26.11.2012 | 22:07
Skemmtilega frumleg kapella
Í Norður-Karólínu í Bandaríkjum Norður-Ameríku þykir mörgum gott að fá sér hjartastyrkjandi brjóstbirtu. En alls ekki öllum, vel að merkja. Þeir sem sækja í hjartastyrkjandi heilsudrykkinn koma sér gjarnan fyrir á bekkjum í tilteknum almenningsgörðum. Þar sötra menn drykkinn og láta sólina kyssa sig. Eða einhverja aðra.
Þegar rökkva tekur rölta menn heim á leið, án þess að taka tómu flöskurnar með sér.
Í Norður-Karólínu er fólk trúrækið og sækir sína kirkju undanbragðalaust. Þessi tvö áhugamál, sötrið og trúræknin, eru sameinuð á skemmtilegan máta í kapellu í Norður-Karólínu. Og vísar um leið á söguna af kappanum sem breytti vatni í vín. Íslendingar gera einmitt mikið af því núna á tímum samfelldra verðhækkana. Myndin af kapellunni á erindi til okkar.
Matur og drykkur | Breytt 27.11.2012 kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.11.2012 | 23:24
Besta hádegisverðartilboðið
Nýverið tók Daði á sportbarnum Classic Rock (eða hvort staðurinn heitir í dag bara Classic?) í Ármúla 5 upp á því að bjóða spennandi hádegisverðartilboð. Hægt er að velja á milli ostborgara, steiktrar samloku eða pizzu á 1000 kall. Innifalið í máltíðinni er gos eða ferskur ávaxtasafi. Með ostborgaranum og samlokunni fylgja alvöru franskar kartöflur og kokteilsósa. Ég hef prófað ostborgarann. Hann er kjötmikill (120 gr) og allt eins og best er á kosið.
Nú hefur Daði bætt um betur: Hann býður upp á glæsilegan enskan morgunmat (Full English Breakfast) ásamt gosi eða ferskum ávaxtasafa á þessu þægilega tilboðsverði, 1000 kalli. Þeirri máltíð gef ég hæstu einkunn. Þetta er rífleg máltíð með pönnusteiktum kartöflum, tveimur spældum eggjum, ristuðu brauði og öðru tilheyrandi (beikoni, pylsum, bökuðum baunum...). Ég er sérlega ánægður með ristaða brauðið. Víða - þar sem boðið er upp á English Breakfast - klikka menn á því að hita brauðsneiðar aðeins á pönnunni án þess að þær brúnist. Á Classic ristar listakokkurinn Kent Jensen brauðið þannig að það fær skarpan brúnan lit, er stökkt en mjúkt. Með fylgir smjör (sem vantar á mörgum veitingastöðum er bjóða upp á English Breakfast).
Enski morgunverðurinn á Classic er besta hádegistilboð á markaðnum í dag, þegar miðað er við verð og gæði.
Til gamans má geta að Daði var í gamla daga gítarleikari hljómsveitarinnar Dáta. Glettilega góður gítarleikari og hefur síðan spilað í einhverjum blúshljómsveitum minna frægum en Dátum. Hann er blúsgeggjari. Það er gaman að spjalla við hann um blús og rokk. Rétt eins og við dætur hans og eiginkonu, sem vinna á Classic. Viktoría, dóttir þeirra hjóna, er vel heima í klassíska blúsrokkinu og spilar jafnan áhugaverða músík á barnum. Líka með yngri rokkhljómsveitum og gömlum blúsjöfrum. Það er góð skemmtun að kíkja á Classic í Ármúla 5.
Tónlist | Breytt 26.11.2012 kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.11.2012 | 14:53
Galdurinn við að leggja á borð. Mikilvægt að vita og kunna!
Þessa dagana hellast jólahlaðborð yfir heimili og fyrirtæki. Svo taka skötuveislurnar við, jólaboð, gamlársveislur, nýársveislur, þrettándafagnaður, þorrahlaðborð og þannig mætti áfram telja. Það gera sér ekki allir grein fyrir því hversu miklu máli skiptir að vel og snyrtilega sé lagt á borð. Þetta er sálrænt atriði. Minnstu hnökrar á því hvernig borðbúnaður stendur og liggur á borðum eyðileggja algjörlega upplifun gesta af borðhaldinu. Á sama hátt laðar snyrtilega uppraðaður borðbúnaður fram sterka tilfinningu fyrir veglegri veislu.
Augað ræður miklu um upplifun af mat. Það er svo AUG-ljóst að furðu sætir hvað margir klúðra jafn einföldum hlut.
Til að leggja snyrtilega á borð þarf aðeins tommustokk og snærispotta. Með tommustokknum er passað upp á að nákvæmlega sama bil sé á milli allra diska, glasa og hnífapara. Það má ekki skeika hálfum cm. Með spottanum er þess gætt að borðbúnaðurinn sé í beinni röð. Þaðan er komið orðið þráðbeint.
22.11.2012 | 22:15
Yfirgengileg drykkjuvandamál gamla fólksins
Ég hef lengi reynt að benda á og vara við yfirgengilegu og brjálæðislegu ofdrykkjuvandamáli aldraðra Íslendinga. En talað fyrir daufum eyrum. Og jafnvel augum. Staðreyndin er sú að það má ekki af þessu fólki líta né sleppa af því hendi; þá er það á augabragði búið að drekka frá sér ráð og rænu. Með tilheyrandi látum. Þeim mun eldra sem fólkið er því skæðara er það í drykkjulátunum. Og reyndar allskonar óhollustu og uppátækjum.
Verstir eru gamlingjarnir þegar þeir komast út fyrir landsteinana. Þá losnar um allar hömlur. Þeir haga sér eins og beljur sem er hleypt út að vori: Sletta ærlega úr klaufunum.
