21.4.2021 | 01:24
Smásaga um fót
Bænastund er að hefjast. Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið. Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf. "Ég er með mislanga fætur," segir hann. "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"
"Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið. Við græjum þetta."
Sá halti hlýðir. Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins, hristir hann kröftuglega og hrópar: "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"
Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum. Að lokum hrópar hann sigri hrósandi: "Ég fann fótinn lengjast! Þú ert heill, félagi."
Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu. Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið. Það fýkur í hann. Hann hrópar: "Helvítis fúskarar! Þið lengduð vitlausan fót!"
Forstöðumaðurinn reiðist líka. Hann hvæsir: "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari. Báðir snarvitlausir!"
Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum. Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við. Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk.
Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað. Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar: "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti. Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu. Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."
Gesturinn fylgir ráðinu. Það reynist heillaráð.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.4.2021 | 23:22
Skammaður í búð
11.4.2021 | 10:17
Samherjasvindlið
Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á; kúplaði mig út úr pólitískri umræðu. Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen, nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum. Þetta á erindi í umræðuna: Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni. Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.
Hefst þá málsvörn Anfinns:
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.4.2021 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.4.2021 | 00:34
Furðuhlutir
Fólk er alltaf að fá hugmyndir. Sérstaklega fá margir hugmyndir um allskonar hluti og matvæli. Stundum mætti uppfinningarfólkið hafa taumhald á sér í stað þess að hefja framleiðslu á uppfinningunni. Til að mynda er stundum ástæða til að ráðast í markaðskönnun. Hún gæti bjargað mörgum frá því að missa aleiguna í stóru gjaldþroti. Hér má sjá nokkur dæmi sem markaðurinn hafnaði.
Blátt sýróp var ekki að gera gott mót. Né heldur augnhár fyrir bíla. Hvað með gosdrykki með bragði á borð við beikon, hnetusmjör og buffaló-vængi? Svo var það snilldin að sameina buxur og strigaskó. Hárgreiða með tönnum og lautarferðarbuxur? Hvað var þessi að pæla sem ætlaði að slá í gegn með barnapúða sem veldur martröð? Eða sykurfrauð með pizza-bragði?
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2021 | 19:06
Reglur eru reglur
Stundum á ég erindi í pósthús. Oftast vegna þess að ég er að senda eitthvað áhugavert út á land. Landsbyggðin þarf á mörgu að halda. Ég styð þjónustu við hana. Enda er ég dreifbýlistútta úr Skagafirði. Margt þykir mér skrýtið, svo skilningssljór sem ég er. Ekki síst þegar eitthvað hefur með tölvur að gera.
Þegar pakki er sendur út á land þarf að fylla út í tölvu fylgibréf. Þar þarf í tvígang að skrá inn póstnúmer sendanda og póstnúmer viðtakanda. Þegar allt hefur verið skráð samviskusamlega þarf að prenta það út á pappír, klippa hann niður og líma yfir með þykku límbandi. Ódýrara og handhægara væri að prenta það út á límmiða.
Á dögunum var ég að senda vörur til verslunarkeðju út á landi. Ég kann kennitölu þess utanbókar. En í þetta sinn komu elliglöp í veg fyrir að ég myndi kennitöluna. Ég bað afgreiðslumann um að fletta kennitölunni upp fyrir mig. Hann neitaði. Sagði sér vera óheimilt að gefa upp kennitölur. Það væri brot á persónuvernd.
Við hlið hans var tölva sem ég hafði aðgang að til að fylla út fylgibréf. Sem ég og gerði. Þetta var spurning um hálfa mínútu eða svo. Ég spurði hver væri munurinn á því að ég fletti upp fyrir framan hann kennitölu eða hann gerði það. Svarið var: Þú ert í rétti til þess en ekki ég.
Já, reglur eru reglur.
