hr. Rokk
Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort Dr. Gunni var fyrstur til að kalla Rúnar Júlíusson Hr. Rokk eða hvort aðrir voru farnir að tala um Rúnar sem Hr. Rokk áður en Dr. Gunni fór að kalla hann þetta og fékk hann til að syngja hlutverk Hr. Rokks á plötunni Abbababb. En Hr. Rokk hefur fests við Rúna Júl og er vel við hæfi. Maðurinn er holdgerfingur rokksins.
Meistari Megas
Þegar ég var blaðamaður hjá tímaritinu Konfekti um miðjan áttunda áratuginn varð okkur Smára Valgeirs ritstjóra tamt að tala um Meistara Megas. Í mínum vinahópi var talað um Megas sem Meistara Megas. Ég veit ekki hvort að fleiri gerðu það á þessum árum. Ég stend í þeirri trú - þangað til annað kemur í ljós - að ég hafi fyrstur manna talað um Megas á prenti sem Meistara Megas.
Papa Djass
Ekki veit ég hvernig Guðmundur Steingrímsson trommusnillingur fékk þetta gælunafn. Mér dettur í hug að það hafi komið til þegar þessi djassgeggjari fór að spila með yngri rokkurum.
Jón Góði
Einhvernvegin varð að greina hljómborðsleikarinn Jón Ólafsson frá nafna hans kenndum við Skífuna. Hljómborðsleikarinn er ljúfmenni og þetta nafn hefur komið til af sjálfu sér.
Kúreki norðursins
Friðrik Þór Friðriksson kom þessari nafngift á Hallbirni Hjartarsyni þegar hann gerði samnefnda frábæra kvikmynd um Hallbjörn.
Sveiflukóngurinn
Hrynjandinn sem einkennir músíkstíl Geirmundar Valtýssonar hefur verið kölluð skagfirska sveiflan. Í framhaldi af því var farið að tala um Geirmund sem Sveiflukónginn.
Siggi kjötsúpa
Rokksöngvarinn raddmikli Sigurður Sigurðsson er fyrst og fremst þekktur fyrir að hafa sungið lag um íslenska kjötsúpu. Fyrir þann tíma var hann kallaður Siggi píka vegna þess að ungar stelpur drógust að honum er hann söng með hljómsveitinni Eik.
Bassafanturinn
Ekki veit ég hvernig Þröstur, fyrrum bassaleikari Mínusar, fékk þetta gælunafn. Eitthvað fór þó af slagsmálasögum af honum í slúðurblöðum á borð við Séð og heyrt.
Fúsi fallbyssa
Sigfús Óttarsson þótti höggþungur og þaðan er gælunafn hans dregið. Hann kom fyrst fram með Bara-flokknum og síðar spilaði hann með Bubba, Rickshow og fleirum.
Óli taktur
Annar trommari, Ólafur Helgason, kenndur við trommustíl sinn. Óli taktur varð fyrst þekktur með Kvintett Ólafs Helga og síðar hljómsveitinni Tívolí.
Siggi snípur
Enn einn trommarinn en viðurnefnið er mér hulin ráðgáta. Sigurður Hannesson varð fyrst þekktur með hljómsveitinni Árbliki. Síðar trommaði hann m.a. með Rikshaw.
Siggi pönk eða Siggi Pönkari
Fyrst varð gítarleikari og söngvari Sjálfsfróunar þekktur undir þessum nöfnum. Síðar eignaðist hann gælunafna, Sigurð Harðarson, söngvara Forgarðs helvítis og DYS. Pétur heitinn bassaleikari Sjálfsfróunar var jafnframt kallaður Pési pönk.
Bjarni móhíkani
Bjarni heitinn, söngvari og síðar bassaleikari Sjálfsfróunar, fékk þetta nafn vegna klippingar sem einkenndi útlit hans á tímabili.
Pétur kafteinn
Hljómborðsleikari Paradísar, Pétur Kristjánsson, hlaut þetta gælunafn til aðgreiningar frá söngvara hljómsveitarinnar, Pétri Kristjáns. Ekki kæmi mér á óvart ef söngvarinn gaf hljómborðsleikaranum þetta nafn.