Mér er minnistæður einn sem fór til Kanarí. Hann drakk sig blindfullan hvern dag. Það fyrsta sem hann gerði er hann vaknaði á morgnana var að spyrja ferðafélagana hvort hann hafi skemmt sér vel daginn áður. Hann hafði ekki hugmynd um það sjálfur en varð þeim mun glaðari sem sögurnar af drykkjulátunum voru meira krassandi. Hann hvatti ferðafélagana til að ljósmynda uppátækin. Hann langaði til að sjá myndir af sér ælandi eða hálf rænulausum. Þetta var fyrir daga digitalmyndavéla. Kappinn var reyndar ekki kominn á aldur. En byrjaður að æfa sig fyrir elliárin.
Algengt er að gamla fólkið komi tannlaust heim úr drykkjutúrum í útlöndum. Gómarnir renna út úr því í ölvunarsvefni út um allt tún. Eftir hverja hópdrykkjuferð aldraðra Íslendinga til útlanda er nágrenni hótelsins útbíað í tanngómum í reiðuleysi.
Margir stela reiðhjóli. En komast sjaldnast á því lengra en út í næstu laut. Þar sofna þeir ölvunarsvefni.
Það þarf ekki hjólreiðatúr til. Sumir fá sér kríu hvar sem er á milli þess sem þeir rangla blindfullir og stefnulaust um nágrenni hótelsins.
Þegar gamlingjarnir eru í glasi verða þeir ruddalegir og ógnandi í framkomu. Þá forðar yngra fólk sér á hlaupum undan þeim.
Djöfladaður einkennir fulla gamlingja. Þeir reyna stöðugt að koma djöflahornum á ferðafélagana, Satani til dýrðar.
Gamla fólkið skerpir á vímunni með aðstoð sjónauka. Þá verður það glaseygt og þykir það gaman.
Um og upp úr 100 ára aldri má fulla fólkið ekki sjá logandi ljós öðru vísi en kveikja sér umsvifalaust í hassvindli eða hvaða vindli sem er.
Á drykkjuferðalögum í útlöndum rambar margur gamlinginn inn á húðflúrstofur. Kann sér ekki hóf á neinu sviði. Verður sér og sínum til skammar þegar heim er komið. Það er tilhlökkun að vera að detta í þennan aldurshóp. Alltaf fjör. Og nú er byrjað að selja áfengi á elliheimilunum hérlendis. Síðan gengur mikið á þar á bæ.
![]() |
Drukku frá sér ráð og rænu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 24.11.2012 kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
21.11.2012 | 21:35
Kaldar kveðjur til brottrekinna
Neinn er merkilegt fyrirtæki. Stundum tapar það peningum án þess að kippa sér upp við það. Það á vini á góðum stöðum sem afskrifa skuldir þegar svo ber undir. Þannig að þetta er ekkert mál. Einu sinni hef ég þó heyrt forstjóra Neins veina sáran. Það var þegar hann tjáði sig um vörurýrnun vegna þjófnaðar á bensíni. Bensíni hafði verið stolið frá Neinum fyrir næstum 30 milljónir króna. Forstjórinn benti á að það væri virkilega erfitt og nánast óbærilegt að reka fyrirtæki sem býr við svona mikla vörurýrnun. Undir það skal tekið.
Nokkru síðar ræddi forstjórinn um tilraun Neins við að hasla sér völl á sviði bókaútgáfu. Gefnar voru út tvær bækur, hvor um sig í risaupplagi. Þær voru auglýstar til samræmis við risaupplagið. Leikar fóru þannig að uppistaðan af upplaginu endaði á haugunum. Forstjórinn sagði tapið á bókaútgáfuævintýrinu skipta fyrirtækið engu máli. Tapið væri ekki nema næstum 30 milljónir króna og fyrirtæki af stærðargráðu Neins finni hvergi fyrir svoleiðis smáaurum.
Svo skemmtilega vildi til að þetta var sama upphæð og vörurýrnun vegna bensínþjófnaðar.
Núna var Neinn að segja upp 19 starfsmönnum. Forstjórinn segir það vera til þess að bæta þjónustu fyrirtækisins. Birgjar jafnt sem starfsfólk sé yfir sig hamingjusamt með breytinguna.
Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo að þessir 19 brottreknu hafi dregið þjónustu Neins niður. Þeir hafi háð rekstri Neins.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2012 | 21:46
Ævintýralegur ástar-átthyrningur. Ris og fall háttsettra.
Ég er að reyna að átta mig á ástarmálum æðstu toppa í leyniþjónustu Bandaríkja Norður-Ameríku, CIA; alríkislögreglu Norður-Ameríku, FBI; stríðshetja og leiðtoga bandaríska hersins í Írak og Afganistan; fyrrverandi tilvonandi æðstráðanda yfir herjum NATO og ég veit ekki hvað og hvað.
Hvað höfðingjarnir hafast að er forvitnilegt. Siðferði og heilindi á einu sviði segja eitthvað. Bara eitthvað. En það er atburðarrásin sem er safaríkasta sagan. Það er hægur vandi að týnast í henni. Allt fer í rugl. Til að einfalda söguna fyrir mig og ykkur nota ég bara eftirnöfn þessa ágæta fólks og einkenni þau með sitthverjum litnum:
Vel gift og hugguleg kona, Broadwell, tekur upp á því að senda annarri vel giftri og huggulegri konu, Kelley í Flórida, tölvupóst. Eða öllu heldur dældi á hana tölvupóstum. Broadwell sakar Kelley um að eiga í ástarsambandi við tvo helstu ástmenn sína (les= ástmenn Broadwell), heiðviðra fjölskyldufeður sem megi ekki vamm sitt vita. Séu í góðu og trúföstu hjónabandi. Það séu gróf og ófyrirgefanleg svik við hjúskaparheiður þeirra að Kelley stundi framhjáhald með þeim. Annar heitir Petraeus. Hinn heitir Allen.