Tónlist | Breytt 31.3.2021 kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.3.2021 | 20:14
Færeyingar skara framúr
Í fréttum af erlendum vettvangi er iðulega tíundað hvernig norrænu þjóðunum vegnar í baráttunni við kóróna-vírusinn. Gallinn við þennan fréttaflutning er að Færeyingar eru taldir með Dönum. Fyrir bragðið fer glæsilegur árangur Færeyinga framhjá flestum. Nú skal bætt úr því:
Í Færeyjum er enginn smitaður. Enginn er að bíða eftir niðurstöðu úr skimun. Enginn er í innlögn. Enginn er í sóttkví.
Færeyingar hafa skimað um 240 þúsund manns. Það er mikið fyrir þjóð sem telur 53 þúsund. Skýringin er margþætt. Meðal annars hafa margir Færeyingar búsettir erlendis átt erindi til Færeyja oftar en einu sinni frá því að Covid gekk í garð fyrir tveimur árum. Sama er að segja um marga útlendinga sem þurfa að bregða sér til Færeyja vinnutengt. Einnig hefur verið töluvert um að Íslendingar og Danir sæki Færeyjar heim í sumar- og vetrarfríum. Erlend skip og togarar (þar af íslenskir) kaupa vistir í Færeyjum og landa þar. Svo eru það erlendu skemmtiferðaskipin.
Sjálfir gera Færeyingar út glæsilegt skemmtiferðaskip, Norrænu, sem siglir til og frá Færeyjum, Íslandi og Danmörku. Í þessum skrifuðu orðum er tveir Danir í sóttkví um borð í Norrænu.
Færeyingar hafa gefið 10 þúsund bólusprautur. Þar af hafa 11% af þjóðinni fengið fyrri sprautuna og 7,7% seinni sprautuna.
Danskur ráðherra, að mig minnir Mette Frederiksen, sagði í viðtali að Danir gætu lært margt af Færeyingum í baráttunni við Covid-19. Íslendingar geta það líka. Og reyndar lært margt annað af Færeyingum.
Heilbrigðismál | Breytt 30.3.2021 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.3.2021 | 23:08
Undarlegt samtal í banka
Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi. Það var tuttugu mínútna bið. Allt í góðu með það. Enginn var að flýta sér. Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera. Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var. "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér," sagði hún. Gjaldkerinn svaraði: "Við seljum ekki peysur. Þetta er banki." Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt: "Já, ég veit það. Ég hélt samt að þið selduð peysur."
Spaugilegt | Breytt 19.3.2021 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.3.2021 | 19:09
Hártískan
Tískan er harður húsbóndi. Ekki síst hártískan. Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi. Eins og þegar fjórir guttar í Liverpool tóku upp á því að greiða hárið fram á enni og láta það vaxa yfir eyrun á fyrri hluta sjöunda áratugarins (6-unni). Þetta kallaðist bítlahár. Það fór eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Svo leyfðu þeir hárinu að síkka. Síða hárið varð einkenni ungra manna. Svo sítt að það óx niður á bak og var skipt í miðju.
Löngu síðar komu til sögunnar aðrar hártískur. Svo sem pönkara hanakambur og þar á eftir "sítt að aftan".
Margt af því sem um hríð þótti flottast í hártísku hefur elst mis vel. Skoðum nokkur dæmi:
Tónlist | Breytt 13.3.2021 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.3.2021 | 00:10
Söluhrun - tekjutap
Sala á geisladiskum hefur hrunið, bæði hérlendis og erlendis. Sala á geisladiskum hérlendis var 2019 aðeins 3,5% af sölunni tíu árum áður. Sala á tónlist hefur þó ekki dalað. Hún hefur að stærstum hluta færst yfir á netið.
98% af streymdri músík á Íslandi kemur frá sænska netfyrirtækinu Spotify. Alveg merkilegt hvað litla fámenna 10 milljón manna þorp, Svíþjóð, er stórtækt á heimsmarkaði í tónlist.