Billy Start
Söngvarinn og gítarleikarinn Billy Start - núverandi trúbador - var í slagtogi með hljómsveitinni Start á sínum tíma. Rétt nafn hans er Brynjar Klemensson en Billy Start hefur fests rækilega við hann.
Siggi Lee Lewis
Píanóleikarinn og söngvarinn Siggi Lee Lewis var á yngri árum kallaður Siggi Presley. En vegna þess að píanóleikur hans, söngur, lagaval og útlit svipar meira til Jerry Lee Lewis færðist nafnið yfir í Sigga Lee Lewis.
Tónlist | Breytt 17.5.2008 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
15.5.2008 | 23:14
Sumir eru furðulega nægjusamari en aðrir
Í þessum vesældarlega kofa kúldrast maður sem kallast Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan ásamt öllum sínum börnum og þjónustufólki. Til að kofinn virki stærri og veglegri hafa myndirnar verið teknar með gleiðhornalinsu. Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan er fyrrverandi forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Í bakgarðinum sprakk vatnslögn. Vegna nísku og blankheita tímir Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan ekki að spandera peningum í viðgerð. Þess vegna hefur í bakgarðinum myndast þessi leiðinlegi pollur sem eyðileggur möguleika krakkanna á að leika sér í fótbolta eða brennó í garðinum.
Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan hefur einfaldan smekk. Þessi silfurliti kubbslegi smábíll hans er smíðaður úr hreinu silfri. Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan þykir það vera kjánalegt pjátur og tvíverknaður að smíða bíl úr járni og sprauta hann síðan með silfurlitaðri málningu.
Synir Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan eiga hver sinn bílinn. Kallinn er svo aðhaldssamur að hann náði að suða út magnafslátt með því að kaupa alla bílana á einu bretti. Þeir eru allir af sömu árgerð og flestir af sömu tegund. Dökku bílarnir eru notaðir í snattferðir vinnumanna. Dökkur liturinn dregur í sig óþægilegan hita frá sólinni. Vinnumennirnir eyða þess vegna ekki meiri tíma í snattrúnt en nauðsynlegt er.
Lífstíll | Breytt 16.5.2008 kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.5.2008 | 20:41
Ótrúleg frásögn
Ég heyrði brot af útvarpsþætti á Útvarpi Sögu í dag. Þar var rætt við íslenska konu sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hún hafði farið í sólarlandaferð til Spánar. Þar hitti hún ungan myndarlegan Spánverja sem hún varð ástfangin af. Þau tóku saman og hann flutti með henni til Íslands. Þá komst hún að því að hann var ekki ungur Spánverji heldur gamall Marokó-gaur.
Því miður var ég á svo miklum þeytingi að ekki gafst tími til að hlusta á meira af viðtalinu að undanskildu því að ég náði niðurlaginu er útvarpskonan og Spánarfarinn voru að kveðja. Mér skildist á kveðjuorðunum að gamla hræið frá Marokó hafi komið illa fram við konuna á fleiri vegu en skrökva að henni að hann væri ungur Spánverji.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.5.2008 | 21:46
Hvaða poppara er erfiðast að þola? Óvænt niðurstaða
Breska netritið musicmagpie efndi á dögunum til skoðanakönnunar meðal lesenda sinna um það hvaða breskan poppara þeir ættu erfiðast með að þola. Niðurstaðan kemur á óvart - að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð. Ég hefði þorað að veðja um að James Blunt ætti engan skeinuhættan keppinaut í þessari deild. Því síður hefði ég giskað á að Paul McCartney myndi slá James Blunt við. Hvað er í gangi?
Á musicmagpie geta menn sér þess til að fólk sé orðið þreytt og pirrað á langdregnu skilanaðarferli Pauls, tvíbentri friðarafstöðu hans og þokka sem samanstendur af spariklæðnaði og gúmmískóm.