Til að leggja áherslu á ásakir sínar hótar Broadwell henni Kelley öllu illu. Jafnframt hótar hún Kelley því að upplýsa eiginmann hennar um þessi ómerkilegu óheilindi og kallar hana druslu fyrir að vanhelga hjónaband þeirra með framhjáhaldi. Broadwell hótaði Kelley ýmsu öðru. Kelley varð hrædd vegna ofbeldisfullra hótananna. Enda með músarhjarta. Svo hrædd varð hún að hún snéri sér til hryðjuverkadeildar FBI.
FBI hóf rannsókn á málinu. Komst inn í tölvu Broadwell og fann þar ótal ástarbréf sem höfðu gengið á milli Broadwell og Petraeus. Hann er á sjötugsaldri. Hún er fertug. Það er aukaatriði. Ástin spyr ekki um aldur.
Sá sem Kelley snéri sér til hjá hryðjuverkadeild FBI hafði áhyggjur af þessu. Ég verð að segja það. Hann taldi öryggi Bandaríkjanna stafa hættu af stöðunni. Petraeus var yfirmaður CIA.
FBI-maðurinn kom áhyggjum sínum á framfæri við leiðtoga republikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Einhverra hluta vegna var reynt að þagga málið niður. Það var þæft. Kannski vegna forsetakosninganna. Allt komst þó upp um síðir.
Víkur þá sögunni að hinum grandvara fjölskylduföðurnum, Allen. Þeim sem Broadwell sakaði Kelley um að eiga í ástarsambandi við. Hann var háttsettur hershöfðingi. Samskipti hans og Broadwell hófust á því að Broadwell varaði hann við því að eiga í ástarsambandi við drusluna Kelley. Hún væri ómerkilegur hjónadjöfull og samkvæmisljón.
Leikar fóru þannig að ástir tókust með þeim Allen og Broadwell. Allen átti að verða næsti yfirmaður herafla NATO. Í millitíðinni sendi hann Broadwell 30 þúsund ástarbréf. Það var nánast full vinna. Með bréfunum sendi hann Broadwell ljósmyndir af sér mismikið klæddum. Eða réttara sagt mismikið nöktum.
Þrátt fyrir að allir þessir tölvupóstar á milli Broadwell og annars vegar Allens og hinsvegar Petraeusar hafi verið faldir - gerðir ósýnilegir í þeirra tölvum og "órekjanlegir" - þá tókst tölvusérfræðingum FBI að grafa þá upp. Það eru góð meðmæli með tölvudeild FBI. En ekki eins góð meðmæli með siðferði, heilindum og hjúskapargildum Allens, Petraeusar, Broadwell og Kelley. Engu að síður er allur hópurinn kirkjurækinn, íhaldssamur og sammála um að hjónabandið sé heilög stofnun, hvort heldur sem er í augum guða eða manna.
Hér er hin vel gifta, trygglynda og fertuga eiginkona, Broadwell, ásamt eiginmanninum:
Svo er það hinn trúfasti borðalagði og margheiðraðri eiginmaður til fjögurra áratuga, Petraeus á sjötugsaldri, ásamt eiginkonunni. Kappsemi Petraeusar við að drepa Íraka og Afganista orsakaði tvímælis hjá undirmönnum hans. Það er önnur saga og léttvægari:
Því næst hin vel gifta Kelley ásamt eiginmanninum:
Loks er það sá ljúfi Allen ásamt sinni ástkæru eiginkonu. Ef hún fengi flatlús gæti sú óværa endað hjá eiginmanni Broadwell eftir að hafa ferðast á milli Allens, Kelley, hennar eiginmanns og Petraesusar og þaðan til Broadwell. Að lokum sæti eiginmaður Broadwell uppi með flatlús frá eiginkonu Allens. Þá væri flatlúsin hissa eftir allt þetta ferðalag.
![]() |
Ástkonan er miður sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 21.11.2012 kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
19.11.2012 | 22:43
Getur komið sér vel að vita
Margir Íslendingar senda ættingjum sínum og vinum, búsettum erlendis, harðfisk, hangikjöt, kæsta skötu, kæstan hákarl og súrsaða hrútspunga. Aðallega ber á þessu um eða fyrir sólrisuhátíðina, jólin, ár hvert. En líka á Þorra. Vandamálið er að embættismenn á tollpóstsstofu í viðtökulandinu kunna þessu misjafnlega vel eða illa. Þeir telja sig þurfa að vernda þjóð sína gegn þessum hugsanlega stórhættulegu matvælum. Þeir þefa af matnum. Lyktin staðfestir ranglega gruninn um skemmdan og skaðlegan mat. Þá er ekki um annað að ræða en farga óþverranum samkvæmt kúnstarinnar reglum undir eftirliti.
Viðtakandi jólapakkans fær svo loks í hendur heldur rýran kost. Stundum með athugasemdum um að pósthúsið lykti ennþá til mikilla óþæginda fyrir starfsfólk.
Það er til einfalt ráð til að koma hátíðargóðgætinu á áfangastað. Það þarf einungis að merkja matvælin rækilega - og fylgiskjöl með pakkanum - sem kattafóður. Reglur um dýrafóður eru mun rýmri en reglur um matvæli til manneldis.
Þetta skal einnig hafa í huga þegar íslenskur ferðamaður tekur áðurnefnd matvæli með sér í ferðatösku til útlanda.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.11.2012 | 17:35
Frábær uppástunga um jólagjafir
Fyrir tæpum mánuði sagði ég á þessum vettvangi frá veikindum ungs listamanns. Sá heitir Ingólfur Júlíusson. Hann er best þekktur sem gítarleikari pönksveitarinnar Q4U annars vegar og hins vegar sem ljósmyndari, margverðlaunaður út um allan heim. Þarna fyrir tæpum mánuði greindist Ingó með bráðahvítblæði.
Hann var þegar settur í viðeigandi meðferð. Heildar meðferðin tekur um sex mánuði. Henni lýkur á mergskiptum úti í Svíþjóð.
Í fyrsta kafla meðferðar sýna á milli 70 og 80% sjúklinga jákvæða svörun. Því miður er ekki svo í tilfelli Ingós. Þessi kafli meðferðarinnar hefur engum árangri skilað.