Tæpur þriðjungur Íslendinga er með áskrift að Spotify. Þar fyrir utan er hægt að spila músík ókeypis á Spotify. Þá er hún í lélegri hljómgæðum. Jafnframt trufluð með auglýsingum.
Annar stór vettvangur til að spila ókeypis tónlist á netinu er youtube.com. Þar eru hljómgæði allavega.
Höfundargreiðslur til rétthafa eru rýrar. Það er ókostur. Þetta þarf að laga.
Ókeypis músík hefur lengst af verið stórt dæmi. Ég var í barnaskóla á Hólum í Hjaltadal á sjöunda áratugnum (6-unni). Þar var líka Bændaskóli. Nemendur í honum áttu svokölluð real-to-real segulbandstæki. Einn keypti plötu og hinir kóperuðu hana yfir á segulbandið sitt.
Nokkru síðar komu á markað lítið kassettusegulbandstæki. Flest ungmenni eignuðust svoleiðis. Einn kosturinn við þau var að hægt var að hljóðrita ókeypis músík úr útvarpinu. Það gerðu ungmenni grimmt.
Með kassettunni varð til fyrirbærið "blandspólan". Ástríðufullir músíkunnendur skiptust á safnspólum. Þannig kynntu þeir fyrir hver öðrum nýja spennandi músík. Síðar tóku skrifaðir geisladiskar við því hlutverki.
Sumir rétthafar tónlistar skilgreina ókeypis tónlistarspilun sem tekjumissi. Það er rétt að sumu leyti. Ekki öllu. Þegar ég heyrði nemendur Bændaskólans á Hólum blasta Bítlaplötum þá blossaði upp löngun í Bítlaplötur. Sem ég síðar keypti. Allar. Fyrst á vinyl. Svo á geisla.
Ég veit ekki hvað litla kassettutækið sem hljóðritaði lög úr útvarpinu skilaði kaupum á mörgum plötum. Þær voru margar. Sem og blandspólurnar.
Stór hluti þeirra sem spilar músík á Spotify og youtube.com kynnist þar músík sem síðar leiðir til plötukaupa. Eða mætingu á hljómleika flytjenda. Á móti kemur að mörg lög sem menn spila á Spotify og youtube.com hefði hlustandinn aldrei keypt á plötu. Fólk tékkar á ótal lögum og flytjendum án þess að heillast af öllu. Þess vegna er rangt að reiknað tap á höfundargreiðslum sé alfarið vegna spilunar á öllum lögum.
Netveiturnar hafa ekki drepið tónlist í föstu formi. Vinyllinn er í stórsókn. Svo brattri að hérlendis hefur sala á honum átjánfaldast á níu árum. Sér þar hvergi lát á.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2021 | 03:52
Verða einhverntíma til nýir Bítlar?
Bresku Bítlarnir, The Beatles, komu eins og stormsveipur, fellibylur og 10 stiga jarðskjálfti inn á markaðinn á fyrri hluta sjöunda áratugarins (6-unni). Þeir breyttu öllu. Ekki bara tónlistinni. Líka hugsunarhætti, hártísku, fatatísku... Þeir opnuðu bandaríkjamarkað upp á gátt fyrir breskri tónlist. Reyndar allan heimsmarkaðinn. Rúlluðu honum upp. Slógu hvert metið á fætur öðru. Met sem mörg standa enn í dag.
Um miðjan sjötta áratuginn var umboðsmaður þeirra í blaðaviðtali. Hann fullyrti að Bítlarnir væru svo öflugir að ungt fólk myndi hlusta á tónlist þeirra árið 2000. Hann hefði alveg eins getað nefnt árið 2021. Hvergi sér fyrir enda á vinsældum þeirra og áhrifum.