Breskir fjölmiðlar hafa að sönnu verið undirlagðir frásögnum af skilnaði Pauls mánuðum saman. Hér á Íslandi höfum við aðeins orðið vör við 0,1% af þeirri umfjöllun. Varðandi tvíbenta friðarafstöðu veit ég ekki hvort átt er við eitthvað sem snýr að skilnaðinum eða að Paul sló í og úr með stuðning við innrásina í Afganistan og Írak. En þannig er listinn yfir þá bresku poppara sem fara mest í taugarnar á samlöndum þeirra:
3. Lily Allen
4. Robbie Williams
5. Amy Winehouse
6. Bono
7. Cliff Richard
8. Pete Doherty
9. Joss Stone
10. Craig David
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
12.5.2008 | 23:19
Takið þátt! Ný skoðanakönnun
Fyrir nokkru bað ég ykkur um að tilnefna verstu íslensku hljómsveitarnöfnin. Viðbrögð voru góð. Hátt í 100 nöfn voru nefnd til sögunnar. Næsta skref var að stilla upp þeim nöfnum er voru gjaldgeng og óska eftir stuðningi við þau þeirra sem ættu að enda í formlegri skoðanakönnun.
Það sem ég á við með því að tala um gjaldgeng nöfn er að þetta er leit að versta íslenska hljómsveitarnafninu. Útlend nöfn komu ekki til greina.
Nú hef ég stillt hér upp þeim nöfnum sem fengu 3 eða fleiri atkvæði. Nokkur þeirra fengu töluverðan fjölda atkvæða en sjáum til hvernig fer. Ég hvet ykkur til að láta það ekki hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna hvernig ykkur líkar við músík viðkomandi hljómsveitar. Einblínum á nafnið sem slíkt - þó eðlilegt sé að taka mið af því hvernig nafnið passar við það sem hljómsveitin stendur fyrir.
Þessi skoðanakönnun er ekki illa meint. Henni er ekki beint gegn einum eða neinum. Þetta er bara saklaus og léttur samkvæmisleikur.
Þegar þið hafið greitt atkvæði væri gaman að heyra rökin fyrir valinu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
12.5.2008 | 20:43
Úrslit skoðanakönnunar: Bestu hljómsveitir Bubba
Að undanförnu hefur verið í gangi skoðanakönnun hérna á blogginu mínu þar sem spurt er um það hver hafi verið/sé besta hljómsveit Bubba. Röðin tók fljótt á sig fasta mynd sem hefur ekkert breyst þó atkvæðum fjölgaði um hundruð. Núna þegar 468 atkvæði hafa skilað sér í hús er engin ástæða til að halda áfram með könnuna. Niðurstaðan er löngu ráðin. Hún er þessi:
1. Utangarðsmenn 42,8%
2. Egó 29,1%
3. Das Kapital 13,5%
4. GCD 7,1%
5. MX-21 4,3%
6. Stríð og friður 3,2%
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2008 | 17:50
Til hamingju með afmælið!
Ég hef grun um að Viðar Júlí Ingólfsson sé á góðri leið með að ná 51 árs aldri í dag. Að minnsta kosti varð hann fimmtugur fyrir sléttu ári. Viðar er fæddur, þokkalega vel upp alinn og búsettur í höfuðborg Austursins, Reyðarfirði. Hann er í hópi fróðustu manna um popp og rokkmúsík. Sem slíkur hefur hann landað nokkur hundruð plötum í spurningaleikjum rásar 2 og Bylgjunnar í áranna rás.
Viðar er ljómandi góður trommuleikari og hefur spilað með ýmsum hljómsveitum, þar á meðal Frostmarki (sem ég var líka í) og Jörlum. Hann er einnig víðfrægur og eftirsóttur DJ (plötusnúður) á skemmtistöðum. Hefur einstakt lag á að koma liðinu út á dansgólfið og ná upp rífandi stemmningu.
Viðari tókst vel upp með erfingja sína. Þeir eru trommusnillingurinn og söngvarinn kröftugi Birkir Fjalar (I Adapt, Stjörnukisi, Döðlurnar, Bisund, Ungblóð og ég man ekki hvað hún heitir níðþunga þungarokkshljómsveitin sem hann er í núna. Það er eitthvað útlenskt nafn) og útvarpsmaðurinn knái og gítarleikarinn Andri Freyr (Fidel, Botnleðja, Bisund).
Viðar, gangi þér vel að komast yfir þessi tímamót, kæri vinur!
------------------------------------------------------------------------------------------------
Ljósmyndina tók Mats Wibe Lund af Reyðarfirði þegar staðurinn var bara lítið þorp.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)