Á fésbók Heiðu B. Heiðars sá ég góða uppástungu um jólagjafir. Hún er sú að fólk fari inn á heimasíðu Ingós og kaupi þar ljósmyndir til jólagjafa. Flottari ljósmyndir eru vandfundnar. Um leið er fjárhagur Ingós styrktur, en Ingó er að mestu tekjulaus eftir að hafa verið kippt þetta óvænt út af vinnumarkaði.
Þetta er slóðin á heimasíðuna: http://ingomedia.net/
Ég vil bæta annarri uppástungu við. Hún er sú að í stað þess að senda jólakort verði samsvarandi upphæð lögð inn á styrktarreikning Ingós. Svo látið þið vita af þessari ákvörðun á fésbók. Ég fullvissa ykkur um að allir vinir ykkar verða sáttari við að kostnaði við að kaupa og senda þeim jólakort í ár sé betur varið til styrktar Ingólfi. Þið munið strax sjá það á "lækunum" við tilkynninguna.
Nánari upplýsingar um aðstæður Ingólfs og styrktarreikning hans má lesa með því að smella á þennan hlekk: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1265005/
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.11.2012 | 22:58
Plötuumsögn
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2012 | 01:22
Besta aðferð til að þrífa ketti og hunda
Ég sá þessa góðu uppskrift á fésbókarsíðu Önnu Sigríðar Karlsdóttur. Uppskriftin á erindi við alla sem halda ketti eða hunda sem heimilisdýr. Þetta er borðliggjandi frábær aðferð þegar vel er að gáð. Hún er svona og númeruð til að allt fari fram í réttri röð. Það er mikilvægt: Það var hundurinn á heimilinu sem fann upp þessa aðferðin við að þvo ketti og hvíslaði henni að heimilisfólkinu. Það sem hvutti veit ekki er að þetta hentar einnig við þrif á hundum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.11.2012 | 22:41
Bruce Springsteen segir frá íslenskri konu
Vinna við heimildarkvikmynd um Brúsa frænda (Bruce Springsteen) er komin á fljúgandi skrið. Nafn myndarinnar verður "Springsteen & I". Myndin er samvinnuverkefni þriggja kvikmyndafyrirtækja. Þau eru: Ridley Scott Associates, Black Dog Films og Scott Free London. Uppskriftin að myndinni er sótt í margverðlaunaða mynd Scott Free London, "Life In A Day".
Á heimasíðu Brúsa er upplýst að framleiðandi (producer) myndarinnar sé Svana Gísla. Svana er meðeigandi í Black Dog Films. Ég veit fátt um Svönu annað en að hún hefur eitthvað komið að myndböndum fyrir Sigur Rós.
Á heimasíðu Brúsa eru aðdáendur hvattir til að senda Svönu frásagnir af því á hvern hátt Brúsi og tónlist hans hafa haft á líf viðkomandi. Svana segir að það skipti ekki máli hvort frásögn sé frá aðdáendum sem eru nýbúnir að uppgötva Brúsa eða hvort þeir séu búnir að vera harðlínuaðdáendur í fjóra áratugi. Svana biður líka um sögur af foreldrum, ættingjum, nágrönnum eða öðrum sem séu ákafir safnarar á Brúsa-plötum.
Frestur til að senda inn frásagnir eru til 29. nóv. Netfang Svönu er gefið upp: info@springsteenandi.com . Fólki er einnig boðið að hringja í Svönu. Símanúmerið er hinsvegar ekki gefið upp. Það er skrítið.
Brúsi er eitt stærsta nafnið í rokkinu. Nafn Svönu Gísla ætti því að verða þekkt á heimsvísu eftir að hafa verið kynnt á heimasíðu kappans. Brúsi er þekktur fyrir þátttöku í ýmsum mannúðarmálum. Til að mynda var hann á dögunum duglegur við að safna hjálparfé til stuðnings þeim sem eiga um sárt að binda eftir fellibylinn Sandy. Hann hefur einnig lagt Amnesty International lið og túrað undir merkjum þessa helsta málsvara samviskufanga heims. Svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir fjórum árum tók Brúsi í fyrsta skipti þátt í beinni stjórnmálabaráttu með því að styðja forsetaframbjóðandann Hussein Obama. Þeir eru góðir vinir. Svana Gísla á væntanlega eftir að verða tíður gestur í Hvíta húsinu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2012 | 21:35
Skammarlega illa lagt. Broslegar / neyðarlegar myndir
Fyrir nokkrum dögum velti ég vöngum - hér á þessum vettvangi - yfir framförum Íslendinga í umferðinni og á fleiri sviðum. Ennþá eiga Íslendingar samt margt ólært. Þar á meðal að leggja ekki í bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Það er að segja að bílstjórar með óskerta hreyfigetu virði þessi stæði og láti þau í friði. Annað vandamál er hvað margir leggja bílum sínum illa og af tillitsleysi gagnvart öðrum. Það er óskemmtilegt að koma að bíl sínum þegar öðrum bíl hefur verið lagt þétt upp við hurðina bílstjóramegin. Þá þarf að klöngrast inn í bílinn farþegamegin eða bíða eftir því að bílstjóri hins bílsins komi og aki á brott.
Svo er það þetta lið sem leggur bílnum að hálfu yfir í næsta bílastæði. Það er lítið gaman að aka um bílastæðissvæði, finna hvergi laust stæði en sjá einn eða fleiri bíla sem nota eitt og hálft stæði. Annar bílstjóri getur ekki nýtt hálfa stæðið.
Það er undarlegt en satt að sumstaðar í útlöndum er til fólk sem leggur bílum sínum eins og kjánalegustu og frekustu Íslendingar.
Stundum koma upp erfið mál þegar togast er á um það hvorn bílstjórann bar fyrr að garði og eigi þar með einskonar frumburðarrétt.