Eitt sinn var John Lennon spurður hvor hljómsveitin væri betri, The Rolling Stones eða Bítlarnir. Hann svaraði eitthvað á þessa leið: The Rolling Stones eru tæknilega betri. Þeir eru fagmenn. Við erum amatörar. Enginn okkar hefur farið í tónlistarnám. Við höfum bara fikrað okkur áfram sjálfir. Engu að síður standast plötur okkar samanburð við hvaða plötur sem er.
Enn í dag eru Bítlaplötur í efstu sætum á listum yfir bestu plötur allra tíma.
Fyrsta Bítlaplatan kom út 1963. Síðasta platan sem þeir hljóðrituðu kom út 1969. Ferillinn spannaði aðeins 6 ár. Sterk staða þeirra allar götur síðan er þeim mun merkilegri. Til þessa hefur engin hljómsveit komist með tær þar sem Bítlarnir hafa hæla. Hverjar eru líkur á að fram komi hljómsveit sem jafnast á við Bítlana? ENGAR!
Í Bítlunum hittust og sameinuðust tveir af bestu og frjóustu lagahöfundum sögunnar, John Lennon og Paul McCartney. John jafnframt einn albesti textahöfundurinn. Paul á líka góða spretti. Þeir tveir eru auk þess í hópi bestu söngvara rokksins. Sömuleiðis flottir hljóðfæraleikarar. Sérstaklega bassaleikarinn Paul.
Til liðs við þá komu frábær trommuleikari, Ringo Starr, og ljómandi góður og öruggur gítarleikari, George Harrison. Hann var fínn í að radda með þeim. Þegar leið á ferilinn varð hann mjög góður lagahöfundur. Svo mjög að á síðustu plötunni, Abbey Road, taldi John - og margir fleiri - hann eiga bestu lögin.
Þetta allt skipti sköpum. Ofan á bættist rík löngun Bítlanna til að fara nýjar leiðir. Tilraunagleði þeirra gekk mjög langt. Umfram margar aðrar hljómsveitir réðu þeir glæsilega vel við þau dæmi. Ennfremur vó þungt - afar þungt - að mikill kærleikur ríkti á milli þeirra. Þeir voru áköfuðustu aðdáendur hvers annars. Þeir voru sálufélagar og háðir hver öðrum. Það hafði mikið að gera með erfiða lífsreynslu; ótímabært fráfall mæðra og allskonar. Bítlarnir voru á unglingsaldri þegar þeir kynntust og ólu hvern annan upp út ferilinn. Fyrri eiginkona Johns, Cynthia, sagði að John og Paul hafi verið eins ástfangnir hvor af öðrum og tveir gagnkynhneigðir menn geta verið.
Margt fleira mætti nefna sem tromp Bítlanna. Til að mynda háa greindarvísitölu þeirra allra, leiftrandi kímnigáfu og fjölhæfni. Allir spiluðu þeir á fjölda hljóðfæra. Þar af Paul á um 40 og þeir hinir á um 20. Á Bítlaárunum var sólógítarleikarinn George Harrison ágætur söngvari. Trommarinn Ringo söng líka en söngrödd hans féll ekki að röddun hinna. Rolling Stonsarinn Keith Richard hélt því fram í símtali við Paul að skilið hafi á milli hljómsveitanna að Bítlarnir skörtuðu 4 söngvurum en Stónsarar aðeins Mick Jagger. Ágætt komment. En margt fleira aðgreindi þessar hljómsveitir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
18.2.2021 | 19:10
Viðgerðarmaðurinn Albert
Hann er þúsundþjalasmiður. Sama hvað er bilað; hann lagar það. Engu skiptir hvort heimilistæki bili, húsgögn, pípulagnir, rafmagn, tölvur, bílar eða annað. Hann er snöggur að kippa hlutunum í lag. Hann smíðar, steypir, flísaleggur, grefur skurði, málar hvort sem er utan eða innan húss.