Þarna vildi ein frekjan endilega leggja á bakvið húsið þó að það væri enginn akvegur þangað og í raun alltof þröngt fyrir bíl að troðast þangað.
Sumir láta ekki smá drullufor aftra sér frá því að leggja þar sem þeir vilja.
Lögreglan er ekki alltaf til fyrirmyndar þegar kemur að því að leggja bíl snyrtilega í stæði. Einkum þegar mikið liggur á að gægjast inn um glugga hjá grunuðum.
Þrátt fyrir allt: Þó að illa gangi að leggja bíl á réttri hlið í stæði þá skiptir máli að hárið sé vel greitt. Það er engin reisn yfir því að standa með úfið og illa greitt hár fyrir utan dældaðan bíl. Það er sérstaklega neyðarlegt ef rúður bílsins hafa brotnað.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.11.2012 | 17:19
Íslenskur heilsudrykkur er besti jólabjór í heimi!
Sænska netsíðan Allt om mat er virt og vinsæl. Ekki bara í Svíþjóð heldur víða um heim. Aðallega á Norðurlöndunum. Enda geta allir norðurlandabúar lesið sænsku. Nema Íslendingar (aðrir en þeir sem hafa búið þar).
Það er mark tekið á öllu sem stendur í Allt om mat. Þar á bæ vita menn hvað þeir eru að segja. Þeir segja ekkert nema að vel skoðuðu máli og helst með vandvirknislegum og ítarlegum samanburði.
Nú hefur Allt om mat gert rækilega úttekt á helstu jólabjórum sem í boði eru 2012. Þar trónir á toppnum íslenskur heilsudrykkur, Jólabjór frá Ölvisholti Brugghúsi. Hann fær eftirfarandi umsögn:
Bör ej missas!
Jolabjor, Ölvisholt Brygghus, Island, 6,5 %, 33 cl, 29 kronor
Brun med orange stick. Sötma med tjärtamp. Godisfruktig sötma med tydlig tjärton. Lite lakrits, lite rök, bra. 4 -.
Ég kann ekki sænsku en hef grun um að textinn segi eitthvað á þessa leið:
"Má ekki missa af!
Jólabjór, Ölvisholt Brugghús, Íslandi, 6,5% (styrkleiki), 33 cl, 554 íslenskar krónur. Brúnleitur með appelsínugulum miða. Sætleiki með tjörukeim. Ávaxtasætleiki með skörpum tjörutóni. Smá lakkrís, smá reykur, í góðu lagi. 4-."
Gott væri að fá leiðréttingar á þessa þýðingu. Ég er viss um að hún er tóm vitleysa.
Næstir eru nefndir til sögunnar eftirtaldir bjórar. Þeir fá einkunnina 4 (sem jafngildir 4 stjörnum af 4):
Mysingen Midvinterbrygd, Nynäshamns Ångbryggeri, 6 %, 50 cl, 31,40 kronor
Corsendonk Christmas Ale, Brouwereij Corsendonk, Belgien, 8,1 %, 25 cl, 20,90 kronor
Sigtuna Midvinterblot, Sigtuna Brygghus, 8 %, 33 cl, 22,90 kronor
Anchor Christmas Ale, Anchor Brewing, USA, 5,5 %, 35,5 cl, 25,60 kronor
Midtfyns Jule Stout, Midtfyns Bryghus, 7,6 %, 50 cl, 39,90 kronor
NIce Chouffe, Brasserie dAchouffe, Belgien, 10 %, 75 cl, 56,90 kronor
Liefmans Glühkriek, Duvel Mortgaat, Belgien, 6 %, 75 cl, 57 kronor
Widmer Brothers Brrr Seasonal Ale, Widmer Brothers Brewing, USA, 7,2 %, 35,5 cl, 25,90 kronor
Fullers Old Winter Ale, Fuller, Smith & Turner, Storbritannien, 5,3 %, 50 cl, 22,90 kronor
Síðan eru nefndir bjórar sem teljast vera í meðallagi góðir (þeir fyrst töldu með einkunn 3 - 4. Þeir neðstu með einkunn 2 - 3):
Jämtlands Julöl, Jämtlands bryggeri, 6,5 %, 50 cl, 25,90 kronor
Flying Dog K-9 Cruiser Winter Ale, Flying Dog Brewery, USA, 7,4 %, 35,5 cl, 26,90 kronor
Oppigårds Winter Ale, Oppigårds bryggeri, 5,3 %, 50 cl, 26,50 kronor
Nils Oscar Kalasjulöl, Nils Oscar, 5,2 %, 33 cl, 19,50 kronor
Dugges Easy Christmas, Dugges, 4,2 %, 33 cl, 18,10 kronor
St Eriks Julporter, St Eriks Bryggeri, 5,9 %, 33 cl, 21,90 kronor
Shepherd Neame Christmas Ale, Shepherd Neame, Storbritannien, 7 %, 50 cl, 28,90 kronor
St Peters Winter Ale, St Peters Brewery, Storbritannien, 6,5 %, 50 cl, 26,90 kronor
Ayinger Winter Bock, Brauerei Aying, Tyskland, 6,7 %, 50 cl, 29,90 kronor
Mohawk Blizzard Imperial Porter, Dr Proef Brouwereij, 9,7 %, 33 cl, 29,70 kronor
Sleepy Bulldog Winter Ale, Gotlands bryggeri, 6,2 %, 33 cl, 18,80 kronor
Mohawk Whiteout Stout, Gamla Slottskällans Bryggeri, 9,7 %, 50 cl, 34,90 kronor
Jacobsen Golden Naked Christmas Ale, Carlsberg Danmark, 7,5 %, 75 cl, 55 kronor
Wisby Julbrygd, Gotlands Bryggeri, 6 %, 33 cl,18,90 kronor
Åbro Sigill Julöl, Åbro bryggeri, 6 %, 50 cl, 18 kronor
Falcon Tipp Tapp, Carlsberg Sverige, 4,5 %, 33 cl, 12,90 kronor
Spendrups Julbrygd, Spendrups Bryggeri, 50 cl, 14,90 kronor
Pistonhead Christmas Carol, Brutal Brewing/Spendrups, 5,6 %, 50 cl, 15,90 kronor
Åbro Julöl, Åbro bryggeri, 5,2 %, 50 cl, 15 kronor
Mariestads Julbrygd, Spendrups, 5,8 %, 50 cl, 16,90 kronor
Nisse Julöl, Gamla Slottskällans bryggeri, 5,3 %, 50 cl, 27,90 kronor
Hibernation Ale, Great Divide Brewing, USA, 8,7 %, 35,5 cl, 29,90 kronor
Samuel Adams Winter Lager, Boston Beer, 5,5 %, 35,5 cl, 17,50 kronor
Þessa jólabjóra má sniðganga. Það er lítið varið í þá. Einkunn 1 - 2:
Sofiero Julöl, Kopparbergs bryggeri, 5,2 %, 50 cl, 12,90 kronor
Pripps Blå Jul, Carlsberg Sverige, 5 %, 50 cl, 14,90 kronor
Three Hearts Julöl, Krönleins, 5,3 %, 50 cl, 15 kronor
Störtebeker Weinachts-bier, Störtebeker Braumanufaktur, Tyskland, 6,5 %, 50 cl, 21,90 kronor
Grebbestad Julöl, Grebbestad bryggeri, 5,2 %, 50 cl, 20,50 kronor
Falcon Julmumma, Carlsberg Sverige, 5,2 %, 50 cl, 16,90 kronor
Falcon Julöl, Carlsberg Sverige, 5,2 %, 50 cl, 15,90 kronor
Celt Nadolig Rare, The Celt Experience Brewery, Storbritannien, 5 %, 50 cl, 23,70 kronor
Eriksberg Julöl, Carlsberg Sverige, 5,6 %, 50 cl, 16, 40 kronor
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.11.2012 | 22:13
Músíksmekkur frambjóðenda reið baggamun
Þegar lítill munur er á fylgi forsetaframbjóðenda í Bandaríkjum Norður-Ameríku þá getur músíksmekkur þeirra ráðið úrslitum. Það gerðist í tilfelli Husseins Obama og Mitts Romneys. Músíksmekkur þess fyrrnefnda er meira sannfærandi og á víðar snertiflöt með hinum almenna Bandaríkjamanni. Eða öllu heldur einhversskonar þverskurði af honum.
![]() |
Misskildu hvað var að gerast í landinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 11.11.2012 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.11.2012 | 22:57
Íslendingar sýna framfarir
Íslendingar eru allir að koma til, hægt og bítandi, á mörgum sviðum. Við erum farnir að taka tillit til annarra í vaxandi mæli - með grófum undantekningum, eins og gengur.
Fyrir 20 - 30 árum kunnum við ekki að aka á götum þar sem tvær eða fleiri akreinar liggja í sömu átt. Það tók okkur, almennt, mörg mörg ár að átta okkur á því að þeir sem kjósa að keyra hægt eigi að halda sig á akrein lengst til hægri. Hinir, sem kjósa meiri hraða en aðrir, halda sig á á akrein lengst til vinstri.
Ennþá er algengt að sjá einstaka ökumann dóla sér löturhægt á vinstri akrein. En þeim fækkar.
Íslendingum gengur hinsvegar illa að heimfæra þessa reglu yfir á rúllustiga og aðra stiga. Við tökum eftir því erlendis að þeir sem eru ekkert að flýta sér standa lengst til hægri í stiganum. Hinir, þessir sem eru að flýta sér, hraða sér eftir vinstri hluta stigans.
Þegar ekið er um borgina kemur fyrir að gangandi vegfarendur standa við gangbraut og bíða eftir að komast yfir. Því fer fjarri að allir ökumenn stöðvi og hleypi viðkomandi yfir götuna. Ég hef vanið mig á að sýna lipurð hvað þetta varðar. Það einkennilega er að börn sýna þakklæti með því að veifa. Fullorðnir gera það aftur á móti fæstir.
Í fyrravor varð starfsfólk í stórmörkuðum vart við að Íslendingar fóru að apa eftir útlendingum: Að setja á færibandið statíf sem aðgreinir innkaup viðskiptavinanna. Áður þurfti afgreiðslufólkið að greina innkaupahrúgur viðskipta vina að með þessu statífi. En nú hafa íslenskir viðskiptavinir lært að gera þetta sjálfir. Það er eiginlega að verða algilt. Fyrir bragðið er hægt að raða þéttar á færibandið (kúnninn losnar þá við að halda á innkaupadóti sínu þangað til færibandið er orðið autt).
Næst þurfa Íslendingar að læra á stefnuljós og hætta að leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Það verður erfitt.
![]() |
Virðingarleysið er algjört |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 10.11.2012 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.11.2012 | 15:57
George W. Bush kaus Obama!
Sitthvað bar til tíðinda í kosningunum sem fóru fram í Bandaríkjum Norður-Ameríku á þriðjudaginn. Enda var kosið um margt. Á vesturströndinni grátbáðu kjósendur um að fá að borga hærri skatta. Fylgdu þeir þar í kjölfar bandarískra auðmanna sem hafa þrábeðið um auðmannaskatt. Í sumum ríkjum kváðu kjósendur upp úr með það að þeir vilji fá að reykja sitt hass í friði; án afskipta lögreglu og dómsvalds. Þá reyndist - nú sem stundum áður - frambjóðendum til framdráttar að hafa kvatt þennan heim og vera komnir 6 fet neðanjarðar. Tveir slíkir sigruðu með stæl.
Óvæntustu tíðindin eru þau að fyrrverandi forseti, reppinn George W. Brúskur, kaus ekki forsetaframbjóðanda síns flokks heldur demókratann Hussein Obama.