Um tíma bjuggum við á sama gistiheimili. Þar þurfti af og til að dytta að hinu og þessu. Þá var viðgerðarmaðurinn Albert í essinu sínu. Á gistiheimilinu bjuggu einnig hjón frá Kambódíu. Samkomulagið var gott. Ásamt öðrum íbúum vorum við eins og eins stór fjölskylda. Svo bar við að viðgerðarmaðurinn Albert og ég sátum í herbergi kambódísku hjónanna. Hjör á stórum fataskáp þeirra hafði gefið sig. Hurðin dinglaði kengskökk. Hjónin báru sig illa undan þessu.
Viðbrögð viðgerðarmannsins Alberts voru að sitja í sínum stól og líta í rólegheitum í kringum sig. Hann kom auga á járntappa af gosflösku. Teygði sig eftir honum. Um leið dró hann upp svissneskan hníf. Eða réttara sagt eftirlíkingu að svissneskum hníf. Með hnífnum hnoðaðist hann á tappanum án þess að skoða hjörina. Að skömmum tíma liðnum teygði hann sig í hana. Eftir smástund var hurðin komin í lag. Fataskápurinn var eins og nýr. Viðgerðarmaðurinn Albert stóð ekki upp af stól á meðan viðgerðarferlið stóð yfir.
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.5.2021 kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.2.2021 | 21:33
Veitingaumsögn
- Réttur: International Basic Burger
- Veitingastaður: Junkyard, Skeifunni 13A í Reykjavík
- Verð: 1500 kr.
- Einkunn: ** (af 5)
Hamborgarinn er vegan en ekki úr nautakjöti. Samt bragðast hann eiginlega eins og grillaður nautakjötsborgari. Alveg ljómandi. Á matseðlinum segir að hann sé reiddur fram með tómatssósu, sinnepi, lauk og súrsuðum gúrkum. Ég sá ekki né fann bragð af sinnepi. Né heldur lauk. Ég hefði gjarnan vilja verða var við sinnep og lauk. Hinsvegar voru gúrkusneiðarnar að minnsta kosti tvær.
Borgaranum fylgdu franskar kartöflur og kokteilsósa. Á matseðlinum segir að sósa sé að eigin vali. Mér var ekki boðið upp á það. Kokteilsósa er allt í lagi. Verra er að hún var skorin við nögl. Dugði með helmingnum af frönskunum. Fór ég þó afar sparlega með hana. Á móti vegur að frönskuskammturinn var ríflegur.
Junkyard er lúgusjoppa við hliðina á Rúmfatalagernum. Á góðviðrisdegi er aðstaða fyrir fólk að setjast niður fyrir utan og snæða í ró og næði.
Á matseðlinum er mynd af hamborgara sem er mjög ólíkur raunverulegum International Basic Burger. Við gætum verið að tala um vörusvik. Auglýsingaborgarinn er til að mynda með osti og bólginn af meðlæti.
Matur og drykkur | Breytt 13.2.2021 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.2.2021 | 21:09
Hverjir selja ljótu húsin?
Um allt land eru ljót hús. Þau eru aldrei til sölu. Nema parhús í Kópavogi. Það var til sölu. Eftir fréttaflutning af því var togast á um það. Fyrstur kom. Fyrstur fékk. Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar. Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar. Allar eru vel staðsettar. Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir. Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni. Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika.
Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Til að mynda þegar tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni. Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ.
Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með. Hvernig er íbúð án gólfefnis? Svo er það aðal sölutrikkið: Mynddyrasími fylgir. Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma. Nei, jú, hann fylgir með. Sala!
Lífstíll | Breytt 7.2.2021 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.1.2021 | 21:46
Afi forvitinn
Við vorum í jólaboði hjá nágrönnum og ættingjum. Með í boðinu var sameiginlegur heimilisvinur, ungur maður. Afi kom öllum á óvart með tíðindi er hann spurði unga manninn: "Er það rétt sem ég hef hlerað að þú sért tekinn upp á því að gera hosur þínar grænar fyrir Hönnu?"