Brúskur virtist óvenju ringlaður þegar hann mætti á kjörstað í Texas. Fyrst ruglaðist hann á kjörklefa og salernisklefa. Þegar hann náði áttum og slapp inn í kjörklefann fór allt í rugl. Það þyrmdi yfir hann og hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Ástæðan var sú að það mátti einnig kjósa menn til þings og fleiri embætta. Brúskur varð ringlaður af öllum þeim nöfnum sem hann sá á tölvuskjánum. Í taugaveiklunarkasti fór hann að hamast á tölvunni til að gera eitthvað og til að reyna að átta sig á því hvernig hún virkaði. Áður en hann vissi af var hann búinn að kjósa Obama.
Við það ærðist Brúskur. Hann réðist með ofbeldi á græjuna í örvæntingarfullri tilraun til að afturkalla atkvæðið. Hann var næstum búinn að velta bæði græjunni og kjörklefanum um koll þegar tölvan stöðvaði frekari aðgerðir og Brúskur gat ekki lokið við að kjósa þingmenn eða aðra.
Brúskur hljóp kófsveittur, baðandi út öllum öngum, til starfsfólks kjördeildarinnar og krafðist þess að atkvæði sitt yrði gert óvirkt og hann fengi að kjósa aftur. Það var ekki hægt. Öryggisverðir buðust til að hringja eftir áfallahjálp fyrir hann. Hann afþakkaði en þáði bréfaþurrkur til að þerra svitann.
Brúskur hefur fordæmt kosningagræjuna og sagt hana vera svo flókna og ruglingslega að ómögulegt sé að finna út hvernig hún virki. Framleiðandi græjunnar mótmælir þessu. Hann segir að af öllum þeim milljónum sem kusu með græjunni sé Brúskur eina einasta tilfellið sem áttaði sig ekki á henni. Allir aðrir hafi kosið vandræðalaust og verið ánægðir með hvað græjan sé einföld og auðskilin. Græjunni verði ekki breytt. Vandamálið sé alfarið einskorðað við Brúsk.
![]() |
Tveir náðu kjöri þrátt fyrir að vera látnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 9.11.2012 kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
6.11.2012 | 22:58
Hefnd í stað réttlætis
Margir þekkja Rautt Eðal Ginseng. Margir hafa notað það að staðaldri í áratugi. Aðrir nota það aðeins þegar mikið liggur á, svo sem í prófönnum, á taflmótum eða í öðrum keppnisíþróttum. Fyrir nokkrum árum dúkkaði upp í íslenskum verslunum vara undir nafninu Rautt royal ginseng. Það var í samskonar pakkingum og útlitshönnun að öllu leyti keimlík. Jafnframt voru á umbúðunum og í auglýsingum notaðar orðréttar lýsingar á umbúðum Rauðs Eðal Ginsengs og úr bæklingum um þá vöru.
Í auglýsingum var Rautt royal ginseng ýmist kynnt sem Rautt royal ginseng eða Rautt kóreskt ginseng royal eða Rautt royal ginseng frá Kóreu eða (í sjónvarpsauglýsingu) meira að segja Rautt Eðal Ginseng.
Brotavilji söluaðilans, Eggert Kristjánsson hf., var einbeittur. Ásetningur um að rugla neytendur í ríminu var augljós. Fá hann til að halda að þetta væri allt ein og sama varan. Það tókst. Meira að segja afgreiðslufólk í verslunum hélt að þetta væri sama varan.
Eðalvörur, umboðsaðili Rauðs Eðal Gingsengs, kærðu þetta og Neytendastofa kvað upp úr með að Eggert Kristjánsson hf. hefði brotið samkeppnislög. Einhverjar smávægilegar breytingar voru
Sjá: http://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2384
Neytendasamtökin létu jafnframt að eigin frumkvæði (vegna fjölda kvartana frá neytendum) rannsaka erlendis Rautt kórekst ginseng (eins og varan er núna kölluð). Þar reyndist vera um svikna vöru að ræða.
Sjá: http://www.ns.is/ns/frettir/?cat_id=12981&ew_0_a_id=294781
Einhverjar smávægilegar breytingar voru gerðar á umbúðum. Eðalvörur telja breytinguna ekki vera næga. Breytingar séu það litlar að fólk sé enn að ruglast á vörunum. Pakkningar eru ennþá eins og útlitshönnun með sömu litum og svipuð að öðru leyti. Meira að segja innkaupastjórar verslana og afgreiðslufólk er ennþá að ruglast á vörunum. Þessum upplýsingum hefur verið komið á framfæri við Neytendastofu. Nýverið klöguðu Eðalvörur Neytendastofu fyrir að taka ekki á málinu. Neytendastofa brást hin versta við og kvað í snarhasti upp þann úrskurð að engin hætta væri á ruglingi. Og það þrátt fyrir vitneskju um hið gagnstæða.
Til gamans má geta að ginseng er selt út um allan heim í mismunandi og ólíkum umbúðum. Til að mynda í glösum eða pökkum af ýmsum stærðum og þykktum.
Til samanburðar eru umbúðir Rauðs Eðal Ginsengs og Rauðs kóreskt ginsengs. Litir eru þeir sömu en ég fann ekki myndir sem eru með sömu lýsingu. Þessar myndir eru þar af leiðandi villandi. Það þarf að hafa í huga að litir séu þeir sömu. Reyndar sér fólk mun á þessum pökkum ef það hefur þá hlið við hlið. En þegar fólk hefur aðeins annan pakkann í höndum þá ræður lögun pakkans og litirnir því að margir eiga erfitt með að átta sig á hvað er hvað. Einkum fólk sem heldur að þetta sé sama varan.
Ég sé að eigandi Eðalvara er búinn að blogga um málið: http://siggith.blog.is/blog/ginseng/entry/1266908/
![]() |
Engin hætta á ruglingi á umbúðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.11.2012 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.11.2012 | 22:15
Varúð! Ekki fyrir lofthrædda
Það er frískandi að sofa úti og anda að sér fersku fjallaloftinu; glugga í bók áður en draumheimar kalla og horfa yfir skógi vaxnar fjallahlíðarnar. Við þessar aðstæður getur verið varasamt að lenda á fylleríi. Líka getur verið varasamt að velta sér mikið og brölta um í svefni.