Unga manninum var brugðið. Hann eldroðnaði og tautaði hikstandi og stamandi: "Það er kannski eitthvað verið að slúðra um það."
Þetta var greinilega viðkvæmt feimnismál. Til að hressa hann við, sýna honum stuðning og hughreysta bætti afi við: "Assgoti var það lipurt hjá Ella að hnoða í hana barn. Þar með sannaði hann fyrir þér að hún er ekki óbyrja!"
Spaugilegt | Breytt 29.1.2021 kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.1.2021 | 20:06
Þorri
Á morgun gengur Þorri í garð. Tilviljun?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2021 | 19:43
Glæsilegur pakki
Út er komin ljóðabókin "Staldraðu við". Hún inniheldur 156 kvæði; hvert öðru betra. Höfundur er Ólafur F. Magnússon. Þetta er hans önnur ljóðabók. Hin fyrri, "Ástkæra landið", kom út síðsumars í fyrra.
Ólafur yrkir á hefðbundinn hátt með stuðlum, höfuðstöfum og endarími. Ljóðin eru innhaldsrík og yrkisefnið fjölbreytt. Þau lýsa ást höfundar á náttúru Íslands, lífinu og trú á hið góða, vináttu og hamingjuna, svo fátt eitt sé nefnt. Mörg fjalla um nafngreinda einstaklinga, bæði lífs og liðna. Jákvæður andi svífur yfir bókinni - þó einnig sé minnt á dekkri hliðar tilverunnar. Töluvert er um uppbyggjandi heilræðisvísur.
Bókinni fylgir veglegur 12 laga geisladiskur. Þar af eru níu áður óútgefin. Upphafslagið er samnefnt bókinni, "Staldraðu við". Það er afar grípandi blús-smellur. Ef hann er spilaður að morgni þá sönglar hann í hausnum á manni það sem eftir lifir dags. Önnur lög eru ólík honum. Þau eru hátíðleg og bera keim af klassískri tónlist, þjóðlegum tónum og í sumum tilfellum sálmum. Lög Ólafs hafa frá upphafi verið góð og falleg og eru stöðugt betri.
Sama má segja um söng Ólafs. Hann hefur alltaf verið ágætur söngvari. Á síðustu árum hefur hann vaxið mjög sem söngvari. Hann syngur af miklu öryggi, yfirvegun, einlægni og innlifun. Annar söngvari á plö0tunni er Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir. Hún syngur líka á báðum fyrri diskum Ólafs. Hún er lærð í klassískum söng. Á plötunum syngur hún - blessunarlega - ekki í óperustíl. Hún hefur snotra söngrödd. Raddir þeirra Ólafs liggja mjög vel saman, hvort heldur sem þau syngja raddað saman eða skiptast á að syngja kafla og kafla.
Hægri hönd Ólafs í tónlistinni er Vilhjálmur Guðjónsson. Hann útsetur lögin - sum ásamt Gunnari Þórðarsyni. Hann spilar á öll hljóðfæri (um 20) ef frá er talinn gítarleikur Gunnars í sumum lögum. Einnig radda þeir félagarnir. Allt er þetta afgreitt snyrtilega af smekkvísi. Útsetningarnar klæða lögin afskaplega vel. Allt leggst á eitt með að ljóðabókin og platan eru glæsileggur pakki. Virkilega flottur pakki.
Bækur | Breytt 19.1.2021 kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.1.2021 | 00:59
Gleyminn arkítekt
2007 varð uppi fótur og fit á bæjarráðsfundi Hvergerðisbæjar. Ástæðan var sú að bænum barst óvænt reikningur upp á 6 milljónir króna. Reikninginn sendi arkitekt sem gengur undir nafninu Dr. Maggi. Hann var að rukka fyrir hönnunarvinnu sem innt var af hendi 26 árum áður.
Við athugun á bókhaldi kom í ljós að Maggi hafði aldrei rukkað fyrir vinnuna og því aldrei fengið greitt fyrir hana. Vandamálið var að krafan var fyrnd fyrir löngu síðan lögum samkvæmt. Bænum var ekki heimilt að borga reikning sem fyrningarlög voru búin að ómerka.
Þegar þetta allt lá fyrir komst bæjarráð samt að þeirri niðurstöðu að um sanngirnismál væri að ræða. Á einhvern hátt yrði að borga kallinum fyrir sína vinnu. Með nánu samráði við Ölfusinga tókst að finna einhverja leikfléttu til komast framhjá fyrningarlögum.
En hvers vegna rukkaði Maggi ekki sínar 6 milljónir í 26 ár? Við erum að tala um upphæð sem er að minnsta kosti tvöfalt hærri á núvirði. Skýring hans var: "Ég gleymdi því."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.1.2021 | 11:56
Börn
Börn geta verið fyndin. Óvart. Ég átti erindi í Krónuna. Langaði í Malt. Á einum gangi voru tveir ungir drengir. Annar sennilega tveggja ára. Hinn kannski sex eða sjö. Sá yngri kallaði á hinn: "Erum við ekki vinir?" Hinn játti því. Þá spurði sá stutti: "Af hverju labbar þú þá svona langt á undan mér?" Mér þótti þetta geggjað fyndið.
Spaugilegt | Breytt 6.1.2021 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.12.2020 | 03:02
Staldraðu við
Á dögunum kom út verkið Staldraðu við eftir Ólaf Friðrik Magnússon. Um er að ræða pakka með ljóðabók og hljómdiski. Hvorutveggja bókin og diskurinn eru gleðigjafar. Svo skemmtilega vill til að framarlega í bókinni rakst ég á flott kvæði sem heitir Jens Guð. Það er þannig:
Guðinn velur lögin vel
öðlingsmaður víst ég tel
að hann sé frá toppi í tá
tóna fagra greina má.
Höfðingi er hann í lund,
hýr og glaður hverja stund.
Vel af gæsku veitir hann
veit ég ei margan betri mann.
Gaman að þessu. Þegar ég hef oftar hlustað á diskinn og lesið ljóðabókina mun ég gera betri grein fyrir pakkanum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.12.2020 | 17:21
Stórbrotin hrollvekja
- Titill: MARTRÖÐ Í MYKINESI - íslenska flugslysið í Færeyjum 1970
- Höfundar: Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen
- Útefandi: Ugla
- Einkunn: *****
Eins og kemur fram í titlinum þá segir bókin frá hræðilegu slysi er íslensk flugvél brotlenti í Færeyjum fyrir hálfri öld. Hún lenti á lítilli einangraðri og fámennri klettaeyju, Mykinesi. Um borð voru þrjátíu og fjórir. Átta létust. Margir slösuðust illa.
Aðstæður voru hrikalegar; blindaþoka, hávaðarok og grenjandi rigning. Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Aðstæður við björgunaraðgerðir voru hinar verstu í alla staði. Að auki höfðu fæstir björgunarmanna reynslu af björgunarstörfum. Þeir unnu þrekvirki. Því miður hafa Íslendingar aldrei þakkað þeim af neinum sóma.
Bókin er afskaplega vel unnin. Ráðist hefur verið í gríðarmikla heimildarvinnu. Lýst er tilurð flugfélagsins og öllum aðdraganda flugferðarinnar til Færeyja. Við fáum að kynnast mörgum sem komu við sögu. Þar á meðal eru ný viðtöl við suma þeirra. Fjöldi ljósmynda lífgar frásögnina.
Forsaga slyssins og eftirmálar gera það sjálft mun áhrifaríkara. Öllu sem máli skiptir er lýst í smáatriðum. Þetta er hrollvekja. Lesandinn er staddur í martröð. Hann kemst ekki framhjá því að þetta gerðist í raunveruleika.
Bækur | Breytt 25.12.2020 kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)