Fögur er hlíðin. Eða gilið. Maðurinn sem stendur efst til hægri stendur ekki nógu framarlega á klettabrúninni til að njóta stórbrotins útsýnisins til fulls. Þetta er ragmenni. Það er alveg hægt að standa næstum metra framar án þess að detta fram af.
Þetta er útsýnispallur í Kína. Kosturinn við svona útsýnispall er að hægt er að njóta útsýnis betur og lofthræðsla er ekki alveg rökrétt.
Þessi mynd er EKKI fótósjoppuð. Það hefur ekkert verið átt við myndina. Þetta gerðist í alvörunni.
Þetta er frægur útsýnispallur í Noregi. Hann heitir Preikistolen.
Á myndinni hér þarnæst fyrir ofan - af manninum sem hangir neðan í flugdreka: Maðurinn er svokallaður ofurhugi. Hann kom sér viljandi í þessar aðstæður. Ég las um þessa mynd fyrir margt löngu. Maðurinn er þekktur í "stunt-bransanum". Ég man ekki hvert tilefni þessa áhættuatriðis var. Hvort það var sýningaratriði fyrir sjónvarp eða sett upp fyrir auglýsingu. Kannski fyrir kvikmynd. Þegar ég rakst á myndina aftur nýverið þá var ég búinn að gleyma tilefninu. En þetta er ekki til eftirbreytni fyrir lofthrædda.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.11.2012 | 02:24
Hvorn styðja poppstjörnurnar?
Það er skemmtilegur samkvæmisleikur að velta vöngum yfir forsetakosningum í Bandaríkjunum. Sumar poppstjörnur eru áhugasamar um samfélagið og tala ætíð opinskátt um sín stjórnmálaviðhorf. Aðrar poppstjörnur eru lítið fyrir að opinbera stjórnmálaskoðanir sínar, svona að öllu jöfnu, en skjótast óvænt fram í sviðsljósið þegar stutt er til kosninga og styðja opinberlega sinn mann.
Í áranna rás hefur fjöldi skærustu poppstjarna verið viljugur til að styðja opinberlega demókrata og frambjóðendur þeirra. Það náði hámarki þegar Obama bauð sig fram til forseta fyrir fjórum árum.
Mun færri poppstjörnur hafa stigið fram til stuðnings republikunum og frambjóðendum þeirra. Það er að segja bitastæðum poppstjörnum, sem njóta virðingar og vinsælda. Það er ekki beinlínis hörgull á lítt þekktum kántrý-boltum í stuðningsliði republikana.
Meðal yfirlýstra stuðningsmanna Obama er þessa að finna:
Justin Timberlake
Yfirlýstir stuðningsmenn Romneys eru þessir helstir:
![]() |
Úrslitin ráðast í Ohio |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 6.11.2012 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
3.11.2012 | 00:01
Íslenskur veitingastaður seldi 1944 rétti sem máltíð
Fyrir fimmtán árum eða svo dvaldi ég á hóteli úti á landi yfir helgi. Mætti þar á föstudegi og var til mánudags. Ég keypti hádegisverð og kvöldverð þessa daga, ásamt því að vera í morgunmat, síðdegiskaffi og bjór á kvöldin. Á sama hóteli dvöldu einnig nokkrir aðkomnir iðnaðarmenn sem voru í tímabundnu verkefni á staðnum.
Fljótlega varð ég var við að skömmu eftir að menn pöntuðu máltíð þá heyrðist frá eldhúsinu örbylgjuofn vera settur í gang. Á þessum tíma átti ég tvo unga syni í Reykjavík. Í ísskáp heimilisins í Reykjavík voru jafnan til staðar einhverjir tilbúnir réttir undir nafninu 1944, auglýstir sem þjóðlegir íslenskir réttir fyrir sjálfstæða Íslendinga. Þetta voru ítalskur Carbonara pasta-réttur, indverskur karrýréttur, tyrkneskur korma kjúklingaréttur, asískur mango kjúklingaréttur, ítalskur lasagna réttur, ungversk gúllassúpa, kínverskur súrsætur réttur, indverskur tikka masala kjúklingaréttur, rússneskur stroganoff réttur, ítalskur Bolonese spaghettí réttur og eitthvað svoleiðis. Það var þægilegt fyrir syni mína að geta gengið að þessum þjóðlegu íslensku réttum þegar strákarnir urðu svangir og foreldrarnir fjarverandi.
Ég var vel að mér um þjóðlegu íslensku 1944 réttina á þessum tíma. Eftir að hafa keypt nokkrar ágætar máltíðir á hótelinu þóttist ég merkja að þær væru nánast alveg eins og 1944 réttirnir. Reyndar að viðbættri slettu af hrásalati, niðurskornum gúrku- og tómatsneiðum. Matseðillinn var eins og upptalning á þjólegu íslensku 1944 réttum fyrir sjálfstæða Íslendinga.
Áður en dvöl minni á hótelinu lauk spurði ég hóteleigandann hvort grunur minn væri réttur: Að máltíðirnar væru að uppistöðu til 1944 skyndiréttir. Eigandanum brá til að byrja með en viðurkenndi að svo væri. Bað mig jafnframt um að hafa hljótt um það. Útskýrði síðan fyrir mér að yfir vetrartíma væri erfitt að liggja með annað hráefni en þessa 1944 rétti. Á þessum tíma fékk hótelið réttina frá SS á um það bil 200 krónur í heildsölu. Máltíðin með gúrkum, tómatsneiðum og hrásalati var seld á 960 kall eða því sem næst (sumir réttir á 920 krónur. Aðrir á 980 krónur).
Tekið skal fram að nokkru síðar var þessi aðferð lögð af á þessu hóteli. Eftir það hefur þar boðið upp á (dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum.
![]() |
70% franskra veitingahúsa ber fram tilbúna rétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)